Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hamfarir á föstudegi

 

Síðastliðinn föstudagsmorgunn vaknaði ég á slaginu hálfátta. Sem er ekki gott því það er á sama andartaki og skólabíllinn er fyrir utan að sækja Þann Einhverfa.

Ég nuddaði stírurnar úr augunum, andaði rólega inn, andaði rólega út og fór inn til stráksa til að vekja hann. Hann var nú ekkert á því. Svo hringdi ég í bílstjóra skólabílsins og tilkynnti honum að ég hefði verið að opna augun.

Já, sagði Kiddi bílstjóri hinn rólegasti. Mér fannst húsið ykkar eitthvað drungalegt þegar ég renndi upp að því áðan.

Svo var Þeim Einhverfa dröslað fram úr og tilkynnt að í dag væri það bíllinn hans pabba sem kæmi honum í skólann.

Það féll ekki í kramið frekar en fyrri daginn. ''Rúta, rúta'' endurtók hann í sífellu og var hundfúll. Og svo grét hann yfir snjónum. ''Ekki snjór....''

Ég hef verið svo upptekin í vinnunni og á framabrautinni hvað varðar bókina að ég gaf mér aldrei tíma í síðustu viku, til að gera hið venjulega vikuplan fyrir drenginn. Ég krotaði því í flýti á blað, föstudag, laugardag og sunnudag.

Á föstudag skrifaði ég efst: pabba bíll - skóli. Og á laugardag: kannski snjór farinn.

Þegar loks, eftir 70 mínútna þref og grát, dundi annað áfall yfir. Annar spiderman-fingravettlingurinn fannst ekki.

Ó nei, sagði Sá Einhverfi. Hvar er vettlingur? Hvar er vettlingur.

Þetta var skelfilegur dagur. Hamfarir hreint út sagt. Engin rúta, snjór úti og Spiderman týndur. Það eru nú takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða einu barni upp á.

Það var verulega ósáttur drengur sem ók burt með pabba á Yaris-num.

Þegar þeir voru farnir rak ég augun í blaðið með planinu.

Þar var búið að krota yfir ''pabba bíll'' og skrifa ''rúta'' í staðinn.

Og á laugardeginum stóð nú bara: ''snjór farinn.''

Ég brosti með sjálfri mér. Sannfærðist endanlega um að merking orðsins ''kannski'' vefst ekkert fyrir gaurnum mínum. Snjórinn skyldi vera farinn á laugardag og ekki orð um það meir. Það breytti því þó ekki, að hér upp á fjöllum, sat snjórinn sem fastast alla helgina.

 


Kreppan er aðeins farin að narta í afturendann á mér

 

Kreppan er aðeins farin að nudda sér utan í þessa fjölskyldu.

Ég veit að ástandið á eftir að fara versnandi og mörg fyrirtæki eru að hanga á horreiminni fram yfir áramót. Ég er, því miður, handviss um að það verður holskefla af uppsögnum, gjaldþrotum og öðru lítið skemmtilegu í janúar og febrúar.

Mögru árin eru framundan (vonandi verð ég líkamlegur holdgervingur) og þau verða nokkur. En ég er sannfærð um að það tekur okkur ekki meira en 4 ár að ná dampi aftur. Ekki samt í sama hömluleysinu. En atvinnuástandið og lífskjör munu fara smám saman batnandi.

Ég skil samt ekki þessa ofuráherslu sem á að leggja á menntamálin mitt í öllu þessu. Háskólann. Er ekki kominn tími til að endurvekja virðingu landans fyrir verkamannavinnunni og sjómennskunni. Þessum harðvinnandi stéttum sem ekki hafa verið metnar að verðleikum í áratugi. Höfum við eitthvað að gera við fleiri útskriftir í viðskiptafræði, lögfræði, hagfræði og hvað þessi fræði heita nú öll?

Annars var ekki ætlunin að blogga um kreppuna. Aðeins að koma þessum bráðskemmtilega brandara að:

Íslenski sjávarútvegsráðherrann hitti svissneska kollega sinn og spurði hann af hverju Svisslendingar væru með sjávarútvegsráðherra, það væri jú enginn sjór í kringum Sviss.

Svissneski ráðherrann svaraði að bragði með annarri spurningu:

„Hvað eruð þið að gera með fjármálaráðherra?".

 


Unglingurinn Daníel

 

Þegar við Bretinn byrjuðum að vera saman var ég 25 ára. Fannst ég háöldruð í den tid en var bara baby.

Ég var barnlaus. Bretinn átti einn dreng með fyrrverandi kærustunni sinni. Daginn áður en Bretinn og ég drógum okkur saman í fyrsta skipti (kysstumst! dónarnir ykkar) varð þessi litli drengur þriggja ára.

Barnið var bjútífúl. Eins og dúkka. Og hann var tortrygginn gagnvart mér. Hann Daníel litli Alexander. Hann kom sér ávallt fyrir á milli Bretans og mín í sófanum. Samt vorum við ekki að neinu kossaflensi fyrir framan hann. Ég sver 'ða.

Eftir að við Daníel náðum tengslum og hann vandist þessari stelpu sem virtist vera komin til að vera spurði hann okkur eitt sinn afhverju við byggjum ekki öll saman. Hann, pabbi hans, ég og mamma hans. Þá átti ég fá svör.

Næstu árin eyddum við Daníel mörgum helgum saman. Bara við tvö því Bretinn var alltaf að sinna einhverjum hljómsveitum í hljóðveri.

Ég ætla ekki að ljúga því að þetta hafi alltaf verið auðvelt. En eins og með allt annað í lífinu þá bæta góðu stundirnar upp hinar sem ekki eru eins góðar.

Á vissum tímapunkti í lífi Daníels fannst mér sem tengslin rofnuðu svolítið. Það var þegar Daníel hætti að nenna að gista. Fór að verða nógu gamall til að geta verið einn heima. Orðinn of stór til að nenna að koma til okkar bara vegna þess að mamma hans þurfti að fara eitthvað. Gott að halda sig í heimahverfinu, nálægt vinunum. Eða kannski fannst honum bara svolítið gott að vera aðeins einn. Ég veit það ekki, í sannleika sagt. Alfarið mín sök og Bretans. Hvorugt okkar nógu duglegt að taka upp símann og hvetja hann í stuttar heimsóknir.

Svo var ég svo heppin að mamma Daníels ákvað að setjast á skólabekk í öðru landi. Og þá flutti Unglingurinn til okkar. Ég veit að þetta er tímabundið. Ég veit að ég er bara með hann í láni. En ekkert getur tekið frá mér þann tíma sem við höfum fengið að hafa hann og kynnast honum á nýjum forsendum. Að ég tali nú ekki um tvíefld systkinatengslin, sem reyndar hafa alltaf verið góð.

Enginn er fullkominn og Unglingurinn ekki heldur. En gagnvart yngri systkinum sínum þá nálgast hann nú samt að vera það.

Ég eignaðist mín þrjú börn þrátt fyrir allt. Og í dag, 20. nóvember verður það elsta 18 ára. Til hamingju með afmælið elsku Daníel. Knús og kossar frá stjúpu.

Hér er ein af mínum uppáhalds myndum úr fjölskyldualbúminu:

NCJ og DCJ

 

 

 


Eigi verður feigum forðað...

 

Eigi verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið.

Þessu trúi ég heils hugar. Frá fæðingu til dauða höfum við úr vissum spilum að spila. Getum ráðið töluverðu um framvindu leiksins. Stundum erum við heppin. Stundum óheppin. Stundum erum við góðir spilarar. Stundum ekki svo góðir.

En um upphaf og endi leiksins höfum við ekkert að segja.

Kveikjum á kertum í skammdeginu og þökkum fyrir að vindurinn gnauðar fyrir utan gluggana. Því það þýðir að við eigum í hús að venda.


Einhverfur afkomandi Litlu hafmeyjunnar

Sá Einhverfi er nú á sundnámskeiði tvisvar sinnum í viku.

Öðru hverju rek ég mig á varðandi það hvað ég vanmet getu barnsins. Þegar ég fékk skilaboð frá skólanum um það að sennilega væri stráksi nú tilbúinn til að sækja sundnámskeið hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, var ég aldeilis standandi hlessa barasta. Ekki það að ég viti ekki hversu vel honum líður í vatni og hversu gaman hann hefur af sundlaugum.. sérstaklega sundlaugum með myndarlegum rennibrautum. En ég hélt hreinlega að hann væri langt í frá tilbúinn til að taka við fyrirmælum um sundtök frá ókunnugu fólki hvað þá að halda sér á floti hjálparlaust.

Svo mættum við á sundnámskeið, Sá Einhverfi og ég. Ég reyndar sat alklædd á sundlaugabakkanum og gapti. Ég er enn að gapa í 5. eða 6 tíma.

Er þetta barnið sem ég er sífellt hrædd um að drukkni í baðkarinu? Sem við troðum neon-appelsínugulum kútum á bústnu handleggina á, þegar við (lesist Bretinn) förum með hann í sund?

Barnið er flugsynt. Ekki með hefðbundnu bringu-, bak- eða skriðsundi. En hann þýtur áfram með einhverjum heimatilbúnum sundtökum. Jafnt yfir grunna sem djúpa laug. Fer í kaf og hagar sér á allan hátt eins og afkomandi Litlu hafmeyjunnar. Ekki kannski alveg, en þið vitið hvað ég meina.

Ég þarf að leggja hausinn í bleyti núna. Reyna að finna út á hvaða fleiri sviðum ég er að halda aftur af barninu.

 


Mamma bjáni

Það er svo skrýtið hvað þráðurinn er stuttur í mér eftir langa fjarveru við börnin mín. Maður skyldi ætla að því væri öfugt farið. Kannski er það ég sem er öfugsnúin.

Þegar ég fer í burtu í tvo daga eða fleiri, eða krakkarnir, þá er þolinmæði mín gagnvart þeim ansi lítil þegar við hittumst á ný. Ég þarf aðlögun. Eins og lítið barn að byrja á leikskóla. Reyndar gera endurfundir við Bretann mig líka svona grömpí. Guði sé lof fyrir að ég er ekki sjómannskona, eða börnin á heimavistarskóla. Þá er nú hætt við að ég þyrfti að fara að poppa gleðipillur eða kvíðatöflur til að verða þolanleg í sambúð.

Sá Einhverfi fór í sumabústaðinn yfir helgina með Fríðu stuðningsmömmu og co. Hann var farinn að bíða eftir að komast heim, fyrri partinn í dag en stuðningsfjölskyldan dílaði við hann eins og þeim er von og vísa.

Þau enduðu svo helgina í mat hjá Fríðu-foreldrum, Lúlla og Önnu Laufeyju í Mosó. Og þangað sótti ég kútinn minn. Hann stóð alklæddur og beið eftir mömmunni sinni. Ég sagði honum að ég ætlaði að þiggja kaffibolla en samt opnaði hann útidyrahurðina á meðan ég klæddi mig ÚR skónum, tilbúinn að stökkva af stað út í bíl. ''Fara heim'' sagði hann vongóður.

Ég fékk hann þó til að setjast aftur niður fyrir framan Harry Potter á meðan ég svolgraði í mig kaffinu. Og þarna sat hann. Strákurinn minn. Stjarfur á stól, með Spiderman húfuna á höfðinu og Spiderman fingravettlinga á höndunum. Algjörlega í startholunum. Hver taug þanin og allir fingur útglenntir.

Og þegar við loks fórum fann ég hversu hræddur hann var um að ég myndi skipta um skoðun í miðjum stigagangi. Var ekki í rónni fyrr en hann var sestur inn í bíl með beltið spennt.

Eftir að við komum heim var einhver pirringur í honum yfir því að tölvan hagaði sér ekki eins og hann vildi. Þar áður var það snjórinn sem klárlega var ekki velkominn og Sá Einhverfi heimtaði rigningu. Tók það alls ekki gott og gilt að mamma hans ætti enga greiða inni hjá veðurguðunum.

Ég, eftir heila fríhelgi og í aðlögunarþörfinni, missti þolinmæðina og talaði höstuglega til hans. Það var nóg. Hann varð alveg miður sín, fór að hágráta og breyttist í mannlegan plástur sem límdist við mig.

Ó hvað mér fannst ég vond mamma. Drengurinn örugglega verið með kvíðahnút í maganum frá hádegi yfir því að ég væri búin að gefa hann, og dagurinn því verið honum erfiður.

Hann grét og grét og ætlaði aldrei að geta hætt. En ósköp fannst mér ljúft að hafa þennan plástur á mér. Finna hvernig handleggirnir hans vöfðust þétt utan um mig og hvað hann þurfti mikið á mér að halda. Við þurfum að finna það.. stundum.. við mömmurnar.

Og þó að hann, seinna um kvöldið, stappaði niður fæti og galaði ''mamma bjáni'' þá vissi ég að það var ekki illa meint.

Þegar ég var búin að breiða yfir hann og kyssa góða nótt fylgdu mér glaðlegar skammir fram á gang: ''síld á sunnudegi - fjandinn hafi það''.

 

 


Gods children

 

Ég á mína barnatrú. Þetta hljómar kannski eins og versta klisja en þá er klisjan sönn. Ég trúi á Guð eða einhvern æðri mátt. Eitthvað hlýtur að vera okkur æðra.

En eins og Jenný Anna skrifar um hér, þá myndi ég aldrei treysta á þann mátt til að redda mér einu eða neinu eða fría sjálfa mig ábyrgð á eigin lífi og limum vegna þess að mér finnist að hann eigi barasta að sjá um þetta.

Aldrei á ævi minni hef ég sagt eða hugsað: ''það getur ekki verið til Guð sem lætur þetta eða hitt gerast.''

Þvi allt hið illa sem gerist í heiminum er af manna völdum. Í öðrum tilfellum, þar sem ég get ekki klínt sökina á mannvonsku, eins og t.d. þegar ungt fólk fellur frá vegna veikinda, þá trúi ég því staðfastlega að viðkomandi sé ætlað eitthvað annað hlutverk á öðrum stað. Ég trúi því að daginn sem ég dey, verði dagurinn sem mér var alltaf ætlað á deyja.

Þegar ég dey vil ég að erfidrykkjan verði fjörug. Ég vil að fólk fái að borða, dansi við Abba og Bo og ég vil að það verði hvítvín á boðstólnum.

Ég trúi því ekki að Guð eða hinn æðri máttur skapi drepsóttir, flóð, aids og jarðskjálfta til að refsa. Ég trúi ekki að guðsótti sé jákvætt orð.

Og ég trúi því að okkur sé gefin kímnigáfa til að njóta hennar og til þess að sjá spaugilegu hliðarnar á erfiðum stundum.

Þess vegna fylgir þessi litli brandari hér með:

If we are all God's children, what the hell is then so special about Jesus?

 


Visa-rað í kreppunni

 

Hér var smávegis fjölskyldufundur í kvöld. Bretinn og ég, frænka og frændi og mamma þeirra. Við tróðum okkur öll í eldhúsið með kertaljós á borðinu og áttum huggulega stund. Bretinn með tölvuna fyrir framan sig að leita að tónlist á netinu og músíkin yljaði.

Eftir að fundinum lauk og við Bretinn ein eftir, fór ég að ganga frá í eldhúsinu en Bretinn hélt áfram að vinna í tónlistarmálunum.

Viðkvæðið ''heimska mamma'' hljómaði með reglulegu millibili frá efri hæðinni, en þar var kósí-stund Þess Einhverfa og Lottu í Ólátagötu.

Ég raðaði í uppþvottavélina og setti hana í gang. Komst að því að maður þekkir hljóðin í sínum uppáhalds heimilistækjum. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Við Bretinn litum hvort á annað með stjarfan svip. Aðeins augun komu upp um hræðsluna sem greip okkur. Við héldum niðrí okkur andanum og sögðum ekki orð. Hlustuðum á drafandi hljóðið í ''eldhússtúlkunni'' sem virtist ætla að segja upp vistinni.

Vörpuðum öndinni léttara þegar hún náði sér á strik aftur og byrjaði að mala á þann hátt sem við þekkjum svo vel.

Ég ætlaði að segja það.... hugsaði ég og hélt áfram að þrífa eldhúsvaskinn.

Bretinn sendi mér einhvern torkennilegan svip og sneri sér aftur að tölvunni.

Hvorugt sagði orð, en ég VEIT að við hugsuðum ekki það sama.

Bretinn hugsaði: Ef þessi gefur sig þá er það bara gamla góða uppvaskið aftur.

Ég hugsaði: Ef þessi gefur sig þá fer ég, ekki seinna en á morgun, og kaupi nýja á raðgreiðslum.

Og um leið og þetta flaug í gegnum hugann á mér þá skildi ég að ég er á engan hátt að horfast í augu við ástandið í landinu. Ég geri mér enga grein fyrir því hvað raunveruleg kreppa þýðir. Skynsemin segir mér þó að við þær aðstæður kaupir maður ekkert á visa-rað.

 

 


Sá Einhverfi og Frelsisstyttan

 

Rúta - skóli - Vesturhlíð - rúta - heim, þuldi Sá Einhverfi upp áðan, af vikuplaninu sínu. Fékk ekkert svar og kom því stormandi til mín og rak andlitið upp að mínu. Vantaði staðfestingu á því að ég ætlaði ekki að hringla neitt í planinu fyrir þriðjudaginn.

Já, alveg rétt Ian, sagði ég.

Þá valhoppaði hann glaður í burtu.

Þegar Bretinn kom heim vildi Sá Einhverfi að pabbi hans samþykkti einnig þessa stórmerkilegu rútínu. En pabbi hans var ekki á þeim buxunum heldur þuldi upp einhverja vitleysu: skóli - Vesturhlíð - rúta - rúta - skóli - rúta....

Nei, æpti Sá Einhverfi hlæjandi og var alveg til í smá stríðni.

Ekki heim, sagði Bretinn.

Víst, sagði Sá Einhverfi með áherslu. Og þar með var enn einn sigurinn unninn. Hann kann að þræta.

-----

Sá Einhverfi elskar af öllu hjarta að teikna og lita með áherslupennum. Skærum neonlitum. Og hans uppáhaldslitur af öllum er gulur. Þess vegna er guli liturinn alltaf orðinn þurr á undan öllum hinum.

Á laugardaginn keypti ég gulan áherslupenna handa honum og setti hann á eldhúsborðið þegar ég kom heim, seint um kvöldið.

Á sunnudagsmorguninn var þetta það fyrsta sem gormurinn kom auga á og það er mér undrunarefni í hvert skipti, hversu mikla gleði er hægt að sýna án svipbrigða.

Hann greip pennann eldsnöggt af borðinu með hægri hendi. Rétti handlegginn svo hátt til lofts að Frelsistyttan má skammast sín. Hann hljóp svo hér gólandi um alla neðri hæðina með kyndilinn sinn. Reigður og stoltur eins og hani, en með ámóta skorti á svipbrigðum.

 


Gelgjan og við hin

 

Á milli klukkan þrjú og fimm í gær var ég stödd ásamt tveimur öðrum höfundum frá Sögum útgáfu, í Eymundssyni Austurstræti. Þetta var ansi ljúf stund. Fyrir það fyrsta; tónlist og bækur samankomið á einum stað. Fátt betra. Svo var það allt fólkið sem ég spjallaði við. Og þið öll sem komuð og gáfuð mér faðmlag og hamingjuóskir, takk fyrir. Þetta gladdi mig svo mikið.

Við fengum reglulegar fréttir af mótmælunum og það var mjög mikið rennerí af fólki í gegnum búðina allan tímann.

Eftir klukkan fimm beið mín 12 ára afmælisveisla Sigurðar Eriks Bakarasonar. Hvers konar veislur á því heimili eru tilhlökkunarefni. Og þó að kræsingarnar séu alltaf til að hrópa húrra fyrir þá á ég mikið frekar við félagsskapinn. Mér og mínu fólki er ávallt tekið þar sem parti af fjölskyldunni og það hlýjar mér svo þægilega um hjartað. Er mér meira virði en svo að ég geti útskýrt það. 

Í þessum veislum fara fram fjörugar umræður um pólitík og önnur mál, fimleikasýningar, fótboltaleikir, höfuð-, fóta- og baknudd, nettur ágreiningur... og bara allt sem fylgir slíkum samkomum.

Bakarafrúin kom með pælingu þar sem ég og hún sátum úti á palli og nutum þess að horfa inn um stofugluggann og virða fyrir okkur lífið inn í húsinu. Engin hljóð bárust út. Aðeins myndræn sátt og hlýja.

Mér datt í hug að svipuð sjón hefur líklega blasað við litlu stúlkunni með eldspýturnar.

Ætli það sé svona sem hinir látnu sjái okkar, sagði Bakarafrúin. Og ég gat vel ímyndað mér að þannig væri það.

Seinna sátu afmælisbarnið og Bakarafrúin á sófanum og afmælisbarnið þáði bakstrokur hjá mömmu sinni. Þá kom þar aðvífandi, Bakaradóttirin í tuð-stuði.

Þetta 8 ára gamla telpuskott er mikil rökfærslumanneskja. Og við rökræður stækka augun um u.þ.b. helming og röddin hækkar upp að sama marki. Rökfærslurnar snúast að mestu leyti um að færa sönnur í orðum á það, hversu mikið hallar á hana og hennar rétt á allan hátt í þessari fjölskyldu. Oft gefst hún upp og þá alltaf með þessum orðum: ÆI MAMMA ÞÚ SKILUR MIG AALDREII. Og svo strunsar hún í burtu, uppfull af réttlátri reiði.

Þegar hún gerði akkúrat það í gær, reis bróðir hennar upp á olnbogana þar sem hann lá í góðu yfirlæti og sagði einlæglega með örlitlum hneykslunartón í röddinni: ''Heyrðu mamma. Þú gætir nú skrifað bók um þetta vandamál. Gelgjan og við hin.''

Ég komst aldrei að því hvort orðið ''þetta'' átti við vandamálið eða systur hans því ég hló svo mikið. En eitt er ljóst og það er að Sigurður Erik Bakarasonur sér litlu systur sína sem

  • a) Vandamál
  • b) Gelgju

Ég veit samt að hann elskar hana af öllu hjarta og lætur sér oftast nægja að hrista hausinn yfir henni. Þá hrista þeir hausinn í takt, Bakarinn og Bakarasonurinn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband