Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Nokkur atriði um mig

Ég var klukkuð af meyju og Elísabetu og skorast ekki undan því. Enda fátt sem mér þykir skemmtilegra en að tala um sjálfa mig.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

  • Í Miklagarði sáluga. Þar steig ég mín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Á sérstaklega góðar og skemmtilega minningar um þann stað og vinnufélagana.
  • Á smáauglýsingadeild DV. Þegar smáauglýsingar voru smáauglýsingar og við rúluðum á markaðnum. Þegar Leoncie var upp á sitt besta og átti keppinaut sem hét Bonnie (eða var það Bonny?). Þegar bannað var að auglýsa eftir ríkum manni í einkamálaauglýsingunum en ''fjárhagslega sjálfstæður maður'' var í lagi.
  • Á Aðalstöðinni þegar bræðurnir Þormóður og Baldvin Jónssynir réðu þar ríkjum og gamla húsið í Aðalstrætinu var mitt annað heimili og ég þekkti hvern krók og kima og vissi hvar ég mátti ekki stíga á gólfið því þá færi ég niður úr því.
  • Á auglýsingadeild Bylgjunnar og Stöðvar 2 þegar fyrirtækið óð í peningum og trítaði starfsfólkið sitt

 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á  (Erfitt að velja 4)

  • Full Monty (og margar aðrar svona litlar, sætar, breskar bíómyndir)

  • Something gotta give (þú veeeerður að sjá þessa)

  • Four weddings and a funeral

  • As good as is gets

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á

  • Raufarhöfn

  • Seyðisfjörður

  • Hönefoss Ringerike, Norge

  • Reykjavík (amma og afi komu mér út úr krummaskuðunum)

  •  

  • Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar

  • Friends (ójá, þeir eru ekki dauðir enn)

  • House (hann er svo yndislega andfélagslegur)

  • So you think you can dance (mér finnst bara svo gaman að horfa á fallega líkama hreyfa sig á svo þokkafullan hátt. Kannski vegna þess að þetta hefur mig alltaf langað til að geta þetta sjálf)

  • King of Queens (finn til svo mikillar samkenndar með Carrie þegar henni langar að lúskra á kallinum)

  • Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum

    • Spánn
    • England 
    • Danmörk
    • Sauðárkrókur

  Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg

  • mbl.is
  • simaskra.is
  • landsbankinn.is - gengi
  • og fjöldinn allur af cargo tracking síðum: dhl, ups, Lufthansa, Transborder....

Fernt sem ég held uppá matarkyns

  • Kjúklingur (endalaust hægt að éta kjúlla)
  • Fiskur fiskur fiskur
  • Spari Indverskur a la Bretinn
  • Lasagne a la Ellisif (sem mér tekst bara þokkalega að búa til sjálf og er uppáhalds matur Þess Einhverfa)
  • Og ég verð að bæta við: grilluð pizza a la Ásta Birna (gleymi þessari aldrei) og rjúpur a la Anna frænka með sósu a la Arnór.... OMG ég var búin að gleyma blómkálssúpunni hans Bigga hennar Önnu systur....

 

  Fjórar bækur sem ég hef lesið oft

ég er ekki stolt af því en einu bækurnar sem ég hef lesið margoft eru eftir Bodil Forsberg, Barböru Cartland og Else Marie-Nohr (ég trúi því ekki að ég muni þessi nöfn) og þetta var þegar ég var á aldrinum 9-12 ára

  • og svo bækur sem ég las fyrir Gelgjuna hérna í denn

Fjórir bloggarar sem ég klukka  

Jenfo því ég veit hún hatar svona leiki en elskar mig svo mikið að hún fyrirgefur mér

Ívar því  hann er ekki nógu duglegur að blogga um sjálfan sig og er held ég alveg búinn að gleyma rithöfundarhæfileikum sínum. 

Gunnar Svíafari því ég hef áhuga á því að vita hvað hann gerir á milli þess sem hann hjálpar mér með tæknileg atriði á blogginu og hannar toppmyndir á síðuna mína

Högni því hann er alltaf svo góður við mig


Misskilningur með bókina?

Það er afmælisdagur að kveldi kominn. Sá Einhverfi varð 10 ára í dag og flottari en nokkru sinni fyrr. Hann hefur aldrei kært sig um að láta syngja afmælissönginn fyrir sig en í dag átti hann skyndilega til orð yfir þetta gól í okkur.

Hann svaf hjá Fríðu Brussubínu og co á laugardagskvöldið þar sem við Bretinn voru í brúðkaupi langt fram eftir nóttu. Og talandi um það brúðkaup... fallegasta og skemmtilegasta kirkjubrúðkaup sem ég hef verið viðstödd. En jafnframt það erfiðasta. Við sátum þrjár í röð með tissjú í henglum og á vissum tímapunkti bað ég til guðs að þetta tæki enda því mér var orðið svo illt í hálsinum af því að halda aftur af grátinum.

En sem sagt, Sá Einhverfi vaknaði upp hjá stuðningsfjölskyldunni sem hóf daginn snemma á uppáhaldi drengsins, þ.e. skúffuköku sem hinn bakstursglaði Valur stuðningsbróðir bakaði. Og að sjálfsögðu var sunginn afmælissöngurinn. Eða gerð tilraun til þess. En í stað þess að bara fela andlitið í höndum sér eins og hann hefur gert síðustu ár þá æpti hann upp: Nei nei hættið þessu væli það er komið nóg.

Eins og gefur að skilja varð þetta aðalbrandarinn í dag og gerð tilraun til afmælissöngs hvað eftir annað. En Sá Einhverfi hafði ekki minna gaman að þessu en við hin, og hló eins og brjálæðingur. En afmælissöngurinn var aldrei sunginn til enda nema í kvöld þegar afmæliskakan með kertunum var borinn fram. Með alla gestina í kringum sig var Sá Einhverfi kurteis og lét sér nægja að fela andlitið í höndum sér á meðan hann hlustaði á ''vælið''.

---

Ég hef á tilfinningunni að það sé algengur misskilningur að ég sé að fara að gefa út skáldsögu. Sú er nú ekki raunin (hún kemur á næsta ári hehe). Bókin sem kemur út í næsta mánuði að öllum líkindum, er byggð á blogginu. Bæði áður birt og óbirt efni verður í bókinni.

En ég held ég geti fullyrt að jafnvel þeir sem hafa lesið bloggið mitt frá upphafi muni hafa gaman af (þ.e. ef þið hafið gaman af blogginu á annað borð).

Ég þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar, hlýhuginn og stuðninginn varðandi þessa frumraun mína í bókaútgáfu.

 


Brúðkaup, afmæli, bókin og hin týpíska fataleit

 

Jæja. Þetta er heldur betur búið að vera vinnutörn hjá mér. Hef vakað til þrjú og fjögur á nóttunni til að leggja lokahönd á bókina. Hef farið á langa fundi með ritstjóranum næstum hvern dag vikunnar og þessar elskur sem vinna með mér hjá Icelandair Cargo hafa ekki verið neitt nema elskulegheitin og horft í gegnum fingur sér með þessar miklu fjarverur mínar frá vinnu.

Ég er komin með handritið í hendur og á bara eftir að gera smávægilegar breytingar og viðbætur áður en allt verður klárt fyrir prentun.

Annars konar törn tekur nú við og það er eldhúsvinna sem er svo sem ekki mitt uppáhald. Sá Einhverfi verður 10 ára á morgun og nú þarf ég að bretta upp ermarnar í kökugerð og sollis því kl. 5 í dag á ég að vera mætt í brúðkaup.

Og mikið svakalega hlakka ég til. Ég þarf að sjálfsögðu að taka andlitið með mér í tösku því ég grenja alltaf í brúðkaupum. Í kirkjunni sko. Hef nú svo sem ekki gert mikið af því að væla í veislum. þannig að maskarinn og fleira tengt andlitinu verður að vera með í för svo ég geti lappað upp á útlitið á milli kirkju og veislu.

Hulda og Haukur. Innilega til hamingju með daginn elskurnar mínar.

Ég er að sjálfsögðu búin að standa í hinni klassísku fataleit. Gerði nú ekki miklar kröfur. Vildi finna einhvern topp við pils sem ég á. Og ég ætlaði sko ekki að eyða í þetta fleiri fleiri þúsundköllum. Djöfuls bilun er þetta verðlag. Ég hefði sko getað keypt mér toppa... sko toppa, engir hlýrar hvað þá ermar, fyrir tíu þúsund. Og þegar maður er að drepast úr keppa-komplexum þá verslar maður sér ekki erma- eða hlýralausan topp fyrir tíuþúsundkall.

En mér hefur tekist að taka þetta allt saman á æðruleysinu, vitandi það að keppa-komplexarnir eru á undanhaldi (ég er svo dugleg í mataræðinu og göngutúrunum) og fann mér barasta jakka í gömlu góðu Hagkaupum með 50% afslætti. Getur verið að ég sé að verða sparsöm á gamals aldri? Æi nei, sennilega ekki. Það væri kraftaverk og við búumst ekki við slíku.

En nú þarf ég að drífa mig í Bónus og freista þess að koma Þeim Einhverfa út í bíl og heim til Fríðu brussubínu. Þessi drengur er að brillera á öllum sviðum þessa dagana. Það er efni í aðra færslu.

 


Við erum heppin

 

Auuuuuuuumingja fluvan, segir Sá Einhverfi um leið og hann skellir flötum lófa á borðplötuna.

Auuuuumingja flugan slapp með skrekkinn en hún er ekki laus við drenginn. Ekki frekar en allir ættingjar hennar sem hafa ákveðið að lengja líf ættbálksins og flytja inn til okkar.

Enn eitt sumarið er að líða undir lok og allar feitu köngulórnar sem lifðu góðu lífi í garðinum hjá okkur síðustu mánuði eru horfnar. Við merkjum það ansi vel á þeim óþolandi fjölda flugna sem skyndilega sveima óhindrað í kringum okkur.

Það er engu líkara en Sá Einhverfi hafi aldrei farið í sumarfrí. Allavega ekki hvað snertir lestrarkunnáttu. Í vor var ég ákveðin í því að halda við lestrinum hjá honum yfir sumarið. En eins og með svo margt sem þessi konar ákveður, þá verður ekki neitt úr neinu.

En í dag var nýja lestrarbókin tekin upp úr töskunni og drengurinn las betur en nokkru sinni áður.

Ég er svo sem ekki hreykin af því, en ég sá ekki möguleika sonar míns fyrir nokkrum árum síðan. Allavega ekki þá möguleika sem kennararnir hans í Öskjuhlíðarskóla sáu. Þegar þeir tóku upp á því að kenna Þeim Einhverfa hljóð stafanna og svo fljótlega að tengja saman tvo stafi, þrjá o.sfrv., þá hugsaði ég; VÁ!  Og það var ekki síður ætlað kennurunum en duglega drengnum mínum.

Og ekki í fyrsta, og ekki í síðasta skipti hugsaði ég til þeirra barna og fjölskyldna sem stóðu í okkar sporum fyrir þrjátíu árum... tuttugu árum.. jafnvel 10 árum.

hversu mikið er af fólki með einhverfu úti í hinum stóra heimi sem gæti í dag lifað góðu lífi ef það hefði fengið stuðning og þá hjálp sem er fáanleg í dag, en eru þess í stað algjörlega ófærir um að lifa sjálfstæðu lífi á nokkurn hátt, vegna hinnar félagslegu fötlunar sinnar. 

Ég er í rauninni bara að reyna að koma orðum að því hvað ég er þakklát. Og hversu heppin mér finnst við vera. Þrátt fyrir þessar bannsettu flugur.

 


Þangað sem lífið leiðir okkur

Í fyrra fór ég á námskeið sem ber nafið Skapandi skrif. Það er Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og listamaður sem er með þessi námskeið. Ég fékk ótrúlega mikið út úr þessum 4 kvöldum og var ákveðin í að fara á framhaldsnámskeið seinna meir.

Ég sá það svo auglýst um daginn og gat ekki hætt að hugsa um það. En ég gat heldur ekki gleymt peningunum sem ég á ekki til. En á föstudaginn hugsaði ég: what the f..., maður lifir víst bara einu sinni og ákvað að skella mér. Og ekki slæmt, kostar 40.000 en ég fæ 20.000 frá VR.

Ég byrja annað kvöld og hlakka þessi lifandi ósköp til.

Í tilefni af þessu kemur hér smásaga sem varð til í þeirri miklu andagift sem ég fylltist af í návist skáldsins Cool. Eg birti hana reyndar í fyrra, svo einhver ykkar hafa lesið hana. Hún er nú samt að einhverju leyti breytt og bætt. 

Þangað sem lífið leiðir okkur

Snjórinn er kaldur og harður viðkomu. Berir fæturnir eru orðnir rauðir og þrútnir af kuldanum og hún er hætt að finna fyrir þeim.

Samt heldur hún sínu striki. Hún veit varla hvað það ser sem rekur hana áfram. Aðeins að þessi draumur kallar fram svo sterk viðbrögð að hún má engan tíma missa.

 Á meðan hún bröltir yfir kalt hjarið streyma svipmyndir frá nóttunni fram í höfuð hennar. Myndir frá Draumnum. Eins og leiftursýnir birtist hvert myndbrotið á fætur öðru. Sum svo björt að hún lokar augunum andartak.

Ískur. Undarlegir brestir. Rauðleitur hlutur flýgur í gegnum loftið og ber við rökkvaðan himinn. Skaðræðisóp. Samanhnipruð mannvera. Blóð. Sársauki. Grátur. Er þetta karlmaður að gráta?

Hún hristir höfuðið eins og til að losa sig við þessar sýnir og tárin byrja að renna niður kinnarnar á henni. En hún finnur það ekki. Skynjar ekkert nema þennan mikla ákafa að halda áfram.

Einhver er í vandræðum... lífshættu.. hún verður að finna út hver það er. Koma til hjálpar. Hún er næsta viss að það er einhver henni nákominn. En þetta er einhver vitleysa. Hver ætti svo sem að vera kominn hingað uppeftir.

Hún er farin að tala upphátt við sjálfa sig en það er eins og orðin komi frá einhverjum ókunnugum. Hún er orðin hrædd, en getur ekki stoppað. Einhver ósýnilegur kraftur neyðir hana áfram í ísköldu næturloftinu.

Hún hefur alltaf verið berdreymin. Eiginleiki sem hún tekur ekki fagnandi. Hann veldur henni oft sársauka og vanlíðan.Stjórnar lífi hennar á margan hátt. Eins og núna. Hvaða manneskja með fullu viti myndi rjúka út um hávetur, íklædd engu nema ermalausum kjól? hugsar hún með sjálfri sér. Berfætt? Til að leita einhvers sem sennilega er draumur. Draumur og ekkert annað.

Hún og Kristján höfðu ákveðið að fara hingað upp eftir, í sumarbústað foreldra hans. Fengu bústaðinn lánaðan yfir helgina. Hann stendur afskekkt og þau ætluðu að njóta þess að vera saman, bara tvö ein áður en prófin byrjuðu og myndu aðskilja þau um tíma.

Hún heyrir Kristján kalla á sig:

RAKEL RAKEL 

Undrunin og skelfingin í rödd hans er eins og bergmál af hennar eiginn ótta. En hún getur ekki svarað honum. Þó hún þrái ekkert meira en að finna heita og sterka arma hans umlykja sig. En hún verður að halda áfram. Áfram.

Í nokkra stund rýfur ekkert kyrrðina, fyrir utan marrið í snjónum undir fótum þeirra beggja. Rakel veit að Kristján nálgast og bara tímaspursmál hvenær hann nær henni. Hún heyrir másandi og öran andardrátt hans fyrir aftan sig. Hann má ekki ná til hennar. Hún veit að hann mun stoppa hana og hún verður að ljúka þessu. Verður að fá svörin.

Hún gerir sér ekki grein fyrir því hversu langt þau hafa farið fyrr en hún sér glitta í veginn fyrir ofan bústaðinn. Það er stjörnubjart og tunglið sendir birtu sína niður til hennar.

RAKE HVAÐ ERTU AÐ GERA.. HVERT ERTU AÐ FARA

Kristján er orðinn skelfingu lostinn. Heldur líklega að ég hafi misst vitið, hugsar Rakel og flissar móðursýkislega með sjálfri sér. Kannski er hún búin að missa vitið. Hún er ekki viss. Ekkert virðist raunverulegt á þessari stundu.

En hún getur ekki hugsað um það núna. Hvorki um geðheilsu sína né um ótta Kristjáns. Hún mun útskýra þetta brjálæði fyrir honum seinna. Ekki núna. Það eru aðeins örfá skref eftir upp á veg og hún finnur að ef hún aðeins nær þangað þá verður allt eins og það á að vera.

Já, segir hún stundarhátt út í nóttina. Upp á veginum fæ ég öll svörin. Þá getum við snúið við og allt verður eins og það á að vera.

Hún klifrar upp á veginn, aðframkomin af þreytu og örvinglan. Henni er ískalt og óskar þess að hún hefði að minnsta kosti vettlinga. Fingurnir eru dofnir og hún kreppir þá og réttir á víxl til að fá blóðið á hreyfingu. Eitt andartak stansar hún til að líta við og athuga hversu langt Kristján á eftir.

Ljósgeisli rýfur rökkrið og Rakel blindast af birtunni. Ósjálfrátt ber hún hendur upp að augunum til að verjast áleitnu ljósinu. Heyrir Kristján öskra nafnið hennar um leið og hávært ýskur í bremsum sker í eyrun. Brestirnir í brotnandi beinum eru óraunverulegir finnst Rakel. Hljóð sem hún hefur aldrei heyrt áður en þekkir strax. Líkami hennar í rauða kjólnum flýgur í gegnum loftið og ber við himininn. Sýnin er tilkomumikil í skini mánans.

Einhver öskrar af öllum lífs og sálar kröftum. Hún skynjar sársauka. Hann er ekki líkamlegur. Og hann er ekki hennar.

Á meðan líf hennar fjarar út heyrir hún grát. Er þetta karlmaður að gráta?


Geltandi karlmaður

 

Viddi Vitleysingur og ég fórum í göngutúr í dag. Hjá sumum væri það svo sem ekki í frásögur færandi en það er það í mínu tilfelli.

Göngutúrar eru hreinlega með því leiðinlegra sem ég tek mér fyrir hendur. Eða voru. Ég held ég sé að komast upp á lagið með þetta. Hef farið markvisst í gönguferðir síðustu tvær vikur og í  dag brá svo við að ég fann fyrir örlítilli frelsistilfinningu þegar við Viddi röltum í áttina að Rauðavatni. Og þegar við fengum yfir okkur slagveðursrigningu varð ég ofsakát. Ótrúlega hressandi.

Viddi Vitleysingur er ekki fyrirmyndarhundur í alla staði. Hann er auðvitað Íslendingur í húð og hár og eins og þeim kynstofni er von og vísa, þá á hann það til að gelta á röngum forsendum, á ranga aðila, á röngum tímapunkti.

Á leið okkar í dag varð ungur maður, ég myndi giska á um þrítugt. Viddi byrjaði að gelta um leið og hann sá manninn því Viddi heldur að allt Seláshverfið sé hans og ókunnugir eru þar engir auðfúsugestir að hans mati.

Ég stytti strax í ólinni á hundskömminni og hastaði á hann og þá var málið dautt. Eða það hélt ég þar til ég heyrði gelt koma frá sirka þeim stað sem ungi maðurinn var kominn til. Ég litaðist um eftir þessum hundi sem ég ákvað í huganum að væri að smærri gerðinni því geltið var frekar máttleysislegt. Ég mætti augnaráði þessa manns og viti menn.. það var hann sem gelti. Hann var greinilega ósáttur við þennan illa uppalda hund og vanþóknun sína tjáði hann með þessum hætti. Augnaráðið var þungbúið og ásakandi. Eins og hann væri stórmóðgaður. Hann sneri sér svo undan og hélt geltandi áfram för sinni þvert yfir móaana í átt að Norðlingaholtinu.

Ég segi það satt að ég var dauðfegin. Ef hann hefði haldið í átt að Rauðvatni hefði ég snúið við. Eða eru þetta fordómar í mér að finnast það ekki sjálfsagt að fullorðið fólk gangi geltandi um?

Viddi Helga

það er nú ekki hægt að vera lengi móðgaður eða reiður við þennan öðling


Ömurleg og óréttlát móðir

 

Nú er fyrsta vika skólaársins að enda og allt búið að ganga eins og í sögu með Þann Einhverfa. Vikudagskráin fína sem ég set nú alltaf upp fyrir hann hangir á ísskápnum og er skoðuð daglega. Jafnvel tvisar til þrisvar sinnum á dag.

Þetta hefur verið einfalt plan alla vikuna, enda algjör óþarfi að vera að flækja málin eitthvað á meðan hann er að komast inn í skólarútínuna aftur.

  • Rúta
  • Skóli
  • Vesturhlíð
  • Rúta - heim 

Þegar hann kemur heim með rútunni /skólabílnum, byrjar hann á því að sækja sér penna og strikar svo vandlega kross yfir daginn í dag.

En í morgun vaknaði stráksi og var ákveðinn í því að hann ætlaði ekki í Vesturhlíð í dag. Þetta kom mér á óvart þar sem þetta hefur gengið svo vel alla vikuna og ég skildi ekkert í því hvað var skyndilega hlaupið í drenginn.

Hann náði í penna og vildi strika yfir Vesturhlíð á planinu sínu en ég bannaði honum það. Þá beygði hann af og tárin spýttust í allar áttir. Hann grét í fanginu á mér góða stund og við áttum í rökræðum sem hljómuðu einhvern veginn svona:

Sá Einhverfi: ekki Vesturhlíð

Ég: Jú Ian

Sá Einhverfi: Nei ekki Vesturhlíð buhuhuhu

Ég: Í dag er föstudagur og það er rúta, skóli, Vesturhlíð.....

Sá Einhverfi (grípur fram í á gólunum): nei ekki rúta ekki Vesturhlíð

Við komumst svo sem ekki að neinni sameiginlegri niðurstöðu við mæðginin, en það rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Í fyrravetur áttum við aðeins pláss í Vesturhlíð 4 daga vikunnar vegna manneklu og það voru föstudagarnir sem duttu út.

Og þessi ömurlega mamma ætlaði barasta að breyta um stefnu þennan veturinn. Þvílíkt ranglæti í þessum heimi. Þvílíkar byrðar.

Það var brúnaþungur og ósáttur strákur sem skundaði út í rútu í rokinu í morgun. Hann skutlaði skólatöskunni af bakinu þegar inn í rútuna kom, og treysti á að bílstjórinn myndi grípa hana.

Ég sá, þar sem ég stóð fyrir utan, að svipurinn var þóttalegur er hann fékk sér sæti og spennti á sig beltið. Þrátt fyrir að mér finndist öll dramatíkin fyndin þráði ég að hann liti á mig í gegnum rúðuna. Gæfi mér eitt lítið vink eða örsmátt bros í kveðjuskyni. Eitthvað sem segði mér að hann myndi ganga glaður inn í Vesturhlíð í dag eins og alla hina dagana.

En hann sneri í mig baki og lét eins og hann ætti enga móður.  Allavega ekki almennilega.

En það er allt í lagi. Ég veit að hann mun elska mig í tætlur í kvöld þegar ég ber Dominos pizzu á borð fyrir hann.

 


pirr pirr

 

Það er engin hemja hvað ég get verið pirruð. Það pirrast enginn meira en ég. En ég veit um eina sem pirrast jafn mikið og ég. Og þú veist hver þú ert. Devil

Pirringurinn hjá mér er líkamlegur. Ég finn hvernig allar taugar krullast upp í permó-ástand eins og þær hafi fengið andlegt raflost.

Klukkan 22:47 í kvöld að staðartíma kom Gelgjan til mín með nýju gallabuxurnar og sagði: mamma ertu til í að festa uppábrotin?

Og ég tuðaði og röflaði og tautaði og skammaðist yfir þessari alslæmu tímasetningu, þar sem öll helgin var að baki.

  • Afhverju hún hefði ekki beðið mig um þetta fyrr í dag (t.d. þegar ég þurfti nauðsynlega að leggja mig í 4 klst svo meðvirk var ég þreytu landsliðsins),
  • eða í gær (þegar ég var bissí við að fara út með Vidda Vitleysing, versla vegna tilvonandi kvöldmatargesta, elda matinn og svo taka á móti gestum)
  • eða á föstudaginn (þegar ég sveif á rauðbleiku skýi eftir sigur strákanna gegn Spánverjum og var ekki til viðtals í sigurvímunni)

Og eftir allt tuðið ákvað ég að hún skyldi sko fá að eyða jafnmiklum tíma í þetta og ég, svo ég lét hana standa upp á stól og vera í buxunum á meðan ég tyllti uppábrotunum með örfáum saumsporum.

En ég var pirruð. Pirruð yfir tímanum sem fór í þetta. Pirruð yfir nýtilkominni ellifjarsýninni sem gerði mér erfitt fyrir að þræða nálina. Og í hvert skipti sem ég stakk sjálfa mig í fingurna fann ég hvernig taugarnar á mér pirruðust alveg út í afró-krullur.

Og þar sem ég kraup við fætur dóttur minnar sem furðanlega ónæm fyrir skapvonskunni í mér, fann ég klapp á kollinn og hughreystandi rödd sagði: mamma þú ert flink að sauma.

Já finnst þér það sagði ég og stakk sjálfa mig í vísifingur.

Og þar sem Bretinn er bissí við að horfa á golf, þá létti ég á hjarta mínu við ykkur.

 


Fimmta skólaár Þess Einhverfa að hefjast

 

Á föstudagsmorgunn var skólasetning í Öskjuhlíðarskóla. Sú fimmta í okkar lífi. En sú fyrsta sem reyndist aðeins gleði og kátína.

Með stundaskránni góðu sem nú er notuð fyrir Þann Einhverfa, var þetta ekkert mál og hann mætti kátur  í stofuna sína. Og bara nokkuð stoltur þótti mér.

Sat rólegur við borðið og ''hlustaði'' á nýja kennarann sinn. Harry Potter komst ekkert að fyrr en eftir að kennarinn lauk máli sínu. En þá flæddi hann líka yfir allt, drakk eitur, hóstaði, sagði Ó no og féll síðan örendur í gólfið.

Á meðan Sá Einhverfi og Harry Potter runnu saman í eitt þarna í skólastofunni, kíktum við Bretinn í körfuna sem geymir liti, skæri, blýanta og annað sem Sá einhverfi notað í skólanum. Athuguðum hvort ekki væri kominn tími til að endurnýja þetta dót.

Í körfunni fundum við ótal verðlaunapeninga sem var vel við hæfi í ljósi þess sem gerðist í Peking seinna um daginn. En þessir verðlaunapeningar voru allir fyrir hlaup kvenna 50 ára og eldri. Lá sem sagt ljóst fyrir að þeir voru ekki fyrir íþróttaafrek Þess Einhverfa á neinu sviði.

Þar sem við Bretinn stóðum og flissuðum eins og ráðsettum og ábyrgum foreldrum sæmir, kom í ljós að kennarinn á þessa peninga. Einhverjum af hennar nemendum frá því í fyrra þykir afskaplega gaman að skreyta sig með öllum hennar medalíum en hvernig þær svo enduðu í körfu Þess Einhverfa mun verða ráðgáta um ókomna tíð.

Eftir skólasetninguna fóru allir út á skólalóð og þar var hægt að fá pylsur með öllu og safa að drekka. Sá Einhverfi afþakkaði veisluna en skoppaði kátur í kringum okkur á meðan við spjölluðum við foreldra og starfsfólk.

Það er áberandi hvað andrúmsloftið er alltaf létt og skemmtilegt á þessum stað. Kannski er það vegna þess að þarna eru börnin okkar á sínu yfirráðasvæði. Með sínum jafningjum.

Það er synd og skömm... nei.. það er glæpur að til standi að leggja þennan skóla niður. Ég þarf einmitt að snúa mér að því máli þegar bókarskrifum lýkur.....

 


Mamma farðu burt

 

Bretinn er í fríi þessa viku. Það frí nýtist held ég, einna helst í snúninga fyrir og með Gelgjuna og svo auðvitað golf.

Hann stígur ekki fæti sjálfviljugur inn í Kringluna og örugglega hægt að telja á fingrum annarrar handar hans ferðir þangað á árinu. En Gelgjan hefur dregið hann þangað 2x í vikunni. Í fyrra skiptið til að kaupa dót fyrir skólann og plataði þá út úr honum ferð á uppáhaldsveitingastaðinn sinn, Cafe Bleu, og át uppáhaldsréttinn sinn; hamborgara með frönskum og sósu.

Í dag fóru þau svo í gallabuxnaleiðangur. Og trúið mér; this is BIG. Þetta barn hefur ekki fengist áður til að klæðast gallabuxum. ALDREI á sínum 11 árum. Þetta er baaaaara byrjunin, ég veit það. Og þó að þessar buxur hafi ''aðeins'' kostað 5000 kr þá veit ég að fyrr en varir verður farið að væla um 15 þús kr merkjagallabuxur. Fimmtíuogáttaþúsund króna skór eru svo næsta skref þar á eftir.

En Bretinn var sem sagt upptekin í Kringlunni og ég, vinnandi konan sagði: allt í lagi elskan, ég verð komin heim áður en Ian kemur með rútunni. Ekki málið.

Á leiðinni heim mundi ég svo að ég var ekki með lykil að útidyrahurðinni.

Þegar ég renndi í hlað sá ég trýnið á Vidda Vitleysing útflatt á glugganum eins og venjulega. Himinlifandi glaður að fá mig heim byrjaði hann að snúast í hringi. Sú gleði breyttist fljótt í hávært gelt og pirring. Því ekki skilaði ég mér inn, heldur sniglaðist í kringum húsið eins og sá sem ekkert gott hefur í hyggju. Hann var alls ekki ánægður með þetta. 

Ég var komin úr kápunni og búin að sparka af mér hælaskónum. Nennti ekki að skakklappast í þessu outfitti í gegnum garðinn en þangað fór ég til að ná mér í stiga. Svo skreið ég inn um glugga í fína skrifstofudressinu mínu og fæturnir klæddir nælonsokkum einum fata voru síðastir inn.

Og þá var því máli reddað.

En svo kom Sá Einhverfi heim og fór að háskæla þegar hann sá mig. Hann átti ekki von á mér heima og var ekki ánægður með þessa óvæntu uppákomu.

Farðu burt, sagði hann

ég fékk ekki að faðma hann eða hugga. Hann vildi bara ekkert með móður sína hafa. Fannst ég vera með átroðning.

Svo jafnaði hann sig smátt og smátt og sætti sig við að mamma hans var heima. Eða það hélt ég. þangað til Bretinn, Gelgjan og Viðhengið komu heim. Gelgjan sæl á svip með gallabuxur í appelsínugulum plastpoka.

Þá heyrðist af efri hæðinni: mamma fara í göngutúr.

Og það gerði hún. Með Vidda Vitleysingi. Ekki nema sjálfsagt að láta einn Einn Einhverfan stjórna sér og sínu lífi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband