Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Mamma róa sig barasta

 

Það er kominn tími á bloggfærslu en ef ég ætla að ná settu marki varðandi bókaútgáfu fyrir næstu jól (fáránlegt að vera að tala um ''jól-eitthvað''... jólin eru ný liðin) þá má ég ekki vera að eyða kröftunum í persónuleg skrif á blogginu. Því miður getur maður víst ekki gert allt sem mann langar.

Því má vel vera að þessi færsla verði sú fyrsta og síðasta í langan tíma.

Ferming Hafliða frænda er að baki og gifting ''litlu'' frænku minnar og flotta mannsefnisins hennar er um næstu helgi.

Að baki er líka vikulöng dvöl hjá Berlínar-Brynju, í Berlín að sjálfsögðu. Ég fór í tvennum tilgangi: að heimsækja Brynjuna mína og að sanna það fyrir mér í eitt skipti fyrir öll að ég GÆTI skrifað bók. Skáldsögu. Því ef ekki er hægt að gera það, fjarri daglegu amstri hversdagsins, brjáluðum börnum o.sfrv., í fallegri íbúð í spennandi borg.... ´

Mér gekk hreint ágætlega að skrifa og átti svo ljúfar stundir með Brynju á kvöldin og yfir helgina, þar sem leyndardómar lífsins og það sem er handan þess voru ræddir, metnir og krufnir til mergjar. Sötrað rauðvín, hvítvín og ómælt magn af sparkling water. Markaðir, kaffihús, skógar og fleiri staðir voru þræddir.

Kyrrðin í skóginum var rofin......

I skogi

 

 

Ómetanlegur bónus í þessari ferð var hvíld og friður. Sjaldan eða aldrei hefur sálin fengið jafn mikla næringu og hvíld eins og á þessum 7 dögum.

Og aldrei þessu vant tók það mig ekki viku að aðlagast fjölskyldulífinu aftur og enginn fór í mínar viðkvæmu taugar, eins og hefur viljað verða þegar ég hef snúið heim aftur eftir stutt frí. 

Sá Einhverfi tjáði sig lítið um fjarveru mína en þegar seig á seinni hlutann á ferð minni, sá hann tvisvar sinnum ástæðu til að nefna þetta við pabba sinn: mamma koma heim.

Já, mamma kemur heim á fimmtudaginn, svaraði Bretinn.

''Já'' sagði Sá Einhverfi þá. Ánægður að fá staðfestingu á að kerlingin myndi nú þrátt fyrir allt skila sér aftur.  

Hann stefnir hraðbyri í gelgjuna drengurinn og nýjasti uppáhaldsfrasinn er: mamma rólegur.

Ég er að vinna í því að koma honum í skilning um að það er pabbi sem þarf að vera rólegur en mamma bara róleg.

Við áttum snörp orðaskipti í bílnum á leiðinni heim í dag. Hann týndi öðrum af sínum heittelskuðu Spiderman-hönskum í Vesturhlíð og var öskureiður, sár og fúll yfir því að ég skyldi ekki geta galdrað hanskann fram úr minni eigin ermi þegar ég kom að sækja hann.

Ian þú týndir hanskanum. Ekki ég. Þú þarft að læra að passa upp á dótið þitt.

Orðið ''týndir'' gerði hann alveg kolvitlausan og hann byrjaði að öskra á mig.

Það líð ég ekki börnunum mínum, einhverfum eða ekki svo ég öskraði á hann á móti.

Þá kom áþreifanleg þögn í nokkrar sekúndur, svo sagði hann hneykslaðri röddu úr baksætinu:

Mamma rólegur.

 

 


Þegar meira að segja Þeim Einhverfa blöskrar...

 

Ég vildi svo gjarnan prýða heimilið mitt með fjöldanum öllum af grænum pottaplöntum; t.d. drekatrjám (næstum ódrepandi planta) eða burknum (fjandanum viðkvæmari). Og ég hef reynt. Margoft í gegnum árin. En ef það er til eitthvað í andstæðri merkingu við ''græna fingur'' þá endilega leyfið mér að heyra. Því ég hef það.

Ein planta hefur lifað í allt að 2 ár hjá mér núna og það er lítið drekatré í hvítum potti. Ég er afar stolt af þessum grænu blöðum. Þó veit ég það er eingöngu staðsetning plöntunnar sem hefur bjargað henni frá sömu örlögum og fyrirrennurum hennar. Hún fylgist nefnilega með fjölskyldumeðlimum bursta tennur kvölds og morgna, frá borði við vaskinn á baðherberginu.

Og í hvert sinn sem ég sé að hún er farin að drjúpa höfði þá eru hæg heimatökin að skvetta á hana vatni beint úr krananum.

Aðra plöntu á ég sem er mun stærri en þessi á baðherberginu og stendur í stofunni.  Hún tórir með naumindum. Það er Fríðu Brussubínu að þakka, sem aumkvar sig yfir hana öðru hvoru, vökvar og fjarlægjir dauð blöð. Klappar henni og hughreystir.

Ég er öll að vilja gerð að hugsa vel um aumingja blómið en ég á það til að gleyma að vökva. Það er að segja: þegar ég er á leið inn í eldhús að ná í vatn til að vökva með, þá gleymi ég á leiðinni hvað ég ætlaði að gera og fer að þurrka af borðum í staðinn.

-----

Fyrir nokkru síðan var ég að bardúsa eitthvað í eldhúsinu þegar Sá Einhverfi kom inn. Opnaði hvern skápinn á fætur öðrum og var klárlega að leita að einhverju.

Hvað viltu Ian, sagði ég. Ég var eiginlega viss um að hann væri að leita að hlaup-köllum. Uppáhalds sælgætinu sínu sem við reynum að fela á mismunandi stöðum. Hann finnur þá samt alltaf á endanum.

Hann svaraði mér engu en dró fram mælikönnu og fyllti hana af vatni.

Æi nei, sagði ég. Ekki fara að sulla núna.

Hann stóð og horfði á mig. Beið eftir að ég skipti um skoðun. Hann var alls ekki tilbúinn til að láta könnuna frá sér.

Ég hugsaði mig um andartak en forvitnin tók yfirhöndina; allt í lagi, þú mátt taka könnuna.

Þá gekk hann rakleiðis inn í stofu, að vesældarlegu plöntunni og hellti vatninu í blómapottinn. Svo skilaði hann könnunni aftur inn í skáp og valhoppaði að því loknu upp í herbergið sitt. Væntanlega til að sinna skriftarþörfinni.

Það má segja að ég skilji núna að ástandið er slæmt. Fyrst Þeim Einhverfa er farið að blöskra hversu mjög ég vanræki blómin þá er aðeins um tvennt að ræða: taka sig taki eða leyfa honum að sjá um þetta.

 

 

 


Hárið á hausnum á okkur

 

bad-hair-day-2

Í gegnum árin hefur mig oft langað að ganga berserksgang eftir að hafa eytt stund á hinum ýmsu hárgreiðslustofum... setið fyrir framan spegil og fylgst með stórslysi í uppsiglingu. 

Ég hef samt aldrei látið það eftir mér.

Ég verð fjörutíu og eins árs á þessu ári og ég held að það séu ekki nema í mesta lagi tvö ár síðan þessi tilfinning kom yfir mig í síðasta sinn.

Hún byrjar sem kitlandi pirringur í maganum, færist upp eftir líkamanum. Orsakar stífar axlir, herping við munnvikin og stjörnur fyrir augunum.

Allt vegna áreynslu við að halda aftur að lönguninni til að stappa niður fótum, öskra hátt og hömlulaust, bíta sökudólginn, fleygja sér í gólfið og berja gólfefnið með krepptum hnefum, sparka með bífunum út í loftið og gráta fögrum tárum. Og hér erum við ekki að tala um uppúrkreist krókódílatár heldur alvöru vatnsflaum sem kemur beint frá brostnu hjarta.

Það breytir ekki neinu að í flestum... ef ekki öllum... þessum tilvikum, hef ég getað sjálfri mér um kennt. Það hefur verið ég sem ákveð að ''reyna eitthvað nýtt'', ekki verið ánægð með afraksturinn og eigin hugmynd og þá er svo þægilegt að grenja: ''klipparinn misskildi mig''.

Það er ekki ofsögum sagt að hárið skipti okkur konur máli.  Við veljum okkur hárgreiðslu eftir því í hvernig skapi við erum. Eftir því hvernig við viljum koma fyrir. Uppsett fyrir virðuleikann, sléttað við dragtina, krullað á tálkvendinu.

En auðvitað eru líka til karlmenn sem leggja mikið upp úr hárinu á sér. Við erum svo sem ekkert einar um þetta.

 

bad_hair

 

 


mbl.is Óánægður kúnni beit hársnyrtinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdabarátta á heimilinu o.fl.

 

Ég fór á djammið á laugardagskvöldið. Árlegt þemaball kvennadeildar Fáks. Þemað þetta árið var ''bleikur'' og það er alltaf jafn gaman að horfa yfir hópinn og sjá hugmyndaflugið og vinnuna sem hefur farið í klæðnaðinn hjá hestakonunum.

Ég fór á fætur á sunnudagsmorguninn með Þeim Einhverfa, gaf honum morgunmat en skreið svo aftur upp í með bók. Sofnaði að sjálfsögðu aftur og svaf ansi lengi.

Fannst þó kominn tími til að fara á fætur þegar mig var farið að dreyma vinnufélaga. Það er í sjálfu sér allt í lagi, mér þykir vænt um þennan vinnufélaga minn. En hann var mættur heim til mín og farinn að þrífa. Ég ákvað að vakna þegar hann var farinn að pússa fúgur á milli flísa með tannbursta.

En þetta varð til þess að ég hunskaðist til að taka fram ryksugu og tusku þegar leið á daginn. Og ég er stolt að segja frá því að í dag var slökkt á jólaseríunum á trjánum fyrir framan húsið. Ekki nóg með það.... Bretinn fjarlægði þær líka.

 

Sá Einhverfi er ansi viljasterkur þessa dagana en við Bretinn reynum að vera enn viljasterkari. Verðum að vera það.

Drengurinn á það jafnvel til að öskra á mig: ''hættu þessu'', þegar ég segi honum að gera eitthvað sem honum ekki líkar.

Svo tekur hann Lottu á þetta reglulega; rekur upp öskur, stappar niður fæti og hrópar: mamma bjáni. Þá spyr ég: ertu Lotta núna og þá hlær hann.

Í gær vildi hann nammi og ég sagði nei. Þá hækkaði hann röddina og sagði í skipunartóni: ég verð að fá nammi.

En þetta breytir því ekki að hann er ennþá með lítið hjarta og í sannleika sagt hálfgerð grenjuskjóða. Og það er engum að kenna nema mér sem hef átt erfitt með í gegnum tíðina að neita honum um vissa hluti.

Eitthvað var hann ósáttur við mig á föstudaginn.. bað um eitthvað og fékk ekki. Hann beygði samstundis af og dramatíkin er svo mikil að hann kreistir aftur augun og neitar að opna þau. En í þetta skipti vildi hann leita huggunar hjá mömmu sinni sem sat í stól í tveggja metra fjarlægð. Og þar sem hann var svo niðurbrotinn að augun voru sem límd aftur, þá gekk hann í áttina til mín, fálmandi með báðum höndum fram fyrir sig, eins og blindur maður í ókunnu umhverfi.

Ég gat ekki stillt mig og hló upphátt, þetta var svo kjánalegt. En stóri strákurinn fann mig, settist í fangið á mér og grét við öxlina á mér.

Ég sagði honum að hann væri orðinn svo stór strákur að hann yrði að hætta að fara að gráta í hvert skipti sem eitthvað væri á móti honum. Tilhugsunin um að sitja með einn átján ára í fanginu sem er mér vaxinn yfir höfuð er ekki beint álitleg.

Ég hef ekki hugmynd um hvort hann skildi mig. En gráturinn hljóðnaði og allt var gleymt nokkrum mínútum seinna.

Á morgun ætla ég að endurnýja kynnin við fólkið hennar Báru í Lágmúlanum og byrja í ræktinni.

 

 


Heimilisþvotturinn

 

Þvottahúsið er daglegur viðkomustaður. Hjá fimm manna fjölskyldu er alltaf hægt að finna sér eitthvað að dunda við í þvottahúsinu.

Síðustu mánuði hefur reyndar, hægt og bítandi, þróast hefð á heimilinu, sem ég kann afskaplega vel við;

ég sé um að setja í þvottavél (það felur í sér að tölta með, nær undantekningarlaust fulla, óhreina-taus-körfuna af efri hæðina niður í þvottahús, sortera í vélina og reka svo á eftir fatnaði sem hefur af einhverjum undarlegum ástæðum endað á gólfinu í barnaherbergjunum í staðin fyrir körfunni). 

Hreini þvotturinn á sér fastan samastað í betri stofunni. Þar liggur hann í stól. Stundum í marga daga áður en einhver grípur í taumana.

Og þessi ''einhver'' er venjulega Bretinn. Þá kallar hann til krakkaskarann og skipar liðinu í samanbrot á þvotti. Úr verður hin skemmtilegasta samverustund. Glósur fljúga manna á milli vegna fatnaðar sem krökkunum finnst asnalegur, eins og síðar með tippagati eða g-strengur í eigu gömlu konunnar.

Svo er líka hægt að fylgjast með sjónvarpinu í leiðinni. Sá Einhverfi gerir reyndar meira ógagn en gagn en hann er þó farinn að bera þvottinn sinn samanbrotinn upp og ganga frá honum ofan í skúffur.

En Unglingurinn og Gelgjan verða færari í þvottafrágangi með hverri vikunni sem líður... líka Bretinn. Og það venst vel að leyfa öðrum að sjá um þennan hluta heimilisverkanna. Mjög vel.

Í kvöld var ég að rífa út úr þvottavélinni og henda í þurrkarann. Ég missti nokkrar flíkur í gólfið í hamaganginum og beygði mig niður til að taka þær upp. Fann fyrir sokk sem ég var eitt andartak, ekki viss um hvort væri blautur eða þurr og þá hvort hann tilheyrði þvottinum sem ég var að taka úr þvottvélinni eða ekki.

Án þess að hugsa mig um rak ég hann upp að nefinu og andaði djúpt og rækilega að mér. Svona eins og maður gerir þegar maður ætlar að njóta ilmsins af hreinum rúmfötum.

Ég komst að því á sekúndubroti að þessi átti heima í óhreina tauinu. Mæli ekki með þessari aðferð.

 

 


Atburðum hlaðinn mars-mánuður

 

Hvar er rigning? spurði Sá Einhverfi í morgun. Aldeilis standandi hlessa á þessum endalausa snjó.

Í gærmorgun var hann ekki jafn umburðarlyndur og argaði á mömmu sína yfir veðurfarinu. Mamman gargaði á móti. Hneyksluð á skilningsleysi krakkans: Ian það er vetur for Gods sake.

EKKI VETUR, gargaði hann á móti.

Sem sagt hugguleg morgunstund sem við áttum þarna mæðginin.

Ég hef ákveðið að bráðlega mun ég yfirgefa landið í vikutíma. Ætla að halda í milda veðrið í Þýskalandi. Það verður þó vinnuferð þar sem ég mun eyða tímanum við skriftir og heimildaöflun á daginn. En kvöldin mun ég eiga með Berlínar-Brynju. Oooo hvað það verður næs, svo ég tali ekta íslensku.

Fleira skemmtilegt er framundan hjá mér í þessum mánuði. Ball, árshátíð, ferming hjá Hafliða uppáhalds frænda, strípur og klipping (mjöög veigamikið atriði) og endahnúturinn verður rekinn í byrjun apríl en þá stendur brúðkaup fyrir dyrum í fjölskyldunni.

Upp úr því þarf svo bara að fara að huga að sumrinu. Almáttugur hvað tíminn líður fljótt.

 


Polli = Pólverji ?

 

Eitt eru ryskingar á milli tveggja drengja á unglingsaldri þar sem hormónaflæði er á fullu blasti, sem kannski endar með smá blóðnösum og særðu stolti. Annað er hrein og bein líkamsárás tveggja drengja á jafnaldra sinn, sem svo endar á slysadeild eða spítala.

Ég er furðu lostin yfir þessu viðtali við skólastjórann sem vill sem minnst úr málinu gera og finnst það blásið upp af fjölmiðlum. Hvað þýðir það? Blásið upp..? Staðreyndirnar liggja fyrir og þær eru ekki fallegar.

Ég er viss um (eða vona allavega) að þjálfarar í bardaga- og sjálfsvarnaríþróttum hvers konar leggja ríka og mikla áherslu á drengskap og það að nota ekki kunnáttuna utan æfinga og keppna. Nema að sjálfsögðu í sjálfsvörn.

Að mínu mati er þetta mál hið alvarlegasta af fleiri en einni ástæðu. Og ég er afar ósátt við þá vörn (eða kannski afneitun) sem skólastjórinn virðist vera í. Hún minnist ekki orði á að tekið verði á atvikinu og það rætt til að koma í veg fyrir endurtekningu. Hver eru eiginlega skilaboðin til annarra nemenda í skólanum ef tekið er á þessu af slíkri léttúð?

Og nú spyr sá sem ekki veit: getur verið að Polli sé nýyrði og sé notað sem uppnefni og í niðrandi tón um   Pólverja?

 

 


mbl.is Blóðug slagsmál skóladrengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1640567

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband