Leita í fréttum mbl.is

Sleppum ekki börnunum úr augsýn

 

Við Íslendingar erum auðvitað óttalega græn fyrir öllu sem viðkemur barnsránum. Sem betur fer, má kannski segja. En það breytir því ekki að við þurfum að skipta um gír þegar til útlanda er komið.

Þessi náungi hefur verið sérstaklega kræfur að grípa í barnið að móðurinni ásjáandi og á fáförnum stað hefði hann vel getað tekist ætlunarverk sitt þrátt fyrir að barnið væri ekki eitt.

Ég hvet t.d. alla til að hleypa börnunum sínum aldrei nokkurn tíma einum á almenningssalerni. Ekki einu sinni hér á landi.

Ég man eftir atburði á Englandi fyrir örfáum árum síðan þar sem 6 eða 7 ára gömlu barni var nauðgað á salerni inn á veitingastað á meðan foreldrarnir sátu grunlausir yfir matnum og í sjónmáli við dyrnar að salerninu.

Eitt sinn er ég var að ferðast ein með Gelgjuna og Þann Einhverfa sátum við föst á Kastrup vegna bilunar á Flugleiðavél. Gelgjan var um 2 ára og Sá Einhverfi bara ungabarn í vagni. Ég reyndi auðvitað allt til að drepa tímann og gera biðina bærilega fyrir Gelgjuna og hleypti henni í leiktæki á meðan ég sat á bekk og horfði á. Leiktækið var frekar stór flugvél sem litlu krakkarnir á staðnum gátu farið inn í nokkur í einu.

Og allt í einu var Gelgjan horfin. Gufuð upp. Fyrst var ég tiltölulega róleg; skimaði í kringum mig og bjóst við að koma auga á hana á hverri sekúndu. En það gerðist ekki. Og hræðslan byrjaði að stigmagnast innra með mér en samt byrjaði ég ekki að öskra og kalla. Sem er auðvitað afar skrítið. En ég held að það sé hugsunin: ekkert slæmt kemur fyrir mig, ekkert hendir börnin mín, ég er Íslendingur og ég ætla ekki að fara að gera mig að fífli út af engu.

Bilað, ekki satt.

En andartaki síðar (sem virkaði eins og margar mínútur) kom karlmaður gangandi á móti og leiddi prinsessuna sem var hæstánægð. Maðurinn var ekki jafn ánægður og hellti sér yfir mig. Hann var danskur og tjáði sig á sínu ástkæra ylhýra.

Nægar leyfar af skóladönskunni voru enn til staðar í hausnum á mér til að ég skildi að hann hafði fundið stelpuskottið mitt í könnunarleiðangri aðeins fjær og að hann var að húðskamma mig fyrir að passa barnið mitt ekki betur og að ég ætti ekki að eiga börn.

Eftir á að hyggja var þessi maður svo ótrúlega reiður við ókunnuga manneskju,  að ég hef grun um að hann hafi einhvern tíma lent í einhverju slæmu.

Ég skammaðist mín niður í tær og gerði lítið annað en að kinka kolli og reyna að þakka manninum fyrir. Hann vildi ekki heyra það. Ég held hann hafi dreymt um að gefa mér ærlegt spark í rassgatið.

Það er aldrei of varlega farið og forvitið barn sem er beint fyrir framan nefið á þér hefur ótrúlegan hæfileika til að vera horfið sekúndubroti seinna eins og jörðin hafi gleypt það.

 


mbl.is Reynt að ræna íslensku barni í Frankfurt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Heyr Heyr Jóna min

kveðja á allles í stóru fjölskyldunni þinni

Ómar Ingi, 28.8.2008 kl. 18:18

2 identicon

Já þetta er sko martröð hvers foreldris.  Eg lenti i svona máli á Spáni fyrir 2 árum.   Menn eltu okkur á röndum og tóku myndir af börnunum okkar, það var frekar skerý.

Knús á þig Jóna mín.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 19:09

3 identicon

Viðbjóðslegir barnaklámhundar vaða yfir Evrópu og þessir siðblindu einstaklingar hafa alltaf góðar afsakanir fyrir gjörðum sínum.  Það samt  eins og fólk veigri sér við að blogga um þetta málefni. 

Sennilega er það vegna þess að það kemur svo erfiðum tilfinningum af stað hjá fólki að fjalla um þetta málefni. 

Við erum öll meira og minna foreldrar ömmur og afar. 

Löngunin til að taka upp refsingar eins tíðkast í Íran láta á sér kræla  og slíkar refsingar eru bannaðar í Evrópu.

Bryndís (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 19:23

4 identicon

Já það er aldrei of varlega farið í þessum málum. Um að gera að útskýra þessa hluti líka fyrir börnunum.  Þegar ég var 10-11 ára og var á Florida með foreldrum mínum (fyrir ca 30 árum síðan) fylgdu þrír menn mér og foreldrum mínum eftir, tóku myndir af mér og höfðu ekki af mér augun. Þetta var mjög óhugnanleg tilfinning en sem betur fer tóku foreldrar mínir eftir þessu og kölluðu til lögreglu sem fjarlægðu mennina. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara úr augsýn fjölskyldunnar það sem eftir var af fríinu. Þessi minning er það sterk enn þann dag í dag að ég lít ekki af börnunum mínum þegar ég er í útlöndum. En kannski er líka orðið tímabært að hugleiða hvort börnin okkar séu fullkomlega örugg hér á Íslandi? 

Elín (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 20:33

5 identicon

Hef lent líka í því að fá ræðu yfir mig, var í Þýskalandi og dóttir okkar rúmlega tveggja ára, vörum stödd í stóri kringlu, hún náði að smegja sér úr kerrunni, án þess að ég og pabbi hennar tækjum eftir því, á þessu tíma var hún sjú í rúllustiga, og var á leið þangað, þegar þýsk kona stoppaði hana, nú við höfðum þá uppg, að hún var horfin, fengum panik, en sem betur fer kom konan með hana. Hún var ekki glöð og fengum við ræðu yfir okkur, og sem betur fervar skóla þýska okkar lala, þannig að við náðum bara því helsta, en eitt skildum við að: að við vorum heppin að hún ekki kallaði á lögguna og félagsmálast, því vorum slæmir foreldra sem ekki hefðum augu á dóttur okkar.

Ekki gaman, og þessar sek sem hún var burtu, voru eins og mínútur. Erum við 'Islendingar of áhyggjulaus um að eihver steli börnunum okkar ?

Erla (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 20:58

6 Smámynd: Vilma Kristín

Ég hef verið ásökuð um að vera of mikil ungamamma og of ströng þegar kemur að prinsinum mínum. Engu að síður hef ég upplifað þá skelfinu að tína barninu - ekki einu sinni heldur þrisvar (þá er ég að meina tína honum í einhvern tíma), það eru sennilega fleiri foreldrar ofvirkra ofurhuga sem hafa upplifað þetta.

Þvílík skelfing sem grípur mann, það er bara ekki hægt að lýsa því. Tvisvar hef ég þurft að kalla til lögregluna við leitina, kannski panikkaði ég of snemma, veit ekki. En þessar stundir sem ekki var vitað hvar prinsinn var voru verstu stundir lífs míns. Allar hugsanirnar sem renna í gegnum kollinn á manni. Finnst hann aftur? Verður hann heill? Og skelfilegasta hugsunin; fór hann uppí bíl með ókunnugum? Guði sé lof fyrir að hann var bara að svala forvitninni á þvælingi um nágrennið en maður veit aldrei og ég er aldrei í rónni ef ég veit ekki hvar hann er.

Vilma Kristín , 28.8.2008 kl. 21:43

7 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Já guð almáttugur. Mér var einmitt hugsað til einhverfs sonar míns, þegar ég var stödd í miðri Manhattan. Það væri þokkalegt að tína honum þar... Hvernig færi maður að? Það má náttúrulega ekki halda í höndina á honum... Þetta er martröð allra foreldra. (svei mér ef ég hef ekki fengið nokkrar slíkar martraðir) Það er hins vegar ekki nóg að fara varlega í útlandinu, því Ísland er óðum að 'fullorðnast' og maður heyrir líka að vondi kallinn í útlandinu, hugsi sér gott til glóðarinnar, varðandi hina andvaralausu Íslendinga.

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.8.2008 kl. 23:16

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ommi minn. Takk fyrir það

Guðrún B. ja hérna. Já sumt fólk virðist ekkert vera að fela þetta. Á ekki til orð.

Bryndís. maður verður ansi hatrammur þegar þessi mál ber á góma. Og ég er sammála því að viðurlögin við hvers notar misnotkun á börnum ættu að vera harðari en við öllum öðrum glæpum.

Elín. Ekki spurning. Við lifum í fölsku öryggi hér á klakanum. Hver veit nema að þessi minning sem þú hefur lifað með, hafi bjargað þér frá einhverju slæmu seinna meir. Þú hefur kannski verið varkárari í gegnum lífið en ella.

Erla. Þið voruð heppin, eins og ég var. Því miður er ég hrædd um að það sé aðeins tímaspursmál hvenær barn hverfur hér á landi. Heimurinn versnandi fer.

Vilma. Ofvirkir ofurhugar eru kræfir og hafa fengið mörg foreldrahjörtun til að slá hraðar í sínum eilífu leitum af ævintýrum

Aðalheiður. Nákvæmlega. Þegar það er eilíf barátta að fá að leiða barnið þá er nú ekki hlaupið að því að fara með það í slíkt mannhaf. Já ég segi það aftur: við lifum í fölsku öryggi hér á Íslandi.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.8.2008 kl. 23:36

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef stundum velt vöngum yfir því, hvað ef ruglaður túristi sem þráir barn sér fullt af barnavögnum með sofandi börnum á götum Reykjavíkur tæki barn úr barnavagni, kæmist sá með barnið úr landi eða hvað?  Ég vona ekki, en hver veit það er fullt af rugludöllum úti í hinum stóra heimi.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.8.2008 kl. 02:07

10 Smámynd: Rebekka

Það er afar ljótt að segja þetta, en því miður er heimurinn ekki alltaf góður staður:  Lítil börn geta verið verðmæt söluvara í augum sumra.  Þá er ég ekki að meina til ættleiðingar heldur til misnotkunar. 

Mér finnst allt í lagi að foreldrar hafi strangt auga á börnunum sínum, sérstaklega þegar þau eru ung.  Það er betra of heldur en van þegar kemur að öryggi unganna.  Þau mega svo bara skammast þegar þau eru orðin 18...

Rebekka, 29.8.2008 kl. 06:09

11 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Þetta er mín versta martröð.. Barnið manns hverfur og maður veit ekkert.. hvort það sé verið að gera eitthvað við það, hvort það sé dáið eða nokkurn skapaðan hlut...

Ég held,eða raunar veit ég að ég mundi ekki lifa það af ef þetta gerðist fyrir mína drengi. Ég mundi missa vitið algjörlega

Guðríður Pétursdóttir, 29.8.2008 kl. 09:41

12 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Eins gott að passa blessuðu englana okkar fyrir þessu ógeði sem er í gangi.  Ég rétt týndi dóttir minni 4 ára á lestarstöð í Barcelona, ég er svo paranojuð síðan og finnst það bara allt í lagi.

Elísabet Sigurðardóttir, 29.8.2008 kl. 10:12

13 Smámynd: Hulla Dan

Sammála ykkur.
Það er aldrei of varlega farið með börnin okkar.

Góða helgi á þig.

Hulla Dan, 29.8.2008 kl. 10:40

14 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég er nú svooo heppin, ég hef ekki einu sinni týnt þeim í búð, hvað þá meira.

Það hlýtur að vera hræðileg tilfinning að finna ekki barnið sitt. Að ég tali nú ekki um þau ósköp þegar þau finnast ekki aftur.

Rúna Guðfinnsdóttir, 29.8.2008 kl. 11:17

15 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Góð færsla Jóna eins og endra nær. Við verðum að huga að því að við búum ekki lengur í al-saklausu umhverfi sem laust er við alla illsku og vondar fyrirætlanir fólks. Við þurfum að fara að haga okkur eins og við gerum víða í útlöndum. Við samt sem áður höfum þann kost fram yfir margar þjóðir að vera það fá að hér er erfiðara að dyljast.  Börnin okkar eru svo dýrmæt og við þurfum að gæta þeirra eins og sjáaldur auga okkar, hvar sem við erum. Góða helgi og kveðjur til þín, Jóna mín.

Sigurlaug B. Gröndal, 29.8.2008 kl. 12:30

16 Smámynd: lady

mikið verð ég meir að lesa þetta en því miður hefur þjóðfélag okkar breyst ,,en óska þér Jóna mín góða helgi kv ólöf

lady, 29.8.2008 kl. 12:39

17 identicon

Það er agalegt að lenda í þessu. Frumburðurinn minn týndist einu sinni í Ameríku, tveggja og hálfs árs í svona þrjá tíma. Það var vont.

Í ljós kom svo að fólk sem við þekktum fannst það góð hugmynd að taka drenginn með sér í verslunarferð og að þrífa bílinn án þess að láta  mömmuna vita. Fávitar! Þá voru um 50 manns byrjaðir að leita enda stór á rétt við húsið og hraðbraut.

Ibba Sig. (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 13:29

18 Smámynd: Dísa Dóra

úffffffff já það er svo sannarlega eitthvað sem við þurfum að hafa alvarlega í huga þegar við förum með börnin okkar erlendis.  Því miður er heimurinn orðinn þannig að það er vissara að passa þau MJÖG vel.

Ég hef líka stundum hugsað um það að Ísland hlýtur að vera gósenland fyrir barnaræningja í raun - svona allavega ef þeir uppgötva landið almennilega og frelsi það sem börn búa við hér.  Hér eru börn jafnvel mjög ung ein úti að leika sér tímunum saman og væri því auðvelt fyrir hvern sem er að ræna því   Vona samt innilega að eftirlitið sé það gott hér að slíkir ræningjar kæmust aldrei með barnið út fyrir landsteinana - en vissulega getur einnig margt slæmt gerst hér innanlands líka.  

En svo er einnig eitt sem við meigum ekki gleyma og þurfum að vera vakandi fyrir öllum merkjum um.  Það er nefnilega svo að því miður eru flest börn misnotuð af fjölskyldumeðlimum eða vinum - því er í raun mesta hættan sem steðjar af barninu í raun í nærumhverfi þess.  Það er okkar að vera vakandi fyrir öllum merkjum um að eitthvað gæti verið að. 

Dísa Dóra, 29.8.2008 kl. 17:05

19 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Kolbrún. Ég hef velt þessu fyrir mér líka. Nei ég held að hér komist enginn úr landi nema með vegabréfi. og ég trúi ekki öðru en að þeir í vegabréfaeftirlitinu tékki sérstaklega á börnunum sem þar fara í gegn.

Rödd Skynseminnar. Já eins hræðilegt og það nú er þá eru börn söluvara. Við slíkum viðskiptum ætti að vera dauðarefsing og ég meina það. Manneskja sem selur barn vísvitandi í hendur misyndismanna er ill manneskja. Engum á að líðast slíkt.

Guðríður. Það er allavega það sem maður ímyndar sér að myndi gerast. það er allavega staðreynd að fjölskyldulíf þeirra sem fyrir þessu verður aldrei samt aftur.

Bogga. Manni finnst 6 ára gamalt barn ósköp lítið og varnarlaust. Þetta hefur tíðkast alla tíð á Íslandi, þ.e. að börn gangi ein í skólann en auðvitað getum við aldrei vitað hvenær hættan leynist við næsta götuhorn. Þetta er stóri kosturinn við landið okkar, þ.e. að börnin eru frjáls. Þau geta leikið sér úti með vinum og við erum áhyggjulaus. Eða við vorum áhyggjulaus. Þetta er að breytast, því miður.

Ekki minnast ógrátandi á þennan föður eða stjúpföður sem fékk að njóta vafans.

Elísabet. Það er gott að fá að læra lexíu án þess að hún sé of hörð.

Hulla. Góða helgi til þín líka

Rúna. Tilfinning sem ekki er hægt að ímyndas sér nema að lenda í því.

Sigurlaug. Ég er sammála þér. Við þurfum að fara að vera betur vakandi.

Ólöf mín. góða helgi

Ibba. Ertu ekki að grínast? hvað gerðirðu? tókst af þeim hausana?

Dísa Dóra. Já er það ekki hræðilegt. Að mestu likurnar séu á hættu þar sem við búumst síst við þeim.

Jóna Á. Gísladóttir, 29.8.2008 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband