Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gods children

 

Ég á mína barnatrú. Þetta hljómar kannski eins og versta klisja en þá er klisjan sönn. Ég trúi á Guð eða einhvern æðri mátt. Eitthvað hlýtur að vera okkur æðra.

En eins og Jenný Anna skrifar um hér, þá myndi ég aldrei treysta á þann mátt til að redda mér einu eða neinu eða fría sjálfa mig ábyrgð á eigin lífi og limum vegna þess að mér finnist að hann eigi barasta að sjá um þetta.

Aldrei á ævi minni hef ég sagt eða hugsað: ''það getur ekki verið til Guð sem lætur þetta eða hitt gerast.''

Þvi allt hið illa sem gerist í heiminum er af manna völdum. Í öðrum tilfellum, þar sem ég get ekki klínt sökina á mannvonsku, eins og t.d. þegar ungt fólk fellur frá vegna veikinda, þá trúi ég því staðfastlega að viðkomandi sé ætlað eitthvað annað hlutverk á öðrum stað. Ég trúi því að daginn sem ég dey, verði dagurinn sem mér var alltaf ætlað á deyja.

Þegar ég dey vil ég að erfidrykkjan verði fjörug. Ég vil að fólk fái að borða, dansi við Abba og Bo og ég vil að það verði hvítvín á boðstólnum.

Ég trúi því ekki að Guð eða hinn æðri máttur skapi drepsóttir, flóð, aids og jarðskjálfta til að refsa. Ég trúi ekki að guðsótti sé jákvætt orð.

Og ég trúi því að okkur sé gefin kímnigáfa til að njóta hennar og til þess að sjá spaugilegu hliðarnar á erfiðum stundum.

Þess vegna fylgir þessi litli brandari hér með:

If we are all God's children, what the hell is then so special about Jesus?

 


Visa-rað í kreppunni

 

Hér var smávegis fjölskyldufundur í kvöld. Bretinn og ég, frænka og frændi og mamma þeirra. Við tróðum okkur öll í eldhúsið með kertaljós á borðinu og áttum huggulega stund. Bretinn með tölvuna fyrir framan sig að leita að tónlist á netinu og músíkin yljaði.

Eftir að fundinum lauk og við Bretinn ein eftir, fór ég að ganga frá í eldhúsinu en Bretinn hélt áfram að vinna í tónlistarmálunum.

Viðkvæðið ''heimska mamma'' hljómaði með reglulegu millibili frá efri hæðinni, en þar var kósí-stund Þess Einhverfa og Lottu í Ólátagötu.

Ég raðaði í uppþvottavélina og setti hana í gang. Komst að því að maður þekkir hljóðin í sínum uppáhalds heimilistækjum. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Við Bretinn litum hvort á annað með stjarfan svip. Aðeins augun komu upp um hræðsluna sem greip okkur. Við héldum niðrí okkur andanum og sögðum ekki orð. Hlustuðum á drafandi hljóðið í ''eldhússtúlkunni'' sem virtist ætla að segja upp vistinni.

Vörpuðum öndinni léttara þegar hún náði sér á strik aftur og byrjaði að mala á þann hátt sem við þekkjum svo vel.

Ég ætlaði að segja það.... hugsaði ég og hélt áfram að þrífa eldhúsvaskinn.

Bretinn sendi mér einhvern torkennilegan svip og sneri sér aftur að tölvunni.

Hvorugt sagði orð, en ég VEIT að við hugsuðum ekki það sama.

Bretinn hugsaði: Ef þessi gefur sig þá er það bara gamla góða uppvaskið aftur.

Ég hugsaði: Ef þessi gefur sig þá fer ég, ekki seinna en á morgun, og kaupi nýja á raðgreiðslum.

Og um leið og þetta flaug í gegnum hugann á mér þá skildi ég að ég er á engan hátt að horfast í augu við ástandið í landinu. Ég geri mér enga grein fyrir því hvað raunveruleg kreppa þýðir. Skynsemin segir mér þó að við þær aðstæður kaupir maður ekkert á visa-rað.

 

 


Kynþáttafordómar og menntasnobb

 

Ég segi það satt, að þessari konu.. þessum fyrrverandi dagskrárgerðarmanni, finnst hún ekki á neinn hátt vera með kynþáttafordóma.

Hún býr og er væntanlega barnfædd í Bretlandi. Hefur án efa alist upp við þá fjölmenningu sem er við lýði í UK. 

Efast einhver um að hún hafi alið þessa 14 ára dóttur sína upp við kynþáttafordóma? Er ekki algjörlega ljóst hver skilaboðin eru á því heimilinu?

Ekki bara það að fólk að öðrum kynþætti er verra og ómerkilegra, heldur er fólk sem ekki er langskólagengið, lægra sett og á ekki að vera með ''derring'' við fólk af hinum ''æðri'' kynstofni.

Aumingja konan. Hálsinn er svo reigður og nasirnar svo víðar, að það er hætt við að hún drukkni í einhverju úrhellinu.  

Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá hef ég orðið svolítið vör við þetta menntasnobb í Englandi. Oftast finnst mér það fyndið, en stundum get ég látið þetta fara ofsalega í taugarnar á mér.

 

 


mbl.is Dýrkeypt hringing eftir leigubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá Einhverfi og Frelsisstyttan

 

Rúta - skóli - Vesturhlíð - rúta - heim, þuldi Sá Einhverfi upp áðan, af vikuplaninu sínu. Fékk ekkert svar og kom því stormandi til mín og rak andlitið upp að mínu. Vantaði staðfestingu á því að ég ætlaði ekki að hringla neitt í planinu fyrir þriðjudaginn.

Já, alveg rétt Ian, sagði ég.

Þá valhoppaði hann glaður í burtu.

Þegar Bretinn kom heim vildi Sá Einhverfi að pabbi hans samþykkti einnig þessa stórmerkilegu rútínu. En pabbi hans var ekki á þeim buxunum heldur þuldi upp einhverja vitleysu: skóli - Vesturhlíð - rúta - rúta - skóli - rúta....

Nei, æpti Sá Einhverfi hlæjandi og var alveg til í smá stríðni.

Ekki heim, sagði Bretinn.

Víst, sagði Sá Einhverfi með áherslu. Og þar með var enn einn sigurinn unninn. Hann kann að þræta.

-----

Sá Einhverfi elskar af öllu hjarta að teikna og lita með áherslupennum. Skærum neonlitum. Og hans uppáhaldslitur af öllum er gulur. Þess vegna er guli liturinn alltaf orðinn þurr á undan öllum hinum.

Á laugardaginn keypti ég gulan áherslupenna handa honum og setti hann á eldhúsborðið þegar ég kom heim, seint um kvöldið.

Á sunnudagsmorguninn var þetta það fyrsta sem gormurinn kom auga á og það er mér undrunarefni í hvert skipti, hversu mikla gleði er hægt að sýna án svipbrigða.

Hann greip pennann eldsnöggt af borðinu með hægri hendi. Rétti handlegginn svo hátt til lofts að Frelsistyttan má skammast sín. Hann hljóp svo hér gólandi um alla neðri hæðina með kyndilinn sinn. Reigður og stoltur eins og hani, en með ámóta skorti á svipbrigðum.

 


Gelgjan og við hin

 

Á milli klukkan þrjú og fimm í gær var ég stödd ásamt tveimur öðrum höfundum frá Sögum útgáfu, í Eymundssyni Austurstræti. Þetta var ansi ljúf stund. Fyrir það fyrsta; tónlist og bækur samankomið á einum stað. Fátt betra. Svo var það allt fólkið sem ég spjallaði við. Og þið öll sem komuð og gáfuð mér faðmlag og hamingjuóskir, takk fyrir. Þetta gladdi mig svo mikið.

Við fengum reglulegar fréttir af mótmælunum og það var mjög mikið rennerí af fólki í gegnum búðina allan tímann.

Eftir klukkan fimm beið mín 12 ára afmælisveisla Sigurðar Eriks Bakarasonar. Hvers konar veislur á því heimili eru tilhlökkunarefni. Og þó að kræsingarnar séu alltaf til að hrópa húrra fyrir þá á ég mikið frekar við félagsskapinn. Mér og mínu fólki er ávallt tekið þar sem parti af fjölskyldunni og það hlýjar mér svo þægilega um hjartað. Er mér meira virði en svo að ég geti útskýrt það. 

Í þessum veislum fara fram fjörugar umræður um pólitík og önnur mál, fimleikasýningar, fótboltaleikir, höfuð-, fóta- og baknudd, nettur ágreiningur... og bara allt sem fylgir slíkum samkomum.

Bakarafrúin kom með pælingu þar sem ég og hún sátum úti á palli og nutum þess að horfa inn um stofugluggann og virða fyrir okkur lífið inn í húsinu. Engin hljóð bárust út. Aðeins myndræn sátt og hlýja.

Mér datt í hug að svipuð sjón hefur líklega blasað við litlu stúlkunni með eldspýturnar.

Ætli það sé svona sem hinir látnu sjái okkar, sagði Bakarafrúin. Og ég gat vel ímyndað mér að þannig væri það.

Seinna sátu afmælisbarnið og Bakarafrúin á sófanum og afmælisbarnið þáði bakstrokur hjá mömmu sinni. Þá kom þar aðvífandi, Bakaradóttirin í tuð-stuði.

Þetta 8 ára gamla telpuskott er mikil rökfærslumanneskja. Og við rökræður stækka augun um u.þ.b. helming og röddin hækkar upp að sama marki. Rökfærslurnar snúast að mestu leyti um að færa sönnur í orðum á það, hversu mikið hallar á hana og hennar rétt á allan hátt í þessari fjölskyldu. Oft gefst hún upp og þá alltaf með þessum orðum: ÆI MAMMA ÞÚ SKILUR MIG AALDREII. Og svo strunsar hún í burtu, uppfull af réttlátri reiði.

Þegar hún gerði akkúrat það í gær, reis bróðir hennar upp á olnbogana þar sem hann lá í góðu yfirlæti og sagði einlæglega með örlitlum hneykslunartón í röddinni: ''Heyrðu mamma. Þú gætir nú skrifað bók um þetta vandamál. Gelgjan og við hin.''

Ég komst aldrei að því hvort orðið ''þetta'' átti við vandamálið eða systur hans því ég hló svo mikið. En eitt er ljóst og það er að Sigurður Erik Bakarasonur sér litlu systur sína sem

  • a) Vandamál
  • b) Gelgju

Ég veit samt að hann elskar hana af öllu hjarta og lætur sér oftast nægja að hrista hausinn yfir henni. Þá hrista þeir hausinn í takt, Bakarinn og Bakarasonurinn.

 


Tilvalið að kíkja í kaffi eftir mótmælin á Austurvelli - Útgáfutilboð á bókum

  Sögur Útgáfa heldur útgáfugleði!  

Laugardaginn 8. nóvember stendur Sögur Útgáfa fyrir útgáfugleði í Eymundsson Austurstræti 18 frá klukkan 15-17. Fagnar þetta unga en ört stækkandi forlag útgáfu eftirfarandi bókatitla:

 
  • ÉG – ef mig skyldi kalla eftir Þráinn Bertelsson. Annar hluti í ævisagnabálki Þráins sem iðar af lífi og engist af sársauka.
  • Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð. Sjálfstætt framhald metsölubókarinnar Hnífur Abrahams en nú beinir Óttar sjónum sínum að landnámsmönnun Íslands.
  • Sá Einhverfi og við hin eftir Jónu Á Gísladóttur, einn vinsælasta bloggara landsins. Hlý, fyndin og mannleg bók.
  • Hetjuhandbók Latabæjar. Bók full af fjöri, leikjum, sögum, þrautum og fleiru.
  • Ripleys – Ótrúlegt en satt, hið ótrúlega afhjúpað . Farðu í ferð í kringum hnöttinn og hittu dularfullar verur, sjáðu skrýtna staði, og lentu í stórfurðulegt ævintýri.
  • Jón Ólafur Jólasveinn eftir Kikku, höfund Ávaxtakörfunnar . Frábær barnabók um venjulegan strák sem gerist óvart jólasveinn.
  • Hvernig ég hertók höll Saddams eftir Börk Gunnarsson, talsmann NATO í Bagdad. Ótrúleg lífsreynslusaga Barkar nokkra örlagaríka mánuði í Bagdad.
  • Rótleysi, rokk og rómantík eftir Ingibjörgu Reynisdóttur. Hér fylgir Ingibjörg eftir hinni geysivinsælu unglingabók Strákarnir með strípurnar og gott betur.
  • Tíu litlir bankastrákar eftir Óttar M. Norðfjörð gerir stólpagrín að útrásinni margumtöluðu.
  • Öllu meiri fánýtur fróðleikur . Vitanlega gagnslausar upplýsingar en þó einkar mannbætandi og kætandi.
 

   Boðið verður upp á kaffi og kleinur og djangódjassbandið Hrafnaspark leikur fyrir gesti. Rithöfundar verða einnig á staðnum til áritunar. Mörg ótrúleg útgáfutilboð aðeins í þetta eina skipti. Komið og þiggið veitingar, hlustið á tónlist og njótið þess að vera til

 

 


Maður er auðvitað léttgeggjaður

 

Ég held að flestir kannist við að fáránlegar hugsanir þjóta í gegnum huga þeirra einstaka sinnum.

Eins og þegar rafmagnið fer af hverfinu, það er vetur og fyrsta hugsunin er: æi ég ætla bara að njóta þess og hita mér kakó og sötra í myrkrinu.

Annars virðast mín rugl-andartök yfirleitt tengjast símtækjum á einhvern hátt.

Ég get verið mjög aktív þegar ég er að tala í gemsann. Tala og tala, set í þvottavél, uppþvottavél, brýt saman þvott, gef dýrunum að borða, lifi kynlífi... nei kannski ekki þetta síðasta en allt annað er satt. Svo dettur mér í hug í miðju símtali að kíkja í dagbókina í símanum og athuga hvort ég eigi tíma hjá tannlækni daginn eftir. Og fer að leita að símanum. Hef til og með blótað upphátt í eyra viðmælandans því ég finn hvergi helvítis símann. Sem er á sama tíma að brenna gat á eyrað á mér vegna ofnotkunar.

Það kemur oft fyrir í vinnunni að ég sit við skrifborðið mitt þar sem er að sjálfsögðu borðsími, og ég er að tala í gemsann. Þegar símtalinu lýkur reyni ég að slíta sambandið á borðsímanum. Ýti aftur og aftur á takkann og skil ekkert í því af hverju sónninn í eyranum á mér þagnar ekki.

Ég hef líka margoft rekið mig á að það þýðir ekkert fyrir mig að hafa borðsímann og reiknivélina hlið við hlið á skrifborðinu því þá er ég stöðugt í því að reyna að hringja á reiknivélinni og reikna út rúmmál fraktar á símtækinu.

Ég átti heldur langan vinnudag í dag og var á leið heim um sjöleytið í kvöld. Ég heyrði dauft hringingarhljóð frá gemsanum og ákvað að láta það eiga sig. Enda ekki sniðugt að fara að leita að símanum með aðra hendina á stýri og hina á kafi ofan í töskunni. Taskan sú er frumskógur og auðvelt að villast í henni. Týnast hreinlega.

En eftir nokkra stund hugsaði ég; kannski var þetta Bretinn að hringja og ætlaði að biðja mig um að koma einhvers staðar við á leiðinni. Svo ég skellti mér í frumskóginn. Ráfaði þar um, fram og til baka. Fór í vestur og svo í austur. Fann ekki gemsann hvernig sem ég gramsaði. ''Andskotinn'', hugsaði ég. ''Ég hef gleymt símanum í vinnunni''.

Samt hringdi hann nokkrum andartökum áður. Maður er auðvitað léttgeggjaður.

 

 


Reykvíkingur villist í leit að útvarpi allra landsmanna

 

Þegar ég les íslenskar bækur, óstaðsettar fréttir og heyri sögur af atvikum, þá staðset ég sögusviðið í huganum. Á einhverjum stað, í húsi eða annars staðar þar sem ég þekki til eða hef komið.

Oftar en ekki hef ég rekið upp stór augu þegar ég kemst að því að tiltekin frásögn átti sér stað í til dæmis Breiðholtinu en ekki í Garðabæ, þar sem ég hafði séð allt saman fyrir mér í huganum.

Þetta kom fyrir mig í morgun. Ekki á besta tíma eða við heppilegustu aðstæðurnar.

Klukkan 08:05 átti ég að vera mætt fyrir utan stúdíó 2 í RÚV í Efstaleiti, fyrir viðtal sem átti að hefjast 08:15.

Klukkan 08:01 keyrði ég eftir Bústaðarveginum, ánægð með sjálfa mig og óvenjulega stundvísi mína. Aðeins í einnar mínútu akstursfjarlægð frá áfangastaðnum.

En þar sem ég ek í bílskrjóðnum mínum fara skyndilega að renna á mig tvær grímur. Í huganum birtist mynd af húsvegg sem á stendur Veðurstofa Íslands. Einhvers staðar djúpt í iðrum hugans eru meitluð þessi tvö orð og húsveggurinn. Enda ekki skrítið þar sem ég keyrði þessa leið til vinnu í ein þrjú ár.

Og ég hugsaði: Ji minn almáttugur, Efstaleiti Efstaleiti Efstaleiti. Leiti-eitthvað getur ekki verið hér. Og ég hugsaði um Háaleitisbraut sem ég hafði rétt áður brunað um, Hvassaleiti og öll hin leitin. Efstaleiti getur ekki verið á þessum slóðum. Damn damn damn. Getur verið að mér hafi skjátlast um staðsetningu RÚV í öll þessi ár.

Af þrjósku einni saman beygði ég nú samt út af Bústaðarveginum og upp brekkuna sem liggur að.. jú Veðurstofu Íslands.

Klukkan var 08:05. Ég panikkaði og hætti að geta heyrt eigin hugsanir því hjartað í mér sló einhvers staðar uppi í heila. Ég hringdi í Bretann.

Ég var fastmælt, skýrmælt og yfirveguð. Gat ekki átt á hættu að algengur tungu-mála-misskilningur tefði fyrir. N i c k - h v a r  e r  R Ú V ?

Fimmtán ára þekking Bretans á þessari rammvilltu kerlingu hjálpaði upp á sakirnar. Einskis var spurt, aðeins svarað. Hann var jafn skýrmæltur, fastmæltur og rólegur og ég var. Nema bara að hans yfirvegun var ekta. Mín var grunn og yfirborðskennd eins og Rauðavatn á fimmta, heita sumardeginum í röð. 

Og þegar ég, eftir afar greinagóðar leiðbeiningar Bretans, beygði inn á planið við RÚV bygginguna  var það svona ''I knew that'' móment. ''Off course I knew that!!''

Ég var samferða Páli Magnússyni frá bílastæðinu og inn í húsið og einhverja örvinglan hefur hann lesið úr svipnum á þessari ljósku því hann tók mig upp á sína arma og yfirgaf mig ekki fyrr en ég var komin í hendurnar á Hrafnhildi.

Ég fékk mér vatnsglas á meðan fréttatíminn stóð yfir og mætti svo pollróleg fyrir framan hljóðnemann nokkrum mínútum seinna.

---

Það var árið 1983 sem Rás 2 tók til starfa, og hefur eftir því sem ég best veit, verið útvarpað frá Efstaleiti 1 frá upphafi.

Allan þennan tíma, þ.e. frá árinu 1983 hef ég staðið í þeirri bjargföstu trú að húsið sem stendur við Bústaðarveg 9 og er kyrfilega merkt Veðurstofu Íslands, sé RÚV-húsið.

Sjálf hef ég búið í Reykjavík síðan 1973.

Það þarf þó nokkra ''hæfileika'' í svona lagað.

Við tækifæri mun ég segja ykkur frá því þegar þrjár kerlingar, hver annarri fallegri, gáfaðri og glæsilegri, villtust á leið upp í Kjós á meðan sú fjórða beið upp í sumarbústað og velti því fyrir sér hvort hún hefði ruglast á dögum.

By the way... hér er viðtalið:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4440985

 

 


Það gerist eitthvað skemmtilegt á hverjum einasta degi

 

Þetta kætir mig. Ég verð að viðurkenna það.

Auðvitað er peningafölsun háalvarlegt mál en ef mér skjátlast ekki þá snýst fölsun um að afrita á sem nákvæmastan hátt, eitthvað sem er til nú þegar.

Tíuþúsundkróna seðill með mynd af Davíði Oddssyni er ekkert nema húmor á örlítið gráu svæði. Eða er það kannski bara kolbikasvart. Getur viðkomandi vonast til að á þessu verði tekið af meiri léttleika en venjulegri peningafölsun?

Var þetta kannski Geir? Nógu mikið er honum í mun að hampa Davíð.

 


mbl.is Notaði seðil með mynd af Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég um mig frá mér til mín

 

Það er að hellast í mig kvef. Það þykir mér ansi leiðinlegur kvilli. Nefrennsli og tilheyrandi eymsli í þeim líkamsparti leggjast illa í mig.

Samt er fáránlegt að kvarta yfir kvefi. Ef maður hefur ekki yfir neinu öðru að kvarta telst maður að vonum afar lánsöm manneskja.

Að vera nefmælt angrar mig samt sérstaklega núna, því ég er að fara í viðtal til Hrafnhildar og Gests í fyrramálið í Morgunþátt Rásar tvö. Guðrún Gunnars verður fjarri góðu gamni, að ég held.

Júb júb ða stemmir. É var ab geba út bók ogg langa ab seigja solídi fðá ðí....

Getur aldrei komið greindarlega eða sexý út í útvarpi. Kannski að ég ætti að fá mér gufubað eins og Ólafur Ragnar í Dagvaktinni.

Vikan kemur svo út á morgun eða fimmtudag og þar mun ég blasa við hverjum sem sjá vill. Allt mjög siðlegt þó. Og þrátt fyrir að ég, verandi kvenmaður og allt það, hlýt að hafa stórar áhyggjur af því hvernig myndirnar koma út, mun þetta Viku-viðtal alltaf lifa í minningunni sem skemmtileg reynsla. Blaðamaðurinn Björk, stílistinn og förðunarmeistarinn Haffi og Rakel ljósmyndari. Þetta fólk sá til þess að ég átti eftirminnilega stund við að gera það sem reynist mér alltaf erfitt: láta taka af mér myndir.

Útgáfupartý stendur fyrir dyrum á næstu dögum og svo taka væntanlega við upplestrar út um allan bæ.

Sá Einhverfi, sem ætti að vera þungamiðjan í þessu öllu saman, kærir sig kollóttan.´

Ég rak bókina upp í nefið á honum um daginn og var að vona að honum þætti spennandi að sjá mynd af sjálfum sér framan á bókarkápu. Það var öðru nær. Hann hafði nákvæmlega engan áhuga á málefninu.

Í kvöld sagði ég Gelgjunni að ég ætti að mæta í útvarpsviðtal í fyrramálið.

Já ok, sagði hún og geispaði. Ekki bara fara þarna inn og gaspra eitthvað um mig eins og þú gerðir í hinum útvarpsþættinum. Góða nótt mamma.

Einmitt. Allir með fæturna á jörðinni og hana nú!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1640567

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband