Færsluflokkur: Lífstíll
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Blátt áfram
Ekkert þykir mér viðurstyggilegra í þessum heimi en kynferðisleg misnotkun á börnum. Ekkert! Undir engum kringumstæðum á gerandi slíks verknaðar sér málsbætur, að mínu mati.
Ekkert í þessum heimi gerir mig sorgmæddari en vissan um öll þau börn sem sæta slíku ofbeldi og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Jafnvel svikin af þeim sem þau elska mest.
Ekkert fær mig til að finna til eins mikils vanmáttar og fréttir og frásagnir af litlum sálum sem hafa þurft að upplifa slíka martröð.
En ég þarf að yfirstíga vanmáttarkenndina og trúa því að ég geti lagt lóð á vogarskálarnar. Við getum það öll. Með því að hafa augu og eyru opin. Látum okkur málið varða. Tökum þátt í að opna umræðuna. Tölum ofbeldið í hel í stað þess að þegja þunnu hljóði og leyfa meininu að vaxa og dafna.
Verum óhrædd að tala við börnin okkar. Notum réttu orðin. Verum opinská. Að fræða börnin okkar og kenna þeim að þau hafi fullan umráðarétt yfir eigin líkama, er besta vörnin þeirra.
Í gær fékk ég þessa tilkynningu senda í tölvupósti. Ég hvet alla til að dreifa þessu á þann hátt sem þeir best geta; á blogginu, í fjölmiðlum, á netinu, eða bara hvernig sem er:
FRÁ BLÁTT ÁFRAM.. samtökum.
Kæri vinur,
It is important to show children that not all adults are caught up in the conspiracy of silence!Bið þig að senda þetta áfram á þinn vinahóp og spyrja hvort þau vilji hafa áhrif á hvort börn verði fyrir kynferðislegu ofbeldi á Íslandi ??
Eftir fyrstu auglýsingaherferð Blátt áfram, kom til mín kona með tárin í augunum og sagðist vilja þakka fyrir að hafa séð auglýsinguna í sjónvarpinu. Sat og horfði á með 11 ára gamalli dóttur sinni sem brotnaði saman og sagði frá kynferðislegu ofbeldi.
Önnur ung stúlka sagði frá og kom þá í ljós að sá maður var að beita margar ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi og fékk hann dóm í kjölfarið.
Þetta hefur áhrif !
1 af hverjum 5 stúlkum og 1 af hverjum 10 drengjum verða fyrir kynferðislgu ofbeldi fyrir 18 ára aldur(Hrefna Ólafsdóttir 2002)
Styrktartónleikar verða haldnir á fimmtudaginn til að safna fyrir birtingu á nýrri auglýsingaherferð, átakið Verndarar barna
Blátt áfram þarf á þinni hjálp að halda, komdu og hlustaðu á eina af þínum uppáhaldshljómsveitum og styrktu gott málefni.
Styrktartónleikar 8 maí 2008
Stórtónleikar á NASA
Styrktar tónleikar á NASA 8 maí 2008.
12 af bestu hljómsveitum landsins koma fram
Húsið opnar klukkan 19:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00
Fram koma:
Nylon, Sálin hans Jóns míns, Ný Dönsk, Ljótu Hálfvitarnir, Buff, Á móti sól, Merzedes club, Rokksveit Rúnars Júlíussonar, Einar Ágúst, Brain Police, Sverrir Bergmann, Bermuda
Miðaverð er 2000 kr og rennur allur ágóðinn til Blátt áfram.
Safnað er fyrir nýrri auglýsingaherferð Verndarar barna
Miðasala á Pizzo Pizzería á Grensásveg !!
Blátt áfram þakkar fyrir þetta frábæra framtak!
Bestu kveðjur,
Sigríður BjörnsdóttirBlátt áfram!Kringlunni4-6, 6. hæð, 103 Reykjavík
Sími GSM (mobile): 893-2929, Netfang (e-mail): sigga@blattafram.is
Heimasíða (homepage): www.blattafram.is Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Prjónað af hjartans lyst
Þau prjónastykki sem ég átti að skila af mér í handavinnu, hérna í denn, voru prjónuð af ömmu. Amma prjónaði vettlinga, lopasokka og eitt stykki kött ef ég man rétt, eins og hún ætti lífið að leysa.
Hennar afskipti hófust yfirleitt með því að ég felldi niður lykku(r) eða bætti í, sleit bandið eða tókst að flækja eitthvað á óútskýranlegan hátt. Með öllum 10 þumalputtunum. Þá greip amma inn í og bjargaði heiðri barnabarnsins.... og sínum eiginn í leiðinni.
Núna er Gelgjan að prjóna hliðartösku og ég er stolt móðir. En ekki get ég aðstoðað hana þegar hún fellir niður lykkur eða bætir í, sem hún hefur gert töluvert af. Og ég hef fengið ásökunaraugnaráð fyrir þær sakir. Hverskonar móðir ert þú eiginlega, segir þetta augnaráð.
En taskan sístækkandi fer klárlega batnandi og greinilegt að krakkanum fer fram í prjónaskapnum. Ólíkt móður hennar.
Í gærkvöldi sýndi hún bróður sínum, unglingnum, prjónaskapinn. Hreykin á svip, hóf hún verkið á loft.
Unglingurinn hnyklaði brúnir, hugsandi á svip. Hvað er þetta? Húfa?
Naujts... þetta er taska, sagði Gelgjan hneyksluð.
Skömmu síðar spurði ég hana hvort hún væri búin að sýna pabba það sem hún er að búa til fyrir ömmu (Litla rasistann).
Aftur hóf hún prjónaskapinn á loft.
Bretinn hnyklaði brúnir og sagði: Hvað er þetta? Húfa?
ÞETTA ER EKKI HÚFA, gólaði Gelgjan. AMMA ÞARF HELDUR EKKI HÚFU. ÞETTA ER TASKA.
Oh, sagði Bretinn, sem stundum (bara stundum) doesn't know when to shut up. But why are there holes in it sweetie?
Ég byrjaði að veifa honum, þar sem ég sat fyrir aftan Gelgjuna. Benda honum á að þetta væri eitthvað sem hann ætti ekki að kryfja að neinu gagni.
Hvað vita karlmenn líka um göt á prjónatöskum, tilkomin vegna þess að nokkrar lykkjur týndust hér og þar á leiðinni að settu marki? (Ekki fríka út, þið karlmenn, sem kunnið að prjóna og dundið ykkur við það í frítímum).
Seinna sat Gelgjan sátt fyrir framan sjónvarpið og mundaði prjónana af hjartans lyst. Ég horfði hugsandi á hana.
Nú finnst mér þú svo stór, sagði ég í vælutóni. Situr þarna og prjónar. Hvað varð um litlu stelpuna hennar mömmu?
Þá lagði Gelgjan frá sér prjónana, setti stút á munninn og sagði með barnaröddinni: Mamma, hún er hér ennþá.
Þá varð mér rórra. Ég sannfærðist um að maður þarf ekki að vera orðinn stór til að kunna að prjóna. Og maður þarf heldur ekki að kunna að prjóna þó að maður sé orðinn stór.. Bara svo það sé á hreinu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Á morgun segir sá lati
Það er frábært að finna sig í því að eiga allt að því samræður við Þann Einhverfa. Athugasemdum frá okkur foreldrunum, sem áður kölluðu samstundis á grát og uppnám, er nú tekið af rósemi. Sá Einhverfi er meira að segja farinn að semja. Koma með málamiðlanir.
Ég: Ian, viltu fara úr stuttbuxunum. Ég ætla að setja í þvottavél.
Sá Einhverfi: Nei ekki fottavél
Ég: jú stuttbuxurnar eru skítugar. Leyfðu mér að setja þær í þvottavélina.
Sá Einhverfi (vonglaður á svip): Fottavél á morgun
Ég: Ok á morgun þvoum við stuttbuxurnar
Sá Einhverfi (sigrihrósandi og með áherslu): JÁ
Reyndar er þetta uppáhaldsmálamiðlunin hans; Á morgun. Allt á að gerast á morgun. Hann ætlar að bursta tennurnar á morgun. Þvo hendurnar á morgun. Fara í bað á morgun, slökkva á frönsku Toy story á morgun og hann ætlar jafnvel ekki að sofa fyrr en á morgun.
Stundum er það ''seinna'' en helst er það ''á morgun''.
Amma sagði alltaf: á morgun segir sá lati en ég kann betur við útgáfuna frá mömmu hennar Laufeyjar samstarfskonu minnar: Aldrei að gera í dag það sem þú getur gert á morgun.
Þetta er lífsmottóið mitt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Föstudagur, 25. apríl 2008
Komin heim
Ég er komin heim. Eftir langa og stranga daga á sjávarútvegssýningu í Brussel. En skemmtilegir voru þessir fjórir dagar. Það er að segja kvöldin. Hvernig getur annað en verið skemmtilegt að sitja undir berum himni á hverju einasta kvöldi í skemmtilegum félagsskap, borða góðan mat (oftast), drekka (ótæpilega) mikið af rauðvíni og hlæja þar til manni verkjar í magann?
Það er reyndar ekki rétt að það hafi bara verið skemmtilegt á kvöldin. Það myndast smávegis kunningsskapur á milli sýnenda svo rölt var á milli sýningarbása og spjallað. Ég hef eytt töluverðum tíma með frönskumælandi fólki og er orðin mjög frönsk. Eða þannig. Er alveg að ná handahreyfingunum. Talið kemur einhvern tíma seinna. Kannski..... Bonsjour...
Ég hef ekki haft tíma til að blogga eða yfirfara tölvupóst: Vaknað um klukkan átta á morgnana. Sýningin opnar kl. 10 og er opin til 18. Þá upp á hótel í sturtu og yfirhalningu (sem tók sífellt lengri tíma eftir því sem leið á vikuna), og svo út í matarborð, að hitta kúnna o.sfrv. Auðvitað hangir fólk mislengi uppi á kvöldin en þetta hefst allt einhvern veginn.
Svo kostar það heila helvítis formúgu að tengjast interneti á hótelum. Barasta gat ekki réttlætt þann kostnað.Þessi sjávarútvegssýning er árlegur viðburður . All about buisness. Á sýningartíma á daginn, en ekki síður á kvöldin. Á kvöldin safnast sýningargestir saman á Grand Place torgi í Brussel og maður gæti alveg eins verið staddur á Lækjartorgi á íslensku sumarkvöldi. Torgið er gjörsamlega mökkað af Íslendingum og halda þeir sig aðallega við einn pöbb. Á næsta pöbb eru Norðmenn. Þetta er auðvitað bara fyndið. Svolítið súrrealískt. Sjávarútvegsráðherra mætti eitt kvöldið og hélt uppi fjöldasöng. Stóð sig vel.
Brussels Town Hall (þessi stórfenglega bygging gnæfir yfir torgið)
Og haldið ykkur núna: Ég fór ekki í eina einustu búð. Núll, nix, zero, nét... Kom samt heim færandi hendi. Hljóp um á Heathrow og bjargaði andlitinu. Bretinn fékk sælgæti í tonnavís og krakkarnir DVD myndir.
Núna liggur Sá Einhverfi eins og skata fyrir framan sjónvarpið og horfir á sína mynd. Sem auðvitað er Toy Story. En eitthvað hefur hann smitast af mömmslunni sinni því hann þverneitar að velja annað tal á hana en frönsku.
GLEÐILEGT SUMAR BÖRNIN GÓÐ. Megi þetta sumar verða eins magnað veðurfarslega séð, og það síðasta.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Sunnudagur, 20. apríl 2008
Frá Kóngsins Köben
Þessi orð eru rituð úr brakandi hreinum og vellyktandi sængurfötum frá Hilton á Kastrup í Kóngsins Köben. Er á leiðinni á Sjávarútvegssýningu í Brussel.
Að gera hvað? gætu sumir spurt og ég reyndar líka. Takmarkið er að vera Icelandair Cargo til sóma. Sennilega fer ég létt með það þó að eitthvað vanti upp á að ég geti ráðlagt fiskframleiðendum hvert sé best að senda ferska fiskinn frá Íslandi.
Við erum þrjú á þessu ferðalagi, og ég er 3ja persóna vegna þess að Mikki, þessi elska, vill ekki yfirgefa hana Evu sína sem á von á þeirra þriðja barni. Er ekki dásamlegt hvað tímarnir hafa breyst? Ekki eru mörg ár síðan að karlmaður hefði ekki setið heima vegna barna og konu. Ég fylli því í skarðið og mun standa á bás Icelandair Cargo næstu 3 daga og brosa og vera sæt og skemmtileg eins og mér er einni lagið.
Hádegisfluginu í gær (sunnudag) til Köben seinkaði og því misstum við af tengifluginu til Brussel. Nóttinni er því eytt hér á Hilton á Kastrup og ég tek ofan fyrir sjálfri mér að hafa afrekað að tengjast internetinu. Hef reyndar ekki hugmynd um hvað ég þarf síðan að borga fyrir það.
Ég mun gera tilraun til að tengjast netinu á Hilton í Brussel og láta í mér heyra. Sjáum til hvort það tekst og hvort tími vinnist til. Kannski fer öll mín orka í vinnuna. Sjáum til.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
Miðvikudagur, 16. apríl 2008
Símtal frá fortíðinni
Í gærkvöldi fékk ég símtal frá fortíðinni.
Eldri maður með hlýja og örlítið hrjúfa rödd tjáði mér að ég væri honum ofarlega í huga þessa dagana. Og hann sagði mér sögu.
Hún bankaði upp á í Litla húsinu. Amman. Hún átti mikilvægt erindi við fjölskylduna sem þar bjó. Vildi biðja þau að taka ókunnugu barni opnum örmum. Vera góð við það. Barnabarnið hennar.
Fjölskyldan í Litla húsinu var kannski örlítið undrandi á bóninni, en tóku henni vel. Skildu að amman hefði áhyggjur af því að litla sonardóttir hennar yrði einmana hjá gömlu hjónunum. Ömmu og afa. Það var ómögulegt að segja hvernig henni tækist að afla sér vina á nýjum stað. Enda bara fimm ára gömul og systkini hennar og foreldrar víðsfjarri.
Stúlkan vandi komur sínar í Litla húsið. Hún var ósköp smá og umkomulaus þessi telpuhnoðri. Kannski líka örlítið feimin. Fylgdist í fyrstu með mannmörgu fjölskyldunni í Litla húsinu úr hæfilegri fjarlægð. Þau vildu vera góð við hana en hún hleypti engum að sér. Ekki enn.
Í Litla húsinu bjuggu mamma og pabbi ásamt 3 börnum. Tveimur telpum og einum dreng. Seinna bættist í barnahópinn. Fljótlega vingaðist litla stúlkan við börnin í Litla húsinu og varð æ tíðari gestur á heimili þeirra. Ekki var verra að garðar þeirra lágu saman og fljótlegt var að hlaupa á milli húsa. Smokra sér í gegnum gat á grindverkinu.
Þegar frá liðu stundir, viðraði litla stúlkan þá ósk við ömmu sína að fá að flytja í Litla húsið. Svo vel undi hún hag sínum þar innan um öll börnin. Hún saknaði systkina sinna. Börnin í Litla húsinu bættu þann missi upp á vissan hátt.
Barnsleg bón hennar bæði gladdi ömmu og hryggði. Hún sagði litlu stúlkunni að heimsóknirnar yrðu að nægja. Og amma bakaði eina af sínum víðfrægðu súkkulaðitertum og sonardóttirin bauð öllum börnunum í Litla húsinu heim í drekkutíma.
Litla húsið og íbúar þess eiga stóran sess í hjarta litlu stúlkunnar sem er löngu vaxin úr grasi. Ekki aðeins urðu þau við bón gamallar konu, heldur fylgdi umhyggja þeirra og alúð með í kaupunum. Og óendanleg þolinmæði með lítilli stúlku sem gekk inn og út á heimili þeirra eins og ætti hún þar heima.
Litla húsið, sem ekki lét mikið yfir sér bar nafn með rentu vegna þeirra sem þar bjuggu: Fagrabrekka.
Takk Pétur
Mánudagur, 14. apríl 2008
Valdís, þið, Hemmi Gunn og ég
Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar eftir þáttinn hennar Valdísar. Mér þykir voðalega vænt um þær. Og þær hafa borist margar. Hér í kommentakerfinu, á sms, með símtölum og í tölvupósti. Þið klikkið aldrei á smáatriðunum.
Ég vaknaði í gærmorgun, óvenju spræk miðað við b-manneskjuna mig. Fiðrildin sem ég vissi að myndu láta á sér bæra í maganum á mér, vegna yfirvofandi viðtals, létu enn ekki á sér kræla. Ég leit út um gluggann á sveitabýlinu mínu og velti því fyrir mér upphátt hvort einhver væri að fokka í mér. Þrátt fyrir að hafa heyrt í Þeim Einhverfa á neðri hæðinni með sín venjulegu viðbrögð við snjó: Neeii... nei ma'ur.
Við blasti alhvít jörð, greinararnar á trjánum svignuðu af þunganum og ekkert lát var á ofankomunni. Stórar hvítar snjóflygsur svifu úr loftinu, Betlehemstjarnan blikaði á lofti og herskari engla á túninu... ekki alveg kannski, en jólalegt var það.
Af reynslu veit ég að það hentar mér ekki að koma á fljúgandi fart inn í stúdíó og setjast við hljóðnemann í andnauð. Ég fæ ennþá martraðir um þær aðstæður, frá því að ég vann við lestur auglýsinga og þurfti stundum að lesa í beinni. Því ákvað ég að vera sérstaklega tímanlega í því, og komst að því að það er hægt. Jafnvel þó að ég hafi talið mér trú um að það væri genatískt að vera sífellt of sein á alla staði.
Ég kom við í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut á leiðinni og lét Helen gera kaffi handa okkur Valdísi, í þeirri dásamlegu kaffivél sem þar er að finna. Valdís tók vel á móti mér og knúsaði mig. Ég fann að ég var afskaplega velkomin, jafnvel þó að Ívar tæknimaður hafi látið mig standa úti í snjókomunni í 5 mínútur áður en hann opnaði húsið fyrir mér. En ég hafði þó kaffibollana til að hlýja mér við.
Ég var sest inn í stúdíó ca hálftíma áður en ég fengi að tjá mig og fylgdist með Valdísi afslappaðri og öruggri fyrir framan míkrafóninn. Fiðrildin voru mætt og dönsuðu villtan darraðadans í kviðarholinu á mér. En ég vissi að þau yrðu róleg um leið og ég léti fyrstu orðin út úr mér. Og það gekk eftir. Enda varla annað hægt en að vera afslappaður í kringum Valdísi.
Við vorum varla byrjaðar þegar tölvupóstarnir byrjuðu að streyma inn til hennar. Er ekki skemmtilegt þegar fólk lætur í sér heyra þegar það er ánægt?
Viðtalið gekk bara ágætlega og tíminn leið ótrúlega fljótt. Í hléum spjölluðum við saman og ég bauðst til að syngja fyrir Ívar tæknitröll. Mér fannst hann hafa takmarkaðan áhuga svo ég lét ekki verða af því. Ekki í þetta sinn.
Til marks um hversu pro hún Valdís er, þá fylgdist ég furðu lostin með því að þrátt fyrir að tárin lækju niður kinnarnar á henni, var ekki hægt að heyra það á talandanum hennar. Geri aðrir betur. Þetta er stelpa með stórt hjarta sem lætur sig varða um menn og málefni.
Þetta var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla og ég komst að því að það er ekkert mál að blaðra um sjálfan sig í einn og hálfan tíma. Jafnvel þó að maður haldi að maður hafi ekkert að segja.
Ég var svo heppin að rekast á Hemma Gunn þegar ég kom út úr stúdíóinu og eyddi bráðskemmtilegum hálftíma í spjall með þeim mæta manni. Fannst ég auðvitað þekkja hann afskaplega vel, þó ég hefði aldrei séð nema rétt í mýflugumynd á göngum Íslenska útvarpsfélagsins á meðan það var og hét.
Þegar ég kvaddi Valdísi sagði hún að ég myndi finna til mikillar þreytu þegar ég kæmi heim. Það tekur svo á að afhjúpa sig svona, sagði hún við mig. Og ég beið eftir að þreytan helltist yfir mig en ég fann eiginlega bara til eirðarleysis. Þar til skyndilega seinnipartinn að mér leið hreinlega eins og ég hefði verið að moka skurð allan daginn. Svolítið spes. Sannast enn og aftur hvað andlega hliðin er tengd hinni líkamlegu.
Helvíti góður sunnudagur myndi ég segja.
Sunnudagur, 6. apríl 2008
Fordómar tæfunnar
Ég er uppfull af fordómum. Hef ég sagt ykkur frá því? Þoli afar illa þegar fólk beygir orð vitlaust. Samt geri ég það örugglega stundum sjálf. Vegna þessa er sjaldan lengi ládeyða á þessu heimili. Bretinn er nebblega breskur. Jahá.. þarna kom ég ykkur á óvart. Og breski Bretinn er ekki með íslenskuna 100% á tæru. Lái honum hver sem vill. Ég geri það. Muuhhaaaa.
Við gerum töluvert af því að misskilja hvort annað og svo þarf ég alltaf að kryfja það. Ég veit... óþolandi týpan.
Hann minntist eitthvað á læðuna okkar og spennur í sömu setningu í dag, og ég kveikti ekki á perunni. Horfði á hann með tómum svip. Spennur jú-nó, sagði Bretinn og skildi ekkert í þessu skilningsleysi. Það létti til í þokumistrinu í höfðinu á mér; maðurinn var að tala um spenana á dýrinu.
Eftir örlítinn misskilning við matarborðið í kvöld, varðandi muninn á ''á miðvikudegi'' og ''á miðvikudaginn'', fór eftirfarandi samtal fram á milli mín og míns heittelskaða:
Bretinn: Another confusing thing about Icelandic grammar
Ég: Láttu ekki svona. Annað með greini og hitt ekki greini. Þú hlýtur að þekkja muninn á því eftir 20 ár (meinfýsin tæfa, eins og Birna ''vinkona'' mín orðaði það svo skemmtilega í dag)
Bretinn (horfði einlæglega á mig og sagði hægt og mjööööög skýrt): I know the difference between a gun and a rifle.
Föstudagur, 4. apríl 2008
Villi Vill
Ég ætla ekki að ræða stjórnmál frekar en fyrri daginn. Ég er að tala um ástsæla söngvarann okkar.
Núna bíð ég bara eftir að Bretinn sé búinn að græja sig (karlmenn sko) og svo tætum við á minningartónleikana. http://www.salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5553
Ég ætla að taka með mér snýtubréf í miklu magni því annars gæti ég komið af stað flóði. Ég þekki sjálfa mig.
Og ekki spillir fyrir að ég fæ að sjá Pálma á sviði í fyrsta skipti í mörg herrans ár.
----
Sá Einhverfi rífur kjaft út í eitt. Allt Lottu að kenna.
Bjáninn þinn. Ertu ekki að hlusta á mig, sagði hann margoft við pabba sinn áðan.
Og ég slepp ekkert: Heimska mamma.
Það er verst hvað mér finnst þetta fyndið.
Miðvikudagur, 2. apríl 2008
Fyrir hönd Þess Einhverfa og fjölmargra annarra fatlaðra barna, biðla ég til fyrirtækja og fjársterkra aðila
Hér koma tvær færslur frá því í fyrrasumar. Sú fyrri skrifuð þegar var verið að undirbúa Þann Einhverfa undir sumarbúðardvöl og sú seinni eftir fyrsta sólarhringinn hans í sveitinni.
Ég á ekki von á öðru en að hann verði jafnvel spenntari að komast í burtu frá okkur þetta sumarið.
Á eftir færslunum kemur svo beiðni um fjárstyrk til handa foreldrafélagi Öskjuhlíðarskóla, vegna reksturs á sumardvöl krakkanna.
Langar að biðja ykkur, bloggvini mína, að hugsa ykkur um, hvort þið þekkið einhvern aðila sem er í þeirri stöðu að vilja / geta mögulega veitt okkur fjárhagslegan stuðning. Margt smátt gerir eitt stórt.
Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti: jonag@icelandair.is
Sunnudagur, 24. júní 2007
Sá Einhverfi að yfirgefa okkur
Bretinn og Sá Einhverfi liggja í sófanum og knúsast. Á milli blogg-ferðalaga er ég í óða önn að merkja föt og pakka niður.
Ian er að fara í sumarbúðir í dag og við munum ekki sjá hann í heila viku. Það tekur um það bil 4 daga að venjast því að þurfa ekki að hlusta eftir fótataki hans á efri hæðinni og reyna að fylgjast með hvað hann er að bardúsa á neðri hæðinni. Fann hann skúffukökuna? Kláraði hann hana? Gaf hann hundinum með sér? Eru kettlingarnir allir á sínum stað? Læsti hann hundinn úti í garði. Var þetta Ian að skella niður klósettsetunni? Var hann að kúka eða pissa? Er Ian kominn út á pall á nærbuxunum? Í rigningunni?
Að kvöldi dags er maður kominn með verk í eyrun af allri hlustuninni en nú er sem sagt að renna upp vika án eyrnaverkja. Það er yndislegt hversu ánægður og sáttur hann er við að vera að fara í sumarbúðirnar. Þetta er í 3ja skipti sem hann fer og orðið ekkert mál. Fyrsta skiptið var hreint helvíti... fyrir mig.
Þegar ég rifja upp fyrsta skiptið sem Sá Einhverfi fór í burtu í sumarbúðir (þá 6 ára) sé ég hversu gífurlegar framfarir hafa orðið á drengnum. Í fyrsta skiptið var bara pakkað niður í tösku, krakkinn settur í bílinn og keyrður upp í sveit. Það þýddi ekkert að tala við hann og reyna að útskýra hvert hann væri að fara, afhverju og hversu lengi. Honum var því bara skutlað og svo stungu foreldrarnir af með tárin í augunum. Sögðum starfsfólkinu bara að hringja ef eitthvað væri en vorum sjálf byrjuð að hanga á símalínunni sama kvöld en náðum ekki sambandi. Morguninn eftir var ég ekki í rónni fyrr en ég náði í gegn. Hvernig borðaði hann? Var ekkert mál að fá hann til að sofna? Hvernig svaf hann? Vaknaði hann fyrir allar aldir?......
Sjö dögum seinna sóttum við hann og ég gat ekki beðið eftir að líta krakkann augum. Á meðan ég lifi gleymi ég ekki svipnum á honum þegar hann sá okkur. Hann sat og var að teikna þegar við komum. Þegar hann leit upp og kom auga á okkur þá las ég úr svipnum örlitla feimni og svo undrun.
''Heyrðu já..... þetta fólk. Núúúúúú... fer ég heim aftur? Ég á sem sagt ekki að vera hér alltaf....''
Ég hélt það myndi líða yfir mig þegar það rann upp fyrir mér ljós. Ég meina.... hvernig átti hann að vita að við værum ekki búin að gefa hann? Enginn sagði við hann; þetta eru sumarbúðir og hér verður þú í 7 daga. Svo koma mamma og pabbi að sækja þig. Enda hefði hann ekki skilið orð af því.
Í dag tekur hann bara dagatal með sér og ég merki inn á dagatalið hvenær við komum að sækja hann. Pís off keik.
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Það er ekki sama sundbuxur og sundbuxur
Við ókum Þeim Einhverfa í sumarbúðirnar í gær. Hann var glaður og kátur og ofsalega stoltur að fá að draga ferðatöskuna sína út í bíl. Og þegar við komum þangað þá beið hann eftir að taskan væri komin út úr bílnum. Það er svo gaman að sjá hvað skilningurinn hjá honum eykst mikið frá ári til árs. Núna spurði ég hann álits á dóti og DVD myndum sem fóru ofan í tösku og hann svaraði. Alveg yndisleg tilfinning. Ég veit að þið skiljið mig sum en önnur ekki og það er líka allt í lagi. En hugsið þá bara um fyrstu skrefin, fyrsta orðið, fyrstu sjálfstæðu ákvörðunina hjá börnunum ykkar. Svona er ég heppin. Ég er ennþá að fá að upplifa svona yfirþyrmandi gleði yfir litlum þroskaskrefum.
Ég hringdi í sumarbúðirnar í dag til að athuga hvernig Þeim Einhverfa reiddi af svona fyrsta kvöldið og nóttina.
Ekkert mál var mér sagt. Fór að sofa eins og ekkert væri og svaf í alla nótt. Aðeins örlítið vandamál og það var þegar verið var að fara í sund í morgun. Þá uppgötvaði guttinn að sundbuxurnar voru nýjar. Það féll ekki í kramið. Mamman ákvað að láta loks verða af því að kaupa nýjar sundbuxur og senda hann með í sumarbúðirnar. Þessar nýju eru alveg eins og hinar eldri en svona sirka 3 númerum stærri.
Það upphófst því einhver svakaleg rekistefna í búningsklefanum en gaurinn lét sig á endanum var mér sagt, því honum þótti rennibrautin einfaldlega of spennandi til að láta þetta stoppa sig lengi. En hann þurfti greinilega að láta aðeins í sér heyra.
Litla lúsin hennar mömmu sinnar (Jenný ég er ekki tilfinningarík). Ég sakna hans en er alveg svakalega fegin að vera laus við hann.... í smá tíma.
Foreldra og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla, FSÖ, hefur í um 30 ár staðið fyrir rekstri sumardvalar fyrir nemendur skólans en nemendur eru þroskaheft og fjölfötluð börn sem ekki getað stundað nám í heimaskóla vegna fötlunar sinnar.
Sumardvölin er staðsett að Laugalandi í Holtum í Rangárvallasýslu og stefnt er að því að hún verði starfrækt í 6 vikur sumarið 2008. Fjöldi barna á hverju tímabili er um 15-25 börn og er dvalartími hvers barns 1- 2 vikur. Samtals voru dvalarvikur barnanna síðasta sumar 104 talsins og börnin um 61. Undanfarin ár hafa 70-80% nemenda skólans nýtt sér sumardvölina sem segir meira en mörg orð um mikilvægi starfseminnar.
Sumardvölin gerir börnunum kleift að dvelja í sumardvöl á sínum eigin forsendum til jafns við ófatlaða jafnaldra sína. Einnig veitir hún fjölskyldum þessara barna möguleika á hvíld frá erfiðu uppeldishlutverki. Sem stuðningsúrræði við þessar fjölskyldur er starfsemi sumardvalarinnar því ómetanleg.
Ljóst er að ekki verður hægt að starfrækja sumardvölina í sumar nema með styrkjum frá einkaaðilum til viðbótar við framlag frá ríki, sveitarfélögum og með dvalargjöldum. Miðað við rekstraráætlunina vantar um 5 milljónir króna sem foreldra- og styrktarfélagið mun leita til fyrirtækja og annarra styrktaraðila með.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Formúla 1
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2019
2018
2010
2009
2008
2007
Bloggvinir
- solskinsdrengurinn
- skrifa
- jenfo
- gelgjan
- annambragadottir
- marzibil
- brynja
- hk
- gurrihar
- lehamzdr
- katlaa
- eddaagn
- jahernamig
- hronnsig
- martasmarta
- katrinsnaeholm
- palmig
- ipanama
- hallarut
- tommi
- ktomm
- poppoli
- svavaralfred
- kollajo
- bergruniris
- bene
- bennason
- jensgud
- solrunedda
- heidathord
- ringarinn
- tofraljos
- kjaftaskur
- ormurormur
- zeriaph
- unns
- ellasprella
- hjolagarpur
- salka
- nonniblogg
- markusth
- rebby
- birna-dis
- garun
- landsveit
- olofannajohanns
- brylli
- evaice
- ingolfurasgeirjohannesson
- rustikus
- singer
- jaxlinn
- krossgata
- mummigud
- blekpenni
- gerda
- baddahall
- holi
- grafarholt
- gudnylinda
- thegirl
- gretarorvars
- thordis
- herdis
- mammzan
- sigthora
- bet
- saedis
- emmgje
- sigurjonsigurdsson
- janus
- astromix
- overmaster
- thorasig
- gudni-is
- sunnadora
- kjarrip
- 810
- gislihjalmar
- beggagudmunds
- sirrycoach
- betareynis
- ilovemydog
- rannveigmst
- stormadis
- perlan
- bergdisr
- skondrumamma
- snar
- stormur
- ljonid
- raggipalli
- hjordiz
- almaogfreyja
- katja
- lady
- sigrunfridriks
- zunzilla
- olinathorv
- bidda
- smjattpatti
- jogamagg
- disadora
- harpao
- fuf
- alexm
- larahanna
- juliaemm
- saemi7
- gudrunmagnea
- svala-svala
- kari-hardarson
- hlf
- hlinnet
- annagisla
- einari
- lena75
- hector
- saethorhelgi
- ernafr
- birnarebekka
- heidistrand
- kerla
- hannamar
- jara
- supermamma
- monsdesigns
- malacai
- solveigth
- siggathora
- senorita
- snjaldurmus
- photo
- stingi
- pollyanna
- steingerdur
- icekeiko
- majaogco
- skordalsbrynja
- danjensen
- lilly
- heidabj
- omarpet
- helgamagg
- nori
- jamesblond
- gretaulfs
- rattati
- hogni
- ragjo
- kolgrima
- skjolid
- hugrunj
- egill75
- amman
- liljabolla
- asgerdurjoh
- okurland
- rannthor
- svalaj
- siggith
- vefritid
- zsapper
- laz
- graceperla
- rannug
- agbjarn
- alliragg
- fjarki
- birtabeib
- roslin
- lindape
- rosa
- tinnaeik
- muszka
- krummasnill
- lindalea
- fjola
- solan
- scorpio
- evabenz
- isleifure
- karitryggva
- ellasiggag
- beggita
- ollabloggar
- madddy
- songfuglinn
- emm
- lindagisla
- turettatuborg
- einarsigvalda
- huldadag
- siggasin
- credo
- loathor
- carma
- komaso
- fifudalur
- rosabla
- lillagud
- eythora
- griman
- eyrunelva
- svanurg
- strumpurinn
- godihundur
- hallidori
- annriki
- sibbulina
- helgurad
- huldumenn
- julianamagg
- berglindnanna
- huldam
- joik7
- venus
- osland
- liso
- amaba
- asako
- hryssan
- mammann
- leyla
- gunnarggg
- sigrunzanz
- fanneyunnur
- himmalingur
- helgabst
- bostoninga
- christinemarie
- jea
- elisabeta
- perlaoghvolparnir
- meyjan
- wonderwoman
- coke
- ragnhildurthora
- gullilitli
- tommi16
- ea
- mariaannakristjansdottir
- einarorneinars
- lindalinnet
- joninaros
- reynzi
- rosagreta
- lauola
- reynir
- elinora
- ma
- olapals
- bestalitla
- kolgrimur
- handtoskuserian
- vonin
- kaffi
- einarhardarson
- gleymmerei
- brandarar
- alf
- hreinsamviska
- litlakonan
- lucas
- reisubokkristinar
- jgfreemaninternational
- olofdebont
- thjodarblomid
- vilma
- ollana
- gudrununa
- holar
- gotusmidjan
- huldastefania
- mubblurnar
- bjarnihardar
- vild
- skrudur
- jyderupdrottningin
- sifjan
- letilufsa
- hrundt
- robbitomm
- brudurin
- anitabjork
- blindur
- astabjork
- bailey
- gattin
- draumur
- einhugur
- trygg
- eskil
- evags
- gudrunkatrin
- gudrunss
- nf26b
- topplistinn
- helgaas
- helgatho
- hildurhelgas
- drum
- innipuki
- ingal
- kikka
- astroblog
- oliskula
- joklamus
- stjornlagathing
- sattekkisatt
- athena
- kariaudar
- vga
- thorolfursfinnsson
- motta