Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Elísa hvar ertu?

 

Ég auglýsi hér með eftir konu. Þetta má ekki vera hvaða kona sem er. Sú sem ég leita að heitir Elísa og á mann sem heitir Hermann.

Elísa sá mér fyrir fyrsta sumarjobbinu. Ég passaði fyrir hana lítinn kút sem heitir líka Hermann. Hann er auðvitað ekki lítill lengur. Sennileg um 25 ára.

Fyrsta daginn sem ég passaði Hemma litla fór ég með hann heim og amma kafnaði næstum því úr hlátri við að horfa á mig reyna að koma hreinni bleyju á kútinn. Ég kunni ekkert til verka og þetta var á tímum taubleyjanna og plastsins sem maður batt utan um litlu kroppana. Hemmi litli var sprækur snáði og skreið alltaf út úr höndunum á mér. Það var held ég á því andartaki sem ég ákvað að eignast ekki sjálf börn fyrr en einhver finndi upp bréfbleyjur.

Elísa gladdi mig mikið um daginn þegar hún setti inn komment hjá mér og svo bað ég hana um netfangið hennar. Hún gaf mér það upp hér á blogginu en það er sama hversu oft ég skrolla hér fram og til baka í færslunum mínum.. ég finn þetta ekki.

Svo Elísa mín. Ef þú lest þetta viltu þá senda mér tölvupóst á jonag@icelandair.is. Mig langar afskaplega mikið að heyra í þér.

 


Ég hef tekið áskorun Ellýar.......

 

......og ráðleggingum Jennýar.

Ég á fund með útgefanda í fyrramálið. Fokk it... eða þannig.

Hef ákveðið að taka Secret-ið á þetta. Hugsa jákvætt... allt að því hrokafullt. AUÐVITAÐ kemur eitthvað jákvætt út úr þessu. AFHVERJU ætti það ekki að gera það?

Aldingarðurinn my arse....

Og svo er það hin hliðin. Rowling, mamma Harry Potter, þurfti að tala við þó nokkuð marga útgefendur áður en hún fékk samning. Svo að fá ''nei'' er ekki banvænt.

Ég er farin á taugum.

 


Valkvíði


Ljúf kvöldstund þrátt fyrir brjóst með útþrá

ss

 

Í gærkvöldi hittumst við þrjár vinkonurnar heima hjá Ellisif bjútí-vinkonu; Ellisif, Brynja Berlínar-búi og ég. Tilefnið var koma Brynju á Frón. Ásta var fjarri góðu gamni sökum götugrills á heimaslóðum.

Ég var í sjöunda himni yfir að fá tilefni til að komast út úr húsi og í burtu frá hundahárunum sem eru að yfirtaka heimili mitt eins og illa viðráðanlegt meindýr. Ég var svo glöð að ég ákvað að taka fína-pakkann á þetta. Sturta mig og mála og fara  í svolítið svona hugguleg föt. Og þá stóð ég frammi fyrir vandamáli.

Vandamálið er ekki að ég eigi engin hugguleg föt. Vandamálið er ekki einu sinni að ég komist ekki í þessi föt þrátt fyrir að eitt og eitt kíló hafi skvísað sér á kroppinn á mér í sumar.

En eitt er að komast í fatnað. Annað er að hann sitji vel. Svo er líka allt annað að hann haldist utan á manni.

Ég ákvað að fara í þykkum sokkabuxum, hnéháum stígvélum og skyrtukjól, smelltum að framan. Ég var bara bráðhugguleg þegar ég fór að heiman.

Eftir tvö rauðvínsglös, fjöldann allan af snittubrauðs-sneiðum með hráskinku og parmisan og hvítmygluosti þöktum hnetum, möndlum og sírópi, þá fór að halla undan fæti hjá huggulegu konunni.

Við hverja hlátursroku smelltist ein smella á skyrtukjólnum frá. Brjóstin á mér bókstaflega brutust út úr kjólnum og svo mjaðmir og magi. Huggulegt!

Í félagsskap þessara kvenna þykir þetta nú ekki mikið má og kemur ekki að sök og þar sem ég á annað borð var  komin langleiðina úr leppunum þá fékk ég yndislegt nudd hjá Ellisif.

Eins og oft vill verða þá tók kveðjustundin við útidyrahurðina hátt í hálftíma og á endanum vorum við allar búnar að krossleggja fæturnar þar sem við stóðum, til að pissa ekki í okkur af hlátri. Spurning um að herða á grindarbotnsæfingunum.

Ég náði heim undir morgunn. Var í fötum sem betur fer og ekki pissublaut. Geri aðrir betur.

 


HEFNDARÞORSTI - glæpasaga - 4. og síðasti hluti - ekki fyrir viðkvæma

 

Honum vegnar ágætlega í starfi. Vinnur sig upp í sölustjórastöðu. En eina fólkið sem hann á samneyti við eru vinnufélagarnir og aðeins á vinnutíma. Kvöldunum eyðir hann einn í lítilli leiguíbúð.

Hann hefur hvorki vilja né löngun til að elda ofan í sig og pantar nær undantekningarlaust mat af kínverskum veitingastað í nágrenninu. Snæðir yfir sjónvarpinu. Einn og yfirgefinn. Eina manneskjan sem hann hittir utan vinnutíma er sendillinn sem kemur með matinn til hans. Hann heldur að það sé kona er getur ekki verið viss. Líkaminn er svo undarlega ólögulegur og andlitið er hulið sólgleraugum og trefli. Sama hvernig viðrar.

Hann er ekki heill heilsu. Fær óútskýranlega hitatoppa og magakrampa. Sumar nætur kastar hann upp margoft og vaknar morguninn eftir slappur og valtur á fótunum. Heilsan fer versnandi en læknarnir finna ekkert að honum.

 

Tuttugu og þriggja ára lætur hún til skarar skríða í fyrsta skipti. Eftir að hafa komið fyrsta fórnarlambinu á kné og svipt það allri mannlegri reisn sat hún fyrir honum. Sljóvgaði með nákvæmlega réttu magni af lyfjum. Nógu miklu svo hann væri ósjálfbjarga en nægjanlega litlu til að hann skildi hvað væri að gerast. Vissi hver hún var. Þegar hún fann hnífinn sökkva inn í hold hans og lífið fjara úr líkamanum helltist yfir hana fölskvalaus gleði. Frá þeirri stundu varð þessi nýuppgötvaða gleðitilfinning drifkrafturinn í lífi hennar.

 

Þrjátíu og sjö ára er hann sem farlama gamalmenni. Heilsulaus og rændur allri lífslöngun. Börnin hans eru löngu orðin honum fráhverf og hann hefur hvorki andlega né líkamlega burði til að berjast fyrir ást þeirra og virðingu. Hann hefur brugðist þeim finnst honum. Öll sjálfsvirðing er honum horfin.

 

Næstu ár voru bestu ár ævi hennar. Einu árin í lífi hennar sem henni hefur fundist hún hafa fullkomna stjórn. Vald. Tilfinningin er svimandi.

Án allra mannlegra tilfinninga braut hún þá niður hvern á fætur öðrum. Og á réttum stað, á réttum tíma náði hún þeim á sitt vald með lyfinu góða. Skemmtilegustu og mest sálarhreinsandi andartökin eru þegar þeir skilja hver hún er. Og fullvissan um að þeir hafi engu gleymt.

Þeir vita hvað bíður þeirra og þeir vita hvers vegna. Hún gælir við þá hvern á eftir öðrum og nýtur þess að horfa á viðbjóðinn í svipnum á þeim yfir afskræmdu útliti hennar. Svo fær blóðið að renna undan hnífnum.

 

Hann drekkur ótæpilega. Sækir sömu staði og rónar bæjarins. Gamlar syndir ásækja hann meira en nokkru sinni fyrr. Brjótast upp á yfirborðið eftir að hafa verið kæfðar niður í fjölda ára. Hann situr og drekkur þar til sársaukinn er bærilegur. Þar til raddir fortíðar hætta að ásækja hann. Þá fer hann heim. Ef heimili skyldi kalla.

 

Hún er þreytt. Sálin er þreytt en ekki buguð. Lokaverkefnið er senn í höfn en hún hefur gert nýjar áætlanir. Hún treystir á hjálp frá honum. Treystir á, að þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, bærist enn með honum vottur af ást á lífinu. Enn sé von til þess að hann berjist til að halda því.

Með þá trú í farteskinu bíður hún eftir honum eitt vorkvöld þegar hann kemur heim. Í þetta skiptið er lyfið óþarft.

 

Þau standa og horfa hvort á annað. Augnaráð hennar logandi af hatri og einbeitingu. Hann er skelfingu lostinn yfir þeirri hryggðarmynd sem blasir við honum. Kona með hálft andlit og undarlega skakkan líkama. Þar sem áður voru fingur vinstri handar er aðeins samankrepptur hnefi, hrukkóttur af brunaörum. Fingur hægri handar halda um kjötöxi og án þess að hún segi orð, veit hann hver hún er.

Hann undrast þennan skyndilega þrótt sem hann finnur fyrir. Í fyrsta skipti í langan tíma finnst honum hann finna blóðið streyma um æðar sínar. Viljinn vaknar af dvala. Hann er ekki tilbúinn til að fara. Hann skynjar hatrið sem streymir frá henni. En hann skynjar líka sorgina og óbætanlega kvölina. Sem hann skapaði. En hann á einskis kosta völ.

Átökin eru hatrömm en undarlega stutt. Fyrr en varir stendur öxin í holdi.

Sigrihrósandi glampa bregður fyrir í auga stúlkunnar. ''Ég vann'' hvíslar hún.  Verkefninu er lokið og sársaukinn er horfinn. Líkaminn fellur í gólfið og óendanlegur friður er yfir andlitinu.

Augnaráð hans er tómt og starandi. Hendurnar skjálfa þegar hann tekur upp símann.

Með blikkandi ljósum og vælandi sírenum kemur vonin til hans. Vonin um að endurheimta sál sína og frið, sem hvarf í ljósum logum fyrir margt löngu, með skúrnum í syðsta enda skólalóðarinnar......

 


HEFNDARÞORSTI - Glæpasaga - 3. hluti - ekki fyrir viðkvæma

 

Forstjórinn dugmikli og gullfallega frúin hans skildu og upphófst hatrömm forræðisdeila þeirra á milli. Hann tapaði. Baráttan tók marga mánuði og andleg átök voru mikil.

Hún nýtti sér tækifærið. Sparkaði með glöðu geði í liggjandi mann. Með kænsku og útsjónarsemi þess sem hatar, sá hún til þess að ungi maðurinn varð uppvís af tilraun til fjárdráttar í starfi sínu. Af nákvæmni bjó hún svo um hnútana að eigendum fyrirtækisins var meira í mun að losna við hann en að gera málið opinbert. Síst af öllu vildi hún missa hann á bak við rimlana.

 

Áttundi bekkur. Fyrsti skóladagur eftir nýár. Hún var lokuð inni í verkfæraskúrnum í syðsta enda skólalóðarinnar. Sat róleg og beið. Öllu vön. Vissi að fyrr eða seinna kæmi einhver sem myndi opna fyrir henni. Hún þurfti bara að leggja við hlustir og fylgjast með.

Hún heyrði einhvern nálgast og stóðu upp. Byrjaði að nötra og skjálfa gegn eigin vilja þegar hún heyrði að þetta voru kvalarar hennar. Þeir voru hvíslandi og hlógu niðurbældum hlátri. Það vissi ekki á gott. Hún heyrði þá bjástra fyrir utan skúrinn og svo heyrðist hviss sem hún áttaði sig ekki á. Dyrnar opnuðust og einhverju var fleygt inn. Hurðinni var skellt aftur. Í myrkrinu sá hún neista af einhverju, andartaki áður en hvellurinn kom. Hún fann fyrir óbærilegum sársauka í höfðinu og sekúndum síðar fann hún, frekar en sá, að það skíðlogaði allt í kringum hana.

Kannski er þetta þá búið, hugsaði hún glöð, áður en myrkrið miskunnaði sig yfir hana.

 

Fyrsta kafla er lokið. Annar kafli bíður.

Forstjórinn fyrrverandi keyrir útaf í Kömbunum og er um tíma vart hugað líf. Brotinn á sál og líkama hefur hann enga hugsun á því að eitthvað var undarlegt við þetta slys. Kennir þreytu og vínglasi um.

Loksins finnst henni sér miða eitthvað fram á við.

 

Níunda aðgerð. Líkamlegi sársaukinn var á undanhaldi, en ekkert gat linað þær andlegu kvalir sem hún gekk í gengum.

Flugeldurinn var gallaður. Þessi sem sprakk í andlitið á henni. Ekki að það skipti neinu máli. Hinn kveikti í skúrnum.

Enginn gaf sig fram. Enginn kannaðist við að bera ábyrgð á að 13 ára stúlka lá örkumla og afmynduð á sjúkrahúsi. Hún tók af þeim ómakið. Um leið og hún gat haldið á blýanti skrifaði hún nokkur orð á blað. Játaði að hafa verið að fikta með flugelda.

 

Eftir nokkurra mánað endurhæfingu hefur hann náð það mikilli leikni með gervifótinn að hann stingur aðeins örlítið við. Á erfitt með að venjast því að horfa á stubbinn þar sem einu sinni var fótleggur.

Eftir langa leit fær hann starf. Hann er eiginlega undrandi á sjálfum sér að finna enn til minnstu lífslöngunar. Honum þykir það íronískt að gerast fasteignasali. Hitta og eyða tíma með fólki á hverjum degi sem er fullt tilhlökkunar. Pör sem sjá fram á líf með maka sínum og börnum á fallegu heimili sem þau skapa saman. Allt það sem hann eitt sinn átti. Allt það sem hans líf snerist um en er nú aðeins sætbeisk minning.

 

Henni tókst að blekkja þá alla. Geðlæknana. Sálfræðingana. Félagsfræðingana. Allir báru henni vel söguna. Dugleg, atorkusöm, ótrúlega bjartsýn, með þroskaða sýn á lífið. Þvílík ummæli. Hún hló innra með sér daginn sem þeir hleyptu henni út af stofnuninni. Ef sá hlátur hefði fengið að hljóma upphátt hefði engum verið rótt. Hún var sextán ára og sálin var kolsvört.

 

(4. og síðasti hluti verður birtur seinna í dag)

 


Og enn grenja ég

Ég þurfti virkilega á einhverju upplífgandi að halda í kvöld. Fyrir valinu varð að leggjast yfir DVD, nánar tiltekið Love actually.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá hef ég aðeins einu sinni séð þessa mynd og guð minn góður..... Ef ég grenjaði svona yfir henni í fyrsta skipti þá má ég hundur heita.

Þegar kreditlistinn rúllaði í endann þá var ég gjörsamlega uppgefin af því að reyna að halda aftur af gráthviðunum sem vildu brjótast út.

En samt var þetta upplífgandi á skrýtinn hátt. Ég held að þetta sé sætasta mynd sem framleidd hefur verið og minnir mann á það enn og aftur að við hlið bretans (og þá meina ég ekki Bretans) er kaninn hreinlega lásí í kvikmyndagerð og handritagerð og húmor og hljóði og klippingu.... nei, aðeins komin fram úr mér, en þessi mynd er barasta snilld. Hvernig hún er byggð upp og hvernig allir þessir karakter tengjast á einhvern hátt á endanum. Leikararnir eru frábærir... sorry, ég er bara að missa mig yfir þessu.

Ég held ég geti kosið þetta bestu rómantísku gamanmynd sem framleidd hefur verið, án þess að blikna. Og það þýðir ekki að vera með neitt skítkast yfir því. Þannig er það bara og hananú.

405px-Love_Actually


HEFNDARÞORSTI - glæpasaga - 2. hluti - ekki fyrir viðkvæma

 

Hún tók einn fyrir í einu. Gaf hverjum og einum eins langan tíma og þurfti. Var ekkert að flýta sér. Kannski vildi hún treina verkefnið. Kannski var undirliggjandi hræðsla í huga hennar um framtíðina. Um það hvað tæki við þegar kæmi að leiðarlokum hjá þeim fimmta og síðasta. Hvaða stefnu tæki hennar líf eftir það? Þessar hugsanir ásóttu hana en hún bægði þeim frá sér eftir bestu getu. Hún lifði í núinu, í verkefninu, í markmiðinu.

 

 

Fjórði bekkur. Skelin var að harðna. Það þurfti meira til að græta stúlkuna. Hún beit á jaxlinn og barðist. Baráttan fór þó öll fram innra með henni. Hvorki með orðum né hnefum. Aðeins á sálinni. Hún var farin að skilja betur þá baráttu sem mamma hennar háði til að halda heimilinu saman. Elsku, duglega, blíða mamma sem hafði ekki hugmynd um hversu hratt örunum fjölgaði og hversu mikið þau dýpkuðu með degi hverjum. Stúlkan bar harm sinn í hljóði. Mömmu vegna.

 

 

Hún hafði fylgst með honum í mörg ár. Síðasta fórnarlambinu sínu. Á meðan hún planaði og lék sér að niðurrifi hvers og eins, hafði hún hina ávallt í sigtinu.

Hann var forstjóri vel þekkts verðbréfafyrirtækis. 35 ára myndarkarlmaður. Dáður fyrir dugnað. Kleif metorðastigann hratt og örugglega allt frá því að háskólanámi lauk. Hann átti gullfallega konu sem baðaði sig í aðdáun hans og sinnti börnunum þeirra tveimur af alúð og áhuga.

Sannkölluð vísitölufjölskylda, hugsaði hún meinfýsin. Fyrirmyndarfjölskylda í alla staði. En allir eiga sér leyndarmál. Eitthvað sem illa þolir dagsljósið. Jafnvel á litla Íslandi. Og hún var ákveðin í að finna hvað þar var. Þar myndi hún byrja á niðurrifinu. Þar ætlaði hún að hefja lokakaflann.

 

 

Fimmti bekkur. Hjartað var að harðna. Ekkert komst inn fyrir skelina lengur. Hún grét aldrei. Felldi aldrei tár. En sálin hrópaði og kallaði út í tómið. Skólasystur hennar létu hana afskiptalausa og hana sveið það sárar en sífelld niðurlægingin sem hún mátti sæta af hendi strákanna. Líkamlegt ofbeldi varð daglegt brauð fyrir henni. Þeir lágu í leyni og réðust að henni. Henni var hrint, spörkin dundu á henni og hún var lokuð inni í kompum og skúmaskotum skólans.

Með hverri önninni sem leið varð mamma stoltari af skúlkunni sinni fyrir iðjusemi í skólanum. Það varð haldreipi stúlkunnar. Hún lagði allt í lærdóminn. Fékk ávallt bestu einkunn í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Kennararnir töluðu um þöglu, námsfúsu stúlkuna sem aldrei brosti. Þeir furðuðu sig á henni en hún gaf þeim aldrei ástæðu til að halda að eitthvað væri að. Hún hleypti engum þeirra að sér. Það var einfaldlega of seint.

 

 

Það leið og beið og hún var orðin óþolinmóð. Óttaðist að hún myndi ekki finna útgangspunktinn. Fynndi engin leyndarmál. Að lokum hélt hún í þá von að svarið væri að finna hjá konunni hans. Eftir því sem hún fylgdist betur með hjónunum, því betur varð henni ljóst að hann elskaði konuna sína af ástríðu. Hann tilbað hana. Já. Eiginkonan var heppleg leið.

Með þetta í huga hóf hún leitina. Og ekki leið á löngu þar til ósóminn kom í ljós.

 

 

Sjötti bekkur. Einkunnir og ástundun ungu stúlkunnar var svo glæsileg að kennarinn hennar vildi færa hana upp um bekk. Hún varð skelfingu lostin og harðneitaði. Hún fann fyrir fáránlegu öryggi þar sem hún var. Hér vissi hún á hverju hún átti von. Stökk út í óvissuna hefði farið með hana. Og ofbeldið jókst og varð grófara. Fötin voru rifin utan af henni. Þeir alhörðustu leituðu á hana og hún fór að hata líkama sinn. Hataði sjálfa sig meira en kvalara sína.

 

 

Fljótlega eftir að hún beindi athyglinni að eiginkonunni gullfallegu, var ljóst hvers kyns var. Hún átti sér elskhuga. Og ekki bara einn. Þeir voru tveir sem henni tókst á listilegan hátt að skipta tíma sínum á milli. Og enginn af mönnunum þremur vissi af hinum. Byrjunin á leiknum var svo fullkomnuð þegar hún komst að því að yngra barnið var rangfeðrað og eiginkonan vissi það.

Hún hóf nafnlausar bréfasendingar til forstjórans, þar sem hún opinberaði svik eiginkonunnar. Með hatursfullri gleði fylgdist hún með upphafi hrunsins úr fjarlægð.

 

 

Sjöundi bekkur. Það komu stundir þar sem hún efaðist um að hún myndi lifa þennan vetur af. Í bókstaflegri merkingu. Þeir drekktu henni næstum því í eitt skiptið í sundtíma og í annað skipti héldu fjórir henni, á meðan sá fimmti brá meistaralega hnýttu reipi um háls hennar. Með sameiginlegu átaki hífðu þeir hana upp þar til hún blánaði í kringum varirnar. Hún gekk í rúllukragabol í margar vikur á eftir til að fela ummerkin.

 

 


HEFNDARÞORSTI - Glæpasaga - 1. hluti - ekki fyrir viðkvæma

 

Best var að nota Rohypnol. Nauðgunarlyfið.

Með þeim hætti voru þeir svo yndislega meðvitaðir um hvað var að gerast. Hvað var í þann veginn að fara að gerast.

Með þessum hætti gat hún talað við þá. Sagt þeim hvaða álit hún hefði á þeim. Bæði núna og þá.

Martraðirnar fylgdu henni enn eftir öll þessi ár. Jafnt í svefni sem vöku. Hún vissi að þannig yrði það alltaf. En hún taldi sig hafa ráð sem gæti linað andlega og líkamlega sársaukann, sem var henni samferða gegnum hverja stund dagsins.

 

Gerðu það, ekki senda mig í skólann. Leyfðu mér að ver heima. Bara í dag. Mamma. Gerðu það.

Örvænting. Ekki óþekkt.

En mamma sá það ekki. Mamma var ein og þreytt og vildi börnunum sínum aðeins það besta. Þar með talið menntun. Og í skólann skyldi stúlkan fara.

 

Hún lagði upp með langtímamarkmið og þolinmæðina eina að vopni fyrir tólf árum síðan. Það hafði borgað sig og eftir aðeins einn enn, yrði hún komin að leiðarlokum.

Bak við luktar dyr og myrkvða glugga lagði hún á ráðin um örlög fimmta og síðasta fórnarlambsins. Hún hafði lagt nótt við dag til að afla sér upplýsinga um manninn. Hvar hann ætti heima, fjölskylduhagi, venjur, vinnustað, félaga, uppáhaldsmat...

Ekkert sem snerti þennan mann var henni óviðkomandi. Hann skyldi þjást. Eins og hún hafði þjáðst í 18 ár. Eins og hún hafði syrgt það sem var, og það sem hefði getað orðið. Eins skyldi hann syrgja.

 

Enginn var vondur við hana í skólanum. Ekki beinlínis. Ekki fyrstu árin. Það var afskiptaleysið sem særði barnssálina og plantaði fyrstu örunum.

Í fyrsta og öðrum bekk átti hún hauk í horni þar sem kennarinn var. Litla og þéttvaxna eldri konu með stóran og mjúkan faðm. Hún varð bráðkvödd sumarið eftir að litla stúlkan lauk öðrum bekk. Það varð upphaf þrautagöngunnar.

 

Það hafði veitt henni mismikla fullnægju að koma hinum fjórum á kné. Það varð hún vissulega að viðurkenna fyrir sjálfri sér. Þeir sem áttu mest voru skemmtilegasta verkefnið. Þeir misstu mest. Hvað varðaði einn af þeim varð hún að beita sig hörðu til að halda sínu striki, því eftir því sem hún lærði meira um hann, þeim mun betur líkaði henni við hann. Hún blekkti sjálfa sig ekkert í sambandi við það. Hann var líka sá eini sem hún fylgdi til grafar. Reyndar fór hún bara í kirkjuathöfnina. Þar var fjölmennt og hún gat gert sig ósýnilegri en nokkru sinni fyrr. Með dökk, stór sólgleraugu á andlitinu og víðan klút um hálsinn sem hún gróf andlitið í. Enginn tók eftir henni. Öðru máli hefði gegnt ef hún hefði mætt í kirkjugarðinn. Hún tók ekki sénsinn á því.

 

Þriðji bekkur. Stúlkan fann að afskiptaleysið var á undanhaldi. Hún vissi ekki hvort var verra. Afskiptaleysið eða háðsglósurnar. Í fyrstu frá stúlkunum. Svo tóku strákarnir undir. 

Heimalærdómurinn hennar hvarf og kennarinn talaði til hennar í hæðnistóni. Þótti gaman að fá bekkinn til að hlæja. Á hennar kostnað. Skórnir hennar hurfu margoft og hún gekk á sokkaleistunum heim. Daginn eftir voru skórnir ávallt á sínum stað. Eitt sinn voru buxurnar hennar teknar á meðan hún var í leikfimi. Þann dag fann hún sér dimmt horn og bærði ekki á sér í margar klukkustundir. 

 

 


Frídagur verslunarmanna þýðir......?

cashier

 

Í dag er frídagur Verslunarmanna. Sem á að vera, eins og nafnið ber með sér, frídagur verslunarfólks. Það er að segja, fólk sem vinnur í verslunum á að eiga frí í dag. Are you with me so far?

Það er nú öðru nær eins og við öll vitum. Ein stétt af fáum sem er ekki í fríi frá sinni vinnu á þessum degi er verslunarfólk. Sem er bara næstum því sorglegt. Þó tel ég mig vita að í dag sé enginn þvingaður til vinnu á þessum degi. Ég held að mestmegnis sé það fégráðugt skólafólk (ekkert neikvætt við það) sem taki vaktinni fegins hendi. Ég vona það.

Allavega tel ég sjálfri mér trú um að svo sé, þegar ég geng inn í Nóatún á eftir, til að versla ýmislegt sem vantar til heimilisins. Sá verslunarleiðangur hefði vel getað verið farinn í gær. Og það hefði að sjálfsögðu verið gert ef ég hefði ekki verið alveg handviss um að ég kæmi að opnum dyrum í flestum matvöruverslunum í dag.

En ég er material girl og fer bara hnarreist í minn verslunarleiðangur á frídegi verslunarmanna og skammast mín ekkert fyrir það. Það er lasagne í matinn í kvöld og það bráðvantar hráefni. Maður verður að forgangsraða. Ég um mig frá mér til mín.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1639942

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband