Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Fimm gelgjur í einum bíl?

 

5 kvenkyns gelgjur gista hér í nótt. Það er búið að vera mikið fjör og eftir eltingarleik og hamagang ákváðu þær að þær vildu fara út í sjoppu að leigja DVD mynd.

Ég sagði að það væri sjálfsagt en það sem þær væru fimm þá kæmust þær ekki allar í bílinn. Ekki nema heimasætu-gelgjan vildi sjá um aksturinn og ég yrði eftir heima. Þeim þótti þetta afar sniðug hugmynd, enda bara 10 ára.

En mamma, sagði heimasætu-gelgjan, getum við ekki bara verið einum of margar í bílnum? Ég sagði það vera af og frá. Slíkt og þvílíkt myndi ég aldrei láta mér detta í hug.

Það var aldeilis rekið ofan í mig því hún og Viðhengið sögðu mér frá sameiginlegri minningu sem þær ættu um að ég hefði plantað þeim báðum í framsætið á bílnum, því aftursætið hefði verið fullt af drasli.

Ég get svo svarið það að mig rekur ekki minni til þessa, og aldrei hef ég sest drukkin undir stýri með börn í bílnum, svo ekki er um að kenna áfengis-óminni. En varla eiga Gelgjan og Viðhengið sameiginlegan draum, svo eitthvað hlýtur að vera til í þessu. Kannski vorum við læstar úti og sátum af okkur rigningu í bílnum eða eitthvað........

Ég allavega þvertók fyrir að keyra út í sjoppu með þær allar í bílnum.

Veistu það Anna Mae, sagði ég við Heimasætu-gelgjuna; ef löggan myndi stoppa mig með einu barni of mikið í bílnum, þá yrði mér stungið í steininn.

Ef ég bjóst við að það kæmi móðir-mín-ekki-yfirgefa-mig-skelfingar-svipur á hana þá skjátlaðist mér illilega.

Hún horfði á mig með köldu og íhugandi augnaráði og sagði: Hvað lengi?

 


Hvað gerir maður, þegar það er ekkert sem maður getur gert?

 

Hér sit ég á laugardagsmorgni (ok ok það er komið fram yfir hádegi en hjá mér er ennþá morgunn). Allt er rólegt. Hundur sefur í grænum sófa, kettlingur sniglast í kringum lyklaborðið hjá mér og 2 aðrar kisur sofa í hvítum baststól.

Gelgjan spilar leik á netinu og Sá Einhverfi horfir á Emil í Kattholti. Bretinn lúrir upp. Hann fór á fætur í morgun með Þeim Einhverfa sem var byrjaður, eins og alltaf, að þylja upp kynningu á Börnunum í Ólátagarði kl. 7 í morgun:

  • Berta -
  • Anna -
  • Olli -
  • Bjössi -
  • ...og so é.. Lísa (segir hann með undurþýðri stelpurödd)

Ég fékk því að sofa út. Þess vegna er ennþá morgunn hjá mér. Greinar trjánna í fallega garðinum mínum sveiflast örlítið í haustrokinu. Þau eru græn ennþá að mestu. Haustlitirnir birtast aðeins á einstaka stað.

Í dag fer Gelgjan í afmæli og í kvöld ætla 4 vinkonur að gista hjá henni. Það verður sko náttfatapartí. Allt er eins og það á að vera. 

En svo kemur símtal. Og manni er kippt niður á jörðina. Ekki sitja allir með frið á sálinni og horfa á tréin bærast í vindinum. Og hvað gerir maður þegar það er ekkert sem maður getur gert?

Æi hvað lífið getur verið flókið.

 

 


Páfagaukurinn sem skipti um kyn

Skrif Jenfo fyrr í dag um nýja fjölskyldumeðliminn minnti mig á pistil eftir mig sem birtist í tímaritinu Dýrin mín fyrir einhverjum mánuðum síðan. Ákvað að skella honum hérna inn. 

Fyrsta gæludýrið mitt

Sem barn var ég svo mikill dýravinur að það jaðraði við  þráhyggju. Ég elskaði öll dýr og sú ást átti sér engin takmörk. Ég mátti engan ferfætling sjá, þá varð ég að strúka honum og klappa. Amma hafði oftsinnis varað mig við því að nálgast bundna hunda en ég lét það sem vind um eyru þjóta.

Eitt sinn sá ég hvítan fallegan hund, bundinn í heimkeyrslu og ég byrjaði að tala blíðlega til hans og nálgaðist hann hægum skrefum með útrétta hönd. Hundurinn stóð grafkyrr og starði á mig. Ég hef verið aðeins 8-9 ára gömul en samt sem áður hringdu einhverjar viðvörunarbjöllur í kollinum á mér. Ég tók eftir því að hvutti hafði enga vinalega tilburði í frammi og  dillaði hann ekki rófunni. Aðvörunarorð ömmu hafa haft eitthvað að segja því ég ákvað að taka enga áhættu og sneri við. Í því tekur hundurinn á rás og stekkur á eftir mér geltandi og urrandi. Hann náði að glefsa í olnbogann á mér og rispa mig lítilsháttar áður en bandið stöðvaði hann. Svolítið svona eins og í teiknimyndunum.

Ég var auðvitað skeflingu lostin og svolítið sár en samt æpti ég hástöfum á eigandann sem kom aðvífandi og hóf að slá til hundsins: ’’Ekki lemja hann, ekki lemja hann’’.Ég slapp með skrekkinn og lærði af þessari reynslu en þó ekki meira en svo að ég var bitin af villiketti sem ég ætlaði að vera góð við, þegar ég var  unglingur.

Ég fékk aldrei að eiga hund eða kött en ég átti fiska og eftir grát og gnístran tanna eignaðist ég  páfagauk. Hann var ljósblár og mér þótti ég aldrei hafa séð neitt eins fallegt. Og það var nú meira hvað þetta litla kvikindi var bráðskemmtilegt. Hann elskaði að bera smádót í gogginum  og henda því fram af borði. Hann óð út í Cerioos og Cocoa Puffs diskana mína eins og þeir væru hans einkatjarnir og hann sat tímunum saman á öxlum mínum eða höfði og skeit mig alla út. Amma var ekki hrifin en mér var alveg ákvæmlega sama, ég elskaði hann út af lífinu.

Einn daginn sat hann í herberginu sínu (sem hann hafði alveg út af fyrir sig), ofan á lítilli plastkanínu sem var í miklu uppáhaldi hjá honum, og leit afskaplega veiklulega út. Var sljór til augnanna og lyngdi þeim aftur í sífellu. Ég hljóp fram í eldhús í ofboði. ’’Amma, amma, Borró er veikur, ég held bara að hann sé að deyja’’.Amma fylgdi mér eftir og hefur eflaust vonað að fugl-kvikindið lægi þar með lappir upp í loft þegar við kæmum inn í herbergið.

Þegar þangað kom sé ég einhverja skrítna hvíta kúlu ofan á plastkanínunni. Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á að þetta var egg. Borró verpti fúleggi, kom upp um kynferði sitt en hélt nafninu þar sem Borró gat alveg eins verið stelpunafn eins og stráka-nafn.

Borró eignaðist mann sem hún kúgaði, verpti fleiri eggjum, ekki fúleggjum í þetta skiptið og ákvað svo að yfirgefa bónda, börn og bú.

Einn daginn flaug hún út um herbergisgluggann og stillti sér upp á húsþak. Nágrannarnir  hlupu áhyggjufullir fram og til baka í garðinum (þar sem það var nágrannastelpan sem var sek um að hafa opnað gluggann), afi veifaði fuglabúrinu og kallaði á Borró og ég held að amma hafi verið að því komin að pissa í buxurnar af hlátri. Hún vissi sem var, að ef Borró hafði verið á báðum áttum um hvort þetta ætti aðeins að vera stutt útsýnisflug eða hvort hún ætti að fljúga suður á bóginn, þá tók hún endanlega ákvörðun um það síðarnefnda þegar hún sá búrið. Hún þoldi ekki þennan rimlakassa enda var hún ekki vön að vera lokuð inn í honum. Hún hafði alla tíð haft heilt herbergi út af fyrir sig.

Og þarna sat hún á þakskegginu og skáskaut augunum niður til okkar. Amma sór og sárt við lagði að sigurglott hefði verið á andlitinu á fuglinum. Inni fyrir tísti og gargaði móðursjúki bóndinn hennar, nú konulaus.

En Borró hóf sig til flugs, blakaði litlu vængjunum í kveðjuskyni og hún og heiðblár himininn urðu eitt. Við sáum hana aldrei aftur.  Söknuðurinn var mikill og enginn páfagaukur sem ég eignaðist eftir það komst nálægt því að geta tekið sæti hennar.

Einhvern tíma mun ég festa kaup á stórum og litríkum páfagauki, en eins og staðaner í dag með naggrís, hund og 3 ketti á heimilinu væri það ekki skynsamlegt. 

Mig langar til að taka einhvern hálstaki og herða að

Eins og alltaf skil ég hvorki upp né niður í þessari fréttaskýringu. Eða dómunum. Eða réttarfarinu.

Ég ætla að fara hægt í þetta. Klippa út í pappa eins og Jenný bloggvinkona kallar það.

1) Héraðsdómur Rvk dæmir manninn í 4 ára fangelsi og til að greiða fórnarlambinu 1,2 milljónir í skaðabætur

2) í þessum dómi er ''tekið tillit'' til þess að brot mannsins er sérstaklega hrottalegt. Hann hafi beitt konuna endurteknu og grófu ofbeldi á meðan á nauðguninni stóð (eins og nauðgunin ein og sér sé ekki gróf og hrottaleg). KYNFÆRI HENNAR VORU SVO ILLA FARIN AÐ EKKI VAR HÆGT AÐ SKOÐA ÞAU Á HEFÐBUNDINN HÁTT.

3) Málinu er vísað til hæstaréttar sem sér ástæðu til að stytta dóminn um hálft ár ?????? Samt telur Hæstiréttur sannað að einnig hafi verið um munnmök að ræða, sem ekki var sannað fyrir héraðsdómi.

Hvað þýðir þetta þá? Þýðir þetta að hæstarétti þótti nauðgunin ekki eins gróf og héraðsdómi? Og hvað þykir þá hæstarétti gróf nauðgun?

Hver áfrýjaði?

Ef tekið er tillit til sérstaklegra grófrar árásar afhverju er dómurinn þá svona stuttur?

Hvað á konan að gera við eina milljón. Dugar ekki einu sinni fyrir dópi út árið ef hún velur þá leið til að milda sársaukann á sálinni.

Hvað ætlar Hæstiréttur að gera við þessi 200 þúsund sem hann tók af henni? Fer það í árshátíðarsjóð dómara.

 

Þið fyrirgefið. Ég get ekki verið málefnaleg þegar kemur að svona málum. Mig langar til að öskra og garga og taka einhvern í skikkju hálstaki og herða að.

Ég get ekki að mér gert að velta því fyrir mér hvað myndi gerast ef einhver hár herra þyrfti að horfa upp á konu sína eða dóttur ganga í gegnum samskonar lífsreynslu og þessi kona hefur þurft að gera og mun aldrei verða söm aftur.

Ætli það myndi eitthvað gerast í þessum málum á Íslandi? Ætli refsiramminn myndi líta öðruvísi út? Ætli það yrði sett á laggirnar heppilegur staður til að vista svona geðsjúka ofbeldismenn?

Afhverju skilja karlmenn ekki hversu hræðilegur glæpur nauðgun er? Mig langar að grenja ég er svo reið.

 


mbl.is 3½ árs fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tippablogg

 

Sá Einhverfi er í burtu næstu tvær nætur í skammtímavistuninni og mér finnst eins og ég hafi allan tímann í heiminum. Fór í afmælisgjafaleiðangur eftir vinnu og svo tróð ég mér inn á afmælisbarnið, sem er með matarboð fyrir nánustu fjölskyldu, og afhenti gjöfina. Gerði það viljandi að mæta í þann mund sem nautasteikin var að verða tilbúin en hafði ekki árangur sem erfiði. Svo ég  fór heim þar sem Bretinn var að elda kjúklingabringur.

Eitt það fyrsta sem hann sagði við mig þegar ég kom inn var:

Viddi has an ugly penis

Mér verður nú ekki oft orða vant en það gerðist þarna. Eitt andartak.

Bretann fór að lengja eftir viðbrögðum frá mér, öðrum en starandi augnaráði svo hann sagði: Have you seen his penis. He has an ugly penis.

Ég spurði hvort hann hefði séð önnur hundatippi sem væru fegurri en á hundinum okkar.

Bretinn hugsaði sig um og sagði: as a matter of fact, yes.

Mér sárnaði fyrir Vidda hönd (fót) og sagði að hann gæti sjálfur verið með ljótt tippi. Tippi væru bara yfir höfuð ljótt líffæri eða útlimur eða hvað þetta fyrirbrigði nú telst vera.

Bretinn var ekki sammála því.

Við urðum ásátt um að vera ósammála. Svo fengum við okkur kjúkling.

 


Fólkið í vinnunni er hvert öðru falskara og ómerkilegra

Ég er búin að vera spá og spekúlera í gangi stjarnanna fyrir vinnufélagana, og hvaða áhrif þær hafi á persónuleika þeirra. Af einhverjum ástæðum eru allir hérna á skrifstofunni undirförlir lygarar, ómerkilegir snobbarar, frekir valdasjúklingar eða einskis nýtir smjaðrar.

Þetta er svo ég: 

Vog (23. september - 22. október):

Þú þykist veraljúfur og vingjarnlegur, en ert í raun falskur og eigingjarn, brosir framan í fólk, en lýgur og ferð bakvið aðra. Það tekur þig óratíma að taka ákvaðanir, en þegar það loksins gerist, ertu óhagganlegur, enda of latur til að hugsa málin aftur og of upptekinn af því að smjaðra fyrir öðrum.


Að drepa frekar en að vera drepinn

Hann vissi að hann yrði að segja skilið vinkonu sína. Því fyrr því betra. Reyndar hefði hann átt að vera löngu búin að því. Það voru svo mörg ár frá því að hann vissi hvernig hún var innrætt. Undirförul. Lét honum líða svo vel. Fullnægði honum. En undir hvítu og sléttu yfirborðinu leyndist banvæn blanda. Hún vildi honum ekkert gott og hafði aldrei viljað. Takmark hennar frá þeirra fyrstu kynnum var að gera hann veiklundaðan. Háðan sér og þeim tilfinningum sem hún vakti. Hann hafði barist gegn þessum tilfinningum svo lengi. Logið að sjálfum sér. Allt til þess að þurfa ekki að taka ákvörðun. Hann vildi hana úr lífi sínu. En samt hélt hann í hana dauðahaldi. Þrátt fyrir að hann vissi að það væri aðeins spurning um tíma hvenær hún dræpi hann. Hún var nú þegar byrjuð að myrða hann á sinn hægláta, hljóða og undirförla hátt.

Ákvörðunin var skyndileg og kom honum á óvart. En skyndiákvarðanir eru oft þær sem auðveldast er að standa við og uppfylla.

Hann þreif til hennar og fleygði henni á jörðina. Naut þess að stíga á hana og þrýsta ofan í svaðið. Þrýsti henni svo fast ofan í drulluna að hún hvarf sjónum hans. Loginn var slokknaður. Að eilífu.

Hann gekk að næstu ruslatunnu og henti restinni af sígarettupakkanum.

Jesús hefur húmor

.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tla hér um auglýsingu Símans. Ég hef samt þá þörf að koma minni skoðun á framfæri.

Áhugi minn á auglýsingum er gömul saga. Sem barn, búandi hjá ömmu og afa, lék ég mér mikið ein. Ekkert af mínum systkinum bjó þar með mér. Ég dundaði löngum stundum ein inn í herbergi í dúkkuleik eða búðarleik. Algjörlega í eigin heimi. En auglýsingastef RUV náði alltaf eyrum mínum. Um leið og það hljómaði þá hljóp ég fram í stofu og horfði andaktug á auglýsingarnar. Ég man vel hvað ég þoldi illa tímann fyrir jól því þá voru bara leiðinlegar bókaauglýsingar.

Ég átti æskuvinkonu. Lilja Jóna heitir hún. Þegar ég varð örlítið eldri þróuðum við Lilja leik. Hann fólst einfaldlega í því að í auglýsingatímum stóðum við upp og lékum auglýsingarnar eftir bestu getu með miklum tilþrifum. Okkur þótti þetta afskaplega skemmtilegt.

Ég flæktist svo inn í auglýsingaheiminn á fullorðinsárum fyrir algjöra tilviljun. Ég starfaði á auglýsingastofum og á auglýsingadeild Norðurljósa í mörg ár. Bretinn er starfandi í auglýsingabransanum. Á mínu heimili eru auglýsingar krufnar til mergjar. Ég horfi mikið í tæknilegu hliðina á auglýsingu Símans. Hún er svo vel gerð að ég held varla vatni yfir því.

Mér þykir hún líka fyndin. Hvernig er ekki hægt að finnast fyndið þegar Júdas spyr Jesú hvort hann sé búin að segja Gjörið svo vel.

Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja afhverju ekki megi fjalla um atvik úr Biblíunni á spaugsaman hátt. Auðvitað eru skiptar skoðanir á því hversu fyndin auglýsingin er. Fólk hefur mismunandi kímnigáfu.  

En spurning mín er þessi: afhverju hefur trúað fólk þá skoðun að Jesú og Guð hafi enga kímnigáfu? 

Er trúin þá húmorslaus?

Samkvæmt kristinni trú erum við sköpuð af Guði. Í hans mynd. Afhverju skapaði hann okkur með kímnigáfu ef það er honum ekki þóknanlegt að við notum hana? Væri það ekki svolítið undarlegt?  Eða megum við bara ekki hafa húmor gagnvart honum/henni og hans/hennar nánustu?

Þetta er ekki mín trú. Ég er viss um að bæði Guð og Jesú hafa magnaða kímnigáfu og kunni vel að meta góðan húmor. 

 


Engin gæsla alla næstu viku

 

Eftir skóla dag hvern fer Sá Einhverfi í daggæslu sem er eingöngu fyrir andlega fötluð skólabörn. Þar dvelur hann þar til hann fer í skólabílinn/rútuna kl. 16:45 og er ekið heim.

Frábær þjónusta, ég veit. Þegar hún er möguleg.

Allir vita að skelfilegt ástand er í dagvistarmálum þetta haustið. Það vantar starfsfólk. Big time. Þar sem Sá Einhverfi dvelur er ástandið afar slæmt. Þessar fyrstu vikur eftir að skólarnir hófu göngu sína höfum við verið heppin. Nei annars, þetta hefur ekkert með heppni að gera. Ég var bara með þeim fyrstu til að sækja um pláss fyrir veturinn. Fyrstir koma, fyrstir fá.

En þegar um fötluð börn er að ræða er vandamálið enn stærra fyrir foreldra og því er brugðið á það ráð að reyna að skipta tímanum á milli barnanna. Þetta þýðir það að Sá Einhverfi hefur enga gæslu alla næstu viku og í staðin fá börnin sem enga gæslu hafa fengið hingað til á haustinu, inni.  Það eru góð ráð dýr. Pússluspilið hefst. Og hér er ekkert pússluspil á milli skyldmenna, ömmu og afa, frænku og frænda í boði. Það er ekki um neitt slíkt að ræða. Það er engin amma eða afi. Og þau fáu skyldmenni sem við eigum eru auðvitað öll í vinnu. Ekki er heldur möguleiki á að ráða 13 ára skólastelpu sem pössupíu til að hugsa um risastóran og nautsterkan einhverfan gaur. Hann þyrfti ekki annað en að reiðast og slengja henni utan í vegg. Þar með væri það búið.

Ég er ofsalega heppin með vinnuveitanda. Það eru ekki allir. Mýmörg dæmi eru um að foreldrar hafa þurft að segja upp starfi sínu og berjast svo í bökkum við að láta enda ná saman.

Í gær átti ég samtal við hana Heiði sem stjórnar frístundaheimili Þess Einhverfa af röggsemi og af mikilli ást á starfinu. Hún hafði það skemmtilega hlutverk að hringja í foreldra og tilkynna þeim að enga gæslu væri að fá í næstu viku fyrir börnin.

Ég spurði hana hvað hún héldi að væri orsökin fyrir því hversu erfitt væri að fá fólk í starfið.

Hún telur það vera eftirtalda þætti, ekki endilega í þessari röð:

  • Skammarleg laun
  • Lágt starfshlutfall
  • Hræðsla og vanþekking

Hún nefndi þessa hugmynd að setja störfin inn sem hluta af námi félagsfræðinga, þroskaþjálfa, leikskólakennara, kennara o.sfrv. Tíminn sem unnin væri á frístundaheimilum fatlaðra væri þá metin sem einingar í námi og væri partur af starfsþjálfun, en jafnframt greitt fyrir. Óvitlaus hugmynd það.

Starfshlutfall er auðvitað bara 50% þar sem aðeins er unnið eftir skólatíma á daginn. Það þarf að breyta þessu. Það hlýtur að vera hægt að hafa fólk í vinnu annars staðar 50% á móti akkúrat þessu starfi.

það er ljóst að möguleikarnir eru óteljandi ef aðeins væri sett nefnd til að kanna þá. Svipað og var sett á laggirnar nefnd til að finna út hversu mörg almenningsklósett þyrfti í borgina. Kommon.....

Heiður sagði líka að þegar þessir krakkar (starfsmennirnir) einu sinni byrjuðu þá ílengdust þau í starfi. Enda besta starf í heimi segir hún. Heiður er æðisleg. Hún elskar jobbið sitt, hún elskar alla litlu fötluðu einstaklingana. Þannig eru allir þessi krakkar sem vinna þarna. Í þau skipti sem ég ákveð sjálf að sækja þann Einhverfa í stað þess að láta hann taka rútuna heim, þá fæ ég alltaf einhverjar sögur af honum.. hversu æðislegur hann hafi verið þegar hann gerði þetta... hversu fyndinn þegar hann gerði hitt... Ein stúlka sem vann þarna lengi vel en hefur horfið til annarra starfa, fer stundum í heimsókn á Frístundarheimilið bara til að heilsa upp á Þann Einhverfa.

Þetta viðmót og vinnugleði er einskis metið af vinnuveitendum þeirra. Æi.. andskotinn. Ég bara þoli þetta ekki. Hvað getur maður gert?

 

 

 


Dæmi um nýtingu á æðruleysisbæn eiginkonunnar

 

Konan sem gerði þessa uppgötvun hér undir, hefði betur lært Æðruleysibæn eiginkonunnar utan að og farið með hana nokkrum sinnum í huganum áður en hún lét til skarar skríða. 

 

Spurning:

What does it mean when a man in your bed is gasping for breath and

trying to call your name?

 

Svar:

You did not hold the pillow down long enough.

 

Ok ok. Ég er hætt í brandaradeildinni. Og nei... ég hef engar áætlanir um að koma Bretanum fyrir kattarnef.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband