Leita í fréttum mbl.is

Túttu-limran hans Þorsteins

Ég verð náttúrulega að deila þessu tímamótaverki hans Þorsteins með ykkur. Þetta er svo mikil snilld og allt of fáir hafa séð þetta. Hann samdi limruna eftir að hafa lesið bloggið hjá mér: Hvernig ég fékk ör á hægra brjóstið.

Með tannaför á túttum fínum
í toppi flegnum, segir sínum
að Vidd' hafi víst þetta gert.
Bið ég nú í bænum mínum
að Bretinn hlú'að brjóstum þínum
og huggi þar holdið bert.

 


Hefði aldrei farið í bíó ef ég hefði vitað þetta

Ég settist hérna niður í sakleysi mínu í kvöld til að fara bloggvina-rúntinn. Þetta átti að taka fljótt af. Ég ætla ekki, skal ekki, vil ekki, mun ekki fara seint að sofa í kvöld. Það er einlægur ásetningur minn. Ég las hvert bloggið á fætur öðru. Þessir vinir mínir eru einstaklega afkastamikið fólk og duglegt að blogga.

Ég öfundaðist út í Lísu því hún fór á Josh Groban í gær.

Ég hló að sögu um konu sem Kristín Katla þekkir sem datt í Austurstrætinu og minntist um leið þess þegar ég datt sjálf í Austurstrætinu sem unglingur. Hræðileg lífsreynsla.

Ég er enn að vinna í því að komast yfir að lesa öll bloggin hennar Gurríar og bíð eftir svari um leyndarmál sokkabuxnanna

Þorsteinn samdi limru um brjóstin á mér og flaggaði brjóstunum á Sophia Loren á bloggi sínu. Þorsteinn var mjög brjóstgóður maður í dag

Guðríður Péturs, hún Emma mín, er sannfærð um að enskan hennar sé slæm. En það er allt í lagi því það er bull og svo gaf hún mér pakka í gær.

Brynja hætti sér á hálan ís í dag. Bæði í vinnunni og á blogginu. Gladdi okkur perrana með dónalegum bröndurum en móðgaði örugglega einhverja sem eru minna-perralega-sinnaðir. Hún móðgaði líka nýjan starfsmann í vinnunni hjá sér.

Benedikt er í einhverjum framtíðarpælingum og ég gat ekkert hjálpað honum með það. En margir aðrir hjálpuðu samt svo ég er ekkert með samviskubit.

Guðmundur Búdda lenti í ævintýri í dag því hann gekk inn í Gurríar-blogg. Var eiginlega In the Twilight zone..

Svampur (sonur Sveins) hefur áhyggjur af kynslóðatímabilum en það er nú ekki Krónu virði finnst mér.

Hrólfur opinberaði það fyrir alþjóð að hann hangir inn á Barnalandi alla daga og rífst við einhverjar kerlingar

En svo ég gerði mistök. Ég fór inn á bloggið hennar Jennýar. Ég las nýjasta bloggið hennar. Sem ég hélt að væri það eina sem ég ætti eftir að lesa. Nei, ekki var það nú alveg. Ég las því næsta blogg á undan því. Og næsta þar á undan.. og þar á undan og þar á undan og skyndilega sé ég að ég missti af bloggi frá frúnni síðan í gær (eiginlega fyrradag þar sem við erum núna komin inn á fimmtudag). Þar sem hún nefnir nafnið mitt ca 10 sinnum. Nafnið mitt. Blogg ætlað mér. Og ég les það ekki fyrr en sólarhring seinna. Ég meina.... Guð á himnum. Ég hefði sko aldrei farið í bíó í kvöld með Gelgjunni ef mig hefði grunað þetta.

Og það er meiri bömmer í stöðunni. Þetta er ástæðan fyrir fjölgandi heimsóknum hjá mér. Því Jenný bloggaði um mig. Ég er ekkert nema vanþakklætið. Svei því.

Ykkur hin, mínir elskulegu bloggvinir, sem ég hef ekki minnst á hér að ofan bið ég innilega að hafa mig afsakaða þangað til á morgun. Jenný barasta dregur úr mér allan mátt. Mig svíður í augun af oflestri og er komin með harðsperrur í kjálkana af því að hamast á nikótíntyggjóinu hérna fyrir framan tölvuskjáinn.

Ég held ég fari að leggja mig. Vona að það verði slagveðurs rigning á morgun svo ég hafi afsökun fyrir því að fara ekki út með hundana og hafi tíma til að fara restina af bloggrúntinum.


Vörur aftukallaðar

offthemark15may

Uppbyggjandi fyrir lata hundaeigendur

herman15mayÉg er alls ekki í þeim hópi

Hvernig ég fékk ör á hægra brjóstið

Þetta er ekki löng eða flókin saga. Því miður (fyrir ykkur) er ekkert kynferðislegt við hana heldur.

  1. Viddi var hvolpur.
  2. Hann var úti í garði.
  3. Ég heyrði hann væla ámáttlega.
  4. Ég fór út.
  5. Viddi hékk fastur á framlöppunum á girðingunni.
  6. Strokuáráttan strax komin í ljós, hafði reynt að hoppa yfir.
  7. Ég var í flegnum topp.
  8. Viddi var hræddur og meiddi sig.
  9. Ég reyndi að losa hann. Gat ekki gert það öðruvísi en að lyfta honum upp.
  10. Í hræðslukasti sneri Viddi höfðinu og glefsaði í mig. Í hægra brjóstið.
  11. Í viku var ég með tannafar á brjóstinu. Var litin hornauga af Bretanum. Hann var ekki að fíla þetta.
  12. í dag er þetta bara lítið hvítt ör.
  13. Ég erfi þetta ekki við hundinn.

Ætlaði að birta mynd af örinu en myndavélin mín virkar ekki


Skokk sökkar

Gelgjan sem er í 4. bekk var þreytt í morgun. Þegar ég hafði ýtt við henni tvisvar sinnum ákvað ég að leyfa henni að sofa yfir sig. Fannst dagurinn í dag jafn góður og hver annar til að byrja að láta hana taka ábyrgð á að vakna sjálf á morgnana.

Skólinn byrjar 08:10 og kl. 08:15 vakti ég hana. Henni stóð alls ekki á sama en hún má þó eiga það að hún var auðmýktin ein. Ég bjóst við því að hún yrði örg og æst og reið út í mig (hana kippir í kynið þessa elsku). Oooh sagði hún bara. Það verður ekkert smá skammarlegt að koma svona seint.

Ég skutlaði henni í skólann um leið og ég fór í vinnuna og hleypti henni úr við íþróttahúsið. Takk mamma sagði hún og kyssti mig bless. Ég horfði svo á eftir henni hlaupa á löngu leggjunum sínum (sem hún hefur vissulega ekki frá mér) að íþróttahúsinu. Þar tók einhver á móti henni í dyrunum og krafðist greinilega skýringa. Ég sá hvernig gelgjan boraði tá vinstri fótar ofan í glufu á gangstéttinni á meðan hún útskýrði seinaganginn. Táborunin er öruggt merki hjá henni um taugaóstyrk.

Kl. þrjú í dag hringdi hún í mig og var mikið niðri fyrir: Mamma, mamma, veistu hvað ég var heppin. Krakkarnir voru látin hlaupa Rauðavatnshring í íþróttatímanum. Ég er ekkert smáááááá heppin.

girl

Móðir hennar er hinsvegar örlítið efins um að lexía dagsins hafi haft tilætluð áhrif.


Held að það verði brátt fjölgun í fjölskyldunni

Gruna Tinnu um græsku. Kviðurinn fer stækkandi, brjóstin líka. Hún er sakleysisleg á svipinn og svo pínulítil að manni finnst hún bara vera barn ennþá. En ég hef keypt köttinn í sekknum. Hún hefur verið að glyðrast einhvers staðar út í bæ. Skömmin að tarna. Og skömmin ég að hafa ekki verið búin að gera ráðstafanir. Setja hana á pilluna eða eitthvað.

 

 

 

 

 

 

 

100_1104


Ég var stungin af í morgunsárið

Hundarnir gerðu mig að fífli í morgun.

Ég snaraðist á fætur rúmlega hálfsjö, fór í leppana og tilkynnti Vidda og Bósa að nú yrði farið í göngutúr. Tvær lafandi tungur og skælbrosandi skoltar voru það sem blasti við mér þegar ég dróg fram ólarnar þeirra. Ólarnar eru samt bara til vonar og vara þegar við förum svona snemma út því ég á ekki von á því að nokkur maður sé komin á hestbak á þessum tíma né að til séu eins hressir göngugarpar og ég.

Ég byrjaði á því að fara niður fyrir hús til að kíkja á verksummerki þar. Óþekki hundurinn minn, hann Viddi, hefur það nefnilega fyrir sið að grafa sig út úr garðinum. Mér þykir það ekki skemmtileg iðja hjá honum og girðingin hjá okkur er umkringd alls konar grjóti og ljótum spýtum sem ég stel af nágrönnunum og negli þær  neðst á grindverkið til að reyna að koma í veg fyrir að ævintýraþráin í Vidda fái að njóta sín.

Nema hvað að ég var svona gasalega morgunspræk og hress að burðast með grjót og spýtur úr nágrannagarðinum til að loka fyrir nýjasta gatið í grindverkinu  og leið bara eins og ég væri dugleg bóndakona á leið í fjósið að mjólka, svo mikil var vinnugleðin hjá mér.

Svo sný ég mér við sigri hrósandi þegar verkinu er lokið og verð örugglega svolítið kindarleg í framan (í stíl við allt annað). Hundarnir voru báðir horfnir. Og ég var stödd út í móa skal ég segja ykkur. Engin hús að flækjast í sjónlínunni. Samt var eins og jörðin hefði gleypt þá. Skammirnar.

Þarna stóð ég eins og fífl með tvær hundaólar í hendinni og vel byrg af plastpokum til að hirða upp skítinn eftir þá, en enga hundana. Þeir voru heppnir að ég náði ekki í þá á þessu andartaki. Ég hefði sennilega snúið þá úr hálsliðnum með annarri. Léttilega.

Ég neyddist til að byrja að ganga hringi í hverfinu og hvísla nöfnin þeirra. Vildi ekki að nágrannarnir heyrðu til mín. Ekkert bólaði á gaurunum. Þá ákvað ég að ganga í áttina að Rauðavatni og mætti þá fljótlega Bósa. Hann var bara ekkert skömmustulegur á svipinn þrátt fyrir að vilja ekki gefa upp um viðverustað Vidda. Þar sem ég veit að Bósi eltir bara Vidda og myndi aldrei víkja frá hlið mér nema vegna hans þá ákvað ég að spara kraftana þar til ég hitti óþekktarangann. Svo við Bósi röltum niður að Rauðavatni. Sáum engan hestamann eða göngugarp og alls ekki Vidda. En Lóur sá ég, og tjald. Ég var að bögga þau.

Við Bósi snerum því við og þá hringdi Bretinn.

Hvar ert þú? spurði hann.

Er Viddi kominn sagði ég ógnandi röddu án þess að svara spurningunni.

Já, sagði Bretinn svefndrukkinni, spyrjandi röddu. Fannst þetta greinilega of mikið að því góða kl. 7 um morgunn.

Snúðu hann úr hálsliðnum sagði ég með svörtustu röddinni minni og skellti á.

Haldiði að hundskömmin hafi ekki birst í garðinum og gelt móðgaður þegar engin var móttökunefndin. Hvernig hann komst inn í víggirtan garðinn er mér hulin ráðgáta.

 

Hvor haldiði að sé óþekktaranginn? 100_1072


Ný tíska í laxveiðiárnar í sumar?

~7543370Gæti líka verið ofurhetja Vinstri Grænna

Ég er búin að sukka í allan dag

Er eitthvað leiðinleg í dag (gerist ekki oft. Svona cirka jafn oft og D og B eru ekki í samkrulli).
Veit ekki hvort ég hef sukkað í allan dag vegna þess að ég er leiðinleg eða hvort ég er leiðinleg vegna þess að ég hef sukkað í allan dag. Það skal tekið fram að með sukki á ég við áti.
Hef látið alls konar ófögnuð ofan í mig í dag. Pizzur, kökur, kleinuhringi, ómælt magn af kóki (í fljótandi formi), kexi og ég veit ekki hvað. Finn hvernig ýstran þrýstir sér í áttina að lyklaborðinu. Ég er svekkt út í stjórnarmyndunarreglurmyass. Er eiginlega bara í fýlu.
Þess vegna ætla ég bara að horfa á Boston Legal og fara snemma í háttinn.
Brennir maður ekki fullt af hitaeiningum á meðan maður sefur. Einhvern tíma heyrði ég það.
Góða nótt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 1640839

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband