Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Breskur Redneck

Á meðan Bretinn baslaði í því að pússa pallinn í dag þá tyllti ég mér á nýju garðhúsgögnin og las blöðin, talaði við Brynju vinkonu í Berlín sem hefur fengið nýtt viðhengi við nafnið sitt (Brynja botnlangi þar sem botnlanginn var rifinn úr henni í vikunni), sötraði afgang af rauðvíni sem ég átti, bloggaði og fór í langt og taugastrekkjandi ferðalag muniði (í strípur, rendur, lokkalitun eða hvað sem þið viljið nú kalla þetta).

Ég er þreyttari en hann eins og þið getið ímyndað ykkur.

 

Hér getur að líta Bretann við verkið í dag. Takið eftir þessum eðalgræna lit sem er á pallinum og kreditlistann sem er krítaður á pallinn. Það er að sjálfsögðu eftir Þann Einhverfa. Bretinn er ekki flæktur í snúrurnar þó það líti þannig út, en þið megið trúa að rafmagnið átti eftir að stríða okkur á meðan þessi vél var í gangi. Viddi var mjög áhugasamur eins og þið sjáið. Við ætlum að tékka á því á morgun hvort hann geti ekki málað með skottinu.

nickogviddi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér hefur svo dugnaðarforkurinn lokið við pússninguna. Græni

liturinn er þó enn ríkjandi á köntunum. Þar sést litamismunurinn vel.

 pússaðurpallur

 

 

 

 

 

 

 

 

En eftir nokkrar klukkustundir í sólinni, álútur yfir vélinni er Bretinn

sannkallaður Redneck. redneck

 

 


Afhverju eru ekki sett upp skilti?

Það tók mig 40 mínútur að komast frá Árbæ niður á Skólavörðustíg í dag. Það er í sjálfu sér ekki svo alvarlegt mál þó ég hafi mætt ''aðeins 30 mínútum'' of seint í strípurnar. Ég meina það var  háannatími og maður getur búist við að þetta taki lengri tíma en á öðrum tímum.

Það sem er að bögga mig (á góðri íslensku) er þegar Miklabraut breytist allskyndilega í eina akrein án nokkurns fyrirvara eða aðvörunarskilta.

Á ljósunum á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar voru einhverjar framkvæmdir og hægri akreinin tekin undir það. Afhverju í ósköpunum var ekki skilti við Grensásveg og aftur við Háaleitisbraut og aftur við Kringlumýrarbraut sem sagði manni að frá Lönguhlíð væri hægri akrein Miklubrautar lokuð eða eitthvað slíkt. Þá hefði maður náttúrlega bara valið sér aðra leið, ekki satt.

Aaargh..  Það sem pirrar mig í umferðinni eru þessi skiltamál eða öllu heldur skiltavöntun og svo þetta sem er eldri færsla frá mér:

roadrage

Road Rage

Ég er ein af þeim sem er afar spök í umferðinni og sætti mig við að það taki tíma að komast á milli staða á mesta annatíma á götum Reykjavíkur.

En það er eitt sem pirrar mig alveg óstjórnlega og gæti einn daginn breytt mér í froðufellandi og ofbeldishneigðan einstakling sem ryki út úr bílnum og byrjaði að berja með báðum hnefum á rúðuna á næsta bíl.

Það er beinlínis mannskemmandi að lenda fyrir aftan bílstjóra á beygjuljósum (sem eins og alþjóð veit eru ekki græn lengi í einu) sem heldur að hann sé einn í heiminum. Ég lenti fyrir aftan einn slíkan við Mjóddina í dag. Þetta var hugulsamur fjölskyldufaðir sem var í mestu makindum að spjalla við fjölskylduna sem var greinilega í sunnudags-ís-bíltúr. Hann var annar í röðinni á ljósunum, fyrsti bíllinn spýttist yfir en fjölskyldufaðirinn í bíl nr. tvö nálgaðist atriði úr The Exorsist því höfuðið á honum sneri næstum því öfugt á hálsinum svo mikið var að að tala við krógana í aftursætinu. Ég beið bara eftir því að rúðurnar yrðu útataðar í grænni spýju og þar með yrði eftirlíking af einu frægasta atriði kvikmyndasögunnar fullkomnuð.

En ekkert gerðist, hvorki lituðust bílrúðurnar né hreyfðist bíllinn. Þá ýtti ég pen á flautuna. Eitt lítið bíbb og þegar enginn hreyfði á sér rassgatið ýtti ég öllu ákveðnari á flautuna. Þá loksins tók manngarmurinn við sér en haldiði ekki að hann hafi tekið u-beygju og það á hraða snigilsins. Því fór svo að aðeins tveir bílar fóru yfir í þetta skiptið. og ég var sko ekki annar þeirra.

Ég var ekkert að flýta mér. En ég hefði getað gólað. Hélt í staðin fyrirlestur yfir Gelgjunni að þegar hún fengi bílpróf bla bla bla....... Gelgjan er 10 ára. Hún horfði bara á mig með mæðusvip og sagðist aldrei ætla að taka bílpróf. Langar sennilega ekkert að fá leiðbeiningar í æfingarakstrinum frá manneskju með road rage heilkennið. 

 


Húrra fyrir Jóhönnu

Frábært framtak hjá Jóhönnu. Loksins gerist eitthvað. Þetta hefur verið hræðileg staða í allt of langan tíma fyrir fólk með börn sem þarfnast greiningar. Á meðan engin er greiningin er engin þjónustan. Þannig er það nú.

Við vorum svo heppin fyrir 6 árum síðan að það var engin biðlisti svo talist gat. Við komumst mjög fljótlega að með Þann Einhverfa. Það skiptir svo miklu máli að fá viðeigandi þjónustu sem fyrst.

 


mbl.is Teymi stofnuð til að vinna á biðlistum eftir greiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki leiðinlegt veðrið núna

Já gott fólk.

Veðrið leikur við okkur Bretann. Því er útlit fyrir að okkar takist ætlunarverk okkar á þessari einu viku sem við erum í fríi. Nebblega að bera á pallinn og mála allar útihurðir á húsinu. Og þetta er sko ekki leiðinlegt verk þegar sólin skín. yellow

Annars er ég að fara í strípur kl. 5 í dag. Það þykir mér ekki leiðinlegt.


Ný kynslóð, uppfull af kvenfyrirlitningu, að alast upp

Mér var sagt frá viðtali um daginn við karlmann sem í mörg ár hefur starfað með unglingum í unglingavinnunni eða ámóta starfi.

Ég hef ekki allar staðreyndir á hreinu, t.d. í hvaða  í blaði viðtalið birtist eða nafn mannsins þar sem það fylgdi ekki sögunni, en mikið brá mér að heyra um þetta;

Þessi maður sagði að aldrei nokkurn tíma hefði hann áður í starfi sínu orðið var við eins mikla kvenfyrirlitningu eins og núna frá þessum ungu drengjum sem starfa undir hans stjórn.

Hann sagði klámkjaftinn á drengjunum vera ofboðslegan og virðingarleysið við stúlkurnar sem þeir vinna með vera algjört. Þeir neita að sópa því það sé kvenmannsverk. Hann hefur margoft orðið vitni af yfirlýsingum drengja um fáránleikann í því hversu háum stöðum kvenfólk sé farið að gegna og svona mætti lengi telja.

Aðspurður hvað hann teldi vera orsökin fyrir þessu nefndi hann klámvæðinguna.

Ég er búin að vera lengi að melta þessa frásögn. Er enn að reyna. Hef verið að velta fyrir mér hvernig geti staðið á því að drengir sem alast upp við það að mamma og pabbi vinni bæði úti og eigi sér ''career'' hafi þessa sýn á kvenfólk. Auðvitað veit ég að ennþá er það afar algengt að öll húsverk og það sem viðkemur heimilinu falla á konuna, jafnvel þó hún vinni jafnlangan eða jafnvel lengri vinnudag en maðurinn. En það hlýtur samt að vera á undanhaldi. Eða hvað?

En sennilega skiptir þetta með heimilishald bara engu máli. Sennilega er þetta hárrétt hjá manninum. Þessi mynd sem krökkum er gefin í dag að kynlíf, klám, bert kvenfólk, súludansmeyjar, einkadans, tölvuleikir þar sem nauðgun er mission, munngælur er aðgangseyrir inn í partý.....

Ég hef hér á blogginu mínu birt greinar úr bók sem heitir Kynlíf og er skrifuð 1937. Þetta hef ég gert bæði í gríni og alvöru til að sýna fram á hversu fornaldarleg hugsunin var á þessum tíma varðandi konur og kynlíf. En svei mér þá ef sú sýn er ekki betri en það sem við erum að upplifa í dag.

Eins og í raunveruleikanum eru fjöllyndir karlmenn í klámmyndum ''folar'' en konurnar ''easy'' og ''glyðrur'' sem ''láta alla ríða sér'' (afsakið orðbragðið).

Það sem þarf hér er uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi. Feður þurfa að tala við drengina sína og ekki bara um að muna að nota smokkinn svo þeir geri ekki einhverja stelpu ólétta.

Pabbar: þið verðið að ræða við strákana ykkar um kynlíf. Að kynlíf snúist ekki um að ríða. Að nei þýðir nei. Að munngælur séu líka kynlíf. Að klámmyndir séu ekki raunveruleikinn. Að á bak við hvern súludansara, á bak við hverja stúlku í klámmynd, hverja vændiskonu sé sorgarsaga. Að ekki sé eðlilegt að kaupa sér kynlíf......

Hjálp! Ég er kjaftstopp. 


Bakþankar Gerðar Kristnýjar - mínir eigin þankar um frekjuna í ISG

Gerður Kristný er með bakþankana í Fréttablaðinu í dag. Þetta er skemmtilegur pistill hjá henni sem vekur mann til umhugsunar. Konur eru konum verstar.... og allt það.

Við könnumst öll við að karlmenn eru ákveðnir en konur frekar. Konur eru lauslátar en karlmenn ''skora'' o.sfrv.

Gerður Kristný kemur inn á þetta í pistlinum:

Þegar ég vann á vikublaði spurði ég eitt sinn kollega minn hvort honum þætti eðlilegt að þegar hann skrifaði um karla í nýjum samböndum segði hann að þeir væru ,,komnir með nýja upp á arminn'' en þegar konur byrjuðu með nýjum manni fylgdi alltaf sögunni að þær væru ''lausgyrtar''. Nei, ekki fannst honum þetta normalt svona þegar honum var bent á þetta og ég tók aldrei aftur eftir lausgyrtum konum í skrifum hans. Nú hef ég orðið vör við annars konar kvenfyrirlitningu í fjölmiðlum en það er þegar sagt er að konur séru ''frægar fyrir ekki neitt''. Aldrei sé ég svona skrifað um karla. Í Spegli Tímans var fyrsti ástmaður Karólinu af Mónakó aldrei kallaður ónytjungur. Nei, hann var glaumgosi.

Hún talar svo um öll skrifin um Paris Hilton og Önnu Nicole og vill meina að þessi frasi ''frægar fyrir ekki neitt'' eigi ekki við um þær þar sem þær hafa fengist við kvikmyndaleik og fyrirsætustörf og gerðir raunveruleikaþættir um þær. Auðvitað má deila um hvað sé ''ekki neitt'' en ljóst er að fólk hefur nú orðið frægt af minna en þetta.

Svo segir Gerður Kristný:

ÞVÍ brá mér í brún þegar ég sá fjallað á eftirfarandi hátt um Önnu Nicole í því annars ágæta tímariti 19. júní: ''Kona þessi hafði ekkert unnið sér til frægðar annað en að vera kynlífshjálpartæki fyrir karlmenn og gert út á það allt sitt líf.'' Þessi fyrirlitning í garð konunnar á hvergi við og síst í ársriti Kvenréttingafélags Íslands. Og hvað er líka átt við með ''allt sitt lif''? Er verið að ýja að því að Anna Nicole hafi verið að glenna sig framan í karlana sem gægðust ofan í vögguna hennar?

Svo kemur snilldin og hana á Ingibjörg Sólrún:

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hélt ræðu á fundi Kvenréttindafélgsins 19. júní og sagði þá nokkuð sem hér á vel við: ''Allt of margar konur gangast inn á orðræðu karla, þeirra skilgreiningu á því sem skiptir máli, bíða eftir þeim molum sem hrjóta af borði þeirra ef þær eru bara nógu hlýðnar.''

Er þetta ekki akkúrat málið með fjöldann allan af kvenfólki í pólitík. Óafvitandi beygja þær sig undir karlpeninginn í sama starfi og þyrstir í viðurkenningu frá þeim. Er það ekki ástæðan fyrir því að ISG hefur sætt svo mikilli gagnrýni að ákveðni hennar, einurð og sjálfstæði skín svo skýrt í gegn að karlpeningnum þykir nóg um. Hún er frekja ekki satt.... á þeirra mælikvarða.


Nú verður sennilega allt vitlaust

ef ég segi upphátt það sem ég hugsa but I'm gonna say it anyway.

Sendum þetta lið heim til sín. Núna strax. Það er til nóg af íslensku pakki og glæpamönnum.


mbl.is Sex í yfirheyrslu eftir fjöldaárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1640567

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband