Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ný bloggsíða

 

Kæru bloggvinir og aðrir vandamenn W00t

Ég hef ákveðið að opna aðra bloggsíðu, svona í tilraunaskyni.

Ekki það að ég ætli að loka fyrir mbl síðuna mína. Alls ekki. Mun halda öllu opnu hér, aðallega til að auðvelda mér að fylgjast með ykkur.

Og ég mun linka á allar bloggfærslur á bloggar.is hér.

Vona... nei ég ætlast til þess að þið haldið áfram að kíkja við hjá mér. Og í öllum bænum ekki hætta að kommenta. Kannski smá vesen í fyrsta skipti að setja inn athugasemd og einhver atriði sem þarf að fylla út; en bara í fyrsta skipti.

Smile


Baráttan við bílinn

 

Ég ákvað að sækja Þann Einhverfa í Vesturhlíð og dragnast með hann á sundæfingu (þetta heitir sko ''æfing'' eftir að kappinn tók þátt í sundmóti) kl 5 í gær. Ekki er hægt að segja að ég hafi verið hress eftir að hafa faðmað Gustavsberg óheyrilega nóttina áður.

Það var skelfilega kalt í gær og ég hefði getað sagt mér það sjálf að ég myndi lenda í vandræðum með að opna bílinn minn. En heilinn á mér var ekki vel vakandi svo ég hóf glímuna við frosnar bílhurðir heldur seint.

Bíllinn minn er station bíll og ég uppgötvaði að afturhlerinn var það eina á hjörum sem ekki var frosið fast aftur. Meira að segja læsingarnar voru pikkfastar.

Ég kallaði á Gelgjuna og skipaði henni að skríða inn eftir bílnum og starta honum og þenja miðstöðina í botn. Planið var að hita bílinn svo ég gæti opnað hurðarnar. Sá ekki alveg fyrir mér að það myndi ganga upp að láta Þann Einhverfa skríða inn og út úr bílnum.

En ég var orðin sein svo ég hafði ekki mikla þolinmæði í að bíða. Fór inn, tók saman sunddótið fyrir drenginn, dúðaði mig í úlpu og lúffur frá 66°norður, smeygði hinni ómissandi tösku minni yfir öxlina og fór út aftur. Byrjaði aftur að hjakkast á bílhurðunum og fór mikinn. Ákvað loks að það væri ekki um annað að ræða en að skríða sömu leið og Gelgjan hafði gert. Kannski gæti ég opnað hurðar með því að leggjast á þær innan frá. Og ef það brygðist þá myndi ég bara keyra niður í Vesturhlíð með allar hurðar frosnar aftur. Bíllinn hlyti að vera orðinn nógu heitur þegar niður í bæ kæmi.

Þar sem ég hef hvorki til að bera kattarhreyfingar Gelgjunnar né lítinn og petite líkama hennar þurfti ég að leggja niður aftursætin í bílnum. Annars hefði ég sennilega fest afturendann á milli topps og höfuðpúða. Svo henti ég mér á allar hurðar en engin haggaðist.

ARGH ég var orðin sveitt, pirruð, stressuð yfir tímaleysi og ógleðin lét mig ekki alveg í friði. Ég skreið aftur í bílinn, skellti hleranum í lás á eftir mér. Skreið aftur fram í bílinn. Festi læri hér og rasskinn þar. Hlussaðist að lokum í bílstjórasætið másandi og blásandi. Festi á mig beltið og ætlaði að fara að reykspóla út úr innkeyrslunni þegar mynd skaut upp í hugann á mér. Svartur sundpoki með rauðum stöfum og svört kventaska með axlaról. Hvar var nú draslið sem ég tók með mér út. Jú, lá í hvítu frostinu í innkeyrslunni. Nákvæmlega þar sem ég lagði það frá mér til að ná betra taki á hurðarhandföngum.

Ég var fangi í eigin bíl. Allar hurðir frosnar aftur nema afturhlerinn. Og hann er óopnanlegur innan frá. Enda ekki beint hannaður sem manngeng inn- eða útgönguhurð.

Hugsanirnar suðuðu hver um aðra þvera í hausnum á mér. Það eina sem mér datt í hug var að hringja í einhvern. Hringja í Gelgjuna og biðja hana að opna fyrir mér. Hringja í Vesturhlíð og segja að ég kæmi ekki eftir allt saman. Hringja í bílstjóra skólabílsins og segja að hann ætti að keyra Þann Einhverfa heim í dag, þó að ég hefði sagt annað um morguninn...

Það var aðeins eitt sem ekki gekk upp í þessu plani: síminn minn var í svörtu töskunni sem lá á jörðinni, ekki nema 30 cm frá fótum mér. Gallinn var sá að málmur skildi okkur að. Mig og töskuna mína og símann minn.

Öll ég stytta upp um síðir, stendur einhvers staðar og einhverjum tíma seinna hrundi ég út  um hægri dyr að aftan eftir að hafa sett öxlina duglega í hurðina. 

Við mættum korteri of seint á æfinu Sá Einhverfi og ég. Kátur drengur og marin móðir.

 

 


Þennan dag fyrir tólf árum var ég rist á kvið og heftuð saman aftur

 

Í dag, 11. janúar, eru 12 ár síðan að Gelgjan fæddist með miklum harmkvælum.

Í tilefni dagsins komu vinir og vandamenn í brunch hér í dag og þar sem Bretinn stóð við að steikja beikon og egg heyrði ég hann stynja.

Mér flaug helst í hug að eldamennskan væri að gera út af við hann og spurði hvað væri að plaga hann.

Þá var þessi elska, með steikarspaðann í höndunum, horfin tólf ár aftur í tímann. Var kominn með annan fótinn inn á fæðingarstofu, þar sem reiður læknir æpti á starfsfólkið sitt: Upp á skurðstofu með þessa konu eins og skot!!!

Og svo inn á skurðstofu þar sem hann horfði á konuna sína rista upp í flýti og baráttuna við að ná barninu út um kviðinn á mér. Það gekk ekki vel því andlitið á því sat fast ofan í grindinni eftir afar harðar hríðar og sama sem enga útvíkkun.

Já hún kom með sannkölluðum harmkvælum í heiminn þessi stelpa sem við eigum. En það er líka í eina skiptið sem hún hefur valdið okkur  vandræðum. Hún lét ganga á eftir sér þarna í upphafi og hver einasta sekúnda eftir það hefur verið þess virði.

Til hamingju með daginn fallegust.

 

AM 12 ara


Jól kannski seinna

Það var með þó nokkrum trega sem ég tók niður jólaskrautið í dag. Grenið á útidyrakransinum mínum var enn fallega grænt og ilmandi þegar það hafnaði í ruslinu.

Bretinn fór að ná í Þann Einhverfa til Fríðu Brussubínu og co seinni partinn í dag og það var með nokkrum asa sem stráksi þeytti hér upp útidyra- og forstofuhurðum. Ég sá á öllu hans látæði að hann var alls ekki búin að gleyma daufum og lítt sannfærandi kommentum mínum í vikunni um jólaskraut sem þyrfti að fara ofan í kassa.

Hann horfði brúnaþungur á blettinn þar sem jólatréið hafði staðið. Þar sáust nú aðeins gólfflísarnar og þó nokkuð magn af greni sem átti eftir að sópa upp.

Drengurinn skimaði í kringum sig. Skannaði stofuna. Virti fyrir sér kassana sem lágu á víð og dreif og biðu eftir að verða fylltir.

Svo leit hann út um gluggann og sá að hér á fjöllum uppi hafði snjó fest í garðinum.

''Snjór var farinn'', sagði hann svekktur.

Við urðum að viðurkenna það, að víst hefði snjórinn farið en því miður væri hann kominn aftur.

Það er sumar, sagði hann þá vongóður.

Ekki gátum við alveg tekið undir það þó að við fegin vildum.

Jól kannski seinna, tilkynnti hann. Og þar með var hann farinn upp í herbergið sitt.

Það fór lítið fyrir látunum og skömmunum sem ég hafði búist við, fyrir að voga mér að fjarlægja jólin af heimilinu.

En jú, jólin koma kannski seinna Ian.

 


Sólskinsdrengur á föstudagskvöldið

 

Á morgun er 9. janúar og enn stendur jólatré í fullum skrúða í stofunni hjá mér. Ástæðurnar eru tvær: framkvæmdarleysi og tíu ára drengur sem neitar því að jólin séu liðin. Og ég hef hreinlega ekki haft orku í það í vikunni að týna glingló ofan í kassa með annarri hendi og láta stóran strák hanga vælandi á hinni. (Vælandi er afar pent orð yfir þau viðbrögð sem ég ætti í vændum).

En á morgun, föstudag, fer hann til Fríðu Brussubínu og Co og laugardagurinn mun verða notaður í að fjarlægja jólaskraut. Ég er ekki alveg sátt því ég ætlaði að gera tilraun þetta árið. Láta hann hjálpa til við að pakka niður skrautinu og sjá hvort hann yrði ekki bara sáttur með það.

En eins og ég sagði: ég hef ekki haft orku þessa viku til að takast á við málið svo tilraunin verður að bíða til næstu jóla.

Við Bretinn eigum skemmtilegt föstudagskvöld í vændum: Frumsýningu Sólskinsdrengsins.

Ég get varla beðið.

Endilega kíkið á allt efnið á bloggsíðunni þeirra. Áhugaverð viðtöl að finna þar.

Ef þú ert foreldri eða hefur fylgst með uppvexti barns sem þú elskar, þá ráðlegg ég þér að hafa tissjú-box með í för þegar þú ferð á þessa mynd. Ég hef ennþá ekki séð hana, aðeins brot, en þetta veit ég.

Það þarf vitundarvakningu í þjóðfélaginu. Einhverfu tilfellum fjölgar stöðugt um allan heim. Og enn vitum við ekki hvað orsakar hana. Og kannski er það ekki aðalmálið. Ekki núna. Núna þarf vitundarvakninguna. Kunnáttuna til að virkja einhverfa einstaklinga og gefa þeim líf á meðal okkar hinna.

 

 


þriðji reyklausi dagurinn að renna sitt skeið

 

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu, en kveðjurnar og reykleysissögurnar sem ég hef fengið, bæði hér á blogginu, tölvupósti og á fésbókinni stappa í mig stálinu í reykleysinu. Í alvöru. Takk kærlega fyrir þær.

Ég finn að, fyrir mér, er þetta aðeins spurning um hugarfar. Ég byrjaði að reykja sem unglingur. Sennilega 16 ára. Sem þýðir að ég reykti í 23 ár. Vá! Tók mína fyrstu pásu frá febrúar 2007 og fór í raun afar létt með það. Hætti að reykja til desember sama ár. Byrjaði þá að fikta aftur í einhverju kæruleysi. Helga hálfsystir segir að það hafi í raun reynst mér of auðvelt að hætta að reykja. Ég held það sé rétt hjá henni. Held að fyrir vikið hafi ég verið of borubrött. Ólíkt því sem hefði verið ef ég hefði þurft að ganga í gegnum það helvíti sem sumir gera við að sleppa sígarettunni.

Í fyrstu reykti ég afar lítið. Reykti nokkrar í góðum félagsskap og snerti svo ekki nagla í marga daga þess á milli.

En eins og með alla fíkn, þá er ekkert sem heitir ''stundum''. Hversu heitt sem mig langar til að geta haldið áfram að fá mér eina og eina. Það er allt eða ekkert. Ég hef verið verulega ósátt við sjálfa mig undanfarna mánuði. Í rauninni fundið hvernig tóbakið hefur smám saman byrjað að stjórna mér aftur á margan hátt.

Í fyrravetur, þegar enn mátti kalla þetta fikt, þá sagði ég við sjálfa mig: ég ætla aldrei að reykja á vinnutíma. Ég mun aldrei standa úti í frosti og kulda aftur til að geta sogið í mig sígarettu. Þegar ég fann mig í nákvæmlega þessum aðstæðum nú í vetur fór ég að finna að ég var svolítið reið út í sjálfa mig. Og það er aldrei góð tilfinning. Þess vegna hef ég, meðvitað eða ómeðvitað, verið að stappa í mig stálinu undanfarna mánuði til að taka ákvörðunina um að hætta. Ég tók hana endanlega á góðu rauðvínssumbli með vinkvennahópnum eitt kvöldið, rétt fyrir áramótin.

Ég er í fínum gír. Finn fyrir örlitlum leiða. Eirðarleysi. Kannski örlítið hvumpnari en venjulega (Bretinn gæti haft aðra sögu að segja). Treysti mér ekki alveg til að hitta nokkrar góðar vinkonur mínar sem reykja. Ekki strax. Annars er ég fín.

Þetta ER spurning um hugarfar í mínu tilviki. Í hvert skipti sem mér dettur í hug sígaretta, þá segi segi ég við sjálfa mig: nei, mig langar ekki vitund í.

Ég ætla að vera dugleg við að minna mig á hversu heppin ég er að vera hætt í hvert skipti sem ég sé einhvern hírast úti við húsvegg í kulda og vosbúð með rettu í munnvikinu.

Erfiðustu mómentin eru einfaldlega við aðstæður sem ég tengi við smókinn. Þess á milli gleymi ég litlu, grönnu hvítu vinkonu minni. En maður gleymir ekki vinum sínum. Það þýðir þá að við vorum í raun aldrei sannar vinkonur.

Ég á nýja vinkonu núna. Hún er líka lítil og nett. Hvít og ferköntuð. Hún heitir Nicorette.

 


Þjófstartað á sundmóti

 

Við hjónaleysin skröltum með Þann Einhverfa á hans fyrsta sundmót síðast liðinn sunnudag. Við vorum nokkuð spennt yfir þessu. Eiginlega bara forvitin að vita hvernig þetta myndi ganga.

Nýtt umhverfi, óþekkt fólk, ný lífsreynsla........

Í anddyrinu á Laugardalslauginni skildu leiðir. Bretinn og Sá Einhverfi töltu inn í búningsklefa en ég hélt beinustu leið upp á áhorfendapallana.

Mér gjörsamlega féllust hendur þegar þangað kom. Tvær ástæður. Önnur: þvílík breyting sem gerð hefur verið á gömlu laugunum ''mínum''. Þessi innilaug er stórkostleg.

Hin ástæðan: Ég gerði mér enga grein fyrir stærð og umfangi þessa móts þegar Olli, sundkennari Þess Einhverfa, sagðist hafa skráð hann á sundmót. Ég hélt að þetta væri eitthvað lítið og pent. Nokkur börn og foreldrar. Ég vissi ekki að það væri til eitthvað sem héti Nýárssundmót íþróttasambands fatlaðra. Allur hinn félagslegi heimur fatlaðra er nýr fyrir mér. Nú er drengurinn minn orðinn stór og margt nýtt (sem betur fer) að gerast í hans lífi. Ég læri...

Það fór að renna upp fyrir mér að þetta yrði ekki stutt stopp. Þeim Einhverfa yrði ekki fleygt ofan í laugina eftir 10 mínútur og í sturtu 10 mínútum seinna. Nei, þetta leit út fyrir að taka nokkra klukkutíma og ég byrjaði fljótlega að svitna. Það voru líka tvær ástæður fyrir því: gífurlegur hiti í sundhöllinni og kvíðakast yfir öllum þeim uppákomum sem gætu drengurinn gæti skapað. Ég sá fyrir mér að ég gæti þurft að fleygja mér út í laug í öllum fötunum ef hann tæki upp á að taka sundsprett í miðju flugsundi unglinga eða eitthvað slíkt.

En í sannleika sagt hagaði hann sér að mestu eins og engill. Það var aðeins í eitt skipti sem hann ákvað að stinga mig af. Hljóp hringinn í kringum sundlaugina og smeygði sér fram hjá meðlimum lúðrasveitarinnar sem stóðu á bakkanum. Ég bað heitt í hljóði að enginn með hljóðfæri í höndunum endaði í vatni.

Að sjá allar þessar hetjur. Börn og unglinga. Blind, líkamlega fötluð, sum í hjólastól, þroskaheft. Gleðin skein úr andlitunum og það virtist ekki skipta neinu máli hver lenti í hvaða sæti. Þetta var allt bara gleði og ánægja.

Það var undarlega gleðilegt að sjá litla stóra drenginn standa þarna með félögum sínum í Ösp, í stórri græn- og svartröndóttri íþróttatreyju, með óvænt stolt í svipnum.

Ég held.. nei ég er viss um að minn maður var sá eini sem tók 25 metrana með lokuð augu og vælandi. Lái honum hver sem vill. Hann þjófstaraði í sínum riðli. Æddi skellihlæjandi af stað. Kona, sem ég ekki þekki elti hann og hann leit um öxl, herti sundið og hló ennþá meira.

Það gladdi hann ekki mikið að láta draga sig til baka. Því fór það svo að þegar hann fékk loks að fara af stað var það með hægum sundtökum og ég sá hvernig það myndaðist smám saman skeifa á andlitinu á honum. Og svo fór hann að gráta.

Óó hugsaði ég. Æi. Ææ. Ég vorkenndi honum. En ég gat ekki annað en hlegið. Flissaði í hljóði. Við hvöttum hann áfram og hann synti yfir laugina með lokuð augu, sennilega til að halda aftur að tárunum.

Hann ætlaði aldrei að fást upp úr lauginni en þetta endaði allt saman vel. Þó að biðin eftir verðlaunaafhendingu væri löng. En allir fengu medalíu um hálsinn og Jón Margeir, sem sést hér , er sérstaklega flottur fulltrúi þessara krakka. Stórglæsilegur íþróttamaður.

Hvernig sem á það var litið var þessi dagur mikill sigur fyrir okkur öll þrjú. Ekki skyggði á að Sá Einhverfi átti sitt fyrsta ''úti-pisserí'' á ævinni á leiðinni heim. Barnið var í spreng og það var ekki um annað að ræða en að bruna inn á næsta stæði, hendast út úr bílnum og rífa niður um aumingja krakkann. Hann horfði undrandi og kátur á bununa standa út í loftið, en þar sem hann var með pylsu í annarri hendi og frostpinna í hinni átti engin stýring sér stað. Enda fengu flíspeysan mín og gallabuxurnar skerf af herlegheitunum.

Við keyrðum kát heim á leið.

 


Sá Einhverfi mótmælir þrettándanum, horfir á Söngvaborg og ætlar á sundmót

 

Eftir fjóra daga tökum við niður jólaskrautið, sagði ég við Þann Einhverfa í gær.

Neeeiii ekki taka jólin, sagði drengurinn, og mér fannst ég engu skárri en Trölli.

En á morgun ætlar stráksi að ''keppa'' á sínu fyrsta sundmóti. Og ég er að rifna af stolti, svona fyrirfram. Þrátt fyrir að ég viti að hann verði bæði með froskalappir og kork og muni að öllum líkindum gleyma sér í náttúruskoðun úti í miðri laug. Það skiptir auðvitað nákvæmlega engu máli.

Nú situr hann og horfir á Siggu Beinteins í Söngvaborg. Syngur með eftir bestu getu og það kemur skemmtileg áhersla á orðin sem hann kann á meðan hin verða hálfgert taut.

Öðru hverju lítur hann á mig. Er hreykinn af sjálfum sér og vill að mamma sé það líka.

Ef hann bara vissi....

Ian hress

 


Viljiði hætta!!!!!

.............................................................................................................

...............................................................................................................

.....................................................................................................................

.......................................................................................................................

......................................................................................................................

Þið þarna í bílunum fyrir aftan mig... viljiði hætta að flauta þegar ég er að gefa bílum séns!!!!

Hér má sjá forsögu þessa tiltekna máls, sem reyndar er ekkert á undanhaldi. Sumt bara breytist ekki. Í dag lagðist einn af öllum kröftum á bílflautuna á stóra jeppanum sínum og brenndi gat í hnakkann á mér með framljósunum.

Ég varð svooooooooo pirruð

 


Hver er munurinn á fótboltabullu og vopnuðum mótmælanda?

 

Ég er klárlega allavega árinu eldri þennan nýársdaginn, en þann í fyrra. Ég sá það á áhrifum hamborgarhryggsins á lúkkið. Fékk vægt áfall við að líta í spegil í morgun. Eða öllu heldur í hádeginu þegar ég vaknaði. Hálfsokkin augu. Það var engu líkara en ég hefði verið á rokna fylleríi í nótt. Sem ekki var raunin.

Nú teyga ég Kristal.. eftir að hafa fengið mér afganga af reykta kjötinu í kvöldmat.

Þessi jól hafa verið mér góð. Líka áramótin. Áramótaskaupið var það besta í fleiri fleiri ár, að mínu mati. Ég glotti við tönn allan tímann og hefði vel getað horft á meira.

En ég er hálfráðvillt. Mér finnst ég eigi að hafa afdráttarlausa skoðun á því sem gerðist í gær við Hótel Borg en ég hef það ekki. Enda hefur það oft verið mér fjötur um fót að reyna að skilja allar hliðar og öll sjónarmið á hinum ýmsum málum. Ég næ því sjaldnast að mynda mér afdráttarlausa skoðun á einu eða neinu.

Þó er ég með nokkrar staðreyndir á hreinu, bæði hvað varðar mótmælin í gær sem og úr mínu persónulega lífi. Ég ætla að láta mér nægja að setja hér niður nokkrar slíkar staðreyndir:

Kisan Khoska er komin í tilrauna-fóstur í viku. Ég vona að það gangi upp. Hún verði ánægð með nýja fólkið sitt og að fólkið verði ánægt með nýju kisuna sína.

Sá Einhverfi hefur farið á kostum yfir hátíðarnar. Nýtur greinilega samvistanna við fjölskylduna. Hann læddist inn í herbergi til systur sinnar í dag þegar hann fór að lengja eftir hreyfingu þaðan og sagði: ertu vakandi? Setning sem gladdi okkur öll. Svo skreið hann upp í til hennar og kúrði með henni í góða stund.

Það var minna skotið upp af flugeldum þetta gamlaárskvöld en 2007. Það bæði fann ég heyrði á því að litlir sem engir hvellir heyrðust eftir kl. tvö í nótt og sama og ekkert hefur heyrst í dag, nýársdag. Menn virðast hafa keypt sér akkúrat brigðir fyrir þrítugastaogfyrsta og ekkert meira.

Fótboltabulla er ekki unnandi íþróttarinnar knattspyrnu, né fer þar sannur fylgismaður viss félags. Fótboltabulla er einfaldlega persóna í leit að slagsmálum.

Það heyrðist hærra í Vidda Vitleysing en í öllum sprengingunum á gamlaárskvöld.

Það mun draga til tíðinda hjá íslensku þjóðinni svo um munar næstu tvo mánuði. Og lítill kvíðahnútur er farinn að gera vart við sig. Ég reyni þó að vera bjartsýn

Ég er alfarið á móti kosningum að svo stöddu máli. Teldi slíkt vera óðs manns æði. Ekki er það vegna þess að ég sé himinlifandi með núverandi stjórn. En í einstaka tilfellum er betra að vita hvað maður hefur frekar en ekki vita hvað maður fær. Alls ekki tímabært.

Ég trúi því að við séum að læra af reynslunni. Bæði ráðamenn og almenningur. Dýr lífsreynsla það, en kannski ekki eins dýr og hún hefði orðið eftir 10 ár... 20 ár.. (Pollýanna)

Ég ætla að drepa í síðustu sígarettunni (aftur) að kvöldi 4. janúar 2009. Og ég hlakka til að fá aftur nikótíntyggjóið mitt á mánudaginn.

Menn sem mæta með bensínbrúsa í hönd á friðsamleg mótmæli, eru þar í öðrum tilgangi en hinir. Þeir tala svo sannarlega ekki mínu máli. 

 

Af öllu hjarta vona ég að það víkingaorð sem fer af þessari þjóð sé orð að sönnu. Að við séum gerð af þrautseigju, stolti og hörku. Sjálf er ég að rifna úr þjóðarrembingi, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Ég kæri mig lítt um að við verðum gleypt með húð og hári á alþjóðavettvangi.....

Gleðilegt ár til ykkar allra

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 1639972

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband