Leita í fréttum mbl.is

Hér er Öskjuhlíð um Öskjuhlíð frá Öskjuhlíð til Öskjuhlíðarskóla

Miðvikudagur 06. júní 2007

kl 03:07 Vakna við að Sá Einhverfi skellir klósettsetunni upp með látum sem honum einum er auðið, pissar, sturtar niður og kemur svo hlaupandi þungum skrefum og hendir sér upp í rúm á milli mín og Bretans.

kl. 03:25 Ég hasta á Þann Einhverfa eftir að hafa hlustað á Í grænni lautu þrisvar sinnum, talið upp að 10 nokkrum sinnum og einn hlut sem byrjar á hverjum og einum staf í stafrófinu, s.b. aaaaaaa api - bééééé banani - dééééé dóóóós - eeeee engill.... osfrv. Einnig óskaði hann öllum í fjölskyldunni til hamingju með afmælið og spjallaði við hundana

kl. 03:55 Enn er ég að hasta á Þann Einhverfa

kl. 06:50 Ýti ég á ''blunda'' á símanum og held því áfram alveg til

kl. 07:27 þegar ég tek ákvörðun um að láta Þann Einhverfa með munnræpuna sofa skólabílinn af sér, bara af því að það er svo gott að horfa á hann sofandi og þegjandi

kl. 07:45 hleyp ég út til að láta bílstjórann á skólabílnum vita að Sá Einhverfi sé ennþá sofandi og muni ekki ferðast með skólabílnum þennan morguninn. Kemst þá að því að aðeins einn farþegi er í bílnum og bílstjórinn samt búinn að vera að keyra síðan kl. 7. Það voru því fleiri en ég sem nutu þess í morgun að horfa á sofandi og þegjandi fatlaða einstaklinga með nætur-munnræpu.

kl. 09:05 horfi ég á Þann Einhverfa glaðan og kátan í fataklefanum í Öskjuhlíðaskóla. Hann söng á meðan hann klæddi sig í inniskóna og ég tek fram að það er óvenjulegt að hann sé svona ánægður þegar búið er að brjóta á rútínunni hans og hann þarf að ferðast í bíl mömmu í skólann í stað skólabílsins. Svo komumst við að því að skólastofan var læst og miði til okkar á hurðinni; Erum í tónmenntastofunni. En meira rútínubrot þoldi káti strákurinn ekki, hann fór að háskæla og tárin spýttust í allar áttir. Þoldi náttúrlega alls ekki að komast ekki inn í stofuna og byrja morguninn eins og hann var vanur.

kl. 09;10 keyri ég eftir veginum sem liggur í gegnum Öskjuhlíðarskóginn og niður að Loftleiðum.

kl. 09:15 þramma ég inn í tölvudeildina í vinnunni, grimm á svip með tölvuna mína sem ég nota til að vinna á heima (og til að blogga) og heimta lausn á vandamálinu og það strax. Þygg samt vínber af strákunum og

kl. 09:25 hlamma ég mér loks í sætið mitt í vinnunni

kl. 13:30 byrja ég að hringja og væla í Unglingnum (stjúpsyninum) því Vesturhlíð (viðvera barna í Öskjuhlíðarskóla eftir skólatíma) er að undirbúa sig undir sumarnámskeiðin og því engin viðvera sem eftir lifir þessari viku. Var því von var á drengnum heim með skólabílnum um kl. 14. Ég aftur á móti sá fram á að ná aldrei að komast út af vinnustaðnum í tæka tíð svo ég náði að kría út klukkustundar pössun hjá Unglingnum áður en hann færi sjálfur til vinnu.

kl. 14:45 mútaði ég Gelgjunni og vinkonu hennar með loforði um kleinuhringi og kökusneið ef þær litu eftir Þeim Einhverfa til kl. 15:30

kl. 15:30 hentist ég inn í ónefnt bakarí þar sem ekkert var til í og þaðan aftur út í bíl og spændi upp malbikið á leið minni í Nóatún. Þar fann ég kleinuhringi og fleira gúmmelaði og snaraðist inn úr dyrunum heima hjá mér með öran hjartslátt

kl. 15:45. Töfraði fram ''homemade'' drekkutíma handa Gelgjunni, vinkonunni og Þeim Einhverfa og hóf svo leit að gemsanum mínum því ég þurfti að hringja í vinkonu mína, til að fá fréttir og bað í hljóði að hún hefði ekki slæmar fréttir að færa eftir læknisheimsókn í morgun. Fann ekki gemsann. Hringdi í Nóatún (úr heimasímanum) og fékk staðfest að ég hefði gleymt símanum þar. Hringdi svo í vinkonu mína og var alls ekki viss um að ég væri að hringja í rétt númer því öll númer sem einu sinni eru fest í phonebook gemsans eyðast sjálfkrafa út af heilanum í mér. Fékk góðar fréttir sem betur fer.

kl. 16:01 tilkynnti ég Gelgjunni að við þyrftum að taka þann einhverfa með á bekkjarkeiluna sem byrjaði kl. 17. Því var harðlega mótmælt. Hún nennti sko ekki að hafa bróðir sinn hlaupandi um á nærbuxunum í Keiluhöllinni (hann fer úr buxunum þar sem hann kemur ef hann kemst upp með það, svo framarlega sem honum líkar staðurinn). Gelgjan sagðist því frekar vilja sleppa bekkjarkeilunni en taka þennan svarta blett á fjölskyldunni með á opinberan stað. Samþykkti þó með trega þegar vinkonan mótmælti því að missa af skemmtuninni, en hún átti að fljóta með okkur.

kl. 16:29 tekst mér að slíta Þann einhverfa frá Múmínálfunum með loforði um bíltúr og tróð liðinu í bílinn. Hafði þá tekið ákvörðun um að skutla drengnum í vinnuna til pabba síns svo Gelgjan gæti notið sín í keilunni.

kl. 16:30 hleyp ég inn í Nóatún og næstum því í fangið á konunni góðu sem gætti gemsans. Urðu fagnaðarfundir. Hjá mér og gemsanum.

kl. 16:45 vinka ég Þeim Einhverfa þar sem hann situr í sófanum í stúdíóinu hjá pabba sínum. Hann er örlítið undrandi á svipinn en kveður mig samt.

kl. 17:00 Geng ég ásamt Gelgjunni og Vinkonunni inn í Keiluhöllina í Öskjuhlíð og byrja að reyna að skipuleggja og stjórna 15 gelgjum á einu bretti.

kl. 19:07 Geng ég út úr Keiluhöllinni í Öskjuhlíð með suð fyrir eyrum eftir hávaðann

kl. 19:30 Hálf-ligg ég og hálf-sit í hægindastól í stofunni minni með lokuð augun og óska þess heitt að ekki hefði akkúrat valist þetta kvöld til að halda Aðalfund foreldrafélags Öskjuhliðarskóla í kvöld.

kl. 19:50 sest ég upp í bílinn minn og segi: Bara á sama stað og vanalega takk. Og hann keyrir niðrí Öskjuhlíðarskóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Innihaldsríkur dagur Guðmundur. Innihaldsríkur. ;o)

Jóna Á. Gísladóttir, 7.6.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Það er svo gott að fá smá svona" alone time" Þótt ég ætla sko ekki einu sinni að þykjast hafa svona mikið að gera eins og þú að þá tími ég oftast ekki að fara að sofa strax og þeir eru sofnaðir, stundum teygist það alveg þangað til 00:44..

Ég segi eins og Guðmundur, hvíldu þig vel

Guðríður Pétursdóttir, 7.6.2007 kl. 00:42

3 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Hörku dagur þetta hjá þér Jóna, þér einni líkt að far létt með hann.

Kveðja:

Sigfús Sigurþórsson., 7.6.2007 kl. 00:44

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Elskan mín góða. Dagarnir eru nú vanalega ekki svona hjá mér heldur. bara einn og einn. Ég elska alone time og þeir eiga það til að draaaaaagast eins og þú segir. Böggaði mig bara þetta endalausa ráp í allan dag og langt fram á kvöld alltaf á sama staðinn. Öskjuhlíðina. Hefði átt að tjalda bara í staðinn fyrir að eyða öllu þessu bensíni að ég tali nú ekki um að rassakastast þetta í umferðinni í Reykjavíkinni fram og aftur.

Jóna Á. Gísladóttir, 7.6.2007 kl. 00:47

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Meiri krafturinn í þér. Ég varð dauðþreytt, bara af að lesa þetta. Mér fannst alveg nóg að fara til höfuðborgarinnar í dag  og kaupa sólstrandarföt handa Unglingnum og Ömmustrák!(Og bikini ) En það er oft að þegar maður er störfum hlaðinn og sér vart fram úr verkefnunum , þá fær maður einhvern auka kraft sem maður vissi ekki að maður ætti til

Rúna Guðfinnsdóttir, 7.6.2007 kl. 01:06

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jóna þú ert æðislega dugleg!!  Ég varð örmagna við lestur færslunnar þinnar.  Fór aftur á bak í tíma þegar mínar stelpur voru litlar.  Mitt líf var Melaskóli-Kr-húsið (fimleikar hjá öllum þremur á mismunandi tíma)Kr-húsið-heimilið-Kr-húsið á milli þess sem ég vann í tveimur vinnum og leysti af í hinni þriðju.  Vááá ég lifi og þú lifir.  Það er kraftaverk.  Love u

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.6.2007 kl. 01:18

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jenný Anna. Ertu að segja að ég sé feit eða.....?

Jóna Á. Gísladóttir, 7.6.2007 kl. 01:23

8 identicon

Dagurinn hjá mér var ögn öðruvísi:
8:30 - vakna við klukkuna, snúsa til 9:30.
9:30 - mamma hringir og spyr hvort hún geti fengið að geyma ýmislegt dót á pallinum hjá mér og Veigu þegar við flytjum 1. ágúst.
10:00 - búinn að borða morgunmat og kíkja á fréttir á netinu og blogga eitthvað
10:30 - búinn að snæða örlítið meira og skelli mér í sturtu.
12:00 - Borða hádegismat og hjóla í vinnuna.
12:20 - Er í afgreiðslu á bókasafninu til 17:00.
15:30 - Kaffitími, þar sem eitt afmælisbarn úr maí hefur eldað glæsilegar veitingar og maður stuffar sig vel
17:00 - Fer í upplýsingaþjónustuna og er þar til 19:00
19:15 - Kominn heim og kveiki á leiknum - næ að sjá 4. og 5. mark Svíanna. Frábært ...
20:00 - Ákveð að borða kl. 21:00
21:00 - Fæ mér nokkra kjúklingastrimla í súrsætri (tekur 2 mín. að búa til).
21:20 - Mamma hringir og býður mér bíl ömmu til afnota næstu tvær vikur. Hún og systir hennar (Margrét frænka) eru að þrífa hjá ömmu meðan hún er úti í Svíþjóð og ég tek tilboðinu. Skokka yfir og sæki bílinn.
22:00 - Set bensín á bílinn og þvæ hann.
22:30 - Set myndina "Empire of the wolves" í tækið ... frönsk mynd með Jean Reno ... alveg allt í lagi mynd bara.
01:30 - Sest við smá blogg og er að ljúka því núna.

Stefni á að vakna kl. 6:30 - vinnan byrjar kl. 8:00. Núna verð ég fljótari í vinnuna ... bara vona að amma sé ekki að skoða bloggið mitt ...

Góða nótt dúlla og góður og innihaldsríkur dagur hjá þér að baki (kannski ertu að hlusta á söng þess Einhverfa as we speak... ?) en hjá mér er ordinary og frekar rólegur dagur að kveldi (nóttu) kominn - vakna eftir 4 klst.  -- Hilsen!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 02:32

9 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Hæ Jóna - heyrðu mig - get ég fengið Þann Einhverfa til að vekja einn Unglinginn?  Bara í svona viku - þá ætti Unglingurinn að vera svona nokkurn veginn búin að ná þessu - að það þarf að VAKNA til að mæta í vinnuna.........

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 7.6.2007 kl. 08:38

10 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mikið ertu dugleg ,þetta hefur verið erfiður dagur hjá þér knús frá mér.

Kristín Katla Árnadóttir, 7.6.2007 kl. 09:43

11 Smámynd: Unnur R. H.

Jé minn ég var alveg örmagna á að lesa aginn hjá þér..Þú hlítur að hafa einhvern aukatank með orku

Unnur R. H., 7.6.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband