Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

Vá hvað ég er búin að éta í dag

Með Mogganum: Kaffi með sykri og mjólk og ristabrauð (hvítt) með smjöri (ekki L&L eins og annars alltaf) og 26% osti (ekki 17% eins og venjulega)

með morgunblogginu: meira kaffi með sykri og mjólk

Í Mosfellsbakaríi Miðbæ hjá Ellisif vinkonu: Normalbrauð með smjöri og osti, tvöfaldan latte með sykri

Í kaffitímanum (það sem ég kippti með mér úr Mosó hjá Ellisif): eplaköku með þeyttum rjóma, skúffukökusneið (ar)

Í kvöldmatnum: Chinese frá Indókína (svínakjöt, lambakjöt, djúpsteiktar rækjur, súrsæta sósu, sojasósu, hrísgrjón)

Kvöldkaffi með blogginu: Te með sykri og mjólk, eplaköku (sleppti rjómanum því hann var búinn)

Einnig hef ég drukkið ómælt magn af Coke light í dag og er enn að. Mér tókst líka að skvísa snakki og öðrum ósóma þarna einhvers staðar á milli.

Ég er nefnilega í fitun í sumarfríinu. Bara svo ég geti farið í megrun eftir sumarfrí. Ætli nikótíntyggjó sé fitandi? En tannkrem?

 


Nýju garðhúsgögnin vígð

Í gær vorum við svo heppin að vera boðið í grill yfir til Önnu frænku á 47. Og ekkert slor skal ég segja ykkur. Grillaður humar og hvítlauksbrauð í forrétt. Nautasteik og bakaðar kartöflur í aðalrétt. Konan (ég) skellti í mig rauðvíni eins og mér væri greitt veglegt kaup á tímann fyrir það. Gelgjan skellti í sig hamborgara og lét sig svo hverfa. Sá einhverfi hafði borðað pasta áður en við fórum yfir svo hann skemmti sér með hundunum (tveir hundar á þeim bænum) úti í garði. Nýfenginn áhugi á körfubolta varð líka til þess að hann dró einhvers konar risavaxinn veiðiháf út úr bílskúrnum og vildi festa hann á vegginn. Hélt þetta væri karfa. Var reyndar ekki langt frá því.. net, hringur og handfang sem hefði alveg getað skrúfast í vegginn. Gestgjafarnir voru samt ekki til í að klippa neðan af netinu, né skrúfa háfinn fastan við húsið. Sko sumir gestgjafar eru bara alls ekki gestrisnir.....

Því fór það svo að það sem átti að vera í 17. júní mat hjá okkur hérna á 43, var grillað í kvöld. Svínalundir ala breti. Af því tilefni voru nýju garðhúsgögnin vígð.

 

AM

 

 Gelgjan með pylsu ala mamma í pylsubrauði. Léttmjólk, árgangur 06 2007 í glasinu

 

 

 

 

 

 

 

 Bretinn

 Bretinn að snæðingi

 

 

 

 

 

 

 

 

p.s. Nú barasta verð ég að drífa mig í líkamsrækt. Ég var að reita arfa, róta í mold og stinga upp rætur í garðinum í gær og mig verkjar í allan líkamann. Töluverður fjöldi af vöðvum sem ekki eru notaðir í þessum kroppi. Samt sló það allt út fyrir einhverjum árum síðan þegar ég vaknaði með harðsperrur einn morguninn og gat aðeins tengt það við að hafa bograst yfir baðkarinu við hárþvott. Mana ykkur til að toppa það  í ''vera ekki í formi'' deildinni.

 

 

 

 


Fékk löngun til að eyða peningum

Afhverju sef ég ekki alltaf átta tíma. Það er mannbætandi að fá nægan svefn.

Á föstudaginn sótti Fríða, vinkona og stuðningsmamma með meiru, Þann Einhverfa í Vesturhlíð og tætti með hann og syni sína upp í bústað.

Bretinn og ég tættum í staðinn á Lauga-ás, þann klassíska veitingastað, með Gelgjuna og Vinkonuna. Ég át yfir mig svo um munaði og flissaði og hló að Gelgjunni og var því ekki til fyrirmyndar. Á heimleiðinni stoppuðum við í Skalla og náðum okkur í DVD mynd, The Queen. Assgoti góð mynd sem fékk mig til að fá samúð með Englandsdrottningu frú Stífelsi.

Að því búnu rotaðist ég í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Rumskaði við að Bretinn sagði; Ertu sofnuð. Já, svaraði ég. Og ekki bara það heldur er ég slefandi líka. Og ég þurrkaði slefið framan úr mér og rotaðist aftur. Að mínu mati er slef í svefni merki um hið fullkomna afslappelsi.

Ég vaknaði 08:45 í morgun (laugardag). Ennþá í sófanum. Fór á fætur. Fékk mér ljúffengt kaffi og ristað brauð, las blöðin og japlaði á nikótíntyggjóinu í sæluvímu.

Þegar ég sá fram á einveru fram eftir degi bauð ég Vidda í göngutúr og við bonduðum þvílíkt í eins og hálf tíma göngu.

flower

Um þrjúleytið í dag lýsti ég yfir áhuga á að fara út og eyða peningum. Bretinn tók nú bara vel í þessa hugmynd og þegar þetta er ritað er ég 2 bleikum og æðislegum hengiblómum ríkari og ekki nóg með það heldur standa hérna út á palli garðhúsgögn sem ég lét mig aðeins dreyma um að eignast á útsölunum í haust. Bretinn, aðhald mitt og samviska í fjármálum, fékk held ég bara aðsvif í dag og heimtaði borð og stóla á pallinn.furniture

  Í augnablikinu eru húsgögnin að rigna niður en ég held þau hafi bara gott að horfast í augu við veruleikann strax í fæðingu.  


Banvæn brjóstagjöf

Gelgjan er að gera út af við mig. Ég fæ a.m.k. fjögur hlátursköst á dag út af því sem vellur upp úr henni.

Hún hefur löngum verið upptekin af brjóstunum á mér. Finnst þau agalega stór og kommentar á það reglulega. Einnig þarf ég reglulega að segja henni söguna af því að ég var aðeins með hana á brjósti í 3 vikur, svo gafst ég upp því hún var svo óróleg í brjóstagjöfinni og á eftir. Síðar kom í ljós að hún var með einhvers konar mjólkuróþol og endaði á sojaþurrmjólk.

peli

kid

Í gær var ég að slást við hana og Vinkonuna og skyndilega skellti hún andlitinu upp að barminum á mér. Hvað er að þér sagði ég. Svakalega ertu upptekin af brjóstunum á mér.

Já sagði hún og sveiflaði örmunum til á dramatískan hátt. Það er vegna þess að ég fékk ömurlega mjólk úr þessum brjóstum í þrjár banvænar vikur. 

 Ég meina það! Erum við ekki svolítið skrýtin í minni fjölskyldu?

 


Auglýsi eftir trampolíni fyrir Mitchelin manninn

Ég veit að bloggið er ekki ætlað til smáauglýsinga en datt samt í hug að sniðugt gæti verið að auglýsa eftir trampólíni með öryggisneti hér.

Málið er að Sá einhverfi er að breytast í Mithcelin manninn þessi elska. Fyrst var talið að barnið fitnaði svona af Amilininu (lyfið sem hann var á, en flest börn fitna af því), svo var hann tekinn af lyfinu og það sér ekki högg á vatni. Hann er hoppandi um allan daginn á milli þess sem hann teiknar og skrifar einhverja snilli og gúgglar á netinu. Og hann borðar ekkert svaaaakalega mikið. Þyrftum samt að reyna að taka af honum brauðið FootinMouth.

En gaurinn fer ekki út að leika sér eins og önnur börn og því held ég að trampólín í garðinn væri snilldarleikur. Væri brilliant að fá það eitthvað ódýrara en á 40 þúsund kallinn sem það kostar út úr búð (með öryggisneti).

Þannig að, ef þið eigið í fórum ykkar trampólin sem þið eruð ekki að nota lengur þá endilega látið mig vita.

michelin


Hér er Öskjuhlíð um Öskjuhlíð frá Öskjuhlíð til Öskjuhlíðarskóla

Miðvikudagur 06. júní 2007

kl 03:07 Vakna við að Sá Einhverfi skellir klósettsetunni upp með látum sem honum einum er auðið, pissar, sturtar niður og kemur svo hlaupandi þungum skrefum og hendir sér upp í rúm á milli mín og Bretans.

kl. 03:25 Ég hasta á Þann Einhverfa eftir að hafa hlustað á Í grænni lautu þrisvar sinnum, talið upp að 10 nokkrum sinnum og einn hlut sem byrjar á hverjum og einum staf í stafrófinu, s.b. aaaaaaa api - bééééé banani - dééééé dóóóós - eeeee engill.... osfrv. Einnig óskaði hann öllum í fjölskyldunni til hamingju með afmælið og spjallaði við hundana

kl. 03:55 Enn er ég að hasta á Þann Einhverfa

kl. 06:50 Ýti ég á ''blunda'' á símanum og held því áfram alveg til

kl. 07:27 þegar ég tek ákvörðun um að láta Þann Einhverfa með munnræpuna sofa skólabílinn af sér, bara af því að það er svo gott að horfa á hann sofandi og þegjandi

kl. 07:45 hleyp ég út til að láta bílstjórann á skólabílnum vita að Sá Einhverfi sé ennþá sofandi og muni ekki ferðast með skólabílnum þennan morguninn. Kemst þá að því að aðeins einn farþegi er í bílnum og bílstjórinn samt búinn að vera að keyra síðan kl. 7. Það voru því fleiri en ég sem nutu þess í morgun að horfa á sofandi og þegjandi fatlaða einstaklinga með nætur-munnræpu.

kl. 09:05 horfi ég á Þann Einhverfa glaðan og kátan í fataklefanum í Öskjuhlíðaskóla. Hann söng á meðan hann klæddi sig í inniskóna og ég tek fram að það er óvenjulegt að hann sé svona ánægður þegar búið er að brjóta á rútínunni hans og hann þarf að ferðast í bíl mömmu í skólann í stað skólabílsins. Svo komumst við að því að skólastofan var læst og miði til okkar á hurðinni; Erum í tónmenntastofunni. En meira rútínubrot þoldi káti strákurinn ekki, hann fór að háskæla og tárin spýttust í allar áttir. Þoldi náttúrlega alls ekki að komast ekki inn í stofuna og byrja morguninn eins og hann var vanur.

kl. 09;10 keyri ég eftir veginum sem liggur í gegnum Öskjuhlíðarskóginn og niður að Loftleiðum.

kl. 09:15 þramma ég inn í tölvudeildina í vinnunni, grimm á svip með tölvuna mína sem ég nota til að vinna á heima (og til að blogga) og heimta lausn á vandamálinu og það strax. Þygg samt vínber af strákunum og

kl. 09:25 hlamma ég mér loks í sætið mitt í vinnunni

kl. 13:30 byrja ég að hringja og væla í Unglingnum (stjúpsyninum) því Vesturhlíð (viðvera barna í Öskjuhlíðarskóla eftir skólatíma) er að undirbúa sig undir sumarnámskeiðin og því engin viðvera sem eftir lifir þessari viku. Var því von var á drengnum heim með skólabílnum um kl. 14. Ég aftur á móti sá fram á að ná aldrei að komast út af vinnustaðnum í tæka tíð svo ég náði að kría út klukkustundar pössun hjá Unglingnum áður en hann færi sjálfur til vinnu.

kl. 14:45 mútaði ég Gelgjunni og vinkonu hennar með loforði um kleinuhringi og kökusneið ef þær litu eftir Þeim Einhverfa til kl. 15:30

kl. 15:30 hentist ég inn í ónefnt bakarí þar sem ekkert var til í og þaðan aftur út í bíl og spændi upp malbikið á leið minni í Nóatún. Þar fann ég kleinuhringi og fleira gúmmelaði og snaraðist inn úr dyrunum heima hjá mér með öran hjartslátt

kl. 15:45. Töfraði fram ''homemade'' drekkutíma handa Gelgjunni, vinkonunni og Þeim Einhverfa og hóf svo leit að gemsanum mínum því ég þurfti að hringja í vinkonu mína, til að fá fréttir og bað í hljóði að hún hefði ekki slæmar fréttir að færa eftir læknisheimsókn í morgun. Fann ekki gemsann. Hringdi í Nóatún (úr heimasímanum) og fékk staðfest að ég hefði gleymt símanum þar. Hringdi svo í vinkonu mína og var alls ekki viss um að ég væri að hringja í rétt númer því öll númer sem einu sinni eru fest í phonebook gemsans eyðast sjálfkrafa út af heilanum í mér. Fékk góðar fréttir sem betur fer.

kl. 16:01 tilkynnti ég Gelgjunni að við þyrftum að taka þann einhverfa með á bekkjarkeiluna sem byrjaði kl. 17. Því var harðlega mótmælt. Hún nennti sko ekki að hafa bróðir sinn hlaupandi um á nærbuxunum í Keiluhöllinni (hann fer úr buxunum þar sem hann kemur ef hann kemst upp með það, svo framarlega sem honum líkar staðurinn). Gelgjan sagðist því frekar vilja sleppa bekkjarkeilunni en taka þennan svarta blett á fjölskyldunni með á opinberan stað. Samþykkti þó með trega þegar vinkonan mótmælti því að missa af skemmtuninni, en hún átti að fljóta með okkur.

kl. 16:29 tekst mér að slíta Þann einhverfa frá Múmínálfunum með loforði um bíltúr og tróð liðinu í bílinn. Hafði þá tekið ákvörðun um að skutla drengnum í vinnuna til pabba síns svo Gelgjan gæti notið sín í keilunni.

kl. 16:30 hleyp ég inn í Nóatún og næstum því í fangið á konunni góðu sem gætti gemsans. Urðu fagnaðarfundir. Hjá mér og gemsanum.

kl. 16:45 vinka ég Þeim Einhverfa þar sem hann situr í sófanum í stúdíóinu hjá pabba sínum. Hann er örlítið undrandi á svipinn en kveður mig samt.

kl. 17:00 Geng ég ásamt Gelgjunni og Vinkonunni inn í Keiluhöllina í Öskjuhlíð og byrja að reyna að skipuleggja og stjórna 15 gelgjum á einu bretti.

kl. 19:07 Geng ég út úr Keiluhöllinni í Öskjuhlíð með suð fyrir eyrum eftir hávaðann

kl. 19:30 Hálf-ligg ég og hálf-sit í hægindastól í stofunni minni með lokuð augun og óska þess heitt að ekki hefði akkúrat valist þetta kvöld til að halda Aðalfund foreldrafélags Öskjuhliðarskóla í kvöld.

kl. 19:50 sest ég upp í bílinn minn og segi: Bara á sama stað og vanalega takk. Og hann keyrir niðrí Öskjuhlíðarskóla.


Sumir menn halda að þeir séu gjöf frá Guði

Eitt sinn er ég var stödd í New York ákvað ég að fá mér setjast niður og fá mér lunch þó ég væri ein á ferð (Geri þetta nú ekki oft). Eftir að ég var búin að panta og beið eftir matnum komu tveir menn og settust við borðið hjá mér. Ég sendi þeim drápsaugnaráð sem venjulega virkar en það gerði það ekki í þetta skiptið. Ég brá því á það ráð að snúa hring sem ég ber alltaf á vinstri hendi, þannig að steinninn sneri inn í lófann, því þá lítur hann út eins og giftingarhringur. Svo lagði ég höndina á borðið og vonaði að þetta hint myndi nægja til þess að þeir hypjuðu sig í burtu.

Þeir tóku loksins hintinu og létu sig hverfa. Mér tókst að ná mynd af þeim og birti hana hér sem aðvörun til ykkar ef þið skilduð nú rekast á þá.

Ég meina það.... sumir menn halda bara að þeir séu Guðsgjöf til kvenna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

bradkluni


Þið eruð alveg frábær

Vildi bara segja ykkur hversu frábær þið eruð. Ég henti inn þessari ''afmælisfærslu'' hérna síðast og með henni upptalningu á áhugaverðu umræðuefni sem kom upp við kaffiborðið.

Þetta eru málefni sem margir hafa skoðanir á og mismunandi eru þær skoðanir.

Þetta var ekki ætlað sem spurningar sem þið þyrftuð að svara en mikið ofsalega var þetta skemmtilegt.

Við ykkur öll sem höfðuð fyrir því að svara samviskusamlega eins og um próf væri að ræða og þið hin sem deilduð með mér allskonar æskuminningum, skoðunum, fyrirkomulagi á heimilinu og draumórum (samanber sr. Svavar LoL), segi ég takk fyrir góða skemmtun og frábærar undirtektir.


Afmæli, pólitík og hversu langt teygist naflastrengurinn

Skemmtilegustu barnaafmæli sem hægt er að fara í eru hjá minni yndisfögru vinkonu Ellisif og fjölskyldunni hennar. Heimasætan þar á bæ varð 7 ára í dag og það var boðið til veislu.

Þið vitið hvernig þessi barnaafmæli eru. Amma og afi, frænkur með sín börn og vinkonur mömmunnar með sín börn. Mjög týpýskur hópur.

En munurinn á barnaafmælunum sem eru haldin á þessu heimili og öðrum sem ég þekki til á, eru þau að frændurnir mæta líka og eiginmenn vinkvennanna einnig. Og gera það með gleði. Og það er ekkert hálftíma stopp rétt til að sýna á sér andlitið og lit í leiðinni. Nei, í dag voru þetta sko 4 tímar og við hefðum alveg verið til í að stoppa lengur ef ekki hefði þurft að koma Þeim Einhverfa heim í bælið.

Þar sem heimilisfaðirinn er bakari af listamannagerðinni eru terturnar meistaraverk og svo spillir ekki fyrir að Ellisif hin fagra er snillingur í eldhúsinu, hefur það frá mömmu sinni. Því fór það svo að svínalundirnar sem Bretinn ætlaði að elda í sunnudagsmatinn voru náttúrlega settar aftur inn í ísskáp þegar heim var komið, og verða að bíða betri tíma.

Við borðið sem svignaði undan kræsingunum sem glöddu jafnt auga sem maga var ýmislegt spjallað og svo fór að pólitíkin (sú illa tík) slæddist inn í umræðurnar. Út frá því spunnust umræður um fæðingarorlof karla, hlutverk þeirra á heimilinu, hvort menn í dag væru orðnir of kvenlegir og svo mætti lengi telja eins og þið getið ímyndað ykkur.

Ætla að birta hér nokkrar spurningar/vangaveltur sem komu upp á yfirborðið í dag og fengust engin svör við. Eða öllu heldur mörg mismunandi svör. Set þetta hérna fram bara eins og það rifjast upp fyrir mér og ekki í neinni lógískri röð.

  1. Er rétt af Árna Johnsen að fara í framboð í ljósi brota sinna?
  2. ef ekki, afhverju ekki? Er ekki rétt að menn sem sitji af sér brot fái að byrja upp á nýtt? Er ekki fangelsisdómur til þess gerður að menn sitji hann af sér og bæti þar með fyrir brot sitt og skuldin til samfélagsins sé greidd?
  3. Er fæðingarorlof karla rétta leiðin? Væri ekki betra að x margir mánuðir í fæðingarorlof væri fyrir hvert barn sem fæddist og foreldrarnir réðu sjálfir að öllu leyti hvernig þeir ráðstöfuðu þeim mánuðum.
  4. Er það rétt eða rangt að barn sé háðara móður sinni en föður sama hvernig á það er litið?
  5. Urðu breytingar til hins verra þegar konur fóru að herja á vinnumarkaðinn hvað varðar börnin okkar? Væru börn ekki almennt betur sett í dag er línurnar væru eins skýrar og þær voru hér áður fyrr þegar allar mæður voru heimavinnandi og börn léku sér í tugatali saman úti í boltaleikjum, einni krónu, stórfiskaleik og hvað þetta hét nú allt saman?
  6. Er strákum leyft að þroskast á sínum forsendum? Fá þeir leyfi til að vera Strákar með öllu sem því fylgir? Þurfa þeir ekki að fá leyfi til að vera í sínum Pang pang leikjum í friði, klifra í trjám og byggja stíflur í stað þess að þvinga fram í þeim fínhreyfingar með perlum og föndri í leikskóla?
  7. Eru ennþá til stjórnmálamenn sem eru í jobbinu af hugsjón eða eru þetta allt saman bévítans eiginhagsmunaseggir og framapotarar?
  8. Væri möguleiki að breyta stjórnmálum á Íslandi þannig að kosið væri um fólk og málefni en ekki flokka?
  9. væri slíkt vænlegt til árangurs?
  10. Er ekki kominn tími til að við horfumst í augu við að karlmenn/strákar og konur/stelpur eru ólík, með ólíkar þarfir og tilfinngar, og förum að haga okkur samkvæmt því?
  11. Hefur það munstur sem við ólumst upp í, áhrif á hvernig heimilismunstri við viljum ala börnin okkar upp í.

Ætla ekki að tjá mig hér um mínar skoðanir á öllum þessu en langar þó að segja að þrátt fyrir að vera jafnréttislega sinnuð þá held ég að engin geti mótmælt því að börnin okkar voru öruggari þegar mamma var heima, tilbúin með heitt kakó og brauð þegar komið var inn á drekkutíma.

Aftur á móti tel ég ekki að það myndi skipta máli hvort mamma eða pabbi hitaði kakóið.

Thats all I'm gonna say for now good people.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband