Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Þrjár Þjóðhátíðar í Eyjum og Benny Hinn

Þrisvar hef ég farið á Þjóðhátíð í Eyjum. Skemmti mér konunglega í öll skiptin.

Fyrsta skiptið var ég fimmtán ára. Systir mín bjó í Eyjum á þessum tíma og ég fékk að fara undir því yfirskini að ég væri að fara að heimsækja hana. Sem og ég var. Eyddi samt litlum tíma undir hennar þaki. Aðeins yfir blánóttina.

Í annað skiptið var ég 24 ára og flaug frá Bakka með tveimur vinkonum mínum. Á þeirri Þjóðhátíð gerði ég allt sem ég gat til að koma vinkonu minni saman við einhvern breskan hljóðmann. Í dag gengur hann undir nafninu Bretinn í bloggheimum.

Í þriðja skiptið fór ég í félagi við Todmobile og má segja að ég hafi upplifað Þjóðhátíðina ''baksviðs'' í það skiptið. Eina Þjóðhátíðin sem ég var edrú allan tímann.

Að fara á Þjóðhátíð er sannkallað upplifelsi. Brekkusöngurinn og flugeldasýningin eru náttúrlega barasta gæsahúðarmóment og jákvæð múgsefjun. Algjörlega yndislegt. Það er stórkostleg upplifun að sjá 10 þúsund haugfulla Íslendinga setjast á rassgatið eins og þæg leikskólabörn og kyrja gamla útileguslagara og lög eftir Ása í Bæ með laglausan mann á kassagítar sem forsöngvara. Og hrópa awwww.... óóóóó... vááááá með tárin í augunum yfir glæsilegri flugeldasýningu.

Benny Hinn nær ekki upp betri stemningu á sínum besta degi


Ég væli yfir öllu

Anna frænka kom yfir í mat í kvöld. Hún var meiriháttar grasekkja þangað til fyrir klukkustund síðan. Kallinn í veiði og börnin þrjú (sem eru nú engin börn lengur) út um hvippinn og hvappinn (eða er það kvippinn og kvappinn?).

Á borðum var nautasteik Ala Breti steikt upp úr hvítlauk, lauk og engiferi, með frönskum kartöflum og hrikalega góðri sósu. Monster-in-LawMeð þessu var drukkið Coca-cola light 2007.

Í kvöld horfðum við Bretinn á Monster in Law með Jane Fonda og Jennifer Lopez. Engin óskarsverðlaunamynd en ég hafði gaman af henni. Og ég vældi í endann.

Damn.... ég væli yfir öllum væmnum atriðum í bíómyndum. Held þetta sé aldurinn. Er ekki sagt að maður verði meyrari með aldrinum?


Rómantísk fokkferð

golfFyrir nokkru síðan tilkynnti Bretinn það að hann ætlaði til Englands í sumar að kaupa sér golfsett og ég ætti að koma með honum. Úr þessu myndum við gera stutta flóttaferð. Bara við tvö. Ég held hann hafi ekki fengið neinar brjálæðislegar undirtektir frá mér. Mér finnst svo mikið mál að koma krökkunum fyrir, og þó merkilegt megi teljast, meira mál með Gelgjuna en Þann Einhverfa.

Hef þó hugsað þetta svona í hljóði... fjandinn fjarri mér að ef ég loksins kemst í rómantíska fokkferð að það verði til tengdó..... I dont think so.

Ég laumaði hugmynd af Brynju vinkonu í Berlín. Væri ekki sniðugt ef við færum í heimsókn til hennar?

Við Bretinn hefðum dagana út af fyrir okkur því hún er auðvitað að vinna. Gætum ráfað um Berlín, drukkið kaffi eða rauðvín eða what ever, skoðað eitthvað merkilegt (t.d. golfsett) og jafnvel bara skrúað á sófanum hennar Brynju. Gætum svo eytt kvöldunum í notalegheitum með Brynju eða án, út að borða eða heima að elda.

Margar flugur drepnar þarna; Róleg og næs helgi með Bretanum, ég fengi tækifæri til að hitta og eyða tíma með ástkærri vinkonu sem ég sakna hræðilega mikið, frítt húsnæði (held allavega ekki að Brynja myndi rukka okkur um leigu. Brynja er það nokkuð?), laus við krakkaormana í smá tíma. Væri hægt að hafa það betra.

 Það var aðeins eitt sem þurfti að gera til að ég hefði tromp á hendi þegar ég bæri þetta upp við Bretann. Brynja samþykkti að fara á stúfana og athuga hvað golfsett myndi kosta í Berlín. Gæti bara ekki verið dýrara en í Englandi. Ekkert mál sagði hún. Það er golfbúð hérna handan við hornið sem ég geng fram hjá á hverjum degi. Droppa þar inn og finn út úr þessu.

Ég fékk tölvupóst frá henni í dag þar sem hún segir.... hér kemur það, kópí peist, beint úr Lótusnum:

Golfbúðin sem að mér fannst vera í næstu götu við mig reyndist vera hestabúð - ég veit það, ég er keppnisíþróttamanneskja og hef alltaf verið, ég held áfram að hafa augu "opin" og læt þig svo vita hvað gólfsettið kostar í Berlín.

Ég velkist því enn í vafa um hvort Bretinn og ég munum eyða nokkrum rómantískum nóttum hjá tengdó í smábæ á Englandi or what.


Afmælisdagafóbía

 

Ég er vonlaus í að muna dagsetningar. Reyndar, þegar ég hugsa um það, þá  er tölu-minni mitt yfirhöfuð, afar lélegt.

image-numbers 

Ég veit að þetta mun sjokkera marga en ég get alls ekki munað klukkan hvað ég var rist á hol í þessi tvö skipti sem ég fæddi börn í þennan heim. Né hversu stór eða þung þau voru.

Og þó að ég skvetti þessu hér fram eins og ég sé blygðunarlaus þá skammast ég mín fyrir þetta. Þið getið alveg trúað því. Sem betur fer man ég hvenær þau eiga afmæli en þarf þó stundum að hugsa mig aðeins um því ég á það til að víxla tölunum. Gelgjan er fædd 11. janúar og Sá Einhverfi 7. september. Ég vil stundum klína 7. janúar á hana og 11. september á hann. Ég veit það, þetta er ótrúlegt. GSM símar og þeirra innbyggðu hæfileikar voru því mikil blessun fyrir mig. Smátt og smátt er ég að setja inn í símann alla afmælisdaga fólks sem mér þykir vænt um og læt hann pípa á mig með dagsfyrirvara.

En ég er með fóbíu og ég vil að hún verði skráð og skjalfest sem slík. Afmælisdagafóbía. Ég vil að þetta verði viðurkennt sem sjúkdómur.

Einkennin eru hnútur í maga, ör hjartsláttur og svitaköst.

Kastið kemur fyrirvaralaust ef eitthvað verður til þess að mér dettur í hug að ég hafi gleymt afmælisdegi. Fékk þrjú svona köst eftir að ég, til og með, mætti í afmæli hjá Fríðu vinkonu með gjöf og allan pakkann.

Þrisvar sinnum eftir afmælið datt mér skyndilega í hug: Ó Guð, átti Fríða ekki afmæli í gær... eða dag... eða þessa dagana. Og hjartað róast ekki fyrr en ég skyndilega man að ég fór í afmælið, borðaði köku og knúsaði afmælisbarnið.

Ég lifi í stöðugri hræðslu við að gleyma afmælisdegi einhvers sem mér þykir vænt um og særa hann. Ég á eldri systir sem er líka afmælisdagarati og það er hreinlega yndislegt að gleyma afmæli hvor annarrar og hafa barasta engar áhyggjur af því.

Jebb. Nú er það opinbert. Ég er stórskrýtin.   birthday


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 1639992

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband