Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Er skammast rétta orðið?

Elska þetta komment sem ég fékk við síðustu færslu:

Væri til í svona bol eða peysu sem stæði á "Ekki tala við mig, ég er einhverfur og þoli þig ekki"

Myndi alltaf setja minn í peysuna í þau fáu skipti sem hann fær að fara með mér í búðir :=)

Minn öskrar á ókunnuga sem yrða á hann nefnilega, svo fær mamman svona svip frá viðkomandi .... þú veist hvernig svip !!!!

Sif... (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 01:53

 

Takk Sif. Veit að þetta getur ekki verið gaman fyrir þig, en ég grét úr hlátri við lesturinn. Já, ég veit hvernig svip þú ert að meina. hehe.

Einhverju sinni hélt Sá Einhverfi uppi stuðinu í biðröð á pizzastað. Það eina sem ég gat gert var að vona að hann héldi leikatriðunum sínum lágstemmdum. Fólk átti erfitt með að láta vera að stara á okkur. Fyrst þetta augnaráð á drengnum... og svo færist það hægt og bítandi yfir til mín. Breytist úr undrun og vantrú í rannsakandi. Verið að kanna mín viðbrögð. Athuga hvort ég sé kannski jafn skrýtin og barnið.

Þetta er alltaf bráðfyndið eftir á en ansi nail biting á meðan á því stendur.

Þýðir það að maður skammist sín? Ég skammast mín ef ég skammast mín fyrir krakkann. Ég sem er alltaf að predika að við þurfum ekki öll að vera eins. Sennilega væri nær lagi að segja að við vissar kringumstæður fari ég hjá mér. Og það þýðir auðvitað að ég láti á mig fá hvað aðrir hugsa.

Annars er fátt yndislegra en einlægni barna. Og einlægni þeirra getur stundum komið manni í bobba.

Komma so... deila sögum um illa uppöldu börnin ykkar sem urðu ykkur til skammar á einhverjum tímapunkti í lífinu.

 

 


I'm autistic. What's your excuse?

 

Þið eruð nú meiri krúttlingarnir, öll sömul. Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar út af Tinnu. Það var líka svo gaman að fá sögur af kisunum ykkar.

Tinna verður brennd. Við fáum svo öskuna og ætlum að jarða hana í garðinum hjá okkur. Það er huggun harmi gegn. Gelgjan var harðákveðin í að fá að sjá Tinnu áður en hún yrði brennd og Bretinn fór því með dóttluna sína upp á Dýraspítala í dag.

Ég var við öllu búin þegar þau komu til baka, en Gelgjan virkaði sáttari. Þess utan fékk hún hálsólina hennar Tinnu og ber hana nú sem ökklaband. Aftur heyrist því í 3 bjöllum á hlaupum um húsið... þ.e. Gelgjunnar og svo Elvíru og Gríms.

Anna Ólafs, þessi elska, sendi mér helling af myndum í dag af Tinnu og kettlingunum, í tölvupósti. Myndirnar tók hún síðasta sumar, þegar hún kíkti hér í kaffi. Takk Anna, þær eru alveg hreint yndislegar.

Sá Einhverfi leikur við hvern sinn fingur þessa dagana og virðist hreinlega vera að springa af kátínu. Sennilega finnur hann sjálfur hvað það er sniðugt að tala og tjá sig. Gerir allt svo einfaldara.

Læt fylgja hér mynd af honum sem ég tók í síðustu viku. Hann er svo sætur í bláu krakkinn.

Það má segja að ég hafi skemmt mér vel þegar ég skoðaði myndina eftir á og sá hvaða partur af textanum á bolnum birtist á myndinni... en ég er nú líka svo biluð. En ég tek fram að ég keypti ekki þennan bol vegna þess að það stendur ''Weird'' á honum. Reyndar stendur ''weird blue beetle''

 

ian w 

 

 

 

 

en það eru til bolir eins og til dæmis þessi hérna sem mér finnast assgoti góðir:

t shirt

 

 

 

 

 

Annars fékk ég einhvern tíma sendar upplýsingar um vefsíðu, þar sem hægt er að panta alls konar svona krúttlega boli, með einhverjum texta á í sambandi við einhverfu. Ég man ekki hver sendi mér þessar upplýsingar og auglýsi hér með eftir þeim.


Tinna er öll

 

Hún Tinna, litla pervisna læðan okkar, er dáin. Hún varð ekki nema tveggja ára.

Fyrir tveimur árum bjargaði Kári frændi pínulitlum kettlingi frá drukknun. Sennilega hefur einhver ætlað að losa sig við hann því Kári veiddi hana upp úr vatni einhvers staðar norður í landi.

Ég féll í stafi þegar ég sá kisuna. Augun voru risastór í litla andlitinu og ég ættleiddi hana á punktinum. Gelgjan valdi henni nafnið Tinna.

Tinna hélt alla tíð grönnum vextinum þrátt fyrir að ala af sér 3 kettlinga. Af þeim búa tveir hér enn, og þeir óxu mömmu sinni yfir höfuð strax á fyrstu mánuðunum. Síðan hafa þeir lítið gert annað en að fitna og voru undir það síðasta eins og ljón við hlið móður sinnar.

Tinna er blíðasti köttur sem ég hef kynnst og hef ég þekkt þá nokkra. Hún var óspör á þvott... snyrti kettlingana, jafnt sem aðra fjölskyldumeðlimi. Þar á meðal Vidda vitleysing. Oft lágu þau tvö saman sofandi á mottunni hér í holinu. Tinna á milli framlappanna á Vidda, eða þá að hún hvíldi höfuðið á öðru læri hans.

Á hverju kvöldi, þegar við Bretinn gerðum okkur líkleg til að fara upp á loft og leggjast til svefns, hljóp hún inn í svefnherbergi og beið eftir okkur. Það voru svo fastir liðir að hún skreið undir sæng hjá mér í svolitla stund áður en hún fann sér svo svefnstað ofan á sæng Bretans þannig að þau ''spúnuðu''. Yfir nóttina flakkaði hún svo á milli herbergja og endaði yfirleitt til fóta hjá Gelgjunni.

Enginn annar köttur hefur nokkru sinni þolað Þeim Einhverfa að strjúka sér aftur á bak og áfram og til beggja hliða með þéttum og oft á tíðum óvarlegum handtökum.

Bara að sitja hér við tölvuna og skrifa þessi orð fær mig til að sakna hennar sárt. Hún var vön að koma og kíkja á skjáinn hjá mér. Trufla mig við skrifin með því að bora litla höfðina í lófann á mér og heimta gælur. Svo sleikti hún á mér hendina til að sýna að henni þætti vænt um mig.

Um síðustu helgi fórum við að sakna Tinnu og spyrja krakkana hvort þau hefðu orðið vör við hana. En ekkert bólaði á Tinnu. Í dag fékk Bretinn símtal frá Kattholti, sem lét vita að litli kroppurinn lægi lífvana á Dýraspítalanum í Víðidal. Það var keyrt á hana. Einhver góðhjörtuð sál tók hana upp úr götunni og kom henni í réttar hendur. Ef sá aðili mögulega les þetta, vil ég þakka honum innilega fyrir.

Mörgum er illa við ketti. Vegna fuglalífsins skil ég það. Margir geta ómögulega skilið að hægt sé að taka ástfóstri við þessi dýr. Auðvitað erum við ekki öll eins. En þessari fjölskyldu þótti innilega vænt um Tinnu sína.

Gelgjan er búin að eiga sérstaklega bágt í kvöld. Ég fór inn til hennar þar sem hún hafði lokað sig af og settist á rúmstokkinn. Sagði fátt, enda lítið hægt að segja.

Hún horfði á mig rannsakandi í svolitla stund og sagði svo: Er þetta erfitt fyrir þig?

Ég kinkaði kolli.

Afhverju gráta fullorðnir aldrei? spurði hún

Ég er búin að gráta, svaraði ég.

Hún vildi vita hvenær. Eins og hún þyrfti fullvissu um að Tinnu yrði saknað. Að þetta skipti máli fyrir okkur öll.

Ég sagði Þeim Einhverfa frá þessu. Vissi samt að hann myndi ekki skilja það.

Ég kallaði á hann þar sem ég sat í eldhúsinu og tók í hendina á honum. Tinna... byrjaði ég.

Tinna, sagði hann og leit í kringum sig.

Tinna kemur ekki heim aftur Ian.

Ekki heim, endurtók hann

Tinna er dáin.

Dáin, sagði Sá Einhverfi með áherslu og sleit sig lausan. Svo náði hann sér í tússpenna til að merkja við á dagatalið. Setti kross yfir mánudaginn. Enda sá dagur að renna sitt skeið. Eins og líf Tinnu.

Ég brosti út í annað og horfði á afturenda kettlinganna risavöxnu, þar sem þeir stóðu við matardallana sína og hökkuðu í sig matinn eins og þetta væri síðasta kvöldmáltíðin. Algjörlega áhyggjulausir... eins og ekkert hafi í skorist.

Ég velti því fyrir mér hvort þeir muni sakna hennar eins og við gerum.

Tinna og Khoska

 

 

Tinna með einn af kettlingunum sínum

 


Ekki heppileg fyrirmynd

Eitt kvöldið við matarborðið tók Sá Einhverfi upp á því að grípa með báðum höndum utan um hálsinn á sér, eins og kyrkingartaki og hrista sig. Það kurraði í honum og hann gaf frá sér eitthvað sem líktist köfnunarhljóði.

Okkur Bretanum stóð ekki á sama þó að uppátæki krakkans kæmu okkur til að hlæja eins og svo oft áður. Ég stoppaði hann af og hann hló hátt að eigin fyndni.

En næst þegar ég leit á hann, lá hann fram á matarborðið og hvíldi hægri vanginn á matardisknum.

Hvað ERTU að gera Ian?, sagði ég furðu lostin. Velti því fyrir mér hvort krakkinn væri svona þreyttur.

Hann leit upp og glotti. Hrúga af hrísgrjónum skreyttu á honum kinnina og hann var bara ánægður með það.

Eins og stráksi getur nú hagað sér furðulega þá erum við farin að sjá að allt sem hann gerir á sér fyrirmynd eða tilgang.

Eftir matinn sátu krakkarnir og horfðu á Simpson á DVD og þar sáum við á atriði Þess Einhverfa endurtekið. Homer grípur báðum höndum um háls Barts í æðiskasti. Það verður til þess  að hálsinn á Bart lengist og mjókkar þar til hann verður  eins  og gúmmíslanga. Þá heldur aumingja Bart ekki höfði lengur og skellur á andlitið ofan í matinn sinn.

Ég er viss um að fátt myndi gleðja Þann Einhverfa meira, en ef Bretinn fengist til að taka hann hálstaki og segja grimmdarlega: You little...... eins og Homer gerir. Þá þyrfti guttinn ekki að vera með solo atriði, heldur gæti leikið þetta almennilega.

Simpson fjölskyldan er ekki heppileg fyrirmynd.

Stundum erum við fangar eigin kerfis

 

Þarf aumingja konan virkilega að ganga í gegnum þetta?

Faðir hennar framdi hræðilega glæpi, hann hefur játað. Skiptir þetta máli. Má ekki bara loka helvítis karlfauskinn inni og henda lyklinum. Og einbeita sér að því að hjálpa fjölskyldunni. Gefa henni von um að geta einhvern tíma átt vísi að ''venjulegu'' lífi.

Því miður bitnar kerfið á þeim sem síst skyldi.

Með lögum skal land byggja og allt það. Auðvitað. En stundum væri svo gott að geta farið fram hjá þessu öllu saman, þegar það væri fórnarlömbum fyrir bestu.

En svona er þetta víst.


mbl.is Dóttir Josef Fritzl yfirheyrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískuvitund Þess Einhverfa

 

Ég held ég hafi fengið að upplifa það í dag að sjá tískuvitund Þess Einhverfa fæðast.

Í morgun neitaði hann að fara í buxur sem ég bauð honum. Buxur sem hann hefur átt lengi og margoft notað.

Þetta var ekki þetta týpíska reiða og æsta NEI, heldur róleg og yfirveguð höfnun á flíkinni. Ég stóð hugsi svolitla stund en ákvað að sjá hvert þetta leiddi okkur og náði í aðrar buxur. Hann fór í þær þegjandi og hljóðalaust.

Seinnipartinn ákvað ég að setja í þvottavél og þar sem hæfileikar mínir sem húsmóður liggja einmitt í þvottahúsinu þá var ekki miklum óhreinum þvotti fyrir að fara. Sá Einhverfi var í polobol sem ég festi kaup á í GAP í UK og ég vildi henda honum í vélina, sem var ekki meira en hálf.

Ég keypti bolinn algjörlega upp á von og óvon, því eins og allir vita eru polobolir með kraga og tölum. Það hefur ekki fallið í kramið hjá Þeim Einhverfa hingað til. Ó nei. Einfaldir bolir er það eina sem hefur verið samþykkt. Og hverskyns langermabolir koma ekki til greina.

En polobolurinn varð algjört hit og er nú uppáhalds.

Og nú neitaði Sá Einhverfi að fara úr honum svo ég gæti þvegið hann. 

Ef þú ætlar að fara í þessum bol í Vesturhlíð á morgun, sagði ég, þá verðurðu að leyfa mér að setja hann í þvottavélina núna.

Mér til mikillar gleði fór hann úr bolnum. Hvort það var gagngert til að geta mætt hipp og kúl í Vesturhlíð í fyrramálið, veit ég ekki. En það gæti allt eins verið, hann kemur sífellt á óvart, gormurinn minn.

Og mér datt í hug að bjóða honum stutterma skyrtu af Bretanum. Og í skyrtuna fór hann. Ég hef ALDREI fengið að klæða hann í skyrtu. ALDREI.

Á meðan ég setti í þvottavél fór hann úr skyrtunni, fann sér stuttermabol, klæddi sig í hann og fór í skyrtuna utan yfir. Fannst greinilega vanta eitthvað upp á stílinn.

Gelgjan hoppaði upp og niður af kæti, rauk svo upp á loft og kom aftur niður með bindi. Mér var allri lokið þegar við fengum að setja bindi á krakkann og hann skoðaði sig rogginn í spegli.

Bindið fékk reyndar ekki að sitja lengi á sínum stað, en hann pældi allavega í þessu. Gaf því séns.

Það var með herkjum að ég náði honum úr skyrtunni eftir að hann var kominn upp í rúm. Nú er bara að sjá hvort hann velur  í fyrramálið: skyrtuna af Bretanum eða polobolinn.

 


Gin og tónik, Söngvaborg og kónguló

Ég vaknaði mun betur upplögð í morgun og það bestnaði bara þegar leið á daginn. Sennilega er það vegna þess að þið eruð bestust. Ég hef legið í kasti yfir sumum sögunum sem þið skelltuð inn í kommentakerfið hjá mér. Takk kærlega fyrir mig.

Núna sit ég hér með rótsterkan gin og tónik sem Bretinn blandaði ofan í mig. Ég held að hann vonist til þess að ég drepist fyrir matinn. Hann ætlar að grilla borgara ofan í okkur og fær náttúrlega fleiri ef ég verð ekki hæf til borðhalds.

Sá Einhverfi situr / stendur fyrir framan sjónvarpið og Söngvaborg (allar útgáfur) endurómar hér veggja á milli.

Hann syngur hástöfum með og það er svoooo skemmtilegt að hlusta og horfa á. Þessar DVD myndir hafa fylgt okkur í mörg ár og það er svo greinileg framför hjá orminum. Bæði hvað varðar framburð á texta og svo tóneyrað hans. Sumt er auðvitað út úr kú og er svakalega krúttlegt.

Annað sem gleður er að hann horfir beint á okkur og syngur hátt og vandar sig. Hann VILL fá komment á sönginn sinn. Er að sýna sig.

Í gær stóð hann upp á svölum og virti fyrir sér risastóran kóngulóarvef með einni feitri hangandi í honum miðjum. Leit svo á mig og sagði hátt og skýrt: SJÁÐU

Einhvers staðar stendur að einhverfir leiti ekki eftir viðurkenningu og deili hvorki upplifun né hlutum með öðrum. Hann afsannar hverja ''regluna'' á fætur annarri þessi gaur.

 


Neyðarlegar sögur af öðrum

 

Þið eruð inspiration með allar sögurnar í athugasemdarkerfinu við færsluna hér á undan.

Mér detta í hug tvær sögur. Þetta eru sögur frá Ellisif vinkonu. Vona að ég fari rétt með þetta, það eru fjölda mörg ár síðan.

Ellisif var að vinna í skóbúð ofarlega á Laugaveginum og hitti auðvitað alls konar fólk. Einu sinni voru þau með lauka sem skreytingar í útstillingargluggunum. Inn ráfaði gamall maður og vildi fá upplýsingar um laukinn.

Gamli maðurinn: (lesist með tannlausri röddu): hvað kostar kílóið af lauk hjá þér?

Ellisif (ung, saklaus (hmmm) og yfirmáta elskuleg): Þetta er nú bara svona gluggaskeyting hjá okkur.

Gamli maðurinn (reiðilegur með tannlausa munninn sinn): Hvaða andskotans vitleysa er þetta eiginlega.

Svo var hann farinn, hristandi hausinn yfir ruglinu í nútímanum. Laukur í glugga í skóbúð! Ekki nema það þó.

-----

Svo var það huggulega konan sem kom inn í skóbúðina og ráfaði á milli rekka og virti fyrir sér úrvalið.

Ellisif fylgdist með henni og þegar konugreyið sneri í hana baki sá Ellisif að eitthvað hékk aftan á henni frá mitti og niður á miðja kálfa. Engu líkara var en konan væri með skott.

Við nánanri eftirgrennslan sá Ellisif að þetta voru nælonsokkabuxur. Hún átti í innri baráttu. Hvernig átti hún að koma orðum að því við konuna að hún væri með dinglandi sokkabuxur utan á sér? kannski var konan eitthvað undarleg og hafði valið þetta outfitt af kostgæfni. En á hinn bóginn var líklegra að konan væri jafn eðlileg og hún leit út fyrir að vera og kærði sig lítt um að ganga Laugaveginn í þessari múnderingu.

Unga Ellisif tók þá ákvörðun að vekja athygli konunnar á þessu.

Heyrðu fyrirgefðu, sagði hún feimnislega. Þú ert með sokkabuxur aftan á þér.

Ha sagði konan og var eðlilega ekki alveg með á nótunum. En þegar hun sá hvers kyns var rak hún upp óp. Jesús minn, þær hafa hangið einhvern veginn fastar á buxunum mínum þegar ég fór í þær í morgun.

Svo þakkaði hún öllum góðum vættum fyrir að hafa komið á bílnum sínum og meira að segja fengið stæði nokkuð nálægt búðinni. Ekki nema örfáir metrar sem hún hafði spásserað um með nælonsokkabuxur aftan á rassinum.

----

Einnig man ég eftir sögum af ömmu, gamallar skólasystur minnar og vinkonu.

Ömmu hennar var einkar lagið að lenda í neyðarlegum atvikum.

Eitt sinn var hún í leikhúsi og sveif á konu sem hún kannaðist svo ofboðslega vel við. Kom henni þó ekki alveg fyrir sig.

Komdu sæl og blessuð sagði hún hjartanlega og hristi hönd konunnar upp og niður. Konan var víst nokkuð stíf og tók ekki undir þessa kumpánlegu kveðju.

Þetta var þá forsetafrú Íslands (eiginkona Kristjáns Eldjárns) sem var þarna stödd ásamt manni sínum og þær þekktust ekki baun.

Þessi sama amma var líka eitt sinn stödd í biðröð við búðarkassa þegar var bankað í bakið á henni. Einhver góðviljaður vildi benda henni á að það stóð herðatré upp úr hálsmálinu hennar. Henni hafði greinilega legið mikið á að komast í kápuna og láðst að fjarlægja herðatréið.


One of these days...

 

Í dag er ég bæði andlaus og leiðinleg. Og það er svo slæmt að ég þjáist í eigin návist. Ég ætla því ekki að bjóða fleirum en nauðsynlega þurfa að þola, upp á félagsskapinn þann.

Treysti því að þegar Bretinn kemur heim frá golfslætti að hann komi með eitt af gullkornunum sínum og eitt gott hláturskast frelsi mig. Ef það bregst þá treysti ég á að svefninn bæti ástandið.

Þið gætuð líka kætt mig með neyðarlegum sögum af ykkur (eða einhverjum sem þið þekkið). Kommaso. Skemmtið mér á mínu bloggi. Er það ekki þannig sem þetta gengur fyrir sig?

 


Nartpúkinn drepinn fyrir fullt og allt?

 

Jóhanna spurði mig í athugasemdakerfinu hvernig gengi í 40 ára afmælis-átakinu. Jóhanna mín, það vill svo skemmtilega til að ég get sagt að það gengur glimrandi vel. Takk fyrir að spyrja.

Ég ákvað að ég ætlaði að prófa nýtt system varðandi ræktina. Í þessum sífelldu átökum þá ætlar maður alltaf að láta allt gerast á svo skömmum tíma. Kannist þið við það?

Nú ákvað ég að snúa við blaðinu og í stað þess að ætla að mæta lágmark 5x í viku í ræktina þá er bannað að fara oftar en þrisvar sinnum. Í hádeginu skal ég fara, þrisvar í viku. Hvorki sjaldnar né oftar. Taka þetta á skynseminni í stað þess að ætla að gleypa heiminn í einum munnbita. Breyttur lífsstíll. Það er það sem ég leita að eins og svo margur annar.

Svo er annað sem  ég ætla að segja ykkur betur frá seinna. Þegar það er komin meiri reynsla á það.

 Ég er ekki trúuð á töfralausnir. Hvort sem um er að ræða krem sem á að fjarlægja allar hrukkur úr andlitinu á mér, gel sem á að má út öll merki um appelsínuhúð, bumbubana, töflur sem brenna af mér allri fitu... skiptir ekki máli hvað það er, ég er tortryggin.

En ég ákvað að prófa svolítið um daginn og það virðist vera að svínvirka.

Málið er að ég er nartari. Ég þarf sífellt að vera að narta. Þar erum ég og Sá Einhverfi að skilja hvort annað. Leitandi endalaust í eldhússkápunum að einhverju til að tyggja. Ég virðist aldrei fá nóg. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er ekkert að spriiiinga úr spiki. En með þessu áframhaldi kemur að því að ég spring út eins og sjóðandi heit maísbaun.

En í heila viku hef ég ekki haft minnstu löngun í sætindi og nartþörfin er horfin. Ég meira að segja borða minna á matmálstímum. Allt saman áreynslulaust.

Ég ætla að gefa þessu aðeins lengri tíma og sjá hvort kraftaverkið endist. Því í mínum huga er það kraftaverk ef ég hef fundið lausnina á mínu sífellda narti.

-------

Varðandi bókina þá er ég loks komin með ritstjóra og nú fara hlutirnir að gerast. Vonandi á það dæmi allt saman eftir að ganga upp. Bókin verður blanda af efni sem þegar hefur birst hér á blogginu og nýju efni. Ég er byrjuð að skrifa nýtt efni og það ætlar að reynast mér mun auðveldara en ég hélt. En það þýðir líka að ég mun ekki verða jafn aktív hér á blogginu. Þið megið samt ekki gleyma mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1640567

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband