Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Höfn og örlítið um heimilisofbeldi

 

Höfn í Hornafirði var aldeilis hreint frábær.

Alls staðar mættu manni elskulegheit og það var snúist í kringum okkur eins og við værum þjóðhöfðingar í opinberum erindum.

Ég játa það fúslega að ég er afar stolt af því að hafa verið í þeim hópi sem boðaður var til Hafnar. Ég gengst líka við því að hafa fundið til smæðar minnar um tíma, í ferð með svo þekktum rithöfundum og miklum reynsluboltum í faginu. En viðmót þessa fólks var svo einlægt og elskulegt að feimnin var fljót að fara af mér.

Ég ætla að monta mig og segja ykkur hvaða rithöfundar þetta voru:

  • Sigrún Eldjárn - Eyja sólfuglsins
  • Sjón - Rökkurbýsnir
  • Þorvaldur Kristinsson - Lárus Pálsson leikari
  • Þórunn Erlu-Valdimarsdóttur - Loftnet klóra himin (klór klór)
  • Guðmundur Andri - Segðu mömmu að mér líði vel

Við komuna tóku á móti okkur á flugvellinum Soffía Auður bókmenntafræðingur og Guðný bókavörður og voru þær sérlegir aðstoðarmenn okkar og einkabílstjórarnir á meðan á dvölinni stóð. Algjörlega óþreytandi við stýrið.

Upplestrarnir voru fjórir eða fimm og kom þessi ferð sér einstaklega vel fyrir mig. Ég sjóaðist heilmikið og með sama áframhaldi verð ég óstöðvandi uppi við púlt og verður að draga mig frá míkrafóninum.

Minn fyrsti upplestur, sem fór fram inn í Hafnarfirði hjá félagi nokkru, var skelfingin ein. Ég var svo taugaóstyrk og nervös að mér lá við yfirliði svei mér þá. Kann ég því fólki sem á hlýddi hinar bestu þakkir fyrir áheyrnina og lófatakið.

Upplestur nr. 2 var í Öskjuhlíðarskóla og þar var ég meira á heimavelli, ef svo má segja. Komst nokkuð skammlaust frá því.

Sá þriðji var á Höfn á miðvikudagskvöldið í Pakkhúsinu. Það var afskaplega vel mætt og velvild og áhugi streymdi frá gestunum. Svo fékk ég aukakraft frá samferðarfólki mínu og ég stóð mig bara ágætlega, held ég.

Við fórum í skólana á Höfn og það var einstaklega skemmtileg upplifun. Á meðan ég hlustaði á Þórunni, Sjón og Guðmund Andra lesa upp úr sínum bókum, laumaðist ég til að virða fyrir mér unglingana. Hormónarnir alveg á fullu blasti og menn vita varla hvað þeir eiga af sér að gera. Nokkur andlit alveg eldrauð við að reyna að halda aftur af flissi og hlátursrokum. Ég man sjálf svo vel hvað allt var fyndið og asnalegt og leim og hallærislegt á þessum árum. Og hvað maður þurfti aldrei meira að hlægja en akkúrat þegar það var stranglega bannað.

Yngri deildirnar voru jafn yndislegar, bara á annað hátt. Flautað og klappað og beðið um eiginhandaráritanir þvers og kruss.

Hjúkrunarheimilið var kapítuli út af fyrir sig. Sennilega var það, fyrir mér, erfiðasti upplesturinn. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp hjá ömmu og afa, og ber á vissan hátt óttablandna virðingu fyrir þessari kynslóð. Og kannski vegna þess að mér fannst ég í raun ekki hafa fram að færa efni fyrir þennan aldur. Var komið nafn yfir einhverfu í ungdæmi þessarar kynslóðar?

En það var gaman að koma þarna og mér þótti hjúkrunarheimilið einstaklega hlýlegt og heimilislegt.

Áður en við yfirgáfum bæinn fengum við skoðunarferð um menningarmiðstöðina og leiddi Björg Erlingsdóttir, forstöðumaður okkur í þeirri ferð. Hornfirðingar eru afar stoltir af þessari byggingu og það sem hún hefur að geyma og er það með réttu. Aldrei hefði mig grunað að á svo fámennum stað væri svo mikið menningarstarf unnið.  Og er það alveg týpískt fyrir Reykvíkinginn í mér.

---

Í kvöld sofnaði þrjóskur 10 ára drengur með rauðflekkóttar kinnar af söltum tárum.

Eftir margra vikna baráttu við að fá stráksa til að bursta tennur á kvöldin sögðu foreldrarnir hingað og ekki lengra. Í kvöld neitaði hann alfarið að taka sér tannbursta í hönd og  honum voru settir úrslitakostir; bursta tennur eða sjónvarpið verður fjarlægt úr herberginu.

Það kostaði smávegis stympingar; 10 ára nautsterkur drengur stjakaði við pabba sínum sem var óviðbúinn, missti jafnvægið og hrundi utan í kommóðu.

Einmitt, hugsaði ég. Það er eins gott að hafa andlega yfirburði.

Og það höfum við.

Tárin spýttust en allt kom fyrir ekki. Sjónvarpið var fjarlægt.

Sá Einhverfi grét og reyndi að faðma mig. Ég hjúpaði allar taugar með íshrönglum og ýtti honum frá mér. Ekki gat ég skipað föðurnum að taka af honum sjónvarpið og tekið svo að mér hlutverk huggarans og ''góða foreldrisins''.

Á næstu 40 mínútum var öðru hverju leitað samningaviðræðna: fyrst bursta svo sjónvarp. En allt kom fyrir ekki. Stráksi gaf sig ekki þó hann gréti ofan í koddann sinn og foreldrarnir neituðu honum um faðmlag og venjulega háttatímarútínu.

Að lokum hætti hann að gráta og sofnaði út frá samræðum við Lottu.

En mikið svakalega vorum við foreldrarnir lukkuleg. Mitt í reiðinni og særindunum út í okkur sýndi drengurinn greinileg þroskamerki og framfarir í mannlegum samskiptum:

  • aðeins einn hrindingur (venjulega mikið um slíkt við uppákomur sem þessar)
  • engu fleygt
  • næstum hljóðlaus grátur
  • skemmtileg og eðlileg þrjóska
  • óttablandin virðing við reiða foreldra (reyndar meira pissed en reiðir. En það fékk hann ekki að vita).

Er hægt að biðja um meira?

Ég hlakka til að vita hvort sjónvarpið muni rata á sinn stað annað kvöld.

 


Höbbn í Hoddnafirði

 

Þó ég geti ekki talist flughrædd í hörðustu merkingu þess orðs, þá hef ég undanfarin ár verið hálfsmeyk að fljúga í millilandaflugi.

Ég hef ekki flogið innanlands frá því löngu áður en byrjaði að bera á þessari semi-flughræðslu minni. En það er ég að fara að gera á morgun. Stíg væntanlega upp í pínulitla rellu og flýg í tæpa klukkustund. Á Höfn í Hornafirði. Eða eins og okkur hættir mörgum til að kalla staðinn: Höbbn í Hoddnafirði. Það kemur svo í ljós hvort ég verði flughrædd fyrir alvöru þegar í svo litla vél er komið. Ég fékk líka miður skemmtilega sögu frá vinnufélaga um daginn þegar ég sagði honum hvert ég væri að fara. Hann ákvað að nota tækifærið til að rifja upp hræðilega flugferð sem hann fór einhverju sinni þar sem fólk ýmist panikkaði af flughræðslu eða innilokunarkennd. Og hinn hlutinn sem ekki fann fyrir slíkum tilfinningum, ældi hvert um annað þvert og endilangt.

En ég ætla nú ekkert að vera að gera ráð fyrir slíkri ferð, heldur bara anda inn og út og njóta... jebb

Ég verð, ásamt fleiri rithöfundum, með upplestur í Pakkhúsinu á Höfn kl. átta annað kvöld (miðvikudag) og á fimmtudeginum munum við vera með upplestur ýmist í skóla eða á dvalarheimili aldraðra.

Ég mun því eyða næstu tveimur dögum í góðum félagsskap og mun hitta fullt af skemmtilegu fólki. Hlakka mikið til.

----

Sá Einhverfi er búinn að tilkynna mér að það verði pasta í matinn annað kvöld. Og hann var harla glaður þegar hann upplýsti mömmu sína.

Í kreppunni höfum við Bretinn sett nýjar reglur varðandi matarinnkaup. Skrifum ávallt matseðil fyrir vikuna og reynum síðan að halda okkur við eina ferð á viku í Bónus eða Krónuna. Þessar litlu skreppiferðir í búðina alltaf hreint, eru að rífa af manni ótrúlega marga þúsundkalla yfir mánuðinn.

Og við ákváðum að bæta matseðlinum við vikuplanið hjá Þeim Einhverfa. Nú getur hann alltaf séð hvað verður í matinn á hverju kvöldi. Ekki það að við gerum ráð fyrir því að hann borði endilega það sem er sett fyrir hann. Hann er afskaplega matvandur og hefur komist upp með það.

Í kvöld var eggjakaka með beikoni og sveppum á matseðlinum og aldrei hefur slíkur matur komið inn fyrir varir drengsins. Allavega ekki inn á heimilinu. Það er svo annað mál hverju hann skóflar í sig í skólanum og í Hólabergi.

Sá Einhverfi fylgdist  með pabba sínum malla saman eggjum og öðru hráefni og var frekar tortrygginn á svip. Viltu lasagne spurði Bretinn og vísaði þar í afgang af sunnudagsmatnum.

Neeii, sagði stráksi og ekki laust við að hneykslan gætti í röddinni. Svo gekk hann að ísskápnum þar sem vikuplanið hans hangir og las upp fyrir pabba sinn: Eggjakaka í kvöldmat. 

Ja hérna, sagði Bretinn. Eggjakaka skal það vera.

Ég hef drenginn grunaðan um að hafa þótt orðið spennandi út af seinni hluta þess: ''....kaka''. Maður slær nú sjaldan hendinni á móti köku.

En hann má eiga það þessi elska að hann settist til borðs og smakkaði og gerði heiðarlega tilraun til að borða matinn sinn. En honum leist hvorki á útlit, áferð né bragð.

Við gáfum honum auga og að lokum sagði Bretinn: viltu lasagne?

Já, hvíslaði Sá Einhverfi þakklátur á svip.

 


The Sopranos yfir fiskihlaðborði

 

Anna systir bauð okkur í mat á sunnudagskvöldið ásamt Helgu 1/2 systur.

Helgu 1/2 systur held ég að ég sé hreinlega að kynna til leiks í fyrsta sinn en hún hefur búið og unnið erlendis meiri part ævinnar og varla sést á landinu nema í mýflugumynd. Hún er nú flutt heim og þá neyðist maður til að hafa hana með í hinu og þessu.

Helga 1/2 systir er ekkert meiri hálfsystir en Anna systir, en sjálf skrifar hún Helga 1/2 systir undir alla tölvupósta til mín. Að eigin sögn er hún lítill og feitur dvergur. Ég ætla ekkert sérstaklega að taka undir það, enda væri ég þá á vissan hátt að kasta steini úr glerhúsi, þar sem ekki er til að dreifa mjög hávöxnu fólki í minni fjölskyldu. Hvorki í föður- né móðurætt. En ef hún er lítill og feitur dvergur þá er hún sá fyndnasti litli og feiti dvergur sem ég hef kynnst. Yfirleitt á eigin kostnað.

En okkur var sem sagt boðið í fisk til Önnu systur og Sjómannsins.  Og þar sem Helga 1/2 systir hefur alltaf heimtað steiktan fisk í matinn í mýfluguheimsóknum sínum á klakann, þá var það rétturinn sem búist var við.

En við erum að tala um fiskihlaðborð. Ýsa, þorskur og skötuselur var á borðum. Í plokkfiskmynd, nætursöltuðu, sætri chillisósu, rjómapiparsósu....

Sjómaðurinn er alltaf svo hræddur um að ekki sé nóg til handa feitu systrunum tveim að það endaði með því að búinn var til óvæntur aukaréttur, svo mikið hafði verið tekið af ýsu úr frystinum.

Auðvitað varð maður að prófa þetta allt. Byrjaði á því að fá sér lítið á diskinn. Einn rétt í einu. Svo varð það önnur umferð. Á endanum var maður farinn að blanda öllu saman og vonast eftir því að hinir tæku ekki eftir hversu miklu maður gat torgað.

Það var skemmtilega fjölmennt við borðið og allir töluðu hver í kapp við annan. Þarna var draumafjölskyldan mín (the Italian style) samankomin. Sá Einhverfi neitaði að vísu að setjast að borðum með okkur. Hann kom sér fyrir í sófanum þar sem hann hafði yfirsýn yfir mannskapinn. Og svo hrópaði hann sömu setninguna hvað eftir annað á milli þess sem hann hló að eigin fyndni: SÍLD Á SUNNUDEGI FJANDINN HAFI ÞAÐ.

það var sama hvað ég sagði honum oft að þetta væri ekki síld. Ekkert lát var á gólunum. Hann borðaði þó þegar Kárinn færði honum matinn í stofuna. Meiri prinsinn.

Feitu systurnar stóðu síðastar upp frá borðum.

Í eftirrétt var skyrréttur. Ég veit.. hljómar rosalega hollt og kalóríusnautt en auðvitað var mulið kex, þeyttur rjómi og eitthvað fleira góðgæti í þessu. Að ég tali nú ekki um kirsuberjasósuna sem dásemdin synti í.

Helga 1/2 systir og ég erum, frá og með deginum í dag, farnar í kapp-megrun. Við bönnuðum horuðu systurinni að taka þátt. Við eiginlega leggjum hana í einelti fyrir að vera svona grönn.

Það er dýrðlega gott að vera ekki í minnihluta.

 


Sá Einhverfi í uppsveiflu

 

Það er mikið að gera í vinnunni. Sem er gott. Í rauninni forréttindi á þessum síðustu og verstu...

Það er skrýtið að finna hvað kuldinn dregur úr mér orku og gerir mig þreytta. Í fyrsta skipti sem ég finn að það er ekki skammdegið sem slíkt, heldur veðráttan. Almáttugur hvað ég hljóma öldruð núna.

Sá Einhverfi er í uppsveiflu þessa dagana, sem þýðir að hann slær um sig með nýjum setningum. Eða öllu heldur betrumbættum setningum. Og hann les. Les eins og herforingi. Les blöðin, les á skilti, les á nafnspjöld. Stautar sig fram úr orðum sem hann skilur hvorki upp né niður í og áhuginn virðist óbilandi. Og hann er glaður. Það er mikilvægast af öllu.

Í kvöld var hann að púkast í Vidda Vitleysingi og kettinum Elvíru og systur hennar Khosku og ég horfði á hann með stjörnur í augunum. Einfaldlega vegna þess að á að líta var hann algjörlega eins og ''eðlilegur'' drengur. Örlítið óþekkur. Iðandi af löngun til lítilla óknytta. Augun skær og logandi af kátínu. Andlitið skellihlæjandi yfir hundinum sem ekki náði beininu og Elvíru sem elti systur sína alla leið upp á eftir eldhússkápana.

Var þetta Ian? sagði Bakarafrúin sem ég var að spjalla við í símann. Hún heyrði hláturinn í drengnum.

Já sagði ég, og rak kettina niður af skápunum.

Vá, sagði Bakarafrúin. Þessi hlátur kom alveg neðan úr maga.

Og það er málið. Hláturinn Þess Einhverfa er svo innilegur og einlægur. Eins og hann sjálfur. 

Nú eru allir sofnaðir nema Unglingurinn og ég. En ég ætla að skríða undir hlýja sæng með vanillute og glugga í bókina hans Þráins Bertelssonar, sem sjálfur kallar sig læriföður minn. Mér er heiður að því.

Sofið rótt börnin mín og dreymi ykkur fallega.

 


Góð þjónusta?

 

Fólk er svo misjafnt. Mis-nægjusamt. Mis-þakklátt.

Ég er ekki að segja að það slæmt, nema síður sé. Flóru mannlífs er alltaf gaman að fylgjast með og heyra um.

Í mínu starfi tala ég við fjölda fólks dag hvern. Sumir eru fastir viðskiptavinir sem ég er farin að þekkja allvel til og veit jafnvel ýmislegt um þeirra persónulegu mál. Einnig eru það hinir sem ég er vel málkunnug en hlutunum haldið meira á professional nótum. Svo er það fólk sem hringir inn fyrirspurnir og ég heyri aldrei frá meir.

Allt þetta fólk gefur lífinu lit og gerir vinnuna mína skemmtilega á einn eða annan hátt.

Í vikunni fékk ég símtal frá konu sem var í vandræðum með að koma frakt frá Danmörku. Í hennar tilfelli var ekki um annað að ræða en að vísa á aðila í Danmörku til að græja málin, en það þykir mér alltaf svolítið óþægilegt. Veit að í sumum tilfellum virkar þetta á fólk eins og viljinn sé ekki fyrir hendi að hjálpa því. Sé bara auðveldara að vísa því eitthvert annað.

Það er skemmst frá því að segja að um 2 klukkustundum seinna hringdi þessi kona aftur. Hún vildi láta mig vita að hún hefði ekki þurft að leita til þess aðila sem ég benti á, þetta hefði reddast á annan hátt. Svo þakkaði hún mér fyrir góða þjónustu.

Ég hló við. Hélt hálfpartinn að hún væri að gera grín að mér. Sagðist nú ekki hafa gert neitt og þakkaði henni fyrir að hringja.

Þá ítrekaði hún að henni hefði þótt hún fá alveg sérstaklega góða þjónustu hjá mér. Gott ef henni fannst ekki bara, hún sjaldan hafa fengið jafn góða þjónustu.

Ég er enn að fara yfir þetta símtal í huganum. Ég var svo furðu lostin.

Annað hvort er þessi indæla kona alveg sérstaklega nægjusöm manneskja eða að hún er vön því að fá ekkert nema ''krappí'' þjónustu hvar sem hún kemur.

Nema.... kannski er hún bara meistari í kaldhæðni

 

 

 

 


Hamfarir á föstudegi

 

Síðastliðinn föstudagsmorgunn vaknaði ég á slaginu hálfátta. Sem er ekki gott því það er á sama andartaki og skólabíllinn er fyrir utan að sækja Þann Einhverfa.

Ég nuddaði stírurnar úr augunum, andaði rólega inn, andaði rólega út og fór inn til stráksa til að vekja hann. Hann var nú ekkert á því. Svo hringdi ég í bílstjóra skólabílsins og tilkynnti honum að ég hefði verið að opna augun.

Já, sagði Kiddi bílstjóri hinn rólegasti. Mér fannst húsið ykkar eitthvað drungalegt þegar ég renndi upp að því áðan.

Svo var Þeim Einhverfa dröslað fram úr og tilkynnt að í dag væri það bíllinn hans pabba sem kæmi honum í skólann.

Það féll ekki í kramið frekar en fyrri daginn. ''Rúta, rúta'' endurtók hann í sífellu og var hundfúll. Og svo grét hann yfir snjónum. ''Ekki snjór....''

Ég hef verið svo upptekin í vinnunni og á framabrautinni hvað varðar bókina að ég gaf mér aldrei tíma í síðustu viku, til að gera hið venjulega vikuplan fyrir drenginn. Ég krotaði því í flýti á blað, föstudag, laugardag og sunnudag.

Á föstudag skrifaði ég efst: pabba bíll - skóli. Og á laugardag: kannski snjór farinn.

Þegar loks, eftir 70 mínútna þref og grát, dundi annað áfall yfir. Annar spiderman-fingravettlingurinn fannst ekki.

Ó nei, sagði Sá Einhverfi. Hvar er vettlingur? Hvar er vettlingur.

Þetta var skelfilegur dagur. Hamfarir hreint út sagt. Engin rúta, snjór úti og Spiderman týndur. Það eru nú takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða einu barni upp á.

Það var verulega ósáttur drengur sem ók burt með pabba á Yaris-num.

Þegar þeir voru farnir rak ég augun í blaðið með planinu.

Þar var búið að krota yfir ''pabba bíll'' og skrifa ''rúta'' í staðinn.

Og á laugardeginum stóð nú bara: ''snjór farinn.''

Ég brosti með sjálfri mér. Sannfærðist endanlega um að merking orðsins ''kannski'' vefst ekkert fyrir gaurnum mínum. Snjórinn skyldi vera farinn á laugardag og ekki orð um það meir. Það breytti því þó ekki, að hér upp á fjöllum, sat snjórinn sem fastast alla helgina.

 


24 stundir nægja engan veginn

 

Mig vantar tilfinnanlega nokkrar klukkustundir í sólarhringinn. Ég veit að margir kannast við það. Suma daga líður mér eins og ég ímynda mér að rjóma í þeytingi gæti liðið. Snýst sama hringinn aftur og aftur og aftur þar til einhverjum árangri er náð.

Keyra á sundnámskeið tvisvar í viku og dans þrisvar í viku. Mæta á jólaföndur, jólaböll, foreldrafundi, kynfræðslufundi, bekkjarkvöld. Læknisheimsóknir, tannlæknaheimsóknir. Finna tíma til fara að versla í matinn, elda matinn, helst lífrænt ræktað hráefni og rétti sem maður matbýr frá grunni. Þvo þvott, brjóta saman þvott, ganga frá þvotti. Læra með börnunum, hlýða yfir fyrir próf. Kemba þegar kemur upp lús í skólanum...

Svo segja þeir að það sé alltaf hægt að finna tíma í sólarhringnum til að stunda líkamsrækt og kynlíf. Ja hérna hér. Þessa dagana þyrfti þá hvort tveggja helst að fara fram í bílnum. Á leiðinni milli staða. Hvað ætli sé sektin við slíku?

 


Unglingurinn Daníel

 

Þegar við Bretinn byrjuðum að vera saman var ég 25 ára. Fannst ég háöldruð í den tid en var bara baby.

Ég var barnlaus. Bretinn átti einn dreng með fyrrverandi kærustunni sinni. Daginn áður en Bretinn og ég drógum okkur saman í fyrsta skipti (kysstumst! dónarnir ykkar) varð þessi litli drengur þriggja ára.

Barnið var bjútífúl. Eins og dúkka. Og hann var tortrygginn gagnvart mér. Hann Daníel litli Alexander. Hann kom sér ávallt fyrir á milli Bretans og mín í sófanum. Samt vorum við ekki að neinu kossaflensi fyrir framan hann. Ég sver 'ða.

Eftir að við Daníel náðum tengslum og hann vandist þessari stelpu sem virtist vera komin til að vera spurði hann okkur eitt sinn afhverju við byggjum ekki öll saman. Hann, pabbi hans, ég og mamma hans. Þá átti ég fá svör.

Næstu árin eyddum við Daníel mörgum helgum saman. Bara við tvö því Bretinn var alltaf að sinna einhverjum hljómsveitum í hljóðveri.

Ég ætla ekki að ljúga því að þetta hafi alltaf verið auðvelt. En eins og með allt annað í lífinu þá bæta góðu stundirnar upp hinar sem ekki eru eins góðar.

Á vissum tímapunkti í lífi Daníels fannst mér sem tengslin rofnuðu svolítið. Það var þegar Daníel hætti að nenna að gista. Fór að verða nógu gamall til að geta verið einn heima. Orðinn of stór til að nenna að koma til okkar bara vegna þess að mamma hans þurfti að fara eitthvað. Gott að halda sig í heimahverfinu, nálægt vinunum. Eða kannski fannst honum bara svolítið gott að vera aðeins einn. Ég veit það ekki, í sannleika sagt. Alfarið mín sök og Bretans. Hvorugt okkar nógu duglegt að taka upp símann og hvetja hann í stuttar heimsóknir.

Svo var ég svo heppin að mamma Daníels ákvað að setjast á skólabekk í öðru landi. Og þá flutti Unglingurinn til okkar. Ég veit að þetta er tímabundið. Ég veit að ég er bara með hann í láni. En ekkert getur tekið frá mér þann tíma sem við höfum fengið að hafa hann og kynnast honum á nýjum forsendum. Að ég tali nú ekki um tvíefld systkinatengslin, sem reyndar hafa alltaf verið góð.

Enginn er fullkominn og Unglingurinn ekki heldur. En gagnvart yngri systkinum sínum þá nálgast hann nú samt að vera það.

Ég eignaðist mín þrjú börn þrátt fyrir allt. Og í dag, 20. nóvember verður það elsta 18 ára. Til hamingju með afmælið elsku Daníel. Knús og kossar frá stjúpu.

Hér er ein af mínum uppáhalds myndum úr fjölskyldualbúminu:

NCJ og DCJ

 

 

 


Eigi verður feigum forðað...

 

Eigi verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið.

Þessu trúi ég heils hugar. Frá fæðingu til dauða höfum við úr vissum spilum að spila. Getum ráðið töluverðu um framvindu leiksins. Stundum erum við heppin. Stundum óheppin. Stundum erum við góðir spilarar. Stundum ekki svo góðir.

En um upphaf og endi leiksins höfum við ekkert að segja.

Kveikjum á kertum í skammdeginu og þökkum fyrir að vindurinn gnauðar fyrir utan gluggana. Því það þýðir að við eigum í hús að venda.


Einhverfur afkomandi Litlu hafmeyjunnar

Sá Einhverfi er nú á sundnámskeiði tvisvar sinnum í viku.

Öðru hverju rek ég mig á varðandi það hvað ég vanmet getu barnsins. Þegar ég fékk skilaboð frá skólanum um það að sennilega væri stráksi nú tilbúinn til að sækja sundnámskeið hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, var ég aldeilis standandi hlessa barasta. Ekki það að ég viti ekki hversu vel honum líður í vatni og hversu gaman hann hefur af sundlaugum.. sérstaklega sundlaugum með myndarlegum rennibrautum. En ég hélt hreinlega að hann væri langt í frá tilbúinn til að taka við fyrirmælum um sundtök frá ókunnugu fólki hvað þá að halda sér á floti hjálparlaust.

Svo mættum við á sundnámskeið, Sá Einhverfi og ég. Ég reyndar sat alklædd á sundlaugabakkanum og gapti. Ég er enn að gapa í 5. eða 6 tíma.

Er þetta barnið sem ég er sífellt hrædd um að drukkni í baðkarinu? Sem við troðum neon-appelsínugulum kútum á bústnu handleggina á, þegar við (lesist Bretinn) förum með hann í sund?

Barnið er flugsynt. Ekki með hefðbundnu bringu-, bak- eða skriðsundi. En hann þýtur áfram með einhverjum heimatilbúnum sundtökum. Jafnt yfir grunna sem djúpa laug. Fer í kaf og hagar sér á allan hátt eins og afkomandi Litlu hafmeyjunnar. Ekki kannski alveg, en þið vitið hvað ég meina.

Ég þarf að leggja hausinn í bleyti núna. Reyna að finna út á hvaða fleiri sviðum ég er að halda aftur af barninu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband