Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fitupælingar

 

Það eru margar spurningar sem koma upp í huga mér við lestur þessarar fréttar.

a) Ef meðalkonan er orðin 76 kg afhverju eiga þá konur sem eru jafnvel mun léttari en það, í erfiðleikum með að fá á sig föt í ''venjulegum'' fataverslunum?

Ég myndi halda að kona sem er 76 kg notaði á föt nr 12, 14 eða 16, eftir því hvar á kroppnum aukakílóin hafa tekið sér bólfestu. Í mörgum tískuverslunum er 12 það stærsta sem fæst. Þá þarf að leita til sérverslana sem reyndar eru yfirleitt með vandaða vöru, en samkeppnin er ekki mikil og því lítið um ódýra vöru. Afhverju breytast ekki framboð á fatastærðum á Skerinu í takt við fitnandi þjóð?

b) Hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld litið til hennar Ammmríku og spáð í hvaða hópur er hvað feitastur þar?

Það er ekki efnaða fólkið sem spænir í sig mat í takt við ríkidæmið. Nei, það er efnalitla fólkið sem lifir á skyndibita því hann er svo ódýr. Við erum á hraðferð á sama stað. Það er orðið svo dýrt að versla hollan og góðan mat að oft á tíðum er ódýrara, að ég tali nú ekki um fljótlegra, að tæta á næsta MacDonalds, Kentucky eða bara Skalla og versla í kvöldmatinn fyrir 5 manna fjölskyldu. Hvar er Mr. Scheving, bæjarstjóri Latabæjar. Ætti hann ekki að vera að berja boðskapinn inn í hausa íslensku ráðamannanna. Ekki virðist veita af.

c) Afhverju hefur íþróttatímum í grunnskólum ekki fjölgað frá því á árinu sautjánhundruðogsúrkál?

Eftir því sem ég best veit eru íþróttatímar  ennþá aðeins 2x í viku á stundaskrá. Eins og þegar ég var krakki. Sem var á þessum tímum, muniði.. allir krakkarnir í hverfinu úti að leika. Hlaupandi allan daginn. Máttum ekki vera að því að fara heim til að spæna í okkur grautinn og slátrið. Auðvitað ætti að vera skipulögð hreyfing í grunnskólunum í 30 mínútur hvern dag. Þarf ekki að fara inn í íþróttahús til þess. Það er nú ekki fyrir hvaða láglaunamann/konu sem er að kosta kannski þrjú börn í íþróttir.

d) Og hvað er þetta með ruslfæðið í grunnskólunum?

Kjötbollur, pasta, pylsur.... Þetta er sennilega eitthvað mismunandi eftir skólum og auðvitað ekki allt í þessum dúr. En afhverju er ekki gerður samningur fyrir hönd allra skólanna, við eitthvað framleiðslufyrirtæki, þar sem framleiddur væri hollur, vítamín- og steinefnaríkur matur.

 

Auðvitað liggur ábyrgðin alltaf fyrst og fremst hjá okkur sjálfum, en það er svo margt sem spilar inn í. Og sumu þarf að breyta í takt við nýja tíma. Ég myndi til dæmis vilja sjá vinnudaginn styttast um klukkustund hjá þeim sem skili þeim tíma í hreyfingu. Ég veit... crazy idea....

Þær eru margar breytingarnar sem manni dreymir um. En vongóð er ég svo sem ekki.

 

 


mbl.is Offitufaraldur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villi Vill

 

Ég ætla ekki að ræða stjórnmál frekar en fyrri daginn. Ég er að tala um ástsæla söngvarann okkar.

Núna bíð ég bara eftir að Bretinn sé búinn að græja sig (karlmenn sko) og svo tætum við á minningartónleikana. http://www.salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5553

Ég ætla að taka með mér snýtubréf í miklu magni því annars gæti ég komið af stað flóði. Ég þekki sjálfa mig.

Og ekki spillir fyrir að ég fæ að sjá Pálma á sviði í fyrsta skipti í mörg herrans ár.

----

Sá Einhverfi rífur kjaft út í eitt. Allt Lottu að kenna.

Bjáninn þinn. Ertu ekki að hlusta á mig, sagði hann margoft við pabba sinn áðan.

Og ég slepp ekkert: Heimska mamma.

Það er verst hvað mér finnst þetta fyndið.

 


Fyrir hönd Þess Einhverfa og fjölmargra annarra fatlaðra barna, biðla ég til fyrirtækja og fjársterkra aðila

 

Hér koma tvær færslur frá því í fyrrasumar. Sú fyrri skrifuð  þegar var verið að undirbúa Þann Einhverfa undir sumarbúðardvöl og sú seinni eftir fyrsta sólarhringinn hans í sveitinni.

Ég á ekki von á öðru en að hann verði jafnvel spenntari að komast í burtu frá okkur þetta sumarið.

Á eftir færslunum kemur svo beiðni um fjárstyrk til handa foreldrafélagi Öskjuhlíðarskóla, vegna reksturs á sumardvöl krakkanna.

 

Langar að biðja ykkur, bloggvini mína, að hugsa ykkur um, hvort þið þekkið einhvern aðila sem er í þeirri stöðu að vilja / geta mögulega veitt okkur fjárhagslegan stuðning. Margt smátt gerir eitt stórt.

Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti: jonag@icelandair.is

 

Sá Einhverfi að yfirgefa okkur

Bretinn og Sá Einhverfi liggja í sófanum og knúsast. Á milli blogg-ferðalaga er ég í óða önn að merkja föt og pakka niður.

Ian er að fara í sumarbúðir í dag og við munum ekki sjá hann í heila viku. Það tekur um það bil 4 daga að venjast því að þurfa ekki að hlusta eftir fótataki hans á efri hæðinni og reyna að fylgjast með hvað hann er að bardúsa á neðri hæðinni. Fann hann skúffukökuna? Kláraði hann hana? Gaf hann hundinum með sér? Eru kettlingarnir allir á sínum stað? Læsti hann hundinn úti í garði. Var þetta Ian að skella niður klósettsetunni? Var hann að kúka eða pissa? Er Ian kominn út á pall á nærbuxunum? Í rigningunni?

Að kvöldi dags er maður kominn með verk í eyrun af allri hlustuninni en nú er sem sagt að renna upp vika án eyrnaverkja. Það er yndislegt hversu ánægður og sáttur hann er við að vera að fara í sumarbúðirnar. Þetta er í 3ja skipti sem hann fer og orðið ekkert mál. Fyrsta skiptið var hreint helvíti... fyrir mig.

Þegar ég rifja upp fyrsta skiptið sem Sá Einhverfi fór í burtu í sumarbúðir (þá 6 ára) sé ég hversu gífurlegar framfarir hafa orðið á drengnum. Í fyrsta skiptið var bara pakkað niður í tösku, krakkinn settur í bílinn og keyrður upp í sveit. Það þýddi ekkert að tala við hann og reyna að útskýra hvert hann væri að fara, afhverju og hversu lengi. Honum var því bara skutlað og svo stungu foreldrarnir af með tárin í augunum. Sögðum starfsfólkinu bara að hringja ef eitthvað væri en vorum sjálf byrjuð að hanga á símalínunni sama kvöld en náðum ekki sambandi. Morguninn eftir var ég ekki í rónni fyrr en ég náði í gegn. Hvernig borðaði hann? Var ekkert mál að fá hann til að sofna? Hvernig svaf hann? Vaknaði hann fyrir allar aldir?......

Sjö dögum seinna sóttum við hann og ég gat ekki beðið eftir að líta krakkann augum. Á meðan ég lifi gleymi ég ekki svipnum á honum þegar hann sá okkur. Hann sat og var að teikna þegar við komum. Þegar hann leit upp og kom auga á okkur þá las ég úr svipnum örlitla feimni og svo undrun.

''Heyrðu já..... þetta fólk. Núúúúúú... fer ég heim aftur? Ég á sem sagt ekki að vera hér alltaf....''

Ég hélt það myndi líða yfir mig þegar það rann upp fyrir mér ljós. Ég meina.... hvernig átti hann að vita að við værum ekki búin að gefa hann? Enginn sagði við hann; þetta eru sumarbúðir og hér verður þú í 7 daga. Svo koma mamma og pabbi að sækja þig. Enda hefði hann ekki skilið orð af því.

Í dag tekur hann bara dagatal með sér og ég merki inn á dagatalið hvenær við komum að sækja hann. Pís off keik.   Ian og Bosi


Það er ekki sama sundbuxur og sundbuxur

Við ókum Þeim Einhverfa í sumarbúðirnar í gær. Hann var glaður og kátur og ofsalega stoltur að fá að draga ferðatöskuna sína út í bíl. Og þegar við komum þangað þá beið hann eftir að taskan væri komin út úr bílnum.  Það er svo gaman að sjá hvað skilningurinn hjá honum eykst mikið frá ári til árs. Núna spurði ég hann álits á dóti og DVD myndum sem fóru ofan í tösku og hann svaraði. Alveg yndisleg tilfinning. Ég veit að þið skiljið mig sum en önnur ekki og það er líka allt í lagi. En hugsið þá bara um fyrstu skrefin, fyrsta orðið, fyrstu sjálfstæðu ákvörðunina hjá börnunum ykkar. Svona er ég heppin. Ég er ennþá að fá að upplifa svona yfirþyrmandi gleði yfir litlum þroskaskrefum.

ianmedferdat

Ég hringdi í sumarbúðirnar í dag til að athuga hvernig Þeim Einhverfa reiddi af svona fyrsta kvöldið og nóttina.

Ekkert mál var mér sagt. Fór að sofa eins og ekkert væri og svaf í alla nótt. Aðeins örlítið vandamál og það var þegar verið var að fara í sund í morgun. Þá uppgötvaði guttinn að sundbuxurnar voru nýjar. Það féll ekki í kramið. Mamman ákvað að láta loks verða af því að kaupa nýjar sundbuxur og senda hann með í sumarbúðirnar. Þessar nýju eru alveg eins og hinar eldri en svona sirka 3 númerum stærri.

Það upphófst því einhver svakaleg rekistefna í búningsklefanum en gaurinn lét sig á endanum var mér sagt, því honum þótti rennibrautin einfaldlega of spennandi til að láta þetta stoppa sig lengi. En hann þurfti greinilega að láta aðeins í sér heyra.

Litla lúsin hennar mömmu sinnar (Jenný ég er ekki tilfinningarík). Ég sakna hans en er alveg svakalega fegin að vera laus við hann.... í smá tíma.


Umsókn um styrk vegna reksturs sumardvalar fyrir fötluð börn 

Foreldra – og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla, FSÖ, hefur í um 30 ár staðið fyrir rekstri sumardvalar fyrir nemendur skólans en nemendur eru þroskaheft og fjölfötluð börn sem ekki getað stundað nám í heimaskóla vegna fötlunar sinnar.

Sumardvölin er staðsett að Laugalandi í Holtum í Rangárvallasýslu og stefnt er að því að hún verði starfrækt í 6 vikur sumarið 2008. Fjöldi barna á hverju tímabili er um 15-25 börn og er dvalartími hvers barns 1- 2  vikur. Samtals voru dvalarvikur barnanna síðasta sumar 104 talsins og börnin um 61. Undanfarin ár hafa 70-80% nemenda skólans nýtt sér sumardvölina sem segir meira en mörg orð um mikilvægi starfseminnar.

Sumardvölin gerir börnunum kleift að dvelja í sumardvöl á sínum eigin forsendum til jafns við ófatlaða jafnaldra sína. Einnig veitir hún fjölskyldum þessara barna möguleika á hvíld frá erfiðu uppeldishlutverki. Sem stuðningsúrræði við þessar fjölskyldur er starfsemi sumardvalarinnar því ómetanleg.

Ljóst er að ekki verður hægt að starfrækja sumardvölina í sumar nema með styrkjum frá einkaaðilum til viðbótar við framlag frá ríki, sveitarfélögum og með dvalargjöldum. Miðað við rekstraráætlunina vantar um 5 milljónir króna sem foreldra- og styrktarfélagið mun leita til fyrirtækja og annarra styrktaraðila með.


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1639944

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband