Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Níu atriði sem ég hata við fólk

1. Fólk sem bendir á úlnliðinn á sér þegar það spyr hvað klukkan sé.....
Ég veit hvar úrið mitt er væni minn, hvar í andskotanum er þitt?
Bendi ég á klofið á mér þegar ég spyr hvar klósettið er?

2. Fólk sem er tilbúið að standa upp af rassgatinu til að leita í öllu herbergi
að sjónvarps fjarstýringunni en neita að ganga að sjónvarpinu og skipta um stöð handvirkt.

3. Þegar fólk segir ''ooh þú vilt nú alltaf bæði eiga kökuna og éta hana líka''.
Soooo true! Hvaða gagn er af köku ef maður getur ekki étið hana!!??

4. Þegar fólk segir ''alltaf þarf það að vera á staðnum sem maður leitar síðast á''.
Afhverju í andskotanum ætti maður að halda áfram að leita að einhverju eftir að maður finnur það? Er til fólk sem gerir það!?? Hverjir eru það og hvar eru þeir? Ég ætla að gefa þeim ærlegt spark í rassgatið.

5. Þegar fólk segir þegar maður er í bíó: ''Sástu þetta?''
Nei fíflið þitt. Ég borgaði 1000 kall til að koma hingað og stara á fjandans gólfið.

6. Fólk sem spyr: ''Má ég spyrja þig spurningar?''....
Þú gafst mér nú ekki beint valkostinn, er það asninn þinn?

7. Þegar fólk segir: Þetta er nýtt og endurbætt.
Hvort er það!!?? Ef þetta er nýtt þá var aldrei neitt á undan. Ef það er endurbætt þá hlýtur eitthvað að hafa verið til fyrir og þá getur það ekki verið nýtt!.

8. Þegar fólk segir ''Lífið er svo stutt''.
WTF!! Lífið er það lengsta sem einhver gerir!! Hvað geturðu gert sem er lengra?

9. Þegar maður bíður eftir strætó og fólk kemur og spyr ''er hann kominn?''
Hvað í anskotanum er að?? Myndi ég standa hérna hálfvitinn þinn ef vagninn væri kominn!!??


Gaddakylfan 2007

Gaddakylfan, smásagnakeppni Mannlífs, Grand Rokk og Hins íslenska glæpafélags, er haldin í fjórða sinn í ár. Glæpafélagið hélt keppnina fyrst í samvinnu við Grand Rokk fyrir þremur árum en ári síðar hætti Mannlíf sér út á refilstigu glæpasagnanna, gekk til liðs við Glæpafélagið og síðan þá hefur keppnin verið kennd við Gaddakylfuna, vígalegan verðlaunagripinn sem veittur er þeim sem skrifar bestu smásöguna hverju sinni.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu sögurnar að mati dómnefndar. Höfundur bestu sögunnar fær veglegan verðlaunagrip, Gaddakylfu, sem listakonan Kogga hannar, og öfluga fartölvu. Verðlaunafé fyrir annað sætið eru 30 þúsund krónur og 20 þúsund fyrir það þriðja. Þá verða verðlaunasögurnar þrjár birtar í bók sem mun fylgja Mannlífi í lok júní. Mannlíf áskilur sér einnig rétt til þess að velja fleiri innsendar sögur til birtingar í glæpasagnakverinu.

Mig langaði hrikalega í þessa fartölvu. Varð ekki að ósk minni en sagan mín verður birt í bókinni. Ég er mjög glöð yfir því. Langaði samt alveg helvíti mikið í fjandans fartölvuna.

Ég ætla ekki að birta þessa glæpasögu hér en í staðin kemur hér smásagan sem ég skrifaði sem verkefni á námskeiðinu hjá Þorvaldi sæta Þorsteinssyni. Ég tek það fram að það er engin skylda að lesa söguna. En þeim sem ekki lesa hana verður hent út af bloggvinalista hjá konunni. Devil  Verkefnið var byggt upp þannig að allt var gert í öfugri röð. Þ.e. fyrst fann ég titil á smásögu (alveg út í loftið) og svo skrifaði ég söguna. Vatnið sem hvarf var upphaflegi titillinn og var með smá tilllögubeiðni hér á blogginu til ykkar um hvaða vatn þetta væri sem myndi hverfa. Ég fékk hugmynd frá ykkur sem þróaðist og breyttist og endaði í nýjum titli:

 

Á ferðalagi hvernig sem viðrar

 

 

Tíu ára glókollur kemur valhoppandi eftir stígnum. Regndroparnir, sem falla reglulega úr hárinu á honum og smjúga niður hálsmálið á úlpunni, virðast ekki hafa truflandi áhrif á hann. Hann blístrar glaðlega falska tóna og kinnar og nefbroddur eru rjóð, líkt og sólin hefði leikið um andlit hans allan daginn.

 

Mamma stendur við stofugluggann og horfir á guttann sinn nálgast húsið. Hún nýtur þess að sjá hversu glaður og áhyggjulaus hann er því innan skamms mun það breytast.

Amma varð bráðkvödd í morgun og mamma er óviss hvernig glókollurinn hennar mun bregðast við fréttunum. Allt frá því að hann fæddist hefur amma búið hjá þeim og hann þekkir ekkert annað fjölskyldumunstur en að hafa bæði ömmu og mömmu á heimilinu.

 

Þegar hann var lítill vann mamma mikið. Þá var gott að hafa ömmu hjá sér og saman brölluðu þau tvö ótrúlegustu hluti. Þau tvö voru vinir. Bestu vinir.

Með ömmu lærði Glókollur að njóta náttúrunnar og sjá það fallega í öllum veðrabreytingum. Þau fóru í göngutúr á hverjum degi, sama hvernig sem viðraði og Glókolli lærðist að klæða sig eftir eftir veðri.

Þau fóru saman á leikvöllinn og amma mokaði í gríð og erg sandi ofan í marglitar plastfötur á meðan glókollur sturtaði úr þeim jafnóðum aftur. Þau veguðu salt og ýttu hvort öðru í rólunum. Amma kenndi honum að miðla málum á leikvellinum á ýmsan

hátt í stað þess að henda grjóti til að lýsa vanþóknun sinni og óánægju.

  • - Góð pólitík að kunna að miðla málum, sagði amma stundum.

 

Þau gengu fjöruna og varplöndin í kring milljón trilljón sinnum á fyrstu æviárum Glókolls og þar lærði hann að bera virðingu fyrir fuglalífinu og hann lærði að verjast kríunni um varptímann með því að veifa húfunni, rekadrumb eða öðru handhægu fyrir ofan höfuðuð á sér.

Mörg kvöldin læddust þau um í blautu grasinu í garðinum, vopnuð vasaljósum og fötum með mosa í. Ofan í föturna týndu þau ánamaðka fyrir veiðiferðirnar hans Sigga á Snæbóli. Hann var vinur og veiðifélagi afa á meðan afi lifði.

Amma var alltaf skemmtilegur félagsskapur og aldrei að flýta sér eins og mamma. Hún hafði alltaf tíma fyrir Glókoll. Þó honum finndist hann vera orðinn of stór fyrir sögustundirnar hennar ömmu og segði engum frá þeim, þá var uppáhaldstíminn hans á kvöldin þegar hann var komin í náttfötin því þá var komin sögustund. Hann vissi  ekkert betra en að liggja í stofusófanum með höfuðið í kjöltunni á ömmu og hlusta á sögurnar hennar. Stundur voru það ævintýri sem amma span jafnóðum og stundum voru það minningar frá æsku hennar. Það þótti Glókolli merkilegar sögur því amma fæddist snemma á síðustu öld og ólst upp í torfbæ. Æska ömmu var svo gjörólík því sem börn áttu að venjast í dag.

Glókolli dreymdi stundum á nóttunni að hann væri staddur á æskuslóðum ömmu. Hann hafði aldrei komið þangað en lýsingar gömlu konunnar á fólki og stöðum stóðu honum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.. Í þessum draumum var hann stundum að reka kýrnar heim í fjós eða leika sér með ‘'gulllin'' hennar ömmu. Amma kallaði öll leikföng gull og honum líkaði orðið vel.

Amma kynnti Guð fyrir Glókolli. Glókollur átti erfitt með að trúa því að Guð væri raunverulegur og amma sagði að það væri allt í lagi. Hverjum og einum væri í sjálfsvald sett hverju þeir tryðu. En hún útskýrði fyrir Glókolli að fyrir henni væri Guð æðri máttur og tákn alls þess góða sem í mannfólkinu býr.

-Mér þykir gott að trúa því að einhver sé okkur æðri og fylgist með okkur og leiðbeini þegar erfiðleikar steðja að, sagði amma og strauk Glókolli um hárið.

-Mikilvægast er að þú trúir á sjálfan þig og það góða sem í þér býr. Það mun færa þér hamingju og gott líf.

Og hún kenndi honum að fara með bænir.

Glókollur viðurkenndi það ekki einu sinni fyrir ömmu en á hverju kvöldi fór hann með allar bænirnar sem amma hafði kennt honum í hálfum hljóðum áður en hann fór að sofa.

 

Allt þetta rifjaði Glókollur upp í huganum um kvöldið, eftir að hafa fullvissað mömmu um að það væri allt í lagi með hann. En sannleikurinn var sá að hann er með skrýtinn hnút í maganum og honum líður eins og hjartað hans geti brostið á hverri stundu. Hann þrýstir andlitinu ofan í koddann til að mamma heyri ekki litlu kveinin sem brjótast út fyrir varirnar á honum. Að lokum sígur á hann höfgi og hann sofnar kærkomnum, draumlausum svefni.

 

Næstu dagar eru bæði skrítnir og annasamir. Fjöldinn allur af fólki kemur í heimsókn til að votta þeim samúð sína. Sumir koma með blómvendi og aðrir eitthvað að borða eins og smákökur, tertur eða pottrétti til að hita upp.

Ég elda nú stundum tautar mamma taugaveikluð og brosir skökku brosi.

Hún er þreytuleg og hefur miklar áhyggjur af Glókolli. Það hefur rignt stanslaust í þrjá daga og Glókollur eyðir löngum stundum við eldhúsgluggann og starir á regnið skella lárétt á rúðuna.

-Viltu ekki fara og heimsækja einhverja af vinum þínum spyr mamma Glókoll á um það bil klukkustundar fresti.

En hann situr bara sem fastast í stólnum hennar ömmu og handleikur uppáhaldskaffibollann hennar. Hann er þungbúinn á svipinn og það dregst varla orð upp úr honum.

Mamma er ráðvillt. Hún veit að drengurinn hennar er sorgmæddur og saknar ömmu sinnar. En frekar vildi hún að hann henti sér í gólfið og öskraði og gréti en að þessi þögn ríkti.

En það eru miklar annir hjá henni við að undirbúa jarðarförina og erfidrykkjuna. Það er margt sem þarf að huga að og skipuleggja. Sjálf er hún yfirkomin af þreytu  og ekki síst þarf hún að takast á við eigin örvinglan og söknuð.

Mitt í öllu annríkinu reynir hún að hlúa að Glókolli eftir bestu getu en drengurinn er þögull sem gröfin og fæst ekki til að ræða við hana um það sem skiptir máli.

Hún finnur að hann er reiður.

 

Amma er jarðsett á þriðjudegi í byrjun júlí. Þegar Glókollur vaknar um morguninn og lítur út um gluggann er litur dagsins í fullu samæmi við sálina í honum. Eins grár og íslenskur sumardagur getur orðið. Himininn er alþakinn dökkum óveðursskýjum sem gefa loforð um úrhellisrigningu og auðséð er að brátt muni hvessa.

Glókollur stendur við gluggann með hönd undir kinn og talar við Guð. Orðin koma hikandi og röddin er örlítið brostin. Aldrei hefur hann áður talað upphátt við Guð.

-Guð... amma mín sagði að þú værir til. Amma skrökvaði aldrei að mér.... en það er ekki að skrökva þegar maður segir eitthvað og trúir því sjálfur... er það nokkuð? Ha..? Guð.

Guð.. ertu til?

Barnshugurinn þráir svarið ákaft en hann veit að það kemur ekki.

-Þú finnur svör við öllum heimsins spurningum innra með þér hafði amma stundum sagt.

 

Glókollur starir upp í þungbúinn himininn um stund. Skýin eru á fleygiferð.

Hann veltir því fyrir sér hvert dána fólkið á himnum fari þegar svona óveður geysar þarna uppi. Samt veit hann alveg að það er ekkert dáið fólk á himninum. Amma sagði að þegar fólk dæi væri það bara líkaminn sem væri jarðsettur. Sálin héldi áfram að lifa og hún gæti ferðast eins og hana lysti á örskotsstundu.

-Hvað gæti verið meira gaman en að geta heimsótt alla þá staði sem mann langar til? Jafnvel alla á sama deginum, sagði amma oft.

Sú hugsun hvarlar að Glókolli að kannski sé amma bara ekkert leið að vera dáin. Nú gæti hún ferðast um víða veröld eins og hana hafði alltaf dreymt um.

 

Glókollur ákveður á þessari stundu að leggja próf fyrir Guð. Ef Guð er til þá getur hann bara vel sannað það. Það er ekki nema sjálfsagt og réttlátt finnst Glókolli. Og það verður   að vera erfið þraut. Eitthvað sem enginn getur gert... nema Guð... ef hann er þá til.

 -Sem hann er örugglega ekki, botnar Glókollur eigin hugsanir stúrinn á svip. Enginn máttur sem væri góður myndi taka ömmu frá honum. En, það mátti reyna þetta.

 

-Guð, segir Glókollur ákveðinn. Ef þú ert til þá lætur þú vera sólskin og gott veður í dag. Hún amma mín á það skilið.

Svo hlakkar svolítið í honum því eins og skýin þjóta yfir er ekki ólíklegt að það verði þrumuveður þegar líður á daginn.

 

Honum líður betur og þegar mamma kemur inn í herbergi til hans með nýpressuð sparifötin er hann tilbúinn að mæta deginum.

 

Í kirkjunni er óskaplega margt fólk og Glókollur þekkir bara nokkur andlit finnst honum. Ókunnugt fólk kemur til hans og vill kyssa hann og knúsa  og honum þykir nóg komið af því góða.

 

Mamma kreistir höndina á honum þegar þau eru sest og hann finnur að hún er örlítið skjálfhent.  Þetta verður í lagi, segir hann með hljómblæ ömmu og klappar mömmu sinni  hughreystandi á handarbakið.

Það koma viprur við munnvikin á mömmu og hún strýkur sér um augun. Svo kyssir hún hann á ljósan kollinn.

 

Glókollur furðar sig á því hversu mikið presturinn veit um ömmu. Hann segir allskonar sögur af henni og sumar fá fólk til að hlæja. Amma hafði líka alltaf verið góð í því. Að fá fólk til að hlæja og skemmta sér.

Glókollur fylgist með veðrahamnum út um marglitar rúðurnar á kirkjunni. Rigningin beljar á gluggunum og tréin fyrir utan dansa trylltan dans í takt við drunurnar.

 

Glókollur á afskaplega erfitt með að ímynda sér ömmu liggjandi ofan í hvítu kistunni sem stendur upp við altarið. Og þegar þau ganga á eftir kistunni út úr kirkjunni endurtekur hann sífellt í huganum: Þetta er bara líkaminn, þetta er bara líkaminn.

 

Rokið rífurog tætir í föt kirkjugestanna þegar út er komið og allir flýta sér sem mest þeir mega að bílunum sínum.

Á meðan Glókollur bíður eftir mömmu í anddyrinu kemur gömul kona í hjólastól og ávarpar hann. Höfuð hennar tifar til og frá eins og hún hafi ekki stjórn á því og vinstri höndin hennar er undarlega kreppt. En Glókolli líst vel á hana. Hún hefur svo góðleg augu.

-Sæll vinur minn, segir hún.

-Sæl, segir Glókollur kurteislega.

-Hún amma þín talaði mikið um þig.

Glókollur segir ekki neitt en honum þykir vænt um orðin.

-Ég heiti Sigríður frá Læk, heldur gamla konan áfram.

-Ó, segir Glókollur. Ert þú Sigga, æskuvinkona hennar ömmu?

-Já einmitt. Hún hlær örlítið. Við hittumst ekki oft þessi síðustu ár en töluðum reglulega saman í síma. Það er orðið svolítið erfitt fyrir mig að ferðast að norðan.

 

Hún klappar með heilbrigðu höndinni á arminn á hjólastólnum til að útskýra mál sitt.

 

-Það var gaman að sjá þig væni minn, segir hún hlýlega og strýkur honum um vangann.

-Já, segir Glókollur og brosir feimnislega.

 

Svo kemur bíll alveg upp að kirkjudyrunum og ungur maður stígur út.

Frakkinn hans verður rennblautur á þessum örfáu metrum sem eru á milli bílsins og kirkjudyranna. 

 

-Jæja amma, segir hann hressilega, ertu tilbúin? Og svo hverfa þau út í rokið.

 

Á meðan líkfylgdin sniglast áfram áleiðis í kirkjugarðinn leikur Glókollur sér af því að teikna sól á móðuna á bílrúðunni. Mamma leyfir honum að sitja frammí.

-Bara í þetta eina skipti segir hún.

Glókollur teiknar augu og munn á sólina og hugsar um svolítið sem amma sagði einu sinni.

-Ég vona að þegar minn tími kemur að Guð gefi mér að ég fái að sofna svefninum langa. Á meðan ég er ennþá heilbrigð á sál og líkama.

Hann skildi ekki þá hvað amma meinti. En hann skilur það núna. 

 

Presturinn stendur hátíðlegur við opna gröfina. Eins hátíðlegur og hægt er að vera þegar maður er gegnvotur. Öllum að óvörum hefur vindinn lægt og heldur dregið úr rigningunni.

Glókollur les í hljóði það sem stendur á legsteininum hans afa.

Ástkær eiginmaður og faðir Guðmundur Árnason. Hvíl í friði.

Glókollur var skírður í höfuðið á afa. Á legsteininum hafði verið skilið eftir pláss fyrir nafn ömmu. Við látum grafa það á steininn fljótlega hafði mamma sagt.

 

Þegar kistan sígur niður í jörðina passar Glókollur að horfa ekki ofan í opið. Hann einbeitir sér að auða blettinum á legsteininum og reynir að ímynda sér nafnið hennar ömmu þar. Friðleif Ásmundsdóttir.

Og nákvæmlega þar sem Glókollur heldur að Effið muni standa, birtist sólargeisli.

Geislinn stækkar og breikkar þar til allur legsteinninn er baðaður sólskini. Glókollur lítur til himins og feginsstraumur fer um hann allan.

Án þess að hann finni það streyma tárin niður rjóðar kinnarnar og mamma grípur utan um hann.

-Þetta lagast hvíslar hún blíðlega í eyra hans.

-Það er allt í lagi mamma, hvíslar hann á móti. Amma er á ferðalagi.

 

 

 

 


Ég er hrædd um að týnast

Jæja kæru bloggvinir og aðrir.

Ég hafði mig loksins í það að láta myndina af Marilyn vinkonu minni hverfa og setja inn mynd af sjálfri mér í staðinn. Planið var að klæðast einhverju rauðu, smella af mynd og setja hana hér í prófílinn. Ástæðan fyrir rauðu var kjóllinn sem Marilyn klæddist. Fannst að ég yrði að hafa eitthvað sem minnti á myndina sem er búin að vera andlit mitt í eina 3 mánuði. Ég er nebblega hrædd um að týnast svona litlaus.

En ég á ekkert rautt til að klæðast og svo er brjóstaskoran mín ekki eins fín og á Mary babe.

Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvort ég verði minna lesin á næstu dögum en þegar Marilyn hin litríka og brjóstgóða prýddi forsíðuna hjá mér.   marilyn

 

Goodbye Norma Jean....  **sniff**

 


Auglýsi eftir trampolíni fyrir Mitchelin manninn

Ég veit að bloggið er ekki ætlað til smáauglýsinga en datt samt í hug að sniðugt gæti verið að auglýsa eftir trampólíni með öryggisneti hér.

Málið er að Sá einhverfi er að breytast í Mithcelin manninn þessi elska. Fyrst var talið að barnið fitnaði svona af Amilininu (lyfið sem hann var á, en flest börn fitna af því), svo var hann tekinn af lyfinu og það sér ekki högg á vatni. Hann er hoppandi um allan daginn á milli þess sem hann teiknar og skrifar einhverja snilli og gúgglar á netinu. Og hann borðar ekkert svaaaakalega mikið. Þyrftum samt að reyna að taka af honum brauðið FootinMouth.

En gaurinn fer ekki út að leika sér eins og önnur börn og því held ég að trampólín í garðinn væri snilldarleikur. Væri brilliant að fá það eitthvað ódýrara en á 40 þúsund kallinn sem það kostar út úr búð (með öryggisneti).

Þannig að, ef þið eigið í fórum ykkar trampólin sem þið eruð ekki að nota lengur þá endilega látið mig vita.

michelin


Ég þekki nokkrar svona

Það er að segja húsmæður, sem myndu (reyndar) sjálfar taka til og þrífa smá áður en the hired help mætti á svæðið.

 

offthemark09ju


Nú getur sumarið komið

Gelgjan útskrifuð úr 4. bekk með mjög góðan vitnisburð. Stolt af henni. Sá einhverfi rekur endahnútinn á skólann á morgun á vorhátíð Öskuhlíðarskóla. Skólabíllinn kemur og pikkar hann upp um 10:30 í fyrramálið og vorhátíðin stendur yfir frá kl. 11-14.

Ég er í fríi á morgun og ætla að skella mér á vorhátíðina frá kl. svona 12. Það verða hestar á staðnum og teymt undir krökkunum, trampólínin standa fyrir sínu, grillaðar pylsur o.fl.

Ég mun að sjálfsögðu bjóða Gelgjunni með en ég veit að hún ''nennir sko ekki að fara og vera þarna með fullt af einhverjum fötluðum krökkum''.

Einu sinni þegar hún var þreytt á bróður sínum skrifaði hún miða og límdi á herbergishurðina hjá sér.

 

Fötluðum bannaður aðgangur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband