Leita í fréttum mbl.is

Prestur á glapstigu

 

Hagstofa Íslands - Þjóðskrá

8. október 1998

Þjóðskrá hefur borist skírnarskýrsla frá séra Braga Skúlasyni, vegna skírnar hans á syni Jónu Ágústu Gísladóttur og Nicholas Anthony Cathcart-Jones hinn 11. september 1998. Drengurinn var skírður eiginnöfnunum Ian og Anthony.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996, er Þjóðskrá óheimilt að skrá eiginnöfnin Ian og Atnhony að svo stöddu, þar sem þau nöfn eru ekki á mannanafnaskrá.

Með vísan til þessa og samkvæmt heimild í ofangreindri lagagrein er eiginnöfnunum Ian og Anthony hér með skotið til úrskurðar mannanafnanefndar.

Tekið skal fram að sé eiginnafn ekki á mannanafnaskrá er presti hvorki heimilt að samþykkja það að svo stöddu né gefa það við skírn heldur skal nafnið borið undir mannanafnanefnd. Presturinn hefur því ekki fylgt skýru ákvæði 1. mgr. 3. gr., sbr. og 2. mgr. 10. gr. mannanafnalaga. Rétt þykir að upplýsa viðkomandi prófast um málavöxtu.

Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri

 

Ég man hvað ég hafði miklar áhyggjur af aumingja prestinum eftir að ég fékk þetta bréf. Hélt að hann yrði tekinn á beinið og settur í skammarkrókinn. Bréfið hljómar eins og manngarmurinn hafi gerst sekur um hræðilegan  og refsiverðan glæp.

Sá Einhverfi hét drengur í Þjóðskrá í ein þrjú ár. Þetta var fyrsta baráttan sem var háð fyrir hans hönd. Ég fékk þær upplýsingar frá Hagstofunni að ef við bara bættum við einu íslensku nafni aftan við Ian Anthony þá gengi þetta allt saman í gegn. Það var sem sagt málið. Að aumingja barnið með útlenska nafnið fengi allavega eitt gott og gilt íslenskt nafn, s.s. Karl eða Sveinbjörn eða eitthvað slíkt.

Ég þrjóskaðist við. Eina skiptið sem ég var í þann veginn að gefa eftir var þegar ég uppgötvaði að án nafns fengi hann ekki vegabréf og án vegabréfs gat ég ekki tekið barnið til útlanda. En í staðinn fyrir að gefa eftir þá eiginlega tjúllaðist ég og krullaðist upp í kuðung af þrjósku einni saman. Fékk bráðabirgðavegabréf með nafninu Drengur á. Meira andskotans ruglið.

Svo einn góðan veðurdag fékk ég bréf þess efnis að skapast hefði hefð fyrir nafninu Anthony á Íslandi og málið var dautt. Ég held þeir hafi sleppt prestinum á skilorði á svipuðum tíma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Blessað kerfið, getur alveg gert mann tjúllaðann.  Gott að drengur fékk þó sitt rétta nafn. 11.sept. er annars afmælisdagur sonar míns, góður dagur.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.11.2007 kl. 00:12

2 identicon

Ja, ef þetta var/er ekki rasismi, hvað er þá rasismi? Ísland er dásamlega fyndið land. ...bara íslensk nöfn, já, takk. Þótt þetta hafi nú aðeins skánað með já...hefðum og svoleiðis..

Smá útúrdúr..þegar ég skrifa nafnið mitt í bloggið og fer svo yfir með púka, þá kemur nafnið mitt alltaf inn sem villa

Góða nótt.

alva (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 00:14

3 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Arrrgh!!! Tara mín hét einmitt Stúlka Laufeyjardóttir þangað til hún þurfti vegabréf og ég samþykkti Tara Laufeyjardóttir. Málið var að ekki fékkst samþykkt nafnið Jehlisa sem er millinafn hennar. Presturinn skírði hana án nokkurra athugasemda en ég fékk aldrei svona bréf. Ég er boðin og búin að mæta nakin með kröfuspjöld á borð þessarar ágætu nefndar ef maður nú fengi að hitta hana! Þau koma bara til manns skilaboðum án þess að maður fái að tjá sig. Barnið heitir bara einu nafni í þjóðskrá en tveimur hjá okkur. Þetta er ósanngjarnt.

Ian Anthony er fallegt nafn og til hamingju með að hafa kreist því í gegn!
 

Laufey Ólafsdóttir, 23.11.2007 kl. 00:34

4 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Þetta er bráðfyndið í endurliti, get ég ímyndað mér, þó eflaust hafi þetta valdið talsverðum hárgráma á sínum tíma.

Íslendingar eru enn þann dag í dag óttalegir molbúar og plebeiar að mörgu leyti, og mannanafnanefnd er nú eitt galnasta ríkisbatteríið af þeim öllum. Það hefur ekki hvarflað að þér, Jóna, að skíra bara Þann Einhverfa einhverju góðu og gildu íslensku nafni sem Mannanafnanefnd hefur velþóknun á, eins og Kaktus Fabrisíus? Eða Ljósálfur Merkúr? Hvað með Þjóstar Saxi?! Þetta er allt saman í besta lagi hvað Mannanafnahefnd áhrærir. Þá hefðir þú hvorki fengið ákúrur frá skrifstofustjóranum né vesalings guðsmaðurinn farið á skírnarskilorð.

Meira vesenið á þér

Jón Agnar Ólason, 23.11.2007 kl. 00:43

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Jáhá, Skúla þennann Guðmundsson þekkti ég nú ágætilega í den í gegn um tengdir, & kaffært þann mömmustrák rækilega í heitum potti.  Get upplýst það & skúbbað hér með um að hann er fyrirmyndin af möppudýrinu sem að þurfti að hafa allt mjög nærri sér, sem að Siggi Sigurjóns gerði að einni ódauðlegri persónu í Spaugstofunni.

Á þessum tíma tóku einhverjir pirraðir rittarar í stjórnarráðinu setu sína í mannanafnanefnd full alvarlega.  Ári áður en sá yndislegi sem þú ritar svo kærlega & fallega um, þá mætti ég til kirkju með einkadóttlu mína til skírnar.

Sérann sá, sem að ég nefni nú ekki, til þess að forða honum einhverjum vanda, tjáði mér fyrir skírnina að mannanafnanefnd samþykkti ekki hennar nafn.

Ég horfði orðlaus á hann, með gapandi gin, náði ekki að segja eitt HA, hann setti hönd sína á öxlina á mer & sagði. 

"Ég hins vegar er orðinn þreyttur á þessu bulli þaðan, við skulum fara fram & skíra litlu stelpuna þína"

Hún heitir því í sínu vegabréfi, Bertha Þórbjörg Steingrímsdóttir í höfuðið á ömmu sinni & langömmu minni.

Ef þessi nöfn voru á bannlista á þessum tíma, þá skil ég nú alveg ergelsið í þér.

Steingrímur Helgason, 23.11.2007 kl. 00:55

6 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

LOL, pabbi minn þurfti á sínum tíma að fá sér íslenskt nafn til að gerast íslenskur ríkisborgari. Hann var eftir sem áður kallaður "Brúsi" í nánasta hring, fyrst um sinn, þó að hann hafi þurft að missa millinafnið Bruce, og fá að auki íslenskt eftirnafn. Magnússon varð fyrir valinu þó að pabbi hans hafi ekkert heitið Magnús. Fáránlegt bara.

En ég var voða fegin, uppi á spítala þegar ég lá á fæðingardeildinni á sínum tíma. Þegar ég fann nafnið "Tristan" í nýútgefnum bæklingi frá Mannanafnanefnd um nöfn sem búið var að samþykkja nýlega.  

Bjarndís Helena Mitchell, 23.11.2007 kl. 07:51

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Hvaða refsingar eru við svona brotum? Þarna hafa menn sýnt harðan brotavilja.
Hvað með gæludýrin? Þar er nú víða pottur brotinn varðandi nafngiftir og þarf Nafnastofa ríkisins nú aldeilis að bretta upp ermarnar.

Júlíus Valsson, 23.11.2007 kl. 08:33

8 Smámynd: Þröstur Unnar

Gott að þú lést ekki undan, og Ian Anthony er óggisslega fallegt nafn.

Þröstur Unnar, 23.11.2007 kl. 08:46

9 Smámynd: Linda litla

Þetta er alveg ótrúlegt. En nafnið Ian Anthony er fallegt og hann heldur því.

Linda litla, 23.11.2007 kl. 09:03

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Alveg eru þau furðuleg þessi mannanafnalög og bera ekki greind þingmanna gott vitni.

Manni skilst að lögin séu sett til að passa að fólk skíri ekki börnin sín einhverjum ónefnum, svona eins og það sé nýbökuðum foreldrum yfirleitt efst í huga að finna nógu asnalegt nafn á barnið sitt!

Svo setur nefndin sér reglur til að nota til að skera úr í málum. Og hver er útkoman? Algeng, falleg nöfn af erlendum uppruna eru harðbönnuð. En ónefnunum fjölgar sem aldrei fyrr, bara ef þau "falla að beygingareglum".

Er ekki kominn tími til að breyta þessu? Kannski Steinunn Valdís ætti að einbeita sér að því frekar en ráðherraþvarginu fyrst henni er svona annt um hvað fólk heitir!

Þorsteinn Siglaugsson, 23.11.2007 kl. 09:22

11 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Mér finnst þetta alltaf hreint ótrúleg afturhaldssemi. Þó svo að verið sé að koma í veg fyrir afkáranleg nöfn og alger ónefni sem hefur reyndar verið reynt að gefa börnum þá má nú aðeins skoða þetta betur. Hins vegar finnst mér skrítið þetta með að tengja nafnagjöf og skírn saman. Minn elskulegi prestur Sr. Þórir Stephensen sem bæði fermdi mig, gifti og skírði börnin mín aðskildi þetta tvennt. Þegar börnin mín voru skírð spurði hann: "Hvað heitir barnið"?. Þegar barn er skírt er verið að vígja það inn í söfnuð kristinna manna. Foreldrar eru þeir sem að gefa barni sínu nafn og eiga að hafa rétt til þess sé nafnið ekki "út úr kú" eins og krakkar segja gjarnan.  Ian og Anthony eru mjög venjuleg ensk nöfn. Ein ágæt vinkona mín lenti í vandræðum á sínum tíma að fá að gefa barninu sínu nafnið Ingrid, sem er gamalt norrænt nafn og er til hér á landi. Það má nú aðeins fara að slaka á þessum ósköpum.

Sigurlaug B. Gröndal, 23.11.2007 kl. 10:13

12 identicon

Þú átt alla mína samúð í þinni baráttu, dropinn holar harðan stein!

Ég lenti í þessu sama 1992 þegar séra Jón Bjarmann skírði strákinn okkar hjóna og fékk hann tvö nöfn í höfuð afa hans.  Einhverjum mánuðum seinna kemur bréf frá þessari fínu nefnd sem við þekktum nú ekkert þá og afrit af því sent presti um að seinna nafnið fengist ekki samþykkt.  Bæði við og séra Jón beittum okkur fyrir því að fá nafnið skráð en öll okkar rök höfðu ekkert að segja í baráttu við þessa nefnd sem var til húsa í einhverju pósthólfi í Reykjavík, en formaðurinn var Guðrún Kvaran.  Það var ekki fyrr en þessi nefnd lét af störfum og nýjir tóku sæti í nefndinni að við sóttum um nafnið að nýju og fengum það þá samþykkt, en þá var litið á það að verið væri að bæta við nafni og kostaði það á þeim tíma 5.000,-

Baldur (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 10:19

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

knús til þín

Kristín Katla Árnadóttir, 23.11.2007 kl. 11:00

14 identicon

Merkilegt. Þorsteinn Siglaugsson segir einkum tvennt:

a)

Manni skilst að lögin séu sett til að passa að fólk skíri ekki börnin sín einhverjum ónefnum, svona eins og það sé nýbökuðum foreldrum yfirleitt efst í huga að finna nógu asnalegt nafn á barnið sitt!

og

b)

Algeng, falleg nöfn af erlendum uppruna eru harðbönnuð. En ónefnunum fjölgar sem aldrei fyrr, bara ef þau "falla að beygingareglum".

Hver kemur eiginlega með öll þessi "ónefni" skv. b, því skv. a eru það sko ekki foreldrarnir.

Þ (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 11:07

15 identicon

Hæ þú skemmtilega kona! Hef nú oft lesið en aldrei náð svo langt að kommenta en þú ert bara ótrúlega frábær penni og algjört möst að kíkja á þig reglulega.

En já með nöfnin ég hef nú fengið minn skerf af því þar sem ég bjó í Danmörku og sonur minn mátti ekki fá eftirnafn eins og gerist á Íslandi. Hann var skírður á Íslandi til að þetta gæti gengið upp, en einhver mjög skipulögð skrifstofukona sá að þetta gengi ekki og hann yrði að fá eftirnafn mitt eða föður sín og hvort vildum við??? Þetta tók á og á endanum fékk barnið eftirnafn mitt, betra að hafa það bara fáranlegt og var hann s.s. drengur sem var "dóttir afa" síns í rúmt ár eins og við túlkum þetta á Íslandi ;)

Sem betur fer var lögunum breytt og þessu var hægt að breyta á endanum :)

Góða helgi! Kv. Guðbjörg V.

Guðbjörg V. (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 12:51

16 Smámynd: Halla Rut

Væri ekki bara best ef að ríkið mundi finna nöfn á ormana okkar fyrir okkur. Þá þyrftum við ekki að vera velta þessu fyrir okkur í alla þá mánuði sem við erum að baka barnið og svo mundi engin vera að gagnrýna nafnið því maður væri annað hvort "heppin" eða bara "óheppin" með nöfnin.

Ég mátti fyrir 14 árum ekki hafa C í seinna nafni sonar míns "Viktor"  

Alveg ótrúlegt þegar ríkið fer að potast í mans einkamál. Og hvað kostar svo að halda uppi þessari nafnalöggu sem enginn vill.

Halla Rut , 23.11.2007 kl. 13:20

17 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

 það er aldeilis ótrúlegt að fá ekki að skíra börnin svona "venjulegum" nöfnum,en svo er samþykkir þessi blessuð mannanafnanefnd nöfn eins og LJÓTUR  það mér finnst ljótt! 

Halla Rut má ekki hafa c í Viktor, barnabarn mitt hefur ekki í þjóðskrá Y í sínu nafni, en við skrifum það hinsvega ÆTÍÐ þannig hehehehe 

Ian Anthony er bara flott og til lukku með að hafa náð þessu í gegn! 

Guðrún Jóhannesdóttir, 23.11.2007 kl. 13:46

18 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Fyrir nokkrum áratugum flutti hingað maður frá Danmörku. Honum var gert að taka upp íslenskt fornafn og auðvitað mátti hann ekki heldur halda danska ættarnafninu. Hann játaði sig ekki sigraðan fyrr en í fulla hnefana, tók þá upp íslenskt fornafn, fékk að halda danska skírnarnafninu sínu sem millinafni og tók upp íslenskt eftirnafn.

Þetta fékk hann svo staðfest frá fínni, íslenskri nefnd og undir bréf nefndarinnar kvittuðu Möller, Briem og Thors

Hann hafði gaman af þessu, enda maður með húmor. Svo rölti hann einfaldlega niður á Hagstofu, fyllti út skjal sem heimilaði honum að fella niður fyrra fornafnið sitt og notaði æ síðan danska nafnið sitt

Ragnhildur Sverrisdóttir, 23.11.2007 kl. 15:07

19 Smámynd: Sporðdrekinn

Það er nú ekki bara þessi fína nefnd sem vill afbaka og breyta nöfnum, maðurinn minn er ekki Íslenskur en nafnið hans er ekkert ósvipað einu Íslensku nafni, fólk var í því fyrsta árið hans heima að kalla hann þessu Íslenska nafni. Ég og Jón Páll heitin vorum hörð við manninn minn og sögðum honum að svara ekki hinu nafninu þar sem að það væri ekki hans, ég held að flestir séu búnir að ná þessu eftir tæp 17 ár, það er þó einn og einn sem þykist hafa rétt á að Íslenska nafnið hans, ég sný þá niður á staðnum

Sporðdrekinn, 23.11.2007 kl. 17:25

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skrifræðið er ótrúlegt í "mikilfengleika" sínum.  Og hrokinn maður minn.  Það er ekki langt síðan að útlendingar sem fengju ríkisborgararétt urðu að taka íslenskt nafn. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.11.2007 kl. 18:08

21 Smámynd: Ómar Ingi

Prestar eru fallistar háskólans  og algerlega óþarfir með öllu þar að segja ef fólk gæti nú sleppt þessu trúarbulli sínu og þá væri heimurinn okkar nú fyrst betri.

Think about it .

Ómar Ingi, 23.11.2007 kl. 18:37

22 Smámynd: Elísabet Sóley Stefánsdóttir

já þetta er sko ótrúlegt.   Rebekka mín var skírð Rebekka Hólm en má ekki heita Hólm og er því bara Rebekka Halldórsdóttir.  Sum nöfn má nú mannanafnanefnd alveg skipta sér af en kommon!!!!

En gott að sá einhverfi er ekki lengur drengur

Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 23.11.2007 kl. 19:59

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég fékk tvær litlar Cesiljar í sumar, nema hvað þessi svokallaða mannanafnanefnd er að rasskastast í Cesil nafninu.  Þó fékk ég sjálf loks í vor staðfestingu á því að ég mætti heita Cesil eftir afa mínum sem hér Cesilíus.  Í nokkra áratugi stóð ég í ströggli við að fá þetta staðfest, þeir vildu að ég skrifaði nafnið mitt Secil, sem mér finnst eiginlega vera eins og Stencil.  Bara ljótt.  Er ætli þetta fólk hafi ekkert þarfara við tímann sinn að gera en að eltast við þau nöfn sem við gefum börnunum okkar ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 20:07

24 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Einn frægur tengdasonur Íslands þurfti aldrei að íslenska nafnið sitt, heldur var byggt undir hann heilt hús ... Vladimar Askenasy (hmm, rangt skrifað), enda hefði það verið skelfilega hallærislegt, eins og hjá öðrum ... Ánægð með að þú gafst þig ekki í þessu. Þekki eina litla Apríl ... en mamma hennar hefur þurft að berjast heilmikið við mannanafnanefnd, veit reyndar ekki hvort búið er að leyfa nafnið. Hún fékk þau rök að drengir á Íslandi mættu bera mánaðanöfnin, ekki stelpurnar. Sé fyrir mér drenginn Apríl flytja til Bandaríkjanna eða Bretlands ... arggg!

Guðríður Haraldsdóttir, 23.11.2007 kl. 20:08

25 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Úff, alveg furðulegur þessi nafnafasismi hér.

Fólk eignast barn og er treyst til að koma því til manns, en er ekki treyst til að velja því nafn!

Henær verður stofnuð klæðaburðarnefndin sem mun gæta þess að foreldrar láti börn sín ekki ganga í of púkó, eða lélegum, fötum sem gætu gert þau að skotmarki eineltis?

Nú eða matvælanefndin? Ekki má láta börnin fara þannig nestuð í skólann að híað verði á þau!

Brjánn Guðjónsson, 23.11.2007 kl. 21:08

26 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Knús til þín og Ian Anthony.

Svava frá Strandbergi , 23.11.2007 kl. 22:08

27 Smámynd: Bergdís Rósantsdóttir

Þessi nefnd er alveg ótrúleg.  Ég fékk synjun á nafnið á unglingum þar sem það endaði á -berg og það samræmdist ekki íslenskum beygingareglum og hét hann **bergur í þjóðskrá þangað til rétt fyrir fermingu þegar við fengum því loksins breytt með voða fínu bréfi frá Dómsmálaráðuneytinu.  Ótrúlegt að þurfa að berjast á öllum vígstöðum fyrir þessa elsku.  Sonur þinn er með flott nafn sem passar flottum strák.

Knús og kram 

Bergdís Rósantsdóttir, 23.11.2007 kl. 22:37

28 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Brjánn-Sumu fólki er nú varla treystandi til að velja nafn á barnið sitt... það er ein stelpa í bekknum hjá stráknum mínum sem heitir Sólbrún.... svo þekki ég eina konu sem var skírð Mjallhvít Aþena...

En svo er gert eitthvað mál yfir svona eins og þessu dæmi sem þú nefnir hér í blogginu þínu... asnalegt

Mjööög fallegt nafn Ian Anthony

Guðríður Pétursdóttir, 23.11.2007 kl. 22:39

29 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hefur nokkurntíma verið gefin rökræn ástæða fyrir þessum höftum eða bara  mannanafnanefnd yfirleitt?  Þetta er einhverstaðar aftan úr svörtustu forneskju. Fólk má skýra barnið sitt Satan fyrir mér, en ég á erfitt með að skilja af hverju það fólk er að fara í kirkju til þess. Smá hint af ósamkvæmni þar.

Nú ef prestar neita persónulega að skýra ákveðnum nöfnum, þá getur fólk leitað sér að einhverjum sem vill gera það. Ef að litið er á leyfileg íslensk barnanöfn, þá skilur maður varla þvergyrðingsháttinn því sum nafnanna eru hreint einelti á börnin.  Dæmi: Friðgjarn, Jólavía, Frumrósa, Bernaðdína, Ljótur, Meyvant, Kristall, Skæringur, Bæringur Tandri, Snekkja, Lýsandra, Yrja, Frúgit, Gíslnú og hneta, svo eitthvað sé nefnt. Pælum í því.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.11.2007 kl. 23:23

30 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gíslný og Hneta var það.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.11.2007 kl. 23:24

31 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hahahaha Gíslnú hehe. Samt ekkert fáránlegra en mörg önnur nöfn sem þú telur upp. Takk öll fyrir frábærlega skemmtileg komment. Það er greinilegt að mannanafnanefnd er ekki og hefur aldrei reyndar, verið af baki dottin.

Jóna Á. Gísladóttir, 23.11.2007 kl. 23:43

32 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Meil

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.11.2007 kl. 00:35

33 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Og aftur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.11.2007 kl. 00:50

34 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Sorrý, varð að snúa aftur og hlæja að fyrirsögninni! Prestur á glapstigu Jóna! Ekki gera mér þetta!

Burtu með þessa ljótu nefnd! sýnist ekki vera stemmning fyrir svona almennt. 

Laufey Ólafsdóttir, 24.11.2007 kl. 01:40

35 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ef þú hefðir skírt hann Eilífur Friður þá hefði það farið í gegn

Ian Athony er mjög fallegt nafn.  

Marta B Helgadóttir, 24.11.2007 kl. 10:29

36 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

já hugsaðu þér, ekkert mál með EILÍFAN FRIÐ en Ian Anthony skiptir náttúrulega allt öðru máli aaaaarg!  Hvort er nú betra fyrir barnið ? að bera erlent nafn eða heita t.d. Eilífur Friður ? þessi mannanafnanefnd!

Góðan dag ætlaði ég að segja

Guðrún Jóhannesdóttir, 24.11.2007 kl. 12:15

37 identicon

Alveg merkilegt hvað fólk lendir í miklu basli ef eitthvað passar ekki inn í regluverkið. En mér finnst þessi nöfn hljóma svo fallega Ian Anthony

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 21:03

38 Smámynd: K Zeta

Ríkið vill ákveða svo margt fyrir okkur en það er nú samt að lagast hægt og rólega.  Ekki fyrir löngu var einungis hægt að fá appelsínur í apótekum gegn framvísun læknistilvísunar.  Svo er fólk að skipta sér af fallegri auglýsingu á lyftara og vill að ríkið ákveði auglýsingar, klæðnað kvenna, laun í einkafyrirtækjum ofl.  1984 takk fyrir en ekki Stóri Bróðir heldur Stóra Systir.

K Zeta, 26.11.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband