Færsluflokkur: Lífstíll
Fimmtudagur, 6. ágúst 2009
Sumarið 2009
Sumarið 2009 er sumarið sem Íslendingar kusu að eyða krónunum sínum í bensín, íslenskar vegasjoppur, tjaldsvæði og grillmat og ferðuðust innanlands.
Þetta átti að verða sumarið sem ég gerði nákvæmlega ekki neitt vegna efnahagsástandsins, en varð sumarið sem ég hef aldrei verið hreyfanlegri.
Þrjár sumarbústaðarferðir, ein utanlandsferð, sólarhringsdvöl í sveitasælu Borgarfjarðar og, afar merkilegt í augum þeirra sem þekkja mig: útilega með tjaldi, uppblásnum dýnum, ferðagrilli og tilheyrandi. Þeir tveir, sem eru aðalástæða óhreyfanleika míns almennt, Viddi Vitleysingur og Sá Einhverfi, voru með í för í umræddri útilegu.
Á meðan Viddi gelti óspart á hunda og menn, svaf Sá Einhverfi inni í tjaldi í rúmlega hálfan sólarhring. Þetta er sem sagt sumarið sem ég fann lausn á svefnleysi drengsins. Hér eftir mun ég tjalda í bakgarðinum ef ég vil að drengurinn sofi meira en 5 tíma í einum rikk.
Sumarið 2009 er líka sumarið sem ég varð mér úti um bjórvömp án þess að drekka bjór. Ætli ég verði ekki að skella skuldinni á (stöðugt) sull í hvítvíni og rauðvíni, vöðvaslökun og ótæpilegt magn matar. En bumban líkist bjórvömb hvernig sem á það er litið.
Sumarið 2009 er sumarið sem átti að rigna stöðugt og ég ætlaði að vera óstöðvandi í rithöfundagírnum og uppfull af andagift en breyttist í sumarið sem ég skrifaði ekki neitt. Ekki einu sinni bloggfærslur. Og aldrei á ævinni hef ég verið duglegri að liggja í sólbaði.
Sumarið 2009 var mér afskaplega gott. Og það er ekki búið enn....
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Ég tek ofan fyrir rithöfundum
Ef ég ætti hatt, tæki ég hann ofan fyrir rithöfundum!!
Fjórar klukkustundir á dag við skriftir og ég er ámóta þreytt og eftir 13 klukkustunda vinnutörn í skrifstofujobbinu mínu. Gjörsamlega úr mér allur vindur, kraftur og þrek.
Mér skilst að Arnaldur sitji við 8 klukkutíma á dag. Er það hægt, spyr ég? Arnaldur! Ha?
Í dag ætla ég að sitja heilalaus í sundlaug og heitum pottum í Hveragerði eða Borgarnesi. Stara út í loftið og hugsa um ekki neitt. Sellurnar mínar þurfa hvíld. Það er ljóst að ég sest ekki aftur á skólabekk á gamals aldri.
p.s.
þrir dagar í heimkomu Þess Einhverfa og vika í heimkomu Unglingsins. Kvíði fyrir og hlakka til í senn.
Sunnudagur, 5. júlí 2009
Vísindalegar kannanir og próf sem við gerum á eiginmönnum okkar
Ekki held ég að ég þekki þá konu sem ekki hefur framkvæmt ''vísindalegar'' kannanir á eiginmanni/sambýlismanni sínum. Kannski mætti þó frekar segja ''vísindalegar'' kannanir á viðbrögðum á vissum aðstæðum.
Ekkert er án undantekninga en getum við ekki öll verið sammála um það að flestir karlmenn eru blessunarlega lausir við að láta óreiðu á heimilinu fara í taugarnar á sér. Má þá nefna föt sem liggja á víð og dreif, bækur og blöð og annað dótarí. Óhreint leirtau og ryk í hornum. Í mörgum tilfellum má segja að þeir hreinlega sjái ekki drasl.
En við, kvenpeningurinn, eigum afskaplega erfitt með að sætta okkur við þennan eiginleika í fari eiginmanna/sambýlismanna okkar. Og því leggjum við fyrir þá þrautir og próf. Við segjum þeim að sjálfsögðu ekki frá því fyrr en eftir á. Mörgum dögum seinna. Þá höfum við haft allan þann tíma til að byggja upp innri pirring sem fer stigvaxandi með hverjum klukkutímanum sem líður og endar með háum hvelli. Og þeir standa greyin, með tómt og starandi augnaráð, á meðan kastið gengur yfir og það er auðséð á svipnum hversu ráðavilltir og lost þeir eru.
Próf sem þessi beinast að sjálfsögðu að öllum fjölskyldumeðlimum ef börnin eru orðin stálpuð, en þegar upp er staðið er það karlmaðurinn sem ber hitann og þungan af, svo til alltaf neikvæðri, útkomu slíkra prófa.
Nýjasta prófið af þessum toga sem ég lagði (meðvitað) fyrir fjölskyldumeðlimi var klósettrúllu-prófið. Það fór að fara í taugarnar á mér að enginn, ENGINN, nema ég skipti um klósettrúllu á sómasamlegan hátt. Það er að segja, fjarlægði tóma rúllu af klósettrúllu-standinum, setti nýja á og henti þeirri tómu í ruslið.
Aðrir fjölskyldumeðlimir kláruðu rúlluna, tóku hana vissulega af standinum (vel gert you all) og settiu jafnvel nýja á. En tómu rúllunni var ávallt stillt upp á heiðursstað. Hún rataði aldrei í ruslið.
því ákvað ég einn daginn að ÉG ætlaði ekki að fleygja helvítis rúllunum, heldur gera þessa hávísindalegu tilraun; Hversu margar tómar rúllur þyrftu að safnast fyrir á hillunni á bak við klósettið, til þess að einhver kæmi auga á þær og hugsaði; neeei heyrðu, þetta á ekki heima þarna heldur í ruslinu.
Þarf ég að taka það fram að það gerðist ekki!?
Sjö tómar rúllur tróndu stoltar á baðherberginu mínu og hlógu að mér, og þá fékk ég nóg. Kallaði að sjálfsögðu á Bretann og kynnti fyrir honum niðurstöður þessarar könnunar.
Hann hló. Og ég líka reyndar. En þær eru ekki alltaf jafn fyndnar þessar niðurstöður.
Aðrar tilraunir sem ég hef gert er að taka bara til á mínu náttborði (hann tók aldrei eftir því), þvo bara þann þvott sem ratar í óhreina-taus-körfuna (hann tók aldrei eftir því), stilla gluggapósti upp á borðstofuborðinu því hann segist ætla að fara í gegnum hann (pappirsruslið var þar í 10 daga), henda ekki afgöngum úr ísskápnum sem hann segist ætla að borða (þeir enda á að koma skríðandi á móti manni einn daginn)......
Einni tilraun heyrði ég af um daginn, en hún fól í sér að ryksuga var skilin eftir í gangveginum. Eiginmaðurinn þurfti bókstaflega að klofa yfir hana, bæði til að komast inn í svefnherbergi og eins inn á baðherbergi. Ryksugan sú stóð á sama punktinum í heila viku. Og ég þarf ekki að segja ykkur að það var ekki eiginmaðurinn sem fjarlægði hana á endanum.
Önnur tilraun á sama heimili: wc pappírinn kláraðist á klósettinu á efri hæðinni og húsmóðirin ákvað að nú skyldi hún ekki verða sú sem handlangaði klósettpappír frá neðri hæð á þá efri. Í nokkra daga varð hún vör við alls konar hjálpargögn; bómullarhnoðra, eldhúsrúllu sem einhvern veginn slæddist inn á baðherbergi, blautþurrkur.... en enginn í fjölskyldunni gerði sér ferð niður til að sækja þetta sem við getum ekki verið án; klósettpappír.
Það fyndna er (og jókið er á kostnað okkar kvenfólksins) að ef tilraunin fer öðruvísi en við búumst við, þ.e. er karlmaðurinn bregst við áreitinu og fjarlægir/sækir/þrífur/hendir, þá verðum við svolítið svekktar. Búnar að pirrast inn í okkur í marga daga og okkur vantar útrás og þá svíkur karlpungurinn okkur með því að gera það sem við vildum að hann gerði...
Úff. Life is hard.
Segið mér sögu krakkar.........
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Þriðjudagur, 30. júní 2009
Dagur 1 í sumarfríi - Ég keypti mér skó í gær
Mánudagur 29. júní 2009
1. dagur sumarfrís. Kerlingin eyddi peningum. Karlinn fór í golf.
Ég keypti mér skó í gær...................................................................
Segir það ekki allt sem segja þarf um gærdaginn? Það gefur auga á leið að hann var vel heppnaður.
Friis & Company, Kringlunni, bauð mér (ásamt heilum helling af öðrum dömum) að koma og versla eftir lokun. Og ég mætti á svæðið með einbeittan brotavilja, þ.e. að eyða peningum.
Að máta skó og skart með hvítvínsglas í annarri hönd, er ekki amalegt. Og vökvinn gerir það að verkum að kortið er rétt fumlaust fram og án alls samviskubits.
Svo vaknar maður bara upp með eyðslu-timburmenn sem rjátla af manni og eru horfnir með öllu upp úr hádegi. ....þar til Visa-reikningurinn dettur inn um lúguna.
En það breytir því ekki að eftir stendur gordjöss par af skóm sem eru mínir. MÍNIR!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 28. júní 2009
No búfé allowed to cross
Við keyrðum austur í sumabúðirnar í dag með Þann Einhverfa. Hann var glaður, kátur, spenntur og fullur tilhlökkunar. Sitjandi í aftursætinu með gifsspelkuna sína á hægri handlegg og fatlann hangandi um hálsinn. Hann ljómaði eins og sólin þegar húsið á Laugalandi kom í ljós. Það gladdi mig ekki lítið.
Við byrjuðum á því að kíkja á herbergið hans og losa okkur við töskuna. Svo fórum við fram í matsal og fengum okkur að borða. Svo stakk stráksi okkur af og fór niður í íþróttasalinn. Öllum hnútum kunnugur.
Þegar við komum niður var hann á harðahlaupum með bolta. það var ekki erfitt að koma auga á hann innan um allan hópinn. Svona stórglæsilegan í kóngabláu allt frá háu fótboltasokkunum, upp í derhúfuna í fánalitunum.
Við spjölluðum við Telmu sem verður hans umsjónaraðili í sumar á móti Ragnhildi. Létum hana fá allar upplýsingar um Þann Einhverfa sem okkur mögulega datt í hug.
Að því loknu var ég komin með aðskilnaðarkvíða og sagði við Bretann að best væri að kveðja og drífa sig af stað.
Við kölluðum á brosmilda drenginn okkar sem mátti í raun ekkert vera að því að tala við okkur.
Bless Ian sagði Bretinn og fékk koss. Sjáumst eftir 14 daga.
Sjáumst sagði Sá Einhverfi
Bæ ástin mín sagði ég og tók utan um hann.
Bæ sagði hann og hallaði höfðinu andartak upp að mér. Svo sneri hann sér snöggt við og gekk í burtu. Ég horfði á eftir honum því ég vissi að nokkur tár láku og hann var að fela þau.
Hann fékk sér sæti á stórri dýnu innst í salnum með bakið í okkur.
Þegar við fórum sat Telma hjá honum. Ég veit að hann hefur jafnað sig á 10 mínútum.
Kerlingin og karlinn jöfnuðu sig líka og brenndu á veitingahúsið Fjöruborðið á Stokkseyri og borðuðu þar dásamlega humarsúpu ásamt nýju heimabökuðu brauði og hvítvínsglasi.
Á leiðinni heim vorum við í okkar venjulega gír, þ.e. tuðandi í hvort öðru. Það getur verið hin besta skemmtun. Allavega þar til öðru hvoru okkar tekst að koma svo við kauninn á hinu að úr verði alvöru rifrildi.
I will have to throw you out of the car now, sagði Bretinn skyndilega. There is no búfé allowed to cross over here. Hann benti á ímyndaða línu á veginum.
You mean no cows, sagði ég þurrlega.
Thats right, sagði Bretinn og hélt fast um stýrið. No cows allowed.
Og við sem erum rétt að hefja 2ja vikna frí saman.
Ég leyfi ykkur að heyra hvernig það gengur.
Lífstíll | Breytt 9.7.2009 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 24. júní 2009
Úr á hægri fimmtudagur
Sá Einhverfi kom heim úr Vesturhlið síðastliðinn föstudag, plástraður í bak og fyrir. Eða því sem næst. Þar sem hann virtist finna til í hendinni vakti plásturinn á hægra handarbaki sérstaklega forvitni mína. Ekkert var að sjá þegar hann var fjarlægður en okkur Bretanum tókst nú samt að sjá bæði vísbendingar um bruna, sem og tannaför. Nett ímyndunarveiki.
Í samskiptabókinni var ekkert að finna um nein meiðsli eða óhapp svo ég ákvað að hann hefði dottið og meitt sig örlítið. Ef stráksi finnur einhvers staðar til þá heimtar hann plástur og krem, þó að ekkert sé sárið.
Á laugardeginum sá ég að Sá Einhverfi hlífði höndinni eftir bestu getu og þegar ég þreifaði hana þá kveinkaði hann sér. En hann var nú samt skrifandi og ég gat beygt alla putta á honum o.s.frv. Ég ákvað því að ég nennti ómögulega að fara upp á bráðamóttöku, sitja þar í fleiri klukkustundir, bara til að láta segja mér að strákurinn væri tognaður og ekkert hægt að gera.
en eftir að hafa hlustað á sögur hjá vinum og vandamönnum um börn sem nánast klifu fjöll hand- og fótbrotin vegna þess að foreldrarnir ''neituðu að hlusta á þetta væl.. bara smátognun'' o.sfrv., þá ákvað ég að svo slæm móðir gæti ég ekki verið.
Það var haldið í leiðangur, Sá Einhverfi, Bretinn og ég. Með í för upp á slysavarðsstöfu var bakpoki með ferðatölvunni minni og einum 7 DVD myndum. Ég var sko viðbúin 10 tíma viðveru í Fossvoginum.
Sá Einhverfi var ótrúlega duglegur. Aðalvandamálið var að fá hann til að taka af sér vatnsþétta úrið sitt sem hann ber ávallt á hægri hendi, til að hægt væri að mynda hann.
Annað vandamál var að ég fór næstum að grenja þegar læknirinn sagði að hann ætti að vera í gifsi í tvær vikur, því Sá Einhverfi er að fara í sumarbúðirnar á sunnudaginn og þar er farið í sund á hverjum einasta degi. Hugurinn fór á flug: ég yrði að afpanta fyrri vikuna og það yrði hræðilegt fyrir hann... og mig. Geðið mitt hangir á bláþræði og sá þráður er beintengdur við nk sunnudag. Ef ég ekki ek prinsinum mínum í sveitina þann dag, þá er ég hrædd um að þráðurinn slitni og verði fyrir varanlegum skaða.
En þetta var eðallæknir því hann lofar okkur nýju gifsi á fimmtudaginn. Reimað skilst mér. Hægt að fjarlægja og setja á aftur án vandkvæða.
Það spaugilega var að allt í allt tók þetta ekki nema um eina og hálfa klukkustund. Og út gekk sá Einhverfi með gifs-spelku á brákuðum úlnlið og hann hafði ekki náð að horfa á nema bara brot af Kalla Blómkvist.
Eftir að heim var komið með gifsaðan dreng sýndi hann tilburði í þá átt að vilja plokka heftiplástur og sárabindi sem handleggurinn var vafinn með, af sér. Því ákvað ég að láta hann sofa upp í hjá mér á sunnudagsnóttina til að vakta hann. Bretann rak ég í rúm sonarins.
Ég vaknaði á sunnudagsmorguninn um sexleytið, við það að Sá Einhverfi fór framúr. Ég reis upp við dogg og horfði á hann svefndrukknum augum. Eitthvað dinglaði í hendi hans. Ég rýndi betur og grunaði strax hvers kyns var. Litla skrímslið hélt á gifsinu ásamt henglum af sárabindi og heftiplástri. Þetta hafði hann dundað sér við í rúminu við hlið móður sinnar. Varlega og ævintýralega hljóðlega.
ARGH...
Mamma róleg, sagði skrímslið.
En ég var langt frá því að vera róleg. Ég fór og keypti nýtt sárabindi og heftiplástur og barasta ''klæddi'' drenginn í allt heila klabbið aftur. Hann hefur ekki vogað sé að endurtaka leikinn. Og nú er bara einn dagur í nýtt gifs.
Ég er aftur á móti búin að ljúga að honum allan tímann að hann fái úrið sitt aftur á fimmtudaginn. Slík lýgi getur verið nauðsynleg. Eins og í þessu tilviki til að hann fáist á endurkomudeildina með mér.
Og hann staglast á sömu orðum margoft á dag: Mamma, úr á hægri fimmtudagur.
Já Ian, segi ég með lygaramerki á fingrunum. Úr á hægri á fimmtudaginn.
Föstudagur, 19. júní 2009
Góði Guð gefðu mér samfellda rigningu í sumarfríinu
Er hægt að skrifa heila bók á 3 mánuðum? Það er sú spurning sem ég velti fyrir mér í dag. Og í gær reyndar líka. Og mun örugglega enn vera að velta henni fyrir mér á morgun.
Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Eða er það ekki annars?
Kannski er þetta spurning um að hætta að velta fyrir sér spurningum og koma sér að verki.
Eftir viku fer ég í 2ja vikna sumarfrí. Kannski lengra. Svei mér þá ég held ég biðji fyrir rigningu. Það verður ansi erfitt að halda sig inni við skrif í glaða glampanda sólskini.
Nema... er til einhvers konar skjávari fyrir laptop, svo hægt sé að sitja úti og actually sjá á skjáinn?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 17. júní 2009
Frelsi
Það var komið að hinni mánaðarlegu gistingu í Hólabergi í dag. Sá Einhverfi var afskaplega vel ballanseraður og engin mótmæli komu frá honum þegar ég tilkynnti að tími væri til kominn að fara í bílinn og keyra í Hólaberg.
Hann gekk keikur inn í húsið, fór beint með töskuna sína inn í herbergi og kom sér síðan fyrir í sófa í sjónvarpshorninu.
Ég talaði í skamma stund við starfsfólkið en fór svo að faðma drenginn minn og kyssa í kveðjuskyni.
Bless ástin min, sjáumt á morgun klukkan klukkan átta, sagði ég.
Hann endurgalt faðmlagið. Bless ástin mín, svaraði Sá Einhverfi. Sjáumst á morgun.
Ég gekk í burtu og mér var létt. Þetta var auðveldara en ég bjóst við. Svo leit ég um öxl og sá að hugrakki strákurinn minn var að reyna að halda aftur af grátviprunum um munninn. Vildi ekki að mamma sæi hann beygja af.
Ég hjúpaði hjartað harðri skel og gekk út í sólskinið. Ég vissi að hann myndi jafna sig mjög fljótt.
Frelsistilfinningin heltók mig þegar ég settist undir stýri og ók í burtu. Rúmlega sólarhringur framundan af algjöru áhyggjuleysi og rólegheitum.
Ég er komin svooooo langa leið frá því sem einu sinni var: Ekkert samviskubit yfir að yfirgefa barnið mitt. Ekkert samviskubit yfir að fyllast frelsistilfinningu. Ekkert samviskubit yfir að hafa ekki samviskubit.
Allavega get ég talið sjálfri mér trú um það. Og það er sigur á vissan hátt.
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Geirvörtur og naflar
Íslenska er fallegt mál að mínu mati, enda er ég Íslendingur. En sum orð mun ég aldrei geta sætt mig við.
Hvað er til dæmis málið með orðið nafli (borið fram nabbli)??
Íslenskir nabblar eru feimnismál og ég stend á þvi fastar en fótunum að ástæðan er þetta gelgjulega orð: NABBLI.
Það er ekkert sætt, krúttlegt eða sexý við orðið nabbli.
Muniði eftir unglingabókinni: Sjáðu sæta naflann minn.
Ææææ
Belly button er allt annar handleggur. Það er orð sem enginn þarf að skammast sín fyrir að segja upphátt. En ekki væri nú samt gott að þýða orðið beint yfir á íslensku:
- maga-tala
- bumbu-hnappur
- vamba-takki
Neee... gengi aldrei
Svo er það orðið sem hrein skömm er af:
GEIRVÖRTUR
Þetta skelfilega orð kveikir ekki í nokkrum manni.
Konur, reynið að vera tælandi á sannfærandi hátt þegar þið segið við elskhuga ykkar: Geirvörturnar á mér eru pinnstífar af æsingi.... eða eitthvað slíkt.
Hverjum datt í hug að líkja þessum fallega parti af líkamanum, sem hefur þar að auki jafn göfugan tilgang, við hann Geir sem var allur útsteyptur í vörtum?
Nei má ég þá frekar biðja um hið dísæta og girnilega orð Ameríkana og Englendinga: nipples.
Jammí
Minnir á nibble (nart). Hvað er betur við hæfi?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 9. júní 2009
Gelgjan, Tannálfurinn og Sá Einhverfi
Gelgjan fékk afskaplega fallegt silfurskrín í skírnargjöf á sínum tíma. Það er kringlótt, örsmátt og fóðrað að innan með kóngabláu filt-efni. Á lokinu situr undursmár, lítill tannálfur.
Skrínið rúmar eina.. í mesta lagi tvær barnatennur.
Þetta skrín hefur samviskusamlega verið lagt undir koddann, hvenær sem tækifæri hefur skapast og vegna míns einstaklega góða sambands við Tannálfinn hefur gelgjunni áskotnast íslenskar krónur í skiptum fyrir hverja tönn. Annars skilst mér að evran sé aðal gjaldmiðillinn.
Sá Einhverfi fékk ekkert slíkt skrín í skírnargjöf. Þó tel ég ekki að það sé ástæðan fyrir því að allar þær tennur sem hann hefur misst hafa horfið. Púff! Gjörsamlega gufað upp. Þeim Einhverfa hefur ekki áskotnast svo mikið sem tíeyringur fyrir sitt postulín.
Hann hefur sennilega ýmist spýtt þeim út úr sér þar sem hann stóð á hverjum tíma, kyngt þeim eða hent þeim í ruslið.
Á sunnudaginn síðasta heyrði ég kvörtunarhljóð frá mínum manni berast niður frá efri hæðinni.
Á mamma að hjálpa? kallaði ég upp til hans.
Hann þáði það og ég rölti upp stigann. Inn í herberginu sínu stóð Sá Einhverfi og gapti framan í mig, þegar ég birtist.
Það fyrsta sem mér datt í hug var tannpína. Andskotinn, hugsaði ég. En þegar ég fór að þreifa fyrir mér uppgötvaði ég að hann var með tvo lausa jaxla, sitthvoru megin.
Þetta er allt í lagi Ian, sagði ég. Lét hann setjast á rúmið með mér og teiknaði upp fyrir hann skælbrosandi munn með fullt af tönnum. Merkti þær sem voru lausar upp í honum, notaði ör til að sýna honum að þessar tennur myndu detta og reyndi að útskýra að hann myndi svo fá nýjar.
Drengurinn horfði á mig og það var augljóst hvað hann hugsaði: hvað er kerlingin að röfla núna!?
Svo potaði hann í tennurnar og kvartaði.
Ég gafst upp og fór niður aftur. Hugsaði með mér að þetta yrði bara að hafa sinn gang.
En mér skjátlaðist. Þegar ég fór inn á baðherbergi stuttu síðar, voru rifur af alblóðugum klósettpappír í klósettinu og á botninum glampaði á lítinn hvítan jaxl. Eða voru þeir tveir?
Ég hef enn ekki kannað hvort báðar tennurnar séu horfnar. Ég hef grun um að svo sé. Drengurinn er greinilega ekki á því að hafa einhverja skröltandi aukahluti upp í sér. Hann tekur málin í sínar hendur. Ekkert vesen.
Á meðan safnar Tannálfurinn vöxtum á íslensku krónurnar sem hann þarf ekki að leggja út.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Formúla 1
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 1640569
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2019
2018
2010
2009
2008
2007
Bloggvinir
- solskinsdrengurinn
- skrifa
- jenfo
- gelgjan
- annambragadottir
- marzibil
- brynja
- hk
- gurrihar
- lehamzdr
- katlaa
- eddaagn
- jahernamig
- hronnsig
- martasmarta
- katrinsnaeholm
- palmig
- ipanama
- hallarut
- tommi
- ktomm
- poppoli
- svavaralfred
- kollajo
- bergruniris
- bene
- bennason
- jensgud
- solrunedda
- heidathord
- ringarinn
- tofraljos
- kjaftaskur
- ormurormur
- zeriaph
- unns
- ellasprella
- hjolagarpur
- salka
- nonniblogg
- markusth
- rebby
- birna-dis
- garun
- landsveit
- olofannajohanns
- brylli
- evaice
- ingolfurasgeirjohannesson
- rustikus
- singer
- jaxlinn
- krossgata
- mummigud
- blekpenni
- gerda
- baddahall
- holi
- grafarholt
- gudnylinda
- thegirl
- gretarorvars
- thordis
- herdis
- mammzan
- sigthora
- bet
- saedis
- emmgje
- sigurjonsigurdsson
- janus
- astromix
- overmaster
- thorasig
- gudni-is
- sunnadora
- kjarrip
- 810
- gislihjalmar
- beggagudmunds
- sirrycoach
- betareynis
- ilovemydog
- rannveigmst
- stormadis
- perlan
- bergdisr
- skondrumamma
- snar
- stormur
- ljonid
- raggipalli
- hjordiz
- almaogfreyja
- katja
- lady
- sigrunfridriks
- zunzilla
- olinathorv
- bidda
- smjattpatti
- jogamagg
- disadora
- harpao
- fuf
- alexm
- larahanna
- juliaemm
- saemi7
- gudrunmagnea
- svala-svala
- kari-hardarson
- hlf
- hlinnet
- annagisla
- einari
- lena75
- hector
- saethorhelgi
- ernafr
- birnarebekka
- heidistrand
- kerla
- hannamar
- jara
- supermamma
- monsdesigns
- malacai
- solveigth
- siggathora
- senorita
- snjaldurmus
- photo
- stingi
- pollyanna
- steingerdur
- icekeiko
- majaogco
- skordalsbrynja
- danjensen
- lilly
- heidabj
- omarpet
- helgamagg
- nori
- jamesblond
- gretaulfs
- rattati
- hogni
- ragjo
- kolgrima
- skjolid
- hugrunj
- egill75
- amman
- liljabolla
- asgerdurjoh
- okurland
- rannthor
- svalaj
- siggith
- vefritid
- zsapper
- laz
- graceperla
- rannug
- agbjarn
- alliragg
- fjarki
- birtabeib
- roslin
- lindape
- rosa
- tinnaeik
- muszka
- krummasnill
- lindalea
- fjola
- solan
- scorpio
- evabenz
- isleifure
- karitryggva
- ellasiggag
- beggita
- ollabloggar
- madddy
- songfuglinn
- emm
- lindagisla
- turettatuborg
- einarsigvalda
- huldadag
- siggasin
- credo
- loathor
- carma
- komaso
- fifudalur
- rosabla
- lillagud
- eythora
- griman
- eyrunelva
- svanurg
- strumpurinn
- godihundur
- hallidori
- annriki
- sibbulina
- helgurad
- huldumenn
- julianamagg
- berglindnanna
- huldam
- joik7
- venus
- osland
- liso
- amaba
- asako
- hryssan
- mammann
- leyla
- gunnarggg
- sigrunzanz
- fanneyunnur
- himmalingur
- helgabst
- bostoninga
- christinemarie
- jea
- elisabeta
- perlaoghvolparnir
- meyjan
- wonderwoman
- coke
- ragnhildurthora
- gullilitli
- tommi16
- ea
- mariaannakristjansdottir
- einarorneinars
- lindalinnet
- joninaros
- reynzi
- rosagreta
- lauola
- reynir
- elinora
- ma
- olapals
- bestalitla
- kolgrimur
- handtoskuserian
- vonin
- kaffi
- einarhardarson
- gleymmerei
- brandarar
- alf
- hreinsamviska
- litlakonan
- lucas
- reisubokkristinar
- jgfreemaninternational
- olofdebont
- thjodarblomid
- vilma
- ollana
- gudrununa
- holar
- gotusmidjan
- huldastefania
- mubblurnar
- bjarnihardar
- vild
- skrudur
- jyderupdrottningin
- sifjan
- letilufsa
- hrundt
- robbitomm
- brudurin
- anitabjork
- blindur
- astabjork
- bailey
- gattin
- draumur
- einhugur
- trygg
- eskil
- evags
- gudrunkatrin
- gudrunss
- nf26b
- topplistinn
- helgaas
- helgatho
- hildurhelgas
- drum
- innipuki
- ingal
- kikka
- astroblog
- oliskula
- joklamus
- stjornlagathing
- sattekkisatt
- athena
- kariaudar
- vga
- thorolfursfinnsson
- motta