Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Ljósu punktarnir í lífinu... og stundum í dauðanum

 

Næstu tvær vikur hjá mér eru undirlagðar af alls konar stefnumótum. Nei nei ekkert spennandi. Enginn karlmaður kemur þar við sögu.. nema Bretinn í einhverjum tilvikum.

  • Teymisfundur hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Reykjavík -SSR -(ásamt Hólabergi, Öskjuhlíðarskóla og Vesturhlíð)
  • Foreldrafundur með Gelgjunni (þarf víst ekki að hafa miklar áhyggjur þar)
  • Bekkjarkvöld í Öskjuhlíðarskóla (skemmtiatriði gaman gaman)
  • Fundur með ritstjóra og útgefanda (ræða kynningu á bókinni)
  • Tími hjá Stoð með Þeim Einhverfa (til að láta smíða skó fyrir veturinn)
  • Rannsókn hjá Hjartavernd (róleg, bara fertug muniði. Nafnið mitt kom upp í úrtaki)
  • Tími hjá tannréttingarsérfræðingi (Gelgjunnar)
  • Tónleikar hjá Unglingnum í FÍH
  • Sundnámskeið 2x í viku fyrir Þann Einhverfa (eitthvað þarf ég að semja um vinnutímann minn til að ferja drenginn í sundið)

Þjóðfélagið er að mörgu leyti lamað ennþá og fólk heldur að sér höndum. Sem aftur skilar sér í rólegum vinnutíma hjá mér. Og þá gefast mér tækifæri til að sinna persónulegum hlutum sem setið hafa á hakanum. Í sumum tilfellum svo vikum og mánuðum skiptir. 

Þar finn ég ljósa punktinn. Í augnablikinu kemur það sér vel fyrir mig að það er rólegt í vinnunni.

Pointið hjá mér er þetta með ljósa punktinn. Auðvitað er auðvelt fyrir mig að tala svona. Ég hef ekki misst neitt og ekki heldur starfið mitt. (Kannski ætti ég að tala minna um að það sé rólegt  Undecided). En ég er að reyna að segja að það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt. Í öllum aðstæðum. Í sumum tilfellum þarf að leita betur og leggja meira á sig, en í öðrum. En ég held að við getum alltaf fundið að minnsta kosti lítinn ljósan depil. Þó ekki sé nema í fjarlægð.

Ég kynnti þessa tækni fyrir Gelgjunni í kvöld. Sat á rúmstokknum hjá henni og þurrkaði fáein tár af vöngunum hennar.

Ennþá kemur yfir hana söknuður eftir Tinnu, litlu læðunni okkar, sem keyrt var á í sumar. Þá ræðum við um dauðann og hvort hægt sé að finna tilgang með honum. Og eitthvað jákvætt. Og þó undarlegt sé er ljósi punkturinn ekki langt undan varðandi dauða Tinnu. Því eini kettlingurinn hennar af þremur, sem gefinn var í burtu sumarið 2007 er kominn heim aftur. Óvænt þurfti eigandi hans að finna honum nýtt heimili. Og við sáum beinlínis tilgang með dauða Tinnu. Nú eru allir kettlingarnir hennar sameinaðir aftur hér í Árbænum. Þetta útskýrði ég fyrir Gelgjunni.

Ég sagði henni líka frá Pollýönnu og við ætlum að lesa þá bók saman við tækifæri. Sjálf held ég að ég hafi lært margt af þeirri stelpuskjátu.

Ég efast ekki um það eitt andartak, að núverandi ástand á Íslandinu, eigi eftir að hafa margt jákvætt í för með sér. Sameiningu fólksins, meira þakklæti fyrir það sem við höfum, baráttuanda og meiri kröfur um að þeir menn og konur sem við kjósum til að stjórna landinu sé að vinna fyrir okkur. Fólkið í landinu.

En til að öllu þessu verði snúið upp í eitthvað jákvætt þarf svona fólk. Fólk sem veitir ráðamönnum aðhald. Fólk sem fylgist með. Fólk sem segir stopp.

Við erum fólkið. VIÐ.

 

 


Bretinn og ég - sex once a week for the rest of your life

 

Á ég að trúa því að þú sért ekki enn búinn að máta bolina sem ég keypti handa þér í Berlín, sagði ég með nokkru þjósti við Bretann í gær.

No I have been dirty and sweaty, svaraði hann

Ha!!?? sagði ég forviða. Augabrúnirnar örlítið signar. Í heila viku!!??

Yes, I have been saving my self for you

Hvað meinarðu? sagði ég húmorslaus

I thought you liked me dirty and sweaty, sagði Bretinn.

Ég leiðrétti þann misskilning.

----------------------

Í kvöld horfðum við á Sjálfstætt fólk með Jóni Ársæli. Viðmælandi hans var Lýður nokkur læknir á Bolungarvík. Lýð þessum er hugleikið að skjólstæðingar hans stundi kynlíf og segir það allra meina bót. Hann vill meina að samfarir einu sinni í viku, ævina út, sé mann- (og konu-) bætandi og haldi neistanum og heilsunni í horfinu.

Did you hear that Jona, sagði Bretinn. Sex once a week till you are ninety, the man said. Can be difficault at first but one get used to it.

Ég spurði hann kaldranalega hvort honum hefði ekkert dottið í hug að kveikja á kertum.

Jú hann vildi nú meina að honum hefði flogið það í hug á einhverjum tímapunkti. Just didn't get round to it, eins og hann orðaði það.

Á meðan hann skottaðist hér um í leit að sprittkertunum virti ég hann fyrir mér. Þú ert nú alveg ofsalega sætur í þessum bol sagði ég (mannskrattinn loksins komin í bolinn frá Berlín).

Yes, and you loooooove me, sönglaði Bretinn. You think I'm sooooo handsome. You wanna squuuueeesse me. You can't take your eeeeeyes off me. You think I'm seeeeexy....

Ég leit til himna og taldi upp að tíu. Brosti svo til hans og sagði: Já elskan.

Kertin loga glatt hér í Árbænum.

 

Birt með leyfi Bretans

 


Fánýtur fróðleikur

Ég á vin á fésbókinni sem kallar sig Fánýtan fróðleik. Frá honum kemur oft í viku, allskonar skemmtilegur fróðleikur. Misfánýtur.

Hér kemur smávegis sýnishorn:

Í tilefni kreppu koma hér nokkrar vandaðar svívirðingar sem nota má við ýmis tækifæri: 

"Zsa Zsa Gabor hefur gifst svo oft að hún er með hrísgjrónaför í andlitinu."
Henry Youngman

"Elizabeth Taylor er svo feit að hún setur majónes á aspirínið sitt."
Joan Rivers

"Hann lítur út eins og dvergur sem hefur verið dýft í fötu af skapahárum." Boy Gerorg, um Prince

"Er þér sama þó ég sitji aðeins aftar? Þú ert svo andfúll."
Donald Trump í viðtali við Larry King

"Ef ég væri gift þér myndi ég setja eitur í kaffið þitt."
Lafði Astor, við Winston Churchill

"Ef þú værir konan mín, þá myndi ég drekka það."
Winston Churchill, við Lafði Astor

"Þú ert fullur"
Lafði Astor, við Winston Churchill

"Já, frú. Ég er fullur. En á morgun verður runnið af mér en þú verður ennþá ljót."
Winston Churchill, við Lafði Astor.

-------

Mig langar að minna ykkur á að partur af því að standa saman í kreppunni er að hætta ekki að fara út í búð og versla. Í matinn, föt á börnin og aðrar nauðsynjar.

Einnig er mikilvægt að láta eftir sér einstaka ónauðsynjar; s.s. maskara þó sá gamli sé ekki alveg búinn, nærbuxur þó að til séu fyrir einar fyrir hvern vikudag, ný tegund af vítamíni o.sfrv.

Við þurfum að halda áfram að láta hjólin snúast.


Draugaganga í miðbæ Reykjavíkur

 

Þetta er ég að fara að gera annað kvöld og ég verð að segja að þetta er skemmtileg tilviljun. Og þó... trúi ég á tilviljanir?

Það er vinnustaðagleði annað kvöld og ég vissi að ég væri að fara í draugagöngu. En ég hafði ekki hugmynd um að miðlar kæmu þar við sögu, fyrr en ég kíkti á síðuna rétt í þessu. Vissi ekki að þetta ætti að vera svona ,,alvöru''.

Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan að ég fékk hugmynd af skáldsögu. Það er reyndar varla hægt að tala um ''hugmynd'' ennþá, en ég ákvað að skáldsögu skyldi ég skrifa fyrir jólin 2009 og hún ætti að fjalla um spíritisma í einhverju formi.

Eftir að hafa kíkt á þessa síðu: Draugaganga í Reykjavík, er ég sannfærð um að engar tilviljanir eru til og ég mun afla hellings efnis annað kvöld. Ef ég fell ekki í öngvit á einhverju götuhorninu. Það er spurning hvort maður rekist ekki á Jón Forseta afturgenginn við Alþingishúsið. Hann hlýtur í það minnsta að vera búinn að snúa sér í gröfinni.

Allir hafa skoðun á spíritisma. Hver er þín skoðun?

Trúirðu á drauga eða að framliðnir gangi á meðal okkar? Trúir þú að spíritismi sé af hinu illa? Trúir þú dauðinn sé endir alls eða að framliðnir færist upp á ''næsta stig''? Trúir þú að til sé fólk sem sjái meira en aðrir?

Lumarðu á sögu sem segir okkur að ekki er allt sem sýnist?

 


Spiderman kom með mér heim frá Berlín

 

Í H&M í Berlín rakst ég á Spiderman húfu og Spiderman fingravettlinga. Datt í hug að þarna væri komið gott hráefni til að ná Þeim Einhverfa aftur í húfu eftir sumarið og ekki síður til að fá hann til að setja upp vettlinga. Það hefur hann aldrei samþykkt á þeim árum sem liðin eru síðan hann lærði að segja nei. Ég man eftir einu skipti þegar hann var á leikskóla, sem hann grét af handkulda. Þá orðinn blár á höndunum. Annars hef ég aldrei orðið vör við að hann kvarti yfir frosnum fingrum.

Ég kom heim frá útlandinu seint á sunnudagskvöldið, löngu eftir háttatíma drengsins, svo við hittumst ekki fyrr en í  morgun (mánudag) þegar ég vakti hann.

Og ég uppgötvaði að á einhvern hátt sé ég svipbrigði í andlitinu á honum sem enginn annar myndi sjá. Hann vaknaði hægt og rólega á meðan ég strauk honum um hárið en allt í einu skildi hann að þetta var mamman sem hann hafði ekki séð í fjóra daga og augun opnuðust upp á gátt. Hann leit samt ekki á mig en settist upp í rúminu og færði sig fram á rúmstokkinn svo hann sat þétt við hlið mér. Hann gerir þetta aldrei, heldur rýkur upp úr rúminu, svo bara þessi litla athöfn sagði mér að hann var feginn að fá mömmu sína heim. Feimnisleg augngota var svo rúsíninan í pylsuendanum.

Á meðan hann var að borða morgunmatinn sinn ákvað ég að draga fram Spiderman gersemana. Augun á honum opnuðust örlítið meira en venjulega og áhugaglampi og teygður háls sagði allt sem segja þurfti. Spiderman er málið.

Húfan er með augu eins og Spiderman gríman svo Sá Einhverfi gerði tilraun til að draga húfuna yfir andlitið á sér. Þá sá hann auðvitað ekki glóru og sættist á að þetta væri bara venjulega húfa sem ætti að sitja ofan á höfðinu. Puttarnir rötuðu í fyrstu ekki í rétt hólf í vettlingunum en hann vann sig fljótt og vel út úr því vandamáli. Svo sat hann og virti fyrir sér eigin handarbök, líkt og kvenmaður skoðar með velþóknun á sér hendurnar eftir vel heppnaða naglalökkun. 

Og í fyrsta skipti á ævinni horfði ég á eftir stráksa út í skólabílinn með  fingurna vel varða fyrir kulda.

Þá datt mér í hug að kannski hefði ég búið til nýtt vandamál. Það væru góðar líkur á því að hann myndi sitja allar kennslustundir í dag með vettlinga á höndunum. Neita að fjarlægja þessi nýju og spennandi útiföt. En það er allt í lagi. Það er góð tilfinning að vita til þess að honum er hlýtt á höndunum.

 


Ekki snjór bara rigning

 

Það snjóar hérna í hæstu hæðum. Guði sé lof að ég yfirgef landið á morgun, þó sú fjarvera muni aðeins vara í fjóra daga.

Í þau skipti sem ég hef farið í slík húsmæðraorlof leyfi ég húsmæðrapirring að byggjast upp innra með mér í 2-3 daga fyrir brottför. Læt allt fara í taugarnar á mér heima við. Kannski er það ómeðvitað með vilja gert (ef það er hægt) til að léttirinn verði því meiri við að stíga upp í fríking flugvél. Og til þess að hinir fjölskyldumeðlimirnir sakni mín ekki eins mikið. Eða alls ekki neitt. Ég er viss um að Bretinn er jafn spenntur að losna við pirruðu húsmóðurina í nokkra daga eins og ég er að komast í burtu.

Ég er búin að standa í þvotti til að ég hafi einhverju hreinu að pakka niður í fyrramálið. Nú er þurrkarinn fullur og allir ofnar í húsinu þaktir peysum, bolum og buxum. Það er eins gott að kettirnir leiti ekki í hlýjuna í nótt og taki spássitúr á fötunum mínum. Ég myndi sennilega gráta ofurlítið ef það væru loppuför í hvíta þvottinum þegar ég vakna.

En það snjóar sem sagt hér á heiðinni og Sá Einhverfi var ekki sáttur í kvöld. Gelgjan leit út á sólpall og öskraði upp yfir sig: ,,það er allt hvítt það er allt hvítt''.

Ég hélt hún væri að ljúga og fór ekkert leynt með það.

,,Ekki snjór ekki snjór,'' sagði Sá Einhverfi en Gelgjan hélt það nú.

Þetta var rætt fram og til baka og alltaf heyrðist í Þeim Einhverfa í bakgrunninum: ,,ekki snjór ekki snjór''.

Við veittum honum litla eftirtekt þar til allt í einu hann beygði af. Hann grét þessi elska yfir snjókomunni og ég skyldi allt í einu að ég hefði ekki haft neitt móti því að brynna aðeins músum sjálf yfir þessari hvítu og köldu kveðju. Ég nenni nebblega ekki vetrinum.

Bretinn reyndi að segja honum staðreyndir: ,,Ian honey. I do have a lot to say about lot of things, but this is out of my control (hógvær bara).

Sá Einhverfi lét ekki huggast og við eiginlega urðum að lofa honum rigningu á morgun. Eftir það tók við hálftími af: ,,ekki snjór bara rigning''. Og hann sofnaði sáttur.

En það er hætt við því að það verði ekki gamla, góða rigningin sem blasi við í fyrramálið og ég er ofsalega fegin að það er Bretinn sem fer með honum á fætur í þetta skiptið.

 


Fatafullkomnunarárátta æskuáranna

Jenný er hér með úlpufærslu og talar um ''ofbeldi'' sem hún varð fyrir í æsku þegar henni var troðið í úlpu gegn vilja hennar. Og við lestur þessarar færslu rifjaðist upp hið gífurlega ''fataofbeldi'' sem ég varð fyrir á æskuheimilinu.

Hún amma min hefur án efa upplifað kulda í æsku. Enda var konan alin upp í torfbæ. Og þegar ég, litla englabarnið, flutti til hennar 5 ára gömul hefur amma örugglega hugsað: þessu barni skal sko aldrei verða kalt. Fyrst reyndi hún ullarnærföt. Argh.. mig byrjar að klæja við tilhugsunina á sama hátt og kláðinn í hársverði verður óstjórnlegur þegar minnst er á lús.

Hún hafði klárlega ekki hugmynd um mína ofsalegu sérvisku þegar kom að fötum. Ein af minum fyrstu minningum er af mér, sitjandi á svefnbekk, með hvíta sportsokka á fótunum. Ég var í annarlegu ástandi vegna þess að mér fannst ég aldrei getað fengið sokkana til að vera nákvæmlega jafn háir upp á fótleggina. Nákvæmlega jafn háir áttu þeir að vera. NÁKVÆMLEGA. Ekkert minna kom til greina.

Það gat tekið mig óratíma að girða peysuna ofan í buxurnar (jú maður var vel girtur á þeim tíma) því peysan átti að vera algjörlega fellingalaus innan undir buxunum. Ein felling eða krumpa pirraði mig óstjórnlega og ég gat tekið nett fitt yfir aðstæðum.

Þegar ég hugsa til þessarar fullkomnunaráráttu mína á sléttum og felldum fatnaði er klárt mál að ég hef rambað völtum fótum á einhverfurófinu. Geri sennilega enn.

Ullarnærfötin og ég sömdum ekki frið og næst bar amma á borð fyrir mig sokkabuxur. Í þá daga voru sokkabuxur sko ekkert úr neinu bómullardrasli. Ó nei, þær voru ullarblandaðar. Og ég man vel eftir léttinum sem gagntók mig við að rífa mig úr sokkabuxunum að kvöldi dags. Þá hefði vírbursti verið vel þeginn til að losna við kláðann.

Á einhverjum tímapunkti voru buxnapils í tísku. Oh dear Lord þvílík hörmung. En ég varð að eignast eitt slíkt og amma, þessi elska settist niður og sneið og saumaði á englabarnið.

En eitthvað var englabarnið ekki sátt við rennilásinn og áráttan og pirringurinn sem gagntók mig gerði mér algjörlega ókleift að vera þakklætið uppmálað, hvað þá að þegja yfir óánægjunni. Þá særði ég ömmu mína og skammast mín fyrir það enn þann dag í dag. En gott ef ég skammast mín ekki enn meira fyrir að hafa viljað eignast þennan óskapnað sem buxnapils voru. Og aldrei klæddist ég fjandans flíkinni.

Munið þið af minni kynslóð eftir svörtu leikfimibolunum með löngu ermunum sem var skylda að klæðast í leikfimitímum? Þær sem voru uppreisnargjarnar keyptu sér ermalausa og Guð hjálpi þeim sem fjárfestu í dökkbláum. Þær voru nú bara á hraðri leið til glötunar. 

Daginn sem ég átti að mæta í minn allra fyrsta leikfimitíma hafði ekki náðst að kaupa handa mér leikfimibol. Og ég var send með bol og stuttbuxur í poka. Ég leið vítiskvalir við tilhugsunina að falla ekki í fjöldann og mæta í svona ólöglegum fatnaði. Léttirinn sem ég fann fyrir þegar þessum leikfimitíma var aflýst vegna veikinda kennara er ólýsanlegur. Ég get enn fundið hann hríslast um kroppinn á mér.

Húfur voru kapítuli út af fyrir sig. Amma hótaði mér sífellt með heilahimnubólgu og áunninni sköddun á hljóðhimnu en húfu fékkst ég ekki til að setja á hausinn á mér. Það var nú bara hégóminn sem réði þar ferð. Mér fannst ég ljót með húfu. Finnst það reyndar enn en þegar fertugsaldrinum er náð nær skynsemin yfirhöndinni. Allavega hvað húfunotkun snertir.

Nú fer ég hiklaust út að ganga með Vidda Vitleysing, og skil alla tískuvitund eftir heima. Íklædd úlpu með loðkanti á hettu (alls ekki ásættanlegt að mati Jenfo), húfu merktri Icelandair Cargo, með ullarvettlinga á lúkunum, í strigaskóm (með engum hælum) og vindbuxum sem gera nákvæmlega ekki neitt fyrir mig útlitslega.

Á himninum situr amma sigri hrósandi og glottir niður til mín.

 


Síðuspek

 

Ég var örugglega ekki sú eina sem hélt að hún væri að fara í létt og löðurmannslegt verk þarna í frístælnum í Kópavoginum. Mætti í þykkum joggingbuxum, Nike skóm, hlýrabol og gollu yfir takk fyrir. Enda ætlar maður sér svo sem ekkert að flagga neinu svona extra eða auka innan um fullt af ókunnugu fólki.

Mamma ætlið þið svo að sýna einhvers staðar, spurði Gelgjan þegar ég var að fara út úr dyrunum. Já auðvitað sagði ég. Og þú átt að koma og horfa á mömmu þína. Og ég ætla að segja öllum að þú sért dóttir mín.

Ég sá að hún vonaði að ég væri að grínast.

Annars held ég að ég hafi ekki nefnt það hvernig þessi frístæl hópur varð til.

Katrínu megabeib langaði til að komast í freestyle en það er ekkert í boði nema tímar 2-3 x í viku og ótrúlegt nokk.. allt saman á kvöldmatartíma. Katrínu fannst það ekki boðlegt að láta sig hverfa út af heimilinu þetta oft og á þessum tíma (enda með tvö lítil börn og eiginmann = 3 börn).

Svo hún talaði við líkamsræktarstöð og fékk vilyrði fyrir því að ef hún gæti safnað saman nógu stórum hópi þá yrði settur upp sértími, einu sinni í viku EFTIR kvöldmatartíma fyrir þennan hóp. Og Katrín megabeib sendi tölvupóst á fullt af konum (þar á meðal mig) og hvatti til þátttöku. Ég ákvað að slá til og dró nokkrar vinkonur með í þetta og aðrar hafa gert það sama.

Úr varð sem sagt þessi snilldarhópur sem mætti í Kópavoginn í kvöld og tók á því.

Kennarinn okkar er ung stelpa (eða kannski kona) og ég sá á henni hvað henni fannst þetta sniðugt. Það var glott á henni sem kom mér til að brosa. Hún örugglega ekki vön að sjá svona margar 35+ saman komnar í freestyle.

Hálftími fór í teygjur og upphitun og þeim hálftíma var vel varið.

Eigum við að ræða eitthvað stirðleikann? sagði Ellisif Bakarafrú.

Það vantar eitthvað upp á að mér finnist ég tignarleg, sagði Laufey Samstarfskona.

Mér þótti þetta reyndar allt fara fram úr björtustu vonum en ég átti mín móment. Sitjandi á gólfinu með útglennta fætur að teygja búkinn yfir lærin. Ég fann fyrir einhverri fyrirstöðu.

Eitthvað var það sem stoppaði mig í því að ná að leggjast alveg yfir fótlegginn. Eitthvað varð þarna fyrir á milli síðu og læris. Tók mig smá stund að átta mig á því að þetta var mör. Síðuspek. Það verða alveg til nýir keppir þegar maður fettir sig svona og brettir. Ekki alveg það sama og að standa fyrir framan spegil á 1o cm háum hælum, í aðhaldsbuxum og með inndreginn maga.

Nei nei.. bara ég í jogginbuxum sem urðu aðeins of stuttar í þurrkaranum, á sokkaleistunum (löngu komin úr Nike skónum) og engir 10 cm skóhælar til að gera mig hoj og slank. Bara ég og speglar út um allt og upp um allt.

Og ég var bara sátt. Ég var að gera eitthvað nýtt. Fór örlítið út fyrir kassann. Djöfull var það góð tilfinning.

 


Vikuplanið á sunnudagskvöldi

 

Magakveisa Þess Einhverfa ætlar að vera ansi þrálát. Ég er orðin verulega áhyggjufull. En viti menn.. áhyggjurnar snúast ekki um drenginn heldur vinnuna mína. Mér er ekki alveg sjálfrátt. En mér til varnar þá trúi því að þetta sé aðeins einhver þrálát baktería sem láti undan á endanum, enda er ástandið mun betra nú en í lok vinnuvikunnar.

Sá Einhverfi og ég settum upp vikuplanið saman á tölvuskjánum fyrr í kvöld og dagskrá morgundagsins var: ''kannski skóli'' og ''kannski Vesturhlíð''.

Hann var mjöööög hrifin af þessu orði; ''kannski'' og heimtaði að hafa það með á þriðjudeginum líka. Hann fékk leyfi til þess en ég vona að það verði ekkert vafamál með skólaferð þann daginn.

Þegar planið fyrir vikuna var svo tilbúið byrjaði hann að lesa það yfir eins og hann gerir margoft í hverri viku. Alltaf að fullvissa sig um að ekkert hafi breyst. Þegar kom að föstudeginum: mamma fer í flugvélina og útlanda'', þá stoppaði hann og mótmælti. En svo ákvað hann að redda málunum bara sjálfur og bætti við tveimur orðum.

Allt áhorfið á Mr. Bean á laugardaginn er slegið inn af honum, sem og sundferð á sunnudaginn. Á fimmtudag ætlar hann að senda foreldrana í verslunarferð og hann ætlar að bíða einn heima (heldur hann sko).

MánudagurÞriðjudagurMiðvikudagurFimmtudagur
29.sep30.sep1.okt2.okt
    
Ian fer kannski íKannski skólannRútaRúta
skólann skóliskóli
 Kannski í VesturhlíðVesturhlíð
kannski í Vesturhlíðrúta - heimrúta - heim
Vesturhlíð Ian ætlar í bílinn 
  með mömmu aðMamma Búð Bíða
  keyra Önnu MaePabbi Búð Bíða
  í dans.Söngvaborg 1
Ian fer með  svo heimSöngvaborg 2
mömmu í bílinn  Söngvaborg 3
að keyra Önnu  Söngvaborg 4
Mae í dans   
svo heim   

FöstudagurLaugardagurSunnudagur
3.okt4.okt5.okt
   
RútaHeima að leikaIan heima 
skóliThe Amazingað leika
VesturhlíðAdventures of 
rúta - heimMr. Bean 
 The Exciting  
 Escapades ofætlar í sundin
Mamma ferMr. Bean 
í flugvélinaThe Terrble Tales 
til útlandaof MR. BEAN 
svo heimThe Merry Mishpes 
 The Perilus Of 
 Mr. Bean 
 Unseen Bean 

 

Klukkan er rúmlega ellefu á sunnudagskvöldi og allt er hljótt. Gelgjan er sofnuð og Sá Einhverfi ætti að vera það en liggur upp í rúmi og talar við sálufélaga sinn Mr Bean.

Unglingurinn unir ánægður upp í herberginu sínu, þakklátur og feginn að vera laus við flísina sem ég dró úr rauðri og bólginni stóru tá áðan.

Viddi Vitleysingur og Elvíra fitubolla liggja saman á græna antiksófanum hennar ömmu. Hvað eru nokkur hunda- og kattarhár á milli vina. Aðrir ferfætlingar eru úr sjónmáli í augnablikinu.

Bretinn er í eldhúsinu að útbúa handa okkur ísrétt. Vanilluís, banani, rjómi og sykruð, fersk jarðarber. Jammí. Og að sjálfsögðu verður borið fram með þessu tebolli af enskum sið.

Annað kvöld mun ég svo vera stödd í sal í Kópavoginum, með hátt í 20 öðrum kellum og hrista af mér ísréttinn. Eggjandi, dulmögnuð og sexý í fyrsta free-style danstímanum.

 

 


Hlegið með Magga mörgæs

 

Bretinn og ég brugðumst við á sama tíma, á sama hátt í dag. Það var ekkert stórmerkilegt í gangi. Ekkert sem hræddi okkur eða gerði okkur hverft við. Aðeins hlátur lítils drengs.

Stundum uppgötvum við breytingu eða framför hjá Þeim Einhverfa góðum tíma eftir að hún á sér í rauninni stað. Stundum hefur hann sýnt ákveðna breytingu á hegðun í vikur, jafnvel mánuði, áður en við tökum eftir breytingunni. Vegna þess að hún gerist hægt.

Í dag sat Sá Einhverfi við tölvuna með heyrnartól á höfðinu og horfði á Magga mörgæs á netinu. Maggi mörgæs náði til stráksins mjög snemma á hans ævi. Sennilega eignaðist hann fyrstu VHS spóluna með leir-mörgæsinni þegar hann var rúmlega eins árs. Og í 9 ár hefur hann horft á þættina með svipbrigðalaust andlit að mestu þó að eitt og eitt bros hafi læðst fram á varirnar öðru hverju, sem sýndi að hann naut áhorfsins.

í dag var annað upp á teningnum. Hlátur hans fangaði athygli okkar Bretans á sama andartakinu. Og við stóðum upp frá eldhúsborðinu þar sem við sátum og vorum að spjalla. Gægðumst fram í holið til að sjá hvað orsakaði þessa miklu kátínu. Maggi mörgæs blasti við okkur á tölvuskjánum og djöfulgangurinn í leirklumpnum var ástæðan fyrir þessum nýja hlátri. Svo eðlilegur og vitrænn og viðeigandi. Sá Einhverfi leit á okkur og bjart augnaráðið sagði: Er þetta ekki fyndið? Lætur Maggi ekki kjánalega!

Hlátur er auðvitað ekkert nýtt fyrirbrigði frá Þeim Einhverfa. En eitthvað sérstakt vakti athygli okkar í dag. Nýr hljómur... ný gleði. Erfitt að segja. Kannski fann lífsgleði hans og kímnigáfa einfaldlega leiðina út. Og löngunin til að deila Magga mörgæs með okkur hinum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband