Leita í fréttum mbl.is

Kveðja upp á gamla mátann

 

Ég fór í Bónus á laugardaginn. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi. En ég stóð mig að því að stara á hjónin sem voru á undan mér á kassanum.

Þetta var fólk um sjötugt. Fallegt fólk. Vel klætt. Konan var í hnésíðu gráu pilsi og ökklaskóm með breiðum, háum hæl. Hún bar pelsinn, sem náði niður á mið læri, vel. Hárið var nýlagt, gráhvítt og fallegt. Maðurinn hennar var í gráum frakka með hatt á höfðinu. Við hattbarðið, vinstra megin var slaufa.

Ég brosti með sjálfri mér.  Minntist afa sem var fallegur maður fram á síðasta dag. Ávallt klæddur buxum með axlaböndum, skyrtu með ermahnöppum, vesti með silki í bakið og jakka. Úti fyrir var hann alltaf í frakka og með hatt á höfði.

Mér finnst ég heppin að hafa fengið að upplifa ''gömlu tímana'' í gegnum afa. Tískan var auðvitað ekki svona hjá pabba kynslóð en menn á afa aldri voru enn klæddir á þennan hátt þegar ég fluttist til ömmu og afa 1973. Og mér þótti afar gaman að sjá afa lyfta hattinum fyrirmannlega með örlítilli hreyfingu, hneigja höfuðið í átt til þeirra sem hann mætti á göngu og bjóða góðan dag.

Flottur siður. Eins og hver og einn skipti máli. Kurteisi skipti máli. Fólk tók sér tíma til að líta í augu náungans og óska honum góðs dags. Örlítil virðing vottuð við ókunnuga manneskju.

Það er með afa í huga sem ég býð ókunnugu fólki góðan dag þegar ég mæti því á göngu í Elliðarárdalnum eða við Rauðavatn. Sumir svara ekki. En það er aðeins brotabrot af fjöldanum. Flestir taka undir heilshugar og virðast gleðjast yfir kveðjunni. Jafnvel þó að Viddi Vitleysingur gelti að þeim eins og óður væri.... sem hann er að vissu leyti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég heilsa fólki sem ég þekki á minni göngu og bið eldra fólki góðan dag eða kvöld, eftir því sem við á.

En elsku Jóna mín!
Ég stóðst við loforðið sem ég gaf mér, gekk inn í Eymundsson í Smáralind, aaalein, labbaði nokkra hringi í leit að bókinni þinni. Þorði ekki að spyrjast til vegar nefnilega, sá ekki bókina þína hjá nýjustu bókunum. Fór við hliðina á þeim uppstillingum á annað borð og labbaði hringinn. Þar stóð kona að lesa aftan á bókina þegar ég kom, unglingurinn sem ég nú er og tók upp bókina og las aftaná líka.
Veit ekki alveg, en mér fannst eins og konunni blöskraði (ef konu má kalla), því hún horfði á mig eins og ég væri að gera grín af henni, eða eins og henni mislíkaði sjónina. Svo hún lagði bókina niður og gekk í burtu.
Aftur á móti hélt ég dauðahaldi í bókina, gekk að afgreiðsluborðinu þar sem strákur rétt eldri en ég afgreiddi mig og spurði hvort ég vildi skiptimiða!!
Ég sagði barasta nei takk, rétti honum fimmþúsundkall fékk afganginn og lítinn poka og rölti ánægð út!
Þú átt heiðurinn að vera fyrsti rithöfundur sem ég kaupi bók af, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem ég kaupi bók sjálf...
Las í bílnum á leiðinni heim, alveg að bls. 100 og passaði að lesa ekki meira svo ég geti líka lesið í skólanum og bennt öðrum á bókina þína... hún er klassi Jóna mín!

Innilega til hamingju með hana
(og afsakið ef ég skrifaði allt of mikið.. mér bara fannst ég verða að segja þér frá þessu)

Róslín A. Valdemarsdóttir, 2.11.2008 kl. 23:39

2 identicon

Já, ég heilsa alltaf fólki á göngu, finnst það gera mikið fyrir mig og yfirleitt fyrir hinn aðilann líka.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 23:52

3 identicon

Ég hitti marga á göngu minni með 800 grömmin og ávallt er boðið góðan daginn og brosað af kvikindinu.Ég geri þetta þegar ég er á rölti í kirkjugarðinum líka.Þar spjallar fólk saman í hvert sinn sem það hittist.(margir) og vitum samt ekki nafn hvors annars heldur nafn þess ástvinar sem farin er.Skrítin tengsl sem myndast þar.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 00:14

4 Smámynd: Ómar Ingi

Gott hjá þér að minnast á almenna kurteisi , það er eitthvað sem hjá mörgum hefur gleymst.

Ómar Ingi, 3.11.2008 kl. 01:51

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég nýt þess ávallt í göngum mínum að heilsa þeim sem ég mæti, oftast er vel tekið undir og lítið bros læðist með. Kurteisi er vanmetin. Kær kveðja og eigðu ljúfa viku.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.11.2008 kl. 09:38

6 Smámynd: Hulla Dan

Afar eru yndislegir
Sakna míns á hverjum degi.

Eigðu góðan dag.

Hulla Dan, 3.11.2008 kl. 11:05

7 Smámynd: Margrét Ingibjörg Lindquist

Góðan daginn kæra bloggvinkona og ef ég væri með hatt myndi ég taka ofan fyrir þér...

Yndisleg hugleiðing og nauðsynleg í samfélagið eins og staðan er núna.

Knús til ykkar...

Margrét Ingibjörg Lindquist, 3.11.2008 kl. 12:19

8 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 3.11.2008 kl. 14:23

9 Smámynd: Ómar B.

Langaði bara að hrósa þér Jóna fyrir hversu fallega þetta er skrifað og af mikilli virðingu og svo sannarlega rifjar þetta líka upp minningar hjá mér um marga góða "afa" sem gengnir eru.   Til hamingju og gangi þér vel með bókina þína sem eflaust er góð gjöf til okkar allra, hlakka til að lesa hana.  Ómar B.

Ómar B., 3.11.2008 kl. 15:32

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hann pabbi gekk alltaf með hatt - og hann átti m.a. svona gráan hatt með dökkum borða og herralegri slaufu vinstramegin. Lyfti honum alltaf svolítið þegar hann heilsaði. Mér fannst það alltaf fallegt.

Það er góður siður að heilsa fólki, bjóða lauslega góðan dag eða senda bros þó maður þekki ekki viðkomandi. Við Íslendingar erum það fá að okkur er alveg óhætt að halda í þessa gömlu hefð að heilsast í götunni okkar, hjá kaupmanninum eða Elliðaárdalnum þegar fáir eru á ferli.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.11.2008 kl. 16:57

11 Smámynd: Berglind Inga

Þegar ég var í fjölbrautaskóla á Króknum gekk ég alltaf fram hjá sjúkrahúsinu/dvalaheimilinu til að komast í skólann. Á þeirri leið mætti ég oft eldra fólki sem ég bauð alltaf góðan daginn. Ég fékk alltaf svar til baka og bros. Frábær leið til að byrja daginn

Berglind Inga, 3.11.2008 kl. 19:19

12 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ég var alin upp við að heilsa fólki. Svo einhvern vegin hvarf sá vani þegar maður vandist borgarlífinu. Síðar þegar ég flutti á Reykjanesið brá mér þegar unglingarnir hér gerðu mér skömm til og heilsuðu ævinlega að fyrra bragði. Þar með var sá góði siður tekinn upp aftur og nú er öllum heilsað þegar maður mætir fólki á förnum vegi.

Líka þegar maður ekur um á hálendinu

Björg Árnadóttir, 3.11.2008 kl. 20:08

13 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Maður slær á fólk kveðju þegar maður hittir það í fáförnu umhverfi. Ekki þar sem er margt um manninn.  Pabbi var alltaf með hatt , en eftir að hann dó þá setti mamma hattinn í plast og geymir hann eins og sjáaldur augna sinna

Kveðjur

Rúna Guðfinnsdóttir, 3.11.2008 kl. 21:01

14 Smámynd: lady

Ég geri það að heilsa fólk ef ég er í göngutúr sumir taka undir og sumir ekki en það er bara í góðu lagi,,og til hamingju með bókina,,hann er myndardrengur sonur þinn á ekki langt að' sækja það

lady, 3.11.2008 kl. 23:19

15 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Ég heilsa bara mjög oft fólki.. þó svo það sé ekki endilega á göngu.. ef ég fer td inn í lyftu og það er fólk þar þá býð ég alltaf góðan daginn eða kvöldið.. þó það standi alveg kjurt..

ég fæ alveg sting í hjartað að hugsa um hattinn hans afa míns

Guðríður Pétursdóttir, 4.11.2008 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1640371

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband