Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Í anda dömubindisauglýsinganna

 

Ek af stað í vinnuna. Er of sein svo sólin er að koma upp.

Kem við á hverfisbensínstöðinni. Gamall brosandi kall tekur á móti mér.

Góðan daginn segir hann með sönglandi röddu. Fylla'ann? Ég brosi á móti, kinka kolli og drattast svo með minn prinsessurass inn í afgreiðsluna. Læt þann gamla um skítverkin. Bíð eftir að hann ljúki við að dæla og virði á meðan fyrir mér allt sælgætið sem ég ætla ekki að kaupa því ég er svo fjandi stapil.

Nikka til gamla mannsinns og veifa eins og Bretadrottning um leið og ég keyri í burtu. Vantar bara hvíta hanskann á hendina.

Klukkan er rúmlega níu svo gatan er greið. Umferðin víkur fyrir mér eins og Rauðahafið vék fyrir Móses og hans fylgdarliði í denn. Allir gefa séns í dag. Tillitsamir og kurteisir.

Á Suðurlandsbrautinni sé ég bíl úti í kanti. Lögreglubíl er lagt fyrir aftan með bláu ljósin blikkandi,  hljóðlát og hæversk. Lögreglumaður og ökumaður hins bílsins standa á móti hvor öðrum. Herðar þess fyrrnefnda hristast örlítið. Þegar ég keyri fram hjá snýr hann höfðinu og við mér blasir ungt, hlæjandi andlit. Ökumaðurinn er talandi og brosandi. Sá hefur náð að kjafta sig út úr þessari sekt.

Ég stöðva á gangbraut og syngjandi hópur leikskólabarna ganga yfir hvítu strikin. Eldri kona fer fyrir hópnum og önnur yngri rekur lestina. Litlu kropparnir eru allir klæddir í skærgul vesti og sólargeislarnir dansa á endurskinsmerkjunum. Ég bíð bara eftir að hvít dúfa setjist á húddið á bílnum mínum. Það gerist ekki en mávur skilur eftir sig hvítt merki á framrúðunni. Ég gretti mig og held ferðinni áfram.

Miðaldra hjón skokka eftir gangstéttinni hægra megin í samstæðu átfitti, bláum adidasgöllum og glænýjum svörtum hlaupaskóm með neonhvítum reimum. Það á greinileg að taka á því og skapa sér nýjan lífsstíl.

Ég gef séns í hliðargötu og uppsker taugaveiklað bros frá háaldraðri og ævafornri konu. Hún fær sennilega ekki að endurnýja ökuskírteinið sitt þessi. Ég læt skína í tennurnar svo hún sjái örugglega að ég brosi á móti.

Léttur úði er í loftinu og yfir Höfða er regnboginn skýr og bjartur.

Ég legg fyrir utan vinnustaðinn og geng léttfætt upp stigana. Stíg inn fyrir dyrnar og stimpla mig inn. Alltof sein.

Góðan daginn segi ég glaðlega.

Sæll segir Rúnar. Nokkrir rymja og aðrir segja ekki orð. Ég gleymdi því að hér talar fólk ekki saman fyrr en upp úr kl. 10.

Lífið getur ekki alltaf verið eins og Stayfree auglýsing með hástemmdu gleðipoppi í bakgrunninum.

 


Af barnatrú og dæmisögum

Ég ólst upp hjá ömmu og afa.

Amma var virk í kvenfélagi Langholtskirkju og trúuð kona. Þegar ég segi trúuð þá meina ég á þann hátt að henni þótti gaman að fara í messu á sunnudögum, hún trúði á Guð og fór með bænir fyrir mig á fyrir svefninn..

Að öðru leyti varð ég ekki mikið vör við trúnna sem slíka. Minnist þess ekki að amma hafi mikið talað um Guð.

Sonur ömmu og afa dó í slysi 27 ára gamall, en ég heyrði t.d. ömmu aldrei tala um að ''trúin hefði komið henni yfir þá erfiðu lífsreynslu'' eða eitthvað í þeim dúr.

Það var sem sagt ekkert endilega talað mikið um trúnna á heimilinu. Hún bara var þarna. Ég átti mína barnatrú án þess nokkurn tíma að trúa sögunni um Evu og Adam eða taka hana bókstaflega.

Það eina sem benti til þess að afi deildi þessari trú með ömmu var að hann kenndi mér bæn;

Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Mér hefur alla tíð þótt afar vænt um þá bæn. Því afi kenndi mér hana.

Ég hef alltaf verið ánægð með mína barnatrú. Í rauninni verið þakklát fyrir hana. En ég hef líka lagt próf fyrir Guð. Og merkilegt nokk, ekki í mína þágu. Einhvern tíma skipaði ég Guði að hjálpa manneskju sem mér fannst hafa þolað nóg. Manaði hann til að sanna fyrir mér að hann væri til. Enn hefur hann ekki sannað neitt fyrir mér en barnatrúin lifir þrátt fyrir það.

Ég hef reynt að feta sömu leið með börnin mín. Hef kennt þeim bænir og á hverju kvöldi eyði ég smá stund með þeim upp í rúmi, strýk á þeim bak eða handlegg, segi bænirnar og signi.

Stundum höfum við Gelgjan rætt Guð og trú. Hún hefur spurt mig hvort ég trúi og hverju ég trúi. Og ég hef ætíð gætt þess að fullyrða ekki neitt, heldur útskýrt hverju ég trúi og á hvaða hátt. Hef líka sagt henni að það séu mismunandi trúarbrögð í heiminum og ekki kalli allir sinn guð sama nafni.

Í vikunni hrikti aðeins í stoðunum hjá mér. Gelgjan var að læra heima í kristinfræði og námsefnið var boðorðin og einhverjar dæmisögur. Það sem kallaði fram nýja og óþekkta tilfinningu í þá átt að finnast boðskapurinn óásættanlegur var dæmisagan um týnda sauðinn.

''Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.' Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf’’.

Að lesa þetta, og horfa á, með augum dóttur minnar þá fannst mér skilaboðin vera eitthvað á þessa leið: Gefa bara skít í þá sem haga sér almennilega til að elta uppi einhvern vitleysing og dyntina í honum. Eða eins og þetta er orðað í þroskaþjálfa bransanum: að verðlauna óæskilega hegðun.

Gelgjan átti að segja hvaða merkingu hún legði í þessa dæmisögu og bað mig um hjálp. Ég gerði mitt besta. Las söguna yfir mörgum sinnum og margbyrjaði á einhverri gáfulegri útskýringu.

Skyndilega datt upp úr mér: Veistu það Anna Mae að þetta er bara bull.

Hún horfði á mig með vandlætingarsvip og sagði þóttalega; ég trúi á Guð.

Já elskan mín, það geri ég líka, sagði ég. En það þýðir ekki að ég trúi öllu sem stendur í biblíunni.

Þetta fékk mig til að spekúlera í kristinfræðikennslu í barnaskólum. Sjálfri þótti mér gaman í kristinfræði í skóla og fékk alltaf háar einkunnir í faginu. Ólst upp við kristna trú en fékk fyllilega að mynda mér mínar eigin skoðanir.

Þarna yfir skólabókunum með Gelgjunni fór ég að hafa áhyggjur af því að hún væri ekki að mynda sér sínar eigin skoðanir heldur af kennslubókum. Því kennslubækurnar kenna kristna trú eins og hún sé það eina sanna, biblían staðreynd og óvéfengjanleg. Biblíuna er vissulega hægt að túlka á marga vegu. En þegar maður er 10 ára þá túlkar maður ekki. Maður les og annaðhvort tekur maður trúanlega eða ekki. Eða hvað?

Ég held að það sé kominn tími til að taka kristinfræði út af stundaskrá barnaskólanna og taka upp trúabragðafræði. Kenna á hlutlausan hátt um hin ýmsu trúarbrögð í heiminum.

 

Næst vel ég gufuna takk

 

Í dag hugsaði ég mér gott til glóðarinnar eftir vinnu.

Alla jafna get ég ekki farið í ræktina eftir vinnu, þar sem ég þarf að vera komin heim í tíma fyrir Þann Einhverfa. En hann fór í skammtímavistunina í dag og Gelgjan á fimleikaæfingu. Mér fannst ég frjálsasta manneskjan í öllum heiminum.

Planið var að fara í ræktina kl. 16:30 og taka allan pakkann. Nýta allar 50 mínúturnar sem eru í boði, fara í sturtu á eftir og svo í GUFU. Fíla mig eins og Hollywood stjörnu sem væri á launum við að liggja í dekri og vera á egó-flippi.

En stundum fara hlutirnir ekki eins og ætlað er, ég rauk út úr vinnunni allt of seint, keyrði til Báru vinkonu minnar (JSB) og 2 mínútur í leikfimitíma var ekkert stæði að finna. Ég tók skyndiákvörðun. Ég þoli ekki að missa af upphitun í þessum tímum svo ég ákvað að drífa mig heim, galla mig upp og fara með Vidda hund hringinn í kringum Rauðavatn. Þessi göngutúr tekur klukkutíma ef ég geng rösklega og það er jafn góð líkamsrækt og hver önnur. Að vísu er engin vatnsgufa heima hjá mér en alveg ágætis sturta.

Um leið og Viddi sá mig taka fram gönguskóna og vindbuxurnar byrjaði hann að hoppa og hringsnúast í forstofunni eins og upptrekktur leikfangahundur. Upp, vinstri snúningur, upp, hægri snúningur...

Loksins var kellingin komin í allan gallann og út héldum við. Regndroparnir voru kaldir viðkomu en það var næstum því logn. Viddi var eins og kálfur á vori og afskaplega kátur.

Niðri við Rauðavatn höndlaði hann illa spenninginn þegar úr einni átt nálguðust okkur tveir hestar með knapa og kona með svarta labradortík úr annarri. Viddi byrjaði að gelta enda Íslendingur af lífi og sál og vildi fá að þefa af þeirri svörtu. Fannst hún eflaust afar myndarleg og spennandi. Labradortíkin var laus, enda hlýðin og róleg stelpa.

Ég bauð glaðlega góðan dag en tíkin sýndi Vidda netta fyrirlitningu og eigandi hennar sýndi okkur báðum ýkta fyrirlitningu. Hunsaði kveðjuna frá mér og strunsaði áfram. Fannst þessi geltandi íslenski vitleysingur hvorki sér né tíkinni samboðin og ég sennilega mjög neðarlega í goggunarröðinni fyrir að eiga hund sem geltir.

Við Viddi héldum í humátt á eftir þeim mægðum, ég hálfmóðguð en Viddi fann greinilega lyktina af tíkinni allan hringinn í kringum fjandans vatnið og hagaði sér eins og vitleysingur. Það verður sko klippt undan honum fljótlega.

Skömmu seinna mættum við virðulegum bulldog með eiganda sínum. Viddi sýndi enga stillingu frekar en fyrri daginn og rauk til á hans allra heilagasta. Sko hundsins. Vonaðist sennilega til að hafa hitt á aðra tík. Bulldoginn var ekki par hrifinn af þessum yfirgangi, urraði valdsmannslega  og áður en Viddi vitleysingur vissi hvaðan á sig stóð veðrið, lá hann skjálfandi undir hundinum og þorði sig ekki að hreyfa. Hinn stóð virðulegur og sigri hrósandi yfir honum og vissi sem var, að hann hafði sýnt Davíð hvar hann keypti ölið.

Það hlakkaði örlítið í mér og ég róaði órólegan eigandi hundsins sem hélt sennilega að ég yrði brjáluð. Ég veit bara að ef Viddi væri krakki þá væri hann lagður í einelti í skóla því hann færi svo í taugarnar á hinum krökkunum. Öðrum hundum finnst hann bara ótrúlega pirrandi.

Við komum heim eftir klukkustundar göngutúr, blaut eins og hundar af sundi dregnir. Ég fann hvorki egóistann né Hollywood stjörnuna í sjálfri mér á þessum klukkutíma.

 


Ofbeldi á konum og börnum - Opnum umræðuna upp á gátt

Hún Dísa Dóra er að opna umræðuna svo um munar með sínu framtaki.

Samtökin Styrkur - Úr hlekkjum til frelsis er undan hennar rifjum runnið og segir sitt um kjark og ákveðni þessarar konu. 

Ég er svo heppin að í vinnunni hefur verið afar rólegt það sem af er degi. Ég hef eytt tímanum hér opinmynnt við lestur reynslusagna á þessari heimasíðu. Það er alveg ljóst að ég mun lesa hvern krók og kima hennar í kvöld þegar ég hef hent börnunum blíðlega í rúmið.

Það er alveg með ólíkindum hvað sum börn og konur þurfa að lifa við. Og svo er reistur múr í kringum fjölskylduna, sem enginn kemst í gegn um. Börn og konur lifa í andlegri og/eða líkamlegri kvöl og þögn. Þögnin er það versta því hún er leyfisbréf geranda ofbeldisins til að stunda sína iðju óáreittur.

Í gær átti ég tal við yndislega konu sem er innvikluð í Stígamót. Hún segir það staðreynd að opin umræða hefur átt stóran þátt í því að nú leita fórnarlömb kynferðisofbeldis sér hjálpar og aðstoðar mun fyrr á ævinni.

Og það sem meira er, að þau eru betur í stakk búin til að takast á við og bægja frá ranghugmyndum um eigin sök á ofbeldinu og skömminni sem sem eru ófrávíkjanlegir fylgifiskar.

En betur má ef duga skal. Það þarf að halda umræðunni galopinni og sjá til þess að nágrannar, vinir, ættingar og aðrir sem verða varir við hverskyns heimilisofbeldi hiki ekki við að láta vita af slíku. Það þarf líka að sjá til þess að almenningur jafnt sem yfirvöld líti heimilisofbeldi jafn alvarlegum augum og ofbeldi gagnvart ókunnugu fólki.

Það er líka annað sem gleymist og ekki allir gera sér grein fyrir. Og það er að allir... allir geta fundið sig í þessum aðstæðum. Hversu margar konur hafa ekki komið fram... sterkir karakterar, sjálfstæðar konu á framabraut, uppfullar af sjálfstrausti.. og sagt frá því hvernig þær voru brotnar niður á lúmskan og markvissan hátt þar til ekkert var eftir annað en rústir einar.

Fordómarnir eru miklir og ég er svo sannarlega ekki saklaus af þeim. Ég er samt að þroskast og læra og skilja meira. Guði sé lof. Það væri ekki mikið vit í lífinu ef maður lærði ekki stöðugt eitthvað nýtt. Það eru ekki bara heimskar, illa menntaðar, veikgeðja konur sem lifa við ofbeldissambönd. Og það sama gildir um gerandann.

Munið bara að þið þekkið örugglega einhvern sem felur eitthvað á bak við veggi heimilisins. Jafnvel glæp í sinni verstu mynd.

Kíkið á Dísu Dóru og verið dugleg að kommenta. Sýnið í verki að framtakið er mikils virði og vel metið og takið beinan eða óbeinan þátt í því.

 


Ég er ítölsk trukkalessa

 

Ég var full í gær. Og skemmti mér viðurstyggilega vel. Undanfarinn voru operation fundir í vinnunni síðustu tvo daga sem á mættu starfsmenn frá erlendu stöðvunum.

Í gærkvöldi fór svo allt liðið út að borða og lögðum við Vínbarinn undir okkur í það. Borðaður var dýrindismatur og drukkið enn meira dýrðarvín. Slatti af því. Einn af starfsmönnunum okkar frá Brussel sat opinmynntur við borðið. Held hann hafi verið hálf hrærður yfir því hvað við erum skemmtileg hérna á klakanum og ekki síður yfir því hversu rugluð við erum með víni.

Þarna hitti ég Theresu frá NY sem ég tala við næstum daglega í síma, en við höfum aldrei hist. Það urðu fagnaðarfundir og við smullum.

Í gærkvöldi hitti ég líka mann sem einu sinni var yfirmaður minn. Fyrir mörgum mörgum árum síðan. Það var yndislegt að hitta hann og rifja um rúmlega 20 ára gamla tíma. Þegar ég var 16 ára og þótti hann bara kall. Hann var þá 22 ára. Knús til þín Á.B.

Eins og drukknum Íslendingum (og reyndar útlendingum líka) er von og vísa vorum við ekki búin að fá nóg klukkan eitt þegar staðirnir loka. Röltum um miðbæinn og þá voru einhverjir orðnir svangir og við fórum inn á Nonnabita þar sem steiktir eru svona brauðbátar með allskonar misgirnilegu áleggi. Inn á þessum litla, steikingamettaða stað, situr misdrukkið fólk og gúffar mismikið í sig. Orðið banhungrað eftir alla áfengisdrykkjuna.

Þarna inni datt ég í spjallgírinn eins og ég á til. Við bláókunnugt fólk. Eiginlega bara krakka. Böggandi kerling.

Eftir þetta lá leiðin upp á hótel þar sem úttttlendingarnir okkar dvöldu á meðan þeir stoppuðu á landinu. Þar var spjallað og ruglað þar til ég loksins ákvað að kominn væri tími til að halda heim. Það var ansi seint.

Ég skrollaðist hérna inn úr dyrunum heima. Afklæddi mig í svefnherbergisholinu svo ég myndi ekki trufla Bretann of mikið, burstaði tennur og skreið pen og hljóðlát undir sæng.

Bretinn svaf lítið það sem eftir lifði nætur. Og það var ekki út af áfengisangandi konunni hans eða hrotum í henni.

It was like an Italian lesbian truck driver had crawled into my bed, sagði Bretinn í morgun. The smell was awful. Hann var þreytulegri en ég.

Þegar ég tók fötin mín og rak þau upp að nefinu á mér þá skyldi ég aumingja manninn. Steikingafýlan frá Nonnabitum var ekki af þessum heimi.

Í allan dag hefur Bretinn líkt mér við ítalska trukkalessu og það er ekkert lát þar á. Hann er sennilega líkari mömmu sinni, Litla Rasistanum, en ég hélt.

Og hvað lærði ég?

Að maður étur undir beru lofti á fylleríi.

 


Gestabókin mín

Ég gleymi alltaf að kíkja í gestabókina mína hér á blogginu. Svo gerði ég það um daginn þegar Edda bloggvinkona sagðist hafa skilið eftir skilaboð til mín þar.

Mikið svakalega gladdi það mitt litla hjarta að sjá allar kveðjurnar í gestabókinni. Gaman að sjá þar skilaboð frá bloggvinum.

Yndislegt að rekast þar á nöfn fólks úr fortíðinni sem ég hef hvorki séð né heyrt í mörg herrans ár. Allt upp í 20 ár takk fyrir.

Svo var agalega gaman að fá kveðju frá ömmu-Brynju Nordquist.

Sérstaklega þótti mér vænt um að sjá kveðjur frá fólki sem á börn með þroskahömlun. Það er svo góð tilfinning að skrifin mín vekji samhug.

Kærar þakkir til ykkar allra.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1639949

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband