Leita í fréttum mbl.is

Endurskinsmerki frá VÍS

 

Fyrir mörgum mánuðum síðan rataði á úlnlið Þess Einhverfa endurskinsmerki. Þetta er svona renningur sem þú skellir á úlnlið eða arm og við höggið hringar renningurinn sig eins og slanga utan um umræddan líkamspart.

Sennilega hefur þetta endurskinsmerki komið inn um lúguna með auglýsingu frá tryggingarfélagi eða einhverju slíku. Ég man það ekki lengur.

En allavega, þá tók drengurinn ástfóstri við þennan sjálflýsandi græna hlut og tók hann aldrei af sér nema rétt til að skemmta sér við að skella honum á ný á úlnliðinn og horfa á hann krækja sig fastan.

Svo var það einn dag fyrir skömmu að Sá Einhverfi kom  grátandi heim  með skólabílnum. Systkini hans tóku á móti honum og skildu hvorki upp né niður í því hvað var að litla bróður. Hann tuðaði um armband og Gelgjan hljóp um allt hús og bauð honum alls konar glingur á úlnliðinn en ekkert dugði. Sá Einhverfi hélt áfram að gráta.

En Gelgjan gafst ekki upp og á endanum sættist bróðir hennar á grænan og glansandi pakkaborða sem hún klippti og batt um úlnlið hans.

Svo kom mamman heim og kveikti á perunni um leið og hún heyrði söguna. Enda eru mæður hannaðar til þess, ekki satt? Að vera fljótar að fatta.

Og ég skildi auðvitað að án endurskinsmerkis getur einhverfur drengur ekki verið, svo ég settist niður með símaskrá og hóf leitina.

Ég talaði við sportvöruverslanir og einhver hjá Útilíf benti mér á að tala við tryggingarfélögin. Og ég hringdi í VÍS.

Indæl stúlka svaraði í símann. Hún kannaðist við umræddan hlut en sagði að þetta hefði allt saman klárast hjá þeim.

Veistu nokkuð hver framleiðir þetta fyrir ykkur, eða hvaðan þið kaupið þetta, spurði ég.

Nei, hún vissi það nú ekki en benti mér á að hringja daginn eftir og tala við konu í markaðsdeildinni.

Þakka þér fyrir, sagði ég. Og út af því að ég er afskaplega mikið til baka með að hringja í fyrirtæki út í bæ og biðja um eitthvað frítt þá vildi ég útskýra málið fyrir henni. Ég er nefnilega með einn einhverfan gutta hérna sagði ég sem var að týna endurskinsmerkinu sínu og er í sárum yfir því. Mig langar svo að finna nýtt handa honum.

Það kom andartaks þögn í símann en svo sagði stúlkan: fyrst að svo er þá á ég nú örugglega eins og eitt stykki heima hjá mér.

Ég hefði kysst hana ef símtól hefði ekki skilið okkur að, og eins og kom á daginn; talsverð vegalengd þar sem hún er staðsett á Akureyri.

Hún tók niður netfangið mitt og morguninn eftir fékk ég tölvupóst þar sem hún sagðist hafa fundið endurskinsmerki heima hjá sér og bað mig um að senda sér heimilisfangið okkar.

Tveimur dögum seinna fengum við tvo fjársjóði inn um bréfalúguna og Sá Einhverfi skartar nú glansandi og sjálflýsandi armbandi merktu VÍS á úlnliðnum. Alsæll.

Aukaeintakið faldi ég upp í skáp og þar bíður það þess að þörf sé fyrir það.

Þessi stúlka, sem lagði aukalykkju á leið sína til að gleðja ókunnugan dreng, hlýjaði mér um hjartarætur svo um munaði.

Anna Björk, takk fyrir okkur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flott símadama.

Villi Asgeirsson, 25.9.2009 kl. 11:56

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ekki spurning Villi

Jóna Á. Gísladóttir, 25.9.2009 kl. 11:57

3 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Falleg saga.

Ekki veitir af þessa dagana.

Takk fyrir!

Einar Örn Einarsson, 25.9.2009 kl. 12:02

4 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka þér fyrir að halda á lofti því jákvæða og kærleiksríka.

Hólmfríður Pétursdóttir, 25.9.2009 kl. 13:57

5 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Sannarlega ljúft og fallegt og ég tek undir að ekki veitir nú af á þessum síðustu og verstu.

Sigurður Sveinsson, 25.9.2009 kl. 13:57

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Frábær afgreiðsla hjá henni.

Hrönn Sigurðardóttir, 25.9.2009 kl. 15:25

7 identicon

Frábær kona,svona mætti gerast oftar í okkar samfélagi.Sannkallað góðverk

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 19:21

8 Smámynd: Ragnheiður

ó ..en æðislegt. Þarna kemur enn og aftur, aukaskrefið sem við stígum fyrir náungann. Það er hreinlega þess virði.

Ragnheiður , 26.9.2009 kl. 00:39

9 Smámynd: Ragnheiður

Heyrðu ! Las fyrir Steinar og hann hrökk upp, hér eigum við eitt svona merkt Mercedes Bens.

Þú veist af því Jóna mín ef þér liggur einhverntímann við.

Ragnheiður , 26.9.2009 kl. 00:43

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Náungakærleikurinn á háu stigi.  Saga sem heillar.  Takk fyrir þetta Jóna mín.  Góðan dag nú sem endra nær.

Ía Jóhannsdóttir, 26.9.2009 kl. 08:29

11 Smámynd: Ómar Ingi

Góð saga

Takk

Ómar Ingi, 26.9.2009 kl. 13:28

12 identicon

Manni hlýnar um hjartarætur við að heyra hvað lítill greiði getur gert stóra hluti.

Arna (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 17:01

13 identicon

Gott að heyra svona sögur!

Ég hef aldrei kvittað hjá þér en les stundum bloggið þitt þar sem ég vinn með einhverfan dreng.

Langar bara að segja þér að ef drengurinn lendir í þessu aftur þá á ég svona gult sjóvá merki sem ykkur er velkomið að fá. Hafðu bara samband við mig.

Alda (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 17:57

14 identicon

Fór eiginlega bara að gráta þegar ég las þessa færslu!  Gott að vita að enn er til fólk sem lætur náungann sig einhverju varða - skilur að svona lítið góðverk getur skipt öllu máli fyrir hinn aðilann

Anna Lilja Torfadóttir (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 19:21

15 Smámynd: Anna Guðný

Falleg saga.

Anna Guðný , 27.9.2009 kl. 20:47

16 Smámynd:

Mikið er gott að til skuli vera svona fólk. Takk fyrir söguna.

, 28.9.2009 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband