Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Skotið upp á náttfötum og Golfblaðið kvatt

 

Við höfðum ákveðið að taka niður allt jólaskraut í dag og var búið að vara Þann Einhverfa við með tveggja daga fyrirvara. Af fenginni reynslu frá jólunum 2006,  bjóst ég við meiri látum. Og reyndar komin reynsla á málið þessi jólin,  því á fimmtudaginn þegar jólatréið var tekið niður í Vesturhlíð, þá grét hann fögrum tárum með ekki eins fögrum hljóðum. Ef hann hefði getað tjáð sig við starfsfólkið þá hefði hann sennilega sagt eitthvað á þessa leið:

 Mér finnst þið andstyggileg og ekki síður afar þröngsýnt fólk að sjá ekki að ekkert er því til fyrirstöðu að skreytt tré standi hér á gólfinu árið um kring.

Ekki gekk planið eftir því hér stendur enn jólatré í fullum skrúða en ég er þó búin að fylla borðstofuborðið af jólaóróum, glanslengjum, rauðum kertum, jólaljósum og öðru dóti sem hefur verið rifið hér niður úr gluggum, hillum og af veggjum.

Sá Einhverfi fór aðeins yfir pakkana sem eru undir jólatréinu (í flestum tilfellum eru það eintök af Golfblaðinu sem hann hefur pakkað inn). Tók þá og bar í stól, las upphátt á til/frá kortin og klappaði aðeins á pappírinn. Svo raðaði hann þeim öllum undir tréið aftur. Á morgun munum við taka fram kassana undan tréskrautinu og láta hann hjálpa okkur að ganga frá þessu öllu.

Eftir að búið var að reka Gelgjuna í náttföt hér í kvöld vegna þess að það lá svo á að koma barninu í rúmið, var skyndilega ákveðið að kveikja í þeim flugeldum sem eftir voru frá gamlaárskvöldi. Fyrir vikið græddi hún heilan klukkutíma á fótum.

Feðginin fóru hérna út í götu og héldu smá sprengi-show. Utan yfir náttfötin fór Gelgjan í náttslopp og svo úlpu þar utan yfir. Mjög hentugt því þegar þau komu inn aftur var hún tilbúin til að fara beint upp í rúm. En hún leit út eins og lítil bag-lady í þessari múnderingu.

 

Þrettándinn

 

Hér eru feðginin kampakát eftir sprengingarnar


Trukkalessa eða ekki...

 

Daginn börnin góð. Gleðilega hátíð og megi gamlaárskvöld verða ykkur sem ánægjulegast.

Ég tók mér frí í vinnunni fram yfir áramót, sem var eins gott þar sem ég sit nú yfir veikum gutta. Eins og ég hlakkaði rosalega til að losna við hann í dag. O jæja.

Mig langar að minnast á hana Gerði Önnudóttur, sem er að gera allt vitlaust núna á moggablogginu. Eins og aðrir er ég forvitin og í gær renndi ég yfir færslu hjá henni og svo yfir kommentin. Og ég er satt best að segja bara svolítið sorgmædd. Kannski er það vegna þess að núna er hátíð ljóss og friðar. Mikið svakalega er til margt fólk þarna úti sem er uppfullt af reiði og illsku. Og satt að segja detta mér í hug fótboltabullur. Þessar sem mæta á fótboltaleiki eingöngu í þeim tilgangi að efna til slagsmála og illinda. Það er ekki fótboltaleikurinn sjálfur sem skiptir máli heldur að berja sem flesta.

Gerður er að úthúða karlmönnum og má öllum vera ljóst að konan sú er ekki raunveruleg. Og þó hún væri kona af holdi og blóði þá mætti einnig vera ljóst að sú kona gengur ekki heil til skógar.

Ég veit því ekki hvort er bilaðra; að sleppa reiði sinni og svívirðingum lausum á ímyndaða persónu eða á manneskju sem ekki er heil á geði og þá einn helst úthúða henni fyrir að líta ekki út eins og staðalímyndin.

Svo er annað sem ég er að láta fara í taugarnar á mér. Moggabloggarar hafa löngum verið dregnir í dilka. Reyndar bara einn dilk. Við erum öll klikkuð. Inn á kommentakerfinu hjá dóttur hennar Önnu er orðljótasta fólkið nær undantekningalaust IP-tölur, þ.e. ekki moggabloggarar heldur só and só út í bæ. En út af því að umræðan fer fram á mbl þá erum við hin stimpluð. Allt saman ruglað, orðljótt lið sem tekur Lúkasinn á hvert viðfangsefnið af öðru. 

Annars er ég bara nokkuð góð.

 


Plastið byrjað að hitna

 

Það var nokkuð ljóst að ef breski hluti þessarar fjölskyldu ætti að fá jólagjafirnar fyrir jólin 2007, þyrfti ég að hefjast handa. Og það gerði ég í kvöld.

Tætti í Kringluna vopnuð plasti og stóð mig eins og hetja. Landaði UK-jólagjöfum og fimm til.

Sá pott í Byggt & Búið sem mér leist vel á og til þess að ég keypti ekki eitthvað alveg út í loftið sneri ég mér að ungum manni sem þarna var að afgreiða.

Nú átt þú að segja mér hversu frábær þessi pottur er, skipaði ég.

Hann leit á mig, brosti alveg yndislega fallega og sagði: þessi pottur er alveg frábær.

Gott, sagði ég. Ég ætla að fá hann.

Svona getur verið einfalt að finna góðar og nýtilega jólagjafir.

Í Blend hitti ég á annan ungan afgreiðslumann sem fékk sko ekki sitt þjónustuskírteini úr cocoa puffs pakka. Hann mátaði fyrir mig peysur og hélt á vörum fyrir mig á meðan ég skoðaði fleiri.

Hitti svo fyrir skemmtilegt fólk sem var að kynna nýtt íslenskt jólaleikrit; Lápur, Skrápur og jólaskapið.  Tveir piltar stóðu þarna í búningum og ung stúlka með þeim sem var með allt á hreinu. Spjallaði við þau um leikritið og ég ætla að skella mér á sýninguna þeirra með krakkana. Held þetta sé bráðsnjallt leikrit fyrir alla fjölskylduna. 

 Þegar ég ákvað að ég hefði afrekað nóg í jólagjafadeildinni fór ég á Cafe Bleu og mætti þar sama yndislega viðmótinu og annars staðar, hjá stúlku sem var að þjóna og svo kaffimeistaranum sem lagði fyrir mig dásamlegan Latte í takeaway bolla. Það er ekki annað hægt en að komast í ekta jólaskap þegar þjónustan er svona fyrsta flokks, hvar sem maður kemur.

---------------

Rétt í þessu læddist ég inn í herbergi hjá krökkunum og kíkti í gluggann. Svona rétt til að sjá hvort jólasveinninn væri búinn að koma. Ekki var það nú. Hann bíður sennilega eftir því að við Bretinn skríðum í koju.

Í glugganum hjá Gelgjunni var orðsending til jólasveinsins, undir mjólkurglasinu sem ætlað er fyrir þyrstan, önnum kafinn Nikulás.  Á miðanum stendur: Afsakið, en ég á ekki piparkökur. Svo er teikning af andliti með skeifu og tvö tár og undir stendur; Fyrirgefið!

Ég hafði Gelgjuna grunaða um að þykjast trúa á jólasveininn ennþá, því hún væri hrædd um að fá annars ekki í skóinn. En núna.. núna er ég ekki viss. Þetta er svo innileg afsökunarbeiðni. Ég vona að Sveinki taki hana til greina.

Englands-jólagjafirnar standa vandlega innpakkaðar í jólapappír ofan í stórum pappakassa frammi í forstofu. Ég vil að Bretinn hnjóti um þær í fyrramálið svo hann muni að fara með þær á pósthúsið bright and early. Búið að sækja jólaskrautið ofan af háalofti en jólagardínurnar eru enn ófundnar.

 


Fastar fléttur

 

Í gær var jólaball í dansskóla Gelgjunnar og spennan var mikil þar sem hennar hópur átti að sýna dansatriði. Þær áttu að vera klæddar í svartar leggings, svarta hlýraboli og með fastar fléttur. Ég er einskis nýt í föstu-fléttu-deildinni svo Gelgjan hvarf að heiman um miðjan dag til að fá þjónustuna heima hjá vinkonu sinni.

Ég var reyndar til fleiri verka einskis nýt í gær, sökum eftirkasta af áfengisdrykkju kvöldinu áður. En frúin bar sig vel og naut góðs af heitum faðmi Bretans á meðan við biðum eftir dansatriðinu. Áður en að því kom dönsuðu krakkarnir í kringum jólatréð og jólasveinn kom í heimsókn. Var sá óvenju  skemmtilegur og ég rak upp hlátursrokur öðru hverju.

Amma og afi sáu um spilverkið, þ.e. amma og afi einhvers. Afinn spilaði á harmonikku og amman barði trommurnar. Frekar sérstök upplifun að sjá þessa tignarlegu, eldri konu, í dökkblárri buxnadragt og hvítri blússu með blúndu við hálsinn, slá taktinn.

 

Ekki náðust góðar myndir af dansatriðinu sjálfu, en hér er mynd af skvísunum fyrir sýningu (Gelgjan er t.v.). AM og Seselia     

 

 

 

Og hin myndin sem ég læt hér fylgja sýnir skemmtilegt sjónarhorn. Fullt af litlum stelpum, öllum eins, að taka við fyrirmælum frá kennaranum sínum. Ég þekki ekki einu sinni barnið mitt í hópnum.

Fastar fléttur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í bílnum á leiðinni heim sagði ég við Gelgjuna: Það þarf nú alveg sérstakan hæfileika til að brosa svona allan tímann eins og þú gerðir.

Já, hún gat alveg samþykkt það. En mamma, sagði hún. Ég hætti samt að brosa því mér fannst ég vera eins og fáviti. 

Ég skil ekki hvaðan krakkinn hefur þennan talsmáta.

 

 


Refsivert að borða yfir sig?

 

Jahá! Fjörið er rétt að byrja krakkar mínir.

Forræðishyggjan á eftir að gleypa okkur með húð og hári.

Sýn Adolfs Hitlers á hinn fullkomna heim, mun á endanum verða að veruleika.

Allir sem ekki eru ljóshærðir, bláeygðir, með hvíta húð, í kjörþyngd og færir um að geta af sér börn á náttúrulegan hátt, verða réttdræpir og gefið út veiðileyfi á þá.

Skilaboðin um offitu eða yfirvigt verða sífellt skýrari og ef okkur hefur þótt hingað til að börn séu lögð í einelti vegna holdarfars síns, þá höfum við lítið séð ennþá.

Smám saman verður bannað með lögum að borða of mikið og vera of feitur því það hefur áhrif á einhvern hátt á gróðurhúsaáhrifin. Ef þú hreyfir þig of lítið og notar bílinn til allra þinna ferða, þá ertu að hleypa of miklum koltvísýringi út í loftið.

Ef þú kýst að nota bílinn minna og ganga meira þá hleypirðu jafnvel enn meira af koltvísýringi út í loftið. Og afhverju er það. Jú vegna þess að matvælaframleiðsla er svo orkufrek og þú þarft vissan  fjölda af kalóríum til að brenna í þessum gönguferðum. Sem sagt, ef þú gengur þá þarftu að borða meira og þá eykst matvælaframleiðsla......

Og sannið til... útkoman úr þessari hringavitleysu verður á endanum að fólk sem er of feitt verður álitið umhverfismengandi og sjónmengandi. Við verðum öll vigtuð þegar við mætum til skóla eða vinnu á morgnana og útkoman hengd á kennitöluna okkar.

Finnst ykkur ég vera komin fram úr mér? Bíðið bara....

 


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páfagaukar, um ketti, frá hundum, til naggrísa

Dýralífið á þessu heimili er......  það eru allavega nokkur dýr á heimilinu.

Sem krakki var ég forfallinn dýraaðdáandi. Ætlaði að verða bóndi. Féll frá því þegar ég uppgötvaði að það fæli í sér fjöldamorð.

Þá ákvað ég að dýralækningar yrðu mitt framtíðarstarf. En af því varð aldrei. Aðallega vegna leti og metnaðarleysis. Nei.. eingöngu vegna leti og metnaðarleysis.

Ég grátbað ömmu um að fá hund eða kött þegar ég var krakki. En amma vildi meina að hundar ættu heima í sveit og svo sagði hún mér sögu af fressi sem hún átti sem barn. Elskaði köttinn út af lífinu. Þangað til hann hitti annan fress, þeir lentu í slagsmálum og skítabunan stóð aftan úr þeim í æsingnum. Þessi atburður var nóg til þess að amma fékk ógeð á köttum.

Mér þótti hún frekar langrækin í garð katta, en hún sat við sinn keip.

Með harmkvælum gat ég kríað út páfagauk og hér er hægt að lesa um ævintýri hans. Ég elskaði þennan páfagauk meira en lífið sjálft. En hann stakk af og þeir komur margir á eftir honum.

Enn þann dag í dag er ég afskaplega veik fyrir páfagaukum og kjassa framan í þá eins og aðrir kjassa framan í ungabörn. Gelgjan fer ekki með mér í gæludýrabúðir því ég finn mér alltaf páfagauka til að tala við. Hún þolir ekki að ég tali við páfagauka, frekar en hún þolir að ég ávarpi ókunnuga. Skammast sín fyrir mömmsluna sína.

Amma og afi voru afar heppin að ég skyldi aldrei láta mér detta í hug að hægt væri að halda bæði kött og hund. Það einfaldlega hvarlaði aldrei að mér.

En á fullorðinsaldri hvarlaði það að mér og áður en ég vissi af var ég komin bæði með köttinn Kela og hundinn Vidda. Hundurinn kom á eftir kettinum, og þegar ég bætti við kettling var Kela ketti nóg boðið. Hann flutti að heiman og mun ég seinna segja frá þeim stórmerka atburði.

Kettlingnum Tinnu og hundinum Vidda kom vel saman og fljótlega bættist naggrísinn Rós rassstóra í hópinn. Ekki er samt hægt að skilja Rós eftir utan búrs í félagsskaps hinna ferfætlinganna. Jafnvel þó að hún sé næstum því stærri en Tinna.

En Tinna er orðin móðir. Eignaðist 3 kettlinga í sumar. systurnar Khosku, Elvíru og Perlu. Khoska heitir Bóthildur í dag og býr hjá Ásdísi bloggvinkonu. Elvíra og Perla eru hér enn... og verða líklegast hér áfram.

Elvíra og Perla eru orðnar stærri en mamma Tinna og mamma Tinna er orðin pirraðri en allt sem pirrað er. Hvæsir í sífellu á kettlingana og litlu, feitu systurnar verða alltaf jafn hissa og opineygðar af undrun. Viddi hundur verður svo æstur þegar Tinna hvæsir að hann tekur á rás á eftir henni og hún verður enn pirraðri. Aumingja Tinna.

Mér finnst ég ríkari að hafa kynnst öllum þessum karakterum. Og ég er glöð að geta veitt börnunum mínum það sem ég þráði svo mjög sem barn en fékk ekki notið. Nálægð við dýrin. Og krakkarnir hafa notið góðs af. Ekki síst Sá Einhverfi. Það má lesa nánar um hér.

Læt fylgja hér tvær myndir. Á þeirri fyrri virða Elvíra og Perla fyrir sér, mjög svo áhugasamar, Rós rassstóru í búrinu sínu. .

Elvíra, Perla og Rós Rasstóra

 

 

 

 

Og á þeirri seinni sést Gelgjan við heimanámið með Perlu í baksýn, en Elvíra spásserar yfir námsbækurnar

AM og kisurnar


Vangaveltur um bílaskoðun 2008 eða 2009

 

 Númerið á bílnum mínum endar á einum. Sem þýðir að það á að skoða hann í janúar. Síðasta lagi mars. Það fer sem sagt  að koma að skoðun.

En á sama tíma má segja að ég sé dauðans matur ef löggan spottar mig. Ég fór aldrei með bílinn í skoðun á þessu ári. Er búin að vera á leiðinni í 11 mánuði. Það er ég í hnotskurn. Stundum kem ég mér ekki í verkin. Hversu einföld sem þau geta virst fyrir meðal-Jóninn.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég fengi skoðun á bílinn til ársins 2009 ef ég færi með hann í skoðun... ja segjum á morgun. Eða hvort ég fengi bara skoðun til 2008 og þyrfti þá að mæta aftur á skoðunarstöð eftir mánuð. Í síðasta lagi eftir 3 mánuði. It wont happen ef ég þekki mig rétt.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ég eigi að draga þetta í 2 mánuði í viðbót við þessa 11 mánuði og fara bara með bílinn í janúar 2008.

Hata samt tilhugsunina að vera x-mas shopping, koma út úr Kringlunni með fangið fullt af pokum og pinklum og búið að klippa af bílnum. Aaargghhh. Ég leggst næstum því í rúmið við tilhugsunina. Og hver á þá að kaupa jólagjafirnar fyrir fjölskylduna.

Ég veit svei mér þá ekki hvort ég á að taka sénsinn á því að vera heppin mikið lengur. Ég ætla að sofa á þessu í nótt.

 

 


Flottur texti sem felur í sér áskorun til félagsmálayfirvalda

Ég fékk þennan texta sendan í tölvupósti í dag frá Helgu hálfsystur. Þetta er dásamlegur texti og vakti mig til umhugsunar. En eftir þennan lestur situr líka leiði yfir aðbúnaði aldraðra á Íslandi. Ef öllu eldra fólki gæti liðið eins og konunni í þessari frásögn.. í sátt við sjálft sig, lífið og tilveruna. Það getur verið erfitt ef fólk á ekki til hnífs og skeiðar. Aldrað fólk hefur unnið sér inn þann rétt að lifa áhyggjulausu lífi. Þetta getur vel verið áskorun til félagsmálayfirvalda að bæta kjör aldraðra.

Ég ákvað að þýða þennan texta eftir bestu getu yfir á ástkæra ylhýra og í stað þess að senda hann áfram á 7 vini eins og mér er uppálagt ætla ég að birta hann hér til að leyfa sem flestum að njóta hans. Þetta er einstaklega mannbætandi frásögn að mínu mati og er reyndar afskaplega vel viðeigandi framhald af síðustu bloggfærslu hjá mér.

 

Jafnvel fyrir okkur sem erum ekki svo gömul ennþá, er þetta umhugsunarvert og gott lesefni:

Ung stúlka spurði mig um daginn hvernig það væri að vera gömul. Ég varð forviða því ég hugsa ekki um sjálfa mig sem gamla. Unga stúlkan varð samstundis skömmustuleg þegar hún sá viðbrögð mín, en ég útskýrði fyrir henni að mér þætti þetta áhugaverð spurning. Ég sagðist ætla að hugsa málið vandlega og gefa henni svo svar.

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að hár aldur er gjöf.

Núna er ég, sennilega í fyrsta skipti á ævinni, sú persóna sem ég hef alltaf viljað vera.

O-hó... ekki þó líkaminn. Ég örvænti stundum út af líkamanum mínum; hrukkunum, pokunum undir augunum og signum rassinum. Og oft verð ég forviða yfir gömlu konunni sem á heima í speglinum (og líkist móður minni).

En ég dvel ekki yfir þessum atriðum lengi. Ég myndi aldrei vilja skipta á ótrúlegu vinum mínum, yndislegu lífi mínu eða ástkærri fjölskyldu minni fyrir færri grá hár eða flatari maga.

Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég orðið vinsamlegri við sjálfa mig, og þar með gagnrýnt sjálfa mig minna. Hef orðið minn eigin vinur. Ég skamma ekki sjálfa mig fyrir að borða þessa auka kökusneið eða fyrir að búa ekki um rúmið mitt. Eða fyrir að kaupa þessa kjánalegu eðlu úr steypu, sem mig vantaði ekki en tekur sig svo fjandi vel út á veröndinni hjá mér.

Ég á rétt á að verðlauna sjálfa mig, leyfa mér ýmislegt, vera drusluleg, vera glæsileg.

Ég hef séð of marga kæra vini yfirgefa þennan heim of snemma; áður en þeir skildu hversu dásamlegt frelsið er sem fylgir því að eldast.  Hverjum kemur það við þó ég velji að lesa eða leika mér í tölvunni til klukkan fjögur að nóttu og sofa svo fram að hádegi næsta dag.  Eða ef mig langar til að dansa við sjálfa mig við lögin sem vermdu topp vinsældarlistanna 1960/70. Og ef mig langar um leið að væla yfir glataðri ást.. þá geri ég það.

Ég mun ganga eftir strönd í baðfötum sem eru strekkt yfir misvel staðsett aukakílóin og ég mun stinga mér í öldurnar af vítaverðu kæruleysi ef mig langar, þrátt fyrir samúðarfullt augnaráð þotuliðsins. Þau munu líka verða gömul.

Ég veit að ég er stundum gleymin. En þegar öllu er á botninn hvolft er sumt í lífinu betur gleymt en geymt. Og öllu jafna man ég það sem skiptir máli.


Auðvitað hefur hjarta mitt brostið nokkrum sinnum í gegnum árin. Hvernig er hægt að komast hjá því þegar þú missir einhvern sem þú elskar, barn þjáist eða jafnvel þegar gæludýrið þitt til margra ára verður fyrir bíl og endar lífið?

Brostin hjörtu eru það sem gefur okkur styrk, skilning og samkennd með öðrum. Hjarta sem aldrei hefur brostið er ósnert og dauðhreinsað og mun aldrei kynnast gleðinni í því að vera ófullkominn.

Ég hef verið blessuð til að lifa nógu lengi að sjá hár mitt verða grátt og æskuhlátur minn geymdan að eilífu í djúpu línunum í andliti mínu. Svo margir hafa aldrei hlegið... svo margir hafa dáið áður en hár þeirra fékk silfugráan tón.

Eftir því sem þú eldist, því auðveldara er að vera jákvæður. Þér stendur meira á sama hvað aðrir hugsa. Ég efast ekki um sjálfa mig lengur. Ég hef unnið mér inn réttinn til að hafa rangt fyrir mér.

Svo að hér kemur svarið við spurningunni:

Mér líkar vel að vera gömul. Það hefur frelsað mig. Mér líkar vel við þá manneskju sem ég hef orðið. Ég mun ekki lifa að eilífu, en á meðan ég er hér enn, mun ég ekki eyða tíma í að syrgja hvað hefði getað orðið eða hafa áhyggjur af hvað verður. Og ég ætla að borða ábæti og eftirrétti alla daga ef mig langar til.  

 


Hverju á að trúa?

Ég er ein af þessum jó-jó manneskjum. Hef alltaf verið. Rokkað upp og niður í vigt. Allt farið eftir veðri og vindum, skapsveiflum, meðgöngum, stöðu ástarlífsins o.sfrv.

Hef tekið tarnir og drukkið í mig allt sem skrifað er um heilsu, líkamsrækt, mataræði og svo mætti endalaust telja.

Ég veit að margir þekkja sig í þessari lýsingu. Kannski sérstaklega kvenfólk. Við erum manískar á eigið útlit og líkama. Finnum okkur alltaf eitthvað til foráttu. Ef það er ekki til staðar þá búum við það til.

Ég hélt aldrei að ég myndi þroskast og finnast ég verða sátt við sjálfa mig.  Þessi tilfinning sem mér skilst að þroskaðar konur finni oft fyrir. Séu búnar að finna sjálfar sig og séu sáttar eins og þær eru. Andlega og útlitslega.

En mér finnst ég finna þennan þroska læðast upp að mér. Í litlum skömmtum. Smáum skrefum. Hann lýsir sér í því að ég sætti mig við minna. Þá á ég við að mér finnst ég ekki þurfa að vera fullkomin. Hvorki í útliti né að öðru leyti. En ég hef lofað mér því að þegar fertugsafmælið mitt (september 2008) rennur upp ætla ég að:

  • Að vera í því besta líkamlega formi sem ég hef nokkru sinni verið (og trúið mér, það er alls ekki óraunhæft þar sem ég hef aldrei stundað íþróttir og reykti frá 15 ára aldri þar til í febrúar á þessu ári)
  • vera í kjörþyngd (kemur að sjálfu sér ef ég hreyfi mig og borða minna en ég brenni)
  • líta frísklega út (kemur að sjálfu sér ef ofagreind atriði eru uppfyllt)
  • vera heilbrigð (ekki undir mér komið að öllu leyti, en góðar líkur ef öll ofangreind atriði eru uppfyllt) 

Og út af því að ég er orðin þroskuð kona og búin að slá af kröfunni um fullkomleikann, þá er ég að leita að lífsstíl. Ekki átaki í 8 vikur eða 12. Heldur lífsstíl sem ég fylgi það sem eftir er ævinnar.

Og þá kem ég að kjarna málsins. Við teljum okkur öll vita hvernig hinn rétti lífsstíll á að vera. Hvað sé hollt. Hvað sé nægjanleg eða nauðsynleg hreyfing til að halda sér í formi. En ef grannt er skoðað þá eru skilaboðin þarna úti svo mismunandi að það getur gert hvern meðalgreindan mann brjálaðan.

Frá hinum og þessum líkamsræktastöðvum, einkaþjálfurum, læknum, misvel upplýstum blaðamönnum sem skrifa um málefnið, næringafræðingum og alls konar besservisserum streyma upplýsingar og leiðbeiningar. Og ekki hafa allir sömu sögu að segja.

Ég ætla að nefna hér dæmi:

Líkaminn byrjar ekki að brenna umframorku fyrr en stanslaus hreyfing hefur átt sér stað í 20-30 mínútur.

Með öðrum orðum: ef þú ætlar að hreyfa þig, dont bother ef þú sérð aðeins fram á 15 mínútna hreyfingu því það hefur ekkert upp á sig.

Hvað þá með alla predikunina um að ganga út í búð í stað þess að keyra þangað? Eða fara úr strætó einni stoppustöð fyrr  og ganga rest? Eða ganga upp stigana í stað þess að taka lyftu.

Ekkert af þessu gefur okkur 20-30 mínútna hreyfingu. Jú ef við ætlum í Kaupfélagið á Króknum, eða förum úr strætó áður en við stígum upp í hann, eða ef við höfum stigana í Eiffelturninum í huga.

Nauðsynlegt er að hreyfa sig minnst 3 sinnum í viku í lágmark 3o mínútur í senn.

Með öðrum orðum; ef þú sérð ekki fram á að komast frá heimilinu oftar en 2x í viku til að stunda einhvers konar líkamsrækt, slepptu því þá bara. Það tekur því ekki.

Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að þú ert í jafngóðum/slæmum málum, hvort sem þú hangir í sófanum heima hjá þér 7 daga vikunnar eða 5 daga vikunnar. I dont think so.

Ég veit um nýlegt dæmi þess að læknir sagði við mann sem er um 8 kg of þungur en  í fullkomlega góðu líkamlegu ástandi: það er ekki nóg að fara í göngutúra!!!

Ekki nóg til hvers!! Að ná af sér þessum 8 kílóum? Eða til að halda heilsu?

Það fauk í mig hreinlega. Hvað ef þessi maður hefur ekki tök á, eða engan áhuga á að fara inn á líkamsræktarstöð? Er þá betur heima setið en farið í röskan göngutúr 3x í viku?

Mér finnst hreinlega ábyrgðaratriði hvað fólk í þessum geira lætur út úr sér.

Hvað með allt fólkið þarna úti sem hefur ekki hreyft sig í 30 ár, en vill taka sig á? Svona skilaboð frá lækni eða líkamsræktarfrömuði fær suma til að missa kjarkinn. Fallast hendur. Verkefnið vex þeim í augum og verður of stórt.

Er eitthvað betra en að byrja á göngutúrum á þeim hraða sem fólk ræður við og feta sig smám saman upp í röskan gönguhraða sem aftur skilar auknu blóðrennsli og reynir mátulega mikið á hjarta og lungu?

Mín trú er sú að öll hreyfing er af hinu góða. Ef ég hreyfði mig 20 mínútur í dag, þá voru þær 20 mínútur svo sannarlega þess virði. Betri en 10 mínútur. Og ef ég hreyfði mig í 10 mínútur í dag þá voru þær betri en 2 mínútur. Slagsmál við Þann Einhverfa í fimm mínútur geta svo sannarlega skilað mér stærri upphandlegssvöðvum.

Það sem ég er að reyna að segja er: látum ekki segja okkur að til þess að hreyfing skili okkur einhverju þurfum við að fara eftir einhverjum stöðlum og uppskriftum. Nýtum þann tíma sem við höfum, þegar við höfum orku og löngun og munum að 10 mínútur hér og 15 mínútur þar gera sitt gagn. Ætlum okkur ekki of mikið og verum ánægð með það sem við afrekum.

Þetta var pistill í boði Jónu besservisser.


Ég fitna ekki í dag - það er alveg ljóst

Síminn hringdi í gærkvöldi.  Það var Fríða brussubína, stuðningsmamma með meiru.

Ég ætla bara að segja þér hvað sonur þinn er æðislegur og ég elska hann út af lífinu.

Mér hitnaði um hjartaræturnar. Nú? Sagði ég þó ég væri henni hjartanlega sammála. Hvað var hann að gera?

Æi, ekki neitt. Hann er bara svo mikið yndi.

Svo sagði hún mér að hann hefði orðið eitthvað fúll út í sig og verið með tárin í augunum en þau sættust og þá fékk hún faðmlag og knús.

Það er nefnilega það sem Sá Einhverfi gerir þegar hann verður vondur út í mann. Hann fær samviskubit og móral eftirá og þarf þá mikið á faðmlagi að halda. Þessi faðmlög gefa manni svoooo mikið því samkvæmt handbók einhverfra um hvernig eigi að hegða sér þá brýtur hann held ég reglu nr. 7, grein 4, með svona eðlilegri hegðun.

Sá Einhverfi var sem sagt hjá stuðningsfjölskyldunni sinni í nótt og Gelgjan var hjá Viðhenginu þar til seint í gærkvöldi. Við Bretinn ætluðu því að hafa það huggulegt en það skemmdi fyrir að mér leið eitthvað undarlega. Var óglatt og drusluleg (ég kalla það að vera tussuleg en ég kann ekki við að nota það orð hér).

Ég dröslaði því bala inn í herbergi þegar ég fór að sofa. Alveg handviss um að ég myndi vakna í nótt og kasta upp. Það gerðist ekki en deginum í dag hef ég eytt að mestu upp í rúmi því hver hreyfing vekur hjá mér ógleði. NEI ÉG ER EKKI ÓLÉTT.

Samt er dagurinn búinn að vera góður þó undarlegt sé.

Ég svaf að sjálfsögðu út. Sá Einhverfi ekki heima og þá notar maður tækifærið og sefur út. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki ennþá hversu illa mér leið. Enda steinsofandi.

Um hádegisbilið hringdi Lísa bloggvinkona. Hún ætlaði að koma og fá lánað hjá mér eitthvað smádót sem hana vantaði fyrir þemakvöld hjá Senu. Ég tók verkjatöflu og tvíelfdist. Við sátum heillengi yfir kaffibolla og spjölluðum.

Eftir það skreið ég upp í rúm og sofnaði. Vaknaði við að Fríða og co voru komin með Þann Einhverfa sem lék á alls oddi. Ég rétt hékk á fótum þangað til þau fóru og svo var það bara rúmið aftur.

En ég hef fengið heimsóknir upp í rúm til mín í dag, eins og sönnum sjúklingi sæmir. Unglingurinn lá hér um stund við hliðina á mér og fletti Séð & Heyrt. Kettir og hundur hafa veitt mér félagsskap inn á milli. Gelgja með tíkarspena liggur nú við hliðina á mér og les það sem ég skrifa. Sá Einhverfi hefur nokkrum sinnum kastað sér yfir mig með allan sinn þunga og æpt; hjálp hjálp, hjálpiði mér. Það var nú meira ég sem þurfti á hjálp að halda.

Bretinn hefur komið reglulega og spurt hvort hann eigi að færa mér eitthvað. Breiddi yfir mig aukasæng í dag þegar mér var kalt, þrátt fyrir dúnsæng, heitan ofn og lokaðan glugga.

Á milli svefns og vöku í dag og í kvöld hef ég hlustað á vindinn gnauða fyrir utan gluggann og fjölskyldumeðlimi, jafnt fjórfætta og þá sem ganga um á tveimur fótum, athafna sig í húsinu. Og mitt í ógleðisköstum og beinverkjum hef ég flissað aðeins ofan í koddann. Verið glöð og fundið fyrir þakklæti.

Ég hlustaði á Bretann berjast við að fá Þann Einhverfa til að hætta í tölvunni og fara að bursta tennurnar. Á endanum kippti Bretinn tölvunni úr sambandi. Að heyra orminn minn, sem eitt sinn var mállaus góla á pabba sinn; Pabbi, hvað ertu að gera?!! er ekkert nema yndislega tilfinning. Og inni á baði við tannburstun; Pabbi, farðu fram.

Ekki aðeins hefur hann aukið við orðaforðann heldur eykst tilfinningin í röddinni. Orðin koma ekki vélrænt upp úr honum lengur.

Hvernig get ég annað en verið þakklát fyrir svona dag? Ekki aðeins fékk ég  að fylgjast með fjölskyldunni úr fjarlægð og uppgötva hana á nýjan hátt, heldur lifði ég matarlausan dag sem þýðir hvað...? Að minnsta kosti eitt kg niður á vigtinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband