Leita í fréttum mbl.is

Tinna er öll

 

Hún Tinna, litla pervisna læðan okkar, er dáin. Hún varð ekki nema tveggja ára.

Fyrir tveimur árum bjargaði Kári frændi pínulitlum kettlingi frá drukknun. Sennilega hefur einhver ætlað að losa sig við hann því Kári veiddi hana upp úr vatni einhvers staðar norður í landi.

Ég féll í stafi þegar ég sá kisuna. Augun voru risastór í litla andlitinu og ég ættleiddi hana á punktinum. Gelgjan valdi henni nafnið Tinna.

Tinna hélt alla tíð grönnum vextinum þrátt fyrir að ala af sér 3 kettlinga. Af þeim búa tveir hér enn, og þeir óxu mömmu sinni yfir höfuð strax á fyrstu mánuðunum. Síðan hafa þeir lítið gert annað en að fitna og voru undir það síðasta eins og ljón við hlið móður sinnar.

Tinna er blíðasti köttur sem ég hef kynnst og hef ég þekkt þá nokkra. Hún var óspör á þvott... snyrti kettlingana, jafnt sem aðra fjölskyldumeðlimi. Þar á meðal Vidda vitleysing. Oft lágu þau tvö saman sofandi á mottunni hér í holinu. Tinna á milli framlappanna á Vidda, eða þá að hún hvíldi höfuðið á öðru læri hans.

Á hverju kvöldi, þegar við Bretinn gerðum okkur líkleg til að fara upp á loft og leggjast til svefns, hljóp hún inn í svefnherbergi og beið eftir okkur. Það voru svo fastir liðir að hún skreið undir sæng hjá mér í svolitla stund áður en hún fann sér svo svefnstað ofan á sæng Bretans þannig að þau ''spúnuðu''. Yfir nóttina flakkaði hún svo á milli herbergja og endaði yfirleitt til fóta hjá Gelgjunni.

Enginn annar köttur hefur nokkru sinni þolað Þeim Einhverfa að strjúka sér aftur á bak og áfram og til beggja hliða með þéttum og oft á tíðum óvarlegum handtökum.

Bara að sitja hér við tölvuna og skrifa þessi orð fær mig til að sakna hennar sárt. Hún var vön að koma og kíkja á skjáinn hjá mér. Trufla mig við skrifin með því að bora litla höfðina í lófann á mér og heimta gælur. Svo sleikti hún á mér hendina til að sýna að henni þætti vænt um mig.

Um síðustu helgi fórum við að sakna Tinnu og spyrja krakkana hvort þau hefðu orðið vör við hana. En ekkert bólaði á Tinnu. Í dag fékk Bretinn símtal frá Kattholti, sem lét vita að litli kroppurinn lægi lífvana á Dýraspítalanum í Víðidal. Það var keyrt á hana. Einhver góðhjörtuð sál tók hana upp úr götunni og kom henni í réttar hendur. Ef sá aðili mögulega les þetta, vil ég þakka honum innilega fyrir.

Mörgum er illa við ketti. Vegna fuglalífsins skil ég það. Margir geta ómögulega skilið að hægt sé að taka ástfóstri við þessi dýr. Auðvitað erum við ekki öll eins. En þessari fjölskyldu þótti innilega vænt um Tinnu sína.

Gelgjan er búin að eiga sérstaklega bágt í kvöld. Ég fór inn til hennar þar sem hún hafði lokað sig af og settist á rúmstokkinn. Sagði fátt, enda lítið hægt að segja.

Hún horfði á mig rannsakandi í svolitla stund og sagði svo: Er þetta erfitt fyrir þig?

Ég kinkaði kolli.

Afhverju gráta fullorðnir aldrei? spurði hún

Ég er búin að gráta, svaraði ég.

Hún vildi vita hvenær. Eins og hún þyrfti fullvissu um að Tinnu yrði saknað. Að þetta skipti máli fyrir okkur öll.

Ég sagði Þeim Einhverfa frá þessu. Vissi samt að hann myndi ekki skilja það.

Ég kallaði á hann þar sem ég sat í eldhúsinu og tók í hendina á honum. Tinna... byrjaði ég.

Tinna, sagði hann og leit í kringum sig.

Tinna kemur ekki heim aftur Ian.

Ekki heim, endurtók hann

Tinna er dáin.

Dáin, sagði Sá Einhverfi með áherslu og sleit sig lausan. Svo náði hann sér í tússpenna til að merkja við á dagatalið. Setti kross yfir mánudaginn. Enda sá dagur að renna sitt skeið. Eins og líf Tinnu.

Ég brosti út í annað og horfði á afturenda kettlinganna risavöxnu, þar sem þeir stóðu við matardallana sína og hökkuðu í sig matinn eins og þetta væri síðasta kvöldmáltíðin. Algjörlega áhyggjulausir... eins og ekkert hafi í skorist.

Ég velti því fyrir mér hvort þeir muni sakna hennar eins og við gerum.

Tinna og Khoska

 

 

Tinna með einn af kettlingunum sínum

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Það er alltaf sorglegt þegar einhver deyr sem manni þykir vænt um! Gæludýrin manns verða alltaf eins og eitt af börnunum á heimilinu. Það skilja það ekki allir sem eiga ekki dýr hversu sárt er hægt að sakna þeirra.

Faðmlag til ykkar

Hrönn Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Ómar Ingi

R.I.P

Ómar Ingi, 14.7.2008 kl. 22:58

3 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir


Kisurnar þínar munu sakna Tinnu, það er ég viss um..

Róslín A. Valdemarsdóttir, 14.7.2008 kl. 23:03

4 Smámynd: Elísabet Sóley Stefánsdóttir

æiæææ leitt að heyra, sendi ykkur öllu risavaxið knús

Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 14.7.2008 kl. 23:04

5 identicon

Elsku kisan.  Æ þetta er alltaf sárt. Skil það bara vel.

Knús a ykkur öll.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:04

6 Smámynd: Sigríður Þórarinsdóttir

Ég samhryggist ykkur, það er alltaf erfitt að missa gæludýr og þessi kisa hefur verið alveg einstök greinilega.  Knús

Sigríður Þórarinsdóttir, 14.7.2008 kl. 23:04

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Kemur manni alltaf á óvart hvað það er mikið vont að missa gæludýr.

Heiða B. Heiðars, 14.7.2008 kl. 23:06

8 identicon

 ææææ leitt að heyra með Tinnu kisu, ég kvíði þeim degi þegar Kútur kisi okkar gefur upp öndina, hann er dásamlegur köttur.

alva (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:09

9 Smámynd: M

Leitt að heyra með Tinnu ykkar. Samúðarkveðja xx

M, 14.7.2008 kl. 23:09

10 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Samhryggist ykkur

Linda Lea Bogadóttir, 14.7.2008 kl. 23:20

11 identicon

Knús

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:21

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Alltaf vont að missa frá sér fjölskyldumeðlimi.  Ég kóa fría samúð.

Steingrímur Helgason, 14.7.2008 kl. 23:36

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Samhryggist ykkur

Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.7.2008 kl. 23:39

14 Smámynd: Huld S. Ringsted

Æ þetta er svo sárt

Huld S. Ringsted, 14.7.2008 kl. 23:46

15 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Ótrúlega sorglegt,man þegar Kári kom með Tinnu heim til mín og vildi ólmur að hún fengi heimili

hann var svo viss um að einhver hefði farið illa með hana,enda dróg hann hana upp úr vatni.

Þú komst eins og kölluð og ættleiddir hana með það sama.

Ég samhryggist ykkur vegna kisunar ykkar

Knúsaðu Önnu Mae vel og lengi frá okkur hér

Love you

Anna Margrét Bragadóttir, 14.7.2008 kl. 23:47

16 identicon

Ég réði bara ekkert við tárin sem streymdu niður í stríðum straumum.... kanski er ég ofur viðkvæm ... já, líklega, en ég get svo innilega sett mig í ykkar spor.  Ég samhryggist ykkur  -  auðvitað er þetta eins og að missa fjölskyldumeðlim - því þetta er að missa slíkan!

Bestu kveðjur.E.

Edda (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:56

17 Smámynd: Himmalingur

Samhryggist ykkur!

Himmalingur, 14.7.2008 kl. 23:57

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Knús á ykkur öll dúllan mín.  Elsku kisan.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.7.2008 kl. 00:00

19 Smámynd: Einar Indriðason

Æi, leitt að heyra.  Samúð frá mér.

Einar Indriðason, 15.7.2008 kl. 00:06

20 identicon

Þetta er rosalega falleg færsla. Ég samhryggist ykkur, það er svo vont að missa dýr sem maður tengist svona vel.

Margrét (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 00:12

21 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ææææ...tárin þrýstast fram og renna niður kinnarnar við þennan lestur....

Það er svoooo óendanlega sárt að missa...dýrin manns eru svo stór partur af fjölskyldunni og gefa svo óendanlega mikið...eru alltaf til staðar fyrir mann og óspör á að sýna manni velþóknun sína og ást.


 Knús á ykkur öll

Bergljót Hreinsdóttir, 15.7.2008 kl. 00:12

22 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Það er alltaf jafn sárt að missa heimilisvininn sinn jafnvel þó hann sé köttur. - En það er þó gott að vita til þess hvar gæludýrið er niðurkomið,  og hvað hafi komið fyrir það,  það er þó huggun harmi gegn. - eða það fannst mér allavega þegar ég missti mín gæludýr.  - En ég átti líka kisu sem hét Séra Gulur og hann svaf alltaf ofaná fótum mínum og ef ég bylti mér of mikið lét hann mig vita afþví með því að narta létt í stóru tánna á mér. -  Hann hvarf og ég vissi aldrei hvað varð um hann, ég leitaði hans í mörg ár, en fann hann aldrei. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 15.7.2008 kl. 00:38

23 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég átti kött sem besta vin þegar að ég var ungur unglingur, hann dó þegar að ég var orðin fullorðin. Ég sakna hans enn.

Knús til ykkar

Sporðdrekinn, 15.7.2008 kl. 00:43

24 Smámynd: Aprílrós

Samhryggist ykkur .

Kveðja Guðrún Ing

Aprílrós, 15.7.2008 kl. 00:58

25 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Æi þetta er erfitt...gæludýrin manns eiga alltaf sérstakan stað í hjarta manns.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 15.7.2008 kl. 01:20

26 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Æ ég finn til með ykkur, það er svo erfitt að missa.

Elísabet Sigurðardóttir, 15.7.2008 kl. 01:43

27 identicon

Úff, þetta er ömurlegt að heyra... við eigum einmitt einn lítinn högna sem er langveikur (með hjartagalla) og við ákváðum að eyða frekar tíma og peningum í að gefa honum lyf hvern einasta dag í stað þess að láta lóga honum. Ekki hélt ég þegar ég fékk mína ketti að manni gæti þótt svona vænt um þessar elskur, en það er sko ekki annað hægt!

Stórt knús til ykkar!

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 01:49

28 identicon

Sæl Jóna.

Já ,hverju orði sannara,að það er hægt að eiga mjög náin tengsl við dýrin.

Ég vl þakka þér fallega grein um Tinnu og fólkið sem elskaði hana.

þið eru einstök.

Góðar stundir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 03:15

29 Smámynd: Dísa Dóra

  Kettir eru fallegir og gáfaðir og svo sannarlega með eigin karakter.  Tinna hefur greinilega verið flottur köttur og skiljanlegt að fjölskyldan sakni hennar.

Knús á ykkur 

Dísa Dóra, 15.7.2008 kl. 09:18

30 identicon

Æi þetta er svo sárt.Dóttir mín er með sína kisu á gjörgæslu,eftir að keyrt var yfir hana sl sunnudag.Hún er tvíkjálkabrotin og er bara hægt að gera við það fremra,svo það er ekki hægt enn að segja til um það hvernig þetta fer.Þetta er kisa sem bjargað var úr Kattholti ,og var veik lengi og þurfti svo sannarlega gott atlæti til að ná heilsu.En hún er töffari þessi kisa.Hún læddist alltaf á eftir dótturdóttur minni þegar hún fór í skólann og fann hana í skólastofunni.Hún fór með hana fram í skógeymslu þar sem hún beið eftir að skólinn væri búin.Hin kisan á heimilinu er mjög vængbrotin og er alltaf að bíða eftir að kisa komi heim.Ég veit hvað þetta er sárt ég hef átt dýr,og þegar eitthvað kom fyrir þá fann ég svo til í hjartanu,en minningarnar sem eftir eru gleðja mann alveg óendanlega,og margar sögur hef ég getað sagt barnabörnunum af dýrunum okkar.

Kveðja.

Margrét 

Margrét (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 09:19

31 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þó svo að Embla mín hefði ekkert verið upprifin af krúttinu þínu, þá vitum við, að allt sem andann dregur og hefur snert hug manns á sér ,,sál" og hún mun lifa, í minningunni okkar í það minnsta.

Vonandi nær geljan sér og kettlingarnir veiti fró frá sorginni, það er svo sárt að upplifa svona þegar maður er ungur og ekki alveg viss um sjálfan sig.

Samúðarkveðjur til ykkar allra.

Miðbæjaríhaldið

löngu farinn í hundana  voff voff

Bjarni Kjartansson, 15.7.2008 kl. 09:25

32 identicon

Þið eigið alla mína samúð kæra fjölskylda! Ég veit vel hversu sárt það getur verið að missa kisu. Miklu erfiðara en margur skilur. Það er hins vegar dýrmætt að búa að þessari reynslu að hafa átt dýr þó maður hafi misst þau líka. Það er vissulega reynsla líka.

Unnur (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 09:55

33 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

 Knús.

Edda Agnarsdóttir, 15.7.2008 kl. 10:29

34 Smámynd: Vilma Kristín

Sorglegt að heyra um kisuna þína, ég get ekki einu sinni hugsað til þess að missa einhverja af mínum.

Það er svo skrítið að það eru oft ólíklegustu dýrin sem ná alla leið að innstu hjartarótum. Á okkar heimili eru nokkur gæludýr sem hafa komið eftir óhefðbundnum leið, gæludýr sem fyrri eigendur hafa losað sig við eða verið bjargað svipað og með fallegu kisuna þína. Þessi dýr virðast ná að bræða mann og verða ómissandi hluti af lífinu.

Vilma Kristín , 15.7.2008 kl. 10:34

35 Smámynd: Ragnheiður

Knús á þig elskan mín og alla þína, það er skelfing sárt að missa dýrin sín. Verstu minningar æskunnar snúa að slíkum atburðum í mínu lífi

Ragnheiður , 15.7.2008 kl. 10:37

36 identicon

Ég samhryggist ykkur, innilega, Jóna mín. Erfitt að sjá, á eftir ferfættum vinum manns.

                                       Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 10:53

37 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er leiðinlegt að heyra. Kettir eru dásamleg dýr og ég vona að hún Trítla mín nái háum aldri.

Helga Magnúsdóttir, 15.7.2008 kl. 10:53

38 identicon

Samhryggist. Alltaf sárt að kveðja ástkær dýr sín, og get ekki neitað því að tárin runnu niður kinnarnar þegar ég las þessa færslu. Fallega skrifuð eins og öll þín skrif Jóna.

Jóhanna Reykjalín (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 12:10

39 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

skil sakna Högnans Gandálfs mikið og sonur minn líka en söknuður barna og fullorðna er ekki eins börn sakna allt í einu upp úr þurru þegar minningarnar koma og þau tengja við eitthvað, sendi ykkur hlýa strauma.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 15.7.2008 kl. 12:35

40 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sahryggist ykkur. Kisan okkar dó í haust, sennilega af manna völdum þar sem hann hafði grunsamlega áverka. Við fengum okkur nýja kisu, en hún á erfitt með að fylla í skarðið.

Villi Asgeirsson, 15.7.2008 kl. 12:52

41 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mikið er leiðinlegt að heyra þetta Jóna mín, og alltaf erfitt að missa Dýrinn sin það er svo sárt.

Kristín Katla Árnadóttir, 15.7.2008 kl. 13:06

42 Smámynd: Anna Þóra Jónsdóttir

Ég á svona "Tinnulíkan" kött og þegar þú skrifaðir um persónleika hennar minnti hún mig mjög á hann. Færslan þín er svo fallega skrifuð að ég sit hér með tárin í augunum. Innilegar samúðarkveðjur til þín og þinnar fjölskyldu.

Anna Þóra Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 13:36

43 identicon

Eins og þú líklega veist þá elska ég kisur. Ég græt með þér yfir þessum missi, finnst þetta svo hræðileg örlög. Ég er sjálf svo oft hrædd um kisuna mína þegar hún gengur yfir götuna hér fyrir framan húsið. Sem betur fer virðist hún vera hrædd við bíla og ekki treysta neinu. Vona að það breytist ekki. Hún er orðin hálfgerður öldungur, 12 ára að verða. Knús til ykkar allra á heimilinu frá kattarvini að norðan  PS: Sendi þér myndir í e-mail. Láttu mig vita hvort þær komust alla leið.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 13:38

44 identicon

Falleg frásögn Jóna, heimilsdýrin sinna stóru hlutverki fyrir sálartetrið og hefur hún Tinna verið prinsessan á staðnum. Nú skapast tækifæri og rými fyrir litlu supersized kettlingana að skipa stæti hennar. Samúðarkveðjur frá Þuríði fyrrum nágranna og formanni nartklúbbsins.

þurí (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 14:14

45 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Samhryggist ykkur innilega, þetta er svo sárt.  Ég hef misst yfir ævina sjö kisur og sakna þeirra allra.

Þórdís Guðmundsdóttir, 15.7.2008 kl. 16:54

46 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ía Jóhannsdóttir, 15.7.2008 kl. 17:04

47 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

 Upgrade your email with 1000's of emoticon icons Upgrade your email with 1000's of emoticon icons

Kjartan Pálmarsson, 15.7.2008 kl. 17:39

48 identicon

Æji þetta er svo erfitt ég misst litla gárann minn fyrir 2 mánuðum í dag , hann fékk krabbamein og við þurftum að láta svæfa hann. Ég vissi ekki hversu vænt mér þótti um hann fyrr en ég fékk hann látin í hendurnar.Svona getur maður orðið tengdur þessum dýrum, ég heyri enn í honum stundum eða finnst ég heyra nagið í honum :) og þá sakan ég hans eða hennar reyndar þetta var kella.En svona er lífið og ég veit hvernig þér líður.

Sigrún (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 17:40

49 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Ferlega er þetta sorglegt. Ég elska dýr og samhryggist því innilega.

Ég var á Akureyri um helgina og sá þá, ásamt öðrum, dáinn kött liggjandi á götunni. Fólkið setti hann á grasið þar til eigandinn fann hann. Vinkona mín hefur misst nokkra ketti svona.

Mér finnst svo skrýtið að fólk taki ekki eftir neinu þegar það keyrir niður kött. Er fólk kannski bara siðblint í dag?  Eða eru þetta kannski allir jepparnir sem gera það af verkum að enginn hvorki sér neitt né finnur? Er fólk að keyra á löglegum hraða í íbúðarhverfum? Finnst þetta bara of algengt nú orðið.

Bryndís Böðvarsdóttir, 15.7.2008 kl. 20:57

50 identicon

Oh fallega kisan!

Finn til með þér, get ímyndað mér að þetta sé sárt að sjá á eftir ketti verandi kisukona sjálf.

Ragga (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 21:25

51 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

knús á ykkur öll.

Sigrún Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 22:12

52 Smámynd: Hrafnhildur Björk Jónsdóttir

Falleg frásögn , samhryggist ykkur

Hrafnhildur Björk Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 22:18

53 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Tító minn liggur í fangi mínu meðan ég blogga og Gosi mjálmar við fætur mér og vill líka koma til mín. Ég get ekki hugsað mér að missa þá .Tító er búinn að vera nýrnavekur allt sitt líf og er  á  sérstöku  fæði.  Heilsugæsla hans hefur kostað mig stóra fúlgu, en ég sé ekki eftir þeim peningum, því hann er eins og litla barnið mitt og Gosi líka. Skil því sorg ykkar vel og samhryggist ykkur.

Svava frá Strandbergi , 16.7.2008 kl. 00:22

54 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

samhryggist ykkur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 16.7.2008 kl. 10:50

55 Smámynd: Hanna

Yndisleg færsla - Samhryggist fjölskyldunni innilega.  Takk fyrir fallegu skrifin þín.

Hanna, 16.7.2008 kl. 11:59

56 Smámynd: halkatla

ég samhryggist ykkur öllum pistillinn þinn sýnir hvað Tinna gaf ykkur mikið.

halkatla, 16.7.2008 kl. 12:54

57 Smámynd: Linda

Ég sendi þér og þínum innilegar samúðar kveðjur, ég veit hversu djúp þessi sorg er þegar litlu vinir okkar falla frá Ég sakna hundsins míns sem dó fyrir einu og hálfu ári síðan enn þann dag í dag.

knús

Linda, 16.7.2008 kl. 13:01

58 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Æ, elsku yndislega fjölskylda. Þetta er svo falleg og hlý færsla Jóna, svo falleg lýsing á yndislegri kisu sem hefur greinilega verið mikið elskuð.

Knús á ykkur öll

Ragnhildur Jónsdóttir, 16.7.2008 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 1639965

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband