Leita í fréttum mbl.is

Ég fitna ekki í dag - það er alveg ljóst

Síminn hringdi í gærkvöldi.  Það var Fríða brussubína, stuðningsmamma með meiru.

Ég ætla bara að segja þér hvað sonur þinn er æðislegur og ég elska hann út af lífinu.

Mér hitnaði um hjartaræturnar. Nú? Sagði ég þó ég væri henni hjartanlega sammála. Hvað var hann að gera?

Æi, ekki neitt. Hann er bara svo mikið yndi.

Svo sagði hún mér að hann hefði orðið eitthvað fúll út í sig og verið með tárin í augunum en þau sættust og þá fékk hún faðmlag og knús.

Það er nefnilega það sem Sá Einhverfi gerir þegar hann verður vondur út í mann. Hann fær samviskubit og móral eftirá og þarf þá mikið á faðmlagi að halda. Þessi faðmlög gefa manni svoooo mikið því samkvæmt handbók einhverfra um hvernig eigi að hegða sér þá brýtur hann held ég reglu nr. 7, grein 4, með svona eðlilegri hegðun.

Sá Einhverfi var sem sagt hjá stuðningsfjölskyldunni sinni í nótt og Gelgjan var hjá Viðhenginu þar til seint í gærkvöldi. Við Bretinn ætluðu því að hafa það huggulegt en það skemmdi fyrir að mér leið eitthvað undarlega. Var óglatt og drusluleg (ég kalla það að vera tussuleg en ég kann ekki við að nota það orð hér).

Ég dröslaði því bala inn í herbergi þegar ég fór að sofa. Alveg handviss um að ég myndi vakna í nótt og kasta upp. Það gerðist ekki en deginum í dag hef ég eytt að mestu upp í rúmi því hver hreyfing vekur hjá mér ógleði. NEI ÉG ER EKKI ÓLÉTT.

Samt er dagurinn búinn að vera góður þó undarlegt sé.

Ég svaf að sjálfsögðu út. Sá Einhverfi ekki heima og þá notar maður tækifærið og sefur út. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki ennþá hversu illa mér leið. Enda steinsofandi.

Um hádegisbilið hringdi Lísa bloggvinkona. Hún ætlaði að koma og fá lánað hjá mér eitthvað smádót sem hana vantaði fyrir þemakvöld hjá Senu. Ég tók verkjatöflu og tvíelfdist. Við sátum heillengi yfir kaffibolla og spjölluðum.

Eftir það skreið ég upp í rúm og sofnaði. Vaknaði við að Fríða og co voru komin með Þann Einhverfa sem lék á alls oddi. Ég rétt hékk á fótum þangað til þau fóru og svo var það bara rúmið aftur.

En ég hef fengið heimsóknir upp í rúm til mín í dag, eins og sönnum sjúklingi sæmir. Unglingurinn lá hér um stund við hliðina á mér og fletti Séð & Heyrt. Kettir og hundur hafa veitt mér félagsskap inn á milli. Gelgja með tíkarspena liggur nú við hliðina á mér og les það sem ég skrifa. Sá Einhverfi hefur nokkrum sinnum kastað sér yfir mig með allan sinn þunga og æpt; hjálp hjálp, hjálpiði mér. Það var nú meira ég sem þurfti á hjálp að halda.

Bretinn hefur komið reglulega og spurt hvort hann eigi að færa mér eitthvað. Breiddi yfir mig aukasæng í dag þegar mér var kalt, þrátt fyrir dúnsæng, heitan ofn og lokaðan glugga.

Á milli svefns og vöku í dag og í kvöld hef ég hlustað á vindinn gnauða fyrir utan gluggann og fjölskyldumeðlimi, jafnt fjórfætta og þá sem ganga um á tveimur fótum, athafna sig í húsinu. Og mitt í ógleðisköstum og beinverkjum hef ég flissað aðeins ofan í koddann. Verið glöð og fundið fyrir þakklæti.

Ég hlustaði á Bretann berjast við að fá Þann Einhverfa til að hætta í tölvunni og fara að bursta tennurnar. Á endanum kippti Bretinn tölvunni úr sambandi. Að heyra orminn minn, sem eitt sinn var mállaus góla á pabba sinn; Pabbi, hvað ertu að gera?!! er ekkert nema yndislega tilfinning. Og inni á baði við tannburstun; Pabbi, farðu fram.

Ekki aðeins hefur hann aukið við orðaforðann heldur eykst tilfinningin í röddinni. Orðin koma ekki vélrænt upp úr honum lengur.

Hvernig get ég annað en verið þakklát fyrir svona dag? Ekki aðeins fékk ég  að fylgjast með fjölskyldunni úr fjarlægð og uppgötva hana á nýjan hátt, heldur lifði ég matarlausan dag sem þýðir hvað...? Að minnsta kosti eitt kg niður á vigtinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hehehehhe, hamingjusöm megrun, slíkt ætti að selja í dósum.

Guðríður Haraldsdóttir, 18.11.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Batakveðjur úr óveðrinu, og til hamingju með kílóið mínus

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.11.2007 kl. 00:44

3 identicon

Góðan bata

Elva (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 00:55

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Láttu þér líða vel.....

Hrönn Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 00:57

5 identicon

Njóttu þess að kúra Jóna mín........ef hægt er  að óska þess að njóta lasleika Var með þessa lymsku í vikunni og lyfti ekki haus af kodda í tvo daga. Hlakka til að frétta af þér og hvernig líst Bretanum á HHH í vinnunni?

Knús og klem

Elísa (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 01:01

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Fátt er notalegra en að heyra sína nánustu sýsla í grennd og finna nærveruna og öryggið sem því fylgir. Njóttu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.11.2007 kl. 01:44

7 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Öfunda þig af kílóamissinum en ekki af veikindunum - góðan bata Jóna mín og hafðu það gott í dag! (eða á morgun)

Edda Agnarsdóttir, 18.11.2007 kl. 01:44

8 identicon

Dásamleg færsla að venju.

Láttu þér batna Jóna mín, það er ómögulegt að liggja svona lasin.  

Guðrún B. (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 01:58

9 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Góðan bata

Svava frá Strandbergi , 18.11.2007 kl. 02:59

10 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Er akkúrat búið að líða svona undanfarna ..... 10 daga eða svo. Nei, ekki heldur ólétt!!!!!!!

Láttu þér batna.

Eva Þorsteinsdóttir, 18.11.2007 kl. 05:17

11 Smámynd: Elísabet Sóley Stefánsdóttir

hehe já það er sko YNDISLEGT þegar þau ná að tjá sig svona og hvert framfæraskref er okkur mömmunum svo mikið. Maður sér þetta miklu minna há heilbrigðu börnunum, en hvert þroskaskref hjá okkar börnum er eins og gull :-)

sendi þér batastrauma

kveðja Elísabet

Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 18.11.2007 kl. 09:42

12 Smámynd: Heidi Strand

Ég samgleðst þér með framfarirnar.

Heidi Strand, 18.11.2007 kl. 10:08

13 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Þú tekur öllu að venju á jákvæðunótunum. Samt, ekki gott að vera lasin. Vonandi batnar þér sem fyrst og til hamingju með framfarirnar. Knús

Bjarndís Helena Mitchell, 18.11.2007 kl. 10:40

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góðan bata

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.11.2007 kl. 12:28

15 identicon

Ohhh nú skemmilegg ég allt fyrir þér - það er fitandi að borða ekki - been there, seen it -

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 13:08

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir kveðjurnar þið öll.

Anna. sko. nei, það er ekki fitandi að borða ekki. það sem þú lætur ofan í þig eftir matarlausa tímann, það er fitandi. Eða eins og Bára vinkona mín hjá JSB sagði: ég hef heyrt allar afsakanir í heiminum. Staðreyndin er sú að það eina sem fitar mann er að sem fer í gegnum magann.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.11.2007 kl. 14:56

17 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég vona að þér sé farið að líða betur. Veistu, ég hef lést a.m.k um 3 kíló á sl. viku. Ekki  alslæmt að vera veikur

Rúna Guðfinnsdóttir, 18.11.2007 kl. 15:11

18 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Rúna ég býð þér hér með í heimsókn til að smita mig. Heitt á könnunni

Jóna Á. Gísladóttir, 18.11.2007 kl. 15:13

19 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Láttu þér batna Jóna mín  það er allavega gott að hafa góða að þegar að heilsan er ekki upp á sitt besta  Knús á þig

Katrín Ósk Adamsdóttir, 18.11.2007 kl. 15:14

20 identicon

Æi - þar fór það

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 15:22

21 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk Katrín mín

Anna. hehe 

Jóna Á. Gísladóttir, 18.11.2007 kl. 15:27

22 Smámynd: Hugarfluga

Horfð'á björtu hliðarnaaaaar! Ég hef eflaust fengið á mig þetta kíló sem þú tapaðir ... úff ... say no more. Vona að þú sért að hressast.

Hugarfluga, 18.11.2007 kl. 17:17

23 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú ert svo skemmtilega gullið mitt, veistu það?? þú ert eins og ljós í skugga, sendir okkur gullkorn og gleði þrátt fyrir að þú átt örugglega daprar stundir með drenginn þinn, samt er hann svo yndislegur eins og við þekkjum hann, það væri örugglega gaman að fá að hitta hann einhverntíman.  Vona að þér batni sem fyrst, pestar eru alltaf leiðinlegar, barnabörnin mín hafa verið að gubba hvort á fætur öðru síðustu viku.  Eigðu góða viku framundan og kær kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 19:01

24 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Æ hvað þú ert alltaf yndislega jákvæð þó þú sért t....leg

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 18.11.2007 kl. 22:23

25 Smámynd: Gunna-Polly

Góðar bata

Gunna-Polly, 18.11.2007 kl. 22:50

26 identicon

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott!

Þú ert greinilega snillingur í að sjá björtu hliðarnar - vona að þú hristir þetta fljótt af þér.

Kv. Anna Lilja 

Anna Lilja Torfadottir (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1639942

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband