Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Nú þarf ég að láta rigna upp í nefið á mér

 

Þann Einhverfa bráðvantaði liti í dag, svo ég gerði mér ferð inn í tvær verslanir Eymundssonar í Kringlunni. Langaði að nota tækifærið og sjá bókina mína í því umhverfi sem hún þarf að byrja í, til að komast í sitt rétta umhverfi, þ.e. inn á heimilin í landinu. 

Það má segja að þessi ferð hafi verið ágætis ''reality check'' fyrir mig. Í fyrri búðinni var bókin ekki einu sinni sjáanleg. Og ég hafði mig ekki í að spyrja um hana. Í seinni búðinni lágu nokkur eintök af ''Sá Einhverfi og við hin'' á borði, ásamt bókum frá því í fyrra. Nýjar bækur lágu á borði nær dyrunum og við dyrnar var heill gámur af nýjustu bók Arnalds Indriðasonar. Sennilega eina bókin sem ekki þarfnast auglýsingar. Og þó... sennilega þarfnast allir auglýsinga. Jafnvel Arnaldur.

En ég kom sjálfri mér á óvart þegar ég fann að það hálffauk í mig inni í fyrri búðinni. Í Fréttablaðinu í morgun er heilsíðu auglýsing með bókum frá Sögu útgáfu (m.a. bók Þráins Bertels, Óttars Norðfjörð og minni). Undir auglýsingunni stendur Eymundsson, bóksali frá 1872. Ég held þetta sé ókeypis auglýsing fyrir það ágæta fyrirtæki. Mér finnst lágmark að þeir skelli fram í búðina hjá sér, bókum sem eru auglýstar undir þeirra nafni.

Og ég var ekkert sérstaklega ánægð að sjá bókina innan um bækur frá því í fyrra. Samt sagði ég ekki neitt.

Ef ég hef haldið í einhver andartök að ég gæti gengið inn á ritvöllinn ásamt öllum hinum höfundunum og gert mér vonir um að selja slatta af eintökum af bókinni, án þess að vekja á mér einhverja sérstaka athygli... þá læknaðist ég af þeirri firru í dag.

Ég ákvað eftir dágóða umhugsun að kaupa eitt eintak. For luck. Sem betur fer var verðmiðinn límdur yfir andlitið á mér.. ekki mér sjálfri, heldur á bókarkápunni. Reyndar er líklega engin leið að þekkja mig af bókarkápunni en mér leið samt eitthvað undarlega með það að kaupa eigin bók. En ég sór þess eið á þessu andartaki að þetta mun ég geri hér eftir. Ég mun gefa út bók á hverju ári og fyrsta daginn sem hún kemur í búðir mun ég fara og festa kaup á einu stykki. Og hana nú!

Nú er um að gera að bera höfuðið hátt, láta rigna örlítið upp í nasaholurnar og... og.. já bara rífa svolítið kjaft. Ef ég hef ekki fulla trú á því sem ég er að gera, hver hefur það þá?

 


Nokkurs konar framhald af renna-á-rassinum-niður-tröppur-bloggi

Mottó í kreppunni:

Dagurinn í dag er ekki rétti dagurinn til að hafa áhyggjur af morgundeginum.

Í morgun, áður en ég fór út úr dyrunum til vinnu, var mitt síðasta verk að safna saman fötum og öðrum nauðsynjavörum, sem ég hafði fengið lánuð hjá Ellisif bakarafrú. Ellisif lánað mér nokkra leppa fyrir myndatöku sem ég fór í í gær hjá Vikunni, ásamt armbandi sem hún fékk í fertugsafmælisgjöf 17. október.

Dýrgripina hafði ég tekið með mér í íþróttatösku sem ég dröslaði með mér á hálkunni á háhæluðu skónum, muniði... Ég notaði síðan ekkert af innihaldi töskunnar þegar til kom, en það er önnur saga.

Í morgun fór ég sem sagt í það að týna dótið hennar Ellisifar upp úr töskunni og setja í poka. Ætlaði að skjótast til hennar í hádeginu og skila. Þá uppgötvaði ég mér til mikillar hrellinga að armbandið var hvergi að finna. Boxið utan af því lá opið ofan í íþróttatöskunni.. en ekkert armband.

Jeremías minn. Ekki var tilfinningin góð. Ég næstum því reif töskuna í tætlur í von um að finna armbandið undir fölskum botni eða eitthvað slíkt. Æddi um allt hús og ímyndaði mér að ég hefði aldrei farið með armbandið út. Hvæsti á Bretann þegar hann ætlaði að vera mér andlegur stuðningur í hremmingunum. En allt kom fyrir ekki...

Jóna, breathe in... breathe out... think woman.. THINK

Og í huganum birtist mynd af fertugri konu (helvíti álitlegri að vísu) sem stóð í sjálfheldu efst í snævi þöktum tröppum. Konan hélt á grárri og rauðri íþróttatösku sem hún fleygði skyndilega niður tröppurnar. Svo settist hún niður og lét sig gossa á rassinum, það sem eftir var leiðar.

Ó mæ gúddness. Ég kvaddi Bretann stutt í spuna, líkt og hann ætti sök á öllum mínum vandræðum, hentist út í bíl og spændi á sumardekkjunum niður í Lyngháls. Lagði bílnum við títtnefndar tröppur og steig út. Hélt niðrí mér andanum þegar ég skannaði fönnina í kringum tröppurnar.

Það tók ekki nema sirka 7 sekúndur. Eitthvað glitraði í snjónum. Eitthvað dásamlega silfurlitað blikkaði mig í frostinu. Ég þorði vart að trúa eigin heppni þegar ég beygði mig niður og fingurnir gripu um armbandið. Þá, og aðeins þá, leyfði ég mér að anda aftur.

Takk fyrir lánið Ellisif

 


Af tvennu illu...

 

Í morgun tók ég ákvörðun sem kom sjálfri mér nokkuð á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að ég er þó orðin fertug og á að heita fullorðin einstaklingur. Það tók mig nokkur andartök að taka þessa ákvörðun, en ekki mikið meira en það.

Ákvörðunin var tekin þar sem ég stóð í þriðju, af sirka tuttugu snævi þöktum tröppum. Íklædd ullarkápu með belti í mittið, með virðulegan loðkraka um hálsinn og á himinháum hælum.

Ég hugsaði: hvort er verra.. að gera sig að fífli eða fótbrotna?

Svarið var einfalt þegar ég var búin að fara í gegnum ferlið með slysó, gipsið og hækjurnar, í huganum.

Tröppurnar sautján fyrir neðan mig voru ekki árennilegar að sjá.

Ég settist því niður og renndi mér á rassinum niður restina af tröppunum. Svo stóð ég upp, hagræddi ólinni á töskunni minni á öxlinni, dustaði snjóinn af buxum og kápu og gekk upprétt og virðuleg í fasi inn í fyrirtækið sem ég átti erindi í.

Blautur afturendi og smávegis rispa á úlnlið eru pís off keik á miðað við brotna leggi.

 


Rasistinn verður Lafði og sonur hennar hálfrar aldar gamall

 

Bretinn þakkar kærlega fyrir allar afmæliskveðjurnar sem þið settuð í athugasemdarkerfið hjá mér. Hann las þær allar og þótti vænt um.

Laugardagskvöldið var skemmtilegt. 30 manna veisla í tilefni af hálfrar aldar afmæli karlsins.

Og þegar ég nefni hálfa öld þá dettur mér einna helst í hug aldraður maður með göngugrind. 50 ár er eitthvað svo mikið minna en hálf öld. En það breytir því ekki að þessi bráðhuggulegi karlmaður er hálfrar aldar gamall.

Og  þegar Litla Lafðin hringdi (rasistinn sem ég breytti í Lafði úr Rasista vegna bókarinnar. Aldrei að vita nema að bókin verði þýdd á móðurmál Bretans og ég er hrædd um að það yrði uppi fótur og fit ef upp um það kæmist hjá enska slektinu að ég kallaði tengdamóður mína Litla Rasistann. Jú syndirnar koma alltaf í bakið á manni) á föstudagskvöldið og tilkynnti það að það væru akkúrat 50 ár síðan hún fór á fæðingardeildina, þá féllust mér hendur.

Hvernig er hægt að vera reffileg og kvik kona og tala um að hafa fætt barn fyrir hálfri öld? Þetta eru bara absúrd tölur.

En hér voru sem sagt um 30 manns á laugardagskvöldið til að fagna þessum merku tímamótum. Ég er fín frú og geri ekki handtak, svo að við pöntuðum mat frá Austur-Indíafélaginu og herregud.. þvílíkt lostæti. Lambakjöt og kjúklingur sem bókstaflega bráðnaði upp í manni, fyrir utan allt hitt lostætið.

Þeim Einhverfa leist ekkert á blikuna á tímabili og kom reglulega niður til að tékka á mannskapnum. Tók nokkrar vel valdar leikfimiæfingar á stigapallinum og hljóp svo upp aftur.

Gelgjan hafði félagsskap í Viðhenginu og þær læddust hér með veggjum, földu sig inn í þvottahúsi og lágu á hleri á meðan við tókum á móti gestunum í forstofunni og á einhverjum tímapunkti læstu þær forstofuhurðinni svo að síðbúnir gestir máttu berja allt að utan til að komast inn í gleðskapinn. Þær sem sagt höguðu sér nákvæmlega eins og stelpur gera sem eru á mörkum þess að komast á gelgjuna.

Unglingurinn hagaði sér eins og fullorðin manneskja, sá að mestu um einhverfa bróðir sinn og minglaði  við gestina eins og þaulvanur selskapsherra.

Við Bretinn höfðum planað að reyna að fá Þann Einhverfa til að sofa í okkar herbergi til að hægt væri að loka inn til hans (það vantar enn hurðina á hans herbergi) en hann tók af okkur völdin. Hann kom sér sjálfur í rúmið sitt og steinrotaðist í öllum látunum. Það var ekki fyrr en síðustu gestirnir voru farnir og búið að slökkva á músíkinni, sem hann rumskaði aðeins en sofnaði fljótlega aftur.

Sérlega vel heppnað kvöld. Og enn erum við að borða Indverskan mat.

------

Bókin mín kemur úr prentun á fimmtudag og vonandi verður hún komin í allar bókabúðir fyrir helgina. Held að þeir byrji á tilboðsverði svo nú er um að gera að grípa tækifærið....

 

forsida Ian

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bretinn er fimmtugur í dag

 

say no more...

 

NCJ og DCJ

Hér er hann. Þessi fimmtugi. Ásamt elsta barninu sínu honum Daníel.

Myndin er tekin á Englandi síðasta sumar.


Þegar konur tuða - bbzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

 

Í gærkvöldi var ég að tuða í Bretanum. Ég man ekki einu sinni lengur um hvað málið snerist. Veit ekki hvort það þýðir að ég tuði meira en nokkrum manni er hollt, að ég sé farin að missa minnið eða tuðin mín séu bara yfirhöfuð langt frá því að vera áhugaverð.

Bla bla bleh bleh, sagði ég

Bretinn sagði fátt, en hugsaði sennilega því meira. Kannski heyrði hann bara þetta klassíska bbbbbzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

Gelgjan hallaði sér í átt til pabba síns og hvíslaði: Pabbi, don't take it personally.

Þetta var reyndar allt saman afar persónulegt, en ég ákvað að halda kjafti. 

 


Afi pissar í klósettið og Sá Einhverfi settur undir smásjá

 

Anna systir á lítinn sonarson sem er allavega á topp 10 yfir mestu dúllur veraldar.

Krakkaormurinn sem er rétt rúmlega tveggja ára, er ótrúlega fljótur til. Orðaforðinn er gífurlegur og svo er hann svo sniðugur.

Þegar var byrjað að vinna í því að láta hann pissa í klósett, fékk hann að sjálfsögðu gífurlegt hrós og klapp þegar vel tókst til.

Svo var það eitt sinn sem hann gekk inn á afa Bigga þar sem afinn var að pissa í klósettið.

Guttinn rak upp stór augu og hrópaði svo upp: Vá ai Biggi - pissa í klósettið - dulegur!!

--------

Í dag rann það upp fyrir mér að við Bretinn höfum leyft Þeim Einhverfa að leika lausum hala of lengi. Og án þess að gera okkur grein fyrir því. Reyndar var svolítið sem Gelgjan sagði sem fékk mig til að kveikja á perunni.

Ég gleymi því alltaf  að drengurinn minn gengur í gegnum tímabil í lífinu eins og önnur börn. Uppreisn tveggja ára aldursins gekk í gegn hjá honum um 4ra ára aldurinn. Sjálfstæðisyfirlýsing þess fjögurra ára gerðist sirka um 6 ára aldurinn.. og svo mætti lengi telja.

Nú er búið að vera ansi rólegt og afslappað tímabil í góðan tíma. Barnið klárlega afskaplega vel heppnað og vel upp alið og allt hefur gengið tiltölulega smurt. Allavega svona á þessa heimilis mælikvarða.

Svo var það  í dag sem ég dreif mig loksins með Þann Einhverfa á sundnámskeið. Fyrir nokkrum tíma síðan fékk ég skilaboð frá skólanum þess efnis að stráksi væri orðinn svo klár að tímabært væri að setja hann á hnitmiðað sundnámskeið hjá Ösp, íþróttafélagi fatlaðra.

Það er búið að taka mig 2-3 vikur að koma mér að verki því þetta kemur auðvitað niður á starfinu mínu, en í dag lét ég sem sagt til skarar skríða.

Og þetta gekk allt saman í sögu þar til sundkennarinn benti Þeim Einhverfa á að það væri bannað að hoppa ofan í laugina. Það var nú meira en litla hjartað þoldi, að einhver ókunnugur maður væri að setja ofan í við hann. Ég hélt svei mér þá að drengurinn myndi ekki jafna sig á þessu.

Ég ákvað að koma við í Skalla og kaupa ís handa honum, til að hann ætti allavega góða og jákvæða minningu sem tengdist þessum fyrsta sundtíma. Þá var krakkinn bara eitthvað grömpí og hálfhvæsti á konuna sem afgreiddi okkur. Svo neitaði hann að taka af sér Spiderman vettlingana og fór að gráta þegar ég sagði að hann fengi þá bara engan ís.

Þegar heim kom og ég tilkynnti honum að hann ætti að lesa í lestrarbókinni sinni þá neitaði hann því. Og er ég skipaði honum höstugum rómi að fara á klósettið, sem fór ekkert á milli mála að yrði að vera fljótlega á dagskrá, þá harðneitaði hann því.

Hann gaf sig þó, hljóp inn á klósett og lokaði. Svo heyrði ég í Lottu í Ólátagarði í gegnum lokaðar dyrnar: HEIMSKA MAMMA!!!

Hann er þó allavega farinn að nota setningar úr sínum ástkæru bíómyndum, á réttum stöðum. Ansi oft undanfarið hefur hann stappað niður hægra fæti að hætti Lottu og sagt háum og ákveðnum rómi: ÉG GERI ÞAÐ EKKI!!!

lotta1

 

Það getur þá átt við ýmis konar beiðnir sem ég ber upp við hann. Eins og: gakktu frá skónum þínum og úlpunni - komdu að borða - farðu að pissa - settu diskinn í vaskinn - bursta tennurnar - o.sfrv.

Í dag þegar ég var að segja Bretanum frá hinum skapgóða dreng, þá sagði Gelgjan: hann er að ganga í gegnum tíu-ára-feisið.

Eureka!! Auðvitað! Það er nákvæmlega það sem er að gerast og hefur verið að gerast undanfarna tvo mánuði. Ég hef bara ekki tekist á við það og verið alltof undanlátssöm. Verið að hlífa honum en auðvitað mest sjálfri mér.

Eftir pælingar og diskúsjónir höfum við komist að þeirri niðurstöðu að framundan er örlítið töff tímabil. Þar sem verður mikið um mótmæli, grát og gnístran tanna. En það er ekki það fyrsta og verður ekki það síðasta.

Og í þessum skrifuðu orðum var ég að uppgötva annað: þetta er fyrsta aldurstímabilið sem hann tekur á réttum aldri. Það hlýtur þó alltaf að vera góðs viti, ekki satt?

 

 


Hann náði tökum á mér í dag, helvítið á honum

 

Í gegnum allt krepputalið, svartsýnina og hörmungarspárnar hef ég siglt á mínu gamla, góða kæruleysi. Hinu íslenska mottói: Þetta reddast.

Á meðan við Bretinn höldum vinnunni og allir eru frískir og hægt er að klambra saman hænsnakofa í garðinum og nokkrar kindur geta verið þar á beit... þá er nú ekki hægt að kvarta.

En eitthvað gerðist í dag.... kannski var það bara veðrið. Mér er búið að vera nístingskalt inn að beini í allan dag. Þar til ég fór í frístælinn í kvöld. Og uppgötvaði að ég gleymdi að skipta um brjóstahaldara. Sem sagt, fara úr blúnduverkinu í íþróttabrjóstahaldarann.

Það var því ekki um annað að ræða en að halda sig í flíspeysunni, með rennt upp að höku ef þessar elskur áttu ekki að öðlast sjálfstætt líf í hopperíinu og angra mann og annan. Blúnduverk er ekki til þess fallið að halda neinu niðri. Bara uppi.

Mér hitnaði því sem um munaði í dansinum en nú er mér aftur kalt. Að utan sem innan.

Kreppu- og bölsýnispúkinn heldur í mig dauðahaldi. En ég er ákveðin í því að kæfa hann undir koddanum í nótt. Í fyrramálið verður allt bjartara.

 


Ryksuguróbót og kolvitlausar kerlingar

 

Við Bretinn fórum í fertugsafmæli hjá Bakarafrúnní á föstudagskvöldið. Hefði ekki getað verið skemmtilegra. Góður matur, frábær skemmtiatriði (bæði undirbúin og óvænt) skemmtilegar ræður, nóg af brennivíni og skemmtilegt fólk.

Bakarinn laug að allri fjölskyldunni að hann ætlaði að gefa frúnni ryksuguróbótinn í fertugsafmælisgjöf. Systragengið og systradætragengið var allt kolvitlaust út í hann og hann hélt lyginni á lofti allt fram til kvöldsins. Bakarasonurinn og bakaradóttirin voru afar áhyggjufull yfir þessari vitleysu í pabba sínum. Meira að segja þau, 12 ára og 8 ára, vissu að það er barasta ekki eitthvað sem maður gerir. Að gefa konu heimilistæki í afmælisgjöf.

Bakarafrúin hringdi í yngstu systurina um miðjan dag og hjálpaði Bakaranum með lygina. Jú jú hún staðfesti að ryksuga hefði komið út úr gjafapakkningu.

Yngsta systirin kallaði mág sinn helvítis fífl og hálfvita.

Við erum sem sagt að tala um heilan helling af kolbrjáluðum kellum. En Bakarinn stóð af sér storminn og skemmti sér konunglega. Ég fékk að sitja á hliðarlínunni og fylgjast með. Mér finnst hann hafa sýnt af sér visst hugrekki í heilan dag.

 


Manual / orðabók - viltu skilja karlmenn?

 

Besta ráðið fyrir okkur stelpurnar er að hætta að pirra okkur á hlutunum og taka þessum elskum eins og þeir koma úr verksmiðjunni  (I'm almost there...)

 

Orðabók

"Ég finn þetta ekki"  =  Þetta féll ekki í hendurnar á mér

 

"Get ég hjálpað til við matinn ?"  = Af hverju er maturinn ekki tilbúinn?

 

"Það tæki alltof langan tíma að útskýra það"  = Ég hef ekki hugmynd um það hvernig það virkar.

 

 

"Ég hreyfi mig meira þessa dagana" = Batteríin í fjarstýringunni eru ónýt.

 

 

"Taktu þér smá pásu elskan, þú hamast alltof mikið" =  Ég heyri ekki í fótboltaleiknum fyrir helvítis ryksugunni.

 

"Þetta er áhugavert elskan"  = Ertu ennþá að tala.

 

"Elskan mín við þurfum ekki á dauðum hlutum að halda til að sanna ást okkar"  = Ég gleymdi brúðkaupsafmælinu aftur.

 

"Ég aðstoða við heimilisstörfin"  = Ég henti einu sinni óhreinu handklæði nálægt þvottakörfunni.

 

"Þú ert svakalega flott í þessum fötum"  = Gerðu það ekki prófa fleiri föt, ég er að deyja úr hungri.

 

"Ég saknaði þín"  = Ég finn ekki sokkaskúffuna mína, krakkarnir eru svangir og klósettpappírinn er búinn.

"Við deilum húsverkunum"  = Ég skít út, hún þrífur það.

 

"Mér varð hugsað til þín og keypti þessar rósir"  = Stelpan sem var að selja þau var algjör skutla

 

"Ég þarf ekki að lesa leiðbeiningarnar"  = Ég er fullfær um að klúðra þessu án þess að lesa mér til um það

 

"Við erum ekki villt, ég veit alveg hvar við erum"  =  Það sér enginn okkur á lífi aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband