Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Sá Einhverfi í uppsveiflu

 

Það er mikið að gera í vinnunni. Sem er gott. Í rauninni forréttindi á þessum síðustu og verstu...

Það er skrýtið að finna hvað kuldinn dregur úr mér orku og gerir mig þreytta. Í fyrsta skipti sem ég finn að það er ekki skammdegið sem slíkt, heldur veðráttan. Almáttugur hvað ég hljóma öldruð núna.

Sá Einhverfi er í uppsveiflu þessa dagana, sem þýðir að hann slær um sig með nýjum setningum. Eða öllu heldur betrumbættum setningum. Og hann les. Les eins og herforingi. Les blöðin, les á skilti, les á nafnspjöld. Stautar sig fram úr orðum sem hann skilur hvorki upp né niður í og áhuginn virðist óbilandi. Og hann er glaður. Það er mikilvægast af öllu.

Í kvöld var hann að púkast í Vidda Vitleysingi og kettinum Elvíru og systur hennar Khosku og ég horfði á hann með stjörnur í augunum. Einfaldlega vegna þess að á að líta var hann algjörlega eins og ''eðlilegur'' drengur. Örlítið óþekkur. Iðandi af löngun til lítilla óknytta. Augun skær og logandi af kátínu. Andlitið skellihlæjandi yfir hundinum sem ekki náði beininu og Elvíru sem elti systur sína alla leið upp á eftir eldhússkápana.

Var þetta Ian? sagði Bakarafrúin sem ég var að spjalla við í símann. Hún heyrði hláturinn í drengnum.

Já sagði ég, og rak kettina niður af skápunum.

Vá, sagði Bakarafrúin. Þessi hlátur kom alveg neðan úr maga.

Og það er málið. Hláturinn Þess Einhverfa er svo innilegur og einlægur. Eins og hann sjálfur. 

Nú eru allir sofnaðir nema Unglingurinn og ég. En ég ætla að skríða undir hlýja sæng með vanillute og glugga í bókina hans Þráins Bertelssonar, sem sjálfur kallar sig læriföður minn. Mér er heiður að því.

Sofið rótt börnin mín og dreymi ykkur fallega.

 


Góð þjónusta?

 

Fólk er svo misjafnt. Mis-nægjusamt. Mis-þakklátt.

Ég er ekki að segja að það slæmt, nema síður sé. Flóru mannlífs er alltaf gaman að fylgjast með og heyra um.

Í mínu starfi tala ég við fjölda fólks dag hvern. Sumir eru fastir viðskiptavinir sem ég er farin að þekkja allvel til og veit jafnvel ýmislegt um þeirra persónulegu mál. Einnig eru það hinir sem ég er vel málkunnug en hlutunum haldið meira á professional nótum. Svo er það fólk sem hringir inn fyrirspurnir og ég heyri aldrei frá meir.

Allt þetta fólk gefur lífinu lit og gerir vinnuna mína skemmtilega á einn eða annan hátt.

Í vikunni fékk ég símtal frá konu sem var í vandræðum með að koma frakt frá Danmörku. Í hennar tilfelli var ekki um annað að ræða en að vísa á aðila í Danmörku til að græja málin, en það þykir mér alltaf svolítið óþægilegt. Veit að í sumum tilfellum virkar þetta á fólk eins og viljinn sé ekki fyrir hendi að hjálpa því. Sé bara auðveldara að vísa því eitthvert annað.

Það er skemmst frá því að segja að um 2 klukkustundum seinna hringdi þessi kona aftur. Hún vildi láta mig vita að hún hefði ekki þurft að leita til þess aðila sem ég benti á, þetta hefði reddast á annan hátt. Svo þakkaði hún mér fyrir góða þjónustu.

Ég hló við. Hélt hálfpartinn að hún væri að gera grín að mér. Sagðist nú ekki hafa gert neitt og þakkaði henni fyrir að hringja.

Þá ítrekaði hún að henni hefði þótt hún fá alveg sérstaklega góða þjónustu hjá mér. Gott ef henni fannst ekki bara, hún sjaldan hafa fengið jafn góða þjónustu.

Ég er enn að fara yfir þetta símtal í huganum. Ég var svo furðu lostin.

Annað hvort er þessi indæla kona alveg sérstaklega nægjusöm manneskja eða að hún er vön því að fá ekkert nema ''krappí'' þjónustu hvar sem hún kemur.

Nema.... kannski er hún bara meistari í kaldhæðni

 

 

 

 


VOX

 

Það er gaman að fara út að borða. Ég reyndar elska að fara út að borða.

Þá skiptir öllu máli, félagsskapurinn og umhverfið. Maturinn kemur í rauninni í 3. sæti.

Það er allavega mín skoðun.

Á laugardagskvöldið síðasta, héldum við Bretinn upp á að hafa hangið saman í 15 ár. Við vorum svo heppin að geta gert það á afar grand hátt þrátt fyrir kreppuna. Og var það vegna þess að þegar ég varð hóst-hóst-...tug í september fékk ég gjafakort frá Icelandair Cargo (róleg, ég vinn þar) á VOX, árstíðamatseðil.

Ég hafði svo sem ekki hugmynd um hvað það þýddi. Vissi bara að ég gat farið aaaalveg fríkeypis út að borða á flottan veitingastað og meira að segja fengið vín með matnum.

Ég er þó svo tæknilega sinnuð að ég fór inn á netið og fann út hvað árstíða matseðill þýddi.

Það er 5 rétta máltíð og viðeigandi vín með hverjum rétti (sennilega breyta þeir matseðlinum 4x á ári). Maður þarf ekki einu sinni að hafa valkvíða. Bara setjast niður og láta bera í sig hvern réttinn á fætur öðrum.

Ég sagði við Bretann að sennilega væru þetta bara smáréttir. Enginn hrúga á diski.

Heldurðu að maður verði saddur af þessu, spurði Bretinn.

Ég sagðist alveg gera ráð fyrir því.

Og vitiði... þetta var svooooo gaman.

Þjónarnir voru svo viðkunnalegir og skemmtilegir og þjónustan afar góð, staðurinn glæsilegur og maturinn.... maður minn....

Fyrst fengum við smakk. Einn munnbiti, lagður fyrir okkur í sitthvorri skeiðinni: Amuse Bouche kölluðu þeir það; bleikju tartar með eplum og túnsurum, ásamt Créme Fraiche & sitrus.

Himneskur munnbiti.

Næst var borið fyrir okkur súpa í litlum glösum: Soup Du Jour; Létt freyðandi súpa úr íslenskum leturhumri.

Bretinn gat rétt stillt sig um að reka tunguna ofan í glasið og sleikja það að innan þegar hann náði ekki meiru með skeiðinni. Spurði þjóninn hvort hann gæti fengið svona með sér heim. Ég spurði hvort við værum ennþá bara í smakki. Við kunnum okkur, ég og Bretinn.

Ég ætla að skrifa hérna upp matseðilinn. Fyrir mína parta er þetta svo gott dæmi um eitthvað sem lítur spennandi út fyrir mér en ég er samt ekki svo viss um að þetta sé allt sérstaklega bragðgott. Ég komst svo sannarlega að öðru:

Síld & rúgbrauð: Kryddsíld og síldarís borin fram með rauðrófum, sólselju og hverabökuðu rúgbrauði frá ömmu hans Magga / Mývatnssveit.

Ég veit ekkert hver Maggi er, og því síður amma hans. En mér hlýtur að líka vel við þetta fólk. Sem og meistarann sem tókst að búa til ís (you know, icecream) úr síld og láta hann bragðast vel.

Með þessu fengum við Jóla kalda (bjór) frá Árskógssandi og rauðrófu- og dillbætt brennivín. Ég drekk ekki bjór (nema þegar ég er orðin svo drukkin að ég ætti alls ekki að drekka neitt) en þennan bjór drakk ég með góðri lyst. Brennivínið var gaman að smakka en bragðið af því minnti mig of mikið á krypplingin sem maður dandalaðist með um Hallærisplanið hérna í gamla daga.

Karfi: Steiktur karfi með blönduðum baunum og laukum / smjörsósu með jurtum, hafþyrnisberjum og eplaediki frá Claus Meyer.

Ég veit ekkert hvar þau fundu þennan Claus. Og ekki veit ég hvað hafþyrnisber eru. Það skiptir bara nákvæmlega engu máli. Ljúffengt frá a-ö.

Fengum með þessu gómsætt ítalsk hvítvín: Arnaldo Caprai Anima Umbra 2007

Lundi: Lundi frá Sigga Hennings í Grímsey, steiktur í jurtum og borinn fram með kartöflum og jarðskokkum.

Jarðskokkum... don't ask me. En gott var það. Bretinn borðar ekki lunda. Nema þennan.

Franskt rauðvín: Hautes - Côtes De Beaune Francois D'Allaines 2006.

Þarna vorum við farin að skilja að við færum hvorki svöng né edrú frá þessu matarborði.

Villigæs: Hægelduð gæsabringa með steiktum sveppum, beikoni og reyksveppasmjöri. ''Gæsalappir'' soðnar í Gullfossi og bornar fram með ölbrauði, rótargrænmeti og sykurbrúnuðum kartöflum.

Ég mátti ekki vera að því að pæla í því hvort þeir skjótist reglulega austur og bregði krukku undir Gullfoss eða hvað... Maður spyr ekki of margra spurninga. Bara nýtur þess að njóta.

Rauðvín frá Suður Afríku: Inkará Shiraz 2004. Jebb, mæli eindregið með þessu. Ofboðslega bragðmikið.

Jólatrés og Hallsveppabúðingur: Greni og kanil bættur búðingur undir stökkri skel, framreiddur með kökumylsnu og rjómaís, bragðbættum með trufflum frá Ragnari á Gotlandi.

Ég get sagt ykkur það að Ragnar á Gotlandi á eitthvað afbrigði af poodle hundi (alveg satt, við fengum að sjá mynd af honum) og hann þefaði uppi þessa tilteknu trufflu sem var röspuð yfir búðinginn okkar. Ég hélt heldur aldrei að ég ætti eftir að segja þetta, en greni er gott.

Með þessu fengum við Óla Glögg: hvítt jóla glögg, gerð eftir uppskrift Óla yfirþjóns. Það innihélt hvítvín og sítrus-something. Volgt og gott.

Svo fengum við okkur góðan kaffi á eftir.

Ég var orðin södd á þriðja rétti en mér datt ekki til hugar að sleppa einum einasta munnbita af því sem lagt var fyrir mig.

Nú heldur sennilega einhver að ég fái eitthvað fyrir minn snúð með því að birta þennan matseðil, en því er nú ekki að heilsa. Ekki nema jú ánægjuna af því ef einhver les þetta og ákveður að láta slag standa, og fær jafn mikið út úr þessu og við gerðum.

En allt kostar peninga. Árstíða seðilinn kostar á mann; 8.500 kr án víns en 14.500 með víni.

Svo ákváðum við að fara skottúr niður í bæ að leita að gömlu fólki. Við fundum það hvergi. Ég mæli eindregið með því að fólk á aldursbömmer forðist miðbæinn um helgar. Hætt við að maður hitti engan þar nema börnin sín og jafnvel barnabörn.

 

 


Hamfarir á föstudegi

 

Síðastliðinn föstudagsmorgunn vaknaði ég á slaginu hálfátta. Sem er ekki gott því það er á sama andartaki og skólabíllinn er fyrir utan að sækja Þann Einhverfa.

Ég nuddaði stírurnar úr augunum, andaði rólega inn, andaði rólega út og fór inn til stráksa til að vekja hann. Hann var nú ekkert á því. Svo hringdi ég í bílstjóra skólabílsins og tilkynnti honum að ég hefði verið að opna augun.

Já, sagði Kiddi bílstjóri hinn rólegasti. Mér fannst húsið ykkar eitthvað drungalegt þegar ég renndi upp að því áðan.

Svo var Þeim Einhverfa dröslað fram úr og tilkynnt að í dag væri það bíllinn hans pabba sem kæmi honum í skólann.

Það féll ekki í kramið frekar en fyrri daginn. ''Rúta, rúta'' endurtók hann í sífellu og var hundfúll. Og svo grét hann yfir snjónum. ''Ekki snjór....''

Ég hef verið svo upptekin í vinnunni og á framabrautinni hvað varðar bókina að ég gaf mér aldrei tíma í síðustu viku, til að gera hið venjulega vikuplan fyrir drenginn. Ég krotaði því í flýti á blað, föstudag, laugardag og sunnudag.

Á föstudag skrifaði ég efst: pabba bíll - skóli. Og á laugardag: kannski snjór farinn.

Þegar loks, eftir 70 mínútna þref og grát, dundi annað áfall yfir. Annar spiderman-fingravettlingurinn fannst ekki.

Ó nei, sagði Sá Einhverfi. Hvar er vettlingur? Hvar er vettlingur.

Þetta var skelfilegur dagur. Hamfarir hreint út sagt. Engin rúta, snjór úti og Spiderman týndur. Það eru nú takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða einu barni upp á.

Það var verulega ósáttur drengur sem ók burt með pabba á Yaris-num.

Þegar þeir voru farnir rak ég augun í blaðið með planinu.

Þar var búið að krota yfir ''pabba bíll'' og skrifa ''rúta'' í staðinn.

Og á laugardeginum stóð nú bara: ''snjór farinn.''

Ég brosti með sjálfri mér. Sannfærðist endanlega um að merking orðsins ''kannski'' vefst ekkert fyrir gaurnum mínum. Snjórinn skyldi vera farinn á laugardag og ekki orð um það meir. Það breytti því þó ekki, að hér upp á fjöllum, sat snjórinn sem fastast alla helgina.

 


Kreppan er aðeins farin að narta í afturendann á mér

 

Kreppan er aðeins farin að nudda sér utan í þessa fjölskyldu.

Ég veit að ástandið á eftir að fara versnandi og mörg fyrirtæki eru að hanga á horreiminni fram yfir áramót. Ég er, því miður, handviss um að það verður holskefla af uppsögnum, gjaldþrotum og öðru lítið skemmtilegu í janúar og febrúar.

Mögru árin eru framundan (vonandi verð ég líkamlegur holdgervingur) og þau verða nokkur. En ég er sannfærð um að það tekur okkur ekki meira en 4 ár að ná dampi aftur. Ekki samt í sama hömluleysinu. En atvinnuástandið og lífskjör munu fara smám saman batnandi.

Ég skil samt ekki þessa ofuráherslu sem á að leggja á menntamálin mitt í öllu þessu. Háskólann. Er ekki kominn tími til að endurvekja virðingu landans fyrir verkamannavinnunni og sjómennskunni. Þessum harðvinnandi stéttum sem ekki hafa verið metnar að verðleikum í áratugi. Höfum við eitthvað að gera við fleiri útskriftir í viðskiptafræði, lögfræði, hagfræði og hvað þessi fræði heita nú öll?

Annars var ekki ætlunin að blogga um kreppuna. Aðeins að koma þessum bráðskemmtilega brandara að:

Íslenski sjávarútvegsráðherrann hitti svissneska kollega sinn og spurði hann af hverju Svisslendingar væru með sjávarútvegsráðherra, það væri jú enginn sjór í kringum Sviss.

Svissneski ráðherrann svaraði að bragði með annarri spurningu:

„Hvað eruð þið að gera með fjármálaráðherra?".

 


24 stundir nægja engan veginn

 

Mig vantar tilfinnanlega nokkrar klukkustundir í sólarhringinn. Ég veit að margir kannast við það. Suma daga líður mér eins og ég ímynda mér að rjóma í þeytingi gæti liðið. Snýst sama hringinn aftur og aftur og aftur þar til einhverjum árangri er náð.

Keyra á sundnámskeið tvisvar í viku og dans þrisvar í viku. Mæta á jólaföndur, jólaböll, foreldrafundi, kynfræðslufundi, bekkjarkvöld. Læknisheimsóknir, tannlæknaheimsóknir. Finna tíma til fara að versla í matinn, elda matinn, helst lífrænt ræktað hráefni og rétti sem maður matbýr frá grunni. Þvo þvott, brjóta saman þvott, ganga frá þvotti. Læra með börnunum, hlýða yfir fyrir próf. Kemba þegar kemur upp lús í skólanum...

Svo segja þeir að það sé alltaf hægt að finna tíma í sólarhringnum til að stunda líkamsrækt og kynlíf. Ja hérna hér. Þessa dagana þyrfti þá hvort tveggja helst að fara fram í bílnum. Á leiðinni milli staða. Hvað ætli sé sektin við slíku?

 


Unglingurinn Daníel

 

Þegar við Bretinn byrjuðum að vera saman var ég 25 ára. Fannst ég háöldruð í den tid en var bara baby.

Ég var barnlaus. Bretinn átti einn dreng með fyrrverandi kærustunni sinni. Daginn áður en Bretinn og ég drógum okkur saman í fyrsta skipti (kysstumst! dónarnir ykkar) varð þessi litli drengur þriggja ára.

Barnið var bjútífúl. Eins og dúkka. Og hann var tortrygginn gagnvart mér. Hann Daníel litli Alexander. Hann kom sér ávallt fyrir á milli Bretans og mín í sófanum. Samt vorum við ekki að neinu kossaflensi fyrir framan hann. Ég sver 'ða.

Eftir að við Daníel náðum tengslum og hann vandist þessari stelpu sem virtist vera komin til að vera spurði hann okkur eitt sinn afhverju við byggjum ekki öll saman. Hann, pabbi hans, ég og mamma hans. Þá átti ég fá svör.

Næstu árin eyddum við Daníel mörgum helgum saman. Bara við tvö því Bretinn var alltaf að sinna einhverjum hljómsveitum í hljóðveri.

Ég ætla ekki að ljúga því að þetta hafi alltaf verið auðvelt. En eins og með allt annað í lífinu þá bæta góðu stundirnar upp hinar sem ekki eru eins góðar.

Á vissum tímapunkti í lífi Daníels fannst mér sem tengslin rofnuðu svolítið. Það var þegar Daníel hætti að nenna að gista. Fór að verða nógu gamall til að geta verið einn heima. Orðinn of stór til að nenna að koma til okkar bara vegna þess að mamma hans þurfti að fara eitthvað. Gott að halda sig í heimahverfinu, nálægt vinunum. Eða kannski fannst honum bara svolítið gott að vera aðeins einn. Ég veit það ekki, í sannleika sagt. Alfarið mín sök og Bretans. Hvorugt okkar nógu duglegt að taka upp símann og hvetja hann í stuttar heimsóknir.

Svo var ég svo heppin að mamma Daníels ákvað að setjast á skólabekk í öðru landi. Og þá flutti Unglingurinn til okkar. Ég veit að þetta er tímabundið. Ég veit að ég er bara með hann í láni. En ekkert getur tekið frá mér þann tíma sem við höfum fengið að hafa hann og kynnast honum á nýjum forsendum. Að ég tali nú ekki um tvíefld systkinatengslin, sem reyndar hafa alltaf verið góð.

Enginn er fullkominn og Unglingurinn ekki heldur. En gagnvart yngri systkinum sínum þá nálgast hann nú samt að vera það.

Ég eignaðist mín þrjú börn þrátt fyrir allt. Og í dag, 20. nóvember verður það elsta 18 ára. Til hamingju með afmælið elsku Daníel. Knús og kossar frá stjúpu.

Hér er ein af mínum uppáhalds myndum úr fjölskyldualbúminu:

NCJ og DCJ

 

 

 


Eigi verður feigum forðað...

 

Eigi verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið.

Þessu trúi ég heils hugar. Frá fæðingu til dauða höfum við úr vissum spilum að spila. Getum ráðið töluverðu um framvindu leiksins. Stundum erum við heppin. Stundum óheppin. Stundum erum við góðir spilarar. Stundum ekki svo góðir.

En um upphaf og endi leiksins höfum við ekkert að segja.

Kveikjum á kertum í skammdeginu og þökkum fyrir að vindurinn gnauðar fyrir utan gluggana. Því það þýðir að við eigum í hús að venda.


Einhverfur afkomandi Litlu hafmeyjunnar

Sá Einhverfi er nú á sundnámskeiði tvisvar sinnum í viku.

Öðru hverju rek ég mig á varðandi það hvað ég vanmet getu barnsins. Þegar ég fékk skilaboð frá skólanum um það að sennilega væri stráksi nú tilbúinn til að sækja sundnámskeið hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, var ég aldeilis standandi hlessa barasta. Ekki það að ég viti ekki hversu vel honum líður í vatni og hversu gaman hann hefur af sundlaugum.. sérstaklega sundlaugum með myndarlegum rennibrautum. En ég hélt hreinlega að hann væri langt í frá tilbúinn til að taka við fyrirmælum um sundtök frá ókunnugu fólki hvað þá að halda sér á floti hjálparlaust.

Svo mættum við á sundnámskeið, Sá Einhverfi og ég. Ég reyndar sat alklædd á sundlaugabakkanum og gapti. Ég er enn að gapa í 5. eða 6 tíma.

Er þetta barnið sem ég er sífellt hrædd um að drukkni í baðkarinu? Sem við troðum neon-appelsínugulum kútum á bústnu handleggina á, þegar við (lesist Bretinn) förum með hann í sund?

Barnið er flugsynt. Ekki með hefðbundnu bringu-, bak- eða skriðsundi. En hann þýtur áfram með einhverjum heimatilbúnum sundtökum. Jafnt yfir grunna sem djúpa laug. Fer í kaf og hagar sér á allan hátt eins og afkomandi Litlu hafmeyjunnar. Ekki kannski alveg, en þið vitið hvað ég meina.

Ég þarf að leggja hausinn í bleyti núna. Reyna að finna út á hvaða fleiri sviðum ég er að halda aftur af barninu.

 


Mamma bjáni

Það er svo skrýtið hvað þráðurinn er stuttur í mér eftir langa fjarveru við börnin mín. Maður skyldi ætla að því væri öfugt farið. Kannski er það ég sem er öfugsnúin.

Þegar ég fer í burtu í tvo daga eða fleiri, eða krakkarnir, þá er þolinmæði mín gagnvart þeim ansi lítil þegar við hittumst á ný. Ég þarf aðlögun. Eins og lítið barn að byrja á leikskóla. Reyndar gera endurfundir við Bretann mig líka svona grömpí. Guði sé lof fyrir að ég er ekki sjómannskona, eða börnin á heimavistarskóla. Þá er nú hætt við að ég þyrfti að fara að poppa gleðipillur eða kvíðatöflur til að verða þolanleg í sambúð.

Sá Einhverfi fór í sumabústaðinn yfir helgina með Fríðu stuðningsmömmu og co. Hann var farinn að bíða eftir að komast heim, fyrri partinn í dag en stuðningsfjölskyldan dílaði við hann eins og þeim er von og vísa.

Þau enduðu svo helgina í mat hjá Fríðu-foreldrum, Lúlla og Önnu Laufeyju í Mosó. Og þangað sótti ég kútinn minn. Hann stóð alklæddur og beið eftir mömmunni sinni. Ég sagði honum að ég ætlaði að þiggja kaffibolla en samt opnaði hann útidyrahurðina á meðan ég klæddi mig ÚR skónum, tilbúinn að stökkva af stað út í bíl. ''Fara heim'' sagði hann vongóður.

Ég fékk hann þó til að setjast aftur niður fyrir framan Harry Potter á meðan ég svolgraði í mig kaffinu. Og þarna sat hann. Strákurinn minn. Stjarfur á stól, með Spiderman húfuna á höfðinu og Spiderman fingravettlinga á höndunum. Algjörlega í startholunum. Hver taug þanin og allir fingur útglenntir.

Og þegar við loks fórum fann ég hversu hræddur hann var um að ég myndi skipta um skoðun í miðjum stigagangi. Var ekki í rónni fyrr en hann var sestur inn í bíl með beltið spennt.

Eftir að við komum heim var einhver pirringur í honum yfir því að tölvan hagaði sér ekki eins og hann vildi. Þar áður var það snjórinn sem klárlega var ekki velkominn og Sá Einhverfi heimtaði rigningu. Tók það alls ekki gott og gilt að mamma hans ætti enga greiða inni hjá veðurguðunum.

Ég, eftir heila fríhelgi og í aðlögunarþörfinni, missti þolinmæðina og talaði höstuglega til hans. Það var nóg. Hann varð alveg miður sín, fór að hágráta og breyttist í mannlegan plástur sem límdist við mig.

Ó hvað mér fannst ég vond mamma. Drengurinn örugglega verið með kvíðahnút í maganum frá hádegi yfir því að ég væri búin að gefa hann, og dagurinn því verið honum erfiður.

Hann grét og grét og ætlaði aldrei að geta hætt. En ósköp fannst mér ljúft að hafa þennan plástur á mér. Finna hvernig handleggirnir hans vöfðust þétt utan um mig og hvað hann þurfti mikið á mér að halda. Við þurfum að finna það.. stundum.. við mömmurnar.

Og þó að hann, seinna um kvöldið, stappaði niður fæti og galaði ''mamma bjáni'' þá vissi ég að það var ekki illa meint.

Þegar ég var búin að breiða yfir hann og kyssa góða nótt fylgdu mér glaðlegar skammir fram á gang: ''síld á sunnudegi - fjandinn hafi það''.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1639952

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband