Leita í fréttum mbl.is

Ég er svoooooo reið

Mikið afskaplega á ég erfitt með að lifa við þennan raunveruleika. Þennan viðbjóð sem virðist vera óumflýjanlegur  partur af þjóðfélaginu, sama hvar á hnettinum við stígum niður fæti.

Rannsókn á  Indlandi hefur leitt í  ljós að 2 af hverjum 3 börnum eru beitt líkamlegu harðræði á einhvern hátt. Hvorki meira né minna en 53% barna sem rætt var við hafa greint frá kynferðislegri misnotkun í einhverri mynd.

Á meðan lítið annað er að gert en slá á puttana á barnaníðingum þá verður þetta raunveruleikinn. Hér sem og annars staðar.

Hefur einhver flokkanna, mitt í öllum kosningarloforðunum, minnst á það einu orði að þeir séu að vinna í þessum málum. Dómskerfinu?

Ég hef ekki orðið þess vör. Vinsamlega leiðréttið mig ef þið getið bent mér á einhvern.


mbl.is Algengt að börn séu misnotuð á Indlandi skv. nýrri rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég biðst innilega afsökunar

Umræða sem ég er ábyrg fyrir að hafa komið af stað varðandi hvarf ungrar stúlku (sem betur fer er nú komin í leitirnar) hefur komið illa við fólk og í sumum tilvikum ýft upp sárar minningar.

Að sjálfsögðu var það ekki ætlun mín að dæma einn eða neinn. Ég var aðeins að velta þessum hlutum fyrir mér vegna eigin reynslu. En einnig ótta um mín eigin börn og hvað biði þeirra í framtíðinni. Þessi eilífðar spurning: tekst mér að skila börnunum mínum sem hamingjusömum og heilbrigðum einstaklingum út í þjóðfélagið? Sem betur fer reynum við flest okkar allra besta en því miður er það stundum ekki nóg og alls konar utankomandi áhrif spila stóra rullu í lífi barnanna okkar. Óttinn er til staðar, að minnsta kosti er svo um mig, og af þeim sökum opnaði ég umræðuna.

Ykkur, sem þetta hefur á einhvern hátt komið illa við eða sært, bið ég innilega afsökunar.

 


Andskotans leti er þetta

red wineNú vantar mig sjálfsagann. Og ekki bara núna. Hefur aldrei verið mín sterka hlið.     Á að vera að skrifa eitthvað allt annað en þetta blogg. Kem mér ekki í verkið. Sit hérna og sturta í mig rauðvíni (hvað er betur við hæfi eftir að hafa rifið í mig steikta ýsu í kvöldmat?) og japla á nikótíntyggjói. Húsbóndinn er að horfa á golfið, Masters. Gleður mig að Tiger er í öðru sæti eins og er. Leit ekki vel út hjá honum eftir fyrsta hring á fimmtudaginn. Tiger woods

Brá mér hér út fyrir áðan með hundana sem hoppuðu og hlupu um með tík nágrannans í smá stund á meðan ég spjallaði við hann (nágrannann sko). Fór upp að kyssa þann einhverfa góða nótt þegar ég kom inn. Alla vikuna er hann búinn að vera að söngla: ''sunnudagur páskaegg, sunnudagur páskaegg''. Þrætti meira að segja við mig á föstudaginn og vildi meina að það væri laugardagur. Það hefði auðvitað þýtt að hann fengi páskaeggið daginn eftir.

 

 100_1017

 

10 ára Gelgjan og Eva, vinkona hennar hlupu heim til Evu að athuga hvort sjónvarpið þar væri líka upptekið í golfinu. Sárlangaði að horfa á Stelpurnar. Ekki beint þáttur fyrir 9-10 ára krakka en ég er svakalega líbó með þetta. Á móti passa ég að ræða hlutina við stelpuskottið mitt og halda henni hérna megin við raunveruleikann.

þetta gengur náttúrlega ekki. Verð að snúa mér að öðrum og (vonandi) veigameiri ritsmíðum. Bless í bili.

 

stelpurnar

 


Veit að það er hánótt

ég bara get ekki fengið mig til að fara að sofa. Það virðist enginn vera á fótum í Blogg-bænum. Allavega koma ekki inn nein ný blogg svo ég ákvað að skrifa eitt sjálf svona rétt áður en ég skríð í bælið. Þennan tíma, akkúrat núna, á ég bara fyrir mig. Allir í fjölskyldunni sofandi á sínu græna eyra og eina hljóðið sem ég heyri er í lyklaborðinu og suðið í ísskápnum inn í eldhúsi. Meira að segja hundarnir nenna ekki einu sinni að vingsa til skottunum þegar ég stend upp til að ná mér í Coke í glas og kötturinn bærir ekki á sér.

Góður Skírdagur hjá fjölskyldunni:

  • Hjá húsmóðurinni því hún afrekaði að gera stórhreingerninu á bæði litla klósettinu niðri og baðherberginu upp. Ryksugaði líka upp nokkur kíló af hundahárum, skúraði stigann, tók til í blaðagrindinni, bloggaði, þurrkaði af, fékk Fríðu og Benna ásamt strákunum í kaffi (te, kókómjólk, snúða og ristabrauð með smjöri og banana), Auk þess negldi hún tvo nagla í vegg og í kjölfarið eignuðust klukka og lítil mynd í ramma, samastað.

Kredit punktar: Gerði gat á gulu gúmmíhanskana og beyglaði nokkrum sinnum gervineglurnar í hreingerningarkastinu.

 

  • Húsbóndinn tók fyrsta golfhring ''sumarsins'' og leið vel á eftir. Eldaði líka þennan fína skötusel handa okkur í kvöld og hrikalega góða sósu sem er víst ekki fyrir fólk í aðhaldi.

kredit punktar: Sökkaði big time (að eigin sögn) fyrsta klukkutímann af golfhringnum. 

 

Unglingurinn var eitthvað pirraður út í samstarfsfólk sitt í vinnunni í dag en var glaður að koma heim og tjilla eins og þar stendur. Fór svo í bíó í kvöld með vinkonu sinni og sá 300.

Kreditpunktar: Vildi ekki skötusel og át pylsu og villtist á leið sinni úr Háskólabíói og heim til frænku vinkonunnar.

  • Gelgjan, þessi 10 ára hékk allan daginn í sól og sumaryl fyrir framan Nóatún og hélt tombólu ásamt vinkonu sinni. Þær uppskáru 4000 krónur og voru agalega ánægðar með árangurinn (húsmóðirin á heimilinu líka því nú er töluvert minna af drasli í herberginu stúlkunnar).

kredit punktar: Kom heim og uppgötvaði að yngri bróðir hennar hafði ákveðið að betrumbæta Salamöndrubúrið með slatta af skrautsteinum, dótakörlum og fleiru skemmtilegu (hann á mjög erfitt með að standast ílát sem eru full af vatni eins og umrætt salamöndru búr).

  • Þessi einhverfi skemmti sér hið besta í dag við að bögga fólk, þurrkaði t.d. snúða-súkkulaðið af sér í peysuna hjá einum kaffigestanna (hristist af hlátri á meðan), brilleraði í tölvunni og tókst að fjarlægja allt af desk-toppnum hjá mér, dansaði og söng með Siggu Beinteins og Maríu Björk, lét Lara Croft viljandi klifra upp kaðla í staðin fyrir niður, dró gelgjuna eftir gólfinu (reyndar hló hún þá líka), skammaði hundana og knúsaði til skiptis og fyllti salamöndrubúrið af dóti.

Kredit punktar: þegar systir hans uppgötvaði að hann hefði fyllt salamöndruðbúrið af dóti.

Reyndar átti þessi einhverfi þvílíkt brake through í dag sem fólk á náttúrlega erfitt með að skilja að sé merkilegt en hann heilsaði systur sinni að fyrra bragði þegar hún gekk fram hjá honum. Vááá. Það var hjúts. Stórt moment get ég sagt ykkur. Alveg nýtt, aldrei gerst áður að hann heilsi án allrar hvatningar. ''Hæ Anna Mae'' heyrðist í flottasta dreng bæjarins. ''Hæ Ian'' svaraði hún hissa.

Komin tími til að skríða í bælið (fyrir löngu síðan). Mun vakna við gólandi og hoppandi glaðan dreng um kl. 8... ef ég er heppin. Gæti allt eins orðið kl. 7 sem er eftir rúma tvo tíma. Mmmm, strax farin að hlakka til að fá mér kaffibollann.

(p.s. Af einhverjum ástæðum birtist færslan ekki í nótt. Set hana inn núna og get því frætt ykkur á því að maðurinn minn elskulegur vaknaði með þessum glaða og gólandi kl. 07:30 í morgun. Ég svaf eins og prinsessan á bauninni til kl. 10:30. Mmmm, kaffibollinn bíður).

kíktu við


Æskan og ellin

Þær faðmast. Eins og þær hafi ekki hist í marga mánuði. En þær hittast á hverjum degi. Alltaf seinnipartinn. Og alltaf er faðmlagið jafn þétt og innilegt.

Amman og stúlkan. Sú eldri hokin af lífsins reynslu, sú yngri geislandi af lífsþrótti og tilhlökkun. Hrukkóttur vangi ömmu, hlýr af hitanum frá pönnukökubakstri og sléttur vangi barnsins, rjóður og kaldur af útiverunni, snertast.

Þær brosa glaðar hvor við annarri. Svo hleypur amma við fót inn í eldhús til að huga að pönnukökunum. Stúlkan klæðir sig úr úlpu og húfu og hengir á snagann sinn. Í 10 ár hefur hún hengt útiflíkurnar sínar á þennan sama snaga þegar hún kemur til ömmu og afa. Snagann festi afi í vegginn rétt eftir að hún kom í heiminn. Nú er afi dáinn. Hann dó í vor. Yfir snaganum eru 10 litlar ljósmyndir af stúlkunni. Afi festi nýja mynd af henni við snagann á hverju ári. Festi þær með teiknibólum. Teiknibólan á nýjustu myndinni er blá. Vegna þess að þetta árið er uppáhaldsliturinn hennar blár. Myndin frá í fyrra er með hvítri teiknibólu. Það árið fannst henni hvítur fallegasti liturinn. Hún strýkur fingrunum létt eftir öllum myndunum. Finnur nærveru afa.

''Ertu ekki að koma ömmuskott'' er kallað og stúlkan flýtir sér inn í hlýjan borðkrókinn í eldhúsinu. Hún sest við borðið og virðir ömmu fyrir sér þar sem hún veifar pönnukökuspaðanum, íklædd skrautlegri svuntu og raular fyrir munni sér.

''Amma'', segir hún.

''Já skottið mitt''.

''Ég er orðin 10 ára''

''Ég veit það skottið mitt''.

''Þú verður að hætta að kalla mig skott''.

''Ég veit það hjartað mitt''

Þær hlæja báðar og stúlkan stendur upp og nær í sultutauið hennar ömmu í ísskápinn og ískalda undanrennu að drekka með pönnukökunum.


Kynlíf árið 1948 - Viðhorfið 2007

sexEitt af því sem ég ''erfði'' eftir ömmu er afar áhugaverð bók sem heitir einfaldlega Kynlíf.

Það sem mér þykir merkilegt við þessa bók er að hún sýnir svart á hvítu hvernig viðhorf til kvenna og þeirra hlutverks í svefnherberginu var á árum áður. Þessi bók var nefnilega gefin út á Íslandi árið 1948 en fyrst gefin út í Sviss árið 1937. Skrifuð af einhverjum dr. Fritz Kahn sem eflaust þótti afar framúrstefnulegur og opinskár á sínum tíma.

Bókin var þýdd á fjölda tungumála og um íslensku þýðinguna sáu Hjörtur halldórsson rithöfundur og Einar Ásmundsson hæstaréttarlögmaður. Kannski hefur þessi bók ennþá einhver áhrif á lögmannastéttina og í leiðinni dómara þessa lands og skýrir þau fáránlegu vettlingatök sem notuð eru á kynferðisbrotamenn enn þann dag í dag, og afhverju sönnunarbyrðin í kynferðisbrotamálum hvílir svona sterkt á fórnarlömbunum.

Í dag bloggar Sóley Tómasdóttir http://soley.blog.is/blog/soley/#entry-163471  um umdeilanlega auglýsingaherferð þar sem verið er að höfða til kvenna varðandi drykkju þeirra og enn og aftur má lesa á milli línanna að nauðgun sé á ábyrgð kvenna ef þær eru ofurölvi www.knowyourlimits.gov.uk 

Þegar ég las þetta datt mér í hug eftirfarandi texti úr bókinni:

''Hvernig getnaðarlimnum er komið inn í leggöngin.

Náttúran hefur verndað konuna gegn ágengni og samförum, sem ekki er óskað eftir, með því að koma leggangaopinu fyrir á hinum leyndasta og best varða stað líkamans. Leggöngin eru í skjóli búksins að ofan og hinum sterkustu vöðvum líkamans til hliða og að neðan. Ennfremur er leggangaopið hulið skapahárunum ásamt skapabörmunum. Allar þessar varnaðarráðstafanir gera það að verkum, að ekki er auðvelt að komast inn í leggöngin, og yfirleitt ómögulegt gegn vilja konunnar. Hinu algenga yfirvarpi kvenna, að þeim hafi verið nauðgað, ber að taka með tortryggni. Það er í rauninni ekki hægt að hafa samfarir við konu, sem berst á móti''.

Need I say more.....?


Öskjuhlíðin og það sem getur gengið á þar

Ég uppgötvaði nýlega, hafandi starfað við hlið Öskjuhlíðarinnar í næstum fjögur ár, hversu mikil náttúruperla þessi skógur okkar Reykvíkinga er. Hef tekið upp á því að taka 30 mín. rösklegan göngutúr í hádeginu eftir malbikuðum stígum, skógarstígum, malarstígum og moldarstígum, og nú undanfarna daga með fuglasöng í eyrum. Þetta á að vera gott fyrir vaxtarlagið en er ekki síður gott fyrir andann.

Við förum 2-3 saman kellurnar og í dag ákváðum við að stækka aðeins hringinn og gengum upp allan stíginn að Perlunni. Veðrið var náttúrlega yndislegt. Sólskin og logn, útsýnið frábært, fjöllin dásamleg svona hvít og ég þessi litla útivistarmanneskja sem ég er, fylltist gjörsamlega heilögum anda.

Einn starfsfélagi minn sagði mér frá því í dag að þegar hann sem krakki bjó í Smáíbúðarhverfinu þá var Öskjuhlíðin aðalleikvöllur krakkanna. Þá hlupu þeir félagarnir eftir hitaveitustokknum að heiman og inn í Öskjuhlíð með nesti ef vel viðraði og eyddu þar heilum degi. Það var hann sem benti mér allar minjarnar eftir herinn. Skotbyrgi og fleira skemmtilegt sem er ævintýraheimur fyrir könnunarþyrsta krakka. Dagarnir hjá honum, atorkusömum stráknum, voru oft þannig að hann hljóp ásamt vinum sínum að morgni út í Öskjuhlíð. Var þá búin að fá fyrirmæli um búðarferð fyrir mömmu klukkan 5. Hann hljóp þá heim rétt fyrir þann tíma, hentist inn úr dyrunum, þreif peninginn úr höndunum á mömmu sinni, út í búð, hljóp heim og skilaði vörunum og fór svo hlaupandi á fótboltaæfingu. Ég hef búið til fallega mynd í huganum af freknóttum dreng á harðahlaupum, daginn út og daginn inn. Og mikið er það sorglegt hvað allt hefur breyst. Ævintýraheimar eru nú kannaðir í gegnum tölvuskjái og afrek í hlaupum unnin á sama stað. Jafnvel heilu fótboltamótin.

En svo kemur hin hliðin. Myndum við, foreldrar í dag, sleppa börnunum okkar úr augsýn heilan dag, gemsalausum, inn í skóg sem síðust ár hefur verið orðaður við perra, villt kynlíf on the side, viðskiptaglæpamenn og morð? I dont think so. Ekki það að ég sé svo vitlaus að halda að þetta hafi ekki viðgengist löngu áður en kanínurnar byrjuðu að fjölga sér þarna. Starfsfélagi minn sagði mér meira að segja að það hefðu alltaf einhverjir skrýtnir kallar verið á sveimi. Strákarnir bara vissu nokkurn vegin hvar þeir héldu sig og pössuðu sig á að forðast þá staði.

 Í þessum hádegis-gönguferðum mínum klöngrast einn og einn maður út úr skóginum og í hvert einasta skipti velti ég því fyrir mér hvað í ósköpunum hann hafi verið að gera þarna inn á milli trjánna í leðurjakkanum og mokkasíunum. Og til að virða jafnréttið þá kom birtist kona um daginn, sennilega um eða yfir fimmtugt. Skakklappaðist þarna út úr skógarrjóðri í pilsi, með kerlingarveski á handleggnum og í hælaskóm. Ekki var hún í vaxtarmótandi göngutúr!

Æi, heimur versnandi fer og að vissu leyti líður manni bara vel með krakkana hangandi heima yfir sjónvarpinu því þá veit maður að þau eru óhult. En kannski er þetta bara ég sem er svona skrýtin.


Rembist eins og rjúpan við staurinn

við að reyna að tengja mynd við bloggfærsluna mína. Gengur ekki.

Hey... I'm new in town, ekki gera grín að mér.

Hef ýtt á hjálp, lesið leiðbeiningarnar, skil þær en það er greinilega ekki nóg. Ég hef afritað og skeytt, klippt og skorið, vistað og falið, eytt og afmáð. Unnið með myndir, albúm, flokka og guð má vita hvað...... Meira að segja kallað til tölvunördinn manninn minn. Allt kemur fyrir ekki. Augun eru orðin ferköntuð og ég held bara að það sé komið að tímapunktinum í lífinu þar sem ég verð að horfast í augu við að fullkomna sjónin mín er að láta í minni pokann fyrir ellifjarsýninni. +1 gleraugun úr Tiger liggja á borðinu fyrir framan mig og glotta við mér. Ég ætla að hætta núna svo ég verði jafn hárprúð í fyrramálið og ég var í morgun.


Megrunar-súkkulaði

Próteinbar eða próteinstöng frá ónefndu vörumerki var dreift á öll borð í vinnunni í dag. 100% falleinkun.  100% oj úr öllum hornum og engin tók bita nr. 2 nema ég, því ég bara trúði því ekki að eitthvað gæti verið svona gjörsamlega óétandi.

Ég er ein af þeim sem er næstum því alæta að því leytinu til að mér þykir fátt matarkyns algerlega óætt (ef undanskilinn er hákarl og annað slíkt sem enginn ætti að leggja sér til munns sem hefur á annað borð hefur til hnífs og skeiðar).

Hvað er málið spyr ég bara. Hvernig er hægt að framleiða vöru sem er svo bragðvond og skrýtin undir tönn að 25 manna deild er einróma sammála um að varan eigi heima í ruslafötunni? Fólk var bara eitt spurningarmerki í framan og skemmtilegast var að fylgjast með þeim sem komu í hús eftir að fyrstu oj-in bergmáluðu um veggina og voru síðastir til að rífa utan af herlegheitunum. Vantrú og hryllingur eru bestu lýsingarorðin sem ég get fundið yfir andlitsdrætti fólks.

 Eina ''megrunar-súkkulaðið'' sem vit er í eru Herbalife stangirnar en auðvitað hef ég ekki smakkað nema brot af því sem er á markaðnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 1640848

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband