Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Bloggvinkona losar mig við kvíða

Ég lét loksins verða af því að taka upp símann í morgun og hringja eitt símtal varðandi Þann Einhverfa. Ég var búin að fresta þessu símtali í heilar þrjár vikur af þeirri einföldu ástæðu að ég var ekki tilbúin í það.

Í lok maí fengum við bréf þess efnis að Sá Einhverfi væri komin með pláss í skammtímavistun 2 virka daga í mánuði. Það þýðir að í stað þess að koma heim eftir skóla/viðveru þá er hann keyrður í vistunina og sóttur þangað að morgni og ekið í skólann. Góð tilbreyting fyrir bæði foreldra og barn.

En þetta er samt eins og að senda barnið sitt að heiman og maður breytist í hænumömmu við tilhugsunina. Ég sótti um svona pláss fyrir sennilega 2-3 árum síðan vitandi að biðlistinn væri langur og hugsaði; jæja, ég verð tilbúin að senda hann í burtu þegar hann loksins fær pláss.

Nú er sem sagt komið að því og bara að taka upp símann og staðfesta móttöku bréfsins og koma á aðlögunartíma voru þung skref.

Ég semsagt hringdi í morgun og kynnti mig með nafni. Sagðist hafa fengið bréf varðandi skammtímavistun og....

-er það fyrir Ian spurði indæla konan

- ha? Já einmitt sagði ég svolítið hissa (hvernig vissi hún það)

svo byrja ég eitthvað að tjá mig og konan segir glaðlega, ég veit náttúrlega svo margt um Ian og ykkur...

-ha, segi ég alveg hrikalega confused.

Þarna kemur sem sagt í ljós að konan er bloggvinkona mín. Þetta var eins og ég hefði himinn höndum tekið. Skyndilega var ég að tala við vinkonu í staðin fyrir einhverja ''stofnun út í bæ''.

Bjargaði deginum. Takk mín kæra.


Þetta er sannkölluð furðufrétt

Á Indlandi hefur komið upp skortur á smápeningum, nánar tiltekið eins Rupee peninga og eru bankar víða uppiskroppa með skiptimynt og hafa strætisvagnar hætt að ganga sökum skorts á skiptimynt. Víða eru betlarar ríkastir af smápeningum en ástæðan fyrir skortinum mun vera sú að peningarnir eru bræddir niður í rakvélablöð sem eru verðmætari en peningarnir.


 


mbl.is Peningar bræddir í rakvélablöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenfo og Gurrihar í dagblöðunum

Enn og aftur ratar þetta lið í dagblöðin.

Það er ekki nóg að maður sé að kaffærast hérna á blogginu í færslum frá þessum kvennsum heldur getur maður ekki flett blöðum dagsins án þess að kaldhæðnisleg glott þeirra stari á mann. Það er bara hvergi friður.

Og hvað hafa þær svo sem afrekað þessar konur annað en að bulla og rugla einhverja þvælu. Ég get allavega ekki séð afhverju þær ættu að taka þetta pláss í blöðunum en ekki ég. Ég meina... common.

Og btw... það þýðir ekkert að koma með einhver komment hérna um að ég sé bitur.


Breskur Redneck

Á meðan Bretinn baslaði í því að pússa pallinn í dag þá tyllti ég mér á nýju garðhúsgögnin og las blöðin, talaði við Brynju vinkonu í Berlín sem hefur fengið nýtt viðhengi við nafnið sitt (Brynja botnlangi þar sem botnlanginn var rifinn úr henni í vikunni), sötraði afgang af rauðvíni sem ég átti, bloggaði og fór í langt og taugastrekkjandi ferðalag muniði (í strípur, rendur, lokkalitun eða hvað sem þið viljið nú kalla þetta).

Ég er þreyttari en hann eins og þið getið ímyndað ykkur.

 

Hér getur að líta Bretann við verkið í dag. Takið eftir þessum eðalgræna lit sem er á pallinum og kreditlistann sem er krítaður á pallinn. Það er að sjálfsögðu eftir Þann Einhverfa. Bretinn er ekki flæktur í snúrurnar þó það líti þannig út, en þið megið trúa að rafmagnið átti eftir að stríða okkur á meðan þessi vél var í gangi. Viddi var mjög áhugasamur eins og þið sjáið. Við ætlum að tékka á því á morgun hvort hann geti ekki málað með skottinu.

nickogviddi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér hefur svo dugnaðarforkurinn lokið við pússninguna. Græni

liturinn er þó enn ríkjandi á köntunum. Þar sést litamismunurinn vel.

 pússaðurpallur

 

 

 

 

 

 

 

 

En eftir nokkrar klukkustundir í sólinni, álútur yfir vélinni er Bretinn

sannkallaður Redneck. redneck

 

 


Afhverju eru ekki sett upp skilti?

Það tók mig 40 mínútur að komast frá Árbæ niður á Skólavörðustíg í dag. Það er í sjálfu sér ekki svo alvarlegt mál þó ég hafi mætt ''aðeins 30 mínútum'' of seint í strípurnar. Ég meina það var  háannatími og maður getur búist við að þetta taki lengri tíma en á öðrum tímum.

Það sem er að bögga mig (á góðri íslensku) er þegar Miklabraut breytist allskyndilega í eina akrein án nokkurns fyrirvara eða aðvörunarskilta.

Á ljósunum á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar voru einhverjar framkvæmdir og hægri akreinin tekin undir það. Afhverju í ósköpunum var ekki skilti við Grensásveg og aftur við Háaleitisbraut og aftur við Kringlumýrarbraut sem sagði manni að frá Lönguhlíð væri hægri akrein Miklubrautar lokuð eða eitthvað slíkt. Þá hefði maður náttúrlega bara valið sér aðra leið, ekki satt.

Aaargh..  Það sem pirrar mig í umferðinni eru þessi skiltamál eða öllu heldur skiltavöntun og svo þetta sem er eldri færsla frá mér:

roadrage

Road Rage

Ég er ein af þeim sem er afar spök í umferðinni og sætti mig við að það taki tíma að komast á milli staða á mesta annatíma á götum Reykjavíkur.

En það er eitt sem pirrar mig alveg óstjórnlega og gæti einn daginn breytt mér í froðufellandi og ofbeldishneigðan einstakling sem ryki út úr bílnum og byrjaði að berja með báðum hnefum á rúðuna á næsta bíl.

Það er beinlínis mannskemmandi að lenda fyrir aftan bílstjóra á beygjuljósum (sem eins og alþjóð veit eru ekki græn lengi í einu) sem heldur að hann sé einn í heiminum. Ég lenti fyrir aftan einn slíkan við Mjóddina í dag. Þetta var hugulsamur fjölskyldufaðir sem var í mestu makindum að spjalla við fjölskylduna sem var greinilega í sunnudags-ís-bíltúr. Hann var annar í röðinni á ljósunum, fyrsti bíllinn spýttist yfir en fjölskyldufaðirinn í bíl nr. tvö nálgaðist atriði úr The Exorsist því höfuðið á honum sneri næstum því öfugt á hálsinum svo mikið var að að tala við krógana í aftursætinu. Ég beið bara eftir því að rúðurnar yrðu útataðar í grænni spýju og þar með yrði eftirlíking af einu frægasta atriði kvikmyndasögunnar fullkomnuð.

En ekkert gerðist, hvorki lituðust bílrúðurnar né hreyfðist bíllinn. Þá ýtti ég pen á flautuna. Eitt lítið bíbb og þegar enginn hreyfði á sér rassgatið ýtti ég öllu ákveðnari á flautuna. Þá loksins tók manngarmurinn við sér en haldiði ekki að hann hafi tekið u-beygju og það á hraða snigilsins. Því fór svo að aðeins tveir bílar fóru yfir í þetta skiptið. og ég var sko ekki annar þeirra.

Ég var ekkert að flýta mér. En ég hefði getað gólað. Hélt í staðin fyrirlestur yfir Gelgjunni að þegar hún fengi bílpróf bla bla bla....... Gelgjan er 10 ára. Hún horfði bara á mig með mæðusvip og sagðist aldrei ætla að taka bílpróf. Langar sennilega ekkert að fá leiðbeiningar í æfingarakstrinum frá manneskju með road rage heilkennið. 

 


Húrra fyrir Jóhönnu

Frábært framtak hjá Jóhönnu. Loksins gerist eitthvað. Þetta hefur verið hræðileg staða í allt of langan tíma fyrir fólk með börn sem þarfnast greiningar. Á meðan engin er greiningin er engin þjónustan. Þannig er það nú.

Við vorum svo heppin fyrir 6 árum síðan að það var engin biðlisti svo talist gat. Við komumst mjög fljótlega að með Þann Einhverfa. Það skiptir svo miklu máli að fá viðeigandi þjónustu sem fyrst.

 


mbl.is Teymi stofnuð til að vinna á biðlistum eftir greiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki leiðinlegt veðrið núna

Já gott fólk.

Veðrið leikur við okkur Bretann. Því er útlit fyrir að okkar takist ætlunarverk okkar á þessari einu viku sem við erum í fríi. Nebblega að bera á pallinn og mála allar útihurðir á húsinu. Og þetta er sko ekki leiðinlegt verk þegar sólin skín. yellow

Annars er ég að fara í strípur kl. 5 í dag. Það þykir mér ekki leiðinlegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband