Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Dæmisaga

 

Ég týndi símanum mínum á skrallinu á föstudagskvöldið. Sat á barnum (hvar annars staðar) á Thorvaldsen og virti fyrir mér mannlífið og konulífið. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri.

Sitjandi þarna tók ég upp á því að fara að senda Bretanum sms. Þetta voru falleg skilaboð en ég veit ekki hversu mikið þau glöddu hann þar sem klukkan var langt gengin í þrjú um nótt.

Samstarfskona mín kom aðvífandi og dróg mig út á dansgólfið. Þar skemmti ég mér hið besta, með tösku og jakka á gólfinu við hliðina á okkur. Nokkuð sem enginn lætur sér detta í hug nema Íslendingar.

Þegar ég, um þrjúleytið, skellti töskunni yfir öxlina og þreifaði eftir símanum (hreyfing sem er orðin eðlislæg) var hann hvergi að finna. Ég gramsaði eins og vitleysingur í töskunni, vösum, skimaði eftir gólfinu, en allt kom fyrir ekki. Síminn var horfinn.

Það var ekki um neitt annað að ræða en að fara símalaus heim og koma Bretanum á óvart (sjá færslu hér á undan).

Á laugardag beið ég með það fram að hádegi að hringja í símann minn. Ég kom sjálfri mér á óvart með þessari nærgætni í garð þess sem mögulega hefði tekið símann. En maður á alltaf að gera ráð fyrir því góða í fólki. Ég hugsaði sem svo að kannski hefði einhver tekið símann með það í huga að hringja í eigandann daginn eftir. Þarf enga spæjaravinnu í það, stendur skýrum stöfum í phonebook: ''HEIMA'' og símanúmerið.

Enginn svaraði. Ég hringdi á Thorvaldsen. Enginn sími. Ég hringdi í Vodafone. Þeir vildu að ég færi niður í Kringlu í búðina þeirra þar og fengi nýtt SIM kort. Ég leit í spegil og leist ekki á blikuna, það yrði engin Kringluferð. Ég ákvað að bíða með aðgerðir þar til seinna um daginn.

Á meðan Lasagne kraumaði í ofninum hjá mér um kvöldmatarleytið ákvað ég að prófa að hringja aftur í símann minn, áður en ég hringdi í Vodafone aftur og léti loka honum. Og viti menn, ung karlmannsrödd svaraði. Starfsmaður á Thorvaldsen. Síminn var þar eftir allt saman. Ég hef sennilega skilið hann eftir á barborðinu.

 

Mórall þessarar sögu er: ekki senda Bretum sms um hánótt.


Þessi litla stúlka er mér ofarlega í huga um þessar mundir

 

 Fyrir mörgum, mörgum árum síðan......

 

Þær vöknuðu um miðja nótt við hvíslandi raddir á neðri hæðinni. Margar raddir sem voru þandar af geðshræringu. Þær læddust niður. Tvær 8 ára vinkonur með svefndrukkin augu og úfið hár. Önnur næturgestur hjá hinni.

Jólin voru á næsta leiti og birtan frá jólatréinu lýsti upp stofuna. Raddirnar þögnuðu þegar þær birtust og allra augu beindust að þeim. Enginn kom upp orði og þær skildu að eitthvað hafði komið fyrir. Litli næturgesturinn átti ekki afturkvæmt heim. Það var ekkert til að snúa heim til. Ekkert hús. Engin fjölskylda. Allt var farið.

Daginn eftir fór fólkið í örvæntingu sinni með hana í innkaupaleiðangur. Hún átti að velja sér eitthvað. Leikföng eða hvaðeina sem barnshugurinn girntist.

Hún var fljót að velja. Tvær hvítar og tvær bláar. Hvítar fyrir mömmu og pabba. Bláa fyrir stóra bróður og bláa fyrir litla bróður. Sálmabækur sem þau gætu tekið með sér. Jólagjafir frá litlu stúlkunni. Hennar leið að kveðja.

Og lífið hélt áfram..

 


Bara hræðileg mistök?

 

Stundum finnst okkur ekki svo langsótt þegar eitthvað gerist í öðrum löndum.

''Þetta er í útlöndum og svo mikið af biluðu fólki til þar''.

 Í alvöru. Bara þessi setning: ''hugsa sér að svona gerist á Íslandi'', er til marks um það að sumt sem okkur þykir ótrúlegt að geti gerst í okkar landi, finnst okkur að geti alveg gerst í ''útlöndum''.

Er þetta ruglingslegt hjá mér?

Ég horfði á viðtal við mömmu Kate um daginn og áttaði mig allt í einu á því að þessi kona væri frá sama landi og maðurinn minn, tengdamamma (litli rasistinn), mágur minn og konan hans.... Fólk sem ég þekki vel, kemur úr sömu stétt og fjölskylda Madeliene litlu og hljómar eins á allan hátt. Venjulegt fólk í fríi í útlöndum.

Allt í einu fannst mér þetta mál vera komið mikið nær mér (okkur öllum) og ég hugsaði: þetta er bara venjulegt fólk eins og við hin, sem gerði hræðileg mistök. Mistök sem hefðu ekki þurft að draga neinn dilk á eftir sér en gerðu það því miður.

Við höfum flest farið með börnin okkar til útlanda og litið af þeim andartak. Það má ekki. Allt getur nefnilega gerst í útlöndum.

Einu sinni var ég strandaglópur á Kastrup með börnin mín. Ég var að fara til Keflavíkur og vélin bilaði eða eitthvað. Fluginu seinkaði um 5 klst. Sá Einhverfi var í vagni, eitthvað um 10 mánaða og Gelgjan  um 2ja ára.

Ég sat á bekk með barnavagninn fyrir framan mig og horfði á Gelgjuna skottast um í kringum litla flugvél sem var þarna börnum til skemmtunar. Allt í einu var hún horfin. Ég stóð upp og gekk hringinn í kringum flugvélina og sá hana ekki. Ég gekk fram og til baka á litlu svæði því ég þorði ekki að fara langt, og varð alltaf hræddari og hræddari. Samt trúði ég því ekki að einhver hefði tekið hana. Það er ''þetta-kemur-ekki-fyrir-mig'' syndromið. Ég var ekki farin að góla og garga eins og maður sér í bíómyndunum.

Skyndilega sé ég hana koma hlaupandi við hlið karlmanns. Hann gekk að mér og húðskammaði mig á dönsku. Ég skyldi ekki mikið af því sem hann sagði en hann hafði fundið hana eina á röltinu og honum fannst ég ekki hæf til að vera móðir.

Ég veit ekkert hverju ég á að trúa í sambandi við mál Madeleine litlu. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað skrítnara en önnur mál þar sem börn hverfa, eða hvort það virkar það bara vegna þess að það hefur verið blásið svo upp í fjölmiðlum.

Ég vona bara að þetta taki enda og gátan verði leyst. Og sérstaklega vona ég að foreldrar hennar hafi ekkert með málið að gera og fái fullvissu um afdrif litlu stúlkunnar sinnar. Ekkert er verra en nagandi óvissan.

 


mbl.is „Foreldrar Madeleine yfirgáfu ekki veitingahúsið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómatur á toppnum á melónu

 

Áætlanir um sundsprett á morgnana urðu að víkja fyrir öðru. Ótrúlega óþægilegt að koma upp úr sundi í stresskasti að koma sér í leppana og vera ennþá að svitna af átökunum.

Svo er hárið vandamál. Sko á hausnum á mér. Reyndar er allt hár vandamál þegar maður ætlar að stunda sundlaugarnar en ég er hér að ræða hárið á hausnum á mér. Allt of mikið vesen að þurfa að þvo á sér hárið daglega að ég tali nú ekki um hversu illa klórinn fer með það. Litað hár og daglegur klór fer alls ekki saman. Ég keypti mér meira að segja sundhettu. Ekki er ég fríð með hana á hausnum en ég hefði látið mig hafa það. Get verið fríð allar aðrar stundir dagsins. En hún heldur ekki vatni. Þarf samt að blása á mér hárið. Vesen vesen vesen vesen.

Fríða Brussubína og ég ákváðu því að skella okkur í morgunleikfimi og byrjuðum okkar þriðju viku í morgun. Það er vissulega erfitt að vakna á morgnana og ég - B manneskja mikil - þarf að vera komin í rúmið fyrir miðnætti ef ég á að geta drattast á lappir rúmlega sex á morgnana. En líðanin er dásamleg eftir tímana og ég mæti hress og reif í vinnuna.

Tímarnir eru fjölbreyttir og mismunandi eftir dögum. Uppáhaldstíminn okkar Fríðu Brussubínu er á fimmtudögum. Lóðatími. Var tekið virkilega á í síðustu viku og harðsperrurnar í lærunum á mér voru svo magnaðar í nokkra daga að ég þurfti að ganga á ská niður stiga.

Við höldum okkur aftarlega í salnum - það er öruggara - svo við sjáum okkur ekki í speglinum sem er fremst. Ekki nema við færum okkur út úr röðunum.

Í tímanum í morgun sá ég alltaf öðruhvoru rauðan tómat birtast í speglinum... hoppandi upp og niður í takt við músikina og sporin. Uppgötvaði áður en leið á löngu að þetta var andlitið á mér. Rauður tómatur með ljóst hár. Ég upplifi mig eins og tómat og melónu.  Kroppurinn er melónan og þar ofan á situr tómatur.  Feitur og kringlóttur kroppur og lítill haus. Er að hugsa um að fá mér permanent til að auka stærðina á tómatnum. Þá myndi ég samsvara mér betur. Held að Bubbi Mortens kalli það að vera semitrískur.

 


Jóhanna þú reyndist sannspá - kommasooo

 

''Minn tími mun koma''

Ég held að það hafi verið árið 1994 sem þessi orð voru fyrst höfð eftir Jóhönnu Sigurðardóttur. Og tíminn hennar Jóhönnu er kominn. Um leið birtir hjá mörgum.

Jóhanna hefur látið að sér kveða síðustu mánuði svo eftir hefur verið tekið. Könnun hjá strákunum í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 21.-23. september, er til marks um þetta.

Spurt var: hvaða ráðherra finnst þér standa sig best í ríkisstjórn?

12 ráðherrar komust á blað.

Sá ráðherra sem telst standa sig næstbest er Geir H. Haarde með 18% atkvæða.

Jóhanna hefur staðið sig best samkvæmt þessari könnun og það er varla smekksatriði. Bara staðreynd. Enda sýna tölurnar það í umræddri könnun;

Jóhanna fær 32% atkvæða og hífir með því ráðherra Samfylkingar upp fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokks á heildina litið.

Í dag fékk ég símtal frá Vesturhlíð, þar sem Sá Einhverfi er í gæslu eftir skóla, og mér tjáð að Stöð 2 ætlaði að mæta á svæðið og taka myndir. Tilefnið er umfjöllun þeirra um mannekluna á frístundaheimilinu sem þjónustar nemendur Öskjuhlíðarskóla og fleiri.

Jóhanna mín, horfðu nú á Stöð 2 í kvöld og reynum í sameiningu að finna lausnir. Það er svo þreytandi að standa frammi fyrir því á hverju hausti að vita ekki hvort maður geti haldið starfinu sínu. Þolinmæði vinnuveitenda er ekki endalaus.

Og ef fólk missir vinnuna sína, þá missir það húsnæðið og þá þarf að fá félagslegt húsnæði og það er ekki til og þá lendir fólk á götunni og þarf á allskonar styrkjum að halda og þegar upp er staðið er þetta svo mikið mikið dýrara en ef bara launin yrðu hækkuð og fólki útvegað hærra starfshlutfall á frístundaheimilunum.

Jóhanna ég treysti á þig.... kommasoooooooo

 


Afmæliskort til mömmu

 

Gelgjunni þykir gaman að skipuleggja. Og hún sá til þess að eitthvað skemmtilegt biði eftir mömmu hennar (moi) þegar ég vaknaði í gær. Sem var ekki fyrr en um hádegi.

Þegar ég kom niður með koddafar á andlitinu var hún búin að gera borða úr nokkrum A4 blöðum og láta pabba sinn hengja hann upp á vegg; Til hamingju með afmælið mamma.

Á skenknum var lítil og sæt gjöf til mín og afmæliskort sem var skipulagt af henni. Hún fyllti sjálf út stöðu hvers og eins, þ.e. hvernig þeir tengjast mér og svo átti hver og einn að skrifa sjálfur nafnið sitt við það ''starfsheiti''. Í kortinu, sem verður geymt um ókomin ár, var textinn eftirfarandi:

Mamma! (Jóna*) Til hamingju með 39 ára afmælið!

Þín dóttir: Anna Mae **

Þinn stjúpsonur: Daníel ***

Þinn sonur: EMIL IDA ANTON ****

Your man: Nick *****

 

 Útskýringar:

* Ég er auðvitað ekki mamma Bretans og strangt til tekið ekki Unglingsins

** Þetta var einfalt

*** Já, það er eins gott að hlutirnir séu kallaðir réttum nöfnum

**** Sá Einhverfi var gallharður á að skrifa ekki nafnið sitt. Valdi frekar Emil í Kattholti, systur hans Ídu og pabbann Anton

***** Best að hafa þetta á ensku því pabbinn er breskur

 

Þessi stelpa á alveg örugglega eftir að geta nýtt sér skipulagssýkina í því starfi sem hún velur sér í framtíðinni.

 


Hálfs árs bloggafmæli

 

Um þessar mundir á ég hálfs árs bloggafmæli. Nánar tiltekið skrifaði ég mitt fyrsta blogg 24. mars á þessu ári.

Vinir mínir, sumir, stóðu á öndinni þegar ég hóf að birta myndir af fjölskyldunni. Ég var spurð hvort ég hræddist ekki svoleiðis.. ég vissi aldrei hverjir væru að lesa og skoða bloggið mitt.

Vissulega er það rétt. Það er misjafn sauður í mörgu fé. En ég hef líka ákveðið að hafa ekki sífelldar áhyggjur af því. Það þýðir ekki neitt. Hverskonar líf væri það að velta sér upp úr því alla daga hvað einhverjir perverskir einstaklingar hugsa eða gera. Þeir eru alls staðar eins og dæmin sanna.

Margir hafa líka sagt við mig að þeir furði sig á því hvernig ég geti bloggað svona um mín persónulegu mál. Allt sem gerist innan veggja heimilisins. Það þykir mér fyndið. Auðvitað er ég ekki að blogga um allt sem gerist heima hjá mér. Hugsið ykkur ef ég setti inn færslu í hvert sinn sem ég yrði ósátt við Bretann og lýsti í smáatriðum ágreiningsefnum okkar. Hver myndi nenna að lesa um það! Enginn. Trúið mér.

Það er gaman að skoða gamlar færslur og athugasemdir við þær. Fólk sem ég þekkti hvorki haus né sporð á á þeim tíma en finnst ég þekkja í dag. Sem er auðvitað ekki rétt en svo sannarlega hef ég orðið margs vísari um þetta fólk.

Ég fæ að fylgjast með sorgum og sigrum bloggvina og það er í rauninni ótrúlegt, og að sama skapi fallegt,  hvað fólk bloggar af mikilli einlægni. Ég hef líka fylgst með bloggurum sem voru mjög ópersónulegir á sínu bloggi í byrjun en hafa opnað sig smátt og smátt.

Það er skrýtin tilfinning að hafa áhyggjur af/gleðjast með/gráta með fólki sem maður þekkir ekki neitt. Stundum er ég að velta fyrir mér; ætli so-and-so hafi fengið starfið. Ætli so-and-so fái niðurstöður frá lækninum í dag. Ætli so-and-so fái íbúðina. Ætli so-and-so hafi fengið inngöngu í skólann. Ég vona að so-and-so líði betur í dag.... o.sfrv. Fyrir vikið finnst mörgum vinum mínum og kunningjum ég stórskrýtin.

Meira að segja Bretinn er farin að þekkja sum ykkar með nafni og ég tala um ykkur. Yfir kvöldmatnum til og með Grin

Þetta er lítið, skrítið og skemmtilegt samfélag sem ég villtist inn í til að reyna að efla í mér pennann. Það hefur tekist, en ég fékk svo mikið meira en það að launum.

Ekki spillir fyrir að ég hef náð tengslum aftur við vini úr fortíðinni sem hafa rekist á bloggið mitt fyrir tilviljun og látið vita af sér.

Takk kæru bloggvinir, og þið öll, fyrir samveruna síðustu sex mánuði

 


Hver eldar hjá ykkur í kvöld

Bara að láta ykkur vita að hér verður steiktur fiskur ala Jóna í matinn í kvöld.

Enginn orðlaus og opinmynntur Breti inn í stofu núna. Nei nei. Minn maður bara rólegur í vinnunni ennþá og lætur mér eldhúsið eftir með glöðu geði.

Samt á ég alveg von á því að hann gægist yfir öxlina á mér á eftir og spyrji hvað kartöflur séu búnar að sjóða lengi og hvort ég ætli að nota svona mörg egg til að dýfa í.

Viðbrögð mín við þeirri afskiptasemi fara svo eftir því í hvernig skapi ég verð. Kannski mun ýsan ''brenna'' óvart við, á nýju Ikea pönnunni. Muniði... þessari sem litli rasistinn frá Englandi hjálpaði mér að velja í sumar.

Hvað er/var í matinn hjá ykkur í kvöld og hver eldar og með hversu glöðu geði?


Snúið út úr hreinleikanum

Hreinleiki

Sá Einhverfi elskar Astrid Lindgren. Eða öllu heldur myndirnar sem gerðar hafa verið eftir bókunum hennar. Emil, Lína, Lotta, Börnin í Ólátagarði, Karl Blómkvist, Kalli á Þakinu.....

Hann er í þessum töluðu (skrifuðu) orðum að leggja lokahönd á enn eitt listaverkið sem er trélitateikning af DVD coverum nokkurra þessara mynda. Hann benti á eigin skrift; Börnin í Ólátagarði og sagði: Lítil börn.

Já, sagði ég. Börnin í Ólátagarði.

Stundum veit hann ekki hvað hann er að skrifa en samt er hvert einasta orð rétt stafsett. Sjónminni hans er gífurlegt.

Þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið með honum og horfði á Ný skammarstrik Emils í Kattholti var ég að hugsa um hreinleikann í þessum sænsku myndum öllum.

Emil og Alfred vinnumaður veiða krabba og synda naktir saman í vatninu. Þeim þykir alveg svakalega vænt hvorn um annan og enginn hrópar; perri perri.

Emil hellir bláberjasúpu yfir andlitið á fínni frú eftir að hún fellur í yfirlið og Anton pabbi hans tekur hann upp á eyrunum og hristir allan til. Enginn kallar: ofbeldi ofbeldi.

Eða þegar Anton eltir Emil með hnefann á lofti og öskrar ''strákskratti'', og Emil flýr inn í Smíðakofann og er heppinn að komast í öruggt skjól. Annars myndi karlinn faðir hans lúskra ærlega á honum.

Mikið væri heimurinn einfaldur ef hann væri eftir Astrid Lindgren emil

 

 

 



mbl.is Varað við nöktum börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vöffluát og helgarpabbar

 

Hér eru enn fimm gelgjur. Engin hefur stolist á bílnum út í sjoppu, laumast til að reykja eða fyllt upp brennivínsflösku með vatni. Allt er under control.

Ég bakaði vöfflur ofan í liðið áðan. Sem betur fer hrærði ég í tvöfalda uppskrift. Þær átu eins og verkamenn á næturvakt.

Ég þarf að æla, sagði Heimasætu-gelgjan þegar hún stóð upp frá borðinu. Já, þær voru allar sammála um það að þær hefðu borðað yfir sig. Ég ætla að sleppa kvöldmatnum sagði ein gelgjan og hinar tóku undir; jaaahááááá skooo....

Þegar þær hlupu aftur upp á loft heyrði ég Heimasætu-gelgjuna segja; við skulum bíða aðeins með poppið.

Eftir vöfflubakstur og -át brugðum við Viddi okkur af bæ. Fórum niður af hesthúsum og tókum svo góðan hring í Selásnum. Á leið minni um hverfið sá ég ungan mann (barn að mínu mati, ca 22-23 ára) standa fyrir utan útidyrahurð. Með honum var lítill gutti um 2ja ára. Við fætur þeirra stóð bílstóll.

Ég sá strax, hvers kyns var; ungi maðurinn var að skila syni sínum heim til mömmunnar eftir helgina. Semsagt helgarpabbi. Hann er með síma við eyrað og ég heyrði hann segja: hvar ert þú (með áherslu á þú) ? Nú!! Og er langt í þig? Já þú talaðir um að þú vildir fá hann um fimm.

Fleiri orðaskil heyrði ég ekki, en forvitin eins og ég er, laumaðist ég til að líta til baka og sé þá feðga ganga frá hurðinni og upp á bílaplanið. Sennilega hefur hann ákveðið að taka einn ís-rúnt með guttann og bíða eftir mömmunni.

Á sama tíma og það gleður mig að litli guttinn fái að njóta samvista með barnunga pabbanum þá var sláandi að heyra svekkelsið og pirringinn í röddinni. Hversu slítandi ástand er þetta ekki? Að deila því dýrmætasta sem þú getur nokkru sinni eignast með manneskju sem fer jafnvel virkilega í taugarnar á þér. Og hversu margir hafa þann þroska til að bera að gæta þess vel og vandlega að hallmæla ekki hinu foreldrinu í eyrun á barninu.

Ég vona að enginn túlki þetta þannig að ég sé að gagnrýna einstæða foreldra, stúlkur sem eignast börn utan sambands/hjónabands eða yfirhöfuð að þetta fjölskyldufyrirkomulag sé svo algengt sem raun ber vitni. Ég er aðeins að velta þessu fyrir mér.

Og í leiðinni að velta því fyrir mér að allt of margir ana út í barneignir og allt of margt ungt fólk gefst of auðveldlega upp á samböndunum sínum í dag.

Þetta hefur eitthvað að gera með, held ég, að þessi kynslóð sem nú er að verða fullorðið fólk, hefur þurft að hafa allt of lítið fyrir hlutunum almennt. Það er vant því að mamma og pabbi hreinsi upp eftir það messið og reddi hlutunum þegar eitthvað fer úrskeiðis. Þetta er kynslóðin sem keyrir á bílum úr kassanum inn á bílastæðið við menntaskólana á morgnana og heldur að hér hafi ekki verið grafnir skurðir fyrr en eftir að Pólverjar og Litháar urðu partur af menningunni.

já já já... ég er að alhæfa, ég veit það. Og ég veit líka alveg að þetta eru ekkert slæmir krakkar sem þessi lýsing á við. Langt í frá. En agaleysið tröllríður öllu þjóðfélaginu og þegar á móti blæs fjúka allir um koll við fyrstu vindhviðu.

Þegar við Viddi gengum inn um dyrnar eftir góðan göngutúr, mætti mér ilmurinn frá vöfflubakstrinum frá því fyrr í dag. Við hana blandaðist lykt af nýpoppuðu poppi. Ekki entist ógleðin lengi - skálin var tóm.

skal

 

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband