Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Trukkalessa eða ekki...

 

Daginn börnin góð. Gleðilega hátíð og megi gamlaárskvöld verða ykkur sem ánægjulegast.

Ég tók mér frí í vinnunni fram yfir áramót, sem var eins gott þar sem ég sit nú yfir veikum gutta. Eins og ég hlakkaði rosalega til að losna við hann í dag. O jæja.

Mig langar að minnast á hana Gerði Önnudóttur, sem er að gera allt vitlaust núna á moggablogginu. Eins og aðrir er ég forvitin og í gær renndi ég yfir færslu hjá henni og svo yfir kommentin. Og ég er satt best að segja bara svolítið sorgmædd. Kannski er það vegna þess að núna er hátíð ljóss og friðar. Mikið svakalega er til margt fólk þarna úti sem er uppfullt af reiði og illsku. Og satt að segja detta mér í hug fótboltabullur. Þessar sem mæta á fótboltaleiki eingöngu í þeim tilgangi að efna til slagsmála og illinda. Það er ekki fótboltaleikurinn sjálfur sem skiptir máli heldur að berja sem flesta.

Gerður er að úthúða karlmönnum og má öllum vera ljóst að konan sú er ekki raunveruleg. Og þó hún væri kona af holdi og blóði þá mætti einnig vera ljóst að sú kona gengur ekki heil til skógar.

Ég veit því ekki hvort er bilaðra; að sleppa reiði sinni og svívirðingum lausum á ímyndaða persónu eða á manneskju sem ekki er heil á geði og þá einn helst úthúða henni fyrir að líta ekki út eins og staðalímyndin.

Svo er annað sem ég er að láta fara í taugarnar á mér. Moggabloggarar hafa löngum verið dregnir í dilka. Reyndar bara einn dilk. Við erum öll klikkuð. Inn á kommentakerfinu hjá dóttur hennar Önnu er orðljótasta fólkið nær undantekningalaust IP-tölur, þ.e. ekki moggabloggarar heldur só and só út í bæ. En út af því að umræðan fer fram á mbl þá erum við hin stimpluð. Allt saman ruglað, orðljótt lið sem tekur Lúkasinn á hvert viðfangsefnið af öðru. 

Annars er ég bara nokkuð góð.

 


Plastið byrjað að hitna

 

Það var nokkuð ljóst að ef breski hluti þessarar fjölskyldu ætti að fá jólagjafirnar fyrir jólin 2007, þyrfti ég að hefjast handa. Og það gerði ég í kvöld.

Tætti í Kringluna vopnuð plasti og stóð mig eins og hetja. Landaði UK-jólagjöfum og fimm til.

Sá pott í Byggt & Búið sem mér leist vel á og til þess að ég keypti ekki eitthvað alveg út í loftið sneri ég mér að ungum manni sem þarna var að afgreiða.

Nú átt þú að segja mér hversu frábær þessi pottur er, skipaði ég.

Hann leit á mig, brosti alveg yndislega fallega og sagði: þessi pottur er alveg frábær.

Gott, sagði ég. Ég ætla að fá hann.

Svona getur verið einfalt að finna góðar og nýtilega jólagjafir.

Í Blend hitti ég á annan ungan afgreiðslumann sem fékk sko ekki sitt þjónustuskírteini úr cocoa puffs pakka. Hann mátaði fyrir mig peysur og hélt á vörum fyrir mig á meðan ég skoðaði fleiri.

Hitti svo fyrir skemmtilegt fólk sem var að kynna nýtt íslenskt jólaleikrit; Lápur, Skrápur og jólaskapið.  Tveir piltar stóðu þarna í búningum og ung stúlka með þeim sem var með allt á hreinu. Spjallaði við þau um leikritið og ég ætla að skella mér á sýninguna þeirra með krakkana. Held þetta sé bráðsnjallt leikrit fyrir alla fjölskylduna. 

 Þegar ég ákvað að ég hefði afrekað nóg í jólagjafadeildinni fór ég á Cafe Bleu og mætti þar sama yndislega viðmótinu og annars staðar, hjá stúlku sem var að þjóna og svo kaffimeistaranum sem lagði fyrir mig dásamlegan Latte í takeaway bolla. Það er ekki annað hægt en að komast í ekta jólaskap þegar þjónustan er svona fyrsta flokks, hvar sem maður kemur.

---------------

Rétt í þessu læddist ég inn í herbergi hjá krökkunum og kíkti í gluggann. Svona rétt til að sjá hvort jólasveinninn væri búinn að koma. Ekki var það nú. Hann bíður sennilega eftir því að við Bretinn skríðum í koju.

Í glugganum hjá Gelgjunni var orðsending til jólasveinsins, undir mjólkurglasinu sem ætlað er fyrir þyrstan, önnum kafinn Nikulás.  Á miðanum stendur: Afsakið, en ég á ekki piparkökur. Svo er teikning af andliti með skeifu og tvö tár og undir stendur; Fyrirgefið!

Ég hafði Gelgjuna grunaða um að þykjast trúa á jólasveininn ennþá, því hún væri hrædd um að fá annars ekki í skóinn. En núna.. núna er ég ekki viss. Þetta er svo innileg afsökunarbeiðni. Ég vona að Sveinki taki hana til greina.

Englands-jólagjafirnar standa vandlega innpakkaðar í jólapappír ofan í stórum pappakassa frammi í forstofu. Ég vil að Bretinn hnjóti um þær í fyrramálið svo hann muni að fara með þær á pósthúsið bright and early. Búið að sækja jólaskrautið ofan af háalofti en jólagardínurnar eru enn ófundnar.

 


Dóttir þín hefur verið misnotuð í 3 ár. Er það ekki bara allt í fínu? Ha?

 

Æi kallinn minn, það var nú leiðinlegt að heyra þetta með dóttur þína. Ha! Kennarinn hennar náttúrlega misnotaði sér aðstöðu sína sonna soldið en það má nú virða greyinu til vorkunnar að hann var þó ástfanginn af henni. Enda er tekið tillit til þess í þessum dómi. Ég meina refsiramminn var alveg upp í 12 ár í fangelsi en hann fer ekkert inn. Enda eins gott. Ég meina.. 13 ára stelpur vita nú alveg hvað þær eru að gera ekki satt? Ha! kallinn minn. Ertu ekki sammála mér kallinn!?

Hefur þú nokkuð orðið var við þessa vanlíðun hjá henni sem er talað um? Er 'etta ekki bara einhver svona afsökun hjá henni fyrir drusluskapinn. Æ sorry kallinn minn ég meinti það ekki þannig en er það ekki alltaf þannig bara. ha? Þær sjá eftir öllu saman og fara þá að væla og kenna karlmanninum um. Þær eru nú orðnar ansi kræfar oft á þessum aldri þessar stelpur.

Græðir hún svo ekki bara á þessu? Fær fimmhundruðþúsundkall og allt ma'r. Takið þið hana ekki bara í gott frí eitthvert til útlanda og þetta verður allt gleymt. Gera bara gott úr 'essu. Ha!? Ha? Kallinn minn.

 

ÁTT ÞÚ DÓTTUR UNDIR LÖGALDRI? MYNDIR ÞÚ SITJA UNDIR ÞESSARI RÆÐU FRÁ VINI ÞÍNUM? Nei? Ég hélt ekki.

HVERNIG LIÐI ÞÉR ÞÁ AÐ ÞURFA AÐ TAKA ÞESSU RUGLI FRÁ HÉRAÐSDÓMI? Þeir gefa út veiðileyfi á börn.

ÉG ER BÚIN AÐ FÁ NÓG. EN ÞÚ?

Og til að það sé á hreinu, þá á þetta að sjálfsögðu við um bæði drengi og stúlkur. Svipað mál kom upp Svíþjóð um daginn, nema að þar er gerandinn kona og fórnarlambið drengur. Dómurinn í því máli var ekki mikið skárri.

 

 

 


Fastar fléttur

 

Í gær var jólaball í dansskóla Gelgjunnar og spennan var mikil þar sem hennar hópur átti að sýna dansatriði. Þær áttu að vera klæddar í svartar leggings, svarta hlýraboli og með fastar fléttur. Ég er einskis nýt í föstu-fléttu-deildinni svo Gelgjan hvarf að heiman um miðjan dag til að fá þjónustuna heima hjá vinkonu sinni.

Ég var reyndar til fleiri verka einskis nýt í gær, sökum eftirkasta af áfengisdrykkju kvöldinu áður. En frúin bar sig vel og naut góðs af heitum faðmi Bretans á meðan við biðum eftir dansatriðinu. Áður en að því kom dönsuðu krakkarnir í kringum jólatréð og jólasveinn kom í heimsókn. Var sá óvenju  skemmtilegur og ég rak upp hlátursrokur öðru hverju.

Amma og afi sáu um spilverkið, þ.e. amma og afi einhvers. Afinn spilaði á harmonikku og amman barði trommurnar. Frekar sérstök upplifun að sjá þessa tignarlegu, eldri konu, í dökkblárri buxnadragt og hvítri blússu með blúndu við hálsinn, slá taktinn.

 

Ekki náðust góðar myndir af dansatriðinu sjálfu, en hér er mynd af skvísunum fyrir sýningu (Gelgjan er t.v.). AM og Seselia     

 

 

 

Og hin myndin sem ég læt hér fylgja sýnir skemmtilegt sjónarhorn. Fullt af litlum stelpum, öllum eins, að taka við fyrirmælum frá kennaranum sínum. Ég þekki ekki einu sinni barnið mitt í hópnum.

Fastar fléttur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í bílnum á leiðinni heim sagði ég við Gelgjuna: Það þarf nú alveg sérstakan hæfileika til að brosa svona allan tímann eins og þú gerðir.

Já, hún gat alveg samþykkt það. En mamma, sagði hún. Ég hætti samt að brosa því mér fannst ég vera eins og fáviti. 

Ég skil ekki hvaðan krakkinn hefur þennan talsmáta.

 

 


Refsivert að borða yfir sig?

 

Jahá! Fjörið er rétt að byrja krakkar mínir.

Forræðishyggjan á eftir að gleypa okkur með húð og hári.

Sýn Adolfs Hitlers á hinn fullkomna heim, mun á endanum verða að veruleika.

Allir sem ekki eru ljóshærðir, bláeygðir, með hvíta húð, í kjörþyngd og færir um að geta af sér börn á náttúrulegan hátt, verða réttdræpir og gefið út veiðileyfi á þá.

Skilaboðin um offitu eða yfirvigt verða sífellt skýrari og ef okkur hefur þótt hingað til að börn séu lögð í einelti vegna holdarfars síns, þá höfum við lítið séð ennþá.

Smám saman verður bannað með lögum að borða of mikið og vera of feitur því það hefur áhrif á einhvern hátt á gróðurhúsaáhrifin. Ef þú hreyfir þig of lítið og notar bílinn til allra þinna ferða, þá ertu að hleypa of miklum koltvísýringi út í loftið.

Ef þú kýst að nota bílinn minna og ganga meira þá hleypirðu jafnvel enn meira af koltvísýringi út í loftið. Og afhverju er það. Jú vegna þess að matvælaframleiðsla er svo orkufrek og þú þarft vissan  fjölda af kalóríum til að brenna í þessum gönguferðum. Sem sagt, ef þú gengur þá þarftu að borða meira og þá eykst matvælaframleiðsla......

Og sannið til... útkoman úr þessari hringavitleysu verður á endanum að fólk sem er of feitt verður álitið umhverfismengandi og sjónmengandi. Við verðum öll vigtuð þegar við mætum til skóla eða vinnu á morgnana og útkoman hengd á kennitöluna okkar.

Finnst ykkur ég vera komin fram úr mér? Bíðið bara....

 


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reðursafnið vs Downsarar

 

Ég myndi auðvitað gráta ef þetta væri ekki svona djöfulli fyndið. Og þó... er hægt annað en að hlæja að fáránleikanum í forgangsröðun og mati... já hverra... á hvað er mikilvægt og hvar peningar ríkisins eru best geymdir.

Hér kemur örsaga; byggð á staðreyndum. 

Félag áhugafólks um Downs heilkenni sótti um styrk hjá ríkinu fyrir sín félagasamtök. Held það hafi verið milljón sem þau báðu um. Þau fengu 500 þúsund. Voru afskaplega glöð og í rauninni undrandi. Vá við fengum fimmhundruðþúsundkrónur!!! Áttu greinilega ekki von á því.

Skuggi féll á gleðina þegar þau komust að því að Íslenska reðursafnið fékk úthlutað á sama tíma 800 þúsund króna styrk. Hið íslenska fokking reðursafn!!

ER EINHVER HEIMA!!!!

Eru menn farnir að selja á sér reðurinn? Ég hélt að reðursafninu væri ánöfnuð öll þessi tippi. Ekki það að ég hafi neitt á móti reðursafninu. En ég er á móti því að skattpeningarnir mínir séu notaðir til að halda starfseminni gangandi.

Ég spyr; er þetta í nafni menningar sem svona styrkir eru  veittir.

Ég get alveg ímyndað mér að hægt hefði verið að gera eitthvað gagnlegt við þessi 800 þúsund. Hvað með allt hitt sem er verið að gefa pening í úr ríkissjóði. Eru birtir listar yfir það einhversstaðar hvað ég og þú erum að borga fyrir?

Ég er samt alveg að komast í jólaskap. Og ég er að fara á jólatónleika Bóóóóóóóó á sunnudagskvöldið.  

 

 

 


Helvítis kirkjan

 

 Þessi er nú ekkert glænýr en hér kemur hann í íslenskri þýðingu. Mér þykir þetta ágætlega við hæfi, mitt í allri rekistefnunni um trúboð eða ekki trúboð í skólunum, kirkjuna og trúabragðafræði.

 

Krumpaður og eldgamall karl gengur inn í Lúthersku kirkjuna og segir við einkaritara prestsins: Ég vil ganga í þessa helvítis kirkju.

Einkaritarinn sem er kona er bæði forviða og hneyksluð á orðbragði mannsins: Fyrirgefðu herra, ég hlýt að hafa misskilið þig. Hvað sagðirðu?

Hlustaðu á mig andskotinn hafi það, gólar karlinn. Ég sagði að ég vildi ganga í þessa helvítis kirkju.

Mér þykir það leitt maður minn, en svona orðbragð verður ekki liðið hér í þessari kirkju. Og einkaritarinn stormar inn á skrifstofu prestsins til að láta hann vita af ástandinu.

Presturinn er hjartanlega sammála einkaritaranum sínum. Hún á alls ekki að þurfa að sitja undir svona hræðilegu orðbragði. Þau ganga saman fram aftur og presturinn spyr gamla karlfauskinn:

Herra minn, hvað er vandamálið?

Það er ekkert fjandans vandamál, segir karlinn, sýnu skapverri en áður. Ég bara vann 200 milljónir í helvítis lottóinu og ég vil ganga í þessa helvítis kirkju til að losna við eitthvað af þessum helvítis peningum.

Ég skil sagði presturinn rólega. Og er þessi kerlingartík hér að valda þér vandræðum?

 

 


Páfagaukar, um ketti, frá hundum, til naggrísa

Dýralífið á þessu heimili er......  það eru allavega nokkur dýr á heimilinu.

Sem krakki var ég forfallinn dýraaðdáandi. Ætlaði að verða bóndi. Féll frá því þegar ég uppgötvaði að það fæli í sér fjöldamorð.

Þá ákvað ég að dýralækningar yrðu mitt framtíðarstarf. En af því varð aldrei. Aðallega vegna leti og metnaðarleysis. Nei.. eingöngu vegna leti og metnaðarleysis.

Ég grátbað ömmu um að fá hund eða kött þegar ég var krakki. En amma vildi meina að hundar ættu heima í sveit og svo sagði hún mér sögu af fressi sem hún átti sem barn. Elskaði köttinn út af lífinu. Þangað til hann hitti annan fress, þeir lentu í slagsmálum og skítabunan stóð aftan úr þeim í æsingnum. Þessi atburður var nóg til þess að amma fékk ógeð á köttum.

Mér þótti hún frekar langrækin í garð katta, en hún sat við sinn keip.

Með harmkvælum gat ég kríað út páfagauk og hér er hægt að lesa um ævintýri hans. Ég elskaði þennan páfagauk meira en lífið sjálft. En hann stakk af og þeir komur margir á eftir honum.

Enn þann dag í dag er ég afskaplega veik fyrir páfagaukum og kjassa framan í þá eins og aðrir kjassa framan í ungabörn. Gelgjan fer ekki með mér í gæludýrabúðir því ég finn mér alltaf páfagauka til að tala við. Hún þolir ekki að ég tali við páfagauka, frekar en hún þolir að ég ávarpi ókunnuga. Skammast sín fyrir mömmsluna sína.

Amma og afi voru afar heppin að ég skyldi aldrei láta mér detta í hug að hægt væri að halda bæði kött og hund. Það einfaldlega hvarlaði aldrei að mér.

En á fullorðinsaldri hvarlaði það að mér og áður en ég vissi af var ég komin bæði með köttinn Kela og hundinn Vidda. Hundurinn kom á eftir kettinum, og þegar ég bætti við kettling var Kela ketti nóg boðið. Hann flutti að heiman og mun ég seinna segja frá þeim stórmerka atburði.

Kettlingnum Tinnu og hundinum Vidda kom vel saman og fljótlega bættist naggrísinn Rós rassstóra í hópinn. Ekki er samt hægt að skilja Rós eftir utan búrs í félagsskaps hinna ferfætlinganna. Jafnvel þó að hún sé næstum því stærri en Tinna.

En Tinna er orðin móðir. Eignaðist 3 kettlinga í sumar. systurnar Khosku, Elvíru og Perlu. Khoska heitir Bóthildur í dag og býr hjá Ásdísi bloggvinkonu. Elvíra og Perla eru hér enn... og verða líklegast hér áfram.

Elvíra og Perla eru orðnar stærri en mamma Tinna og mamma Tinna er orðin pirraðri en allt sem pirrað er. Hvæsir í sífellu á kettlingana og litlu, feitu systurnar verða alltaf jafn hissa og opineygðar af undrun. Viddi hundur verður svo æstur þegar Tinna hvæsir að hann tekur á rás á eftir henni og hún verður enn pirraðri. Aumingja Tinna.

Mér finnst ég ríkari að hafa kynnst öllum þessum karakterum. Og ég er glöð að geta veitt börnunum mínum það sem ég þráði svo mjög sem barn en fékk ekki notið. Nálægð við dýrin. Og krakkarnir hafa notið góðs af. Ekki síst Sá Einhverfi. Það má lesa nánar um hér.

Læt fylgja hér tvær myndir. Á þeirri fyrri virða Elvíra og Perla fyrir sér, mjög svo áhugasamar, Rós rassstóru í búrinu sínu. .

Elvíra, Perla og Rós Rasstóra

 

 

 

 

Og á þeirri seinni sést Gelgjan við heimanámið með Perlu í baksýn, en Elvíra spásserar yfir námsbækurnar

AM og kisurnar


Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband