Leita í fréttum mbl.is

Ég er húmorslaus þessa dagana er mér sagt

 

Sá Einhverfi er orðinn sjálflærður á laptoppinn minn. Tekur excel skjalið sem ég set dagatalið hans upp í og umbreytir því eins og honum hentar.

Samkvæmt planinu eins og það lítur út núna, þá verður pizza í matinn nk laugardag og hann ætlar að horfa á Söngvaborg frá 1-4 og Pippi Langströmpe. Og á sunnudag ætlar hann að fá bæði nammi og súkkulaðiköku.

Einhvers staðar uppgötvaði hann líka tonlist.is og finnur sér lög þar til að hlusta á.

Ég yrði ekki undrandi þó hann tilkynnti í næstu viku að hann væri búinn að finna sér íbúð og væri kominn með leyfi fyrir æfingarakstri.

---

Gelgjan fór í dag (sunnudag) að heimsækja Hafliða frænda sinn (sonur Önnu systur) og undi hag sínum einkar vel.

Ég hringdi um kl. 20 í hana og spurði hvort hún væri tilbúin að koma heim.

Nei, svaraði hún. Ég ætla að vera hér næstu tvo tímana.

Þá hækkaði ég röddina og fór í forráðamanns-gírinn. ANNA MAE EKKI GLÆTA. ÞAÐ ER SKÓLI Á MORGUN..

Mamma! Röddin var ískyggilega róleg og yfirveguð. Ég var að djóka.

Nú sagði ég. Er ég gjörsamlega húmorslaus þessa dagana?

Það er rétt hjá þér móðir, sagði Gelgjan.

Og móðirin er ekki bara húmorslaus heldur gjörsamlega ábyrgðarlaus. Þegar ég fór að sækja barnið, dvaldist mér svo lengi í eldhúsinu hjá systur minni við kjaftavaðal, að djókið var orðið að staðreynd.

Nú drepur pabbi þinn mig, sagði ég við dóttirina kl rúmlega tíu og rak hana í skó og út um dyrnar.

Stundum fær hún sínu framgengt, alveg óvart.

 


Áfram stelpur

 

Hvernig stendur á því að ráðamenn þjóðarinnar komast sífellt upp með að svara ekki spurningum. Eða kannski má frekar segja að það er engin röksemdarfærsla á bak við svörin.

Á meðan enginn blikkar auga við að tilkynna um 25% launahækkun forstjóra Landsspítalans þá þykja kröfur Ljósmæðra hlægilegar? Aðhlátursefni? Ég sé ekki fyrir mér að senda þurfi sjúklinga / sængurkonur heim þó forstjórann vanti í vinnu nokkra daga.

Er ekki eitthað bogið við forgangsröðunina?

Ég verð nú að segja að það fer um mig hálfgerður aulahrollur að sjá Árna og Ísólf Gylfa hlæja þarna stórkarlalega í réttunum. Áhyggjulausir og ánægðir með sig. En kannski er ég að misskilja þetta... kannski er þetta leið Árna til að fela vanmátt sinn og vangetu til að takast á við málið. Kannski er karlanginn alveg með hnút í maganum yfir þessu öllu saman og reynir að deyfa sársaukann með gúlsopa úr fleyg.

Myndbandið er að sjálfsögðu runnið undan rifjum Láru Hönnu sem er óþreytandi við að fylgja eftir málum og leggja lóð sitt á vogarskálarnar.


Framtíð frjálsræðis barna á ísalandinu

 

Bretinn hefur nú búið hér á landi í u.þ.b. tuttugu ár og við verið saman í fimmtán.

Öðru hverju hefur komið upp löngun í að flytja til Englands, og þá aðallega að minni hálfu. Þó er ég svo mikill Íslendingur ,og reyndar smáborgari, í mér að hugsunin hefur ávallt verið að prófa í skamman tíma. Gæti aldrei hugsað mér að flytja af klakanum fyrir fullt og allt.

Þessi pæling kom einna sterkust upp eftir að Sá Einhverfi greindist og ekkert gekk að fá inni á leikskóla vegna þess að enginn þroskaþjálfi fékkst. Og svo aftur eftir að hann var byrjaður í þjálfun og skall á með verkfalli hjá þroskaþjálfum. Þá fór snúllanum okkar markvisst aftur og missti niður hæfni sem hann hafði náð.

Þá fórum við að kynna okkur hvað væri í boði fyrir einhverfa í Englandi. Það er skemmst frá að segja að þar er unnið frábært starf og fullt í boði... ef þú átt skítnóg af peningum.

Eftir að hafa skoðað málið frá öllum hliðum var þrennt sem stoppaði okkur:

  • Við erum ekki millar
  • Ekki þótti ráðlagt að skipta um tungumál í þjálfun Þess Einhverfa
  • Ég gat ekki hugsað mér að ala börnin min upp í ótta. Gat ekki hugsað mér að sleppa hendinni af því frjálsræði sem við búum við hér.

 

Á bak við hús Litla rasistans í smáþorpinu á Englandi er leikvöllur. Tekur þrjátíu sekúndur að ganga þangað. Ég hleypi ekki Gelgjunni einu sinni einni þangað. Ég við frekar vera safe than sorry.

Þau eru óendanlega óhugguleg öll þessi morð sem framin hafa verið í London á ungu fólki á þessu ári. Ég hef reyndar ekki séð tölur um aukningu á samskonar glæpum en ég man ekki eftir að hafa heyrt um annan eins faraldur.

Því miður eru teikn á lofti og ég hef áhyggjur af því að komandi kynslóðir á Íslandi muni reka upp stór augu við lestur á ''Saga landsins''. Um þá tíð er börn kölluðu ''bæ ég er farin út að leika'' um leið og hurðin skelltist á eftir þeim. Og foreldrarnir svöruðu: allt í lagi elskan. Drekkutími kl. þrjú.

 


mbl.is Unglingur stunginn til bana í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrir góðir í morgunsárið

 

Pósthólfið mitt (þ.e. tölvupósturinn) var orðinn ansi mettur og ég var að hreinsa til í honum þegar ég rakst á þessa brandara. Þeir eru auðvitað hvorki frumsamdir né nýir en ansi góðir. Fínir yfir morgunkaffinu.

Good day and enjoy people.

p.s. ég held svei mér þá að þessi um Gunnu á Kalkofnsgötu sé minn uppáhalds brandari, ég get endalaust hlegið að honum.

-----

Guðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu.
„Ég er að fara til La Jolla í næstu viku," sagði Guðmundur.
„Þú átt að segja La ' Hoj-a '!" greip Tom fram í.
„Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvelja á El Cajón hótelinu."
„Þú meinar El Ca ' Hóne ' hótelinu!" leiðrétti Tom aftur.
„Úps, ég skil."
„Hvenær ferðu svo aftur til Íslands?" spurði Tom.
Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega:
„Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí."

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Tveir ljóshærðir menn leigðu saman litla íbúð. Eldur braust út í íbúðinni eina nóttina og þeir hlupu út á svalir.
„HJÁLP, HJÁLP," kallaði annar þeirra.
„Kannski hjálpaði það ef við kölluðum saman!" sagði hinn.
„Góð hugmynd," sagði sá fyrsti og þeir kölluðu í kór:
„SAMAN, SAMAN ..."

----------------------------------------------------------------------------

Gunna gamla dó og Jón, maðurinn hennar, hringdi í lögregluna.
„Hvar býrðu í bænum?" spurði lögreglumaðurinn.
„Við syðri endann á Kalkofnsgötu," sagði Jón.
„Kakkoffs ..., úps, gætirðu stafað þetta fyrir mig."
Eftir langa þögn sagði Jón: „Hvernig líst þér á að ég dragi Gunnu bara niður á Sæbraut og þið sækið hana þangað?"

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Sigfús og Geirþrúður bjuggu í huggulegri íbúðarblokk eldri borgara í Hafnarfirði. Þau urðu hissa þegar drepið var á dyr hjá þeim skömmu fyrir miðnætti eitt mánudagskvöldið. Sigfús fór til dyra og við dyrnar var stór og grimmdarlegur maður sem starði á hann. „Ó, þetta er hræðilegt. Nú verð ég rændur og missi alla peningana mína," hrópaði Sigfús og reif í hárið á sér.
„Ég er enginn ræningi," urraði maðurinn hneykslaður. „Ég er nauðgari!"
„Guði sé lof," sagði Sigfús og andaði léttar. „Þrúða mín, þetta er til þín!"

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

„Þú kemur seint," sagði dökkhærði barþjónninn við ljóshærða barþjóninn.
„Já, ekkert skrýtið, ég varð vitni að hræðilegu slysi á leiðinni. Það var eins gott að ég var búinn að fara á skyndihjálparnámskeið!"
„Hvað gerðir þú?" spurði sá dökkhærði.
„Ég settist á gangstéttina og beygði höfuðið niður á milli hnjánna til að það liði ekki yfir mig."

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Njótið dagsins í dag því hann kemur ekki aftur Heart


Fertug í freestyle

Það sem manni dettur ekki í hug og lætur hafa sig út í.

Nú hefur hún Katrín megabeib kallað saman hóp af kellum í Freestyle fyrir 20+.

Tuttuguplús-mæ-ass....

Ég rétt næ að verða fertug áður en ég stíg mín fyrstu spor um ævina í freestyle. Þetta verður eitthvað spaugilegt, er ég viss um.

Gelgjan hefur stundað freestyle dans síðustu 2 ár og staðið sig assgoti vel. Í dag var hún svo færð upp um hóp og var að vonum ánægð með það. Fær að æfa dans með stelpunum sem eru 2 árum eldri en hún.

Ég gat ekki verið minni manneskja en dóttir mín og tilkynnti henni við kvöldmatarborðið hvað stæði til.

Nú er ég að fara í freestyle Anna Mae

Hún gaut á mig augunum yfir kjötbollurnar og ég gat séð hvað hún hugsaði: Góði Guð ekki láta mömmu fara að æfa dans á sama stað og ég!

Ertu ekki að djóka mamma, sagði hún

Nei nei. Ég ætla að fara með nokkrum konum að æfa freestyle. Hvað.. er eitthvað að því, sagði ég hálfmóðguð yfir efasemdum minnar eigin dóttur á danshæfileikum móður sinnar.

Neee nei nei sagði Gelgjan en augnaráðið sem ég fékk sagði: you are not gonna make it mother.

En ég ætla að sýna henni hvers móðirin er megnug. Hver veit... kannski verðum við bara með nemendasýningu á Broadway og ég fer í splitt og allt.

 


Pabbi er ''hann''

 

Sá Einhverfi situr íhugull við tússtöfluna sem foreldrarnir gáfu honum í afmælisgjöf. Það er greinilegt að í hans huga er ekki langt í næstu stórhátíð.

Afmælinu, stærstu hátíðinni er lokið og sú næsta (ekki eins merkileg hátíð), jólin eru rétt handan við hornið. Að minnsta kosti blasir við á tússtöflunni, fagurgrænt jólatré með kúlum á hverri grein. Við hliðina á tréinu stendur rauður pakki með hvítum borða og undir borðann hefur verið stungið til-og-frá korti. Þessi pakki er greinilega merktur stuttu og laggóðu nafni: IAN.

Það er gott að hafa eitthvað að hlakka til.

Í síðustu viku fékk drengurinn það verkefni í skólanum að flokka orð eftir því hvort þau væru kvenkyns eða karlkyns.

Á borðið hans voru sett lítil plastlíkön. Annað af karli og hitt af konu. Við konuna var settur miði sem á stóð ''mamma'' og við karlinn var miði sem á stóð ''pabbi''. Gert til að auðvelda honum að skilja muninn á karlkyni og kvenkyni.

Svo var honum afhent karfa með tuttugu miðum í. Á hverjum miða var eitt orð og átti hann að raða karlkynsorðum undir ''pabbann'' og kvenkynsorðum undir ''mömmuna''.

Þegar Halldís kennari setti sig í stellingar og ætlaði að fara að útskýra þetta glænýja verkefni fyrir Þeim Einhverfa sagði hann, sennilega með nokkrum þjósti; ''gera sjálfur''.

Hún ákvað að láta hann eiga sig um stund og fór að sinna hinum krökkunum. Þegar hún kom til hans nokkru seinna, var öllum 20 orðunum raðað á réttan stað.

Þrátt fyrir að líkurnar á að öll orðin hefðu ratað á réttan stað fyrir tilviljun, væru auðvitað hverfandi, var verkefnið lagt fyrir hann aftur tveimur dögum seinna. Niðurstaðan breyttist ekki neitt.

Við erum öll gapandi. Höfum enga hugmynd um hvaðan hans vitneskja um skilgreiningu á ''hann'' og ''hún'' kemur.

En hann ræður ekki eins vel við þetta munnlega. Ekki enn. Enda er hans sterka hlið allt sem er sjónrænt.

Daginn sem komst upp um þessa snilligáfu hans, prófaði ég hann í þessu munnlega hér heima.

Hvað er pabbi? pabbi er hann. Hvað er mamma. Mamma er hún o.sfrv.

Hann nennti þessu ómögulega og tilkynnti mér skyndilega að klukkan væri níu. Sem hún var. Og það var ný ástæða til að fagna, því þó ég hafi vitað að hann væri að læra heila og hálfa tímann í skólanum, hefur það ekki virst yfirfærast á aðrar aðstæður en mynd af klukku á blaði.

Veiiiiii Ian komdu og sýndu pabbi hvað þú ert duglegur á klukku, hrópaði ég upp yfir mig. Alveg að fara á límingunum auðvitað yfir þessu gáfnaljósi sem ég á.

Krakkinn skundaði heldur pirraður upp að Bretanum og setti sig í stellingar. Benti á armbandsúrið sitt og sagði: klukkan er níu, pabbi er hann.

Svo var hann rokinn. Tók engan séns á því að vera kaffærður í fagnaðalátum eða að fá yfir sig aðra hrinu af verkefnum.

 

 


Góð starfsmannastefna

Þegar ég stofna eigið fyrirtæki þá mun þetta vera stefnan á þeim vinnustað.

 

Starfsmannafatnaður:

Það er ætlast til þess að þú komir klædd/ur í vinnuna þína í samræmi við launatekjur þínar.

Ef þú mætir klædd/ur í 40 þúsund króna Prada strigaskóm eða er með 80 þúsund króna Gucci handtösku, gerum við ráð fyrir að þú sért á nógu góðum launum og þurfir alls enga launahækkun.

Ef þú kemur fátæklega klædd/ur biðjum við þig að fara betur með peningana þína, svo þú getur keypt þér betri/fallegri föt. Ef þú aftur á móti ert einhvers staðar þarna á milli ert þú sennilega á réttum stað og þarft enga launahækkun.

Veikindadagar:

Við tökum ekki á móti læknisvottorðum. Ef þú getur farið til læknis og fengið hjá honum vottorð, geturðu alveg eins mætt í vinnu.

Aðgerð:

Uppskurðir/aðgerðir eru bannaðar. Svo lengi sem þú ert starfsmaður hérna, þarftu á öllum þínum líffærum að halda. Og ættir þess vegna alls ekki að láta fjarlægja neitt. Þú varst ráðinn með öll líffæri og ef það breytist á einhvern hátt er það brot á ráðningasamningi þínum.

Persónulegt leyfi fyrir utan orlof

Hvern launþegi fær 104 daga á ári til að sinna einkaerindum. Þeir dagar eru kallaðir laugardagar og sunnudagar.

Orlofsdagar:

Allir starfsmenn eiga að taka orlofsdagana síma á sama tíma á hverju ári. Þeir dagar eru

24 desember (e.hádegi)25 desember, 26 desember, 31 desember (e.hádegi) 1 janúar, skírdagur, föstudagurinn langi, annar í páskum, og frídagur verslunarmanna. Og eftirtaldir dagar ef þeir bera upp á virkan dag. 1 maí og 17 júní.

Fjarvera vegna jarðarfara:

Það er ekki til nein afsökun fyrir því ef þú mætir ekki í vinnu. Það er ekkert sem þú getur heldur gert fyrir látna vini, ættingja eða samstarfsfólk. Reyna ætti af öllum mætti að láta aðra sjá um og mæta í jarðaför viðkomandi. Í sérstökum undantekningar tilvikum þar sem starfsmaður verður að mæta, skal jarðaförin tímasett seinnipart dags. Okkur er sönn ánægja að leyfa viðkomandi starfsmanni að vinna matartímann sinn upp í þær stundir sem hann yrði væntanlega fjarverandi.

Fjarvera vegna eigin dauða:

Þetta er líklega eina fjarveran sem við tökum til greina. Samt sem áður er ætlast til þess að starfsmaður gefi okkur alla vega tveggja vikna fyrirvara svo hægt sé að aðlaga og taka nýjan starfskraft inn í þitt starf.

W.C ferðir:

Allt of mikill tími fer í salernisferðir hjá starfsmönnum. Í framtíðinni verður þannig hátturinn á að að nota stafrófið sem hjálpartæki. T.d nöfn sem byrja á "A" eiga að nota salernið frá 08:00-08:20, nöfn sem byrja á "B" frá 08:20-08:40 og svo frv. Ef svo óheppilega vill til að þú eihverra hluta vegna kemst ekki á salernið á umsömdum tíma verður þú að bíða næsta dag. Í algjörum neyðartilfellum, mega starfsmenn þó skipta út sínum tíma . Þá verður það að vera skriflegt og undirskrifað af ykkar verkstjórum.

Hámarkstími eru 3 mín, og ef þú ferð yfir þann tíma mun hringing fara í gang, klósettrúllan rúllast upp til baka, dyrnar verða opnaðar og af þér verður tekin mynd. Hún verður síðan sett upp á auglýsingatöflu öðrum til varnaðar.

Hádegisverðarhlé:

Mjög grannt fólk fá 30 mínútna hádegisverðarhlé, þar sem það verður að borða meira og líta betur út. Fólk í kjörþyngd fær 15 mínútna hádegisverðarhlé, og fær tækifæri á að borða sinn mat til að viðhalda góðri líkamsþynd. Feitt fólk fær 5 mínútna hádegisverðarhlé, sem er fullnægur tími til að drekka Herbalife og taka inn megrunartöfluna sína.

Svo þökkum við ykkur fyrir tryggð við stofnunina. Við erum til staðar og reynum að skapa skemmtilegan og jákvæðan starfsmanna – móral. Þess vegna óskum við eftir því að allar spurningar, athugasemdir, áhyggjur, kvartanir, ásakanir, illska og leiðindi verði beint eitthvað annað.

 


Nokkur atriði um mig

Ég var klukkuð af meyju og Elísabetu og skorast ekki undan því. Enda fátt sem mér þykir skemmtilegra en að tala um sjálfa mig.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

  • Í Miklagarði sáluga. Þar steig ég mín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Á sérstaklega góðar og skemmtilega minningar um þann stað og vinnufélagana.
  • Á smáauglýsingadeild DV. Þegar smáauglýsingar voru smáauglýsingar og við rúluðum á markaðnum. Þegar Leoncie var upp á sitt besta og átti keppinaut sem hét Bonnie (eða var það Bonny?). Þegar bannað var að auglýsa eftir ríkum manni í einkamálaauglýsingunum en ''fjárhagslega sjálfstæður maður'' var í lagi.
  • Á Aðalstöðinni þegar bræðurnir Þormóður og Baldvin Jónssynir réðu þar ríkjum og gamla húsið í Aðalstrætinu var mitt annað heimili og ég þekkti hvern krók og kima og vissi hvar ég mátti ekki stíga á gólfið því þá færi ég niður úr því.
  • Á auglýsingadeild Bylgjunnar og Stöðvar 2 þegar fyrirtækið óð í peningum og trítaði starfsfólkið sitt

 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á  (Erfitt að velja 4)

  • Full Monty (og margar aðrar svona litlar, sætar, breskar bíómyndir)

  • Something gotta give (þú veeeerður að sjá þessa)

  • Four weddings and a funeral

  • As good as is gets

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á

  • Raufarhöfn

  • Seyðisfjörður

  • Hönefoss Ringerike, Norge

  • Reykjavík (amma og afi komu mér út úr krummaskuðunum)

  •  

  • Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar

  • Friends (ójá, þeir eru ekki dauðir enn)

  • House (hann er svo yndislega andfélagslegur)

  • So you think you can dance (mér finnst bara svo gaman að horfa á fallega líkama hreyfa sig á svo þokkafullan hátt. Kannski vegna þess að þetta hefur mig alltaf langað til að geta þetta sjálf)

  • King of Queens (finn til svo mikillar samkenndar með Carrie þegar henni langar að lúskra á kallinum)

  • Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum

    • Spánn
    • England 
    • Danmörk
    • Sauðárkrókur

  Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg

  • mbl.is
  • simaskra.is
  • landsbankinn.is - gengi
  • og fjöldinn allur af cargo tracking síðum: dhl, ups, Lufthansa, Transborder....

Fernt sem ég held uppá matarkyns

  • Kjúklingur (endalaust hægt að éta kjúlla)
  • Fiskur fiskur fiskur
  • Spari Indverskur a la Bretinn
  • Lasagne a la Ellisif (sem mér tekst bara þokkalega að búa til sjálf og er uppáhalds matur Þess Einhverfa)
  • Og ég verð að bæta við: grilluð pizza a la Ásta Birna (gleymi þessari aldrei) og rjúpur a la Anna frænka með sósu a la Arnór.... OMG ég var búin að gleyma blómkálssúpunni hans Bigga hennar Önnu systur....

 

  Fjórar bækur sem ég hef lesið oft

ég er ekki stolt af því en einu bækurnar sem ég hef lesið margoft eru eftir Bodil Forsberg, Barböru Cartland og Else Marie-Nohr (ég trúi því ekki að ég muni þessi nöfn) og þetta var þegar ég var á aldrinum 9-12 ára

  • og svo bækur sem ég las fyrir Gelgjuna hérna í denn

Fjórir bloggarar sem ég klukka  

Jenfo því ég veit hún hatar svona leiki en elskar mig svo mikið að hún fyrirgefur mér

Ívar því  hann er ekki nógu duglegur að blogga um sjálfan sig og er held ég alveg búinn að gleyma rithöfundarhæfileikum sínum. 

Gunnar Svíafari því ég hef áhuga á því að vita hvað hann gerir á milli þess sem hann hjálpar mér með tæknileg atriði á blogginu og hannar toppmyndir á síðuna mína

Högni því hann er alltaf svo góður við mig


Velkomin aftur Britney

 

Ég hef ekki séð myndbandið hennar Britney litlu og hef ekki hugmynd um hvað/hvern hún var að keppa við.

En það kemur mér sjálfri á óvart hvað ég gleðst yfir því að sjá þessa ungu, fallegu konu rísa upp úr eymdinni. Ég vona innilega að þetta sé raunsönn mynd sem við sjáum hér. Að henni líði virkilega betur og komi til með að fá fullan bata. Og það sem er fyrir mestu, börnin hennar fá mömmu sína aftur.

Persónulega tel ég að aumingja stelpan hafi átt við geðræn vandamál að stríða síðustu ár.

Það getur vel verið að ég sé óþarflega sentimental yfir gjörókunnugri stúlku en hún hefur, í sannleika sagt, átt alla mína samúð á þessu slæma tímabili. Ég tel það mikið ábyrgðaratriði af foreldrum að hleypa afkvæmi sínu sem ekki er af barnsaldri út í þennan bransa. Það hefur sjaldnast endað vel.

Sjáið bara öll dæmin...

 


mbl.is Britney kom, sá og sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur með bókina?

Það er afmælisdagur að kveldi kominn. Sá Einhverfi varð 10 ára í dag og flottari en nokkru sinni fyrr. Hann hefur aldrei kært sig um að láta syngja afmælissönginn fyrir sig en í dag átti hann skyndilega til orð yfir þetta gól í okkur.

Hann svaf hjá Fríðu Brussubínu og co á laugardagskvöldið þar sem við Bretinn voru í brúðkaupi langt fram eftir nóttu. Og talandi um það brúðkaup... fallegasta og skemmtilegasta kirkjubrúðkaup sem ég hef verið viðstödd. En jafnframt það erfiðasta. Við sátum þrjár í röð með tissjú í henglum og á vissum tímapunkti bað ég til guðs að þetta tæki enda því mér var orðið svo illt í hálsinum af því að halda aftur af grátinum.

En sem sagt, Sá Einhverfi vaknaði upp hjá stuðningsfjölskyldunni sem hóf daginn snemma á uppáhaldi drengsins, þ.e. skúffuköku sem hinn bakstursglaði Valur stuðningsbróðir bakaði. Og að sjálfsögðu var sunginn afmælissöngurinn. Eða gerð tilraun til þess. En í stað þess að bara fela andlitið í höndum sér eins og hann hefur gert síðustu ár þá æpti hann upp: Nei nei hættið þessu væli það er komið nóg.

Eins og gefur að skilja varð þetta aðalbrandarinn í dag og gerð tilraun til afmælissöngs hvað eftir annað. En Sá Einhverfi hafði ekki minna gaman að þessu en við hin, og hló eins og brjálæðingur. En afmælissöngurinn var aldrei sunginn til enda nema í kvöld þegar afmæliskakan með kertunum var borinn fram. Með alla gestina í kringum sig var Sá Einhverfi kurteis og lét sér nægja að fela andlitið í höndum sér á meðan hann hlustaði á ''vælið''.

---

Ég hef á tilfinningunni að það sé algengur misskilningur að ég sé að fara að gefa út skáldsögu. Sú er nú ekki raunin (hún kemur á næsta ári hehe). Bókin sem kemur út í næsta mánuði að öllum líkindum, er byggð á blogginu. Bæði áður birt og óbirt efni verður í bókinni.

En ég held ég geti fullyrt að jafnvel þeir sem hafa lesið bloggið mitt frá upphafi muni hafa gaman af (þ.e. ef þið hafið gaman af blogginu á annað borð).

Ég þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar, hlýhuginn og stuðninginn varðandi þessa frumraun mína í bókaútgáfu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1640384

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband