Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Hvað með póker-auglýsingarnar í sjónvarpi

 

Ég er einmitt búin að vera að velta því fyrir mér í góðan tíma, hvað sé málið með allar þessar póker auglýsingar í sjónvarpi. Ég hef nú ekki hundsvit á þessu, en þetta er spilað á netinu, ekki satt?

Ég hélt að það væri bannað að auglýsa fjárhættuspil á Íslandi. Eða er kannski ekki verið að spila upp á alvöru peninga?


mbl.is Póker-auglýsingar fjarlægðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhverfur eða ekki einhverfur

 

Ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni fyrri part kvölds við skriftir. Kom heim rétt fyrir kl níu og var ákveðin í að sjá fyrsta þáttinn í íslensku þáttaröðinni um Ástríði.

Sá Einhverfi lá makindalega og afslappaður í sófanum fyrir framan sjónvarpið þegar ég kom inn og það breiddist lymskulegt glott yfir varirnar á honum þegar hann sá mig. Ég átti ekki von á góðu, þó ég vissi það ekki á þessu andartaki.

Ég skellti silung og kartöflum sem Bretinn hafði eldað í kvöldmat, á disk og inn í örbylgjuofn. Á þessum tveimur mínútum sem tók að hita matinn var Sá Einhverfi búinn að æsa sig upp í dramakast. Hann heimtaði gulan lit. Ég benti honum kurteislega á að hann ætti fullt af gulum litum. Hann hélt nú ekki.

Til að fá frið þá sagðist ég myndi koma heim með gulan lit handa honum á morgun. Venjulega tekur hann svona málamiðlunum. En nú brá svo við að það hentaði honum ekki.

Ég varð drullufúl. Ætlaðir krakkaskömmin að vera með læti rétt á meðan þessi þáttur væri á skjánum. Ég ákvað að gefa dauðann og djöfulinn í krakkann og hlammaði mér inn í stofu með silunginn minn og hvítvín í glasi. Þegar Ástríður byrjaði var Sá Einhverfi hágrátandi inn í borðstofu. Reiður út í heiminn og mig og var stórlega misboðið.

Ég hækkaði sjónvarpið upp úr öllu valdi því ekki hafði ég texta til að styðjast við. En texti nýtist mjög vel þegar maður er með öskrandi börn yfir sjónvarpinu.

Ég ákvað að ég ætlaði að láta drenginn um að ráða sjálfur fram úr þessari krísu. Þetta var hans krísa, ekki mín.

Hann grét sárt í svolítinn tíma en þegar það dugði ekki til að ég veitti honum athygli, brá hann á annað ráð.

Gelgjan gerði sig líklega til að standa upp en ég stoppaði hana af. Anna Mae láttu hann eiga sig.

Mamma! hann er að berja sig í hausinn með DVD diski sagði ábyrgðar- og áhyggjufulla stúlkan mín.

Mér er alveg sama, sagði ég rólega. Þá gerir hann það bara.

Svo gleymdi ég drengnum barasta. Mér tókst að gjörsamlega draga gardínur fyrir eyrun og gleyma krakkanum.

Ég hálfhrökk í kút þegar hann byrjaði allt í einu að hlæja. Fyrst hélt ég að þetta væri svona geðsveifluhlátur en ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því.

Drengurinn var búinn að gefast upp! Hann gafst upp!! Og það tók ekki nema 15 mínútur. Húrra fyrir mér. Hann var búinn að finna eitthvað á netinu sem honum fannst svona bráðskemmtilegt og ég heyrði ekki meira minnst á gulan lit.

Þetta atvik opnaði augu mín svo um munaði. Eins og önnur smábörn (því þrátt fyrir bráðum full 11 ár er hann enn smábarn að mörgu leyti) sýnir hann foreldrum sínum aðra og verri hegðun en hann myndi sýna öðru fólki. Og foreldrarnir spila með og hlaupa eftir duttlungum barna sinna. Þetta heitir slæmt uppeldi.

Einhverfur eða ekki einhverfur..... Að uppskera athygli, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, vegna óæskilegrar hegðunar fær barnið til að hefja skipulega könnun á teygjanleika þolinmæðisgens foreldra sinna.

Ég er hætt, ég segi það satt.

 

 


Vilt'arrrridið?

 

Selurðu latte spurði ég dökkhærðu stúlkuna á bak við afgreiðsluborðið í bakaríinu.

Er það ekki ofsalega gott hjá þér, sagði ég glaðlega.

Jæja, sagði ég og virti hana fyrir mér. Gæti hafa verið rétt innan við þrítugt. Myndarleg stelpa með steinrunnið andlit.

Ég ætla að fá tvöfaldan latte með froðu, upplýsti ég hana um.

Hún sneri sér við og fór að sýsla við kaffivélina.

Áttu síróp, spurði ég

Nei

Áttu ekki síróp? sagði ég. Var svolítið undrandi því flest kaffihús/bakarí bjóða upp á ótal bragðtegundir af sírópi út í kaffi.

Hún nennti ekki að tala meira í bili. Hristi bara höfuðið þar sem hún sneri baki í mig.

HELVÍTIS KERLINGARASNI ÉG VAR BÚIN AÐ SEGJA NEI, hefur hún eflaust öskrað í huganum á meðan hún ímyndaði sér að ég væri undir kaffiþjapparanum.

Ég horfði á baksvipinn á henni. Einkennisklæðnaðurinn var svartu íþróttagalli eftir því sem ég gat best séð, úr glansefni. Svolítið sjúskaður. Stelpan stóð hokin í herðum með krepptan rass og flóaði mjólkina. Þessari konu leiðist svo í vinnunni að það sést meira að segja á rassinum á henni. 

Vilt'arrridið? spurði hún og sýndi mér visastrimilinn upp á 670 kr (ég fékk hana nebblega til að selja mér einn hafraklatta í leiðinni)

Nei takk sagði ég hátt og snjallt og ýkt glöð. Bara til að ergja hana.

Ég vorkenndi konunni sem kom aðvífandi í þann mund sem ég var að fara með kaffið mitt, og spurði kampakát: hvernig er þetta fimmkornabrauð? Hvað er í því?

Ég heyrði engin svör en get ímyndað með að afgreiðslustúlkan hefur hugsað: oooooooohhhhh gat hún ekki spurt um tveggjakornabrauðið.

Kaffið var samt bara fínt.

 

 


Freaky friday

 

Þessa stundina situr Sá Einhverfi fyrir framan tölvuna og horfir á uppáhalds bíómyndarbrotið sitt. Freaky friday.

Ég ranghvolfdi í mér augunum áðan, þegar ég sá hvaða leitarorð hann var að stimpla inn á Google. Ef hann langar í gott hláturskast þá leitar hann þetta myndbrot uppi.

Tekur þá við dillandi og afskaplega smitandi hlátur sem yljar um hjartað og hrífur mann með... í svona 10 mínútur. Fljótlega upp úr því á maður þá ósk heitasta að stráksi hætti í þessu, sem virðist, stjórnlausa hláturskasti. Hann er svo píreygður að það rétt rifar í augun og hann tekur andköf í lengstu hláturskviðunum. Yndisleg sjón en eftir 20 mínútur væri grátkast fýsilegri kostur og eftir hálftíma er maður tilbúinn að rífa router-inn úr sambandi og fleygja tölvunni út í garð... og drengnum á eftir.

Hér er myndbrotið sem fær mig til að tæta af mér öll líkamshár

 

 

 

Gerir þetta eitthvað fyrir ykkur?

 

 


Vínflaska fyrir eiginmann

 

Ég fékk þessa dásamlegu, litlu sögu senda í tölvupósti frá yndislegri samstarfskonu minni. Læt fylgja með useless information: Litli rasistinn kallar þessa samstarfskonu mína The Lobster Lady.

Ég segi ykkur ÞÁ sögu kannski seinna.

En hér kemur sagan um vínflöskuna. Hún er fyrir allar konur sem eru giftar, voru giftar, óska þess að vera giftar eða óska þess að hafa aldrei gifst. Eitthvað til að brosa að næst þegar þú sérð vínflösku (sem er daglega í mínu tilfelli). 



Indian woman


 

THE BOTTLE OF WINE


Sally was driving home from one of her business trips in Northern Arizona when she saw an elderly Navajo woman walking on the side of the road.

As the trip was a long and quiet one, she stopped the car and asked the Navajo woman if she would like a ride.

With a silent nod of thanks, the woman got into the car.

Resuming the journey, Sally tried in vain to make a bit of small talk with the Navajo woman. The old woman just sat silently, looking intently at everything she saw, studying every little detail, until she noticed a brown bag on the seat next to Sally.

'What in bag?' asked the old woman .

Sally looked down at the brown bag and said, 'It's a bottle of wine. I got it for my husband.'

The Navajo woman was silent for another moment or two. Then speaking with the quiet wisdom of an elder, she said..........

 
......."Good trade"  



Sumarið 2009

 

Sumarið 2009 er sumarið sem Íslendingar kusu að eyða krónunum sínum í bensín, íslenskar vegasjoppur, tjaldsvæði og grillmat og ferðuðust innanlands.

Þetta átti að verða sumarið sem ég gerði nákvæmlega ekki neitt vegna efnahagsástandsins, en varð sumarið sem ég hef aldrei verið hreyfanlegri.

Þrjár sumarbústaðarferðir, ein utanlandsferð, sólarhringsdvöl í sveitasælu Borgarfjarðar og, afar merkilegt í augum þeirra sem þekkja mig: útilega með tjaldi, uppblásnum dýnum, ferðagrilli og tilheyrandi. Þeir tveir, sem eru aðalástæða óhreyfanleika míns almennt, Viddi Vitleysingur og Sá Einhverfi, voru með í för í umræddri útilegu.

Á meðan Viddi gelti óspart á hunda og menn, svaf Sá Einhverfi inni í tjaldi í rúmlega hálfan sólarhring. Þetta er sem sagt sumarið sem ég fann lausn á svefnleysi drengsins. Hér eftir mun ég tjalda í bakgarðinum ef ég vil að drengurinn sofi meira en 5 tíma í einum rikk.

Sumarið 2009 er líka sumarið sem ég varð mér úti um bjórvömp án þess að drekka bjór. Ætli ég verði ekki að skella skuldinni á (stöðugt) sull í hvítvíni og rauðvíni, vöðvaslökun og ótæpilegt magn matar. En bumban líkist bjórvömb hvernig sem á það er litið.

Sumarið 2009 er sumarið sem átti að rigna stöðugt og ég ætlaði að vera óstöðvandi í rithöfundagírnum og uppfull af andagift en breyttist í sumarið sem ég skrifaði ekki neitt. Ekki einu sinni bloggfærslur. Og aldrei á ævinni hef ég verið duglegri að liggja í sólbaði.

Sumarið 2009 var mér afskaplega gott. Og það er ekki búið enn....

 


Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband