Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

Freaky friday óskast - DVD mynd óskast til kaups

 

Laugardaginn síðastliðinn var mér og minni fjölskyldu boðið í mat hjá vinafólki. Langt er síðan við höfum eytt tíma með þessu vinafólki okkar og var þetta boð kærkomið og mér mikið tilhlökkunarefni.

Unglingurinn og Gelgjan voru þó upptekin við aðra iðju og það varð til þess að mig langaði helst að fá pössun fyrir Þann Einhverfa og njóta kvöldsins barnlaus.

Barnapía fékkst ekki og í sannleika sagt fór laugardagurinn svolítið í það hjá mér að hafa áhyggjur af því að Þeim Einhverfa yrði ekki haggað úr húsi. Ég vissi að geðheilsa mín stóð tæpt og að ég myndi virkilega erfa það við son minn ef hann yrði til þess að ég kæmist ekki í matarboðið um kvöldið.

Svo öllu var tjaldað. Nammi og nýr DVD diskur var í boði, bara ef stráksi var til í að lofa því að koma í bílinn með mömmu og pabba klukkan sex.

- Eigum við að fara í bílinn klukkan sex Ian? Fara og kaupa DVD mynd og kannski smávegis nammi?

- Já

(yes yes yes) Hvaða mynd langar þig í?

- Freaky friday

(nei nei nei hún er of gömul hún fæst örugglega ekki lengur) Ok Ian frábært.

Restin af deginum fór í að reyna að ná í BT og kanna vörulagerinn þar. Ekki var svarað í símann á þeim bænum en Videohöllin átti myndina.. til leigu.

Ég hef aldrei leigt mynd hana Þeim Einhverfa. Ég veit að það er ekkert grín að skila henni aftur. Frekar eru DVD myndir keyptar í bunkum og bílförmum.

Klukkan sex keyrðum við sem leið liggur í BT Skeifunni en ekki fannst myndin. Þá var keyrt í Videohöllina í Lágmúla og Freaky friday leigð. Auðvitað var hulstrið bara merkt Videohöllinni. Það vantar allt fútt í hulstrin á þessum leigumyndum. Engin kreditlistar fyrir drenginn að skrifa upp eða aðrar veigamiklar upplýsingar, svo sem framleiðsluár, leikstjóri og framleiðandi.

Sá Einhverfi velti hulstrinu í smá stund fram og til baka í höndunum og hefur örugglega hugsað sitt en hann virtist sáttur þegar hann tölti aftur út í bíl með DVD mynd í annarri hendi og bland í poka í hinni.

Kvöldið varð jafn yndislegt og ég átti von á og Sá Einhverfi skemmti sér konunglega í sjónvarpsherberginu yfir Freaky friday. Þegar kominn var tími til að halda heim harðneitaði hann að fara. Enda ekki búinn að klára að skrifa upp allan kreditlistann. Hann er orðinn snillingur í að spóla fram og til baka og nota pásu-takkann til að geta rýnt í allt lesefni sem kemur á eftir bíómyndum.

Svo rann upp skuldadagur. Myndinni þurfti að skila. Ég laumaði henni í töskuna mína á mánudagsmorguninn og skilaði henni í hádeginu.

Friðurinn var rofinn á ljúfu og rólegu mánudagskvöldi þegar hávær og reiðileg rödd byrjaði að góla:

NEEEEEEEEEEEEEEIIIIIII PABBI HVAR ER FREAKY FRIDAY HVAR ER FREAKY FRIDAY HVAR ER FREAKY FRIDAY...

Við plötuðum hann. Nörruðum hann. Blekktum hann viljandi. Hann hefur ekki hugmynd um hvað myndbandaleiga er. Í hans huga á hann hverja einustu DVD mynd sem villist í gegnum hendurnar á honum. Hann treður inn á sig álitlegum bíómyndum þegar hann fer í afmælis- eða kaffiboð og reynir að smygla þeim úr húsi.

Mér finnst ég skulda honum eitt stykki Freaky friday til eignar.

Mér datt í hug kæra fólk að þessi mynd leyndist einhvers staðar í hillu eða skáp hjá ykkur, rykfallin og gleymd öllum á heimilinu. Ef þið kannist við það ÞÁ VIL ÉG KAUPA ÞESSA MYND.  KAUPA KAUPA KAUPA

501512~Freaky-Friday-Posters

 

 


Mig vantar sítt, svart hár

 

Næstkomandi laugardag ætla ég að feta í fótspor Anjelica Huston og klæðast gervi Morticia Addams. Ég held ég sleppi hvað varðar fatnað og rauða varalitinn, en mig vantar hárið hennar. Svarta síða slétta hárið með miðjuskiptingunni svo að fölt andlitið fái að njóta sín.

Ég er fullkomin í hlutverkið eftir langvarandi flensulegu. Ég er eins og liðið lík.

Ekki ætla ég nú að fara fram á að fólk rífi af sér höfuðleðrið fyrir mig. En ef einhver lumar á hárkollu eftir eitthvert grímuballið eða öskudag eða eitthvað slíkt.. þá myndi ég vilja kaupa eða fá lánað.

 

Morticia


Og enn grenja ég

Ég þurfti virkilega á einhverju upplífgandi að halda í kvöld. Fyrir valinu varð að leggjast yfir DVD, nánar tiltekið Love actually.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá hef ég aðeins einu sinni séð þessa mynd og guð minn góður..... Ef ég grenjaði svona yfir henni í fyrsta skipti þá má ég hundur heita.

Þegar kreditlistinn rúllaði í endann þá var ég gjörsamlega uppgefin af því að reyna að halda aftur af gráthviðunum sem vildu brjótast út.

En samt var þetta upplífgandi á skrýtinn hátt. Ég held að þetta sé sætasta mynd sem framleidd hefur verið og minnir mann á það enn og aftur að við hlið bretans (og þá meina ég ekki Bretans) er kaninn hreinlega lásí í kvikmyndagerð og handritagerð og húmor og hljóði og klippingu.... nei, aðeins komin fram úr mér, en þessi mynd er barasta snilld. Hvernig hún er byggð upp og hvernig allir þessir karakter tengjast á einhvern hátt á endanum. Leikararnir eru frábærir... sorry, ég er bara að missa mig yfir þessu.

Ég held ég geti kosið þetta bestu rómantísku gamanmynd sem framleidd hefur verið, án þess að blikna. Og það þýðir ekki að vera með neitt skítkast yfir því. Þannig er það bara og hananú.

405px-Love_Actually


Ég væli yfir öllu

Anna frænka kom yfir í mat í kvöld. Hún var meiriháttar grasekkja þangað til fyrir klukkustund síðan. Kallinn í veiði og börnin þrjú (sem eru nú engin börn lengur) út um hvippinn og hvappinn (eða er það kvippinn og kvappinn?).

Á borðum var nautasteik Ala Breti steikt upp úr hvítlauk, lauk og engiferi, með frönskum kartöflum og hrikalega góðri sósu. Monster-in-LawMeð þessu var drukkið Coca-cola light 2007.

Í kvöld horfðum við Bretinn á Monster in Law með Jane Fonda og Jennifer Lopez. Engin óskarsverðlaunamynd en ég hafði gaman af henni. Og ég vældi í endann.

Damn.... ég væli yfir öllum væmnum atriðum í bíómyndum. Held þetta sé aldurinn. Er ekki sagt að maður verði meyrari með aldrinum?


Indverskur og appelsínusafi

Bretinn og ég áttum notalega kvöldstund í gær.

Við fórum á Indverskan stað þar sem gin og tónik er borið fram í lágum víðum glösum með engum klaka, gleymdist að láta okkur fá hnífapör og starfsfólkið veit ekki hvað kokteill er. Yndislega frumstætt og afslappað. Þjónarnir voru eins fjölþjóðlegir og það gerist og svei mér þá ef við vorum ekki með einn Samurai-a þarna. Ótrúlega flott andlit. samurai1

Við fórum á Kaffi París til að fá okkur kaffibolla og virtum fyrir okkur mannlífið þar. Einn þjónninn, ung stúlka, örugglega undir 11% í líkamsfitu með beran nafla, gekk um með glaðleg andlit. Brosti fallega til Bretans þegar hún átti leið fram hjá borðinu okkar. Bretanum fannst þetta eitthvað persónulegt og leit í kringum sig til að athuga hvort brosið hefði verið ætlað einhverjum öðrum. Leit svo hneykslaður á mig og sagði: She is like, twelve!!!

Þarna var 12 manna hópur og við lékum okkur að því að giska á félagsskapinn á bak við hann. Bretanum fannst trainspotters líklegast. Fyrir þá sem ekki vita er trainspotters fólk (venjulega afar sérstakt fólk) sem situr á lestarstöðvum og tekur niður lestarnúmer og spáir og spekúlerar í áætlunum, áfangastöðum, lestartýpum o.sfrv.

citron 

Svo röltum við aðeins um bæinn áður en við héldum í heimsókn til Hafliða og Ellisifar. Var ákveðið að sleppa kaffinu. Ég fékk rauðvín og Bretinn appelsínudjús. Þar áttum við góða stund.

Kl. 1:45 komum við keyrandi eftir götunni að húsinu okkar og ég sá að það var ljós í herberginu hjá Gelgjunni. Fimm mínútum seinna stóð ég í herbergisdyrunum hennar og þá var allt slökkt. Hún virtist steinsofandi.

Ég veit þú ert vakandi, sönglaði ég. Ég sá ljósið í glugganum.

Ég gat næstum séð hugsanirnar brjótast um í litla hausnum hennar áður en hún játaði sig sigraða og opnaði augun.

''Busted'' sagði hún.


Deja Vu og Lionbar

Ég fór svo létt með að gúffa í mig x-large Lionbar og heilum poka af fylltum lakkrís að það varð mér umhugsunarefni. Ég bauð nú Bretanum með mér... hvíslaði það og vonaði að hann heyrði ekki. En hann heyrði og vildi ekki, mér til mikils léttis.

Deja Vu fannst mér bara alveg þrælgóð. Það kom mér á óvart að þetta er vísindaskáldskapur. Ég les alltaf textann á hulstrunum í tætlur og það kom ekki fram á honum. Og þar sem vísindaskáldskapur getur orðið ansi absúrd þá fannt mér þeim takast svo vel upp með endinn.

Ég allavega sat ''fullnægð'' þegar kreditlistinn byrjaði að rúlla (engin dónakomment takk). Hvað er annars gott orð yfir satisfied á íslensku?

dejavu


Hringurinn bíður þar til á morgun

Nú ætla ég að skella mér í sófann með Bretanum og gera do-do.

Nei nei. Bretinn var að koma úr Skalla með DVD mynd. Dévaju með Denzel vini mínum. Ég fékk líka stóóóóórt Lionbar og fylltar lakkrísreimar. Hó-hó-hó hér sé stuð.

Sá Einhverfi komin í rúmið og er að glápa á Harry Potter. Gelgjan með Viðhenginu upp í herbergi (Jenný Anna hér eru svefnherbergin á efri hæðinni Devil)

Kæru krúttlegu bloggvinir. Bið ykkur að hafa mig afsakaða þar til á morgun. Þá mun ég líka koma mér fyrir hér fyrir framan tölvuna með ljúfan morgunkaffi og fara í nokkrar góðar heimsóknir í bloggheimum.

Nú skal etið, drukkið og glápt undir bleikri sæng upp í sófa. Until then..... Heart


Séð & Heyrt

Færsla Benedikts bloggvinar um fyrirsögn Séð & Heyrt um skilnað Samherjahjónanna; ''Dýrasti skilnaður Íslandssögunnar'' kveikti á þessari færslu.

Séð & Heyrt svífst einskis og sýður saman ótrúlegustu fyrirsagnir á forsíðu blaðsins, hannaðar til að grípa augað og kveikja slúðurþorsta landans (ég er ekkert saklaus þar).

Benedikt veltir því fyrir sér hvað geri þennan skilnað dýrari en aðra skilnaði.

Inn í blaðinu er afar stutt grein um málið, sem fyrir vikið er í engu samræmi við æpandi forsíðufyrirsögnina. Í þessari stuttu grein er ekkert sem bendir til þess að skilnaðurinn verði hjónunum dýr heldur eiginlega þvert á móti. Þetta virðist allt vera með fullu samþykki beggja aðila og ætti því að ganga í gegn slétt og fellt. 

Fyrir fáeinum árum síðan grétum við vinkonurnar af hlátri yfir myndatexta í þessu annars ágæta blaði. Þetta var texti með mynd af fáklæddri leikkonu á strönd þar sem hún var að sinna móðurhlutverkinu.

Textinn var einungis þrjú orð og okkur til skemmtunar slengjum við þessum orðum oft fram og hlæjum alltaf jafn mikið. Textinn var svona: ''Ánægð með appelsínuhúð''. Þvílíkir snilldarpennar þarna á ferð.


Afhverju eru ekki sett upp skilti?

Það tók mig 40 mínútur að komast frá Árbæ niður á Skólavörðustíg í dag. Það er í sjálfu sér ekki svo alvarlegt mál þó ég hafi mætt ''aðeins 30 mínútum'' of seint í strípurnar. Ég meina það var  háannatími og maður getur búist við að þetta taki lengri tíma en á öðrum tímum.

Það sem er að bögga mig (á góðri íslensku) er þegar Miklabraut breytist allskyndilega í eina akrein án nokkurns fyrirvara eða aðvörunarskilta.

Á ljósunum á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar voru einhverjar framkvæmdir og hægri akreinin tekin undir það. Afhverju í ósköpunum var ekki skilti við Grensásveg og aftur við Háaleitisbraut og aftur við Kringlumýrarbraut sem sagði manni að frá Lönguhlíð væri hægri akrein Miklubrautar lokuð eða eitthvað slíkt. Þá hefði maður náttúrlega bara valið sér aðra leið, ekki satt.

Aaargh..  Það sem pirrar mig í umferðinni eru þessi skiltamál eða öllu heldur skiltavöntun og svo þetta sem er eldri færsla frá mér:

roadrage

Road Rage

Ég er ein af þeim sem er afar spök í umferðinni og sætti mig við að það taki tíma að komast á milli staða á mesta annatíma á götum Reykjavíkur.

En það er eitt sem pirrar mig alveg óstjórnlega og gæti einn daginn breytt mér í froðufellandi og ofbeldishneigðan einstakling sem ryki út úr bílnum og byrjaði að berja með báðum hnefum á rúðuna á næsta bíl.

Það er beinlínis mannskemmandi að lenda fyrir aftan bílstjóra á beygjuljósum (sem eins og alþjóð veit eru ekki græn lengi í einu) sem heldur að hann sé einn í heiminum. Ég lenti fyrir aftan einn slíkan við Mjóddina í dag. Þetta var hugulsamur fjölskyldufaðir sem var í mestu makindum að spjalla við fjölskylduna sem var greinilega í sunnudags-ís-bíltúr. Hann var annar í röðinni á ljósunum, fyrsti bíllinn spýttist yfir en fjölskyldufaðirinn í bíl nr. tvö nálgaðist atriði úr The Exorsist því höfuðið á honum sneri næstum því öfugt á hálsinum svo mikið var að að tala við krógana í aftursætinu. Ég beið bara eftir því að rúðurnar yrðu útataðar í grænni spýju og þar með yrði eftirlíking af einu frægasta atriði kvikmyndasögunnar fullkomnuð.

En ekkert gerðist, hvorki lituðust bílrúðurnar né hreyfðist bíllinn. Þá ýtti ég pen á flautuna. Eitt lítið bíbb og þegar enginn hreyfði á sér rassgatið ýtti ég öllu ákveðnari á flautuna. Þá loksins tók manngarmurinn við sér en haldiði ekki að hann hafi tekið u-beygju og það á hraða snigilsins. Því fór svo að aðeins tveir bílar fóru yfir í þetta skiptið. og ég var sko ekki annar þeirra.

Ég var ekkert að flýta mér. En ég hefði getað gólað. Hélt í staðin fyrirlestur yfir Gelgjunni að þegar hún fengi bílpróf bla bla bla....... Gelgjan er 10 ára. Hún horfði bara á mig með mæðusvip og sagðist aldrei ætla að taka bílpróf. Langar sennilega ekkert að fá leiðbeiningar í æfingarakstrinum frá manneskju með road rage heilkennið. 

 


Ný kynslóð, uppfull af kvenfyrirlitningu, að alast upp

Mér var sagt frá viðtali um daginn við karlmann sem í mörg ár hefur starfað með unglingum í unglingavinnunni eða ámóta starfi.

Ég hef ekki allar staðreyndir á hreinu, t.d. í hvaða  í blaði viðtalið birtist eða nafn mannsins þar sem það fylgdi ekki sögunni, en mikið brá mér að heyra um þetta;

Þessi maður sagði að aldrei nokkurn tíma hefði hann áður í starfi sínu orðið var við eins mikla kvenfyrirlitningu eins og núna frá þessum ungu drengjum sem starfa undir hans stjórn.

Hann sagði klámkjaftinn á drengjunum vera ofboðslegan og virðingarleysið við stúlkurnar sem þeir vinna með vera algjört. Þeir neita að sópa því það sé kvenmannsverk. Hann hefur margoft orðið vitni af yfirlýsingum drengja um fáránleikann í því hversu háum stöðum kvenfólk sé farið að gegna og svona mætti lengi telja.

Aðspurður hvað hann teldi vera orsökin fyrir þessu nefndi hann klámvæðinguna.

Ég er búin að vera lengi að melta þessa frásögn. Er enn að reyna. Hef verið að velta fyrir mér hvernig geti staðið á því að drengir sem alast upp við það að mamma og pabbi vinni bæði úti og eigi sér ''career'' hafi þessa sýn á kvenfólk. Auðvitað veit ég að ennþá er það afar algengt að öll húsverk og það sem viðkemur heimilinu falla á konuna, jafnvel þó hún vinni jafnlangan eða jafnvel lengri vinnudag en maðurinn. En það hlýtur samt að vera á undanhaldi. Eða hvað?

En sennilega skiptir þetta með heimilishald bara engu máli. Sennilega er þetta hárrétt hjá manninum. Þessi mynd sem krökkum er gefin í dag að kynlíf, klám, bert kvenfólk, súludansmeyjar, einkadans, tölvuleikir þar sem nauðgun er mission, munngælur er aðgangseyrir inn í partý.....

Ég hef hér á blogginu mínu birt greinar úr bók sem heitir Kynlíf og er skrifuð 1937. Þetta hef ég gert bæði í gríni og alvöru til að sýna fram á hversu fornaldarleg hugsunin var á þessum tíma varðandi konur og kynlíf. En svei mér þá ef sú sýn er ekki betri en það sem við erum að upplifa í dag.

Eins og í raunveruleikanum eru fjöllyndir karlmenn í klámmyndum ''folar'' en konurnar ''easy'' og ''glyðrur'' sem ''láta alla ríða sér'' (afsakið orðbragðið).

Það sem þarf hér er uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi. Feður þurfa að tala við drengina sína og ekki bara um að muna að nota smokkinn svo þeir geri ekki einhverja stelpu ólétta.

Pabbar: þið verðið að ræða við strákana ykkar um kynlíf. Að kynlíf snúist ekki um að ríða. Að nei þýðir nei. Að munngælur séu líka kynlíf. Að klámmyndir séu ekki raunveruleikinn. Að á bak við hvern súludansara, á bak við hverja stúlku í klámmynd, hverja vændiskonu sé sorgarsaga. Að ekki sé eðlilegt að kaupa sér kynlíf......

Hjálp! Ég er kjaftstopp. 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband