Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á fótbolta...

 

...en verð að óska Bretanum innilega til hamingju. Hann er staddur úti í bæ einhvers staðar með fleiri köllum og ég efast ekki um það eitt andartak að tárin streyma í stríðum straumum hjá þeim öllum. Gleðitár alltso.

Svo eru fleiri naglar sem ég þekki sem eru grátandi núna... af mismunandi ástæðum þó. Og er ég með vinnufélaga mína í huga.

Einn mann veit ég sem var gjörsamlega óþolandi í vinnunni í dag og fékk ég leyfi hjá konunni hans til að berja hann. Hann fann svona fótbolta-áhorfenda-klið á netinu og spilaði á fúll blast í dag. Var að gera mig vitlausa. Þessi maður mun mæta í United bolnum sínum næstu daga, eða þar til hann fer að lykta.

Annan mann veit ég sem mun ekki mæta í vinnupartýið hér á föstudagskvöldið því hann veit að hann verður hafður að háði og spotti allt kvöldið. Lagður í einelti. Fyrir að vera Chelsea-maður.

Jón minn þetta er allt í lagi. Þér er óhætt að koma. Ég skal passa þig.

Unglingurinn unir glaður við sitt á efri hæðinni. Búinn að öskra sig hásann yfir leiknum en sönglar nú inn í herbergi.

Já það má segja að mér létti yfir úrslitunum. Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á fótbolta.. það bara hefði orðið óþolandi ástand að búa við, bæði hér heima og í vinnunni, ef þetta hefði farið á hinn veginn.


mbl.is Man. Utd Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töfralausnin fundin?

 

Ég held ég hafi dottið niður á töfralausn í gær. Á vansæld Þess Einhverfa þegar breytt er út af venjulegri rútínu.

Mér var búið að hálfkvíða fyrir mánudeginum því það er mögnuð vika framundan hjá drengnum og ekki seinna vænna að kynna dagskrána fyrir honum.

Mér datt skyndilega í hug að setja upp vikuplanið í Excel í tölvunni hér heima. Hafa það skriflegt frekar en myndrænt. Skýrt og skorinort.

Þegar ég var sátt við niðurstöðuna, mundu ég skyndilega eftir litunum á dögunum. Í Öskjuhlíðaskóla læra krakkarnir meðan annars að þekkja vikudagana eftir litum. Sá Einhverfi var mjög fljótur að tileinka sér það strax í fyrsta bekk. Hver vikudagur hefur sinn lit. Ég ákvað að merkja hvern dag með sínum lit.

Svona lítur þetta út:

 

MánudagurÞriðjudagurMiðvikudagurFimmtudagurFöstudagurLaugardagurSunnudagur
19.maí20.maí21.maí22.maí23.maí24.maí25.maí
       
RútaRútaRútaRútaRútaMamma kemur Mamma og Ian
SkóliSkóliskóliskóliskólií sveitinafara í bílinn
VesturhlíðVesturhlíðVesturhlíðVesturhlíðVesturhlíð og heim
rútarútarútarútaFríða sækir Ianmamma lúllar 
heimheimHólabergHólabergí bílinn með Ian í sveitinni 
    í sveitina  
       

 

Svo kallaði ég á stráksa sem settist í fangið á mér fyrir framan tölvuskjáinn. Ég sagði ekki eitt einasta orð en fylgdist með honum renna augunum yfir handbragðið.

Hann virti skjáinn nokkuð lengi fyrir sér, stóð svo upp og gekk í burtu. Ég varð svolítið hissa en gerði ráð fyrir því að hann hefði ekki skilið það sem hann var að horfa á. Svo ég kallaði á hann aftur og í þetta skiptið las ég yfir hvern dag fyrir sig og fylgdi línunum með fingrinum. Hann horfði þegjandi á en myndaði orðið ''Hólaberg'' með vörunum.  Fyrir þá sem ekki vita þá bregst krakkinn venjulega vægast sagt illa við því orði, sem og öllum öðrum tilkynningum um breytta dagskrá.

Að lestri loknum, stóð hann upp, fór upp í herbergið sitt og stuttu síðar heyrði ég hann syngja um fullorðna fólkið sem er svo skrítið og er alltaf að skamma mann.

Ég var enn opinmynnt af undrun þegar Bretinn kom heim.

Ég krosslagði líka fingur þegar drengurinn byrjaði að þylja vikudagskránna orðrétt frá efri hæðinni. Beið eftir kastinu. Sem aldrei kom.

En hann þuldi svo fjandans dagskránna allt að því stanslaust í klukkustund. Og svo byrjaði hann að stríða mér með því að fara rangt með hana og hló eins og vitleysingur þegar ég leiðrétti hann.

Ég vona að ég sé dottin niður á töfralausnina á mesta vandamálinu í umgengni við snúllann minn. Hvort það eru stafir í stað teikninga, skjár í stað pappírs eða litirnir... ég veit það ekki. En puttarnir verða krosslagðir þar til þetta tiltekna vikuplan rennur sitt skeið.

 


Eurovision og fyllerí á fyllerí ofan

 

Við erum að sigla inn í Eurovision vikuna.

Ég veit ég veit. Enginn horfir á Eurovision en það horfði heldur enginn á Dallas í denn, en samt tæmdust götur landsins af einhverjum stórfurðulegum ástæðum á sýningartíma þáttanna. Á sama undarlega hátt verður ansi fámennt utandyra hér á landi nk. fimmtudagskvöld.

Helstu heimildir um það sem er í gangi núna í Serbíu er að finna hjá Jóni Arnari sem og allan lagalistann. Og um það sem er að gerast á bak við tjöldin getum við lesið á blogginu hennar Ingibjargar sem er stödd í innsta hring á staðnum.

Áfram Ísland!

Annars er lítið að frétta á þessum vígstöðvum.

Á morgun mun ég kynna fyrir Þeim Einhverfa dagskrá vikunnar sem er óvenju mögnuð. Hólaberg miðvikudag og fimmtudag. Á föstudag munu Fríða & Co sækja hann í Vesturhlíð og hverfa upp í sumarbústað með barnið mitt. Vá hvað stráksi mun flippa þegar ég legg dæmið niður fyrir hann.

Þetta þýðir að frá miðvikudagsmorgni til sunnudags eftirmiðdags mun ég ekki sjá snúllann minn. Nema að ég taki boðinu og skelli mér upp í bústað til þeirra á laugardaginn. Sem ég mun sennilega gera.

Hversu snemma sú ferð verður farin, fer þó eftir því í hversu góðu standi ég verð eftir að hafa haldið vinnustaðagrillpartý á föstudagskvöldið nk. Þá mun húsið mitt fyllast af snarklikkuðu liði (þá á ég sérstaklega við fólkið frá Keflavík). Ég auglýsi hér með eftir útkösturum. Held það muni ekki veita af eins og þremur slíkum á staðnum.

Ojá krakkar mínir. Maður er ekki fyrr búin að jafna sig á einu fylleríinu, þegar maður er farin að plana það næsta. Og ef Eurobandið verður á sviðinu í Belgrad á laugardagskvöldið... jæts.. Vogur here I come. Ég er sko sannur Íslendingur. Það segir Bretinn allavega.

 


Leiðrétting og afsökunarbeiðni

 

Ég get verið ansi fljótfær og framkvæmt vanhugsaða hluti. Mér fer þó fram með aldrinum. En stundum bíta mínar eigin gjörðir mig í rassinn og þá finnst mér verst ef ég hef sært einhvern á leiðinni eða gert honum rangt til.

Með ógætilegu orðalagði í færslunni hér á undan mátti skilja það sem svo að Friðrik Þór hefði haft látið frá sér þau orð sem þar koma fram. Það var auðvitað ekki svo, heldur var það vinur minn Loopman sem tjáði sig opinskátt um sínar skoðanir og tilfinningar í garð nokkurra bloggara.

Friðrik Þór hefur tjáð mér að hann kæri sig ekki um að nokkur maður haldi að hann hafi verið að atyrðast út í mig, og því vildi ég leiðrétta þetta og biðja hann afsökunar á þeim misskilningi sem þetta kann að hafa valdið.

Reyndar langar mig líka að biðja Loopman afsökunar ef ég hef gefið í skyn að þetta komment hans hafi farið fyrir brjóstið á mér. Þvert á móti hefur það kætt mig mikið og ég hef fengið nokkur símtöl frá vinum sem hafa vitnað í einstaka setningar úr þessu kommenti  og hlegið yfir skemmtilegu orðalagi hans og athugasemdum.

Að lokum vil ég koma á framfæri minni eigin skoðun á blogginu sem slíku. Í mínum huga er bloggið vettvangur sem fólk kýs að nýta á sínum eigin forsendum. Hvort sem það er til að tjá sig um persónuleg mál eða dægurmál, einu sinni í mánuði eða hundrað sinnum á dag. Svo framarlega sem persónulegt skítkast er látið eiga sig.

Á móti kemur að við mannfólkið höfum alltaf, og munum alltaf, finna farveg  fyrir ríg manna á milli. Á milli landa, milli kynþátta, milli áhangenda fótboltaliða, milli bæjarfélaga, milli deilda innan fyrirtækja, milli stjórnmálaflokka... og á milli bloggara.

Haldið friðinn og strjúkið kviðinn.

Ég er soldið þunn en annars fín.

 


Hvernig myndi Gelgjan bregðast við

 

 

Ég fékk þetta sent í tölvupósti áðan frá henni Ástu Birnu vinkonu minni. Viðurkenni að ég táraðist þegar ég las niðurlagið (er greinilega eitthvað á mjúku nótunum í dag). En það er allt í lagi. Gott að væta hvarmana öðru hverju, ekki síst þegar það er eitthvað sem hlýjar manni um hjartað.

En ég hló líka, því mér datt Gelgjan í hug, og hvernig hún myndi bregðast við sömu aðstæðum. Ekki alveg eins og þessi litli strákur hér: 

 

Móðurást

Lítill strákur kom til mömmu sinnar

þegar hún var að taka til kvöldmatinn.

Hann rétti henni miða sem hann hafði

verið að skrifa á.

Mamman þurrkaði sér um hendurnar

og las það sem stóð:

 

Fyrir að slá blettinn = 500 kr

Fyrir að búa um rúmið mitt

þessa vikuna = 100 kr

Fyrir að fara í búðina = 50 kr

Fyrir að leika við litla bróður minn

á meðan þú fórst í búðina = 25 kr

Fyrir að fara út með ruslið = 100 kr

Fyrir að fá góðar einkunnir = 500 kr

Fyrir að raka garðinn = 200 kr

 

Á meðan mamman stóð þarna og horfði á strákinn sinn

bíða spenntan eftir því að fá peninginn flugu þúsundir

minninga í gegnum huga hennar. Þannig að mamman náði

sér í penna og skrifaði hinum meginn á miðann:

 

Fyrir níu mánuðina

sem ég gekk með þig = 0 kr

Fyrir næturnar sem ég sat með þig,

hjúkraði þér, bað fyrir þér = 0 kr

Fyrir tímann og tárin

og kostnaðinn í gegnum árin = 0 kr

Fyrir næturnar sem ég sat andvaka

hrædd um þig og áhyggjurnar

í framtíðinni = 0 kr

Fyrir ráðin og vitneskjuna

sem ég gaf þér

og skólakostnaðinn er ég greiddi = 0 kr

Fyrir dótið, matinn og fötin,

og fyrir að þurrka nebbann þinn = 0 kr

 

Hún sagði við son sinn, þegar þú leggur þetta allt saman

hvað það kostar mig að elska þig þá er það frítt.

 

Stráksi las miðann og leit á mömmu sína

með tárin í augunum. Svo skrifaði hann á miðann sinn með stórum stöfum

GREITT AÐ FULLU.

 

Ég get aftur á móti fullyrt að Gelgjan myndi bregðst öðruvísi við. Hún myndi sennilega horfa á mig með mæðusvip og benda óþolinmóð á listann. Jafnvel pikka í hann með blýanti til áherslu. Og minna mig á að ég hefði valið þetta sjálf.

Hún er svo rökföst hún dóttir mín, þegar hún hefur mál að verja.


Ég er sjúk í athygli og þið eruð hjörðin mín

 

 

Ekkert er betra en sjálfsskoðun af og til. Við lærum eitthvað um okkur sjálf, eins lengi og við lifum, þó vissulega sé misjafnt hversu vel hver og einn þekki sjálfa sig.

Nú er það svo, að þegar persóna er jafn athyglissjúk og ég sjálf, þá er fátt sem gleður hennar litla  hjarta jafn mikið og að sjá að fólk úti í bæ hafi skoðun á henni. Tali um hana. Skiptir þá engu hvort það umtal er gott. Slæmt umtal er betra en ekkert, í huga athyglissjúkra. Það ætti ég að vita best sjálf.

Svo finnst mér líka óendanlega gaman að sjá að fleiri en ég eru haldnir þeirri sjálfspyntingarhvöt að liggja yfir einhverju sem fer í taugarnar á þeim. Sjálf dregst ég að til dæmis sjónvarpsefni sem fer í taugarnar á mér. Skemmti mér við að hneykslast á leikurunum/efnistökum/tónlistinni/þýðingu, eða hverju því sem fer í pirrurnar á mér. ''Skemmtilega hallærislegt'' efni er það besta sem ég veit. Helst það hallærislegt að ég roðni út að eyrum af skömm fyrir hönd viðkomandi.

Mig langar til að deila með ykkur skrifum ónefnds bloggara um mig og fleira fólk,  í athugasemdarkerfi hjá öðrum ónefndum bloggara. (Ég tek fram að nú er ég að reyna að vera tillitssöm).

Ég bið ''hjörðina'' mína endilega að láta heyra sem hæst í sér, því ekki viljum við taka frá þessum aðila þá þenslu sem þið og ég, getum skapað í sameiningu, á hans taugum.

Kæri (ó)vinur, takk fyrir þá ómældu skemmtun sem þú hefur veitt mér í dag. Ég auðvitað hékk inn á blogginu allan liðlangan vinnudaginn og fylgdist með framvindu mála. Því mér þykir svo gaman að lesa um mig. Að frátöldum þeim tíma sem ég eyddi í Kringlunni, verslaði mér fatnað og drakk kaffi með vinkonu. Allt á fullum launum. Hugsaðu þér!

Helst af öllu vildi ég bjóða þér í enskan morgunmat um næstu helgi en á erfitt með það, þar sem ég finn þig ekki í símaskránni. Þú þyrftir nebblega að koma inn á heimilið mitt og sjá heimilislífið með eigin augum. Og eyrum. Þá fyrst myndirðu skilja merkingu orðsins ''tuðari''.

 

Ég hef verið bloggari ansi lengi, byrjaði á því fyrst árið 1998. Hef bloggað hér og það með hléum síðan þá.  Það sem mér finnst persónulega um þessa "topp 4" bloggara. Áslaugu Ósk hef ég lítið lesið og get því ekk fullyrt um hana eins og um hina þrjá. En Jenny, Jóna og Stefán eiga það sameiginlegt að fara heilmikið í taugarnar á mér. Fyrst og fremst vegna þess að þau blogga þannig að það eru margar færslur á dag. Maður fær á tilfinninguna að þau eigi sér ekkert líf.

Jóna Á Gísladóttir bloggar eins og wannabe rithöfundur. Sem hún reyndar er :) Segir það sjálf á sínu bloggi. En hún er með ákveðinn stíl. Stíl sem ég gagnrýndi hana á hennar eigin bloggi hér um daginn og uppskar skæðadrífu af gagnrýni og skítkasti frá "já hjörðinni" sem kommentar á bloggið hennar svona: "ooo þú er svo mikið æði; fjöskyldan þín er frábær, þú ert svo hugrökk..." og svo framvegis. Ég á afskaplega erfitt með að sjá fólk opna sig svona og sína fjölskyldu á netinu, sérstaklega þegar hún talar um börnin sín. Það fylgir mikil ábyrgð því að blogga um einstaklinga og setja allt um þá á netið. Eins er þarna mikið af bloggtuði frá henni.

Jenny Anna er manneskja sem bloggar stórar færslur um fréttir oft á dag. Sem þýðir að, rétt eins og Stefán sem gerir slíkt hið sama, þau eru alltaf ofarlega á listanum yfir ný blogg og því klikkar fólk á þeirra link. Þó svo innihaldið sé frekar krappí. Jenny tuðar eiginlega meira en Jóna, sem er talsvert afrek.

Stefán er með myndarlega höku, en ekki nægilega skemmtilegar skoðanir. Hann er einum of mikill SUS frjálshyggu sveimhugi fyrir minn smekk. Hann er líka það meðvitaður um fjölda lesenda á sitt blogg, rétt eins og hinar tvær allavega, að hann er með svona "disclaimer" sem hann beinir að lesendum sínum

Allir þessir 3 bloggarar hafa það sameiginlegt að banna eða vera á móti nafnleysi. Allir 3 eiga það sameinginlegt að tuða rosalega mikið. Stefán kannski skárri en þær tvær. En það sem einkennir þau er gríðarleg athyglis sýki sem manifestar sig þannig að þau rasa út um allt og ekkert. Ef þetta væri skemmtilegt sem þau rita væri það bara gott mál, en því miður er það ekki svo.

Þessi "Já mafía" sel eltir þetta fólk á spjallinu er líka frekar sad lið. Eins og Obi Wan Kenobi orðaði það hér um árið....."Who's the more foolish: The fool, or the fool who follows him?"

Ætli ég verð ekki hrópaður í kaf núna.

 


Toppmyndir

ég get ekki kvartað yfir því að ekki sé hugsað um mig.

Fyrir nokkru síðan, áður en ég breytti um þema hérna á síðunni, sendi Guðríður Péturs, bloggvinkona mér banner. Henni þótti sennilega sorglegt að sjá bara nafnið mitt efst á síðunni. Svartir stafir á hvítum grunni. Eins fátæklegt og það getur orðið.

Bannerinn sem hún sendi mér var mjög flottur en ég náði ekki að setja hann inn, sama hvað ég reyndi. Tölvutæknin er ekki mín sterka hlið og því hélt ég að þetta væri einhver klaufaskapur í mér.

Gunnari Svíafara þótti síðan mín líka eitthvað dapurleg og sendi mér hugmynd að banner. En hann komst svo að því að með það þema sem var á síðunni minni var ekki mögulegt að skipta um toppmynd.

Ég fékk mér því tómataþema og treysti því að Gunnar myndi útvega mér eitthvað með rauðum lit í.

Það gerði hann. Dúllaði í þessu fram og til baka. Var ekki ánægður og snyrti aðeins. Sendi mér aftur. Og ég setti inn bannera og tók út aftur og setti inn aftur, eins og ég hefði aldrei gert neitt annað á ævinni. Komst að því að ég er ekki eins vonlaus í tölvumálum og ég hélt.

En toppmyndin á síðunni minni er í boði Gunnars Svíafara. Og hér er ég að setja inn færslu um málið þó hann hafi bannað mér að segja frá því að hann hefði gert þetta fyrir mig. En ég hlýði nú ekki öllu sem mér er sagt.

 


Þá get ég hætt að blóta

 

....þangað til næst.

En rétt skal vera rétt og það gleður mig að sjá þessa yfirlýsingu frá Jóhönnu babe.


mbl.is Engar breytingar varðandi kaup á heimilistækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotans djöfulsins helvítis helvíti

 

Þið fyrirgefið þó ég gerist ekki mjög málefnaleg. Hef ekki mikið meira að segja um þetta mál.

Það er endalaust verið að mismuna fólki.

 

Annars er ég bara fín.


mbl.is Fötluðum á sambýli gert að borga heimilistækin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blátt áfram

 

Ekkert þykir mér viðurstyggilegra í þessum heimi en kynferðisleg misnotkun á börnum. Ekkert! Undir engum kringumstæðum á gerandi slíks verknaðar sér málsbætur, að mínu mati.

Ekkert í þessum heimi gerir mig sorgmæddari en vissan um öll þau börn sem sæta slíku ofbeldi og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Jafnvel svikin af þeim sem þau elska mest.

Ekkert fær mig til að finna til eins mikils vanmáttar og fréttir og frásagnir af litlum sálum sem hafa þurft að upplifa slíka martröð.

En ég þarf að yfirstíga vanmáttarkenndina og trúa því að ég geti lagt lóð á vogarskálarnar. Við getum það öll. Með því að hafa augu og eyru opin. Látum okkur málið varða. Tökum þátt í að opna umræðuna. Tölum ofbeldið í hel í stað þess að þegja þunnu hljóði og leyfa meininu að vaxa og dafna.

Verum óhrædd að tala við börnin okkar. Notum réttu orðin. Verum opinská. Að fræða börnin okkar og kenna þeim að þau hafi fullan umráðarétt yfir eigin líkama, er besta vörnin þeirra.

Í gær fékk ég þessa tilkynningu senda í tölvupósti. Ég hvet alla til að dreifa þessu á þann hátt sem þeir best geta; á blogginu, í fjölmiðlum, á netinu, eða bara hvernig sem er:

 

FRÁ BLÁTT ÁFRAM.. samtökum.

 

Kæri vinur,
It is important to show children that not all adults are caught up in the conspiracy of silence!

Bið þig að senda þetta áfram á þinn vinahóp og spyrja hvort þau vilji hafa áhrif á hvort börn verði fyrir kynferðislegu ofbeldi á Íslandi ??

Eftir fyrstu auglýsingaherferð Blátt áfram, kom til mín kona með tárin í augunum og sagðist vilja þakka fyrir að hafa séð auglýsinguna í sjónvarpinu. Sat og horfði á með 11 ára gamalli dóttur sinni sem brotnaði saman og sagði frá kynferðislegu ofbeldi.

Önnur ung stúlka sagði frá og kom þá í ljós að sá maður var að beita margar ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi og fékk hann dóm í kjölfarið.

Þetta hefur áhrif !

1 af hverjum 5 stúlkum og 1 af hverjum 10 drengjum verða fyrir kynferðislgu ofbeldi fyrir 18 ára aldur(Hrefna Ólafsdóttir 2002)

Styrktartónleikar verða haldnir á fimmtudaginn til að safna fyrir birtingu á nýrri auglýsingaherferð, átakið „Verndarar barna“

Blátt áfram þarf á þinni hjálp að halda, komdu og hlustaðu á eina af þínum uppáhaldshljómsveitum og styrktu gott málefni.

 

Styrktartónleikar 8 maí 2008
Stórtónleikar á NASA

 

Styrktar tónleikar á NASA 8 maí 2008.

12 af bestu hljómsveitum landsins koma fram

Húsið opnar klukkan 19:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00

Fram koma:

Nylon, Sálin hans Jóns míns, Ný Dönsk, Ljótu Hálfvitarnir, Buff, Á móti sól, Merzedes club, Rokksveit Rúnars Júlíussonar, Einar Ágúst, Brain Police, Sverrir Bergmann, Bermuda

Miðaverð er 2000 kr og rennur allur ágóðinn til Blátt áfram.

Safnað er fyrir nýrri auglýsingaherferð „Verndarar barna“

Miðasala á Pizzo Pizzería á Grensásveg !!

Blátt áfram þakkar fyrir þetta frábæra framtak!

 
 
Bestu kveðjur,
Sigríður Björnsdóttir
Blátt áfram!
 
 
 
Kringlunni4-6, 6. hæð, 103 Reykjavík
Sími GSM (mobile): 893-2929, Netfang (e-mail):   sigga@blattafram.is
Heimasíða (homepage):   www.blattafram.is   Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum
 

Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband