Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Með rassinn úti

 

Ég á engin föt!

Ég held að við, sem tilheyrum kvenþjóðinni höfum allar með tölu, einhvern tíma á lífsleiðinni, látið þessi orð út úr okkur. Og þau eru mis-sönn þegar þau eru sögð. Kannski er réttara að segja að þau séu mismikil lýgi.

Ég ákvað fyrr í kvöld, að byrja mánudagsmorguninn á því að fara í ræktina. Og þá hefst skipulagið. Taka til íþróttafötin, nestið til að hafa með í vinnuna og svo kvölin og pínan; Velja föt úr fataskápnum til að fara í eftir spriklið og sem nota bene: þurfa að haldast utan á mér allan daginn, á þann hátt að ekki sé skömm að.

Og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur bætt á sig kílóum en er harðákveðin í að kaupa sér ekki föt, fyrr en þau kíló eru horfin, er þetta allt annað en auðveld og/eða ánægjuleg athöfn.

Í kvöld var ég þó lukkuleg með mig. Búin að ákveða í huganum að  uppáhalds gallabuxurnar mínar (ég á tvennar (sem ég passa í)),  færu ofan í íþróttatöskuna.

Er ég tók þær fram rak ég augun í gat á rassinum. GAT. Nánar tiltekið í rassaskorunni. Neðarlega. Og svo sá ég annað gat.

Ég hefði getað farið að grenja. Gerði það þó ekki en hugsaði; það var þó allavega heppilegt að buxurnar rifnuðu ekki utan af mér á miðjum vinnudegi.

En svo datt mér í hug að kannski hefðu þær einmitt gert það síðast þegar ég var í þeim, og ég sprangað með hálfan rassinn úti, um alla skrifstofu, samstarfsfólki mínu til gleði og yndisauka.

Og þá fór ég að gráta.

Ég fæ sennilega aldrei að vita staðreyndir í því máli. En ég er að spá í hvort það borgi sig að fara með mínar heittelskuðu gallabuxur, sem eru komnar vel til ára sinna, á saumastofuna í Skeifunni og láta bæta þær.

Ég er þó ansi hrædd um að það borgi sig ekki. Við nánari eftirgrennslan sé ég að efnið er orðið öööööörþunnt á öllu rass-svæðinu, sem skýrir kannski afhverju þessar gallabuxur hafa passað á mig allan þennan tíma. Þær hafa stækkað með mér eftir bestu getu, þessar elskur. Og nú gátu þær ekki meir.

En eitt er víst; ekki fer ég og kaupi mér gallabuxur fyrir þrettánþúsundkrónur í dag, sem verða orðnar AAAAAAALLTOOOOOOF stórar á mig, bara eftir nokkrar vikur, þegar ég verð orðin Jóna Mjóna.

 

 


Punghlíf vs hjálmur

 

 

Fyrsta punghlífin var notuð í íshokkíi árið 1874 og fyrsti hjálmurinn árið 1974.

Það tók karlmenn 100 ár að átta sig á að að hausinn væri líka mikilvægur!

 

Fánýtur, en skemmtilegur fróðleikur. Og ég velti fyrir mér; er ekki líklegt að aðili með pung (þ.e. karlmaður) hafi fundið upp punghlífina, og aðili með heila (þ.e. kvenmaður) fundið upp hjálminn?

 


Vasaklútar í brjóstastærðum

 

Sá Einhverfi röltir nú í hringi úti á trampólíninu og öskrar og gólar út í loftið til að fá útrás fyrir reiðina. Öðru hvoru heyrist: ''HEIMSKA MAMMA'' og því er greinilegt að hverjum illskan beinist. Ekki að ég hafi verið í neinum vafa um það fyrir.

Mér varð það á í dag, að vera komin heim á undan honum, sem er ekki vinsælt. Oft á tíðum brestur hann í sáran grát þegar hann horfist í augu við smettið á móður sinni við heimkomu. Ég viðurkenni fúslega að ég hef litla þolinmæði gagnvart þessum tiltekna dynti í barninu. Vil hann helst sem fjærst mér þegar hann er í þessum ham.

En það er akkúrat á þessum stundum sem hann kýs að vera gjörsamlega límdur við mig. Tekur utan um mig og krækir höndunum fyrir aftan bak, svo ég get mig varla hreyft. Svo nuddar hann andlitinu í bolinn minn/skyrtuna/jakkann... með öllum þeim líkamsvessum sem spýtast fram við ákafan grát. Ohh ég get alveg tapað mér.

Ég skipaði honum að sleppa mér og hann linaði aðeins takið. Rétt svo þannig að nú var hann í beinni sjónlínu við hægra brjóstið á mér. Hann virtist sjá eitthvað athugavert svo ég fylgdi augnaráði hans og sá að ég skartaði aukabrjósti, sem mótaði fyrir í gegnum bolinn.

Kannist þið við þetta dömur? Þetta aukabrjóst sem myndast þegar brjóstahaldarinn er of lítill eða of stór eða of víður eða of þröngur... veit ekki alveg hvað er vandamálið þó ég viti að ég þurfi að endurnýja BH lagerinn minn. 

Sá Einhverfi klappaði létt á þessa aukabungu eins og til að reyna að fjarlægja hana. Það tókst ekki og hann gerði aðra tilraun. Þá skellti ég upp úr þó að mig hefði andartaki áður langað til að gefa hann á tombólu.

En stráksi sá ekki spaugilegu hliðina á aukabrjóstum frekar en öðrum brjóstum og eyðir nú tíma á trampólíninu í eigin fúla félagsskap.

Hvert fer maður svo til að fá almennilega brjóstahaldara?

 


Kot í sveit

 

Mér og minni familíu var boðið í bústað með Bakarahjónunum um helgina. Dvöldum í Grímsnesinu frá laugardegi til sunnudags. Og þvílík sæla.

Hvernig stendur á því að fólk slakar betur á í bústað heldur en heima hjá sér? Er þetta nálægðin við náttúruna? Að geta setið úti á palli og heyra ekkert nema þyt í laufi og fuglasöng? Umferðarniður víðs fjarri.

Að sjá börnin koma röltandi utan úr móum, drullug upp fyrir haus með prik í hönd fyrir göngustaf er afskaplega gefandi.

Líka að finna þrastarhreiður með fjórum ungum, kyrfilega staðsett upp við húsvegg. Og á einum sólarhring sjá þá stækka, dafna, breiða úr sér og að lokum fljúga út í buskann.

Ég komst að því að eltingaleikur og feluleikur í náttúrunni í ausandi rigningu, vekur upp barnið í manni.

Heiti potturinn lét bíða eftir sér, þ.e. hann hitnaði seint, og Þann Einhverfa þraut þolinmæði, dreif sig í sundbuxurnar og brást ókvæða við þegar hin börnin stoppuðu hann. Ég kom að honum hágrátandi í sorgarferli og ákvað að best væri að leyfa honum að finna hitastigið á eigin skinni. Hann skellti sér því í  17 °C heitan (kaldan) pottinn og entist mun lengur en ég bjóst við.

Seinna tóku svo Gelgjan og Bakarasonurinn miðnætursund í pottinum en þá var hitastigið komið upp í einar 25°C.

Engum virðist hafa orðið meint af.

Mikið langar mig í lítið kot í sveitinni. Það er gott að eiga drauma.

 


Heppin, heppnari, heppnust

 

Á einhverjum tímapunkti var trampólín veður um síðustu helgi og þau systkini, Gelgjan og Sá Einhverfi hömuðust sem mest þau máttu á ferlíkinu. Reyndar á Sá Einhverfi það til að láta systur sína um allt erfiðið. Hann sest niður með krosslagða fætur og bíður skælbrosandi eftir þjónustu. Þá tekur hún til við að hoppa hringinn í kringum hann og hann skoppar skellhlæjandi upp og niður, hendist til hliðanna og veltist um. 

Það er ótrúlegt þolið sem stúlkan hefur. Bróðir hennar er 18 kílóum þyngri en hún og ekkert lítil átök sem þarf til að skemmta honum á þennan hátt, þó ekki sé nema í 2 mínútur eða svo.

Ég stóð í stofuglugganum og fylgdist með þeim. Með væmið bros á andlitinu. Gelgjan var búin að henda teppi yfir Þann Einhverfa, svo ekki stóð svo mikið sem tásla undan því. Svo hoppaði hún eins og hún ætti lífið að leysa og teppahrúgan hentist til skellhlæjandi. Þetta var fyndin sjón.

 

Bíddu Ian, kallaði Gelgjan. Mér er kalt, ég ætla í peysu. Ég kem strax aftur.

Úfinn kollurinn á Þeim Einhverfa gægðist undan teppinu og augun ljómuðu.

Mér hlýnaði um hjartað.  Gerir það alltaf þegar ég sé systkinin að leik. Þá reyni ég að sjá fyrir mér hvernig lífið þeirra væri ef stráksi væri heilbrigður á sama hátt og bróðir hans og systir.

Gelgjan smeygði sér í peysu og var á leið út í garð aftur þegar hún tók eftir væmna svipnum á andlitinu á móður sinni.

Hvað? spurði hún.

Æi, svaraði ég. Ég var bara að hugsa hvernig allt væri ef Ian væri ekki einhverfur.

Án þess að hika klappaði hún mér á handlegginn og sagði ákveðnum rómi: mamma, vertu ekkert að hugsa um það.

Svo var hún rokin út til að sinna Þeim Einhverfa.

Ég hló með sjálfri mér. Þó að hún sé aðeins 12 ára er viska hennar og skynsemi mun eldri.

Fyrir um 2 vikum sat ég og virti hana fyrir mér og ég sagði henni hvað ég var að hugsa: Ég er ofsalega heppin að eiga þig Anna Mae. Svona duglega, fallega, góða og heilbrigða.

Hún greip síðasta orðið á lofti, fannst halla á yngri bróður sinn og sagði: þú ert líka ofsalega heppin að eiga hann Ian.

Og það veit ég. Jafnvel rétt á meðan ég reiti hár mitt og skegg yfir einhverju sem þau segja eða gera, þá veit ég hversu heppin ég er með þau öll þrjú. 

 


Föstudags-hugrenningar

 

Það er föstudagur... svona ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum.

Það er þægileg tilhugsun að geta farið heim eftir vinnu og þurfa ekki að hreyfa mig út úr húsi frekar en ég vil, alla helgina. Þó mig gruni að Viddi nokkur vitleysingur... loðinn gaur með fjóra fætur, muni pressa á að ég hreyfi mig eitthvað.

Ég fór í ræktina í hádeginu í dag. Spratt upp úr skrifborðsstólnum og ákvað að ég ætlaði að gleyma öllu um frakt til Kína, Kuala Lumpur og Köben, í eins og eina klukkustund.

Kom endurnærð til baka og tilbúin að takast á við tölvupóstana og símtölin sem biðu.

Hver veit nema að ég rífi mig upp á rassgatinu í fyrramálið og taki aðra session í ræktinni. Það er svo yndislegt að hafa nægan tíma. Dunda sér í sturtu, fara með næringuna í hausnum í vatnsgufu og enda þetta allt saman á kaldri sturtu að hætti Ingu Láru vinkonu. Það var hún sem benti mér á þessa pottþéttu leið ef maður vildi líta aaaaaaaaaaalveg einstaklega vel út við sérstök tækifæri. Og þetta svínvirkar. Ég segi það satt. 

Gluggaveðrið heldur áfram og það hefur ekki farið fram hjá mér að rokið og biðin eftir sumrinu hleypur illilega í rassgatið á sumum. En fyrir letingja eins og mig er þetta bara gott mál. Ég get haldið mig innandyra og notið þess að liggja í leti við kertaljós án samviskubits. Það er eins með mig og aðra Íslendinga, sólardagar geta valdið spennu og hækkandi blóðþrýstingi. Við eigum öll að vera utandyra á slíkum dögum að taka til í garðinum, þvo bílinn, sleikja ís á Austurvelli eða ber í sundi.

NÝTA DAGINN NÝTA DAGINN öskrar íslenska þjóðin og hleypur út og suður á undanrennulituðum berum leggjum, á meðan túristarnir í mesta lagi renna frá sér dúnúlpunum og taka ofan rússnesku loðhúfurnar.

Því mun ég bara njóta þess sem eftir lifir af þessu haustlega vori. Sumarið kemur fyrr en varir.   I promise

 


Ég fann lykt af vorinu

 

Ég fann lykt af vorinu!!

Mér hefur alltaf þótt þetta afar skáldleg setning og rómantísk setning. Hef aldrei tekið hana trúanlega samt sem áður.

Veðrið í dag hefur verið með eindæmum fallegt. Sólskin, blár himinn og mjallahvítir skýhnoðrar. En kalt kalt kalt. Eins og fallegur haustdagur.

Seinnipartinn í dag þurfti ég nauðsynlega að skjótast úr vinnunni til að skreppa í mjólkurbúðina að kaupa gullinn vökva í umbúðum sem sumir kalla belju.

Ég setti á mig hálsklútinn, klæddi mig í ullakápuna og hneppti upp í háls. Steig út fyrir dyrnar og dró andann djúpt, og veitti ekki af eftir langa setu við skrifborðið. Og þá gerðist það... lyktin sem fyllti vitin var öðruvísi en sú sem ég andaði að mér í gær og hinn og hinn. Og ég hugsaði með mér: svo það er svona sem vorið lyktar.

Og ég varð eitthvað svo glöð.

Og í kvöld, þegar ég fer að innbyrða það sem keypt var í mjólkurbúðinni, ásamt vinkonum mínum, þá verð ég jafnvel ennþá glaðari

 


I'm still alive in case somebody is interested

 

Hér er allt við það sama. Tóm helvítis hamingja. Eða þannig.

Fór í fertugs afmæli hjá Bakaranum á föstudag. Varð eitt af þessum partýum sem maður endurlifir í huganum aftur og aftur... brosir breitt eins og bjáni út í loftið við að rifja upp hinar og þessar uppákomur.

Búin að taka nokkur símtöl með vinkonunum og hlæja hrossahlátri af upprifjunum.

Bretinn yfirgaf samkvæmið um þrjúleytið um nóttina, ásamt fleira fólki sem kunni sig. Ég kom syngjandi glöð heim klukkan sjö um morguninn.

Jebb. Eitt af þessum partýum þar sem maður opnar augun morguninn eftir (seinnipartinn) og það fyrsta sem gerist er að það breiðist bros yfir andlitið á manni. Kannist þið við þetta?

Ég er dugleg í ræktinni þessa dagana. Ætla mér að halda því þannig. Fer engum hamförum en mæti hvenær sem ég get mögulega komið því við.

Ég hins vegar geysist lítið um ritvöllinn um þessar mundir. Hef á tilfinningunni að ég sé komin með örlítið ofnæmi fyrir tölvuskjám. Ég hef litla orku til að tala í símann heima hjá mér á kvöldin, eftir að hafa setið með heyrnartól á eyrunum allan daginn í vinnunni. Sennilega er það svipað með tölvuskjáinn. En vonandi er þetta aðeins bráðaofnæmi sem verður skammvinnt.

Við erum að sigla inn í sumarið. Framundan eru vorpróf hjá Gelgjunni og tónleikar hjá Unglingnum í FÍH.

Unglingurinn ætlar að heimsækja mömmslunar sína í Sverige í sumar, Gelgjan mun sækja sitt árlega reiðnámskeið sem er henni ómissandi og Sá Einhverfi fer í sínar heittelskuðu sumarbúðir í tvær vikur. Ég verð að viðurkenna að eyrun á mér eru farin að þrá þá hvíld. Hann er svo hávær blessaður þessa dagana. Allir karakterar í bíómyndum og leikritum, sem hann tekur ástfóstri við, eru óþekku og háværu börnin og hér heyrist stundum ekki mannsins mál þegar Lotta, Emil, Halla hrekkjusvín, Nenni níski og Maggi mjói eru öll saman komin í stofunni hjá mér. Verst þykir mér þó þegar Sá Einhverfi breytist í Sollu stirðu þegar hún er að reyna að ná í tærnar á sér... þau öskur nísta í gegnum merg og bein.

Litli Rasistinn er að íhuga að heimsækja klakann ásamt frænku gelgjunnar en þær eru jafnaldrar og ná afskaplega vel saman og þetta verður mjög skemmtilegt fyrir þær ef af verður.

Svo held ég að þetta sumar verði jafn heitt og sumarð 1991.

 

 

 

 


Amma og afi eða aðrir nánir aðstandendur

 

Ég linka hérna á færslu hjá Huld S. Ringsted, athafnakonu með meiru og móður stúlku sem glímir m.a. við Asperger heilkennið.

 Bloggið hennar Huldar

Skemmtileg og fræðandi lesning. Og líka óstjórnlega pirrandi. A.m.k. dæmin um athugasemdir sem foreldrar asperger barna hafa fengið. Get off your high horse, why don't you.......

Þörf áminning til allra sem eiga í einhverjum mannlegum samskiptum á einhverjum tímapunkti dagsins. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, eins og við vitum öll.


Matar- og undirfatatrend Þess Einhverfa

 

Í gegnum árin hafa skotið upp kollinum, ýmsar sérþarfir hjá Hinum Einhverfa. Eða sérviska eins og amma kallaði það. Þú ert agalega sérvitur, sagði amma ansi oft við mig, svo drengnum kippir klárlega í kynið.

Alls konar árátta eða æði grípur Þann Einhverfa og stendur yfir í mislangan tíma. Margt af því tengist mat. Hann borðar kannski næstum ekkert nema skyr í langan langan tíma og ísskápurinn er fylltur af skyri í hverri innkaupaferðinni á fætur annarri. Það bregst aldrei að daginn sem mega-innkaup eru gerð á þeirri dillunni sem í gangi er í það skiptið, þá ákveður hann að þetta sé orðið gott. og við sitjum uppi með fullan ísskáp/skúffu/skáp af skyri/hrísgrjónum/eplum/bönunum eða hvað það nú er í það skiptið.

Fyrir mörgum mánuðum beit hann það í sig að hann væri ekki klæddur og kominn á ról fyrr en hann væri kominn í stuttbuxur utanyfir boxer-nærbuxurnar. Það stuttbuxnaæði stendur enn yfir og sér ekki fyrir endann á því. Ég held hann eigi orðið 8 eða 9 stuttbuxur til skiptanna.

Í Englandsförinni nú um páskana keypti Bretinn ein 10 pör af boxer á drenginn. Þær eru með ívið þrengri skálmum en þær sem hann á fyrir, og mega í raun ekki vera neitt minni en þær eru, til að fitta utan um hin dásamlega þykku læri sem drengurinn hefur.

En þær eru rosalega flottar, með hermannamunstri og allavega. Og það kom í ljós í gær að Þeim Einhverfa finnst þetta klárlega of flottar buxur til að fela undir stuttbuxunum, svo hann tróð sér í hermannaboxerbuxurnar utan yfir gömlu þykku víðu boxerbuxurnar sínar.

Ian, þetta eru nærbuxur, sagði ég. Fannst múnderingin ekki benda til þess að honum gæti þótt hún neitt sérstaklega þægileg.

Hann mótmælti þvi hástöfum. Stuttbuxur skyldu þetta vera.

Og ekki ætla ég að eyða orku eða geðheilsu í að leiðrétta það. Mér gæti ekki verið meira sama þó að boxer breytist í stuttbuxur og stuttbuxur í boxer ef því er að skipta. Á meðan hann heimtar ekki að vera í hermannaboxerbuxunum utan yfir síðbuxum, þá er þetta í góðu lagi.

Annað trend hjá stráksa núna eru fótboltasokkar. Háir og þykkir alvöru fótboltasokkar. Og þeir eru sko togaðir upp á mið læri ef mögulegt er. En hann hefur þann leiða ávana að dunda sér við að finna lykkju í sokkunum og rekja þá upp. Stundum finn ég í sófa eða stól, heilan hnykil af bandi og rekst svo svo á drenginn á rölti einhvers staðar í húsinu, í hálfum sokkum.

Fótboltasokkar eru fáránlega dýrir. Reyndar þykja mér sokkar yfirhöfuð fáránlega dýrir. Þetta er orðin munaðarvara.

Ég sé ofsjónum yfir að kaupa sokkapar á 2000 kall, sem ég veit að verður fljótlega rakið upp í óendurnýtanlegt garn.

Því hækkaði ég röddina um nokkur desibil þegar ég stóð hann að verki með kóngabláan þráð í höndunum í gær.

Iiiiiiaaaaan þú MÁTT EKKI GERA ÞETTA. EF ÞÚ HÆTTIR EKKI AÐ REKJA UPP SOKKANA ÞÍNA ÞÁ TEK ÉG ÖLL SOKKAPÖRIN ÞÍN OG HENDI ÞEIM Í RUSLATUNNUNA ARGH....

Hann rétti bláa þráðinn í áttina til mín og sagði hneykslaður: MAMMA, RÓLEG!

 

Barnið mitt er farið að rífa kjaft við mig og mér finnst það æðislegt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband