Leita í fréttum mbl.is

Æskan og ellin

Þær faðmast. Eins og þær hafi ekki hist í marga mánuði. En þær hittast á hverjum degi. Alltaf seinnipartinn. Og alltaf er faðmlagið jafn þétt og innilegt.

Amman og stúlkan. Sú eldri hokin af lífsins reynslu, sú yngri geislandi af lífsþrótti og tilhlökkun. Hrukkóttur vangi ömmu, hlýr af hitanum frá pönnukökubakstri og sléttur vangi barnsins, rjóður og kaldur af útiverunni, snertast.

Þær brosa glaðar hvor við annarri. Svo hleypur amma við fót inn í eldhús til að huga að pönnukökunum. Stúlkan klæðir sig úr úlpu og húfu og hengir á snagann sinn. Í 10 ár hefur hún hengt útiflíkurnar sínar á þennan sama snaga þegar hún kemur til ömmu og afa. Snagann festi afi í vegginn rétt eftir að hún kom í heiminn. Nú er afi dáinn. Hann dó í vor. Yfir snaganum eru 10 litlar ljósmyndir af stúlkunni. Afi festi nýja mynd af henni við snagann á hverju ári. Festi þær með teiknibólum. Teiknibólan á nýjustu myndinni er blá. Vegna þess að þetta árið er uppáhaldsliturinn hennar blár. Myndin frá í fyrra er með hvítri teiknibólu. Það árið fannst henni hvítur fallegasti liturinn. Hún strýkur fingrunum létt eftir öllum myndunum. Finnur nærveru afa.

''Ertu ekki að koma ömmuskott'' er kallað og stúlkan flýtir sér inn í hlýjan borðkrókinn í eldhúsinu. Hún sest við borðið og virðir ömmu fyrir sér þar sem hún veifar pönnukökuspaðanum, íklædd skrautlegri svuntu og raular fyrir munni sér.

''Amma'', segir hún.

''Já skottið mitt''.

''Ég er orðin 10 ára''

''Ég veit það skottið mitt''.

''Þú verður að hætta að kalla mig skott''.

''Ég veit það hjartað mitt''

Þær hlæja báðar og stúlkan stendur upp og nær í sultutauið hennar ömmu í ísskápinn og ískalda undanrennu að drekka með pönnukökunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband