Leita í fréttum mbl.is

Hverju á að trúa?

Ég er ein af þessum jó-jó manneskjum. Hef alltaf verið. Rokkað upp og niður í vigt. Allt farið eftir veðri og vindum, skapsveiflum, meðgöngum, stöðu ástarlífsins o.sfrv.

Hef tekið tarnir og drukkið í mig allt sem skrifað er um heilsu, líkamsrækt, mataræði og svo mætti endalaust telja.

Ég veit að margir þekkja sig í þessari lýsingu. Kannski sérstaklega kvenfólk. Við erum manískar á eigið útlit og líkama. Finnum okkur alltaf eitthvað til foráttu. Ef það er ekki til staðar þá búum við það til.

Ég hélt aldrei að ég myndi þroskast og finnast ég verða sátt við sjálfa mig.  Þessi tilfinning sem mér skilst að þroskaðar konur finni oft fyrir. Séu búnar að finna sjálfar sig og séu sáttar eins og þær eru. Andlega og útlitslega.

En mér finnst ég finna þennan þroska læðast upp að mér. Í litlum skömmtum. Smáum skrefum. Hann lýsir sér í því að ég sætti mig við minna. Þá á ég við að mér finnst ég ekki þurfa að vera fullkomin. Hvorki í útliti né að öðru leyti. En ég hef lofað mér því að þegar fertugsafmælið mitt (september 2008) rennur upp ætla ég að:

  • Að vera í því besta líkamlega formi sem ég hef nokkru sinni verið (og trúið mér, það er alls ekki óraunhæft þar sem ég hef aldrei stundað íþróttir og reykti frá 15 ára aldri þar til í febrúar á þessu ári)
  • vera í kjörþyngd (kemur að sjálfu sér ef ég hreyfi mig og borða minna en ég brenni)
  • líta frísklega út (kemur að sjálfu sér ef ofagreind atriði eru uppfyllt)
  • vera heilbrigð (ekki undir mér komið að öllu leyti, en góðar líkur ef öll ofangreind atriði eru uppfyllt) 

Og út af því að ég er orðin þroskuð kona og búin að slá af kröfunni um fullkomleikann, þá er ég að leita að lífsstíl. Ekki átaki í 8 vikur eða 12. Heldur lífsstíl sem ég fylgi það sem eftir er ævinnar.

Og þá kem ég að kjarna málsins. Við teljum okkur öll vita hvernig hinn rétti lífsstíll á að vera. Hvað sé hollt. Hvað sé nægjanleg eða nauðsynleg hreyfing til að halda sér í formi. En ef grannt er skoðað þá eru skilaboðin þarna úti svo mismunandi að það getur gert hvern meðalgreindan mann brjálaðan.

Frá hinum og þessum líkamsræktastöðvum, einkaþjálfurum, læknum, misvel upplýstum blaðamönnum sem skrifa um málefnið, næringafræðingum og alls konar besservisserum streyma upplýsingar og leiðbeiningar. Og ekki hafa allir sömu sögu að segja.

Ég ætla að nefna hér dæmi:

Líkaminn byrjar ekki að brenna umframorku fyrr en stanslaus hreyfing hefur átt sér stað í 20-30 mínútur.

Með öðrum orðum: ef þú ætlar að hreyfa þig, dont bother ef þú sérð aðeins fram á 15 mínútna hreyfingu því það hefur ekkert upp á sig.

Hvað þá með alla predikunina um að ganga út í búð í stað þess að keyra þangað? Eða fara úr strætó einni stoppustöð fyrr  og ganga rest? Eða ganga upp stigana í stað þess að taka lyftu.

Ekkert af þessu gefur okkur 20-30 mínútna hreyfingu. Jú ef við ætlum í Kaupfélagið á Króknum, eða förum úr strætó áður en við stígum upp í hann, eða ef við höfum stigana í Eiffelturninum í huga.

Nauðsynlegt er að hreyfa sig minnst 3 sinnum í viku í lágmark 3o mínútur í senn.

Með öðrum orðum; ef þú sérð ekki fram á að komast frá heimilinu oftar en 2x í viku til að stunda einhvers konar líkamsrækt, slepptu því þá bara. Það tekur því ekki.

Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að þú ert í jafngóðum/slæmum málum, hvort sem þú hangir í sófanum heima hjá þér 7 daga vikunnar eða 5 daga vikunnar. I dont think so.

Ég veit um nýlegt dæmi þess að læknir sagði við mann sem er um 8 kg of þungur en  í fullkomlega góðu líkamlegu ástandi: það er ekki nóg að fara í göngutúra!!!

Ekki nóg til hvers!! Að ná af sér þessum 8 kílóum? Eða til að halda heilsu?

Það fauk í mig hreinlega. Hvað ef þessi maður hefur ekki tök á, eða engan áhuga á að fara inn á líkamsræktarstöð? Er þá betur heima setið en farið í röskan göngutúr 3x í viku?

Mér finnst hreinlega ábyrgðaratriði hvað fólk í þessum geira lætur út úr sér.

Hvað með allt fólkið þarna úti sem hefur ekki hreyft sig í 30 ár, en vill taka sig á? Svona skilaboð frá lækni eða líkamsræktarfrömuði fær suma til að missa kjarkinn. Fallast hendur. Verkefnið vex þeim í augum og verður of stórt.

Er eitthvað betra en að byrja á göngutúrum á þeim hraða sem fólk ræður við og feta sig smám saman upp í röskan gönguhraða sem aftur skilar auknu blóðrennsli og reynir mátulega mikið á hjarta og lungu?

Mín trú er sú að öll hreyfing er af hinu góða. Ef ég hreyfði mig 20 mínútur í dag, þá voru þær 20 mínútur svo sannarlega þess virði. Betri en 10 mínútur. Og ef ég hreyfði mig í 10 mínútur í dag þá voru þær betri en 2 mínútur. Slagsmál við Þann Einhverfa í fimm mínútur geta svo sannarlega skilað mér stærri upphandlegssvöðvum.

Það sem ég er að reyna að segja er: látum ekki segja okkur að til þess að hreyfing skili okkur einhverju þurfum við að fara eftir einhverjum stöðlum og uppskriftum. Nýtum þann tíma sem við höfum, þegar við höfum orku og löngun og munum að 10 mínútur hér og 15 mínútur þar gera sitt gagn. Ætlum okkur ekki of mikið og verum ánægð með það sem við afrekum.

Þetta var pistill í boði Jónu besservisser.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mikið er ég hjartanlega sammála þér! Svonalagað dregur bara úr manni. Veit um gamla konu sem hafði verið kyrrsetumanneskja um árabil og ákvað að taka sig á heilsunnar vegna. Hún fann mikinn mun á sér, andlega og líkamlega, eftir nokkrar vikur bara við það að labba rólega 5-10 mínútur hring í kringum húsið sitt og lóðina á hverjum degi.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.11.2007 kl. 00:02

2 Smámynd: Elísabet Sóley Stefánsdóttir

ójá ég veit sko hvað þú ert að tala um, óþolandi ástand hehe

Svo sammála þér með þetta, öll hreyfing er til góðs og meira að segja slagsmálin við börnin :-)

kveðja súpermamma

Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 19.11.2007 kl. 00:03

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott markmið Jóna.  Ég skipti um lífstíl (á enn eftir að hætta að reykja og hreyfa mig almennilega) og bara við að breyta mataræðinu hressist ég um allan helming (segi ég sem geta varla lyklaborðast núna fyrir slappleika, en það er bara núna).  Gott hjá þér og ég vona að þú sért orðin heilbrigð frú besserwissari.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.11.2007 kl. 00:38

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sara. Einmitt. Látum ekki rugla svona í hausnum á okkur svo einhverjir selji fleiri kort í líkamsræktina

Guðríður. Nákvæmlega svona dæmi sem ég á við.

Súpermamma. Bara berja börnin nógu oft hehe

Jenný. Þú verður bráðum hressari en fjandinn á lyklaborðinu, sem og annars staðar.

Jóna Á. Gísladóttir, 19.11.2007 kl. 00:41

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Velkomin í hóp okkar þroskuðu kvenna sem erum nærri 100% sáttar við okkur sjálfar.  Ég veit að það er betra að fara út að ganga daglega frekar en að liggja í Lazy boy og mig langar en ég get það oftast ekki, mér finnst samt betra að fara stundum frekar en aldrei.  Kær kveðja á þig og þína og eigðu góða vinnuviku. 

Ásdís Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 01:42

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Æ, hvað þú ert eitthvað yndislegur besservisser!
Takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.11.2007 kl. 01:54

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gott plan !

Marta B Helgadóttir, 19.11.2007 kl. 02:14

8 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Mig virkilega langaði að vera í fýlu við þig, en það er bara ekki hægt!

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.11.2007 kl. 03:27

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrikalega er ég sammála þér!! Auðvitað hlýtur það að vera betra að ganga í 15-20 mín á dag heldur en hreyfa sig ekki neitt. Það liggur í augum úti...

Knús á þig dúlludúskur

Hrönn Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 07:51

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ef maður er nokkur kíló yfir svk. kjörþyngd hefur maður þau til að mæta áföllum við alvarleg veikindi og alltaf öðru hverju heyrist að lífslíkurnar séu meiri við vikið. Hreyfing þótt lítil sé er miklu hollari en megrun. Það getur vel verið að skáletruðu málsgreinarnar sem þú birtir eigi við ef einhver ætlar í keppni í líkamshreysti. Mitt markmið er að viðhalda eigin heilsu en ekki að vera "í þjálfun".

Ég sá þáttinn um Óbeislaða fegurð, fegurðarsamkeppnina í Hnífsdal fyrr á árinu, í gærkvöldi. Yndislega skemmtilegur þáttur.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.11.2007 kl. 07:58

11 Smámynd: Ásta Björk Hermannsdóttir

Jahá! Það munar ekkert um það.

Þarna er það komið:: ALLT::sem maður er endalaust að spá í, ég er sko hjartanlega sammála þessu alveg sama hvað er sagt auðvitað munar um hvert skipti sem maður hreyfir sig, hvort sem það er 2 eða 4x í viku.  Eins og staðan er á sumum heimilum í dag þá er ekkert sjálfgefið að fólk komist í ræktina á einhverjum settum tíma, nei þá held ég að það sé betra að fara þegar maður kemst en að fara bara ekki neitt( eins og undirrituð haha)(sko ég).

En ég er með möörg aukakíló og í miklum áhættuhópi á allskonar "á unnum" sjúkdómum, en samt líður mér ekki eins og ég sé að springa úr spiki, ég er bara svona og þangað til eitthvað gerist í kollinum á mér þá bara verð ég "feit og falleg"

Ásta Björk Hermannsdóttir, 19.11.2007 kl. 08:18

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jóna mín, við höfum þekkst svo lengi að þú mátt alveg kalla mig GURRÍ, algjör óþarfi að skamma mig svona á blogginu, elskan.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.11.2007 kl. 08:23

13 identicon

ÞAR ÁTTIR ÞÚ KOLLGÁTUNA

alva (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 08:30

14 Smámynd: Heidi Strand

Hver verður að finna sinn takt. Gott er að hafa markmið. Mitt var að komast í splitt fyrir fimmtugsafmælið, en er núna búin að færa markmiðið yfir á sextugsafmælið.

Heidi Strand, 19.11.2007 kl. 08:48

15 Smámynd: Þröstur Unnar

Skemtilegar pælingar Jóna

Kommon stelpur. Þið verðið að taka almennilega á því ef þið ætlið ekki að verða slyppildi um fertugt.

Þröstur Unnar, 19.11.2007 kl. 08:52

16 Smámynd: Þröstur Unnar

Sumir kalla það búðing.

Þröstur Unnar, 19.11.2007 kl. 08:53

17 identicon

Til hamingju með að vera hætt að reykja,hvað með einhver örfá kíló,eru ekki nýjar rannsóknir sem sýna það betra ef eitthvað er með einhverri hreyfingu.Þú ert flott kona hef séð mynd af þér tengdan sjónvarpsþættinum hjá Ólínu. ...en þetta er allt saman fánýti miðað við þinni innri mann sem og þann texta sem þú lætur frá þér fara oft á tíðum.Held að við konurnar eigum að hætta að taka þátt í þessum útlitsfasisma.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 09:50

18 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Vertu ánægð með sjálfa þig! Stundum er ekki nóg að segja þessa setningu..það er kúnstin að vera sannfærður og sannfæringin er ekki keypt út í búð. Ef einhver segir:Það er ekkert að þér, þú ert fín eins og þú ert!" þá er málið að trúa því.  Fólk segir  svona þó það meini það ekki....eða...ekki færi nokkur maður að segja: Það er ósköp að sjá þig..allt of feit, hrukkótt og mikið slyppildi. Blessuð farðu og pantaðu tíma hjá Jens Kjartans og láttu flikka upp á þig! 

Rúna Guðfinnsdóttir, 19.11.2007 kl. 10:31

19 Smámynd: Ómar Ingi

Æfingar í rúminu og málið dautt

Ómar Ingi, 19.11.2007 kl. 10:54

20 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

frábær pistill Jóna!

Eins og alltaf

Guðrún Jóhannesdóttir, 19.11.2007 kl. 11:18

21 Smámynd: Dísa Dóra

Sammála

 Þetta með kjörþyngdina - eru ekki einmitt nýjustu rannsóknir að sýna að það er bara betra að vera með nokkru kíló yfir þessarri svokallaðri kjörþyngd? - svo kannski fer bara kjörþyngdarstuðullinn að hækka

Dísa Dóra, 19.11.2007 kl. 12:48

22 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Ja ég ætla að vona að öll hreyfing sé af hinu góða.. ég þarf alltaf að hreyfa mig reglulega ef ég á að geta fætt drengina mína, ég geng út í búð, og stundum eitthvað fleira, tökum strætó einhvert og löbbum um...

En já, ég gæti ekki hætt að hreyfa mig svona þótt það væri ekki að skila neinum árangri líkamlega, þar sem ég bara verð að fara út í búð

Guðríður Pétursdóttir, 19.11.2007 kl. 13:30

23 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góð áminning. Það er auðséð að þú ert hjá Báru! Afhverju rekst ég aldrei á þig?

Tek undir með Ingólfi að þátturinn um óbeislaða fegurð var dásamlegur.

Edda Agnarsdóttir, 19.11.2007 kl. 14:49

24 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég elska svona besserwissera eins og þig.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.11.2007 kl. 15:56

25 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk fyrir góðan og hressandi pistil fyrir konu sem er alltaf í megrun !

Sunna Dóra Möller, 19.11.2007 kl. 17:01

26 Smámynd: Ívar Pálsson

Rétt, Jóna! Öll eðlileg hreyfing er góð. Svo á maður að njóta þess á meðan hvað maður verður mikið hressari, jafnvel af korters göngutúr. Fjallgöngur inni á milli hressa verulega. Næsti hóll og næsta fjall er alltaf rétt hjá. Sigraðu þig sjálfa.

Ívar Pálsson, 19.11.2007 kl. 17:19

27 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Kjörþyngd: Sú þyngd sem ég hef kjörið mér að vera í hverju sinni.

Gísli Ásgeirsson, 19.11.2007 kl. 19:25

28 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þarna kom Gísli með réttu skilgreininguna á orðinu kjörþyngd.

Mmmmmuummm...................... ertu semsagt hætt í ræktinni, erða það sem þú ætlaðir að segja.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 19.11.2007 kl. 22:49

29 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 Takk fyrir skemmtileg komment börnin góð.

Ásdís. ég er reyndar svolítið langt frá 100 prósentunum en vonandi kemur það allt saman.

Helga Guðrún. Aldrei gott að vera lengi í fýlu

Ingólfur. Ég þarf að sjá þennan þátt

Ásta Björk. ''Feit og falleg'' er auðvitað dásamlegt

Heidi. hahaha þarna gafstu mér nýtt markmið

Þröstur. Búðingur með saft. mmmm.. þarf að verða mér úti um svoleiðis.

Hallgerður. Takk fyrir það. Útlitsfasismi er gott orð

Rúna. Ég hef heyrt að Jens sé ansi góður´

Gísli þetta er gott sjónarmið. Ég ætla samt að vera leiðinleg. ''Kjör'' í kjörþyngd merkir auðvitað kjörið, æskilegt eða viðeigandi. Hefur ekkert að gera með kosningu eða að kjósa sér. Því miður  ég vildi gjarnan geta kosið mér kjörþyngd.

Högni. Nei það er ekki svo slæmt  en ég er vissulega ekki að taka þetta með trompi eins og í átakinu hér um árið

Jóna Á. Gísladóttir, 19.11.2007 kl. 23:26

30 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Hmmm... ég verð fertug í ágúst á næsta ári og er einmitt að íhuga bót og betrun á líkamlegri og andlegri heilsu.  Þetta eru góð markmið hjá þér.  Minn læknir segir reyndar að sund og ganga sé besta hreyfingin og það er maður sem er vanur að vinna með fólki í misjöfnu ástandi.  Auðvitað telur öll hreyfing og svo er um að gera að gera þetta á eigin forsendum.  Gangi þér vel og ég skal reyna að standa mig í mínu horni.

Þórdís Guðmundsdóttir, 20.11.2007 kl. 10:17

31 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk Þórdís. Gangi þér vel sömuleiðis í þínu horni

Jóna Á. Gísladóttir, 20.11.2007 kl. 11:48

32 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

ég keypti mér tíu skipta sundkort þegar ég flutti til aftur landsins í júlí í fyrra, ætlaði alldeilis að synda af mér spikið...............kláraði það núna um daginn(sundkortið sko, ekki spikið því miður)

Sigríður Hafsteinsdóttir, 20.11.2007 kl. 12:40

33 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sigríður. hehe ég kannast við þetta

Jóna Á. Gísladóttir, 20.11.2007 kl. 14:07

34 Smámynd: Kári Harðarson

Ég hef farið einn að hlaupa á bretti í líkamsrækt en aldrei enst lengi.  Ég ætla aldrei að kaupa þannig kort aftur.  Hins vegar hlakka ég til að fara út í Vesturbæjarlaug og hitta hópinn sem hleypur þar oft í viku, og kjafta með þeim í pottinum á eftir.

Maður er manns gaman.  Og öll hreyfing er betri en engin.

Kári Harðarson, 22.11.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1639864

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband