Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Kirkjugarðsþema og Bónus breytist í kaupmanninn á horninu

Yfirleitt sér Bretinn um að versla. Ég nenni því ekki. Og ég kemst upp með þetta því innkaupin mín eru alltaf dýrari en hans. 

Í þessu yndislega veðri sem við fengum að njóta í dag var ekki annað hægt en að Bretinn færi út á golfvöll. Og þar sem Gelgjan og Sá Sykursjúki (kynni hér með til leiks systurson minn 12 ára) voru hér bæði til að líta eftir þeim Einhverfa, ákvað ég að skella mér í Bónus.

Krakkarnir voru með einhvers konar hryllings-kirkjugarðs-dauða-þema í gangi hérna. Búin að hengja teppi fyrir glugga og fullt af slæðum og klútum yfir rjáfrin uppi á lofti. Í þetta voru svo bundnar fjöldinn allur af dúkkum. Þær voru dauðar. Hengdar væntanlega og dingluðu þarna með lokuð augu og reytt hár. Ofan í bastkistunni voru fleiri dauðar dúkkur og krakkarnir máluðu sig í framan þannig að um mig fór hrollur. Sá Einhverfi fylgdist með af miklum áhuga og í  höndum þessara sturluðu barna skildi ég hann eftir og dreif mig í Bónus. Það mun líka koma á óvart að mér var treyst fyrir sunnudagsmatseldinni og mig vantaði sætar kartöflur (Jenný Anna takk fyrir ábendinguna).

Við innganginn á Bónus í Árbænum er brauð og kökur o.þ.h. og ég var að skoða einhverskonar sixpack af rúnnstykkjum. Var mikið að spá í hvort þetta væri sniðugt (nákvæmlega ástæðan fyrir stærri og dýrari innkaupum en Bretinn gerir). Í þann mund sem ég ákvað að þetta færi ekki í innkaupakerruna og legg frá mér pakkann segir rödd fyrir aftan mig: Þetta er ofsalega gott.

Ég sný mér við og fyrir aftan mig stendur eldri maður sem ég hef aldrei séð áður. Við spjölluðum um rúnnstykkin og annað brauðmeti, frystingu á slíkri vöru og innkaup. Vorum samferða út ganginn. Leiðir skyldu við mjólkurkælinn. Í mjólkurkælinum heyrði ég tvær konur vera að velta því fyrir sér hvar g-mjólkin væri. Ég blandaði mér í það og benti þeim á mjólkina. Móment sem Gelgjan hefði látið sig hverfa á, ef hún hefði verið með í för. En ég uppskar fallegt bros að launum.

Þegar ég stóð við frystinn heyrði ég skarkala og læti og leit við til að sjá hverju sætti. Þá stóð kona, hálffalin á bak við stafla af plastílátum. Staflinn fór óðum minnkandi því eins og maður sér í bíómyndunum þá var allt að hrynja. Augu okkar mættust og ég brosti út að eyrum. Kunni ekki við að fara að hlæja. Þetta var ekki ég, kallaði konan til mín. Ég tók bara eitt. Augnaráðið var starandi.

Í annarri hendi hélt hún á Bónus-spjaldi sem stóð á ''Plastílát 199 kr'' og með hinni hendinni reyndi hún af veikum mætti að koma í veg fyrir að restin hryndi. Núna er ég með móral yfir því að hafa ekki hjálpað aumingja konunni að raða upp helvítis plastílátunum aftur.

Það var biðröð á kössunum. Á eftir mér kom maður um sextugt með 3 hluti í körfu. Ég benti honum með höfuðhneigingu að fara fram fyrir mig. Það flæddi út úr minni körfu. Takk skal du have, sagði hann, en kom upp um íslenskan uppruna sinn þegar hann spurði mig í næstu andrá hvort ég vissi hvar hann finndi beiskan brjóstsykur.

Ég fór léttstíg út úr Bónus í dag. Hver þarf á félagslífi að halda þegar innkaupaferðirnar eru svona gefandi?

Heima tóku á móti mér þrjú börn, hvert öðru hryllilegra í útliti. Gelgjan og Sá Sykursjúki höfðu málað Þann Einhverfa í stíl við sig. Kunni ég þeim bestu þakkir fyrir þegar ég tók fram hreinsigræjurnar mínar í kvöld til að þrífa á honum andlitið. Ekki sá samvinnuþýðasti. HJÁLP HJÁLP slepptu mér... slepptu mér segi ég.

Engin kom hjálpin og nú hvílir hann ljóshærður, búttaður, friðsæll og hreinn á koddanum sínum. Og ég ætla að leggjast á minn.

Góða nótt elskurnar.

 


Athugasemdirnar ykkar og bloggin

Sæl krakkar mínir.

Eftir að hafa lesið öll kommentin við færslunni hér á undan fór ég að hugsa (sjaldgæft, en það gerist). Þarna setti ég inn eigin hugsanir, skrifaðar fyrir um 2 árum, nákvæmlega eins og þær voru. Tilfinningar mínar varðandi glataðan draum. Ekkert merkilegt. Allir hafa átt sér drauma sem ekki rættust. Eða drauma sem splundruðust óvænt.

En svo komu fallegu kveðjurnar ykkar og sum ykkar virtust lesa eitthvað út úr þessari færslu. Hluti sem ég hef aldrei spáð í eða velt fyrir mér. Eins og Hugarfluga sagði:

Öll eigum við okkur vonir, þrár og drauma. Sumir draumanna rætast ... aðrir ekki. Þeir eru lánsamir, sem kunna að spila úr þeim spilum sem lífið úthlutaði þeim og fara ekki hamförum yfir að fá ekki alla slagina. Held að þú sért ein af þessum manneskjum.

...Og ég hugsaði: Kannski er þetta bara rétt. Kannski á ég bara fulla virðingu skilið fyrir hvernig ég hef tekið á málunum. Með yndislegan mann mér við hlið. Að sníða sér stakk eftir vexti, eins og Laufey segir. Það er nákvæmlega málið. Það er það sem flestir gera í lífinu. En fólki ferst það misvel úr hendi.

Á bak við hvert einasta andlit hér á blogginu... í kommentakerfinu mínu og ykkar... er saga. Það er vissulega misjafnt hvaða spil lífið gefur okkur, og misjafn hvernig við spilum úr þeim. En allir eiga sér sögu og allir hafa gengið í gegnum skin og skúrir í lífinu.

Jenný Anna. Deilir með okkur af hreinskilni edrúmennsku sinni og hvernig var fyrir henni komið

Þröstur. Saknar daglegra samskipta við dóttur sína sem hann elskar meira en allt annað

Ragnheiður sem af ótrúlegu æðruleysi hefur leyft okkur að fylgja sér skref fyrir skref í gegnum missi sonar síns

Birna Dís hefur einnig þurft að sjá á eftir barninu sínu og hefur á sinn hátt lært að lifa með sorginni

Guðmundur glímir við ólæknandi sjúkdóm ´

Ásdís. Gekkst nýlega undir aðgerð eftir langvarandi líkamskvalir

Sigrún. Hefur gengið í gegnum miklar andlegar sveiflur, vonir, væntingar og vonbrigði með sín tvö andlega fötluðu börn

Elísabet Lára. Ung að árum gekk hún í gegnum ótrúlega erfiða lífsreynslu þegar barnsfaðir hennar og unnusti svipti sig lífi. 

....svona gæti ég haldið endalaust áfram en ætla að láta vísun í þessa bloggara nægja. Fólkið hér að ofan, sem og fjöldi annarra, hefur nýtt bloggheima til að opna umræðuna um þessi málefni og í hvert sinn sem það er gert opnar það augu einhvers. Einhver þarna úti hefur minni fordóma gagnvart vissu málefni eftir að lesa færslur um efnið. Og við minnkandi formdóma fer heimurinn batnandi. Við erum öll sammála um það.

 

Stundum hjálpar það að taka Pollýönnu á málin. ''Þetta hefði nú getað verið verra'' eða ''hvernig á ég að geta kvartað, þegar Sigga er að ganga í gegnum svona mikla erfiðleika''. En öll höfum við réttinn til að syrgja. Það má aldrei gleymast. Við förum langt á hnefanum og samanbitnu tönnunum en það fleytir okkur aldrei alla leið. Ekki á gæfuríkan hátt að minnsta kosti.

Ég á góða vinkonu sem fékk þær fregnir, þegar hún gekk með síðasta barnið sitt, að það væri með skarð í vör. Hversu mikið eða alvarlegt það væri var engin leið að sjá fyrir. Henni var að vonum brugðið. Það er erfitt að fara í gegnum meðgöngu með svona vitneskju og hún streðaði með alls konar vondar tilfinngar, kvíða og sorg.

Einhverju sinni sagði hún við mig að hún skildi bara ekkert í sér að vera í hnút yfir þessu. Hvernig stæði á því að hún setti svona atriði fyrir sig þegar ég til dæmis ætti fatlað barn.                             Ég sagði við hana að þó að ég ætti fatlað barn og aðrir kannski stærri vandamál en hún, þá hefði hún fullan rétt á því að syrgja það að barnið hennar væri ekki alheilbrigt. Sorgir annarra gerðu hennar ekki minni eða auðveldari viðfangs. Hún sagði mér seinna hvað þetta hefði verið mikil opinberun fyrir sig og léttir.

Þetta er orðið lengra og flóknara en ég ætlaði. Mig langaði bara til að þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar og sögurnar sem þið deilduð með mér. Hvert komment er lesið og geymt hér: Heart


Lexía dagsins: Aldrei að treysta undirmönnum fyrir velferð sinni

 

Allir kannast við ''trausts-æfinguna''... þessa þar sem maður á að láta sig detta, afslappaður og fullur trúnaðartrausts afturábak. Treysta því að skólasystkini/vinnufélagar/námskeiðsfélagar grípi mann.

Þessi æfing var tekin á námskeiðinu í gær. Og önnur æfing sem ég hef aldrei heyrt um né séð. Og hún var virkilega skemmtileg.

Hópnum, um 20 manns, var raðað upp með nokkuð jöfnu millibili í kringum malarvöll. Kannski svona 10 metrum að lengd. Svo batt stjórnandi námskeiðsins trefil fyrir augun á okkur (einu í einu) og við áttum að hlaupa langsum eftir malarvellinum, blindandi.

Þessi æfing snýst um það að treysta á að fólkið í kringum völlinn stoppi okkur af þegar út á enda er komið. Eða þá ef innbyggði áttavitinn bregst og fólk hleypur út til hliðanna í staðinn fyrir beint áfram.

Minn áttaviti virðist aldrei hafa verið til. Ég hljóp af stað og tók óafvitandi ákveðna stefnu  til vinstri. Var nokkuð góð með mig og hljóp á ágætis hraða. Allt í einu fann ég að það var einhver hindrun fyrir framan mig og á sama sekúndubroti byrjaði þessi hindrun að tala. Mér brá svo mikið að ég byrjaði að öskra og virtist ekki geta hætt því. Hélt áfram eftir að ég reif af mér trefilinn og sá einn vinnufélagann beint fyrir framan mig. Greinilegt að einhver stressviðbrögð gerðu þarna vart við sig.

Fólk hljóp þarna um víðan völl. Sumir af nokkru öryggi og hefðu endað upp á þjóðvegi ef þeir hefðu ekki verið stoppaðir. Sá næstsíðasti ákvað að treysta fullkomlega á vinnufélaga sína og tók á þvílíkan sprett að það var engu líkara en hann ætlaði að setja met í spretthlaupi. Hlutirnir gerðust hratt og þar sem ég stóð á hliðarlínunni fóru að renna á mig tvær grímur. Ljósastaurar voru meðfram vellinum á hægri hönd og þaðan sem ég stóð virtist maðurinn stefna á einn slíkan. Þetta var einn af stjórum fyrirtækisins og sitthvoru megin við staurinn sem hann stefndi á stóðu tveir undirmenn hans. Karl og kona. Hvort um sig hélt að hitt myndi stoppa hann af svo bæði stóðu þau nokkuð afslöppuð með staurinn á milli sín. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að góla sem einhver viðbrögð urðu en það var of seint. Yfirmaður þeirra hljóp á staurinn. Bang. Fólk tók andköf og hélt niðrí sé andanum. Þegar hann reif af sér trefilinn og óskaddað en annars grimmúðlegt andlitið birtist, sprungu allir úr hlátri. Mjög traustvekjandi og samúðarfullur hópur þarna á ferð.

Það er aldeilis hægt að treysta á ykkur, sagði hann heldur þóttalega.

Ég veit ekki alveg hvernig lífið hjá þessum tveimur undirmönnum hans var í vinnunni í dag en það er alveg öruggt að þessi létta traust æfing bar ekki tilætlaðan árangur á þessu námskeiði. Eða hvað finnst þér Hjölli? Halo


Hoj og slank eða feit og lágvaxin

 

Á morgun (þriðjudag) verð ég ferjuð með rútu ásamt vinnufélögum á námskeið í Ölfusi. Okkur er skipt í tvo hópa því ekki getur vinnustaðurinn verið mannlaus. Seinni hópurinn fer á fimmtudag.

Námskeiðið á að kenna okkur fullt af góðum hlutum. Ég man bara ekki alveg hvað. Jú, örugglega að sýna hvort öðru virðingu m.a. Ekki að það hafi gengið neitt illa hingað til. Við þjófstörtuðum í dag. Hófum að kalla hvort annað ''blómið mitt'' og ''ljósið mitt''. Markaðsstjórinn var með yfirlýsingar um að hann þyldi ekki þegar sér yngra fólk kallaði hann ''vinur'' svo hann var auðvitað kallaður ''vinur'' í allan dag. Munum halda því áfram, allavega fram að áramótum.

Okkur var sagt að taka með okkur útiföt. Ég vona að við förum í brennó. Ég var ansi liðtæk í brennó á mínum yngri árum og tók virkan þátt í brennómótum í Vindáshlíð. Það er verst með svona útivistaræfingar að ég þarf að fara af hælunum og í eitthvað lágbotna. Þá lækka ég í loftinu og það þýðir bara eitt: ég virka feitari (með áherslu á virka). En það er ekki bæði hægt að vera hoj og slank og sigra í brennó. Af tvennu illu vel ég frekar að vera lágvaxinn og feitur sigurvegari.

Mun þó gera allt til að halda make-uppinu í lagi og hafa púðrið við hendina. Mun líka tæma eins og einn hárlakksbrúsa í hausinn á mér í fyrramálið svo hárgreiðslan haldist á hverju sem gengur.

Skýrsla um námskeiðahald verður svo til aflestrar hér annað kvöld. Nema að ég sturti í mig of mörgum rauðvínsglösum með dinnernum. Þá verður þeim skrifum frestað fram á miðvikudag.

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband