Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Ristað brauð með smjöri

 

Sá Einhverfi var að rista sér brauð. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hann er orðinn ótrúlega duglegur og auðvitað hvergi eins sjálfbjarga eins og í eldhúsinu, enda er það sem leynist þar í skápunum hans aðal áhugamál. Hann skellti tveimur brauðsneiðum í ristina og þegar þær poppuðu upp smurði hann svo ríflega með smjöri að ég sá þann kost vænstan að blanda mér í málið. Því var ekki tekið þegjandi en ég fékk að ráða. Var ekki alveg á því að barnið fengi sér smjör með brauði í staðin fyrir brauð með smjöri.

Sá Einhverfi tók fram tvo diska og setti eina brauðsneið á hvorn disk. Ég fórnaði höndum; átti þetta nú að verða nýjasta áráttan? Að nota marga diska fyrir hverja máltíð. Yrði næsta heita máltíð þannig að hver kartafla og hver kjötbita fengi sinn einkadisk.

Ég sameinaði brauðsneiðarnar á disk en um leið og ég sneri mér við var hann búinn að ná í hinn diskinn aftur. Svo gekk hann inn í stofu þar sem Gelgjan systir hans lá eins og klessa í stól og horfði á sjónvarpið. Hann lagði diskinn fyrir framan hana þegjandi og hljóðalaust, áður en hann sneri sér að því að innbyrða brauðsneiðina sem hann ætlaði sjálfum sér.

Þó að Gelgjunni byði við smjör magninu (þrátt fyrir inngrip móður á smurningu) klappaði hún saman höndunum og þakkaði bróður sínum afskaplega vel fyrir. Meðvituð um að hugtakið: að deila, eða að hugsa fyrst um aðra, er langt frá því að vera sjálfsagt þegar kemur að einhverfum einstaklingi.

Mamman var náttúrlega í awwwwwwwwwwww-gírnum.. út af báðum börnunum.

 


Saga án endis

 

Eitt sinn var lítill, ljóshærður drengur sem vissi ekkert betra en sól og sumar, stuttbuxur og stuttermaboli og berar tær.

Kvöld eitt, snemma í október á mildu hausti byrjaði að kyngja niður stórum hvítum snjóflyksum líkt og jólin sjálf væru gengin í garð.

Litli drengurinn dróg fyrir gluggana á herberginu sínu, skreið upp í rúm og breiddi sængina upp yfir höfuð. Hann grét ofan í koddann sinn og kallaði á vorið. Hann grét hljóðlega því innst inni vissi hann að það var örlítið kjánalegt að gráta yfir snjónum. En hann réði ekki við sig og neitaði að koma fram úr rúminu þó að það væri ekki komið að háttatímanum hans.

Pabbi lagðist upp í rúm hjá honum og talaði rólega til hans. Fullvissaði hann um að vorið kæmi aftur seinna en núna væri vetur og ekkert sem hægt væri að gera í því.

Að lokum grét drengurinn sig í svefn í fanginu á pabba, örþreyttur og ringlaður.

Um nóttina vaknaði hann þrisvar sinnum til að gægjast út um gluggann og athuga hvort hvíta teppið sem huldi garðinn hans og götuna fyrir utan húsið hefði ekki bara verið vondur draumur. Honum til armæðu og skelfingar var snjórinn enn á sínum stað, skjannahvítur, hreinn og glitrandi, en litli drengurinn kunni ekki að meta fegurðina. Hann leitaði huggunar hjá mömmu og pabba.

Um morguninn var fjölskyldan dauðþreytt og drengurinn í miklu uppnámi. Mamma ákvað að vera heima með drenginn og reyna að ræða um snjóinn, veturinn og hinar árstíðirnar í eitt skipti fyrir öll. Ekki vildi hún að drengurinn færi grátandi í gegnum veturinn. Hún talaði við ráðgjafa í skólanum og ákveðið var að prófa að gera félagshæfni sögu. Það gæti hjálpað drengnum að takast á við áráttuna.

Eftir langa mæðu samþykkti drengurinn að koma út úr myrkvuðu herberginu sínu, en hann flýtti sér að draga fyrir gluggana í stofunni svo hann þyrfti ekki að horfa á þennan hvíta ógnvald sem blasti við. Það leið löng stund þar til mamma hans gat fengið hann til að horfa út um gluggann og viðurkenna að það væri raunverulega snjór úti.

Sjáðu hvað snjórinn er fallegur, sagði mamma

Ekki fallegur, æpti litli strákurinn. Snjór ekki fallegur!

Jú, sagði mamma. Hann er hvítur og fallegur og glitrar í sólskininu. Stundum er sólskin á veturnar.

Já, það gat drengurinn samþykkt með glöðu geði.

Og stundum er rigning á veturna, hélt mamma áfram.

Jáááá. Það hýrnaði yfir drengnum.

Og stundum er snjór, lauk mamma máli sínu.

NEIIIIIII, EKKI SNJÓR, sagði drengurinn. Hann kærði sig ekki um að hlusta á meira.

Eftir það fóru margar klukkustundir í að bera út vatn til að bræða snjóinn af sólpallinum fyrir utan stofuna. Í fyrstu bar litli drengurinn út vatn í litlum ílátum en honum sóttist verkið seint og hann skipti úr 5 dl íláti í 1 lítra ílát. Svo náði hann í skúringafötu í þvottahúsið.

Mamma ákvað að leyfa honum að dunda sér við þetta. Drengurinn var þó allavega kominn út og í námunda við fönnina. Hún braut saman þvott í stofunni og lagði hann í stóran rauðan bala á meðan hún fylgdist með drengnum. Eitt skiptið er hún kom aftur inn í stofu eftir að hafa brugðið sér frá, lá þvotturinn í stól og stóri, rauði balinn var horfinn.

Hún hikaði andartak og velti því fyrir sér hvort hún væri orðin galin, en áttaði sig fljótlega á því að fatan hafði ekki dugað drengnum. Enda stóð hann við eldhúsvaskinn og var að fylla balann af vatni.

Hún hjálpaði honum að fara eina ferð með balann en samþykkti ekki fleiri. Drengurinn sætti sig við það og stóð skömmu síðar úti á palli í stuttbuxum og stuttermabol, berfættur í gúmmískóm og sópaði leyfarnar af snjónum fram að pallinum með hvítum kústi.

Kannski fer snjórinn á morgun Ian, sagði mamma mæðulega. En bara kannski.

Ekki kannski, mótmælti litli drengurinn.

Það er enginn endir á þessari sögu. Ekki ennþá.....

 

 

 


Hvar er vorið?

 

Lítið að frétta frá þessum vígstöðvum. Við gerum okkur klár fyrir veturinn eins og aðrir Íslendingar. Andlega meira en hitt. Sá Einhverfi tjúllast við hverja hvíta flygsu sem kemur af himnum ofan og það var töluvert um slíkt um daginn.. sennilega í þar síðustu viku. Skiptist á haglél og slydda.

Hvar er vorið? grætur stráksi og ég get eiginlega tekið undir það.

Hvort það er aldurinn eða efnahagskreppan, þá kvíði ég í fyrsta skipti fyrir vetrinum. Aðallega fyrir því að þurfa að dúða mig á morgnana og fara út að skafa. En svo má ég auðvitað þakka fyrir að hafa eitthvað til að skafa, ekki satt?! Að ég tali nú ekki um að þakka fyrir að hafa eitthvað til að dúða mig í.

Nú þarf ég bara að brosa út að eyrum, birgja mig upp af kertum og finna leið til að fá Þann Einhverfa til að rúlla niður buxnaskálmunum og láta af stuttbuxna-þrákelkninni.


Upp með hendur niður með brækur

 

Gelgjan og Viðhengið komu heim úr sundi í dag og hentust inn úr dyrunum með bægslagangi. Unglingurinn hafði hringt í systur sína og boðið þeim vinkonum með sér og kærustunni í bíó og þær voru eðlilega spenntar yfir því.

Sá Einhverfi espaðist allur upp við lætin og var glaður að sjá stelpurnar. Hann verður sífellt félagslyndari.

Þær byrjuðu að kasta sundbolta á milli sín í stofunni en Sá Einhverfi hljóp út á pall og kallaði á þær. Stelpur komið stelpur komið, hrópaði hann.

Þær virtu hann ekki viðlits enda tekur tíma að síast inn í hausinn á manni að stráksi er ekki lengur endilega að góla einhverja merkingalausa frasa úr bíómyndunum sínum sívinsælu, heldur á hann það virkilega til að ávarpa fólk.

Æi svarið honum, sagði mamman í vorkunnartón. Hann er svo glaður að þið skuluð vera komnar.

Gelgjan brást strax við beiðninni; hvað segirðu Ian, eigum við að koma, kallaði hún á móti og hentist út á palli og í hvarf þar sem gardínurnar voru dregnar fyrir glugga og hurð.

Svo heyrði ég hana reka upp skaðræðisöskur og Þann Einhverfa reka upp dillandi hláturroku. Viðhengið hljóp að hurðinni og rykkti gardínunum frá og ætlaði svo að leka niður í gólf af hlátri.

''Litla'' einhverfa barnið sem mömmunni þótti vera svo mikil vorkunn, beið eftir systur sinni með tvær fullhlaðnar vatnsbyssur og hóf skothríð um leið og hún birtist.

Gelgjan flúði inn í bílskúr og fyllti þar þriðju vatnsbyssuna og ætlaði að ráðast á móti bróður sínum en gikkurinn á henni var ónýtur. Stráksi hafði því töglin og haldirnar. 

En stelpurnar eru betri í feluleik og eftir nokkrar ferðir í gegnum bílskúrinn og inn og út um allar mögulegar útidyrahurðir neyddist Sá Einhverfi til að hlaupa á klósettið, alveg í spreng.

Á meðan hann sat þar gargaði hann og gólaði á stelpurnar; stelpur stelpur hvar eruð þið? Og þær flissuðu einhvers staðar í felum og görguðu á hann á móti.

En þá kom Unglingurinn í hendingskasti, skipaði stelpunum út í bíl og á nokkrum sekúndum breyttist húsið og garðurinn úr háværum og úfnum sjó í lygna tjörn. Allt datt í dúnalogn. Ekkert heyrðist.

Aðeins hjáróma rödd drengs sem barst frá klósettinu: Stelpur stelpur hvar eruð þið?

Þá gleymdi mamman því samstundis að fimmtán mínútum áður var þessi strákur lævís, undirförull og útséður í því að klekkja á systur sinni, og vorkunnsemin helltist yfir hana.

Æi Ian þær eru farnar

Kannski seinna, sagði Sá Einhverfi og hysjaði upp um sig brækurnar.

Já Ian, þú getur sprautað á stelpurnar seinna.

 

 


Endurskinsmerki frá VÍS

 

Fyrir mörgum mánuðum síðan rataði á úlnlið Þess Einhverfa endurskinsmerki. Þetta er svona renningur sem þú skellir á úlnlið eða arm og við höggið hringar renningurinn sig eins og slanga utan um umræddan líkamspart.

Sennilega hefur þetta endurskinsmerki komið inn um lúguna með auglýsingu frá tryggingarfélagi eða einhverju slíku. Ég man það ekki lengur.

En allavega, þá tók drengurinn ástfóstri við þennan sjálflýsandi græna hlut og tók hann aldrei af sér nema rétt til að skemmta sér við að skella honum á ný á úlnliðinn og horfa á hann krækja sig fastan.

Svo var það einn dag fyrir skömmu að Sá Einhverfi kom  grátandi heim  með skólabílnum. Systkini hans tóku á móti honum og skildu hvorki upp né niður í því hvað var að litla bróður. Hann tuðaði um armband og Gelgjan hljóp um allt hús og bauð honum alls konar glingur á úlnliðinn en ekkert dugði. Sá Einhverfi hélt áfram að gráta.

En Gelgjan gafst ekki upp og á endanum sættist bróðir hennar á grænan og glansandi pakkaborða sem hún klippti og batt um úlnlið hans.

Svo kom mamman heim og kveikti á perunni um leið og hún heyrði söguna. Enda eru mæður hannaðar til þess, ekki satt? Að vera fljótar að fatta.

Og ég skildi auðvitað að án endurskinsmerkis getur einhverfur drengur ekki verið, svo ég settist niður með símaskrá og hóf leitina.

Ég talaði við sportvöruverslanir og einhver hjá Útilíf benti mér á að tala við tryggingarfélögin. Og ég hringdi í VÍS.

Indæl stúlka svaraði í símann. Hún kannaðist við umræddan hlut en sagði að þetta hefði allt saman klárast hjá þeim.

Veistu nokkuð hver framleiðir þetta fyrir ykkur, eða hvaðan þið kaupið þetta, spurði ég.

Nei, hún vissi það nú ekki en benti mér á að hringja daginn eftir og tala við konu í markaðsdeildinni.

Þakka þér fyrir, sagði ég. Og út af því að ég er afskaplega mikið til baka með að hringja í fyrirtæki út í bæ og biðja um eitthvað frítt þá vildi ég útskýra málið fyrir henni. Ég er nefnilega með einn einhverfan gutta hérna sagði ég sem var að týna endurskinsmerkinu sínu og er í sárum yfir því. Mig langar svo að finna nýtt handa honum.

Það kom andartaks þögn í símann en svo sagði stúlkan: fyrst að svo er þá á ég nú örugglega eins og eitt stykki heima hjá mér.

Ég hefði kysst hana ef símtól hefði ekki skilið okkur að, og eins og kom á daginn; talsverð vegalengd þar sem hún er staðsett á Akureyri.

Hún tók niður netfangið mitt og morguninn eftir fékk ég tölvupóst þar sem hún sagðist hafa fundið endurskinsmerki heima hjá sér og bað mig um að senda sér heimilisfangið okkar.

Tveimur dögum seinna fengum við tvo fjársjóði inn um bréfalúguna og Sá Einhverfi skartar nú glansandi og sjálflýsandi armbandi merktu VÍS á úlnliðnum. Alsæll.

Aukaeintakið faldi ég upp í skáp og þar bíður það þess að þörf sé fyrir það.

Þessi stúlka, sem lagði aukalykkju á leið sína til að gleðja ókunnugan dreng, hlýjaði mér um hjartarætur svo um munaði.

Anna Björk, takk fyrir okkur

 


Stuttbuxur verði síðbuxur... eða öfugt?

 

Haustið er að koma. Ég sé það á nokkrum gulnuðum laufum á trjánum fyrir utan eldhúsgluggann og ég finn það á kólnandi loftinu sem ég anda að mér á morgnana.

Sá Einhverfi virðist ekki finna það. Hann bara sér það á vikuplaninu sínu þar sem móðir hans hefur sett inn á hvern einasta dag eftirfarandi texta: Ian ætlar í buxur í dag.

Þannig hefur það verið í rúma viku en alltaf gengur hann út á morgnana í stuttbuxunum. Mig hefur skort viljastyrk og þrek til að fylgja fyrirmælunum eftir.

Skilaboðin hafa nú samt sem áður komist vel til skila og verið skilin... ef þannig má að orði komast. Það hefur verið greinilegt á öllum afklipptu buxnaskálmunum sem hafa fundist í ruslafötum hist og her um húsið síðustu daga.

Í morgun ákvað ég að taka málið alla leið. Lét skólabílinn fara þegar stráksi þverneitaði að klæðast síðari buxum en niður á mið læri. Hann þolir ekki þegar hann missir af rútunni. En í morgun þótti honum greinilega réttur hans til að klæðast stuttbuxum allan ársins hring, mikilvægari en að fá far með skólabílnum.

Ég sem sagt sendi skólabílinn í burtu og ákvað að leyfa Þeim Einhverfa að sitja einum í fýlu í stofunni. Fór upp á loft og sýsla og bað Gelgjuna sem var á leið niður, að fjarlægja skærin úr eldhússkúffunni. Hún gerði það samviskusamlega.

En það breytti engu. Strákskömmin varð sér úti um önnur skæri og síðustu síðbuxurnar í hans eigu breyttust í stuttbuxur í morgun, eins og aðrar hafa gert síðustu sjö daga. 

Ég frétti það í gegnum reiðan Breta sem stóð á gólunum í stofunni. Ég blikkaði ekki auga. Lyfti ekki einu sinni augabrún. En Sá Einhverfi lét sér segjast og samþykkti að fara í gamlar ''kvart'' buxur sem ég fann inn í skáp.

Ég notaði svo hádegið í dag til að fara í Hagkaup og kaupa tvennar jogginbuxur á drenginn. Þær eru nú í felum inn í þvottahúsi just in case að stór og stæðilegur klippióður einhverfur drengur fari á stjá  í nótt með skæri á lofti.

En eitthvað er stráksi orðinn leiður á reiðiköstum foreldranna því hann tilkynnti í kvöld, algjörlega upp úr eins manns hljóði; buxur á morgun.

 


Einhverfur eða ekki einhverfur

 

Ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni fyrri part kvölds við skriftir. Kom heim rétt fyrir kl níu og var ákveðin í að sjá fyrsta þáttinn í íslensku þáttaröðinni um Ástríði.

Sá Einhverfi lá makindalega og afslappaður í sófanum fyrir framan sjónvarpið þegar ég kom inn og það breiddist lymskulegt glott yfir varirnar á honum þegar hann sá mig. Ég átti ekki von á góðu, þó ég vissi það ekki á þessu andartaki.

Ég skellti silung og kartöflum sem Bretinn hafði eldað í kvöldmat, á disk og inn í örbylgjuofn. Á þessum tveimur mínútum sem tók að hita matinn var Sá Einhverfi búinn að æsa sig upp í dramakast. Hann heimtaði gulan lit. Ég benti honum kurteislega á að hann ætti fullt af gulum litum. Hann hélt nú ekki.

Til að fá frið þá sagðist ég myndi koma heim með gulan lit handa honum á morgun. Venjulega tekur hann svona málamiðlunum. En nú brá svo við að það hentaði honum ekki.

Ég varð drullufúl. Ætlaðir krakkaskömmin að vera með læti rétt á meðan þessi þáttur væri á skjánum. Ég ákvað að gefa dauðann og djöfulinn í krakkann og hlammaði mér inn í stofu með silunginn minn og hvítvín í glasi. Þegar Ástríður byrjaði var Sá Einhverfi hágrátandi inn í borðstofu. Reiður út í heiminn og mig og var stórlega misboðið.

Ég hækkaði sjónvarpið upp úr öllu valdi því ekki hafði ég texta til að styðjast við. En texti nýtist mjög vel þegar maður er með öskrandi börn yfir sjónvarpinu.

Ég ákvað að ég ætlaði að láta drenginn um að ráða sjálfur fram úr þessari krísu. Þetta var hans krísa, ekki mín.

Hann grét sárt í svolítinn tíma en þegar það dugði ekki til að ég veitti honum athygli, brá hann á annað ráð.

Gelgjan gerði sig líklega til að standa upp en ég stoppaði hana af. Anna Mae láttu hann eiga sig.

Mamma! hann er að berja sig í hausinn með DVD diski sagði ábyrgðar- og áhyggjufulla stúlkan mín.

Mér er alveg sama, sagði ég rólega. Þá gerir hann það bara.

Svo gleymdi ég drengnum barasta. Mér tókst að gjörsamlega draga gardínur fyrir eyrun og gleyma krakkanum.

Ég hálfhrökk í kút þegar hann byrjaði allt í einu að hlæja. Fyrst hélt ég að þetta væri svona geðsveifluhlátur en ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því.

Drengurinn var búinn að gefast upp! Hann gafst upp!! Og það tók ekki nema 15 mínútur. Húrra fyrir mér. Hann var búinn að finna eitthvað á netinu sem honum fannst svona bráðskemmtilegt og ég heyrði ekki meira minnst á gulan lit.

Þetta atvik opnaði augu mín svo um munaði. Eins og önnur smábörn (því þrátt fyrir bráðum full 11 ár er hann enn smábarn að mörgu leyti) sýnir hann foreldrum sínum aðra og verri hegðun en hann myndi sýna öðru fólki. Og foreldrarnir spila með og hlaupa eftir duttlungum barna sinna. Þetta heitir slæmt uppeldi.

Einhverfur eða ekki einhverfur..... Að uppskera athygli, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, vegna óæskilegrar hegðunar fær barnið til að hefja skipulega könnun á teygjanleika þolinmæðisgens foreldra sinna.

Ég er hætt, ég segi það satt.

 

 


Vilt'arrrridið?

 

Selurðu latte spurði ég dökkhærðu stúlkuna á bak við afgreiðsluborðið í bakaríinu.

Er það ekki ofsalega gott hjá þér, sagði ég glaðlega.

Jæja, sagði ég og virti hana fyrir mér. Gæti hafa verið rétt innan við þrítugt. Myndarleg stelpa með steinrunnið andlit.

Ég ætla að fá tvöfaldan latte með froðu, upplýsti ég hana um.

Hún sneri sér við og fór að sýsla við kaffivélina.

Áttu síróp, spurði ég

Nei

Áttu ekki síróp? sagði ég. Var svolítið undrandi því flest kaffihús/bakarí bjóða upp á ótal bragðtegundir af sírópi út í kaffi.

Hún nennti ekki að tala meira í bili. Hristi bara höfuðið þar sem hún sneri baki í mig.

HELVÍTIS KERLINGARASNI ÉG VAR BÚIN AÐ SEGJA NEI, hefur hún eflaust öskrað í huganum á meðan hún ímyndaði sér að ég væri undir kaffiþjapparanum.

Ég horfði á baksvipinn á henni. Einkennisklæðnaðurinn var svartu íþróttagalli eftir því sem ég gat best séð, úr glansefni. Svolítið sjúskaður. Stelpan stóð hokin í herðum með krepptan rass og flóaði mjólkina. Þessari konu leiðist svo í vinnunni að það sést meira að segja á rassinum á henni. 

Vilt'arrridið? spurði hún og sýndi mér visastrimilinn upp á 670 kr (ég fékk hana nebblega til að selja mér einn hafraklatta í leiðinni)

Nei takk sagði ég hátt og snjallt og ýkt glöð. Bara til að ergja hana.

Ég vorkenndi konunni sem kom aðvífandi í þann mund sem ég var að fara með kaffið mitt, og spurði kampakát: hvernig er þetta fimmkornabrauð? Hvað er í því?

Ég heyrði engin svör en get ímyndað með að afgreiðslustúlkan hefur hugsað: oooooooohhhhh gat hún ekki spurt um tveggjakornabrauðið.

Kaffið var samt bara fínt.

 

 


Freaky friday

 

Þessa stundina situr Sá Einhverfi fyrir framan tölvuna og horfir á uppáhalds bíómyndarbrotið sitt. Freaky friday.

Ég ranghvolfdi í mér augunum áðan, þegar ég sá hvaða leitarorð hann var að stimpla inn á Google. Ef hann langar í gott hláturskast þá leitar hann þetta myndbrot uppi.

Tekur þá við dillandi og afskaplega smitandi hlátur sem yljar um hjartað og hrífur mann með... í svona 10 mínútur. Fljótlega upp úr því á maður þá ósk heitasta að stráksi hætti í þessu, sem virðist, stjórnlausa hláturskasti. Hann er svo píreygður að það rétt rifar í augun og hann tekur andköf í lengstu hláturskviðunum. Yndisleg sjón en eftir 20 mínútur væri grátkast fýsilegri kostur og eftir hálftíma er maður tilbúinn að rífa router-inn úr sambandi og fleygja tölvunni út í garð... og drengnum á eftir.

Hér er myndbrotið sem fær mig til að tæta af mér öll líkamshár

 

 

 

Gerir þetta eitthvað fyrir ykkur?

 

 


Vínflaska fyrir eiginmann

 

Ég fékk þessa dásamlegu, litlu sögu senda í tölvupósti frá yndislegri samstarfskonu minni. Læt fylgja með useless information: Litli rasistinn kallar þessa samstarfskonu mína The Lobster Lady.

Ég segi ykkur ÞÁ sögu kannski seinna.

En hér kemur sagan um vínflöskuna. Hún er fyrir allar konur sem eru giftar, voru giftar, óska þess að vera giftar eða óska þess að hafa aldrei gifst. Eitthvað til að brosa að næst þegar þú sérð vínflösku (sem er daglega í mínu tilfelli). 



Indian woman


 

THE BOTTLE OF WINE


Sally was driving home from one of her business trips in Northern Arizona when she saw an elderly Navajo woman walking on the side of the road.

As the trip was a long and quiet one, she stopped the car and asked the Navajo woman if she would like a ride.

With a silent nod of thanks, the woman got into the car.

Resuming the journey, Sally tried in vain to make a bit of small talk with the Navajo woman. The old woman just sat silently, looking intently at everything she saw, studying every little detail, until she noticed a brown bag on the seat next to Sally.

'What in bag?' asked the old woman .

Sally looked down at the brown bag and said, 'It's a bottle of wine. I got it for my husband.'

The Navajo woman was silent for another moment or two. Then speaking with the quiet wisdom of an elder, she said..........

 
......."Good trade"  



« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1640567

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband