Leita í fréttum mbl.is

Sunnudagsleti og nístandi samviskubit - hvað segja karlmenn?

Langar til að fá komment frá karlmönnum varðandi þetta samviskubit sem mikið er talað um að sé landlægt hjá konum.

Á laugardögum leyfi ég mér að vera löt og njóta þess að vera í fríi eftir vinnuvikuna. Að minnsta kosti er það það sem ég segi sjálfri mér. En mér tekst ekki alveg að gleyma öllu sem þyrfti að gera á heimilinu. Misáríðandi að vísu og enginn lætur lífið þó ekki sé tekið til hendinni við þrif, göngutúr með hundana, sundferð með krakkana, heimsókn til afskiptrar vinkonu eða tiltekt í bílskúrnum og háaloftinu.

Á sunnudögum er samviskubitið yfir framkvæmdarleysinu orðið nístandi og ég hlakka bara til að mæta í vinnuna á mánudeginum þar sem ég er engin liðleskja, skila mínu og er ánægð með afraksturinn.

Núna t.d. sit ég hér og blogga í stað þess að vera að gera það sem ég ætti að vera að gera Whistling

Nú er það einu sinni svo, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að á flestum heimilum er hlutverkaskipting eftir kynjum. Þ.e. oft eignum við karlmönnunum ''karlmannsverkin'' og konum ''kvenmannsverkin''. Auðvitað tekur maðurinn minn fram ryksuguna öðru hverju, setur í þvottavél, skiptir á rúmunum o.sfrv. og ég skipti um ljósaperur, negli nagla í vegg, slæ blettinn o.sfrv. En þegar upp er staðið eru hlutirnir þannig að skítug rúmföt, skítug gólf, skítug föt og skítug börn pirra mig meira en hann og þess vegna verður þetta í rauninni í mínum verkahring.

En svo má líka segja að ónegldur nagli, ósleginn blettur og dauð ljósapera pirra mig líka meira en hann svo það er í rauninni í mínum verkahring að nauða í honum að koma sér að verki eða gera þetta sjálf. Við erum bara svo heppin/óheppin vinna jafn mikið utan heimilisins og vera því löglega jafn löt heimafyrir. Ég veit það eins og ég sit hér að ef ég væri ofvirk húsmóðir (eða bara húsmóðir yfirhöfuð) þá væri ég kleppsmatur að búa með manni sem aldrei kæmi sér að verki í nokkurn skapaðan hlut.

Mér finnst að það ætti að greiða niður heimilishjálp inn á öll heimili þó ekki væri til annars en að lækka kostnað á öðrum sviðum því ég segi fyrir mitt leyti að ef þetta heldur svona áfram þarf ég sennilega á geðhjálp að halda vegna samviskubits og þá þarf ríkisbatteríið að standa straum af þeim kostnaði.

Ég hef áhuga á að heyra frá húsfeðrum/húsbóndum/sambýlismönnum. Hvernig er þetta með ykkur? Eruð þið með nagandi samviskubit yfir ókláruðum verkefnum heima fyrir á meðan þig dundið ykkur í tölvunni eða liggið í makindum yfir fótboltanum og formúlunni?


Blessaðir ferfætlingarnir

Heimilið er að fyllast af dýrum. það er jákvætt á allan hátt... næstum allan hátt. Mæli ekki með þessu fyrirkomulagi við húsmæður og húsfeður sem eru haldnir tuskuæði. Maður þarf að vera hálfgerður sóði til að höndla það sem fylgir svona húshaldi. Að öðrum kosti væri hollast að segja upp vinnunni og starfa heima við þrif níu til fimm. Og ekki fær maður greitt fyrir það. Að undanskildum æskuárunum (og jólamánuðinum ár hvert), er þetta fyrsti veturinn sem ég tek snjóinn fram yfir rigninguna. Ástæðan eru hundarnir á heimilinu. Þegar jörðin er hvít er unun að hleypa þeim út í garðinn og horfa á þá veltast um í fönninni, káta og lífsglaða. Á dögum eins og þessum þegar rignir eins og syndaflóðið sé í nánd er þetta martröð. þeir hendast um grasið sem er eiginlega ekkert gras heldur moldarflag, troða sér á bak við tréin og leita að löngu gröfnum beinum í beðunum. Svo koma þeir hlaupandi, glaðir og kátir með lafandi tungur og brosandi munn og halda að ég sé eins glöð að sjá þá eins og þeir mig. Það er hinn mesti misskilningur. Núna þekja brún loppuför 98% af dökka náttúrusteininum á gólfunum á heimilinu og ég hef ekki minnstu löngun til að taka fram ryksugu, skúringafötu eða nokkuð annað sem tengist þrifum. Ætli ég skelli mér ekki frekar í regngallann, smelli taumunum á hundana og taki þá í göngutúr á malbikinu hér í kring.

Val á sokkum

Er þetta vitleysa í mér eða er þetta dæmigerðasti vetur á Ísalandi frá upphafi? Ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að orðatiltækið ''allra veðra von'' megi rekja til samskonar veðurfars og við höfum orðið vitni að undanfarið. Sennilega til norsks nýbúa árið sautjánhundruðogsúrkál sem stóð gleiðfættur einhvers staðar við Breiðafjörðinn og veifaði heimatilbúinni sveðju í annarri hendi og hrútshorni með heimabrugguðu brennivíni í hinni. Hann gæti hafa sagt eitthvað á þessa leið: Ja hvur andskotinn, aldregi hefði ek dottið til hugar að flytjast búferlum hingað ef ek hefði grunað að á þessu Þórs volaða landi væri ávallt allra veðra von. Svo hefur hann skellt í sig restinni af heimabrugginu, sveiflað sveðjunni og hoggið mann og annan í herðar niður. Að svo búnu skálmað til skógar sem nóg var af þar til hann hjó hann allan niður. Og hér erum við enn með norskt, tyrkneskt, franskt og ég veit ekki hvað, blóð í æðum. Þykjumst hreinræktaðir Íslendingar, harðgerð þjóð sem þolir allt og sérstaklega harða vetur. Samt kemur veturinn okkur alltaf jafn mikið á óvart. Allavega mér.

Dæmigerður morgunn undanfarið: vakna klukkan 7 til að koma yngsta fjölskyldumeðlimnum á fætur og hafa hann tilbúinn tímanlega í skólabílinn sem birtist stundvíslega kl. 07:45. Sólin skín í heiði og það stirnir á hvítan snjóinn í garðinum. Haha hugsa ég. Ég læt ekki blekkjast auðveldlega. Örugglega nístingskuldi, dæmigert gluggaveður og á meðan ég smyr nesti hugsa ég hlýlega til þykku útivistarsokkanna minna. Í þá skal farið í dag. Í þann mund sem ég pakka kæfusamlokunni inn í plastfilmu dimmir skyndilega í eldhúsinu og engu líkara er enn janúar sé enn á lífi. Ég lít út um gluggann og rigningin beljar á rúðunni. Ja hérna. Jæja, nælonsokkar í dag eftir allt saman. Strákurinn hleypur út í skólabíl í hagléli og ég hleypi hundunum inn úr garðinum með rigningardropa í feldinum fyrir framan framfætur en stórar haglélskúlur í skottinu. Það tekur því ekki að skúra loppuför upp af gólfinu í dag. Ég stefni á svarta sokka af húsbóndanum. Þeir eru í réttri þykkt. Þegar stórhríðin skellur á í þann mund sem ég opna sokkaskúffuna hans er kvíðinn yfir sokkavali orðinn svo yfirþyrmandi að mig langar mest til að skríða upp í rúm og breiða sængina upp fyrir haus. Þarf ekki að kanna þetta? Þarf ekki að fá Gallup til að gera könnun?  Eru erfiðleikar við ákvörðunartöku um hverju skal klæðast ástæðan fyrir skammdegisþunglyndi Íslendinga?


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband