Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Mánudagur, 29. desember 2008
Kelin kisa leitar heimilis
Sumarið 2007 eignaðist læðan Tinna þrjá kettlinga. Ég hef sett inn margar færslur og sögur af þessum köttum. Meðal annars um það þegar einn af kettlingunum; hún Perla, breyttist óvænt í Grím.
Planið var alltaf að láta alla kettlingana nema einn. Og læðan sem við nefndum Khosku fékk yndislegt heimili á Selfossi. Það varð ekkert úr því að við finndum heimili fyrir kettling númer tvö, svo tveir af þremur kettlingum ílengdust hjá mömmu sinni; Grímur og Elvíra.
Síðast liðið sumar varð Tinna fyrir bíl og dó. Það var mikil sorg á heimilinu og Gelgjan hefur enn ekki jafnað sig.
Stuttu seinna lentu fósturforeldrar Khosku í vandræðum, vegna nýrra húsreglna um dýrahald og okkur þótti þetta næstum því vera tákn. Khoska átti að koma til okkar aftur. Sem hún og gerði.
Systkini hennar tóku henni ekki opnum örmum, en við ákváðum að gefa þessu séns og til skamms tíma leit út fyrir að hún yrði tekin í sátt.
Nú er þetta fullreynt. Khosku vegna getum við ekki haldið henni hér. Hún er afskaplega blíður og kelinn köttur. Hún treystir fólki ótrúlega vel og veit ekkert betra en að kúra í fanginu á okkur. En hún þarf alltaf að vera á varðbergi, með bæði eyru og augu opin. Grímur og Elvíra leggja hana hreinlega í einelti. Og Viddi vitleysingur smitast af ástandinu og á til að elta hana þegar hann sér hana. Aumingja Khoska verður alltaf utangarðs inn á þessu heimili. Máttur hópsins er ótrúlegur.
Khosku vantar að eignast gott heimili.
Elskar þú ketti?
Myndir þú kunna að meta það að:
- finna agnar-fíngerða kisu stökkva upp í fangið á þér og heimta strokur um ótrúlega mjúkan feld?
- Vakna við malið hennar?
- Fá blíðlegar móttökur þegar þú kemur heim eftir langan vinnudag eða erindagjörðir?
- Hafa einhvern að tala við sem svarar þér og er alltaf sammála þér?
Ert þú:
- í aðstöðu til að fá pössun fyrir kisu ef þú þarft að fara í burtu um tíma, eða að fá einhvern til að koma að gefa henni og tala við hana nokkrar mínútur á dag?
- manneskja sem myndir aldrei aldrei í lífinu láta þér detta í hug að skella útidyrahurðinni í lás á eftir þér, fara í sumarfrí og láta ráðast hvort kisa lifir af eða ekki?
- til í að taka litla, blíða kisu inn á heimili þitt og ekki síður inn í hjartað þitt?
Ef þú svarar öllu ofangreindu með já-i og ert ekki með fleiri dýr á heimilinu þínu, ertu það sem Khoska leitar að. Og Khoska er það sem þig vantar.
Hér er mynd af Tinnu með Khosku pínulitla
hér er Khoska eins og hún lítur út í dag.
Ef þú hefur áhuga á að eignast Khosku, sendu mér þá línu á jonag@icelandair.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Laugardagur, 27. desember 2008
Ég er ekki hægt
Er þetta ekki skrítið!?
Þegar langþráðu fríi er loksins náð.. fríinu sem ég fyrirfram lét mig dreyma um að liggja með fætur upp í loft og gera alls ekki neitt.. þá tekur það ekki nema þrjá daga að ég verði eirðarlaus.
Nú er ég að eðlisfari afskaplega löt manneskja og hef alla tíð verið ansi dugleg að gera ekki neitt. Það hefur farið mér vel. En einhvern veginn klæðir það mig ekki eins vel þessa dagana. Aðgerðarleysið.
En ég er föst. Letin heldur mér í heljargreipum. Eirðarleysið nær ekki í útlimina, aðeins í hugann og því sit ég sem fastast.
Ég veit ósköp vel að ef ég myndi standa upp af mínum breiða rassi, skella kroppnum í sturtu og andliti í anditið á mér, þá myndi ég endasendast eins og landafjandi út um allar jarðir. Aðallega bögga fólk sem ég náði ekki að fara og knúsa áður en jólin skullu á.
En enn sem komið er, þá sit ég hérna á náttfötunum og skrifa þessa gjörsamlega tilgangslausu færslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þriðjudagur, 23. desember 2008
Gefum barninu í okkur tíma og rúm - Jólakveðja
Sá Einhverfi var kominn upp í rúm í gærkvöldi og ég sat hjá honum.
Jólaskrautið hefur smám saman týnst upp úr kössum og jólatréið stendur í allri sinni dýrð á stofugólfinu. Það var því aðallega frágangur og innpökkun sem fór fram heima hjá mér í gærkvöldi.
''Eigum við ekki að setja kassana undan jólaskrautinu upp á háaloft'' gólaði ég niður til Bretans.
Neeeeiiii hrópaði Sá Einhverfi. Nei nei...
Það tók mig aðeins andartak að skilja ofsafengnu viðbrögðin.
jólaskraut - háaloft....
Stikkorðin í setningunni töluðu til hans á hæsta styrk.
Þetta er allt í lagi Ian, sagði ég og strauk á honum bakið. Kassarnir eru tómir.
Nei nei ekki jólaskaut ekki háaloff, mótmælti hann og var órólegur mjög.
Viltu fara og athuga málið, sagði ég og gaf honum þar með leyfi til að yfirgefa rúmið sitt.
Hann var ekki seinn að taka boðinu og æddi út úr herberginu sínu og niður í stofu. Ég beið. Vissi sem var að hann var að athuga hvort jólaskraut og jólatré væri á sínum stað.
Og það stóð heima; aðeins sekúndum seinna kom hann töltandi upp stigann aftur og skreið undir hlýja sængina. Heimilið glitraði allt ennþá og hann sofnaði sáttur.
Ég ætla að reyna að tileinka mér, þó ekki sé nema brot af jólagleði stráksins. Gleðinni yfir þessu smáa. Þakklæti fyrir heimilið mitt. Nægjusemi og kátínu.
Enda engin ástæða til annars. Ég er svo óendanlega heppin. En stundum þarf maður að minna sig á. Og hver er betur til þess fallinn til að hrista upp í okkur en börnin okkar.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar. Ég vona að sem flestir hafi það jafngott og ég og verði duglegir að finna í sér barnið þessi jólin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Sunnudagur, 21. desember 2008
Ég er á lífi - linkur á Sólskinsdrenginn
Ég bið ykkur, hvert og eitt sem komið hér inn, að gefa ykkur tíma til að kíkja á viðtalið við Margréti Dagmar, móður Sólskinsdrengsins. Ég, sem lifi og hrærist í heimi einhverfs drengs, var gjörsamlega gáttuð yfir því sem ég sá í þessu stutta viðtali. Einhverfa og einhverfa er svo langt frá því að vera endilega sami hluturinn.. sama upplifunin.. sama fötlunin...
Ég á alveg von á því að það verði andlegt átak að sitja í eina og hálfa klukkustund og horfa á myndina. Ég hálfkvíði fyrir.. er hrædd um að hjartað í mér springi úr samúð. En jafnframt hlakka ég svo óendanlega til. Veit ég á eftir að læra svo margt. Uppgötva ótal hluti.
Hér er linkur á viðtal Þorsteins J. við Margréti Dagmar. Gefið ykkur nokkrar mínútur.
-------
Það tilkynnist hér með að ég er á lífi... ef einhver skyldi sakna mín. Ég hef verið ófyrirgefanlega löt að blogga undanfarið.
En ég er nú samt fyr og flamme og sama má segja um restina af fjölskyldunni.
Í gegnum Þann Einhverfa upplifi ég þessa barnslegu gleði yfir jólunum, sem mér þykir vanta svolítið í okkur hin. Börn jafnt sem fullorðna.
Hann heldur niðrí sér andanum í hvert skipti sem nýr kassi eða poki er dreginn fram. Með glampa í augum og lúmsk bros bíður hann eftir að sjá hvaða gersemar komi í ljós upp úr rykföllnu boxunum.
Hoppar af spenningi á meðan verið er að koma dótinu fyrir og virðir það svo fyrir sér með svip sem gefur til kynna að hann eigi heiðurinn af þessu öllu saman.
Jólaþorpið er komið upp. Og þó að erfitt sé að festa á filmu töfrana sem þessi litlu hús með ljósunum kalla fram, þá læt ég fylgja hér mynd.
Er farin í Smáralind. We talk soon...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Miðvikudagur, 17. desember 2008
Sólskinsdrengur og Sá Einhverfi
Enginn ætti að láta þessa mynd, eða umfjöllun um hana fram hjá sér fara.
Sjálf get ég varla beðið eftir að sjá hana. Ég veit, að þó að ég og mín fjölskylda hafi lifað og hrærst í hinum einhverfa heimi síðastliðin 10 ár, þá á ég eftir að læra ótal margt.
Framleiðandi myndarinnar, Margrét Dagmar, er móðir einhverfs drengs. Myndin er um ferð þeirra um Bandaríkin og víðar, í leit að svörum og úrræðum.
Ég hitti Margréti um daginn og hún sagði eitthvað á þessa leið við mig: ég vissi áður en ég fór út, hversu aftarlega við stæðum á Íslandi á ýmsum sviðum varðandi einhverfu.. en ég hafði ekki hugmynd um hversu aftarlega.
Ég hvet alla til að fylgjast með þættinum hans Þorsteins J á fimmtudagskvöldið og umfram allt: munið að myndin verður frumsýnd 9. janúar 2009.
Sólskinsdrengurinn, hann Keli, er í bekk með Þeim Einhverfa. Mér skildist á Margréti að Kela þætti Sá Einhverfi svo fyndinn að það þyrfti að halda þeim tveimur sem mest aðskildum.
Ohh þau eru svo dásamleg þessi börn.
Bloggar | Breytt 18.12.2008 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Þriðjudagur, 16. desember 2008
Jólagardínur og jólasaga
Gardínurnar eru fundnar. Mistökin sem ég gerði þetta árið var að leita ekki að kassa ofan í kassa. Jólagardínurnar voru samanbrotnar og eins og nýstraujaðar ofan í Fedex kassa sem aftur var ofan í öðrum kassa. Alveg eins og ég hélt: afskaplega vel frá gengið. Mér er ekki alls varnað þó að stundum mætti halda annað.
Í kvöld hef ég víxlað orðum í setningum hvað eftir annað.
Settu skápinn í sokkana, sagði ég við Gelgjuna...
Oh, have another drink, sagði Bretinn þegar þriðja vitleysan rann upp úr mér.
---
Ég ætla að skella hér inn jólasögu sem ég skrifaði í fyrra og birti á blogginu. Örugglega margir sem ekki lásu þá:
Hvít ljós og kókostoppar
Lítil stúlka situr við gluggann og styður hönd undir kinn. Úti er kolniðamyrkur og það eina sem hún sér er regnið sem lemur rúðurnar og kyrrlátur logi kertanna sem speglast í glerinu. Hugur hennar er víðsfjarri og lítil áhyggjuhrukka er á enninu.
Í einu horni stofunnar stendur fagurgrænt jólatré með hvítum ljósum. Litlu stúlkuna langaði að hafa eingöngu hvít ljós á tréinu þetta árið og hún fékk að ráða. En núna þykja henni ljósin svo dauf og litlaus. Kannski tók hún ranga ákvörðun.
Á gólfinu eru kassar og box með marglitu jólaskrauti sem bíður eftir að komast á sinn stað á grænar greinarnar.
Lilja. Lilja mín.
Stúlkan hrekkur upp úr hugsunum sínum þegar mamma hennar styður hendi létt á öxl hennar. Hún lítur upp og mamma strýkur fingri létt yfir nefbroddinn á henni.
Hvað segirðu um að ég hiti handa okkur súkkulaði? Segir hún. Svo getum við skreytt jólatréið.
Lilja kinkar kolli og reynir að brosa. En varirnar hlýða ekki almennilega og brosið nær ekki til augnanna.
Mamma horfir á hana andartak og hana svíður sárt í hjartað. Það er ekkert réttlæti í því að 11 ára stúlka þurfi að bera byrðar fullorðinnar manneskju.
Svona, komdu nú, segir hún blíðlega. Hjálpaðu mér að laga súkkulaðið. Þetta verður allt í lagi.
Lilja eltir mömmu sína hlýðin fram í eldhús. Hún sækir pott inn í skáp og setur á eldavélahelluna. Svo nær hún í stól, dregur hann að hornskápnum í eldhúsinu og stígur upp á hann. Teygir sig eftir könnunni sem aðeins er notuð undir heita súkkulaðið á jólunum. Amma átti þessa könnu og notaði hana líka undir jólasúkkulaðið. Kannan er í fallegum kóngabláum lit með gylltri rönd á stútnum og á lokinu.
Lilja þarf að standa á tám til að ná upp í efstu hilluna í skápnum. Hún teygir sig eins og hún getur, og nær taki á könnunni. Á síðustu jólum náði hún ekki upp. Þá þurfti pabbi að lyfta henni. En nú er pabbi ekki hér svo það er eins gott að Lilja hefur stækkað síðan í fyrra.
Mæðgurnar sýsla um stund í eldhúsinu. Þær eru hljóðar og hugsa sitt. Úti fyrir beljar regnið á gluggunum og hávaðinn í storminum útilokar samræður í eðlilegum raddstyrk.
Á meðan mamma lagar súkkulaðið eins og enginn getur nema hún, hellir Lilja rjóma í skál og kveikir á handþeytaranum. Hún horfir á rjómann þykkna smám saman og ímyndar sér að hún svífi og horfi niður á mjallarhvít og dúnmjúk ský. Heim, þar sem veðrið er stillt og fagurt og sjórinn fyrir neðan skýin er spegilsléttur og alls ekkert hættulegur.
Hún andvarpar og slekkur á þeytaranum. Leggur skálina með rjómanum á eldhúsborðið og fylgist svo með mömmu hella sjóðandi heitu og ilmandi súkkulaðinu yfir á kóngabláu könnuna. Lilja tekur eftir því að mamma er örlítið skjálfhent. Hún tekur líka eftir nýjum línum í laglegu andliti mömmu og veit að henni er ekki eins rótt og lætur.
Jæja, segir mamma hressilega. Þá er þetta tilbúið.
Hún hellir súkkulaði í tvo kóngabláa bolla með gylltri rönd á barminum og setur matskeið af rjóma í hvorn bolla. Á meðan þær bíða eftir að drykkurinn kólni raðar mamma súkkulaðibitasmákökum á lítinn bakka. Kókostopparnir verða ekki snertir fyrr en á eftir matinn á morgunn, þegar búið er að ganga frá í eldhúsinu og allir sestir inn í stofu. Þeir fullorðnu með kaffibollana sína og krakkarnir með augun á öllum gjöfunum undir tréinu.
Lilja hefur samt staðið pabba að verki við að laumast í kókostoppana á aðfangadagsmorgunn. Þegar mamma var enn sofandi. Lilja kom inn í eldhúsið og greip pabba með hendina í kökukrúsinni.
Pabbi þó!! sagði hún með andköfum og hann leit á hana með prakkarasvip á andlitinu sem var þakið skeggbroddum. Augun glömpuðu og hún gat ekki annað en skellihlegið. Þann morgunn fékk hún kókostoppa og mjólk í morgunmat og pabbi dýfði sínum í kaffið. Þau spjölluðu á lágum nótum til að vekja ekki bakarann og Lilja sagði honum sögur úr skólanum og pabbi sagði frá spegilsléttum gjöfulum sjó og öldutoppum á stærð við blokkirnar hinum megin við götuna þeirra.
Allt þetta hugsar Lilja um á meðan hún hrærir í bollanum sínum og virðir fyrir sér dökkbrúnt súkkulaðið og hvítan rjómann blandast saman. Fyrst sem skýrar afmarkaðar línur, en sameinast að lokum í einn lit. Ljósbrúnn tónn. Ef pabbi væri með þeim núna væri hann án efa að raula fyrir munni sér jólalög á milli þess sem hann maulaði súkkulaðibitakökur og stryki mömmu um vangann.
Mamma, segir Lilja.
Já elskan mín, svarar mamma.
Er veðrið að versna?
Mamma stendur upp án þess að svara og gengur að glugganum.
Lilja horfir á grannar axlirnar í hvítu prjónapeysunni og bíður eftir svarinu með öndina í hálsinum. Heldur niðrí sér andanum og kreistir augun fast aftur. Eins og að fyrir töfra gæti svarið breytt öllu. Hún óskar þess heitt og ákaft að þegar hún opni augun, standi pabbi píreygður og brosandi fyrir framan hana.
Síminn hringir. Hljóðið er hvellt og skerandi og hjartað í Lilju tekur kipp. Hún lítur á mömmu sem snýst á hæli og sér að augun hennar eru stór og dökk og óttaslegin. Og Lilja fer að gráta. Hljóðlausum gráti sem rífur og slítur í brjóstið og henni finnst hún ekki geta andað.
Mamma gengur hröðum skrefum að símanum og horfir á svart tækið sem framkvæmir þennan hræðilega hávaða. Loks er eins og höndin láti af stjórn og hún lyftir tólinu upp að eyranu.
Halló, hvíslar hún. Ræskir sig og hækkar röddina. HALLÓ.
Hún snýr baki í eldhúsið svo Lilja getur ekkert ráðið úr svip hennar. Svo kinkar mamma kolli og axlirnar byrja að hristast þar til allur líkaminn skelfur og titrar. Lilja lamast af skelfingu. Hún getur ekki einu sinni grátið. Óttinn heldur henni í heljargreipum og tárin þorna á vöngunum.Mamma! Reynir hún að segja en ekkert heyrist. Hún teygir hendurnar á móti mömmu sinni. Þráir faðminn hennar í umkomuleysinu. Og skyndilega er mamma komin og tekur hana í fangið. Heldur henni þétt í hlýjum, öruggum örmum.
Þeir eru komnir í land, hvíslar hún ofan í dökkan hrokkinkoll stúlkunnar sinnar og skyndilega sér Lilja hvað hvítu ljósin á tréinu skína skært. Mig langar í kókostoppa, segir hún.
Og þá fær hún. Eins marga og hún getur í sig látið. Pabbi mun skilja það svo vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mánudagur, 15. desember 2008
Snjórinn og jólin... og jólagardínurnar mínar
''Snjór kannski farinn á morgunn,'' segir Sá Einhverfi og hoppar af kæti þegar eitthvað blautt og glært fellur af himnum ofan.
En eins og veðursins er von og vísa á Íslandi þá endist svoleiðis ofankoma bara hálfan dag eða skemur. Drengnum mun ekki verða að ósk sinni þegar hann vaknar í fyrramálið. Það var misskilningur hjá mér, þarna um daginn, að hann væri orðinn sáttur við snjóinn.
En dramatíkin er ekki alveg eins öflug og hún var fyrir viku síðan, svo þetta er allt að lagast.
Brátt fer bara að skella á jólafrí í skólunum og fyrr en varir rennur aðfangadagur upp. Þessi fjölskylda er svo heppin að geta varið mest öllum jólunum á náttfötunum. Engin fín jólaboð sem bíða okkar. Aðeins náttfata-jólamatarboð þar sem við hnoðumst hvert öðru druslulegra um með vinum og vandamönnum.
Þessi jól ætla ég að lesa eins og þetta væru mín síðustu jól (sem þau eru vonandi ekki) og reyna að komast yfir hluta af þeim bókum sem mig langar að lesa, en hef ekki gefið mér tíma í.
Eins og svo margir aðrir set ég jólagardínur fyrir eldhúsgluggann hjá mér í desember. Í fyrra gerði ég dauðaleit að blessuðum gluggatjöldunum og hélt hreinlega að ég hefði hent þeim eftir jólin 2006. Maður minn hvað ég leitaði að blessuðum gardínunum.
Fyrir utan það hversu tímafrek slík leit er, þá tekur þetta frá manni töluverða orku að skríða um hvern krók og kima hússins, jafnt í svefni sem vöku, í von um að hnjóta um ínnpakkaðar gardínur. Og að ferðast um heilabúið á sjálfum sér til að athuga hvort ekki leynist einhvers staðar minning um hvítt efni með rauðum jólarósum á.
Ég fann þær þó á endanum inn í bílskúr. Vandlega pakkaðar inn í plast. Fyrir eldhúsgluggann fóru þær í hvelli og mér þótti ég hafa unnið afrek.
Þegar ég svo tók þær niður í janúar eða febrúar (eða guð má vita hvenær) þá ákvað ég að lenda ekki í sömu krísunni að ári. Gekk frá þeim vel og vandlega.... Og nú finn ég þær ekki.
Ef ég man rétt þá er það skjalfest einhvers staðar á blogginu mínu hvað ég gerði við þær. En ef það er rétt munað hjá mér, þá allavega finn ég ekki þá færslu.
Veit einhver hvað ég gerði við jólagardínurnar mínar?
Bloggar | Breytt 16.12.2008 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Miðvikudagur, 10. desember 2008
Upplestur á Akureyri
Á morgun flýg ég til Akureyrar. Þetta er auðvitað bara skemmtilegt.
Ég hef aldrei flogið til Akureyrar. Bara keyrt. Svo það er út af fyrir sig ný lífsreynsla.
Ég mun lesa upp fyrir lokaðan hóp á milli kl. 14 og 15 og svo verð ég á Amtsbókasafninu kl. 17:15 í boði Dodda vinar okkar allra.
Og er hægt að fá flottari auglýsingu en þetta?
http://www.akureyri.is/amtsbokasafn
Á milli upplestra ætla ég að hitta bloggvinkonu, sem reyndar er frekar sárt saknað úr bloggheimum þessa dagana. Eiginlega eru það orðnir mánuðir.
Við ætlum að fá okkur kaffi og örugglega eitthvað gott að borða og kósa okkur svolítið.
-----
Sá Einhverfi var loks að sættast við snjóinn þegar hann rigndi allur burt í dag. Ég held að það hafi verið hið óvenju snemmtæka jólatré sem liggur nú úti í garði, sem fékk drenginn til að sætta sig við að snjór tilheyrði í raun og veru þessum árstima. Að þetta væri eðlilegt ofanfall.
Stráksi á tvö súkkulaðidagatöl. Annað keypti ég. Hitt kom Anna frænka með. Anna frænka gefur öllum börnunum mínum súkkulaðidagatal. Á hverju ári. Líka Unglingnum sem varð 18 ára í síðasta mánuði. Ég held að hann hafi orðið glaðastur með sitt.
Ekki er hættandi á að leyfa súkkulaðidagatölunum Þess Einhverfa að eiga samastað í herberginu hans. Því geymi ég þau í fataskápnum í mínu herbergi. Og því á þetta til að gleymast. Ég gleymi að láta jólabarnið opna dagatalið sitt og nú á hann sennilega um 8-10 súkkulaðibita inni. Það þykir mér ekki nógu sniðugt.
Það er spurning að láta dagatölin óhreyfð fram á laugardag og hafa einn góðan nammidag.
Hvernig er þetta annars með jólasveinana?
Ég man aldrei hvað þeir eru margir. Tólf eða þrettán. Hvaða dag gægjast börnin fyrst í skóna sína? Að morgni föstudagsins næsta, er það ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Mánudagur, 8. desember 2008
Höfn og örlítið um heimilisofbeldi
Höfn í Hornafirði var aldeilis hreint frábær.
Alls staðar mættu manni elskulegheit og það var snúist í kringum okkur eins og við værum þjóðhöfðingar í opinberum erindum.
Ég játa það fúslega að ég er afar stolt af því að hafa verið í þeim hópi sem boðaður var til Hafnar. Ég gengst líka við því að hafa fundið til smæðar minnar um tíma, í ferð með svo þekktum rithöfundum og miklum reynsluboltum í faginu. En viðmót þessa fólks var svo einlægt og elskulegt að feimnin var fljót að fara af mér.
Ég ætla að monta mig og segja ykkur hvaða rithöfundar þetta voru:
- Sigrún Eldjárn - Eyja sólfuglsins
- Sjón - Rökkurbýsnir
- Þorvaldur Kristinsson - Lárus Pálsson leikari
- Þórunn Erlu-Valdimarsdóttur - Loftnet klóra himin (klór klór)
- Guðmundur Andri - Segðu mömmu að mér líði vel
Við komuna tóku á móti okkur á flugvellinum Soffía Auður bókmenntafræðingur og Guðný bókavörður og voru þær sérlegir aðstoðarmenn okkar og einkabílstjórarnir á meðan á dvölinni stóð. Algjörlega óþreytandi við stýrið.
Upplestrarnir voru fjórir eða fimm og kom þessi ferð sér einstaklega vel fyrir mig. Ég sjóaðist heilmikið og með sama áframhaldi verð ég óstöðvandi uppi við púlt og verður að draga mig frá míkrafóninum.
Minn fyrsti upplestur, sem fór fram inn í Hafnarfirði hjá félagi nokkru, var skelfingin ein. Ég var svo taugaóstyrk og nervös að mér lá við yfirliði svei mér þá. Kann ég því fólki sem á hlýddi hinar bestu þakkir fyrir áheyrnina og lófatakið.
Upplestur nr. 2 var í Öskjuhlíðarskóla og þar var ég meira á heimavelli, ef svo má segja. Komst nokkuð skammlaust frá því.
Sá þriðji var á Höfn á miðvikudagskvöldið í Pakkhúsinu. Það var afskaplega vel mætt og velvild og áhugi streymdi frá gestunum. Svo fékk ég aukakraft frá samferðarfólki mínu og ég stóð mig bara ágætlega, held ég.
Við fórum í skólana á Höfn og það var einstaklega skemmtileg upplifun. Á meðan ég hlustaði á Þórunni, Sjón og Guðmund Andra lesa upp úr sínum bókum, laumaðist ég til að virða fyrir mér unglingana. Hormónarnir alveg á fullu blasti og menn vita varla hvað þeir eiga af sér að gera. Nokkur andlit alveg eldrauð við að reyna að halda aftur af flissi og hlátursrokum. Ég man sjálf svo vel hvað allt var fyndið og asnalegt og leim og hallærislegt á þessum árum. Og hvað maður þurfti aldrei meira að hlægja en akkúrat þegar það var stranglega bannað.
Yngri deildirnar voru jafn yndislegar, bara á annað hátt. Flautað og klappað og beðið um eiginhandaráritanir þvers og kruss.
Hjúkrunarheimilið var kapítuli út af fyrir sig. Sennilega var það, fyrir mér, erfiðasti upplesturinn. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp hjá ömmu og afa, og ber á vissan hátt óttablandna virðingu fyrir þessari kynslóð. Og kannski vegna þess að mér fannst ég í raun ekki hafa fram að færa efni fyrir þennan aldur. Var komið nafn yfir einhverfu í ungdæmi þessarar kynslóðar?
En það var gaman að koma þarna og mér þótti hjúkrunarheimilið einstaklega hlýlegt og heimilislegt.
Áður en við yfirgáfum bæinn fengum við skoðunarferð um menningarmiðstöðina og leiddi Björg Erlingsdóttir, forstöðumaður okkur í þeirri ferð. Hornfirðingar eru afar stoltir af þessari byggingu og það sem hún hefur að geyma og er það með réttu. Aldrei hefði mig grunað að á svo fámennum stað væri svo mikið menningarstarf unnið. Og er það alveg týpískt fyrir Reykvíkinginn í mér.
---
Í kvöld sofnaði þrjóskur 10 ára drengur með rauðflekkóttar kinnar af söltum tárum.
Eftir margra vikna baráttu við að fá stráksa til að bursta tennur á kvöldin sögðu foreldrarnir hingað og ekki lengra. Í kvöld neitaði hann alfarið að taka sér tannbursta í hönd og honum voru settir úrslitakostir; bursta tennur eða sjónvarpið verður fjarlægt úr herberginu.
Það kostaði smávegis stympingar; 10 ára nautsterkur drengur stjakaði við pabba sínum sem var óviðbúinn, missti jafnvægið og hrundi utan í kommóðu.
Einmitt, hugsaði ég. Það er eins gott að hafa andlega yfirburði.
Og það höfum við.
Tárin spýttust en allt kom fyrir ekki. Sjónvarpið var fjarlægt.
Sá Einhverfi grét og reyndi að faðma mig. Ég hjúpaði allar taugar með íshrönglum og ýtti honum frá mér. Ekki gat ég skipað föðurnum að taka af honum sjónvarpið og tekið svo að mér hlutverk huggarans og ''góða foreldrisins''.
Á næstu 40 mínútum var öðru hverju leitað samningaviðræðna: fyrst bursta svo sjónvarp. En allt kom fyrir ekki. Stráksi gaf sig ekki þó hann gréti ofan í koddann sinn og foreldrarnir neituðu honum um faðmlag og venjulega háttatímarútínu.
Að lokum hætti hann að gráta og sofnaði út frá samræðum við Lottu.
En mikið svakalega vorum við foreldrarnir lukkuleg. Mitt í reiðinni og særindunum út í okkur sýndi drengurinn greinileg þroskamerki og framfarir í mannlegum samskiptum:
- aðeins einn hrindingur (venjulega mikið um slíkt við uppákomur sem þessar)
- engu fleygt
- næstum hljóðlaus grátur
- skemmtileg og eðlileg þrjóska
- óttablandin virðing við reiða foreldra (reyndar meira pissed en reiðir. En það fékk hann ekki að vita).
Er hægt að biðja um meira?
Ég hlakka til að vita hvort sjónvarpið muni rata á sinn stað annað kvöld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Þriðjudagur, 2. desember 2008
Höbbn í Hoddnafirði
Þó ég geti ekki talist flughrædd í hörðustu merkingu þess orðs, þá hef ég undanfarin ár verið hálfsmeyk að fljúga í millilandaflugi.
Ég hef ekki flogið innanlands frá því löngu áður en byrjaði að bera á þessari semi-flughræðslu minni. En það er ég að fara að gera á morgun. Stíg væntanlega upp í pínulitla rellu og flýg í tæpa klukkustund. Á Höfn í Hornafirði. Eða eins og okkur hættir mörgum til að kalla staðinn: Höbbn í Hoddnafirði. Það kemur svo í ljós hvort ég verði flughrædd fyrir alvöru þegar í svo litla vél er komið. Ég fékk líka miður skemmtilega sögu frá vinnufélaga um daginn þegar ég sagði honum hvert ég væri að fara. Hann ákvað að nota tækifærið til að rifja upp hræðilega flugferð sem hann fór einhverju sinni þar sem fólk ýmist panikkaði af flughræðslu eða innilokunarkennd. Og hinn hlutinn sem ekki fann fyrir slíkum tilfinningum, ældi hvert um annað þvert og endilangt.
En ég ætla nú ekkert að vera að gera ráð fyrir slíkri ferð, heldur bara anda inn og út og njóta... jebb
Ég verð, ásamt fleiri rithöfundum, með upplestur í Pakkhúsinu á Höfn kl. átta annað kvöld (miðvikudag) og á fimmtudeginum munum við vera með upplestur ýmist í skóla eða á dvalarheimili aldraðra.
Ég mun því eyða næstu tveimur dögum í góðum félagsskap og mun hitta fullt af skemmtilegu fólki. Hlakka mikið til.
----
Sá Einhverfi er búinn að tilkynna mér að það verði pasta í matinn annað kvöld. Og hann var harla glaður þegar hann upplýsti mömmu sína.
Í kreppunni höfum við Bretinn sett nýjar reglur varðandi matarinnkaup. Skrifum ávallt matseðil fyrir vikuna og reynum síðan að halda okkur við eina ferð á viku í Bónus eða Krónuna. Þessar litlu skreppiferðir í búðina alltaf hreint, eru að rífa af manni ótrúlega marga þúsundkalla yfir mánuðinn.
Og við ákváðum að bæta matseðlinum við vikuplanið hjá Þeim Einhverfa. Nú getur hann alltaf séð hvað verður í matinn á hverju kvöldi. Ekki það að við gerum ráð fyrir því að hann borði endilega það sem er sett fyrir hann. Hann er afskaplega matvandur og hefur komist upp með það.
Í kvöld var eggjakaka með beikoni og sveppum á matseðlinum og aldrei hefur slíkur matur komið inn fyrir varir drengsins. Allavega ekki inn á heimilinu. Það er svo annað mál hverju hann skóflar í sig í skólanum og í Hólabergi.
Sá Einhverfi fylgdist með pabba sínum malla saman eggjum og öðru hráefni og var frekar tortrygginn á svip. Viltu lasagne spurði Bretinn og vísaði þar í afgang af sunnudagsmatnum.
Neeii, sagði stráksi og ekki laust við að hneykslan gætti í röddinni. Svo gekk hann að ísskápnum þar sem vikuplanið hans hangir og las upp fyrir pabba sinn: Eggjakaka í kvöldmat.
Ja hérna, sagði Bretinn. Eggjakaka skal það vera.
Ég hef drenginn grunaðan um að hafa þótt orðið spennandi út af seinni hluta þess: ''....kaka''. Maður slær nú sjaldan hendinni á móti köku.
En hann má eiga það þessi elska að hann settist til borðs og smakkaði og gerði heiðarlega tilraun til að borða matinn sinn. En honum leist hvorki á útlit, áferð né bragð.
Við gáfum honum auga og að lokum sagði Bretinn: viltu lasagne?
Já, hvíslaði Sá Einhverfi þakklátur á svip.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Formúla 1
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2019
2018
2010
2009
2008
2007
Bloggvinir
- solskinsdrengurinn
- skrifa
- jenfo
- gelgjan
- annambragadottir
- marzibil
- brynja
- hk
- gurrihar
- lehamzdr
- katlaa
- eddaagn
- jahernamig
- hronnsig
- martasmarta
- katrinsnaeholm
- palmig
- ipanama
- hallarut
- tommi
- ktomm
- poppoli
- svavaralfred
- kollajo
- bergruniris
- bene
- bennason
- jensgud
- solrunedda
- heidathord
- ringarinn
- tofraljos
- kjaftaskur
- ormurormur
- zeriaph
- unns
- ellasprella
- hjolagarpur
- salka
- nonniblogg
- markusth
- rebby
- birna-dis
- garun
- landsveit
- olofannajohanns
- brylli
- evaice
- ingolfurasgeirjohannesson
- rustikus
- singer
- jaxlinn
- krossgata
- mummigud
- blekpenni
- gerda
- baddahall
- holi
- grafarholt
- gudnylinda
- thegirl
- gretarorvars
- thordis
- herdis
- mammzan
- sigthora
- bet
- saedis
- emmgje
- sigurjonsigurdsson
- janus
- astromix
- overmaster
- thorasig
- gudni-is
- sunnadora
- kjarrip
- 810
- gislihjalmar
- beggagudmunds
- sirrycoach
- betareynis
- ilovemydog
- rannveigmst
- stormadis
- perlan
- bergdisr
- skondrumamma
- snar
- stormur
- ljonid
- raggipalli
- hjordiz
- almaogfreyja
- katja
- lady
- sigrunfridriks
- zunzilla
- olinathorv
- bidda
- smjattpatti
- jogamagg
- disadora
- harpao
- fuf
- alexm
- larahanna
- juliaemm
- saemi7
- gudrunmagnea
- svala-svala
- kari-hardarson
- hlf
- hlinnet
- annagisla
- einari
- lena75
- hector
- saethorhelgi
- ernafr
- birnarebekka
- heidistrand
- kerla
- hannamar
- jara
- supermamma
- monsdesigns
- malacai
- solveigth
- siggathora
- senorita
- snjaldurmus
- photo
- stingi
- pollyanna
- steingerdur
- icekeiko
- majaogco
- skordalsbrynja
- danjensen
- lilly
- heidabj
- omarpet
- helgamagg
- nori
- jamesblond
- gretaulfs
- rattati
- hogni
- ragjo
- kolgrima
- skjolid
- hugrunj
- egill75
- amman
- liljabolla
- asgerdurjoh
- okurland
- rannthor
- svalaj
- siggith
- vefritid
- zsapper
- laz
- graceperla
- rannug
- agbjarn
- alliragg
- fjarki
- birtabeib
- roslin
- lindape
- rosa
- tinnaeik
- muszka
- krummasnill
- lindalea
- fjola
- solan
- scorpio
- evabenz
- isleifure
- karitryggva
- ellasiggag
- beggita
- ollabloggar
- madddy
- songfuglinn
- emm
- lindagisla
- turettatuborg
- einarsigvalda
- huldadag
- siggasin
- credo
- loathor
- carma
- komaso
- fifudalur
- rosabla
- lillagud
- eythora
- griman
- eyrunelva
- svanurg
- strumpurinn
- godihundur
- hallidori
- annriki
- sibbulina
- helgurad
- huldumenn
- julianamagg
- berglindnanna
- huldam
- joik7
- venus
- osland
- liso
- amaba
- asako
- hryssan
- mammann
- leyla
- gunnarggg
- sigrunzanz
- fanneyunnur
- himmalingur
- helgabst
- bostoninga
- christinemarie
- jea
- elisabeta
- perlaoghvolparnir
- meyjan
- wonderwoman
- coke
- ragnhildurthora
- gullilitli
- tommi16
- ea
- mariaannakristjansdottir
- einarorneinars
- lindalinnet
- joninaros
- reynzi
- rosagreta
- lauola
- reynir
- elinora
- ma
- olapals
- bestalitla
- kolgrimur
- handtoskuserian
- vonin
- kaffi
- einarhardarson
- gleymmerei
- brandarar
- alf
- hreinsamviska
- litlakonan
- lucas
- reisubokkristinar
- jgfreemaninternational
- olofdebont
- thjodarblomid
- vilma
- ollana
- gudrununa
- holar
- gotusmidjan
- huldastefania
- mubblurnar
- bjarnihardar
- vild
- skrudur
- jyderupdrottningin
- sifjan
- letilufsa
- hrundt
- robbitomm
- brudurin
- anitabjork
- blindur
- astabjork
- bailey
- gattin
- draumur
- einhugur
- trygg
- eskil
- evags
- gudrunkatrin
- gudrunss
- nf26b
- topplistinn
- helgaas
- helgatho
- hildurhelgas
- drum
- innipuki
- ingal
- kikka
- astroblog
- oliskula
- joklamus
- stjornlagathing
- sattekkisatt
- athena
- kariaudar
- vga
- thorolfursfinnsson
- motta