Leita í fréttum mbl.is

Geltandi karlmaður

 

Viddi Vitleysingur og ég fórum í göngutúr í dag. Hjá sumum væri það svo sem ekki í frásögur færandi en það er það í mínu tilfelli.

Göngutúrar eru hreinlega með því leiðinlegra sem ég tek mér fyrir hendur. Eða voru. Ég held ég sé að komast upp á lagið með þetta. Hef farið markvisst í gönguferðir síðustu tvær vikur og í  dag brá svo við að ég fann fyrir örlítilli frelsistilfinningu þegar við Viddi röltum í áttina að Rauðavatni. Og þegar við fengum yfir okkur slagveðursrigningu varð ég ofsakát. Ótrúlega hressandi.

Viddi Vitleysingur er ekki fyrirmyndarhundur í alla staði. Hann er auðvitað Íslendingur í húð og hár og eins og þeim kynstofni er von og vísa, þá á hann það til að gelta á röngum forsendum, á ranga aðila, á röngum tímapunkti.

Á leið okkar í dag varð ungur maður, ég myndi giska á um þrítugt. Viddi byrjaði að gelta um leið og hann sá manninn því Viddi heldur að allt Seláshverfið sé hans og ókunnugir eru þar engir auðfúsugestir að hans mati.

Ég stytti strax í ólinni á hundskömminni og hastaði á hann og þá var málið dautt. Eða það hélt ég þar til ég heyrði gelt koma frá sirka þeim stað sem ungi maðurinn var kominn til. Ég litaðist um eftir þessum hundi sem ég ákvað í huganum að væri að smærri gerðinni því geltið var frekar máttleysislegt. Ég mætti augnaráði þessa manns og viti menn.. það var hann sem gelti. Hann var greinilega ósáttur við þennan illa uppalda hund og vanþóknun sína tjáði hann með þessum hætti. Augnaráðið var þungbúið og ásakandi. Eins og hann væri stórmóðgaður. Hann sneri sér svo undan og hélt geltandi áfram för sinni þvert yfir móaana í átt að Norðlingaholtinu.

Ég segi það satt að ég var dauðfegin. Ef hann hefði haldið í átt að Rauðvatni hefði ég snúið við. Eða eru þetta fordómar í mér að finnast það ekki sjálfsagt að fullorðið fólk gangi geltandi um?

Viddi Helga

það er nú ekki hægt að vera lengi móðgaður eða reiður við þennan öðling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Hahhaha núna hló ég, ég efast samt stórlega um að mér hefði staðið alveg á sama ef ég hefði lent í þessum aðstæðum.

Sigrún Ósk Arnardóttir, 30.8.2008 kl. 16:18

2 Smámynd: Gunna-Polly

voff voff

Gunna-Polly, 30.8.2008 kl. 16:20

3 Smámynd: M

Það hefur verið mikið undarlegt að lenda í voffi frá þessum manni.  Hefði farið um mig líka.

Hann er æðislega sætur hundur hann Viddi

M, 30.8.2008 kl. 16:24

4 Smámynd: Ómar Ingi

Án efa verið einhver Hundur í honum blessuðum Voff Voff

En ég gæti ekki verið geltandi sár né vondur útí hann Vidda sæta , nema hann myndi slekja mig í framan þá myndi ég sussa á hann

Ómar Ingi, 30.8.2008 kl. 16:35

5 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

!!!!

En maðurinn blessaður má vel gelta, ég hef gelt af og til á eitthvað sem mér mislíkar. Í einni fótboltarútuferðinni var vinkona mín með lappirnar ofan á löppunum á mér, og ég missti mig algjörlega og gelti á fæturnar á henni, sármóðguð á meðan hún grét úr hlátri....

Róslín A. Valdemarsdóttir, 30.8.2008 kl. 16:43

6 Smámynd: Ragnheiður

Hehe ég kannast við svona húsverði eða öllu heldur hverfisverði. Það eru íslenskar ættir í gamla mínum og það kemur í ljós ef einhver er að sniglast við húsið eða þá einhver vogar sér að þræla einhverju drasli í bréfalúguna hér. Það finnst Lappa hámark ósvífninnar.

Hann geltir þó ekki á fólk eða slíkt úti við ef við erum á göngu, annað mál er ef hann er í garðinum lausbeislaður.

Hundar eru skemmtileg dýr.

Mér finnst verst, þessa unga manns vegna, að sjálfsálitið skuli vera svo lítið að hann fornemast við geltandi hund ...ó mæ.

Ragnheiður , 30.8.2008 kl. 17:34

7 identicon

Hahahahaha.Það eru hundar í nágrannagarði hjá mér,þeir gelta 24/7 og eru óþolandi.Ég er hundakona en stend mig samt að því að gelta stundum á þá á móti.Þroskað ha?

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 18:29

8 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ha ha...frekar klikkað...

Ég er nú vön að spássera með mína hundaskvísu..en það hefur ALDREI neinn MANNLEGUR gelt á hana þó hún voffi smá til að láta vita að hún sé á ferð....og haldi að hún sé scheffer....

Bergljót Hreinsdóttir, 30.8.2008 kl. 18:56

9 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Hahahahhahah.  Er skíthrædd við hunda.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 30.8.2008 kl. 19:08

10 identicon

Díta (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 19:21

11 Smámynd: Jens Guð

  Þetta fer voða mikið eftir því hvernig menn gelta.  Fullorðinn kunningi minn geltir án þess að ráða við það.  Hann fékk taugaáfall sem unglingur þegar hann lenti í hræðilegu atviki.  Þetta var fyrir daga áfallahjálpar og þess háttar.  Eftir áfallið geltir maðurinn í tíma og ótíma án þess að ráða við það.  Rekur upp 2 - 3 niðurbæld voff í einu.  Þetta getur endurtekið sig nokkrum sinnum á klukkutíma og maður hættir fljótlega að taka eftir því.

Jens Guð, 30.8.2008 kl. 19:33

12 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvittknús knús og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.8.2008 kl. 20:11

13 Smámynd: Beturvitringur

Þessu andliti fyrirgæfi maður þótt hann hefði gert stykkin sín á satínlakið!

Beturvitringur, 30.8.2008 kl. 20:53

14 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég á reyndar til að gelta háztöfum á minn perzakött, þegar hann er að mjálma á mig.  Við dýrin eigum að deila á hlutlauzu tungumáli.

Steingrímur Helgason, 30.8.2008 kl. 21:17

15 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Èg gekk um daginn um rólega gøtu, med vinkonu minni og børnunum okkar. Hinum megin vid gøtuna inni í gardi byrjadi hundur ad gelta, ansi illilega og vid urdum alveg thvílíkt hræddar. Ég var ordin daudhrædd um ad hann myndi rádast út úr gardinum og koma og rádast á okkur. Hefdi gelt ef ég hefdi thorad.

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 30.8.2008 kl. 21:21

16 Smámynd: Sporðdrekinn

Viddi Vitleysingur er nú með það saklausasta andlit sem að ég hef séð. Algert rassgat!

Sporðdrekinn, 30.8.2008 kl. 22:08

17 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG gelti á hunda sem eiga að bíða stilltir innni í bíl þegar eigendur eru inni að versla eitthvað.  Nei djók, en mig langar stundum. En núna þegar ég á sjálf hund þá haga ég mér mjög vel.  Viddi er mega krútt.  einn gamall skólabróðir minn geltir óvart, eitthvað svipað og Jens segir frá. Ekkert grín að vera svoleiðis. 

Ásdís Sigurðardóttir, 30.8.2008 kl. 23:20

18 identicon

'Ég var einu sinni á göngu með 2 dætrum mínum í Frankfurt,þá mættum við 3 mönnum og geltu þeir allir,vá hvað okkur brá.En ég er svo mikill hundavinur að mér fannst þetta bara fyndið eftirá.En Viddi er rosalega fallegur,hvaðan er hann?

margret (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 23:29

19 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Ef hundar gelta á mig þá gelti ég á móti. Veit ekki hvort þeir skilja mig samt. Svo hneggja ég á hross...jarma á rollur og hvæsi á ketti. Sennilega hefur þetta eitthvað með mitt dýrslega eðli að gera. En geng þó ekki geltandi um almennt..

Má ég kyssa Vidda? Úff hann er svo flottur...

Brynja Hjaltadóttir, 31.8.2008 kl. 01:45

20 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Mikið er hann Viddi V. fallegur hundur. - Maðurinn hefur bara verið afbrýðisamur út í fegurð Vidda V. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 31.8.2008 kl. 01:46

21 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Ha ha, ég veit sko nákvæmlega hvað hefur verið í gangi.

Málið er að Daníel minn er dauðhræddur við hunda. Hann er að reyna að vinna í því ("mamma ég vil læra að hætta að vera hræddur við hunda") og hann er búinn að komast að því að ef hann geltir á móti þá skilja hundarnir hann. Og eins og allir vita þá er gagnkvæmur skilningur uppskrift að því að hræðsla og fordómar hverfi eins og dögg fyrir sólu.

Svo nú geltir hann á alla hunda sem hann sér, sérstaklega ef þeir gelta á undan. 

Maðurinn sem þú hittir er án nokkurs vafa bæði einhverfur og hundhræddur.

Guðrún Jónsdóttir, 31.8.2008 kl. 08:42

22 identicon

Ég gelti oft á hunda í mótmælaskyni við eigendur.  Annars er ég nú á þeirri skoðun að ekki ætti að leyfa hunda á almennum göngustígum.  Þeir hafa stundum verulega truflandi áhrif á mig þegar ég er að skokka.  Skiptir þá engu hvort að langt eða stutt er í ólinni.  Hundarnir gera tilraun til að snuðra af manni þegar maður líður framhjá og tekst það oftar en ekki, þetta gera þeir jafnvel þó að stutt sé í ólinni.  Þetta er ekki geðslegt fyrir minn smekk sérstaklega í ljósi þess að hundar hnusa upp allar hrákslummur sem þeir komast í.  Þessu klína þeir svo í buxnaskálmar á ókunnugu fólki.

Ég kann mjög vel að meta þegar hundaeigendur fara töluvert af göngustígnum með hundinn þegar fólki er mætt.  Það er bara of lítið gert af því.

Brainhead (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 09:10

23 Smámynd: Gulli litli

Ég átti einu sinni hund sem var gamall og hálfblindur. Hann gelti stundum svona til öryggis ef ske kynni að einhver væri að ganga framhjá! Hann hét Useless(Júsless)...

Gulli litli, 31.8.2008 kl. 09:43

24 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Jóna það er gott að Viddi vitleysingur er ekki eins vitlaus og allir hinir eftir allt saman, voff voff voff!

Edda Agnarsdóttir, 31.8.2008 kl. 10:47

25 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

isss, ég er líka sí-gjammandi

Aðalheiður Ámundadóttir, 31.8.2008 kl. 11:13

26 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég viðurkenni það líka alveg að ég hef gelt á hunda í bílum og ég gelti stundum á hunda nágrannans. Aðallega þegar ég held að þeim leiðist.

Ég gerði þó meira af því að tala við dýrin á þennan hátt þegar ég var yngri. Hef þó aldrei gengið ein geltandi um götur, göngustíga, móa eða annað slíkt.

Þjóðarsálin. Ætli maður geti fengið tíma hjá þessum vini þínum?

Jens. Aumingja maðurinn.

Guðrún J. hahaha litla lúsin... yfirleitt er það nú svo að their barks is worse than their bite... Ef gelt er á Vidda á móti, þá flýr hann. Þessi maður var bara of lágstemmdur í sínu gelti til að það hefði áhrif á hundinn.

Gulli litli.  það er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig. Æi greyið að bera svona nafn

Margrét. Viddi er ættstór hundur er mér sagt. Hef ekkert vit á þessu sjálf. Annað en að (INTUCH ISCH) Hektor pabbi hans er víst margverðlaunaður og er fyrirsæta, m.a. fyrir VÍS hehe. Mamman er Stjörnuljósa Perla. Ef þetta segir þér eitthvað.

Brainhead. Mér finnst alveg óttalega leiðinlegt hvað dýr eru óvelkomin hér í borginni. Varðandi hrákslummurnar... Hundar eru ekki þrifin dýr, það er alveg ljóst og ansi margt annað og verra en hrákslummur sem þeir bera með sér. Enda hefur sýnt sig að börn sem alast upp með dýrum eru mun ólíklegri til að þróa með sér hverskonar ofnæmi, einmitt vegna þess að þau þróa með sér þol gagnvart hinum ýmsu bakteríum. Börn og fólk yfirhöfuð sem lifir í steríleseruðu umhverfi er hættara við að grípa umgangspestir og þróa með sér ofnæmi. Held barasta að hrákslummurnar séu þess virði. En fjöldi fólks er dauðhrætt við hunda og sjálfsagt að taka tillit til þess og gera ráð fyrir að manneskjan sem maður mætir sé ekki hundaaðdáandi.

Jóna Á. Gísladóttir, 31.8.2008 kl. 11:56

27 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Sætur hundur. Ég átti einu sinni hund og hann gelti mest á póstburðar manninn.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 31.8.2008 kl. 16:43

28 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Hann er nú fallegur hann Viddi vitleysingur það er ekki hagt að segja annað.

Kristín Katla Árnadóttir, 31.8.2008 kl. 16:48

29 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Gott að maðurinn urraði ekki   ...  Annars vakti athygli mína athugasemd sem þú skrifaðir á annarri síðu - þar sem ég er í tótallí sömu sporum og þú. 

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.8.2008 kl. 18:08

30 Smámynd: Sigríður Þórarinsdóttir

Sætur er hann Viddi Vitleysingur,   ég er stundum með rosa sætan Pomerian í pössun og er farin að sakna hans núna  ( og hann mín) Hann tekur alltaf gleðistökk þegar hann sér mig. Algjört rassgat bara.

Sigríður Þórarinsdóttir, 31.8.2008 kl. 19:44

31 Smámynd: Vilma Kristín

:) Ég myndi giska á að þarna hefði verið einhver hund-hræddur á ferð og ætlað að vera jafnógnandi og honum fannstu hundurinn vera.  Ég er því miður skíthrædd við hunda og fæ í magan við að mæta þeim á göngustígum... en ég er aftur svo hrædd að ég myndi ekki þora að gelta á móti.

Vilma Kristín , 31.8.2008 kl. 20:15

32 identicon

Æðislegur hann Viddi!

alva (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 22:25

33 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Menn sem gelta bíta ekki ...

Guðríður Haraldsdóttir, 31.8.2008 kl. 23:52

34 identicon

Hvað varðar áreiti hunda á ókunnugt fólk (snuður og gelt á göngustígum) að þá gæti Þetta líka verið spurning hvort að eitthvað sé ábótavant í uppeldi hundaeigenda á Íslandi.  Fór til Parísar í sumar þar sem töluvert er um hunda og eigendur þeirra.  Það vakti athygli mína hversu vel hundarnir eru siðaðir.  Aldrei varð ég svo mikið sem fyrir einu snuðri frá hundi.  Þeir láta mann algjörlega vera.  Þannig að það er greinilega hægt að siða þá með þessum hætti.  Þetta er spurning um uppeldi og vilja eigandans.

Haraldur (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 08:17

35 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Gurrí. Hehe nei sennilega ekki

Haraldur. Takk fyrir innlegg. Þetta er vissulega athyglisvert. Ég veit ekki með hundaeigendur almennt, en það verður að segjast eins og er að það er töluverðu ábótavant með uppeldi Vidda. Ég játa það fúslega. Ég rak mig líka á það, fljótlega eftir að við fengum hann fyrir tæplega þremur árum síðan að ALLIR nema við, vissum að íslenski hundurinn geltir ansi mikið. Mér hefur ekki gengið vel að venja hann af þessum ósóma.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2008 kl. 09:14

36 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Mér finnst alltaf furðulegt þegar íslendingar gefa sig út fyrir að vera svo náttúruvænir.  Umburðarlyndi gagnvart skeppnum sem ekki eru í fjósi eða fjárhusi er gífulega lítið. Það er eitrað fyrir öllum skorðkvikindum í görðunum og hvergi má sjást í neitt lifandi sem ekki keyrir um í jeppa. Ég hef verið með hund bæði á Íslandi og erlendis og verð að segja að hundar eru eins misjafnir og þeir eru margir. Til eru illa upp aldir hundar útum allt. Umburðalyndið er afturá móti meira erlendis og maður fílar sig ekki eins og glæpamann þó maður eigi sér góðan fjórbeintan göngufélaga. Íslenski hundurinn er alveg yndislegur eins og sérst á myndinni av Villa. Hann geltir aftur á móti mikið og gerir gagn með því þegar hann smalar saman rollum. 

Mér finnst að ef Bernhard á erfitt með að mæta hundi, þá verði hann að fara bara aðeins útaf göngustígnum þegar hann sér hund nálgast. Mér finnst hlauparar yfirleitt gera of lítið af því.

Ásta Kristín Norrman, 1.9.2008 kl. 11:10

37 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ásta Kristín. hahahaha ég fíla þig. Ég kannast vel við glæpamanns-tilfinninguna.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2008 kl. 11:19

38 identicon

Já þú meinar það Ásta að þú viljir hugsanlega fara í hart með það hvor hefur frekar réttinn á göngustígnum maður eða hundur.  Endilega láttu reyna á það og láttu okkur svo vita hvernig fór.  Mundu að nú þegar er hægt að kvarta til yfirvalda vegna hunda og eigenda þeirra.  Í raun má hundur ekki veitast að nokkrum manni þannig að óþægindi eða ógn stafi af.

Þannig að þetta er spurning hvor verður aflífaður hlauparinn eða hundurinn.

Haraldur (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 11:47

39 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Haraldur. ég vona svo sannarlega að við séum ekki að fara að taka neinn af lífi á næstunni. Ég held að Ásta sé nú svolítið á gamansömum nótum hérna.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2008 kl. 12:13

40 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég var nú að mestu að grínast eins og Jóna benti á og vona að ekki þurfi að aflífa neinn, hvorki hlaupara né hunda. Öllu gamni fylgir þó einhver alvara og innlegg þitt Haraldur er svo lýsandi fyrir viðhorf til okkar hundeigenda og hunda. Ég vil meina að maðurinn og dýrin eigi jafnan rétt á að lifa á þessari jörðu. Þó svo að maðurinn hafi lagt undir sig og telji sig eiga allan heiminn, þá er ekki öllum sem finnst það, alla vega ekki tíkinni minni. Sumir eru hræddir við dýr, ég er til dæmis ekki hrifinn af músum, en mér finnst ekki rétt að útrýma þeim fyrir því. Eg verð bara að læra að lifa með þeim, því þær geta orðið á vegi mínum nákvæmlega eins og hundar geta orðið á vegi þínum.

Ásta Kristín Norrman, 1.9.2008 kl. 13:00

41 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg gleymdi nú að geta þess að ég bý erlendis og þarf því ekki að hafa þessa glæpamannstilfinningu lengur. Karlinn minn fór með tíkina okkar út í gærkvöldið. Hann setti á hana endurskynsvesti og hjólaði svo af stað með tíkina lausa. Lögreglubíll stoppaði hann og hann sagði tíkinn að setjast meðan hann talaði við lögguna. Bjóst við skömmum fyrir að vera ekki með hjálm og bilað afturljós á hjólinu, en svo var ekki, heldur stoppaði löggan eingöngu til að dáðst að tíkinni, enda sú hlýðnasta af mínum dætrum.

Vildi óska þess að táningastelpurnar mínar settust um leið og ég segði þeim að gera það. Það er þó enginn sem kvartar undan óhlýðninni í þeim, nema þá helst ég.

Ásta Kristín Norrman, 1.9.2008 kl. 13:06

42 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Íslenskir hundar eins og Viddi vitleysingur, finnst mér langfallegustu hundarnir. En þeir eru svolítið geltnir.
Ég gelti annars oft á hunda og mjálma á ketti, baula á beljur og flauta á fugla. En ég hef bara einu sinni hneggjað og geri það aldrei aftur því ég varð að algjöru athlægi.

Svava frá Strandbergi , 2.9.2008 kl. 02:08

43 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Viddi er greinilega vitleysingur....

...frægur vitleysingur að auki, enda hagar hann sér greinilega eins celeb....

Haraldur Davíðsson, 2.9.2008 kl. 02:37

44 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Þetta hefur bara verið það eina sem honum datt í hug,gerði þetta í von um að bæði þú og voffinn munduð skilja að hann væri ósáttur...

En ég hef reyndar ekki vitað af svona áður svo hvort að þetta sé eðlilegt eða ekki mundi ég halda að það væri það...ekki

Guðríður Pétursdóttir, 2.9.2008 kl. 13:23

45 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ég bara verð að taka þátt í þessari umræðu..

Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig íslendingar geta látið í sambandi við hunda og eigendur þeirra.Stundum finnst mér þetta hreinlega jaðra við rasisma Það er ekkert skrýtið að hundar í erlendum borgum séu rólegri og betur siðaðir en hér. Málið er að hérlendis verða hundar yfirleitt að dúsa innilokaðir heima í lengri tíma eða þá í bílum vegna þess að eigendur þeirra mega ekki taka þá með sér.

Ég hélt nú að þetta myndi breytast þegar banni við hundahaldi var aflétt í Reykjavík en það er nú öðru nær.

Varðandi hrákaslummurnar.Ég hef nú ekki orðið vör við að minn hundur sé að sleikja þær upp. En mér finnst nú líka ógeðslegt þegar fólk er að hrækja út um allt.Það hefur sennilega ekkert með uppeldi að gera eða hvað..

Turetta Stefanía Tuborg, 7.9.2008 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband