Leita í fréttum mbl.is

Af fjórfætlingum

 

Einu sinni vann Viddi Vitleysingur titilinn Afrekshundur ársins. Það var fyrir hans framlag til aukinnar málnotkunar Þess Einhverfa. Þ.e.a.s. tilvera Vidda virtist auka orðaforða og samfélagshæfni drengsins.

Þessari tík mætti svo sannarlega gefa svipaða nafnbót.

Sögur af fjórfætlingum sem segja frá næmni þeirra og blíðu í garð okkar mannfólksins, ylja mér alltaf um hjartarætur. 

Og svo vona ég að blessuð stúlkan sem fæddi barn undir berum himni, og hefur án efa verið skelfingu lostin, fái þá hjálp sem hún þarf.


mbl.is Yfirgefið barn fannst öruggt í umsjá tíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vi er röde

 

Ég er svolítið að missa mig yfir þessum leik. Eins og allir hinir auðvitað. Því það hringir ekki síminn (ég er í vinnunni sko) og það er sama hvaða kúnna og hvers konar fyrirtæki ég tala við; allir hafa sömu sögu að segja. Síminn er dauður.

Ég veit líka að Hrói höttur var búinn að móttaka um 500 pantanir á pizzum strax í gær. Svo við hér ákváðum að fá okkur frekar Subway samlokur yfir leiknum en að treysta á að pizzastaðirnir mættu vera að því að sinna okkur í hádeginu í dag.

Og strákarnir OKKAR leika í rauðum búningum og tölfræðin hefur sýnt að okkur gengur betur í rauðu búningunum en þeim bláu.... hvað sem er svo til í því.

Vi er röde..... ÁFRAM ÍSLAND ÁFRAM ÍSLAND


Mamma farðu burt

 

Bretinn er í fríi þessa viku. Það frí nýtist held ég, einna helst í snúninga fyrir og með Gelgjuna og svo auðvitað golf.

Hann stígur ekki fæti sjálfviljugur inn í Kringluna og örugglega hægt að telja á fingrum annarrar handar hans ferðir þangað á árinu. En Gelgjan hefur dregið hann þangað 2x í vikunni. Í fyrra skiptið til að kaupa dót fyrir skólann og plataði þá út úr honum ferð á uppáhaldsveitingastaðinn sinn, Cafe Bleu, og át uppáhaldsréttinn sinn; hamborgara með frönskum og sósu.

Í dag fóru þau svo í gallabuxnaleiðangur. Og trúið mér; this is BIG. Þetta barn hefur ekki fengist áður til að klæðast gallabuxum. ALDREI á sínum 11 árum. Þetta er baaaaara byrjunin, ég veit það. Og þó að þessar buxur hafi ''aðeins'' kostað 5000 kr þá veit ég að fyrr en varir verður farið að væla um 15 þús kr merkjagallabuxur. Fimmtíuogáttaþúsund króna skór eru svo næsta skref þar á eftir.

En Bretinn var sem sagt upptekin í Kringlunni og ég, vinnandi konan sagði: allt í lagi elskan, ég verð komin heim áður en Ian kemur með rútunni. Ekki málið.

Á leiðinni heim mundi ég svo að ég var ekki með lykil að útidyrahurðinni.

Þegar ég renndi í hlað sá ég trýnið á Vidda Vitleysing útflatt á glugganum eins og venjulega. Himinlifandi glaður að fá mig heim byrjaði hann að snúast í hringi. Sú gleði breyttist fljótt í hávært gelt og pirring. Því ekki skilaði ég mér inn, heldur sniglaðist í kringum húsið eins og sá sem ekkert gott hefur í hyggju. Hann var alls ekki ánægður með þetta. 

Ég var komin úr kápunni og búin að sparka af mér hælaskónum. Nennti ekki að skakklappast í þessu outfitti í gegnum garðinn en þangað fór ég til að ná mér í stiga. Svo skreið ég inn um glugga í fína skrifstofudressinu mínu og fæturnir klæddir nælonsokkum einum fata voru síðastir inn.

Og þá var því máli reddað.

En svo kom Sá Einhverfi heim og fór að háskæla þegar hann sá mig. Hann átti ekki von á mér heima og var ekki ánægður með þessa óvæntu uppákomu.

Farðu burt, sagði hann

ég fékk ekki að faðma hann eða hugga. Hann vildi bara ekkert með móður sína hafa. Fannst ég vera með átroðning.

Svo jafnaði hann sig smátt og smátt og sætti sig við að mamma hans var heima. Eða það hélt ég. þangað til Bretinn, Gelgjan og Viðhengið komu heim. Gelgjan sæl á svip með gallabuxur í appelsínugulum plastpoka.

Þá heyrðist af efri hæðinni: mamma fara í göngutúr.

Og það gerði hún. Með Vidda Vitleysingi. Ekki nema sjálfsagt að láta einn Einn Einhverfan stjórna sér og sínu lífi.

 


Familí C-J slakar á í sveitinni

 

Mánudaginn í síðustu viku hófum Bretinn og ég að hlaða station bílinn fyrir sumarbústaðarferðina.

Bretinn var búinn að staglast á því í tvo daga að við yrðum að fara á 2 bílum því við ætluðum að taka svo mikið af drasli með okkur.

Ertu brjálaður, hvæsti ég á hann. Heldurðu að ég láti það fréttast að það þurfi tvo bíla undir dótið sem fylgir 2 fullorðnum og 2 krökkum í 4-5 daga. Heilu fjölskyldurnar fara í útilegur og hringferð um landið og koma öllu sínu fyrir í skotti á VW. Af og frá. Eitt stykki station bíll dugar og hana nú.

Ég var grimm á svip og ansi viss í minni sök.

En ég varð heldur betur að láta í minni pokann. Játa mig sigraða. Ég hafði svoooo rangt fyrir mér. Gamla station beyglan var drekkhlaðin af töskum með fatnaði fyrir heila kommúnu, pappakössum með mat fyrir 20 manns, einu DVD tæki og einu stykki 14" sjónvarpi að ógleymdum öllum VHS spólunum og DVD diskunum.

Golfsett Bretans tók svo upp plássið í Yaris-num. Og Viddi Vitleysingur.

Og svo tættum við í austurátt. Fallegur bústaður að nafni Hálsaskógur beið okkar. Umkringdur rjóðri með útsýni yfir Heklu. Sannkölluð afslöppunarparadís.

Og það er nákvæmlega það sem við gerðum þarna í 5 daga; slöppuðum af.

Við fórum líka í berjamó. Og þurftum ekki að fara langt. Kjarrið umhverfis bústaðinn var þakið bláberja- og krækiberjalyngi og með hjálp Gelgjunnar og Þess Einhverfa söfnuðust nákvæmlega rétt magn af berjum til að nota út á skyrið á morgnana.

Gelgjan fór í reiðtúr og Bretinn sló nokkrar golfkúlur. Sá Einhverfi skrifaði heilu ritgerðirnar og svamlaði í heita pottinum. Ég féll næstum um staflana af eldgömlum tímaritum og lærði ansi margt á stuttum tíma; hvernig á að daðra án þess að fara yfir strikið, hvaða stellingu er best að sofa í til að minnka líkurnar á hrukkum, hvaða dýr ég var í fyrra lífi, hvað brasilískt vax þýðir í raun og veru og fleira sem er bráðnauðsynlegt fyrir konu á mínum aldri að vera meðvituð um.

Við fórum líka í vatnsstríð þar sem Bretinn var króaður af inni í áhaldageymslu af Gelgjunni. Til allrar óhamingju fyrir hana hafði Bretinn aðgang af hinum ýmsu hlutum í geymslunni og birtist skyndilega í dyrunum með fulla fötu af ísköldu vatni sem hann skvetti yfir hana þar sem hún stóð á sundbol og átti sér einskis ills von.

Sá Einhverfi tók þátt í vatnsstríðinu þó af veikum mætti væri. Í hvert skipti sem stuttermabolurinn hans fékk skerf af bunu vildi hann fara inn og skipta um bol. Það endaði með því að allir ofnar voru skreyttir eilítið rökum tuskum af Þeim Einhverfa.

Viddi Vitleysingur var sá lakasti af öllum. Hann flúði langar leiðir um leið og einhver beindi að honum vatnsbyssu.

Hann opinberaði sitt litla hjarta enn frekar þessa vikuna og tengdist það bröttum stiga upp á svefnloftið. Hann má þó eiga það að á 2 dögum hleypti hann í sig nægum kjarki til að komast upp stigann af sjálfsdáðum. En niðurferðin var allt önnur ella. Við urðum að taka hann undir handlegginn eins og hvern annan kjölturakka og bera hann niður. Allir fjórir fæturnir stóðu beinstífir út í loftið og maður gat fundið litla hundshjartað ólmast í brjóstinu á honum.

Fyrstu skiptin var ég dauðhrædd um að hann tæki upp á því að láta bununa standa út úr rassgatinu eins og hann gerði eitt sinn er við vorum að reyna að klippa á honum klærnar. Já hann er enginn Ríkharður Ljónshjarta hann Viddi.

Unglingurinn og kærastan kíktu á okkur í tvo daga og annað kvöldið var spilað Actionary með tilheyrandi hlátri en líka reiði- og pirringsköstum. Það er alls ekki gáfulegt að hafa hjón eða pör í sama liði.

Ég var mest móðguð þegar Bretinn skildi ekki kolkrabbann minn. Hreyfingarnar sem ég framkallaði með höndum og fótum hefði átt að kveikja á perunni hjá hverjum sem er.... vil ég meina.

Í sjónvarpinu á svefnloftinu sá ég landsliðið í handbolta spila tvo leiki í Kína-landi og brást illa við þegar hausinn á Bretanum gægðist eitt skipti upp um stigaopið eingöngu til að setja eitthvað út á spilerí minna manna. Hann sá þann kost vænstan að láta hausinn hverfa aftur áður en hann fengi að fjúka. Kellingin var meira en lítið æst.

Á þriðja degi spurði Sá Einhverfi: heim?

Ha? sagði ég. nei, ekki heim strax.

Heim kannski bráðum, sagði hann þá.

Þessu staglaðist hann á þó hann virtist ekki vera ósáttur þar sem við vorum.

En honum leið betur þegar ég gat sagt honum að við færum heim á laugardag. Þá var kominn fastur punktur í tilveruna hjá drengnum.

Og um leið og byrjað var að pakka niður á laugardeginum og bera út í bíl (ana) þá rauk hann út og inn í bíl. Spennti á sig beltið. Sat þar á meðan var verið að ganga frá og þrífa bústaðinn.

Það var greinilega kominn tími til að halda heim. Þar er alltaf best að vera þó að tilbreyting sé kærkomin.

 


Allir á lífi

 

Family C-J komin til byggða á ný. Við sem sagt.

Allir með púls... missterkan þó. Það sem bjargar sambúð minni og Bretans eftir viku fjarri menningunni, er sú staðreynd að ég sný aftur til vinnu þessa viku en hann verður í fríi.

Smáatriðin birt seinna.

Ég verð að forða mér til rekkju því klukkan er orðinn Ísland-Egyptaland. Valtýr Björn er kominn á skjáinn. Ef ég yfirgef ekki svæðið NÚNA er ansi hætt við því að ég ílengist fyrir framan kassann. Must go to sleep must go to sleep must go to sleep must go....


Nú fauk í mig

 

Ég á að vera að skrifa fyrir bókina mína. Fjarlægði sjálfa mig út af heimilinu og kom mér fyrir við skrifborðið mitt á vinnustað. Gengur svona lala.

Kíkti á visir.is til að dreifa huganum aðeins og rakst þá á þessa frétt. Hún gerir mig fokreiða. Þegar útlitsdýrkunin sem tröllríður heiminum, er farin að ná yfir börnin okkar... litlu börnin okkar, þá er nú fokið í flest skjól. Hvernig er hægt að segja við litla fallega telpu: nei væna mín, þú ert ekki nógu falleg. Við ætlum að nota röddina þína en finna sætari stelpu til að koma fram.

Og hvaða skilaboð er verið að senda báðum þessum litlu dömum?

Og sjáiði hvað þær eru fallegar. Báðar tvær. Geislandi af sakleysi og einlægni. Bara að það fengi að haldast þannig....

 Peiyi

 

 

 

 

 

 

Reyndar er margt sem ég les þessa dagana, bæði um Kína og Ólympíuleikana, að gerir mig reiða. Smávegis vitundarvakning í gangi hjá mér.

Ég er samt ekki mjög reið yfir gengi Strákanna okkar....

handb

 

 


Lifir fjölskyldan þetta af?

Hér stendur sumarbústaðaferð fyrir dyrum. Og það er nú alveg með ólíkindum hvað þetta getur verið flókið. Allavega hjá þessari fjölskyldu.

Upphaflega stóð til að við færum öll, ásamt kærustu Unglingsins og Viðhengi Gelgjunnar. Viddi vitleysingur líka þó að kettir og naggrís yrðu að vera eftir heima.

Skyndilega stöndum við frammi fyrir því að unga parið er að ''beila'' á okkur og Viðhengið líka. Og nú sitjum við Bretinn uppi með einhverfan gaur sem segir ''nei nei ekki sumabústa'' og Gelgju sem segir ''Ohhhhh það verður ekkert að gera þarna''.

Hún virðist líka hafa áhyggjur af því að Bretinn og ég séum langt frá því að vera liðtæk í að ''halda á lofti''. Þ.e. bolta.

Og þó að ég segi ekkert upphátt (nema við Brynju vinkonu) þá hugsa ég á svipuðum nótum; hvernig munum við fúnkera sem fjölskylda fjarri nettengingu, tölvu, stöð 2, trampólíni....

Já, það er alveg ljóst að enginn í þessari fjölskyldu er náttúrubarn. Sjáum ekki fyrir okkur langa göngutúra þar sem lesið er í laufin á trjánum og skordýrin rannsökuð.

Verð að viðurkenna að það var hálfgert sjokk þegar þessar hugsanir byrjuðu að leita á mig.

Brynja vinkona benti mér á ljósa punktinn í þessu. Hugsaðu þetta sem spennandi könnunarleiðangur, sagði hún. Munuð þið.. eða munuð þið ekki... lifa þetta af.

hahaha já já voða fyndið Brynja mín.

---------------------------------

Annars var ég að lesa svo assgoti áhugaverða færslu. Kíkið á hana. Ég held að allir hafi einhverja skoðun á málefninu.

 


Bandaríkjamenn eru með kynlíf (annarra) á heilanum

 

Alveg er það með ólíkindum hvað það skiptir Bandaríkjamenn miklu máli hjá hverjum forsetarnir þeirra og forsetaefnin, sofa hjá. Mesta kikkið er auðvitað að grafa upp sem mestan ósóma og smjatta á því.

Þetta skiptir hinn almenna borgara mun meira máli heldur en það hvort forsetinn hafi einhverjar gáfur, stjórnunarhæfileika eða annað sem kæmi sér vel í embættinu.

Hinn almenni ameríski borgari hefur lítinn áhuga á hvað gerist á milli eyrnanna á forsetum landsins. Áhuginn beinist frekar að því hvað gerist á milli lappanna á þeim.

Úff hvað þetta pirrar mig.


mbl.is Edwards viðurkennir framhjáhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól seinna

 

Það er byrjað að kólna. Finnið þið það?

Sem aftur þýðir að Sá Einhverfi fær ekki að fara á stuttbuxum út í rútu á morgnana. Og það er hann ekki ánægður með. Undanfarnar vikur hefur hann verið alsæll með bera leggi og í strigaskóm. En hettupeysan og derhúfan eru ómissandi.

Í morgun áttu drengur og faðir í útistöðum í buxnamálum, en Bretanum tókst þó að fá krakkann til að fara í síðbuxur.

Þegar ég hengslaðist svo niður til þeirra eftir andlitspörslun (sem tekur alltaf lengri og lengri tíma) rek ég augun í það að stráksi er í öfugum buxunum. Það hvarflaði að mér að sleppa honum þannig út. Viss áhætta að láta hann fara úr buxunum. Ekki víst að hann fengist í þær aftur.

En ég tók þá ákvörðun að mér finndist það ekki mjög smart að láta drenginn mæta svo öfugsnúinn í Vesturhlíð. Þetta hafðist allt á endanum en ekki fyrr en við Bretinn lofuðum upp í ermina á okkur: 

Sól seinna, heimtaði Sá Einhverfi

Og við héldum það nú aldeilis.


Flautandi fífl

Ég gerðist næstum því sek um ofbeldi í umferðinni í gær. Fann allt í einu til samkenndar með fólki sem tjúllast á götunum í Bandaríkjunum. Red neck týpan sem teygir sig í haglarann í aftursætinu og tæmir hann á nokkrum sekúndum.

Ég keyri alla jafna sömu leið heim úr vinnu dag hvern. Á vissum stað legg ég mig í líma við að hleypa alltaf 1-2 bílum af afrein, þ.e. hægi á mér og gef séns.

Í gær var 3. skiptið í röð sem ég keyri þessa leið, sem var flautað á mig. Fjandinn hafi það, bíllinn fyrir aftan mig flautaði á mig vegna þess að ég tafði hann um um það bil 5 sekúndur. Rétt á meðan ég hleypti einum bíl inn á akbrautina.

Allt er þegar þrennt er, stendur einhvers staðar og ég var ekki vel fyrirkölluð. Það munaði mús í megrun að ég stoppaði gamla ryðdallinn minn, þar og þá, og stigi út úr bílnum, til að eiga orð við kvennsuna sem ók flautandi jeppanum. En ég gerði það ekki. Sem betur fer. Hefði mögulega gerst sek um ofbeldi. Allavega munnlegar svívirðingar. Þær hrundu svo sem út úr mér en náðu engum eyrum nema mínum eigin. En ég sneri mér við á mjög svo ógnandi hátt og fórnaði höndum framan í kellu. Hún hefur örugglega verið skíthrædd...

Getur einhver sagt mér hvað er málið? Afhverju leggst fólk á flautuna við svona tækifæri? Er það út af því að það er með einhvern dauðvona í bílnum hjá sér? Eða veit það hreinlega ekki að það er til eitthvað sem heitir að gefa séns í umferðinni.

ARGH

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1640384

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband