Leita í fréttum mbl.is

Valdís, þið, Hemmi Gunn og ég

 

Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar eftir þáttinn hennar Valdísar. Mér þykir voðalega vænt um þær. Og þær hafa borist margar. Hér í kommentakerfinu, á sms, með símtölum og í tölvupósti. Þið klikkið aldrei á smáatriðunum.

Ég vaknaði í gærmorgun, óvenju spræk miðað við b-manneskjuna mig. Fiðrildin sem ég vissi að myndu láta á sér bæra í maganum á mér, vegna yfirvofandi viðtals, létu enn ekki á sér kræla. Ég leit út um gluggann á sveitabýlinu mínu og velti því fyrir mér upphátt hvort einhver væri að fokka í mér. Þrátt fyrir að hafa heyrt í Þeim Einhverfa á neðri hæðinni með sín venjulegu viðbrögð við snjó: Neeii... nei ma'ur.

Við blasti alhvít jörð, greinararnar á trjánum svignuðu af þunganum og ekkert lát var á ofankomunni. Stórar hvítar snjóflygsur svifu úr loftinu, Betlehemstjarnan blikaði á lofti og herskari engla á túninu... ekki alveg kannski, en jólalegt var það.

Af reynslu veit ég að það hentar mér ekki að koma á fljúgandi fart inn í stúdíó og setjast við hljóðnemann í andnauð. Ég fæ ennþá martraðir um þær aðstæður, frá því að ég vann við lestur auglýsinga og þurfti stundum að lesa í beinni. Því ákvað ég að vera sérstaklega tímanlega í því, og komst að því að það er hægt. Jafnvel þó að ég hafi talið mér trú um að það væri genatískt að vera sífellt of sein á alla staði.

Ég kom við í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut á leiðinni og lét Helen gera kaffi handa okkur Valdísi, í þeirri dásamlegu kaffivél sem þar er að finna. Valdís tók vel á móti mér og knúsaði mig. Ég fann að ég var afskaplega velkomin, jafnvel þó að Ívar tæknimaður hafi látið mig standa úti í snjókomunni í 5 mínútur áður en hann opnaði húsið fyrir mér. En ég hafði þó kaffibollana til að hlýja mér við.

Ég var sest inn í stúdíó ca hálftíma áður en ég fengi að tjá mig og fylgdist með Valdísi afslappaðri og öruggri fyrir framan míkrafóninn. Fiðrildin voru mætt og dönsuðu villtan darraðadans í kviðarholinu á mér. En ég vissi að þau yrðu róleg um leið og ég léti fyrstu orðin út úr mér. Og það gekk eftir. Enda varla annað hægt en að vera afslappaður í kringum Valdísi.

Við vorum varla byrjaðar þegar tölvupóstarnir byrjuðu að streyma inn til hennar. Er ekki skemmtilegt þegar fólk lætur í sér heyra þegar það er ánægt?

Viðtalið gekk bara ágætlega og tíminn leið ótrúlega fljótt. Í hléum spjölluðum við saman og ég bauðst til að syngja fyrir Ívar tæknitröll. Mér fannst hann hafa takmarkaðan áhuga svo ég lét ekki verða af því. Ekki í þetta sinn.

Til marks um hversu pro hún Valdís er, þá fylgdist ég furðu lostin með því að þrátt fyrir að tárin lækju niður kinnarnar á henni, var ekki hægt að heyra það á talandanum hennar. Geri aðrir betur. Þetta er stelpa með stórt hjarta sem lætur sig varða um menn og málefni.

Þetta var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla og ég komst að því að það er ekkert mál að blaðra um sjálfan sig í einn og hálfan tíma. Jafnvel þó að maður haldi að maður hafi ekkert að segja.

Ég var svo heppin að rekast á Hemma Gunn þegar ég kom út úr stúdíóinu og eyddi bráðskemmtilegum hálftíma í spjall með þeim mæta manni. Fannst ég auðvitað þekkja hann afskaplega vel, þó ég hefði aldrei séð nema rétt í mýflugumynd á göngum Íslenska útvarpsfélagsins á meðan það var og hét.

Þegar ég kvaddi Valdísi sagði hún að ég myndi finna til mikillar þreytu þegar ég kæmi heim. Það tekur svo á að afhjúpa sig svona, sagði hún við mig. Og ég beið eftir að þreytan helltist yfir mig en ég fann eiginlega bara til eirðarleysis. Þar til skyndilega seinnipartinn að mér leið hreinlega eins og ég hefði verið að moka skurð allan daginn. Svolítið spes. Sannast enn og aftur hvað andlega hliðin er tengd hinni líkamlegu.  

Helvíti góður sunnudagur myndi ég segja.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég vildi að ég hefði getað hlustað á ykkur

Sporðdrekinn, 14.4.2008 kl. 02:50

2 Smámynd: Anna Gísladóttir

Ég missti af viðtalinu í morgun en fann það svo á netinu, skellti því í ipodinn og hlustaði á það áður en ég lagði mig fyrir næturvaktina í nótt. 
Þú ert ótrúleg kona !  Innilega til hamingju með einlægt  og vel heppnað viðtal   Vonandi nærðu að hvíla þig vel eftir "skurðmoksturinn"

Anna Gísladóttir, 14.4.2008 kl. 03:03

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Náði því miður ekki netsambandi við Bylgjuna í gær, svo ég missti af þættinum.  Veit samt að þú hefur staðið þig með prýði, sómakona sem þú ert.  Til hamingju með viðtalið Jóna mín.

Ía Jóhannsdóttir, 14.4.2008 kl. 06:34

4 Smámynd: Helga skjol

Frábært viðtal,innilega til hamingju með viðtalið Jóna mín

Helga skjol, 14.4.2008 kl. 06:56

5 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Það var ljúft að liggja uppi í rúmi og hlusta á ykkur Valdísi.  Þið voruð og eruð flottar konur!

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 14.4.2008 kl. 09:10

6 identicon

Mér finnst komin tími á að ég kvitti fyrir mig hérna,þar sem ég les nú bloggið þitt á hverjum degi. Ég hlustaði á ykkur Valdísi og það var alveg yndislegt. Ég verð að vera sammála Valdísi með ímyndina af þér,þú rústaðir henni alveg hjá mér eftir að ég sá þig í Kastljósinu, þó ég fari nú ekkert nánar út í það
Gangi þér allt í haginn. 

Jóhanna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 09:36

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Jóna mín þú ert mögnuð kona ég hlustaði á viðtalið og það var margt sem ég vissi ekki.´

Ég vað mjög hrærð.og gangi þér vel með allt.

Kristín Katla Árnadóttir, 14.4.2008 kl. 09:43

8 Smámynd: M

Æ þú ert frábær

M, 14.4.2008 kl. 10:27

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mig er farið að gruna að Hemmi sé þarna til að taka á móti manni svona just in case, ef maður þyrfti áfallahjálp.  Fyrsti maður sem ég mætti eftir viðtal og auðvitað spjallaði ég.

Þú ert flott Jóna og það er Valdís líka.  Úff ég þekki svo mikið af frábærum konum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.4.2008 kl. 10:48

10 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 11:19

11 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Viðtalið var gott , en byrjunin mjög erfið  . Kær Kveðja .

Georg Eiður Arnarson, 14.4.2008 kl. 12:59

12 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Svakalega flott viðtal og er sammála að byrjunin var erfið til hamingju með þetta Jóna þið voruð glæsilegar báðar tvær

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 14.4.2008 kl. 13:06

13 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.4.2008 kl. 13:42

14 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Er einhverstaðar hægt að hlusta á viðtalið annarstaðar.. ég missti af því.. gleymdi því, því við fórum útá land til mömmsunnar...

Ég fattaði það ekki fyrr en um kvöldið að það hefði verið um morguninn

Animated Gifs

Guðríður Pétursdóttir, 14.4.2008 kl. 15:25

15 Smámynd: Gunna-Polly

Hlustaði á þetta áður en ég fór að sofa í gær og grét og hló , mikið rosalaga var þetta gott viðtal

Gunna-Polly, 14.4.2008 kl. 15:27

16 Smámynd: Eyrún Gísladóttir

Frábært viðtal þú ert flott

Eyrún Gísladóttir, 14.4.2008 kl. 16:27

17 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Mér fannst frábært að hlusta á ykkur.  Valdís er stórkostleg með þessa þætti sína.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 14.4.2008 kl. 16:34

18 Smámynd: Svanhildur Karlsdóttir

Loksins komst ég í það að hlusta á viðtalið, tárin runnu yfir fyrsta hlutanum,gott viðtal,  þú ert frábær kona, knús

Svanhildur Karlsdóttir, 14.4.2008 kl. 16:36

19 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Eru meðbræður þínir byrði?

Berðu þá ekki á bakinu, bjóddu þeim inn í hjarta þitt. (Helder Camara)

Þakka þér fyrir að bjóða mér inn í hjarta þitt

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 14.4.2008 kl. 17:08

20 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Hlustaði á viðtalið við þig í útvarpinu, fanst fyndið með gleraugun á manninum þínum og þekki hina hörmulegu sögu ykkar systkina beint eða þannig . Bestu kv til ykkar

Erna Friðriksdóttir, 14.4.2008 kl. 17:45

21 identicon

Ég var að hlusta á viðtalið á vefnum og komst að því hvað ég vissi lítið um bakgrunninn þinn. Mér fannst þetta alveg frábært viðtal og ykkur tókst að gera mjög erfiðum hlutum þannig skil að maður komst í gegnum þá með ykkur og gat haldið áfram, alveg eins og Valdís sagði: Lífið heldur áfram. Takk fyrir fallegu orðin þín um suma sem ég þekki mjög vel. Þarf ekki að taka fram að ég er líka búin að uppgötva allt þetta yndislega við suma, gott að það nýtur sín á á þessu sviði. Veit að það sem verður gert verður gert með mikilli gleði og beint frá hjartanu. Þú veist hvað ég á við.

Knús

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 18:22

22 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Flott hjá þér. Þú ert kjarnakvenmaður.

Helga Magnúsdóttir, 14.4.2008 kl. 18:39

23 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Gjörsamlega frábært viðtal. Þið Valdís voruð báðar æðislegar. Sat og skældi með ykkur snemma í þættinum, eins og eflaust fleiri hlustendur.

Guðríður Haraldsdóttir, 14.4.2008 kl. 19:11

24 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

þetta var bara alveg frábært viðtal, ég verð að viðurkenna það að þú fékkst mig til að skæla smá

EN...

Naut þess í botn að hlusta á þig, heyra röddina bak við myndina og frábæra bloggið, þú varst einfaldlega FRÁBÆR
Knús 

Guðrún Jóhannesdóttir, 14.4.2008 kl. 19:31

25 Smámynd: Ómar Ingi

Djö , ég grafa þetta viðtal þitt upp , auðvitað svaf ég meðan þið voruð að drekka kaffi miðja nótt og það á sunnudegi.

Þú átt að gera þetta eins og próffarnir láta taka viðtalið upp á eðlilegum tíma dags og láta flytja það þarna um nóttina svo.

Já það er gert , oft og mörgum sinnum en það er auðvitað alltaf flutt á nóttinni þannig að ég hefði misst af því

Vertu stillt

Ómar Ingi, 14.4.2008 kl. 19:57

26 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Ertu ekki til í að setja link á viðtalið, væri gaman að fá að heyra þó í útlöndum sé

Sigrún Friðriksdóttir, 14.4.2008 kl. 20:11

27 Smámynd: Gunna-Polly

Gunna-Polly, 14.4.2008 kl. 20:15

28 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hérna er linkurinn krakkar mínir

http://www.bylgjan.is/?PageID=1901

Jóna Á. Gísladóttir, 14.4.2008 kl. 20:17

29 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Takk er að fara að hlusta

Sigrún Friðriksdóttir, 14.4.2008 kl. 22:17

30 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Vááá þvílík viðtal Jóna !!!! Búin að gráta, hlægja og njóóóta vel að hlusta Rosalega flott viðtal hjá ykkur Valdísi Rosalega mikið sem það hristi upp í minninu hjá mér þegar þú mundir ekki eftir neinu eftir greininguna. Ég var að lesa bréf til fyrrverandi heilbrigðisráðherra frá mér, og það er eins og ég sé að lesa í bók en ekki rifja upp sjálf. Stórfurðulegt þetta mynni hjá manni (Kíktu á bloggið mitt í dag, væri gaman að heyra hvort þetta sé komið í gagnið heima, eða geti orðið að notum þar.)

Knúsur og klemmur

P.S Þvílíkt verð á skeinupappanum

Sigrún Friðriksdóttir, 14.4.2008 kl. 23:32

31 Smámynd: Fishandchips

Stillti klukkuna svo ég myndi örugglega ekki missa af þér.

En þú varst bara "mikklu" skemmtilegri en blöðin og kaffibollinn.

Þannig að blaðalestur, sem er venjulega "must" á sunnudagsmorgnum, fékk að bíða, en kaffibollinn fékk að hanga inni.

Eitt af bestu viðtölulum sem Valdís hefur tekið, og hef ég oft verið með svona annað eyrað á Bylgjunni í gegnum tíðina. Hef oftast hlustað á sunnudagsmorgnum.

En ég áttaði mig á því að við höfum vissa tengingu.... Mamma hans Daníels, hún Álfhildur, er æskuvinkona mín. Og hann og yngri sonur minn eru jafn gamlir, báðir fæddir 1990.

Skrýtið....

Fishandchips, 15.4.2008 kl. 00:05

32 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Jóna, þú ert náttúrulega bara frábær. Mér tókst loksins í kvöld að hlusta á þáttinn á netinu. Ég grét og hló og dáist að krafti þínum og lífsviðhorfi.

Þakka þér fyrir að deila þessu öllu með okkur.

Ragnhildur Jónsdóttir, 15.4.2008 kl. 00:22

33 identicon

Þetta var alveg frábær þáttur.  Tvær flottar konur og næmar að tala saman um erfiða hluti, sem ekki er auðvelt að taka á.  Ég fann fyrir djúpri sorg og samúð með ykkur börnunum.  Þetta var erfið bernska.  En veistu hvað, Jóna Ágústa!  Sennilega þekki ég systur þína, hana Helgu.  Við unnum saman um tíma ef mér skjátlast ekki og hún er afar fín manneskja.  Og skemmtileg!

Þakka þér fyrir að leyfa okkur að vera með ykkur fjölskyldunni í daglega lífinu.  Þú kannt að orða hlutina á svo fallegan og nærfærinn hátt. Börnin eru sannarlega yndisleg, hvert á sinn hátt.  Og dýrin ykkar eru gleðigjafar.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 21:13

34 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Takk fyrir frábæra stund með þér og Valdísi

Þóra Sigurðardóttir, 15.4.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband