Leita í fréttum mbl.is

Afmæli, pólitík og hversu langt teygist naflastrengurinn

Skemmtilegustu barnaafmæli sem hægt er að fara í eru hjá minni yndisfögru vinkonu Ellisif og fjölskyldunni hennar. Heimasætan þar á bæ varð 7 ára í dag og það var boðið til veislu.

Þið vitið hvernig þessi barnaafmæli eru. Amma og afi, frænkur með sín börn og vinkonur mömmunnar með sín börn. Mjög týpýskur hópur.

En munurinn á barnaafmælunum sem eru haldin á þessu heimili og öðrum sem ég þekki til á, eru þau að frændurnir mæta líka og eiginmenn vinkvennanna einnig. Og gera það með gleði. Og það er ekkert hálftíma stopp rétt til að sýna á sér andlitið og lit í leiðinni. Nei, í dag voru þetta sko 4 tímar og við hefðum alveg verið til í að stoppa lengur ef ekki hefði þurft að koma Þeim Einhverfa heim í bælið.

Þar sem heimilisfaðirinn er bakari af listamannagerðinni eru terturnar meistaraverk og svo spillir ekki fyrir að Ellisif hin fagra er snillingur í eldhúsinu, hefur það frá mömmu sinni. Því fór það svo að svínalundirnar sem Bretinn ætlaði að elda í sunnudagsmatinn voru náttúrlega settar aftur inn í ísskáp þegar heim var komið, og verða að bíða betri tíma.

Við borðið sem svignaði undan kræsingunum sem glöddu jafnt auga sem maga var ýmislegt spjallað og svo fór að pólitíkin (sú illa tík) slæddist inn í umræðurnar. Út frá því spunnust umræður um fæðingarorlof karla, hlutverk þeirra á heimilinu, hvort menn í dag væru orðnir of kvenlegir og svo mætti lengi telja eins og þið getið ímyndað ykkur.

Ætla að birta hér nokkrar spurningar/vangaveltur sem komu upp á yfirborðið í dag og fengust engin svör við. Eða öllu heldur mörg mismunandi svör. Set þetta hérna fram bara eins og það rifjast upp fyrir mér og ekki í neinni lógískri röð.

  1. Er rétt af Árna Johnsen að fara í framboð í ljósi brota sinna?
  2. ef ekki, afhverju ekki? Er ekki rétt að menn sem sitji af sér brot fái að byrja upp á nýtt? Er ekki fangelsisdómur til þess gerður að menn sitji hann af sér og bæti þar með fyrir brot sitt og skuldin til samfélagsins sé greidd?
  3. Er fæðingarorlof karla rétta leiðin? Væri ekki betra að x margir mánuðir í fæðingarorlof væri fyrir hvert barn sem fæddist og foreldrarnir réðu sjálfir að öllu leyti hvernig þeir ráðstöfuðu þeim mánuðum.
  4. Er það rétt eða rangt að barn sé háðara móður sinni en föður sama hvernig á það er litið?
  5. Urðu breytingar til hins verra þegar konur fóru að herja á vinnumarkaðinn hvað varðar börnin okkar? Væru börn ekki almennt betur sett í dag er línurnar væru eins skýrar og þær voru hér áður fyrr þegar allar mæður voru heimavinnandi og börn léku sér í tugatali saman úti í boltaleikjum, einni krónu, stórfiskaleik og hvað þetta hét nú allt saman?
  6. Er strákum leyft að þroskast á sínum forsendum? Fá þeir leyfi til að vera Strákar með öllu sem því fylgir? Þurfa þeir ekki að fá leyfi til að vera í sínum Pang pang leikjum í friði, klifra í trjám og byggja stíflur í stað þess að þvinga fram í þeim fínhreyfingar með perlum og föndri í leikskóla?
  7. Eru ennþá til stjórnmálamenn sem eru í jobbinu af hugsjón eða eru þetta allt saman bévítans eiginhagsmunaseggir og framapotarar?
  8. Væri möguleiki að breyta stjórnmálum á Íslandi þannig að kosið væri um fólk og málefni en ekki flokka?
  9. væri slíkt vænlegt til árangurs?
  10. Er ekki kominn tími til að við horfumst í augu við að karlmenn/strákar og konur/stelpur eru ólík, með ólíkar þarfir og tilfinngar, og förum að haga okkur samkvæmt því?
  11. Hefur það munstur sem við ólumst upp í, áhrif á hvernig heimilismunstri við viljum ala börnin okkar upp í.

Ætla ekki að tjá mig hér um mínar skoðanir á öllum þessu en langar þó að segja að þrátt fyrir að vera jafnréttislega sinnuð þá held ég að engin geti mótmælt því að börnin okkar voru öruggari þegar mamma var heima, tilbúin með heitt kakó og brauð þegar komið var inn á drekkutíma.

Aftur á móti tel ég ekki að það myndi skipta máli hvort mamma eða pabbi hitaði kakóið.

Thats all I'm gonna say for now good people.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Eins stutt svör og hægt er. Gerð í flýti.

1-2. Það erum við sem kjósum hann eða kjósum hann ekki.

3. Jú er rétta leiðin núna á meðan við erum að venjast að karlar og konur eiga sama rétt og geta bæði verið fullgildar fyrirvinnur.

4. Best ef það er jafnvægi.

5. Nei, mismunar strákum og stelpum.

6. Að hluta til ekki en allir strákar eru ekki eins og þetta gefur öllum tækifæri á að blómstra. 

7. Já meðan þeir eru nýir þá er þetta hugsjón er ansi hrædd um að það breytist í framapot með tímanum (og nokkur andlit koma upp í huga mér)

8-9. já ætti að vera svoleiðis en væri þá of erfitt að koma sér á framfæri.

10. Jafnræði getur ríkt þótt konur og menn séu ólík að mörgu leiti, allir eru í raun ólíkir.

11. Pottþétt.  

Halla Rut , 4.6.2007 kl. 01:11

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vá á að halda manni uppá snakki alla f.... nóttina? Ha??

1-2 Ók að fara fram, undirtektirnar sem hann hlaut við því segja meira um suma en aðra.

3. x marga og foreldrar ákveða hvernig skuli skipta þeim. Ekki sp.

4. No comment (er ekki alveg með klára sýn á þetta)

5. Auðvelt að detta í nostalgiuna en mömmurnar voru ekki happý og ég man eftir að börn voru mikið rekin inn í herbó, út á róló eða eitthvað því mömmurnar voru í sígó og kjaftastuði.  Met magn samveru meir en gæði.

6. Strákar hafa fengið meira en nóg af Pang-pang leikjum en ekki nóg af því að sinni tilfinningalegu hliðinni sem stelpur hafa fengið overdose af í gegnum tíðini.  Niðurstaða: Senda börn til Möggu Pálu og í Hjallastefnuna.

7. Jabb þekki fleiri en einn og fleiri en tvo.

8. Væri hægt en spurning hvað væri unnið með því.

9. Nebb.

10. stelpa og strákur, kona og karl eru innbyrgðis ólík.  Þar á ekki að skilja á milli eftir kynferði.

11. Eitthvað en alls ekki allt.  Hef þvert á móti lagt mig fram um að gera það sem ég tel réttast á hverjum tíma án tillits til hvað ég hef sjálf upplifað. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.6.2007 kl. 02:00

3 identicon

Þetta hljóta að vera dálítið óvenjuleg barnaafmæli. Almennilegt ef fólk nær að dekka svona mörg álitamál í einu afmæli

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 02:00

4 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

1. Nei

2. Mér finnst að fólkið sem á að stjórna þessu landi sé nokkurnvegin með hreina sakaskrá. Ok ef það er með misjafna fortíð áður en það fer í stjórnmál(það fer þá samt sem áður auðvitað ftir hversu misjöfn hún er) , allt í lagi að gefa sjens, en ekki þegar það brýtur af sér í starfi...

3. Jú það er sennilega réttast svoleiðis

4. Æææ ég veit það ekki, ég veit ekki hvort það sé endilega svoleiðis.. en annars er erfitt fyrir mig að dæma þar sem ég er einstæð og heimavinnandi og þeir eru báðir auðvitað háðari mér

5. Í sumum tilvikum kannski, mér finnst að fólk ætti að láta börnin ganga fyrir. Og ég er svooo sammála og met magn meir en gæði. Vera alltaf til staðar. Í dag eru börnin aldrei nógu mikið né nógu lengi í skólum og á leikskólum, fríin alltaf of löng og of mörg.... Eins og ég segi ég er sennilega ekki dómbær á þetta af því ég er heimavinnandi og nýt þess...

6. Ég hef verið sátt með flest

7. Það eru margir en þarna af hugsjón, td Steingrímur J

8.eflaust

9. Efast um það

10. ó jú fyrir löngu

11. 100%

Guðríður Pétursdóttir, 4.6.2007 kl. 08:01

5 identicon

Yngsta mitt er 22 ára. Ég var að mestu leiti heima-VINNANDI  á meðan þau voru lítil .Einu sinni heyrði ég mín 3 vera að rifja upp"gamlar"minningar. Þar á meðal var þessi. Munið þið hvað var gott að koma heim úr skólanum og mamma var heima. Það var svona "mömmulykt"þegar við komum heim. Og nestið sem hún lét okkur hafa með sér. HEIMABAKAÐIR KANILSNÚÐAR.UMMMMM. Og svo smurði hún nestið handa okkur. Þegar ég heyrði þetta vissi ég að það var rétt ákvörðun hjá mér að vera BARA heima. Það munstur sem við ölumst upp við fylgir okkur en það er ekki þar með sagt að við getum ekki breitt því ef þess þarf. Ég gjörbreytti mínu af illri nauðsyn. En lagði mig fram við að skapa nýtt fyrir börnin mín.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 08:32

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er sko flottur pistil hjá minni það er alltaf gaman í barnaafmælum.

Kristín Katla Árnadóttir, 4.6.2007 kl. 10:00

7 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég vildi að mér væri boðið í svona veislu! Annars fer ég síst í veislur, reyni að gera mér upp veikindi ef svo býður við.

1-2. Ég tel hann hafa fyrirgert rétti sínum á pólitísku áframhaldi. Fólk sem er uppvíst að stela úr eigin hendi er sjaldan eða að ég held aldrei látið hafa starfið sitt aftur. Siðleysi er orðið.

3. Mér finnst þessi hugmynd um x-marga mánuði sniðug að mörgu leiti og skipta svo eftir behag.

4. Mín skoðun er sú að barnið er háðara móður fyrstu árin, alveg held ég að það sé öruggt. Það er bara líf og sálfræðilega rétt.

5. JÁ! Absalútt!!!!!

6. Strákar eru orðnir öðruvísi en t.d. bræður mínir voru. Þó vottar fyrir bang bang leikjum hér á bær. Þá með sverðum.

7. Ef einhver er með hugsjón, þá held ég að það sé Steingrímur Joð. Þó á það eftir að koma í ljós. Annars finnst mér allir vera að skara eld að eigin köku.

8. Ég veit ekki..hví ei? Ég myndi kjósa Steingrím.

9 - 10. Við erum eins ólík og svart og hvítt, hvers vegna má ekki viðurkenna það?? Það þýðir ekkert að slá hausnum við steininn..við verðum aldrei eins.

11. Alveg þottþétt.

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.6.2007 kl. 12:12

8 Smámynd: Halla Rut

Var að hugsa aftur um spurningu 1 og 2.

Mundi forstjóri fyrirtækis ráða mann aftur til starfa sem hefði stolið frá sér? Og sér í lagi ef sá hinn sami segði að hann bæri enga ábyrgð á þessu heldur aðeins um tæknileg mistök að ræða.  Hvað mundu hluthafar segja við slíkum forstjóra?  Ef maður lítur á það svoleiðis er málið jafnvel enn fáránlegra. 

Engin okkar fer alsaklaus í gegn um lífið og öll getum við farið offari ef okkur er veitt vald, en það sem fer bara verst í mig varðandi þetta mál er að maðurinn hefur ekki einu sinni iðrast. 

Halla Rut , 4.6.2007 kl. 14:01

9 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta var ég að meina Halla,ég fengi að fjúka ef ég tæki hluti ófrjálsri hendi úr minni vinnu. Ég held líka að ekki yrði hlustað á mig þó ég segði að þetta væru nú einungis tæknileg mistök.

Sammála Birnu Dís líka með að vera BARA heima. Börnin mín voru ekki fyrr búin að opna útidyrnar eftir að skóla lauk en að kallað væri : Mamma!  Svo ekkert meira, bara að tékka á hvort sú gamla væri ekki á sínum stað.

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.6.2007 kl. 14:08

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ef ég má láta nægja að svara einni, þeirri sjöttu: Strákar eru og eiga að fá að vera strákar og karlar karlar. Það er engin lausn að gera þá að kellingum, uppgötva hina kvenlegu vídd. Þeir eiga að fá að dekstra við villimanninn í sér. Þetta orða ég nú svona - enda er ég að lesa Iron John eftir Robert Bly, költbók karlahreyfingarinnar. Í kvöld ætla ég að berja bumbur klæddur lendarskýlu löðursveittur á kafloðinni bringunni. (Ef til vill kemst ég af með eigin bumbu.)

Svavar Alfreð Jónsson, 4.6.2007 kl. 16:27

11 identicon

Flott að heyra og ég orðinn dálítið svangur af þessum lýsingum um veigarnar! Áhugaverðar samræður greinilega og ég næ ekki á þessu augnabliki að svara öllum nógu vel og ítarlega, en sjálfum finnst mér svarið við 1-2 vera loðnara. Persónulega vildi ég ekki sjá Árna aftur á þingi, en hann er kosinn þangað og þetta eru kjósendur - lýðræðið sem ræður. Hann fékk uppreist æru (á frægan hátt) og tók út sína refsingu. En eftir á hefur mér iðrunin ekki reynst vera nein hjá honum (tæknilegu mistökin og það ... ) þannig að mér líður ekki vel með þannig mann inni á þingi. Batnandi manni er best að lifa - en ég hef ekki ennþá séð Árna sýna neina vísun um það að honum fari batnandi ... þannig er ég nú þröngsýnn í augum sumra.

Og 7-9 ... þá tel ég að sumir þingmenn séu þarna vegna hugsjóna, en þeim fer fækkandi. Það stingur mig sannarlega að sjá ráðherralið Sjallanna og litlar breytingar þar. Hefðin er rík í þessum flokki og allt það, en mér finnst sárgrætilegt að það hafi ekki fleiri konur fengið að fara í ríkisstjórn - og þarna held ég að hugsjónin hafi vikið undan alltof mörgum eiginhagsmunaseggjum - ég sé alla vega ekki Björn Bjarna starfa í sínu ráðuneyti af mikilli hugsjón, ég hefði t.d. viljað sjá fyrrum rektor Háskólans í Reykjavík taka sæti hans í ríkisstjórn og hliðra ráðuneytum öðruvísi ... en þannig er ég bara. --- Mér finnst t.d. Kristján Möller vera maður í starfinu af hugsjón (mín tilfinning) og finnst frábært að hann skuli koma héðan úr mínu kjördæmi, og einnig fannst mér smart af honum að ráða Róbert Marshall sem sinn aðstoðarmann - sá kann á fjölmiðlana.

Ég hef löngum sagst vilja kjósa einstaklingana fremur en flokkana, en ég veit ekki hvort það yrði til batnaðar - veit ekki hvernig slíkt færi fram. Hvort einstaklingar röðuðust þá bara í þingsæti eftir atkvæðafjölda á bak við sig, og þá væntanlega þyrfti ekki þessa jafnaðarþingmenn, er það? (og er það (ó)réttlátt?) ...

Skemmtilegar pælingar...

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 17:36

12 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég starfaði sem tónmenntakennari í nokkur ár í grunnskóla og það var áberandi  hvað heimabörnin (sem fengu drekkutímann sinn og og voru alltaf nálægt foreldi) voru margfalt þægari og skulum við segja meðfærilegri og kurteisari en leikskólabörnin. Þetta er bara mín reynsla og hefur alla mína fullorðinstíð verið mín trú að börn hafi gott af að hafa annað foreldri heima og þurfi ekki að alast upp í leikskólum. Ég er þó ekkert að segja að hin börnin hafi verið óalandi eða óferjandi..bara mun erfiðara að eiga við þau og fá þau til að hlýða. 

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.6.2007 kl. 18:20

13 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þegar ég var barn var mamma alltaf heimavinnandi og alltaf til staðar. Ég man ennþá eftir fiskibollunum sem mamma bjó til, steiktu lúðunni í brúnni sósu, kanilsnúðunum, pönnukökunum, lærinu á sunnudögum og ýsunni sem soðin var með roði og beinum, skorin þversum. Mamma saumaði kjóla á okkur systurnar og nýtti fötin eins og t.d. kápur út í ystu æsar, 'vendti' þeim ef þau voru farin að slitna. 

Hún saumaði líka sængurverasett í dúkkuvagnana okkar, fór með okkur í klippingu og þvoði okkur hárið. Heimilið var mamma, en pabbi kom heim á margra mánaða fresti þar sem hann var skipstjóri á flutnigaskipi. Við þekktum hann varla, það þurfti að kynnast honum uppá nýtt í  hvert skipti sem hann kom heim.

Aftur á móti ríkti jafnrétti hjá okkur börnunum úti í leikjum. Við stelpurnar byggðum okkur kassahús með strákunum sem við þóttumst búa í saman. Að vísu fengu þeir  að velja sér stelpu til að þykjast búa með. En við stelpurnar börðust aftur á móti með þeim sem jafningjar í  hatrömmum bardögum gegn næstu götum. 

En ég held að í dag skipti ekki lengur máli hvor er heima pabbinn eða mamman bara að það sé einhver heima en börnin séu ekki með lykla um hálsinn. En því miður þurfum við svo mikið á peningum að halda í dag að undantekningarlaust vinna báðir foreldrar úti og börnin oft sæta afgangi. 

Svava frá Strandbergi , 4.6.2007 kl. 18:41

14 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Myndi setja mitt atkvæði á að x margir mánuðir væru í fæðingarorlof fyrir hvert barn sem fæddist og að foreldrarnir sjálfir ráðstöfuðu þeim sín í milli.  

Marta B Helgadóttir, 4.6.2007 kl. 23:32

15 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Frábær pistill og yndislegt afmæli. Alveg eins og þau eiga að vera. Ég þekki svipað (lánsamur). Held reyndar oftast uppá mín eigin afmæli líka eins og þau væru barnaafmæli með útileikjum fyrir stóra og smá og gosi og MJÓLK :)  og kannski einn og einn bjór falinn í runna fyrir þá fáu sem komast ekki af án þess. Sleppi því að svara spurningunum því það hafa svo margir gert.

Hólmgeir Karlsson, 5.6.2007 kl. 00:39

16 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Jóna...ekkert í sambandi við þennan pistil..en lestu nýjasta blogg hjá bloggvini mínum,  jenni-1001. Bara....datt þú í hug  

Rúna Guðfinnsdóttir, 5.6.2007 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband