Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

VOX

 

Það er gaman að fara út að borða. Ég reyndar elska að fara út að borða.

Þá skiptir öllu máli, félagsskapurinn og umhverfið. Maturinn kemur í rauninni í 3. sæti.

Það er allavega mín skoðun.

Á laugardagskvöldið síðasta, héldum við Bretinn upp á að hafa hangið saman í 15 ár. Við vorum svo heppin að geta gert það á afar grand hátt þrátt fyrir kreppuna. Og var það vegna þess að þegar ég varð hóst-hóst-...tug í september fékk ég gjafakort frá Icelandair Cargo (róleg, ég vinn þar) á VOX, árstíðamatseðil.

Ég hafði svo sem ekki hugmynd um hvað það þýddi. Vissi bara að ég gat farið aaaalveg fríkeypis út að borða á flottan veitingastað og meira að segja fengið vín með matnum.

Ég er þó svo tæknilega sinnuð að ég fór inn á netið og fann út hvað árstíða matseðill þýddi.

Það er 5 rétta máltíð og viðeigandi vín með hverjum rétti (sennilega breyta þeir matseðlinum 4x á ári). Maður þarf ekki einu sinni að hafa valkvíða. Bara setjast niður og láta bera í sig hvern réttinn á fætur öðrum.

Ég sagði við Bretann að sennilega væru þetta bara smáréttir. Enginn hrúga á diski.

Heldurðu að maður verði saddur af þessu, spurði Bretinn.

Ég sagðist alveg gera ráð fyrir því.

Og vitiði... þetta var svooooo gaman.

Þjónarnir voru svo viðkunnalegir og skemmtilegir og þjónustan afar góð, staðurinn glæsilegur og maturinn.... maður minn....

Fyrst fengum við smakk. Einn munnbiti, lagður fyrir okkur í sitthvorri skeiðinni: Amuse Bouche kölluðu þeir það; bleikju tartar með eplum og túnsurum, ásamt Créme Fraiche & sitrus.

Himneskur munnbiti.

Næst var borið fyrir okkur súpa í litlum glösum: Soup Du Jour; Létt freyðandi súpa úr íslenskum leturhumri.

Bretinn gat rétt stillt sig um að reka tunguna ofan í glasið og sleikja það að innan þegar hann náði ekki meiru með skeiðinni. Spurði þjóninn hvort hann gæti fengið svona með sér heim. Ég spurði hvort við værum ennþá bara í smakki. Við kunnum okkur, ég og Bretinn.

Ég ætla að skrifa hérna upp matseðilinn. Fyrir mína parta er þetta svo gott dæmi um eitthvað sem lítur spennandi út fyrir mér en ég er samt ekki svo viss um að þetta sé allt sérstaklega bragðgott. Ég komst svo sannarlega að öðru:

Síld & rúgbrauð: Kryddsíld og síldarís borin fram með rauðrófum, sólselju og hverabökuðu rúgbrauði frá ömmu hans Magga / Mývatnssveit.

Ég veit ekkert hver Maggi er, og því síður amma hans. En mér hlýtur að líka vel við þetta fólk. Sem og meistarann sem tókst að búa til ís (you know, icecream) úr síld og láta hann bragðast vel.

Með þessu fengum við Jóla kalda (bjór) frá Árskógssandi og rauðrófu- og dillbætt brennivín. Ég drekk ekki bjór (nema þegar ég er orðin svo drukkin að ég ætti alls ekki að drekka neitt) en þennan bjór drakk ég með góðri lyst. Brennivínið var gaman að smakka en bragðið af því minnti mig of mikið á krypplingin sem maður dandalaðist með um Hallærisplanið hérna í gamla daga.

Karfi: Steiktur karfi með blönduðum baunum og laukum / smjörsósu með jurtum, hafþyrnisberjum og eplaediki frá Claus Meyer.

Ég veit ekkert hvar þau fundu þennan Claus. Og ekki veit ég hvað hafþyrnisber eru. Það skiptir bara nákvæmlega engu máli. Ljúffengt frá a-ö.

Fengum með þessu gómsætt ítalsk hvítvín: Arnaldo Caprai Anima Umbra 2007

Lundi: Lundi frá Sigga Hennings í Grímsey, steiktur í jurtum og borinn fram með kartöflum og jarðskokkum.

Jarðskokkum... don't ask me. En gott var það. Bretinn borðar ekki lunda. Nema þennan.

Franskt rauðvín: Hautes - Côtes De Beaune Francois D'Allaines 2006.

Þarna vorum við farin að skilja að við færum hvorki svöng né edrú frá þessu matarborði.

Villigæs: Hægelduð gæsabringa með steiktum sveppum, beikoni og reyksveppasmjöri. ''Gæsalappir'' soðnar í Gullfossi og bornar fram með ölbrauði, rótargrænmeti og sykurbrúnuðum kartöflum.

Ég mátti ekki vera að því að pæla í því hvort þeir skjótist reglulega austur og bregði krukku undir Gullfoss eða hvað... Maður spyr ekki of margra spurninga. Bara nýtur þess að njóta.

Rauðvín frá Suður Afríku: Inkará Shiraz 2004. Jebb, mæli eindregið með þessu. Ofboðslega bragðmikið.

Jólatrés og Hallsveppabúðingur: Greni og kanil bættur búðingur undir stökkri skel, framreiddur með kökumylsnu og rjómaís, bragðbættum með trufflum frá Ragnari á Gotlandi.

Ég get sagt ykkur það að Ragnar á Gotlandi á eitthvað afbrigði af poodle hundi (alveg satt, við fengum að sjá mynd af honum) og hann þefaði uppi þessa tilteknu trufflu sem var röspuð yfir búðinginn okkar. Ég hélt heldur aldrei að ég ætti eftir að segja þetta, en greni er gott.

Með þessu fengum við Óla Glögg: hvítt jóla glögg, gerð eftir uppskrift Óla yfirþjóns. Það innihélt hvítvín og sítrus-something. Volgt og gott.

Svo fengum við okkur góðan kaffi á eftir.

Ég var orðin södd á þriðja rétti en mér datt ekki til hugar að sleppa einum einasta munnbita af því sem lagt var fyrir mig.

Nú heldur sennilega einhver að ég fái eitthvað fyrir minn snúð með því að birta þennan matseðil, en því er nú ekki að heilsa. Ekki nema jú ánægjuna af því ef einhver les þetta og ákveður að láta slag standa, og fær jafn mikið út úr þessu og við gerðum.

En allt kostar peninga. Árstíða seðilinn kostar á mann; 8.500 kr án víns en 14.500 með víni.

Svo ákváðum við að fara skottúr niður í bæ að leita að gömlu fólki. Við fundum það hvergi. Ég mæli eindregið með því að fólk á aldursbömmer forðist miðbæinn um helgar. Hætt við að maður hitti engan þar nema börnin sín og jafnvel barnabörn.

 

 


Nýtt eða gamalt samband?

 

Það var farið út að borða með afmælisbarnið í gær. Að hennar eindregnu ósk. Foreldrarnir, Gelgjan og Unglingurinn. Sá Einhverfi var hjá Fríðu Brussubínu & co, sem var afskaplega gott. Það er ekki beint til að slaka á að taka hann með sér á fjölfarinn veitingastað á kvöldmatartíma. Og þess utan átti Gelgjan að hafa alla athyglina.

Þó var annað sem fangaði athygli mína og það var par á næsta borði. Myndarlegir krakkar. Og ekki beint krakkar reyndar, ég giska á að þau hafi verið 25-30 ára. Ég á ofsalega erfitt með að ákvarða aldur fólks.

Þau sátu á móti hvort öðru og struku handarbök hvors annars og töluðu saman.

Nýtt samband, hugsaði ég. Svo einbeitti ég mér að mínum eigin sessunautum.

En þar sem þau voru í beinni sjónlínu við mig þá komst ég ekki hjá því að gjóa á þau augunum öðru hvoru og alltaf voru þau jafn vel fléttuð saman í gegnum hendurnar. Þangað til herrann sleppti hægri hendinni af dömunni sinni til að skafa úr jöxlunum með litla putta. Þau hafa þá líklega verið búin að snæða þegar þarna var komið sögu.

O jæja, hugsaði ég. Þau eru allavega ekki svo nýtt par. Orðin sátt við að sýna á sér mannlegu hliðarnar. Kannski jafnvel farin að ropa upphátt í návist hvors annars.

Ég fylgdist með af áfergju. Var spennt að vita hvað hann myndi finna og hver yrði nýtingin af þeim fundi. En hann virtist ekki finna neitt svo hann greip aftur um hendur stúlkunnar og hóf að strjúka á henni handarbakið með umræddum litla putta.

Þá runnu á mig tvær grímur. Ég get ekki ímyndað mér á hvaða tímapunkti þetta par er statt í þróun sambandsins.

 


Frídagur verslunarmanna þýðir......?

cashier

 

Í dag er frídagur Verslunarmanna. Sem á að vera, eins og nafnið ber með sér, frídagur verslunarfólks. Það er að segja, fólk sem vinnur í verslunum á að eiga frí í dag. Are you with me so far?

Það er nú öðru nær eins og við öll vitum. Ein stétt af fáum sem er ekki í fríi frá sinni vinnu á þessum degi er verslunarfólk. Sem er bara næstum því sorglegt. Þó tel ég mig vita að í dag sé enginn þvingaður til vinnu á þessum degi. Ég held að mestmegnis sé það fégráðugt skólafólk (ekkert neikvætt við það) sem taki vaktinni fegins hendi. Ég vona það.

Allavega tel ég sjálfri mér trú um að svo sé, þegar ég geng inn í Nóatún á eftir, til að versla ýmislegt sem vantar til heimilisins. Sá verslunarleiðangur hefði vel getað verið farinn í gær. Og það hefði að sjálfsögðu verið gert ef ég hefði ekki verið alveg handviss um að ég kæmi að opnum dyrum í flestum matvöruverslunum í dag.

En ég er material girl og fer bara hnarreist í minn verslunarleiðangur á frídegi verslunarmanna og skammast mín ekkert fyrir það. Það er lasagne í matinn í kvöld og það bráðvantar hráefni. Maður verður að forgangsraða. Ég um mig frá mér til mín.

 


Rómantísk fokkferð

golfFyrir nokkru síðan tilkynnti Bretinn það að hann ætlaði til Englands í sumar að kaupa sér golfsett og ég ætti að koma með honum. Úr þessu myndum við gera stutta flóttaferð. Bara við tvö. Ég held hann hafi ekki fengið neinar brjálæðislegar undirtektir frá mér. Mér finnst svo mikið mál að koma krökkunum fyrir, og þó merkilegt megi teljast, meira mál með Gelgjuna en Þann Einhverfa.

Hef þó hugsað þetta svona í hljóði... fjandinn fjarri mér að ef ég loksins kemst í rómantíska fokkferð að það verði til tengdó..... I dont think so.

Ég laumaði hugmynd af Brynju vinkonu í Berlín. Væri ekki sniðugt ef við færum í heimsókn til hennar?

Við Bretinn hefðum dagana út af fyrir okkur því hún er auðvitað að vinna. Gætum ráfað um Berlín, drukkið kaffi eða rauðvín eða what ever, skoðað eitthvað merkilegt (t.d. golfsett) og jafnvel bara skrúað á sófanum hennar Brynju. Gætum svo eytt kvöldunum í notalegheitum með Brynju eða án, út að borða eða heima að elda.

Margar flugur drepnar þarna; Róleg og næs helgi með Bretanum, ég fengi tækifæri til að hitta og eyða tíma með ástkærri vinkonu sem ég sakna hræðilega mikið, frítt húsnæði (held allavega ekki að Brynja myndi rukka okkur um leigu. Brynja er það nokkuð?), laus við krakkaormana í smá tíma. Væri hægt að hafa það betra.

 Það var aðeins eitt sem þurfti að gera til að ég hefði tromp á hendi þegar ég bæri þetta upp við Bretann. Brynja samþykkti að fara á stúfana og athuga hvað golfsett myndi kosta í Berlín. Gæti bara ekki verið dýrara en í Englandi. Ekkert mál sagði hún. Það er golfbúð hérna handan við hornið sem ég geng fram hjá á hverjum degi. Droppa þar inn og finn út úr þessu.

Ég fékk tölvupóst frá henni í dag þar sem hún segir.... hér kemur það, kópí peist, beint úr Lótusnum:

Golfbúðin sem að mér fannst vera í næstu götu við mig reyndist vera hestabúð - ég veit það, ég er keppnisíþróttamanneskja og hef alltaf verið, ég held áfram að hafa augu "opin" og læt þig svo vita hvað gólfsettið kostar í Berlín.

Ég velkist því enn í vafa um hvort Bretinn og ég munum eyða nokkrum rómantískum nóttum hjá tengdó í smábæ á Englandi or what.


Indverskur og appelsínusafi

Bretinn og ég áttum notalega kvöldstund í gær.

Við fórum á Indverskan stað þar sem gin og tónik er borið fram í lágum víðum glösum með engum klaka, gleymdist að láta okkur fá hnífapör og starfsfólkið veit ekki hvað kokteill er. Yndislega frumstætt og afslappað. Þjónarnir voru eins fjölþjóðlegir og það gerist og svei mér þá ef við vorum ekki með einn Samurai-a þarna. Ótrúlega flott andlit. samurai1

Við fórum á Kaffi París til að fá okkur kaffibolla og virtum fyrir okkur mannlífið þar. Einn þjónninn, ung stúlka, örugglega undir 11% í líkamsfitu með beran nafla, gekk um með glaðleg andlit. Brosti fallega til Bretans þegar hún átti leið fram hjá borðinu okkar. Bretanum fannst þetta eitthvað persónulegt og leit í kringum sig til að athuga hvort brosið hefði verið ætlað einhverjum öðrum. Leit svo hneykslaður á mig og sagði: She is like, twelve!!!

Þarna var 12 manna hópur og við lékum okkur að því að giska á félagsskapinn á bak við hann. Bretanum fannst trainspotters líklegast. Fyrir þá sem ekki vita er trainspotters fólk (venjulega afar sérstakt fólk) sem situr á lestarstöðvum og tekur niður lestarnúmer og spáir og spekúlerar í áætlunum, áfangastöðum, lestartýpum o.sfrv.

citron 

Svo röltum við aðeins um bæinn áður en við héldum í heimsókn til Hafliða og Ellisifar. Var ákveðið að sleppa kaffinu. Ég fékk rauðvín og Bretinn appelsínudjús. Þar áttum við góða stund.

Kl. 1:45 komum við keyrandi eftir götunni að húsinu okkar og ég sá að það var ljós í herberginu hjá Gelgjunni. Fimm mínútum seinna stóð ég í herbergisdyrunum hennar og þá var allt slökkt. Hún virtist steinsofandi.

Ég veit þú ert vakandi, sönglaði ég. Ég sá ljósið í glugganum.

Ég gat næstum séð hugsanirnar brjótast um í litla hausnum hennar áður en hún játaði sig sigraða og opnaði augun.

''Busted'' sagði hún.


Spjarir og spik

Bretinn er í sturtu. Ekki að það sé í frásögur færandi. Er bara svona að leyfa ykkur að fylgjast með hvað er að gerast innan veggja þessa heimilis.

Ég fór í sturtu á meðan Bretinn steikti hamborgara og franskar ofan í Unglinginn og Gelgjuna. Sá Einhverfi fékk pasta. Enda svolítið sér á báti. Á fleiri en einn hátt.

Og þó að við förum oft í sturtu af tilefnislausu, þá er tilfefni núna. Bretinn og ég ætlum að fara eitthvað út að fá okkur snarl. Og kannski eins og eitt eða tvö rauðvínsglös. Ætlum svo að forða okkur úr miðbænum áður en skríllinn mætir á staðinn. Kannski að kíkja í heimsókn eitthvert. Eins og einn kaffibolla til Hafliða og Ellisifar. Kaffibolla eins og aðeins Ellisif getur framkallað. Ellisif er fallega mamman muniði!?

Tilefnið fyrir tilefninu er ekki neitt. Nema að Bretanum langar að eyða tíma með mér. Fjarri bloggvinum. Hahahaha. Nú fannst mér ég fyndin. Nei, fjarri börnunum. Og mig langar að rifja upp hvernig er að vera með Bretanum. Fjarri börnunum.

Ég sit hér sallaróleg á meðan Bretinn sturtast, set inn þessa færslu og sötra rauðvín.

Fyrir 10 mínútum síðan var ég ekkert róleg. Ég týndi á mig hverja spjörina á fætur annarri og reif mig jafnharðan úr henni aftur. Til og með klippti neðan af gallabuxum til að athuga hvernig þær færu mér hnésíðar. Skipti um skó fjórum sinnum og svitinn lak niður bakið á mér. Svona pirringssviti. Þetta er of þröngt, þetta er of vítt.... nei annars. Fann ekki eina spjör sem var of víð. En ég sættist að lokum á skyrtu sem er nógu víð til að fela björgunarhringinn... hringina kannski.

Að lokum ákvað ég að bros og kátína klæddi mig betur en allar heimsins spjarir. Beint bak og reist höfuð væri glæsilegra en 11% líkamsfita.

Því sit ég hér tilbúin. Bíð eftir að Bretinn finni sér hentugar spjarir svo ég geti farið og gúffað í mig einhvers staðar.

 


Hringurinn bíður þar til á morgun

Nú ætla ég að skella mér í sófann með Bretanum og gera do-do.

Nei nei. Bretinn var að koma úr Skalla með DVD mynd. Dévaju með Denzel vini mínum. Ég fékk líka stóóóóórt Lionbar og fylltar lakkrísreimar. Hó-hó-hó hér sé stuð.

Sá Einhverfi komin í rúmið og er að glápa á Harry Potter. Gelgjan með Viðhenginu upp í herbergi (Jenný Anna hér eru svefnherbergin á efri hæðinni Devil)

Kæru krúttlegu bloggvinir. Bið ykkur að hafa mig afsakaða þar til á morgun. Þá mun ég líka koma mér fyrir hér fyrir framan tölvuna með ljúfan morgunkaffi og fara í nokkrar góðar heimsóknir í bloggheimum.

Nú skal etið, drukkið og glápt undir bleikri sæng upp í sófa. Until then..... Heart


Silungs- eða laxaflök á grillið - sérstaklega ætlað Jenfo

Stórt laxa- eða silungsflak

Mango chutney, smjör (má sleppa), sojasósa og 1 gott hvítlauksrif

pressa hvítlaukinn saman við mjúkt smjör og hræra út í mango chutney.

Smyrja þessu á flakið. Þekja vel.

skvetta slatta af sojasósu yfir (ekki þó of mikið).

Hita grill á blússhita, leyfa að hitna í allt að 20 mín.

setja flakið í álpappír, loka. Grilla í 4 mín í lokuðum álpappír og 4 mín í opnum. Líka hægt að grilla bara á álbakka eða klemmu.

Ef þetta á að taka extra stuttan tíma, skella þá bara tilbúnu kartöflusalati í dós í borðið og sturta úr einum poka af fersku káli í skál, og dós af hvítlaukssósu (t.d. frá Kjarnafæði).

Þetta er hriiiiiiiikalega gott.


Sólskinsdagar stressa Íslendinga

Ekki biðja mig um prósentur, heimildir, sannanir eða nokkuð slíkt. Eftirfarandi er eftir minni (eða minnisleysi) en þetta hefur setið í mér því ég sé sjálfa mig í þessu.

Fyrir einhverjum árum síðan las ég að sólardagar hefðu stressandi áhrif á Íslendinga.

Ástæðan er sú að okkur finnst okkur bera skylda til að nýta að fullu þá góðviðrisdaga sem láta svo lítið að birtast á klakanum. Oft eru auðvitað ekki aðstæður fyrir fólk að nýta þessa daga. Margir að vinna, sitja yfir veikum börnum, eða hreinlega hafa verki að sinna innandyra.sunshine

Svo er það fólk eins og ég sem eru engir sérstakir sólardýrkendur og eru alveg til í að sitja bara inni í svölu lofti og blogga og eru svo að farast úr samviskubiti yfir því.

Til að forðast misskilning þá þykir mér yndislegt að vera úti í góðu veðri. Ganga um og skoða mannlífið, sinna garðvinnu o.þ.h. eða sitja úti á palli (í ekki allt of miklum hita) með kaffibolla eða rauðvínsglas í góðum félagsskap.

En að liggja eins og skata og velta mér á alla kanta til að ná lit undir rasskinnarnar og þar fram eftir götunum, thats not my cup of tea to be honest.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1639864

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband