Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Dagur 1 í sumarfríi - Ég keypti mér skó í gær

 

Mánudagur 29. júní 2009

1. dagur sumarfrís. Kerlingin eyddi peningum. Karlinn fór í golf.

 

Ég keypti mér skó í gær...................................................................

Segir það ekki allt sem segja þarf um gærdaginn? Það gefur auga á leið að hann var vel heppnaður.

Friis & Company, Kringlunni, bauð mér (ásamt heilum helling af öðrum dömum) að koma og versla eftir lokun. Og ég mætti á svæðið með einbeittan brotavilja, þ.e. að eyða peningum.

Að máta skó og skart með hvítvínsglas í annarri hönd, er ekki amalegt. Og vökvinn gerir það að verkum að kortið er rétt fumlaust fram og án alls samviskubits.

Svo vaknar maður bara upp með eyðslu-timburmenn sem rjátla af manni og eru horfnir með öllu upp úr hádegi.    ....þar til Visa-reikningurinn dettur inn um lúguna. 

En það breytir því ekki að eftir stendur gordjöss par af skóm sem eru mínir. MÍNIR!

 


No búfé allowed to cross

 

Við keyrðum austur í sumabúðirnar í dag með Þann Einhverfa. Hann var glaður, kátur, spenntur og fullur tilhlökkunar. Sitjandi í aftursætinu með gifsspelkuna sína á hægri handlegg og fatlann hangandi um hálsinn. Hann ljómaði eins og sólin þegar húsið á Laugalandi kom í ljós. Það gladdi mig ekki lítið.

Við byrjuðum á því að kíkja á herbergið hans og losa okkur við töskuna. Svo fórum við fram í matsal og fengum okkur að borða. Svo stakk stráksi okkur af og fór niður í íþróttasalinn. Öllum hnútum kunnugur.

Þegar við komum niður var hann á harðahlaupum með bolta. það var ekki erfitt að koma auga á hann innan um allan hópinn. Svona stórglæsilegan í kóngabláu allt frá háu fótboltasokkunum, upp í derhúfuna í fánalitunum.

Við spjölluðum við Telmu sem verður hans umsjónaraðili í sumar á móti Ragnhildi. Létum hana fá allar upplýsingar um Þann Einhverfa sem okkur mögulega datt í hug.

Að því loknu var ég komin með aðskilnaðarkvíða og sagði við Bretann að best væri að kveðja og drífa sig af stað.

Við kölluðum á brosmilda drenginn okkar sem mátti í raun ekkert vera að því að tala við okkur.

Bless Ian sagði Bretinn og fékk koss. Sjáumst eftir 14 daga.

Sjáumst sagði Sá Einhverfi

Bæ ástin mín sagði ég og tók utan um hann.

Bæ sagði hann og hallaði höfðinu andartak upp að mér. Svo sneri hann sér snöggt við og gekk í burtu. Ég horfði á eftir honum því ég vissi að nokkur tár láku og hann var að fela þau.

Hann fékk sér sæti á stórri dýnu innst í salnum með bakið í okkur.

Þegar við fórum sat Telma hjá honum. Ég veit að hann hefur jafnað sig á 10 mínútum.

Kerlingin og karlinn jöfnuðu sig líka og  brenndu á veitingahúsið Fjöruborðið á Stokkseyri og borðuðu þar dásamlega humarsúpu ásamt nýju heimabökuðu brauði og hvítvínsglasi.

Á leiðinni heim vorum við í okkar venjulega gír, þ.e. tuðandi í hvort öðru. Það getur verið hin besta skemmtun. Allavega þar til öðru hvoru okkar tekst að koma svo við kauninn á hinu að úr verði alvöru rifrildi.

I will have to throw you out of the car now, sagði Bretinn skyndilega. There is no búfé allowed to cross over here. Hann benti á ímyndaða línu á veginum.

You mean no cows, sagði ég þurrlega.

Thats right, sagði Bretinn og hélt fast um stýrið. No cows allowed.

 

Og við sem erum rétt að hefja 2ja vikna frí saman.

Ég leyfi ykkur að heyra hvernig það gengur.

 

 


Ekki hægt að ímynda sér

 

Þetta er eitt það sorglegasta slys sem ég hef heyrt um. Og ég finn svo til með foreldrunum að ég er með stingi í hjartanu.

Það er á engan hátt hægt að ímynda sér hvað þau ganga í gegnum. Ansi hætt er við því að þau muni ekki geta unnið úr þessu saman.

Ég veit hvað flestir hugsa. Að þessi maður hljóti að vera ömurlegt foreldri. Hafi ekki elskað barnið sitt. Verið í dópinu.....

Og það er kannski eðlilegt að fólk hugsi slíkt. En ég veit um dæmi þar sem ósköp normal, eðlilegir og elskandi foreldrar hafa gleymt börnum sínum á einn eða annan hátt. Ég líka. Afleiðingarnar hafa hins vegar ekki verið neinar.

Þetta fólk á alla mína samúð og ekki síst faðirinn. Þvílíkar vítiskvalir sem hann gengur í gegnum. Og sér ekki fyrir endann á þeim.

Sendum frá okkur fallegar hugsanir.

Eigið góða helgi.

 

 


mbl.is Gleymdi 1 árs dóttur sinni í bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr á hægri fimmtudagur

 

Sá Einhverfi kom heim úr Vesturhlið síðastliðinn föstudag, plástraður í bak og fyrir. Eða því sem næst. Þar sem hann virtist finna til í hendinni vakti plásturinn á hægra handarbaki sérstaklega forvitni mína. Ekkert var að sjá þegar hann var fjarlægður en okkur Bretanum tókst nú samt að sjá bæði vísbendingar um bruna, sem og tannaför. Nett ímyndunarveiki.

Í samskiptabókinni var ekkert að finna um nein meiðsli eða óhapp svo ég ákvað að hann hefði dottið og meitt sig örlítið. Ef stráksi finnur einhvers staðar til þá heimtar hann plástur og krem, þó að ekkert sé sárið.

Á laugardeginum sá ég að Sá Einhverfi hlífði höndinni eftir bestu getu og þegar ég þreifaði hana þá kveinkaði hann sér. En hann var nú samt skrifandi og ég gat beygt alla putta á honum o.s.frv. Ég ákvað því að ég nennti ómögulega að fara upp á bráðamóttöku, sitja þar í fleiri klukkustundir, bara til að láta segja mér að strákurinn væri tognaður og ekkert hægt að gera.

en eftir að hafa hlustað á sögur hjá vinum og vandamönnum um börn sem nánast klifu fjöll hand- og fótbrotin vegna þess að foreldrarnir ''neituðu að hlusta á þetta væl.. bara smátognun'' o.sfrv., þá ákvað ég að svo slæm móðir gæti ég ekki verið.

Það var haldið í leiðangur, Sá Einhverfi, Bretinn og ég. Með í för upp á slysavarðsstöfu var bakpoki með ferðatölvunni minni og einum 7 DVD myndum. Ég var sko viðbúin 10 tíma viðveru í Fossvoginum.

Sá Einhverfi var ótrúlega duglegur. Aðalvandamálið var að fá hann til að taka af sér vatnsþétta úrið sitt sem hann ber ávallt á hægri hendi, til að hægt væri að mynda hann.

Annað vandamál var að ég fór næstum að grenja þegar læknirinn sagði að hann ætti að vera í gifsi í tvær vikur, því Sá Einhverfi er að fara í sumarbúðirnar á sunnudaginn og þar er farið í sund á hverjum einasta degi. Hugurinn fór á flug: ég yrði að afpanta fyrri vikuna og það yrði hræðilegt fyrir hann... og mig. Geðið mitt hangir á bláþræði og sá þráður er beintengdur við nk sunnudag. Ef ég ekki ek prinsinum mínum í sveitina þann dag, þá er ég hrædd um að þráðurinn slitni og verði fyrir varanlegum skaða.

En þetta var eðallæknir því hann lofar okkur nýju gifsi á fimmtudaginn. Reimað skilst mér. Hægt að fjarlægja og setja á aftur án vandkvæða.

Það spaugilega var að allt í allt tók þetta ekki nema um eina og hálfa klukkustund. Og út gekk sá Einhverfi með gifs-spelku á brákuðum úlnlið og hann hafði ekki náð að horfa á nema bara brot af Kalla Blómkvist.

Eftir að heim var komið með gifsaðan dreng sýndi hann tilburði í þá átt að vilja plokka heftiplástur og sárabindi sem handleggurinn var vafinn með, af sér. Því ákvað ég að láta hann sofa upp í hjá mér á sunnudagsnóttina til að vakta hann. Bretann rak ég í rúm sonarins.

Ég vaknaði á sunnudagsmorguninn um sexleytið, við það að Sá Einhverfi fór framúr. Ég reis upp við dogg og horfði á hann svefndrukknum augum. Eitthvað dinglaði í hendi hans. Ég rýndi betur og grunaði strax hvers kyns var. Litla skrímslið hélt á gifsinu ásamt henglum af sárabindi og heftiplástri. Þetta hafði hann dundað sér við í rúminu við hlið móður sinnar. Varlega og ævintýralega hljóðlega.

ARGH...

Mamma róleg, sagði skrímslið.

En ég var langt frá því að vera róleg. Ég fór og keypti nýtt sárabindi og heftiplástur og barasta ''klæddi'' drenginn í allt heila klabbið aftur. Hann hefur ekki vogað sé að endurtaka leikinn. Og nú er bara einn dagur í nýtt gifs.

Ég er aftur á móti búin að ljúga að honum allan tímann að hann fái úrið sitt aftur á fimmtudaginn. Slík lýgi getur verið nauðsynleg. Eins og í þessu tilviki til að hann fáist á endurkomudeildina með mér.

Og hann staglast á sömu orðum margoft á dag: Mamma, úr á hægri fimmtudagur.

Já Ian, segi ég með lygaramerki á fingrunum. Úr á hægri á fimmtudaginn.

 

 


Góði Guð gefðu mér samfellda rigningu í sumarfríinu

 

Er hægt að skrifa heila bók á 3 mánuðum? Það er sú spurning sem ég velti fyrir mér í dag. Og í gær reyndar líka. Og mun örugglega enn vera að velta henni fyrir mér á morgun.

Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Eða er það ekki annars?

Kannski er þetta spurning um að hætta að velta fyrir sér spurningum og koma sér að verki.

Eftir viku fer ég í 2ja vikna sumarfrí. Kannski lengra. Svei mér þá ég held ég biðji fyrir rigningu. Það verður ansi erfitt að halda sig inni við skrif í glaða glampanda sólskini.

Nema... er til einhvers konar skjávari fyrir laptop, svo hægt sé að sitja úti og actually sjá á skjáinn?


Frelsi

 

Það var komið að hinni mánaðarlegu gistingu í Hólabergi í dag. Sá Einhverfi var afskaplega vel ballanseraður og engin mótmæli komu frá honum þegar ég tilkynnti að tími væri til kominn að fara í bílinn og keyra í Hólaberg.

Hann gekk keikur inn í húsið, fór beint með töskuna sína inn í herbergi og kom sér síðan fyrir í sófa í sjónvarpshorninu.

Ég talaði í skamma stund við starfsfólkið en fór svo að faðma drenginn minn og kyssa í kveðjuskyni.

Bless ástin min, sjáumt á morgun klukkan  klukkan átta, sagði ég.

Hann endurgalt faðmlagið. Bless ástin mín, svaraði Sá Einhverfi. Sjáumst á morgun.

Ég gekk í burtu og mér var létt. Þetta var auðveldara en ég bjóst við. Svo leit ég um öxl og sá að hugrakki strákurinn minn var að reyna að halda aftur af grátviprunum um munninn. Vildi ekki að mamma sæi hann beygja af.

Ég hjúpaði hjartað harðri skel og gekk út í sólskinið. Ég vissi að hann myndi jafna sig mjög fljótt. 

Frelsistilfinningin heltók mig þegar ég settist undir stýri og ók í burtu. Rúmlega sólarhringur framundan af algjöru áhyggjuleysi og rólegheitum.

Ég er komin svooooo langa leið frá því sem einu sinni var: Ekkert samviskubit yfir að yfirgefa barnið mitt. Ekkert samviskubit yfir að fyllast frelsistilfinningu. Ekkert samviskubit yfir að hafa ekki samviskubit.

Allavega get ég talið sjálfri mér trú um það. Og það er sigur á vissan hátt.

 

 


Geirvörtur og naflar

 

Íslenska er fallegt mál að mínu mati, enda er ég Íslendingur. En sum orð mun ég aldrei geta sætt mig við.

Hvað er til dæmis málið með orðið nafli (borið fram nabbli)??

Íslenskir nabblar eru feimnismál og ég stend á þvi fastar en fótunum að ástæðan er þetta gelgjulega orð: NABBLI.

Það er ekkert sætt, krúttlegt eða sexý við orðið nabbli.

Muniði eftir unglingabókinni: Sjáðu sæta naflann minn.

Ææææ

Belly button er allt annar handleggur. Það er orð sem enginn þarf að skammast sín fyrir að segja upphátt. En ekki væri nú samt gott að þýða orðið beint yfir á íslensku:

  • maga-tala
  • bumbu-hnappur
  • vamba-takki

Neee... gengi aldrei

Svo er það orðið sem hrein skömm er af:

GEIRVÖRTUR

Þetta skelfilega orð kveikir ekki í nokkrum manni.

Konur, reynið að vera tælandi á sannfærandi hátt þegar þið segið við elskhuga ykkar: Geirvörturnar á mér eru pinnstífar af æsingi.... eða eitthvað slíkt.

Hverjum datt í hug að líkja þessum fallega parti af líkamanum, sem hefur þar að auki jafn göfugan tilgang,  við hann Geir sem var allur útsteyptur í vörtum? 

Nei má ég þá frekar biðja um hið dísæta og girnilega orð Ameríkana og Englendinga: nipples.

Jammí

Minnir á nibble (nart). Hvað er betur við hæfi?

 


Gelgjan, Tannálfurinn og Sá Einhverfi

 

Gelgjan fékk afskaplega fallegt silfurskrín í skírnargjöf á sínum tíma. Það er kringlótt, örsmátt og fóðrað að innan með kóngabláu filt-efni. Á lokinu situr undursmár, lítill tannálfur.

Skrínið rúmar eina.. í mesta lagi tvær barnatennur.

Þetta skrín hefur samviskusamlega verið lagt undir koddann, hvenær sem tækifæri hefur skapast og vegna míns einstaklega góða sambands við Tannálfinn hefur gelgjunni áskotnast íslenskar krónur í skiptum fyrir hverja tönn. Annars skilst mér að evran sé aðal gjaldmiðillinn.

Sá Einhverfi fékk ekkert slíkt skrín í skírnargjöf. Þó tel ég ekki að það sé ástæðan fyrir því að allar þær tennur sem hann hefur misst hafa horfið. Púff! Gjörsamlega gufað upp. Þeim Einhverfa hefur ekki áskotnast svo mikið sem tíeyringur fyrir sitt postulín.

Hann hefur sennilega ýmist spýtt þeim út úr sér þar sem hann stóð á hverjum tíma, kyngt þeim eða hent þeim í ruslið.

Á sunnudaginn síðasta heyrði ég kvörtunarhljóð frá mínum manni berast niður frá efri hæðinni.

Á mamma að hjálpa? kallaði ég upp til hans.

Hann þáði það og ég rölti upp stigann. Inn í herberginu sínu stóð Sá Einhverfi og gapti framan í mig, þegar ég birtist.

Það fyrsta sem mér datt í hug var tannpína. Andskotinn, hugsaði ég. En þegar ég fór að þreifa fyrir mér uppgötvaði ég að hann var með tvo lausa jaxla, sitthvoru megin.

Þetta er allt í lagi Ian, sagði ég. Lét hann setjast á rúmið með mér og teiknaði upp fyrir hann skælbrosandi munn með fullt af tönnum. Merkti þær sem voru lausar upp í honum, notaði ör til að sýna honum að þessar tennur myndu detta og reyndi að útskýra að hann myndi svo fá nýjar.

Drengurinn horfði á mig og það var augljóst hvað hann hugsaði: hvað er kerlingin að röfla núna!?

Svo potaði hann í tennurnar og kvartaði.

Ég gafst upp og fór niður aftur. Hugsaði með mér að þetta yrði bara að hafa sinn gang.

En mér skjátlaðist. Þegar ég fór inn á baðherbergi stuttu síðar, voru rifur af alblóðugum klósettpappír í klósettinu og á botninum glampaði á lítinn hvítan jaxl. Eða voru þeir tveir?

Ég hef enn ekki kannað hvort báðar tennurnar séu horfnar. Ég hef grun um að svo sé. Drengurinn er greinilega ekki á því að hafa einhverja skröltandi aukahluti upp í sér. Hann tekur málin í sínar hendur. Ekkert vesen.

Á meðan safnar Tannálfurinn vöxtum á íslensku krónurnar sem hann þarf ekki að leggja út. 

 


Með rassinn úti

 

Ég á engin föt!

Ég held að við, sem tilheyrum kvenþjóðinni höfum allar með tölu, einhvern tíma á lífsleiðinni, látið þessi orð út úr okkur. Og þau eru mis-sönn þegar þau eru sögð. Kannski er réttara að segja að þau séu mismikil lýgi.

Ég ákvað fyrr í kvöld, að byrja mánudagsmorguninn á því að fara í ræktina. Og þá hefst skipulagið. Taka til íþróttafötin, nestið til að hafa með í vinnuna og svo kvölin og pínan; Velja föt úr fataskápnum til að fara í eftir spriklið og sem nota bene: þurfa að haldast utan á mér allan daginn, á þann hátt að ekki sé skömm að.

Og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur bætt á sig kílóum en er harðákveðin í að kaupa sér ekki föt, fyrr en þau kíló eru horfin, er þetta allt annað en auðveld og/eða ánægjuleg athöfn.

Í kvöld var ég þó lukkuleg með mig. Búin að ákveða í huganum að  uppáhalds gallabuxurnar mínar (ég á tvennar (sem ég passa í)),  færu ofan í íþróttatöskuna.

Er ég tók þær fram rak ég augun í gat á rassinum. GAT. Nánar tiltekið í rassaskorunni. Neðarlega. Og svo sá ég annað gat.

Ég hefði getað farið að grenja. Gerði það þó ekki en hugsaði; það var þó allavega heppilegt að buxurnar rifnuðu ekki utan af mér á miðjum vinnudegi.

En svo datt mér í hug að kannski hefðu þær einmitt gert það síðast þegar ég var í þeim, og ég sprangað með hálfan rassinn úti, um alla skrifstofu, samstarfsfólki mínu til gleði og yndisauka.

Og þá fór ég að gráta.

Ég fæ sennilega aldrei að vita staðreyndir í því máli. En ég er að spá í hvort það borgi sig að fara með mínar heittelskuðu gallabuxur, sem eru komnar vel til ára sinna, á saumastofuna í Skeifunni og láta bæta þær.

Ég er þó ansi hrædd um að það borgi sig ekki. Við nánari eftirgrennslan sé ég að efnið er orðið öööööörþunnt á öllu rass-svæðinu, sem skýrir kannski afhverju þessar gallabuxur hafa passað á mig allan þennan tíma. Þær hafa stækkað með mér eftir bestu getu, þessar elskur. Og nú gátu þær ekki meir.

En eitt er víst; ekki fer ég og kaupi mér gallabuxur fyrir þrettánþúsundkrónur í dag, sem verða orðnar AAAAAAALLTOOOOOOF stórar á mig, bara eftir nokkrar vikur, þegar ég verð orðin Jóna Mjóna.

 

 


Punghlíf vs hjálmur

 

 

Fyrsta punghlífin var notuð í íshokkíi árið 1874 og fyrsti hjálmurinn árið 1974.

Það tók karlmenn 100 ár að átta sig á að að hausinn væri líka mikilvægur!

 

Fánýtur, en skemmtilegur fróðleikur. Og ég velti fyrir mér; er ekki líklegt að aðili með pung (þ.e. karlmaður) hafi fundið upp punghlífina, og aðili með heila (þ.e. kvenmaður) fundið upp hjálminn?

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband